Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 162. máls.

Þskj. 174  —  162. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 51/1995, um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




1. gr.

    Í stað orðsins „hámarksdagpeninga“ í 4. mgr. 1. gr. laganna kemur: óskertra grunnatvinnuleysisbóta.

2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir takmarkanir á fjölda greiðsludaga skv. 4. mgr. 1. gr. skal fjöldi greiðsludaga sem heimilt er að greiða í senn vera að hámarki 30 dagar en þó aldrei fleiri en 60 dagar á hverju almanaksári. Að öðru leyti gildir ákvæði 1. gr.
    Ákvæði þetta gildir fram til 31. desember 2009.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2008.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram sem liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að styrkja atvinnulíf í sjávarbyggðum sem eiga í erfiðleikum vegna ákvörðunar stjórnvalda um samdrátt þorskveiðiheimilda. Við smíði frumvarpsins var haft samráð við Samtök fiskvinnslustöðva sem og Starfsgreinasambandið.
    Lög um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks kveða á um rétt fyrirtækja, sem starfrækja fiskvinnslu og greiða starfsfólki sínu föst laun fyrir dagvinnu í tímabundinni vinnslustöðvun í samræmi við ákvæði kjarasamninga, til greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði fyrir hvern heilan vinnudag sem fyrirtæki greiðir starfsmönnum laun meðan á tímabundinni vinnslustöðvun stendur samkvæmt nánar tilgreindum skilyrðum. Í því skyni að koma til móts við þessi fyrirtæki vegna framangreinds samdráttar aflaheimilda er lagt til að greiðsludagar sem heimilt er að greiða fyrirtækjum í einni vinnslustöðvun verði 30 talsins í stað 20 samkvæmt gildandi lögum. Að því er varðar heildarfjölda greiðsludaga á ári hverju er jafnframt lagt til að heimilt verði að greiða fyrir allt að 60 vinnudaga til sama fyrirtækis í stað 45 daga áður.
    Gert er ráð fyrir að breytingar þær sem lagðar eru til á fjölda greiðsludaga með frumvarpi þessu verði tímabundnar og komi því fram í ákvæði til bráðabirgða við lögin sem falli úr gildi að liðnum tveimur árum frá gildistöku.
    Breyting sú sem lögð er til á 4. mgr. 1. gr. laganna er í samræmi við þær breytingar sem gerðar voru á atvinnuleysistryggingakerfinu með lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar. Er því lagt til að í stað hámarksdagpeninga komi óskertar grunnatvinnuleysisbætur í samræmi við 33. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.




Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 51/1995,
um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks.

    Frumvarpið er lagt fram sem liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að styrkja atvinnulíf í þeim sjávarbyggðum sem eiga í erfiðleikum vegna ákvörðunar stjórnvalda um samdrátt þorskveiðiheimilda. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að koma til móts við fyrirtæki sem starfrækja fiskvinnslu vegna tímabundinnar vinnustöðvunar sem rekja má til framangreinds samdráttar með því að fjölga greiðsludögum sem heimilt er að bæta fyrirtækjum í einni vinnslustöðvun úr 20 dögum eins og verið hefur í 30. Að því er varðar heildarfjölda greiðsludaga á ári hverju er jafnframt lagt til að heimilt verði að greiða fyrir allt að 60 vinnudaga á ári hverju til sama fyrirtækis í stað 45 daga áður. Gert er ráð fyrir að breytingar þær sem lagðar eru til á fjölda greiðsludaga með frumvarpi þessu verði tímabundnar og því er lagt til að ákvæði til bráðabirgða falli úr gildi að liðnum tveimur árum frá gildistöku þeirra.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að aukin útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs nemi 77 m.kr. á þessu ári og 140 m.kr. árið 2008. Eru gerðar tillögur um þann útgjaldaauka í fjáraukalagafrumvarpi 2007 og frumvarpi til fjárlaga 2008.