Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 168. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 181  —  168. mál.




Frumvarp til stjórnarskipunarlaga



um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum.

Flm.: Ellert B. Schram, Gunnar Svavarsson, Katrín Júlíusdóttir.



1. gr.

    8. gr. stjórnarskrárinnar orðast svo:
    Nú verður sæti forseta lýðveldisins laust eða hann getur ekki gegnt störfum vegna sjúkleika eða af öðrum ástæðum og skulu þá forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti hæstaréttar fara með forsetavald. Forseti Alþingis stýrir fundum þeirra. Ef ágreiningur er þeirra í milli ræður meiri hluti.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í 8. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um að ef forseti Íslands geti ekki gegnt störfum um sinn vegna dvalar erlendis, sjúkleika eða af öðrum ástæðum skulu forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti hæstaréttar fara með vald forseta.
    Hér er lagt til að orðunum um að forseti geti ekki gegnt störfum vegna dvalar erlendis verði sleppt úr ákvæðinu.
    Ákvæðið er komið til ára sinna. Stjórnarskráin tók gildi árið 1944 þegar samgöngur og fjarskipti voru allt önnur og minni en nú þekkist. Hver sem er, forsetinn sem aðrir, geta skroppið til útlanda að morgni og komið heim að kvöldi. Forseti Íslands hefur öll tök á því að fylgjast með og sinna skyldum sínum, enda þótt hann fari utan í nokkra daga. Auðvitað þarf forseti Íslands að sinna opinberum heimsóknum og koma fram í nafni þjóðarinnar á margvíslegan hátt. Núverandi forseti hefur sömuleiðis verið ötull við að styðja við bakið á íslenskum fyrirtækjum og viðskiptamönnum, sem eru að hasla sér og íslensku framtaki völl á erlendri grund. Forseti Íslands má og getur farið í einkaerindum til útlanda og farið í leyfi til annarra landa. Störf forseta eru að breytast í krafti hnattvæðingar, útrásar og breyttra áherslna í verkahring embættisins. Hann er ekki lengur eingöngu til „heimabrúks“.
    Það fyrirkomulag að þrír aðrir einstaklingar gegni starfi forseta Íslands þótt hann bregði sér „á milli bæja“ er óþarfi. Og raunar einsdæmi. Það er þar að auki barn síns tíma. Forsetinn er áfram forseti þótt hann sé erlendis.
    Þá er þess að geta að hér er um að ræða verulegan kostnað, sem þetta tilstand hefur í för með sér. Þeir valdsmenn sem taka við forsetaembættinu í hvert skipti sem forseti Íslands hverfur úr landi fá greidd laun fyrir ómakið og upplýst hefur verið í fjölmiðlum að sá kostnaður nemi milljónum króna. Það er óþægileg umræða og ástæðulaus útgjöld, sem hægt er að spara eftir þá breytingu sem hér er lögð til.