Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 182. máls.

Þskj. 195  —  182. mál.



Frumvarp til laga

um brottfall laga nr. 39/1964, um meðferð
ölvaðra manna og drykkjusjúkra.


(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




1. gr.

    Lög um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra, nr. 39/1964, falla úr gildi.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpinu er lagt til að lög um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra verði felld brott. Lög um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra voru fyrst sett árið 1949 en lögin voru endurútgefin árið 1964. Lögin eru því komin til ára sinna og tákn þess tíma þegar þau voru samin. Verður hér á eftir gerð nánari grein fyrir þeim lagaákvæðum sem nú taka til þeirra einstaklinga sem lög nr. 39/1964 gilda jafnframt um.
    Í lögum nr. 39/1964 er gert ráð að sé maður handtekinn vegna ölvunar tvisvar sinnum eða oftar með skömmu millibili skuli lögreglan tilkynna nafn hans til áfengisvarnaráðunauts eða áfengisvarnanefndar. Gert var ráð fyrir að áfengisvarnanefnd eða áfengisvarnaráðunautur væri til staðar í hverju sveitarfélagi sem hefði það hlutverk að aðstoða yfirvöld til að halda hlýðni við áfengislög og jafnframt að vinna gegn ólöglegri meðferð áfengis. Með lögum nr. 76/1998, um áfengis- og vímuvarnaráð, var áfengis- og vímuvarnaráð stofnað í samræmi við aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum. Með gildistöku laga um Lýðheilsustöð árið 2003 var öll starfsemi áfengis- og vímuvarnaráðs flutt yfir til Lýðheilsustöðvar sem starfar þar áfram í dag sem fagráð. Áfengis- og vímuvarnaráð hefur tekið að hluta við því starfi sem áður var falið áfengisvarnanefndum og áfengisvarnaráðunautum með lögum nr. 39/1964, þ.e. því hlutverki að efla og styrkja áfengis- og vímuvarnir og að sinna eftirliti með því að ákvæðum laga og reglugerða um áfengis- og vímuvarnir sé framfylgt. Bein afskipti af drykkjusjúkum, eins og gert er ráð fyrir í lögum nr. 39/1964, hefur ekki átt sér stað síðan áfengis- og vímuvarnaráð var stofnað. Starfsemi ráðsins miðar nú einvörðungu að því að miðla upplýsingum til almennings í formi forvarna. Samkvæmt lögum nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, kemur það í hlut þeirra að veita aðstoð við áfengissjúka og annast vímuefnavarnir. Jafnframt er gert ráð fyrir samkvæmt lögunum að félagsmálanefndir hlutist til um að nauðsynleg aðstoð og meðferð sé veitt að meðferð lokinni. Af framansögðu verður ráðið að áfengis- og vímuvarnaráð og félagsþjónusta í sveitarfélögum sinni því hlutverki í dag sem áfengisvarnaráðunautum og áfengisvarnanefndum var falið að gera áður fyrr með lögum nr. 39/1964.
    Samkvæmt lögum nr. 39/1964 er gert ráð fyrir að meðferð drykkjusjúkra skuli vera í höndum lækna, sjúkrahúsa, heilsuverndarstöðva eða annarra stofnana, sem til þess hafa hlotið sérstakt leyfi heilbrigðisstjórnarinnar og háðar eru eftirliti hennar. Í lögum nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu, er byggt á því grundvallarsjónarmiði að haldið skuli uppi öflugu opinberu heilbrigðiskerfi sem allir landsmenn eiga jafnan aðgang að óháð efnahag og búsetu. Jafnframt er með lögunum tryggt virkt eftirlit með heilbrigðisþjónustu og gæðum hennar. Lög um heilbrigðisþjónustu hafa því að geyma mun sterkari ákvæði er varða heilbrigðisþjónustu sem veitt er drykkjusjúkum en lög nr. 39/1964 gera.
    Eins og að framan er rakið gilda lög um réttindi sjúklinga um drykkjusjúka, þ.m.t. ákvæði er lúta að sjálfsákvörðunarrétti sjúklings. Í lögunum er tekið fram að ákvæði lögræðislaga gilda um samþykki fyrir meðferð sjúklinga sem vegna greindarskorts, eða af öðrum ástæðum sem þau lög tilgreina, eru ófærir um að taka ákvörðun um meðferð. Skv. b-lið 4. gr. lögræðislaga, nr. 71/1997, er heimilt að svipta mann lögræði með úrskurði dómara ef þörf krefur ef hann sökum ofdrykkju eða ofnotkunar ávana- og fíkniefna er ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum eða fé. Í lögum nr. 39/1964 er gert ráð fyrir að þeir sem sviptir hafi verið sjálfræði vegna drykkjusýki skuli teknir til hælisvistar. Hælisvistun drykkjusjúkra, eins og gert er ráð fyrir í lögum nr. 39/1964, þekkist ekki í dag. Að uppfylltum skilyrðum b-liðar 4. gr. lögræðislaga, nr. 71/1997, er viðkomandi sjúklingur vistaður tímabundið á geðdeildum sjúkrahúsa. Ekki þekkist nú að sjúklingur með drykkjusýki sé sendur í áfengis- og vímuefnameðferð án hans samþykkis, enda þykir slíkt ekki vænlegt til árangurs.
    Samkvæmt 10. gr. laga nr. 39/1964 er ríkinu heimilt að veita styrki til bæjarfélaga og samtaka sem starfa að bindindis- og líknarmálum og reisa og reka á sinn kostnað hæli til aðhlynningar og lækninga á drykkjusjúku fólki. Til slíkra stofnana eru m.a. veittir styrkir úr Forvarnasjóði (áður gæsluvistarsjóður) skv. 7. gr. laga nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki. Í dag starfar Forvarnasjóður á grundvelli laga nr. 18/2003, um Lýðheilsustöð. Samkvæmt lögum um Lýðheilsustöð kemur það nú í hlut Lýðheilsustöðvar að ráðstafa fé úr Forvarnasjóði til verkefna á sviði áfengis- og vímuvarna í samráði við ráðherra að fengnum tillögum áfengis- og vímuvarnaráðs. Með hliðsjón af framansögðu er nauðsynlegt að ákvæði um gæsluvistarsjóð í lögum nr. 39/1964 verði felld brott.
    Með vísan til framangreinds er lagt til að felld verði úr gildi lög nr. 39/1964, um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um brottfall laga nr. 39/1964,
um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra.

    Í frumvarpinu er lagt til að lög um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra verði felld brott. Ekki verður séð að frumvarpið hafi teljandi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.