Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 191. máls.

Þskj. 205  —  191. mál.



Frumvarp til laga

um samræmda neyðarsvörun.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




1. gr.
Markmið laganna.

    Samræmd neyðarsvörun fyrir Ísland sinnir viðtöku tilkynninga um fólk, eignir og umhverfi í neyð og beiðnum um aðstoð lögreglu, slökkviliðs, björgunarsveita og sjúkraflutningaliðs og aðra neyðaraðstoð. Neyðarsvörun þessi skal jafnframt fullnægja skuldbindingum Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

2. gr.
Samræmt neyðarnúmer.

    Samræmt neyðarnúmer fyrir Ísland er 112.
    Óheimilt er að nota töluna 112 sem símanúmer eða annað auðkenni í fjarskiptakerfi á Íslandi eða fyrir aðra starfsemi. Einnig er óheimilt að nota orðin „neyðarnúmer“ eða „neyðarsímanúmer“ ein og sér í orðasamböndum um aðra starfsemi hér á landi en lög þessi kveða á um.
    Póst- og fjarskiptastofnun, opinberir aðilar sem fjalla um síma- og fjarskiptamál og þeir einkaaðilar sem leyfi hafa til reksturs á þessu sviði skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að allir notendur geti, þar sem því verður við komið, náð sambandi við neyðarþjónustu 112 sér að kostnaðarlausu.

3. gr.
Vaktstöð samræmdrar neyðarsvörunar.

    Í vaktstöð samræmdrar neyðarsvörunar skal vera aðstaða til þess að taka við og vinna úr tilkynningum sem berast um samræmt neyðarnúmer. Vaktstöðin miðlar þeim upplýsingum sem þannig berast tafarlaust til viðbragðsaðila á eða nærri vettvangi í samræmi við gildandi lög og skipulag. Vaktstöðvar skulu vera í Reykjavík og á Akureyri og skulu þær samtengdar í samræmdu kerfi.
    Vaktstöð samræmdrar neyðarsvörunar veitir samhæfingar- og stjórnstöð almannavarna samkvæmt lögum um almannavarnir nauðsynlega þjónustu vegna leitar-, björgunar- og almannavarnaaðgerða.
    

4. gr.
Réttindi og skyldur viðbragðsaðila.

    Öllum viðbragðsaðilum er skylt að tengjast vaktstöð samræmdrar neyðarsvörunar a.m.k. með svörun og símtalsflutningi og veita vaktstöð fullnægjandi upplýsingar um hverjir veiti viðtöku beiðnum um aðstoð af þeirra hálfu ásamt upplýsingum um þá þjónustu sem í boði er, menntunar- og þjálfunarstig þeirra sem hana veita og tækjabúnað sem tiltækur er til þess að sá sem óskar aðstoðar fái hana viðstöðulaust. Óski viðbragðsaðili þess er vaktstöðinni heimilt að veita viðbragðsaðilum víðtækari þjónustu. Dómsmálaráðherra er heimilt í reglugerð að ákveða til hvaða aðila framangreind skylda tekur og kveða nánar á um fyrirkomulag á upplýsingagjöfinni.
    Vaktstöð skal tilkynna viðbragðsaðilum umsvifalaust stöðvist reksturinn af einhverjum ástæðum.
    Allir viðbragðsaðilar skulu hafa aðgang að öryggis- og fjarskiptakerfi samræmdrar neyðarsvörunar.

5. gr.
Skráning upplýsinga.

    Í vaktstöð samræmdrar neyðarsvörunar skal skrá og afrita allar tilkynningar sem berast. Skráningin skal að lágmarki ná til eftirtalinna atriða:
     a.      hvaðan er hringt,
     b.      hvenær er hringt,
     c.      hver hringir,
     d.      hvers vegna er hringt.
    Svo sem kostur er skal tilgreina nákvæmlega staðinn sem hringt er frá og úr hvaða síma, klukkan hvað hringt er, fullt nafn þess sem hringir og hvert tilefnið er.
    Afrita skal samskipti tilkynnanda og vaktstöðvar allt þar til símtalsflutningur til viðbragðsaðila á sér stað. Samskipti vaktstöðvar við viðbragðsaðila skulu afrituð.
    Þeir sem leita eftir aðstoð með tilkynningu til vaktstöðvar skulu, svo sem kostur er, gefa greinargóðar upplýsingar um atburð og það ástand sem er tilefni beiðni. Verði einstaklingur uppvís að því að senda vísvitandi ranga tilkynningu til samræmdrar neyðarsvörunar eða misnota að öðru leyti þjónustu hennar við boðun viðbragðsaðila varðar það refsingu skv. 120. gr. og 120. gr. a almennra hegningarlaga.

6. gr.
Varðveisla upplýsinga.

    Afritun og skráning tilkynninga skv. 5. gr. skal varðveitt í a.m.k. sex mánuði frá því að tilkynning barst og skal farið með efni þeirra sem trúnaðarmál. Dómsmálaráðherra setur nánari reglur um varðveislu upplýsinganna, aðgengi að þeim og notkun í samræmi við ákvæði laga þessara og lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

7. gr.
Skyldur starfsfólks vaktstöðvar samræmdrar neyðarsvörunar.

    Starfsfólk vaktstöðvar samræmdrar neyðarsvörunar skal gæta þagmælsku um atriði sem það fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum, reglugerðum eða eðli máls. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi. Skal starfsfólk undirrita þagnarheit áður en það hefur störf.

8. gr.
Rekstur vaktstöðvar samræmdrar neyðarsvörunar.

    Rekstur vaktstöðvar samræmdrar neyðarsvörunar skal vera í höndum hlutafélags um rekstur slíkrar stöðvar. Dómsmálaráðherra semur við rekstraraðila um fyrirkomulag, fjármögnun og þátttöku í rekstrinum.
    Vaktstöð samræmdrar neyðarsvörunar er heimilt í samráði við ráðherra að gera þjónustusamninga við aðra aðila.
    Kostnaður við uppbyggingu og rekstur vaktstöðvar, að því marki sem hann er ekki greiddur af tekjum fyrir þá þjónustu sem vaktstöðin veitir, greiðist úr ríkissjóði, m.a. með hluta af jöfnunargjaldi sem innheimt er á grundvelli fjarskiptalaga.

9. gr.
Reglugerðarheimild.

    Dómsmálaráðherra fer með framkvæmd laga þessara og setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þeirra, þ.m.t. um starfsemi vaktstöðvar samræmdrar neyðarsvörunar, um menntun og þjálfun starfsfólks, lágmarksfjölda starfsfólks og um þátttöku stöðvarinnar í æfingum á sviði almannavarna. Einnig skal í reglugerð mæla fyrir um ráðstafanir sem gerðar eru í því skyni að tryggja öryggi vaktstöðvarinnar, þar á meðal um eftirlit og vöktun aðgengis að vaktstöð, um samskiptaleiðir við lögreglu og um varaafl fyrir reksturinn. Í reglugerð skal enn fremur mæla fyrir um hverjir teljast viðbragðsaðilar samkvæmt lögum þessum.

10. gr.
Gildistaka og brottfallin lög.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög nr. 25 3. mars 1995, um samræmda neyðarsímsvörun.
    Reglugerðir og önnur stjórnvaldsfyrirmæli sem sett eru samkvæmt eldri lögum skulu halda gildi sínu að svo miklu leyti sem þau fara ekki í bága við lög þessi. Þá skulu samningar sem gerðir voru í tíð eldri laga halda gildi sínu þar til þeir verða endurskoðaðir af hálfu samningsaðila.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með lögum nr. 25 frá 3. mars 1995 var ákveðið að ríkisstjórnin skyldi eigi síðar en 31. desember 1995 koma upp samræmdri neyðarsímsvörun fyrir Ísland. Þar var gert ráð fyrir að kostnaður við uppbyggingu og rekstur vaktstöðvar eða vaktstöðva skyldi greiddur að hálfu af ríkissjóði og að hálfu af sveitarfélögunum og skyldi hlutur þeirra innheimtur hjá hverju sveitarfélagi fyrir sig í samræmi við íbúatölu.
    Með yfirlýsingu sem fjármálaráðherra og félagsmálaráðherra gáfu hinn 13. desember 1996 tók ríkissjóður að sér að fjármagna hlut sveitarfélaga í rekstri neyðarsímsvörunar en yfirlýsingin var gefin í tengslum við áform um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Hafa sveitarfélögin samkvæmt þessu ekki verið krafin um greiðslu kostnaðar við neyðarsímsvörun.
    Eftir setningu laganna 1995 var stofnað hlutafélagið Neyðarlínan hf. um rekstur vaktstöðvar til að reka neyðarsímsvörun og gerði dómsmálaráðuneytið samning við félagið í október 1995 um rekstur vaktstöðvar. Vaktstöðin er í húsnæði Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins við Skógarhlíð í Reykjavík, en á sama stað eru einnig höfuðstöðvar slökkviliðsins og fjarskiptamiðstöð lögreglunnar ásamt höfuðstöðvum Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
    Vorið 2003 var sett þar á fót samhæfingarstöð leitar og björgunar sem jafnframt er stjórnstöð Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra í almannavarnaástandi. Haustið 2004 fluttist Vaktstöð siglinga í sama húsnæði og sér Neyðarlínan um daglegan rekstur hennar, en Landhelgisgæslan um faglega yfirstjórn. Loks flutti Landhelgisgæslan höfuðstöðvar sínar á sama stað árið 2006 og má segja að þá séu allir helstu viðbragðsaðilar við slysum og náttúruhamförum komnir í nábýli með stuttum boðleiðum sín á milli. Varastöð fyrir þessa starfsemi hefur verið byggð upp í húsnæði lögreglustöðvarinnar á Akureyri og hefur þar verið komið fyrir varabúnaði fyrir Neyðarlínuna og fjarskiptamiðstöð lögreglunnar. Nú hefur verið ákveðið að stöðin skuli vera í daglegum rekstri og hún rekin í samræmdu kerfi Neyðarlínunnar um neyðarsvörun.
    Lagt er til að lögin um samræmda neyðarsímsvörun verði nú felld að þegar gerðum breytingum og nýjum aðstæðum og jafnframt verði þar fjallað um atriði er varða tekjuöflun til rekstursins. Jafnframt er lagt til að fellt verði á brott ákvæði 8. gr. núgildandi laga um sérstaka samstarfsnefnd til eftirlits og ráðuneytis um framkvæmdina. Nefndarskipanin var hugsuð sem vettvangur fyrir sveitarfélögin og fleiri aðila sem vinna að skyldum verkefnum. Ekki þykir nú þörf á slíkri nefnd.
    Neyðarlínan hf. var upphaflega sett á fót með þátttöku einkaaðila en er nú að mestu leyti í eigu opinberra aðila. Dómsmálaráðuneytið hefur samið við fyrirtækið um rekstur samræmdrar neyðarsvörunar og er núgildandi samningur til ársloka 2011.
    Lagt er til í frumvarpi þessu að framvegis verði lögin ekki miðuð við „neyðarsímsvörun“ heldur við „neyðarsvörun“ sem er víðtækara hugtak. Er þetta gert í ljósi þess að stöðugt fjölgar öðrum fjarskiptamöguleikum, eins og t.d. SMS-skilaboðum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Neyðarsvörun er ætlað að stuðla að auknu öryggi þeirra sem hverju sinni eru staddir hér á landi eða næsta nágrenni. Einnig er henni ætlað að uppfylla skyldur stjórnvalda til að veita viðtöku tilkynningum um bruna, slys, óhöpp, yfirvofandi eignatjón og önnur neyðartilvik í því skyni að koma umsvifalaust tilkynningu um neyðartilvik til hlutaðeigandi stjórnvalds eða þess sem sinna ber neyðarþjónustu. Neyðarnúmerið 112 er sameiginlegt fyrir öll ríki Evrópska efnahagssvæðisins þar sem í dag búa um 485 milljónir manna.
    Samræmd neyðarsvörun fyrir Ísland sinnir viðtöku tilkynninga um fólk og eignir í neyð sem og beiðnum um aðstoð lögreglu, slökkviliðs, björgunarsveita og sjúkraflutninga eða aðra neyðaraðstoð.

Um 2. gr.

    Greinin er að mestu samhljóða 2. gr. núgildandi laga að öðru leyti en því að Póst- og símamálastofnun heitir nú Póst- og fjarskiptastofnun.

Um 3. gr.

    Grein þessi er að efni til samsvarandi 3. gr. núgildandi laga en áréttað er hið mikilvæga hlutverk sem vaktstöð samræmdrar neyðarsvörunar gegnir vegna leitar og björgunarstarfa sem og aðgerða á vegum samhæfingar- og stjórnstöðvar almannavarna.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa og er í samræmi við ákvæði 5. gr. núgildandi laga.

Um 5. og 6. gr.

    Greinarnar eru að efni til samsvarandi 6. og 9. gr. núgildandi laga. Þá er lagt til að 12. og 13. gr. reglugerðar um framkvæmd samræmdrar neyðarsímsvörunar, nr. 570/1996, verði tekin upp í lög, þó þannig að hugtakið viðbragðsaðilar er í 3. mgr. 5. gr. notað í stað neyðarsveita og gerð er tillaga um að varðveislutími afritana og skráninga verði lengdur úr tveimur mánuðum í sex mánuði.
    Lagt er til að mælt verði fyrir um sjálfkrafa skráningar. Með tilkomu nýrrar fjarskiptatækni er mikilvægt að kveðið verði sérstaklega á um nauðsyn þess að vaktstöð skrái staðsetningu tilkynnandans. Forsenda þess að svo megi verða er að tæknilega sé mögulegt að staðsetja svokölluð „flökkunúmer“ með sömu nákvæmni og önnur. Er þetta í samræmi við önnur ákvæði laga, sbr. sérstaklega f-lið 4. tölul. 3. gr. laga nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun, þar sem fram kemur að stofnuninni sé ætlað að gæta hagsmuna almennings með því að tryggja að heildstæði og öryggi almennra fjarskiptaneta sé viðhaldið.

Um 7. gr.

    Grein þessi er að efni til samsvarandi 7. gr. núgildandi laga. Lagt er til að 14. gr. reglugerðar um framkvæmd samræmdrar neyðarsímsvörunar, nr. 570/1996, verði tekin nær óbreytt upp í lög.

Um 8. gr.

    Eins og fram kemur í almennum athugasemdum hér að framan hefur vaktstöð neyðarsvörunar verið rekin af hlutafélaginu Neyðarlínan hf. sem er að mestu leyti í eigu opinberra aðila. Er í frumvarpinu gert ráð fyrir að rekstur vaktstöðva verði áfram á hendi hlutafélags um rekstur slíkra stöðva. Til þess að tryggja að starfsemi rekstraraðilans sé í samræmi við lög og stefnu stjórnvalda skal dómsmálaráðherra gera samning við rekstraraðilann um fyrirkomulag, fjármögnun og þátttöku í rekstrinum, þar á meðal eftirlit með stjórn vaktstöðva.
    3. mgr. greinarinnar er að mestu samhljóða 4. gr. núgildandi laga að öðru leyti en því að hlutdeild sveitarfélaga í kostnaði hefur verið felld niður. Lagt er til að viðbótarfjármögnun fáist með svokölluðu jöfnunargjaldi sem skilgreint er í fjarskiptalögum.

Um 9. og 10. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um samræmda neyðarsímsvörun.


    Frumvarp þetta miðar að því að laga eldri lög um samræmda símsvörun að þeirri þróun sem orðið hefur á þessu sviði á undanförnum árum og fella lagarammann þannig betur að núverandi aðstæðum. Frá því hlutafélaginu Neyðarlínan var komið á fót samkvæmt eldri lögum á árinu 1995 hefur samvinna og samhæfing helstu viðbragðs- og björgunaraðila í landinu aukist mikið, einkum með uppbyggingu samhæfingarstöðvar þeirra í Skógarhlíð í Reykjavík. Þar er um að ræða vaktstöð Neyðarlínunnar, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, fjarskiptamiðstöð lögreglunnar, höfuðstöðvar Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Vaktstöð siglinga, stjórnstöð almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og höfuðstöðvar Landhelgisgæslunnar. Einnig hefur verið komið á fót varastöð sem starfrækt er hjá lögreglunni á Akureyri. Á sama tíma hefur verið byggt upp nýtt fjarskiptakerfi öryggis- og björgunaraðila á landsvísu, svonefnt Tetra-kerfi, en Neyðarlínan á hlut í fyrirtækinu og annast um rekstur þess. Samkvæmt þjónustusamningi við Siglingastofnun Íslands frá árinu 2004 annast Neyðarlínan líka rekstur Vaktstöðvar siglinga, sem áður var tilkynningarskyldan og fjarskiptastöðin í Gufunesi.
    Neyðarlínan hefur verið rekin sem hlutafélag sem er að mestu í eigu opinberra aðila og er gert ráð fyrir óbreyttu fyrirkomulagi að því leyti. Eignarhlutur ríkissjóðs í félaginu er nú liðlega 50%. Dómsmálaráðherra gerir samning við félagið um fyrirkomulag starfseminnar og fjármögnun og er rekstrarframlag ríkissjóðs samkvæmt honum rúmlega 100 m.kr. samkvæmt fjárlögum ársins 2007. Núverandi samningur gildir til ársins 2011 og gerir frumvarpið ráð fyrir að hann haldi gildi sínu. Í öðru lagi hefur félagið tekjur af seldri þjónustu til ýmissa aðila sem alls námu um 460 m.kr. á síðasta ári. Í þriðja lagi hefur félagið fengið um 25 m.kr. framlag á ári úr jöfnunarsjóði alþjónustu sem Póst- og fjarskiptastofnun annast og er miðað við að það fyrirkomulag verði óbreytt í frumvarpinu. Sá sjóður er fjármagnaður með því að innheimta 0,12% gjald af veltu fjarskiptafyrirtækja. Heildarvelta hlutafélagsins er því í kringum 580–600 m.kr. um þessar mundir.
    Í núverandi lögum var gert ráð fyrir að kostnaður við starfsemi vaktstöðvarinnar umfram tekjur af seldri þjónustu yrði greiddur að hálfu af ríkissjóði og að hálfu af sveitarfélögum. Af því varð þó ekki að sveitarfélögin greiddu sinn hlut þar sem gefin var út yfirlýsing um það af hálfu ríkisins á árinu 1996 í tengslum við áform um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Í þessu frumvarpi er þetta ákvæði því fellt niður.
    Ekki er gert ráð fyrir að breyting verði á beinum framlögum ríkissjóðs til félagsins verði frumvarp þetta að lögum.