Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 194. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 209  —  194. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um stuðning við sjálfstæðisbaráttu íbúa Vestur-Sahara.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Katrín Jakobsdóttir, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að viðurkenna Polisario-hreyfinguna sem lögmætan fulltrúa íbúa Vestur-Sahara og grípa til aðgerða til stuðnings sjálfstæðisbaráttu þeirra, þar á meðal að kanna möguleika á að viðurkenna sjálfstæði Vestur-Sahara og taka upp stjórnmálasamband við landið.

Greinargerð.


    Í sumar hafa Sameinuðu þjóðirnar staðið fyrir beinum og skilyrðislausum samningaviðræðum milli fulltrúa marokkóskra stjórnvalda og þjóðfrelsisfylkingar Vestur-Sahara (Polisario) um hvernig megi leysa deilur þeirra á milli um framtíð Vestur-Sahara. Marokkó lagði svæðið undir sig 1975 og 1979 eftir að það hafði verið hluti af nýlenduveldi Spánar í um öld. Árið 1976 lýsti Polisario yfir stofnun sjálfstæðs ríkis, Sahrawi Arab Democratic Republic (SADR), sem nýtur einkum viðurkenningar aðildarríkja Afríkubandalagsins (African Union) auk ýmissa ríkja utan þess enda þótt stjórn þess sé útlæg og hafist við í flóttamannabúðum í Alsír, rétt eins og stór hluti vestur-saharísku þjóðarinnar. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur ítrekað neitað að viðurkenna yfirráð Marokkós yfir Vestur-Sahara og þegar árið 1975 úrskurðaði Alþjóðadómstóllinn í Haag að virða bæri sjálfsákvörðunarrétt íbúa Vestur-Sahara.
    Í meira en 30 ár hefur Polisario barist fyrir þessum sjálfsákvörðunarrétti. Vopnahlé tók gildi árið 1991 og sjá Sameinuðu þjóðirnar um að það sé virt. Þó hefur lítið miðað í samkomulagsátt síðan og aldrei verið efnt til umsaminnar þjóðaratkvæðagreiðslu á meðal íbúa Vestur-Sahara um framtíð landsins. Árið 2003 lagði James Baker fram seinni útgáfu að friðaráætlun sinni fyrir svæðið sem kvað á um að Vestur-Sahara hlyti sjálfstjórn í fimm ár en að því tímabili loknu skyldi haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um sjálfstæði landsins þar sem allir íbúar hefðu atkvæðisrétt, einnig aðfluttir Marokkóbúar. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og Polisario féllust á þessa áætlun en Marokkó hafnaði henni. (Sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna sagði af sér embætti í kjölfarið.)
    Vestur-Sahara telst því vera síðasta nýlendan í Afríku. Samkvæmt ársskýrslu Amnesty International er þar gróflega brotið gegn tjáningarfrelsi, félagafrelsi og fundafrelsi íbúanna. Í orði kveðnu eru báðir deiluaðilar sammála um að ekki verði lengur búið við ríkjandi ástand. Þeim mun mikilvægara er að utanaðkomandi aðilar þrýsti á um að þessi deila verði leidd til farsælla lykta. Það verður þó ekki gert nema í samræmi við þjóðarétt og stefnumörkun Sameinuðu þjóðanna gegn nýlendukúgun.