Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 203. máls.

Þskj. 218  —  203. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu
og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá er nefndinni heimilt að verðleggja einstakar vörutegundir þannig að þær skili mismunandi framlegð.
     b.      3. mgr. fellur brott.

2. gr.


    19. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

    22. gr. laganna fellur brott.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2008. Þó öðlast 2. gr. gildi 1. janúar 2008.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Samkvæmt núgildandi 19. gr. búvörulaga er lagt á verðmiðlunargjald, 0,65 kr., á hvern lítra af mjólk sem lögð er inn í afurðastöð innan greiðslumarks. Gjaldinu hefur síðan í fyrsta lagi verið ráðstafað til afurðastöðva sem rekstrarstyrkir, þar sem aðstæður hafa verið erfiðar. Síðustu ár hafa einungis afurðastöðvarnar á Ísafirði og Vopnafirði notið þessa hluta verðmiðlunarinnar. Nú hefur afurðastöðin á Vopnafirði verið lögð niður og í kjölfar stofnunar nýs rekstrarfélags í mjólkuriðnaði, MS ehf., sem afurðastöðin á Ísafirði varð hluti af, eru ekki lengur forsendur fyrir þessari ráðstöfun. Í öðru lagi hefur gjaldið verið nýtt til jöfnunar á flutningskostnaði framleiðenda, en það fyrirkomulag er orðið úrelt og er í raun aflagt. Í þriðja lagi hefur verðmiðlunargjaldið verið nýtt til styrkja á flutningi hráefnis og mjólkurvara milli afurðastöðva og til styrktar flutningi á sömu vörum til fjarlægari staða þar sem ekki eru fyrir afurðastöðvar svo sem Vestmannaeyja og Grímseyjar.
    Með lögum nr. 85/2004 var búvörulögum breytt. Var tilgangur laganna m.a. sá að gera afurðastöðvum í mjólkuriðnaði kleift að mæta harðnandi samkeppni erlendis frá með sameiningu og samruna. Með stofnun nýs rekstrarfélags í mjólkuriðnaði, með þátttöku Mjólkursamsölunnar, Auðhumlu og Kaupfélags Skagafjarðar, er talið að nást muni verulegur sparnaður sem m.a. tekur til hagræðingar í rekstri, flutningi og aðföngum. Er því ekki talin lengur nauðsyn að tryggja þann kostnað sem verðmiðlunargjaldi var ætlað að mæta með aðkomu ríkisins. Við brottfall ákvæðisins færist þessi kostnaður til einkaaðilanna og verður hluti þess rekstrarkostnaðar sem starfsemin krefst. Við lokaráðstöfun á uppsöfnuðu fé verðmiðlunarsjóðsins, 1. september 2006, var fénu ráðstafað til endurskipulagningar afurðastöðvarinnar á Ísafirði til samræmis við 3. mgr. 19. gr. og þannig tryggt að rekstur afurðastöðvarinnar haldi áfram. Verði frumvarpið að lögum mun afurðastöðin þurfa að tryggja rekstur sinn eins og önnur félög í landinu og gegnir þar samstarf afurðastöðvanna í sameiginlegu rekstrarfélagi lykilhlutverki.
    Með sömu eða svipuðum rökum er talið að ekki eigi lengur við að viðhalda þeirri nauðsynlegu hagræðingu sem komst á með verðtilfærslu 1998 þegar niðurgreiðslu á heildsöluverði mjólkur og mjólkurafurða var hætt til framleiðenda. Var með lögum nr. 69/1998 sett lögbundið verðtilfærslugjald sem ákveðið var 2,65 kr. af hverjum lítra mjólkur og notað til að lækka verð tiltekinna afurða í heildsölu. Með aukinni hagræðingu og sameiningu afurðastöðva er því ekki heldur talið nauðsynlegt lengur fyrir verðmyndun mjólkur og mjólkurafurða að stunda verðtilfærslu milli afurða í þeirri mynd sem núverandi 22. gr. laganna mælir fyrir um.
    Í 2. mgr. 13. gr. búvörulaga er verðlagsnefnd heimilað að gera fyrir fram ákveðnar framleiðnikröfur til afurðastöðva. Með frumvarpi þessu er lagt til að bætt verði við málslið í 2. mgr. 13. gr. til þess að styrkja heimildir nefndarinnar varðandi ákvörðun á heildsöluverði einstakra vörutegunda á þann hátt að nefndin geti gert ákveðnar framlegðarkröfur til þeirra. Með breytingunni getur nefndin því aukið kröfur sínar gagnvart einstökum vörutegundum og afurðastöðvum með ákvörðun heildsöluverðs þeirra skv. 1. mgr. 13. gr. Er talið nauðsynlegt að lögbinda slíka heimild í ljósi þess að afurðastöðvarnar geta ekki lengur nýtt sér endurgreiðslur skv. 19. og 22. gr. til verðmiðlunar og verðtilfærslu. Er eðlilegt að verðlagsnefnd geti þess vegna tekið tillit til framlegðarkrafna einstakra vörutegunda við ákvörðun heildsöluverðs fyrir þær.
    Með frumvarpinu er einnig verið að minnka afskipti ríkisvaldsins af framleiðslu og vinnslu mjólkurafurða og með því verið að bregðast við athugasemdum Samkeppniseftirlitsins, en í áliti sínu nr. 1/2006 er því beint til ráðherra að jafna samkeppnisstöðu afurðastöðva. Með brottfalli 3. mgr. 13. gr., 19. gr. og 22. gr. er dregið úr afskiptum ríkisins af verðmyndun og áhrifum á verðþol mjólkurafurða.
    Ákvæði 3. mgr. 13. gr. búvörulaga kom nýtt inn í lagabálkinn við setningu breytingalaga nr. 85/2004. Efnislega víkur ákvæðið til hliðar vissum ákvæðum samkeppnislaga og heimilar afurðastöðvum í mjólkuriðnaði að hagræða í sínum rekstri, m.a. með verðtilfærslum, sem kunna að fara í bága við samkeppnislög. Í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 85/2004 var vikið að helstu röksemdum þess að lögleiða þyrfti þessar undantekningar.
    Er þar m.a. rakið að mikill fjárhagsvandi hafi einkennt flest svið landbúnaðar á undanförnum árum og að vandinn sé að miklu leyti til kominn vegna óhagstæðra rekstrareininga sem og lögbundinnar skyldu afurðastöðva og mjólkuriðnaðarins til þess að jafna landsbundinn aðstöðumun einstakra afurðastöðva og fjarlægð frá stærstu mörkuðum landbúnaðarvara.
    Var því talið nauðsynlegt þar til markaðurinn yrði talinn þroskaður í þeim skilningi, að verðmiðlun og verðtilfærsla afurðastöðva í mjólkuriðnaði yrði undanskilin gildissviði samkeppnislaga. Frá setningu breytingalaganna hefur átt sér stað mikil hagræðing og er staða iðnaðarins í dag talin það stöðug að óþarft sé lengur að lögbinda undantekningu um verðtilfærslu og verðmiðlun frá samkeppnislögum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Breytingunni í a-lið er ætlað styrkja heimildir verðlagsnefndar til þess að ákveða framlegðarkröfur á einstakar mjólkurafurðir og með því getur nefndin stýrt betur verðlagi og verðmyndun tiltekinna mjólkurafurða í landinu.
    Með breytingunni í b-lið er ætlunin að falla frá undanþágu samninga um verðtilfærslu afurðastöðva í mjólkuriðnaði gagnvart samkeppnislögum.

Um 2. gr.


    Breytingunni er ætlað að færa form og ábyrgð rekstrar til afurðastöðvanna og afnema lögbundið verðmiðlunargjald skv. 19. gr. búvörulaga.

Um 3. gr.


    Breytingunni er ætlað að færa form og ábyrgð rekstrar til afurðastöðvanna og afnema lögbundið verðtilfærslugjald skv. 22. gr. búvörulaga.

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa en hún hefur það að markmiði að skapa skýr lagaskil.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

    Markmið frumvarpsins er að stuðla að minni afskiptum ríkisvaldsins af framleiðslu og vinnslu mjólkurafurða og bregðast við athugasemdum Samkeppniseftirlitsins um að jafna samkeppnisstöðu afurðastöðva.
    Í frumvarpinu er lagt til að að lögbundið verðmiðlunargjald skv. 19 gr. laganna og lögbundið verðtilfærslugjald skv. 22. gr. verði afnumið. Verðmiðlunargjaldið hefur hingað til verið notað sem rekstrarstyrkir til afurðastöðva, til að jafna flutningskostnað framleiðenda og til að styrkja flutning hráefnis og mjólkurvara milli afurðastöðva og til fjarlægari staða þar sem ekki eru fyrir afurðastöðvar. Verðtilfærslugjaldið hefur aftur á móti verið notað til að lækka verð tiltekinna afurða í heildsölu. Vegna breytinga á umhverfi mjólkuriðnaðarins er ekki lengur talin þörf fyrir verðmiðlun og verðtilfærslur. Í frumvarpinu er einnig lagt til að 3. mgr. 13. gr. falli brott en það ákvæði hefur gefið afurðastöðvum heimild til að hagræða í rekstri, meðal annars með verðtilfærslum. Jafnframt eru lagðar til viðbætur við 2. mgr. 13. gr. til að styrkja heimildir verðlagsnefndar til þess að ákveða framlegðarkröfur á einstakar mjólkurafurðir en með því getur nefndin stýrt betur verðlagi og verðmyndun tiltekinna mjólkurafurða í landinu.
    Í fjárlögum 2007 námu gjöld fjárlagaliðar 04-824 Verðmiðlun landbúnaðarvara, samtals 383 m.kr. og voru þau að fullu innheimt af ríkistekjum. Af þeirri fjárhæð komu 296 m.kr. til á viðfangsefni 1.10 Verðtilfærslugjald á mjólk og 87 m.kr. á viðfangsefni 1.11 Verðmiðlun landbúnaðarvara. Verði frumvarpið að óbreyttu samþykkt munu tekjur og gjöld ríkissjóðs lækka um 383 m.kr.