Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 204. máls.

Þskj. 219  —  204. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um innflutning dýra,
nr. 54/1990, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Orðskýringin Búfé verður svohljóðandi: Alifuglar, geitfé, hross, kanínur, loðdýr, nautgripir, sauðfé og svín. Rísi ágreiningur um hvað skuli falla undir hugtakið búfé sker landbúnaðarráðherra úr.
     b.      Við orðskýringuna Einangrunarstöð bætist: auk svína og erfðaefnis þeirra.
     c.      Ný orðskýring bætist við, í réttri stafrófsröð, svohljóðandi: Gæludýr: Dýr af eftirgreindum tegundum og flokkum: Hundar, kettir, kanínur, skrautfiskar, vatnadýr, nagdýr og búrfuglar.

2. gr.

    Á eftir orðunum „dýra og erfðaefnis“ í 4. mgr. 2. gr. laganna kemur: sbr. þó 4. gr. a.

3. gr.

    Á eftir 4. gr. laganna bætist við ný grein, 4. gr. a, svohljóðandi:
    Yfirdýralæknir getur vikið frá því banni sem um getur í 1. mgr. 2. gr. og leyft innflutning á gæludýrum og erfðaefni þeirra sem ekki teljast til nýrra dýrategunda eða erlendra stofna tegunda sem hér eru fyrir, sbr. 5. gr., enda sé fylgt fyrirmælum sem felast í lögum þessum og reglugerðum er settar verða samkvæmt þeim.
    Meta skal áhættu af innflutningi og er heimilt að krefja innflytjanda um upplýsingar um heilbrigði gæludýrs, þ.m.t. heilbrigðis- og upprunavottorð, sem staðfesta nauðsynlega bólusetningu, rannsóknir og meðhöndlun gæludýrs eða erfðaefnis fyrir innflutning.
    Heimilt er að krefjast skapgerðarmats á hundum sem sótt er um innflutningsleyfi fyrir, einnig er heimilt að krefjast skapgerðarmats á hundum sem sótt er um leyfi til að flytja inn erfðaefni úr. Ekki skal veita undanþágu til innflutnings á hundum, blendingum af úlfum og hundum, eða öðrum gæludýrum sem hætta getur stafað af.

4. gr.

    Við 13. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Innflutt erfðaefni svína má ekki flytja úr einangrunarstöð. Svín sem vaxið hafa af innfluttu erfðaefni í einangrunarstöð má hins vegar flytja þaðan að fengnu leyfi yfirdýralæknis og uppfylltum skilyrðum 1. mgr.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er ákvörðunarvald um innflutning gæludýra sem ekki teljast til nýrra dýrategunda eða erlendra stofna tegunda sem hér eru fyrir flutt frá landbúnaðarráðuneytinu til yfirdýralæknis. Ákvörðunum yfirdýralæknis má skjóta til úrskurðar ráðherra verði frumvarpið að lögum. Með frumvarpinu er einnig áformað að skýra hugtakið búfé til samræmis við lög um búfjárhald o.fl., nr. 103/2002, og þær reglur sem gilda um innflutning á svínum og erfðaefni þeirra en við setningu laga nr. 153/2002, um breytingu á lögum um innflutning dýra, sem hafði að markmiði að breyta reglum um innflutning á svínum og erfðaefni þeirra láðist m.a. að breyta skilgreiningu laganna á einangrunarstöð. Vísað er að öðru leyti til athugasemda með frumvarpi til þeirra laga sem birt er í Alþingistíðindum 2002–2003, A-deild, bls. 3028.
    Í orðskýringu frumvarpsins á gæludýrum er tekin upp skilgreining hugtaksins í reglugerð um einangrunarstöðvar og sóttkvíar fyrir gæludýr nr. 432/2003 og reglugerð um innflutning gæludýra og hundasæðis nr. 935/2004. Þá má við skýringu hugtaksins hafa hliðsjón af skilgreiningu gæludýra í lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25/1993, en þar er hugtakið orðað svo: „Öll dýr sem haldin eru til afþreyingar.“ Rétt er að geta sérstaklega hvað átt er við með heitinu „vatnadýr“ í skilgreiningu á gæludýrum. Þar er átt við flokk dýrategunda sem lifa að mestu eða öllu leyti í vatni, t.d. froskdýr, krabbadýr og lindýr af fjölmörgum gerðum. Innflutningur á þessum gæludýrum er nokkuð algengur.
    Í framkvæmd ætti hugtakið ekki að valda vafa, ekki síst þar sem undir 3. gr. frumvarpsins munu einungis falla þau gæludýr sem hafa áður verið flutt inn til landsins og falla því ekki undir ákvörðunarvald ráðherra skv. 4. mgr. 2. gr. laganna og skyldur til að leita umsagna sérfróðra aðila skv. 5. gr. Frumvarpið er skýrt um þetta.
    Yfirdýralæknir hefur lengi annast innflutningsmál og er vel í stakk búinn til að leiðbeina umsækjendum um innflutning rísi vafatilvik. Verði umsóknum beint til yfirdýralæknis sem ráðherra er einn valdbær til að veita úrlausn um, svo sem vegna þess að ekki er um að ræða gæludýr, eða ef gæludýr hefur ekki áður verið flutt inn til landsins, þá mun yfirdýralæknir framsenda umsóknir til ráðherra á grundvelli leiðbeiningarskyldu stjórnvalda.
    Frumvarpið fellur að nýútkominni áætlun um einföldun regluverks og stjórnsýslu landbúnaðarráðuneytisins.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um innflutning dýra,
nr. 54/1990, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er lagt til að ákvörðunarvald um innflutning dýra verði falið Landbúnaðarstofnun en samkvæmt almennum reglum laga um innflutning dýra er þetta vald nú hjá landbúnaðarráðherra. Þá eru einnig lagðar til ýmsar tæknilegar breytingar á 1. gr. laganna.
    Verði frumvarpið að óbreyttu samþykkt verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.