Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 205. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 220  —  205. mál.




Álit fjárlaganefndar



um ársskýrslu Ríkisendurskoðunar 2006.


    Fjárlaganefnd hefur fjallað um skýrslu Ríkisendurskoðunar á fundi og fengið ríkisendurskoðanda til fundar við sig.
    Skýrslan er í senn starfsskýrsla til þingsins og samantekt á upplýsingum um þau mál sem stofnunin hefur fjallað um á árinu 2006 og telur rétt að kynna Alþingi.
     Ríkisendurskoðun starfar á vegum Alþingis og endurskoðar ríkisreikning og reikninga þeirra aðila sem hafa með höndum rekstur og fjárvörslu á vegum ríkisins. Enn fremur annast stofnunin eftirlit með framkvæmd fjárlaga og er þingnefndum til aðstoðar við störf er varða fjárhagsmálefni ríkisins. Ríkisendurskoðun er engum háð í störfum sínum. Forsætisnefnd getur þó ýmist að eigin frumkvæði eða samkvæmt óskum þingmanna krafist skýrslna um einstök mál er falla undir starfsemi Ríkisendurskoðunar.
    Eins og skýrslan ber með sér eru viðfangsefnin fjölbreytt. Stofnunin varði 58% allra virkra vinnustunda til fjárhagsendurskoðunar, 17% til stjórnsýsluendurskoðunar, 6% til innra eftirlits, 6% til endurskoðunar upplýsingarkerfa, 6% til verkefna á laga- og umhverfissviði og 7% til yfirstjórnar og annarra verkefna, m.a. gæðaeftirlits og aðstoðar við önnur svið stofnunarinnar.
    Það er mikilvægt fyrir fjárlaganefnd og þingmenn að fá með skýrslu sem þessari innsýn í eftirlitsstarfsemi Ríkisendurskoðunar en slíkar upplýsingar eru til þess fallnar að styrkja það sjálfstæða eftirlitshlutverk sem Alþingi hefur gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Alþingi, 13. nóv. 2007.

Gunnar Svavarsson,
form., frsm.
Kristján Þór Júlíusson.
Guðbjartur Hannesson.

Jón Bjarnason.
Illugi Gunnarsson.
Bjarni Harðarson.

Ásta Möller.
Steinunn Valdís Óskarsdóttir.
Guðjón A. Kristjánsson.

Ármann Kr. Ólafsson. Björk Guðjónsdóttir.