Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 206. máls.

Þskj. 224  —  206. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 14/2004, um erfðafjárskatt,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




1. gr.

    Á eftir 1. mgr. 1. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Af öllum fasteignum hér á landi, sem eigendaskipti verða að á grundvelli lögerfða, bréferfða eða fyrirframgreiðslu arfs, skal greiða skatt eftir lögum þessum án tillits til þess hvort aðilar að ráðstöfuninni séu búsettir hér á landi eða erlendis.

2. gr.

    Við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Nú hafnar maður, sem undanþeginn er erfðafjárskatti, eða afsalar sér arfi eftir annan mann og skal þá erfingi, sem við arfsafsalið fær stærri arfshluta en hann ella hefði fengið, greiða erfðafjárskatt af hinum aukna arfi. Hafni maður eða afsali sér arfi beint eða óbeint til hagsbóta fyrir aðila sem undanþeginn er erfðafjárskatti skal sá erfingi sem þannig fær við arfsafsalið stærri arfshluta en hann ella hefði fengið greiða erfðafjárskatt af þeim arfshluta.

3. gr.

    Í stað 4. málsl. 2. mgr. 4. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Ef hlutabréf í félagi eru ekki skráð á skipulegum verðbréfamarkaði skal miða við gangverð þeirra í viðskiptum, annars bókfært verð eigin fjár samkvæmt síðasta endurskoðaða ársreikningi eða árshlutareikningi viðkomandi félags að viðbættum áunnum óefnislegum verðmætum sem metin eru til fjár og gefa af sér arð í framtíðinni en óheimilt er lögum samkvæmt að færa til bókar. Sama gildir um eignir í öðrum félögum.

4. gr.

    5. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Skuldir arfleifanda, þ.m.t. væntanleg opinber gjöld, skulu koma til frádráttar áður en erfðafjárskattur er reiknaður, svo og útfararkostnaður arfleifanda. Kostnaður sem fellur á búið vegna ráðstafana skv. 17.–21. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl., skal einnig koma til frádráttar hvort heldur bú sætir opinberum skiptum eða einkaskiptum. Þessir liðir skulu sundurliðaðir á erfðafjárskýrslu og studdir gögnum. Erfðafjárskattur samkvæmt lögum þessum er ekki frádráttarbær.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Í frumvarpi þessu eru lagðar til fjórar breytingar á lögum um erfðafjárskatt. Í fyrsta lagi er kveðið á um sérstaka álagningu erfðafjárskatts á fasteignir hér á landi sem eru í eigu erlendra dánarbúa. Nauðsynlegt þykir að setja skýrt ákvæði varðandi þessar aðstæður en núgildandi lög eru ekki nægilega skýr að þessu leyti. Í öðru lagi eru ákvæði um hvernig álagningu erfðafjárskatts skuli háttað þegar erfingi afsalar sér arfi eða hafnar arfi. Í slíkum tilvikum ber ávallt að greiða erfðafjárskatt. Í þriðja lagi eru verðmæti óbókfærðra eigna og réttinda tiltekin sem almenn markaðsverðmæti og er það gert til að taka af allan vafa við skýringu á því að slíkar eignir og réttindi falli undir almenn markaðsverðmæti. Að lokum er kveðið á um að kostnaður sem fellur á dánarbú vegna mats á eignum þess skv. 17.–21. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl., skuli koma til frádráttar frá skattstofni dánarbús þegar erfðafjárskattur er ákveðinn og að sama regla skuli gilda um einkaskipti og opinber skipti.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Ákvæðið um sérstaka álagningu erfðafjárskatts á fasteignir var upphaflega sett í lög um erfðafjárskatt með lögum nr. 114/1989 og var það til samræmis við reglur annars staðar á Norðurlöndunum þar sem krafist er erfðafjárskatts af fasteignum í því landi þar sem þær eru án tillits til þess hvar búskiptin fara fram. Í nefndaráliti um frumvarp til núverandi erfðafjárskattslaga voru lagðar til breytingar á 1. gr. laganna en í álitinu kom fram að lögin tækju til eigna hér á landi sem falla til búa sem skipt er erlendis og krefðust m.a. atbeina innlendra aðila við eigendaskiptin. Raunin hefur orðið sú að ekki hefur þótt unnt að leggja erfðafjárskatt á fasteignir hér á landi, þegar arfláti hefur verið búsettur erlendis, á grundvelli núgildandi ákvæðis þar sem skattlagning verður að byggjast á skýrri heimild í lögum. Því er nauðsynlegt að ákvæði sem kveður sérstaklega á um skattlagningu við þessar aðstæður verði sett inn í lögin til að taka af öll tvímæli.

Um 2. gr.

    Með þessu ákvæði er mælt fyrir um hvernig álagningu erfðafjárskatts skuli háttað afsali erfingi arfi eða hafni honum áður en til skipta kemur þannig að sá hlutur falli til annarra erfingja við skipti. Er kveðið á um að í þeim tilvikum beri ávallt að greiða erfðafjárskatt af hinum afsalaða arfshluta. Sé sá sem afsalar sér arfi undanþeginn erfðafjárskatti greiða aðrir erfingjar erfðafjárskatt af hinum aukna arfshluta sem til þeirra fellur við skiptin eins og þeir hefðu fengið þann arf beint. Sé viðtakandi þess hluta arfs sem afsalað var eða hafnað undanþeginn álagningu erfðafjárskatts samkvæmt ákvæðum laganna ber honum engu að síður að greiða erfðafjárskatt af þeim hluta arfs.

Um 3. gr.

    Í 1. mgr. 4. gr. núgildandi laga er tiltekið að greiða skuli erfðafjárskatt af heildarverðmæti allra fjárhagslegra verðmæta búsins. Í 2. mgr. er tiltekið að átt sé við almennt markaðsverðmæti og talin eru upp í dæmaskyni verðmæti sem metin verða til fjár, efnisleg sem óefnisleg, svo sem aflaheimildir. Með breytingu þessari er ætlunin að taka af allan vafa um að við mat á hlutabréfum í félögum sem ekki eru skráð á skipulegum verðbréfamarkaði skuli ótvírætt tekið tillit til verðmætis allra fjárhagslegra réttinda félagsins, enda þótt um óbókfærðar eignir sé að ræða, svo sem aflaheimildir, hugverkaréttindi o.fl.

Um 4. gr.

    Með breytingunni er lagt til að kveðið verði á um það í 5. gr. laganna að auk skulda arfleifanda og útfararkostnaðar komi sá kostnaður til frádráttar sem fellur til á grundvelli 17.–21. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl., og að sá frádráttur taki jafnt til einkaskipta og opinberra skipta. Við skipti á dánarbúum getur reynst nauðsynlegt t.d. að fá sérfróða aðila eins og lögmenn eða endurskoðendur til að leggja mat á verðmæti eigna. Í þeim tilvikum skal dánarbúið bera kostnaðinn og verður sá kostnaður frádráttarbær áður en kemur að útreikningi erfðafjárskatts, hvort sem um einkaskipti eða opinber skipti er að ræða.

Um 5. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 14/2004,
um erfðafjárskatt, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á ákvæðum laga um erfðafjárskatt. Í fyrsta lagi er um að ræða ákvæði um að erfðafjárskattur verði lagður á fasteignir hér á landi þegar þær eru í eigu erlendra dánarbúa, í öðru lagi um álagningu skattsins þegar erfingi hefur afsalað sér arfi, í þriðja lagi um að verðmæti óbókfærðra eigna og réttinda skuli miðast við almenn markaðsverðmæti og í fjórða lagi um hvaða kostnaður er frádráttarbær frá skattstofninum.
    Verði frumvarpið að lögum er ekki ástæða til að ætla að það hafi teljandi áhrif á skatttekjur eða útgjöld ríkissjóðs.