Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 229. máls.

Þskj. 248  —  229. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna:
     a.      1. og 2. mgr. orðast svo:
                      Tollafgreiðslugengi skal miða við opinbert viðmiðunargengi sem skráð er af Seðlabanka Íslands hvern virkan dag. Tollafgreiðslugengi þeirra gjaldmiðla sem Seðlabanki Íslands tekur ekki til opinberrar skráningar skal ákvarðað af tollstjóranum í Reykjavík að höfðu samráði við Seðlabanka Íslands.
                      Við tollafgreiðslu sendinga skal ákvörðun tollverðs byggð á tollafgreiðslugengi eins og opinbert viðmiðunargengi er skráð af Seðlabanka Íslands síðasta virkan dag á undan.
     b.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Tollafgreiðslugengi.


2. gr.

    2. mgr. 68. gr. laganna orðast svo:
    För skv. 1. mgr. eru undanþegin innsiglun vista, birgða og annars varnings um borð.

3. gr.

    Við 1. mgr. 69. gr. laganna bætist nýr töluliður sem orðast svo:
     6.      Umflutningsgeymslum, sbr. 108. gr. a–108. gr. d.

4. gr.

    Við 82. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 3. mgr. og orðast svo:
    Ákvæði 1. og 2. mgr. skulu gilda að breyttu breytanda um flutning á ótollafgreiddum vörum frá farmflytjanda á geymslusvæði sem ekki er á hans ábyrgð.

5. gr.

    1. málsl. 1. mgr. 83. gr. laganna orðast svo: Við flutning á ótollafgreiddum vörum í tollfrjálsa verslun eða tollfrjálsa forðageymslu skal farið eftir eftirfarandi formreglum um flutning er kallast tollband.

6. gr.

    1. mgr. 88. gr. laganna orðast svo:
    Að uppfylltum skilyrðum 1.–3. og 5.–7. tölul. 1. mgr. 91. gr. getur tollstjórinn í Reykjavík heimilað lögaðilum að reka afgreiðslugeymslur fyrir ótollafgreiddar vörur.

7. gr.

    Fyrirsögn á undan 88. gr. laganna verður: Afgreiðslugeymslur.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 91. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „ráðherra“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: tollstjórinn í Reykjavík.
     b.      Í stað orðsins „Ráðherra“ í 2. mgr. kemur: Tollstjórinn í Reykjavík.

9. gr.

    Í stað orðanna „Ráðherra getur að fenginni tillögu tollstjórans í Reykjavík“ í 92. gr. laganna kemur: Tollstjórinn í Reykjavík getur.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 94. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Ráðherra“ í 1. málsl. og 2. tölul. 1. mgr. kemur: Tollstjórinn í Reykjavík.
     b.      Í stað orðanna „Ráðherra getur að fenginni tillögu tollstjórans í Reykjavík“ í 2. mgr. kemur: Tollstjórinn í Reykjavík getur.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 96. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „ráðherra“ í 1. mgr. kemur: tollstjórinn í Reykjavík.
     b.      Í stað orðsins „Ráðherra“ í 2. mgr. kemur: Tollstjórinn í Reykjavík.

12. gr.

    Í stað orðanna „Ráðherra getur að fenginni tillögu tollstjórans í Reykjavík“ í 97. gr. laganna kemur: Tollstjórinn í Reykjavík getur.

13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 101. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „ráðherra“ í 1. mgr. kemur: tollstjórinn í Reykjavík.
     b.      Í stað orðsins „Ráðherra“ í 3. mgr. kemur: Tollstjórinn í Reykjavík.

14. gr.

    Í stað orðanna „Ráðherra getur að fenginni tillögu tollstjórans í Reykjavík“ í 102. gr. laganna kemur: Tollstjórinn í Reykjavík getur.

15. gr.

    Í stað orðsins „ráðherra“ í 2. mgr. 104. gr. laganna kemur: tollstjórinn í Reykjavík.

16. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 105. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „ráðherra“ í 1. mgr. kemur: tollstjórinn í Reykjavík.
     b.      Í stað orðsins „Ráðherra“ í 3. mgr. kemur: Tollstjórinn í Reykjavík.

17. gr.

    Í stað orðanna „Ráðherra getur að fenginni tillögu tollstjórans í Reykjavík“ í 106. gr. laganna kemur: Tollstjórinn í Reykjavík getur.

18. gr.

    Á eftir 108. gr. laganna koma fjórar nýjar greinar ásamt fyrirsögninni Umflutningsgeymslur og orðast greinarnar svo ásamt fyrirsögnum:

    a. (108. gr. a.)

Starfsleyfi.

    Að fenginni skriflegri umsókn og að uppfylltum skilyrðum 1. mgr. 91. gr. getur tollstjórinn í Reykjavík heimilað lögaðilum að reka umflutningsgeymslur.
    Leyfi skal veitt þeim einum sem starfa í þeim tilgangi að veita öðrum þá þjónustu sem felst í rekstri umflutningsgeymslu. Leyfishöfum sjálfum skal óheimilt að geyma þar vörur eða stunda þar iðnaðarframleiðslu, verslun, umboðssölu, heildsölu eða smásölu.
    Tollstjórinn í Reykjavík skal halda skrá yfir leyfishafa samkvæmt þessari grein. Öðrum fyrirtækjum en þeim sem tekin hafa verið á skrá er óheimilt að starfrækja umflutningsgeymslu.
    Hefji leyfishafi ekki starfsemi innan tólf mánaða frá því að tilkynnt er um veitingu starfsleyfis fellur leyfið niður. Starfsleyfi fellur jafnframt niður hafi leyfishafi ekki veitt þjónustu sem honum er heimilt að veita samkvæmt lögum þessum samfellt í tólf mánuði.

    b. (108. gr. b.)

Afturköllun starfsleyfis.

    Tollstjórinn í Reykjavík getur afturkallað starfsleyfi skv. 108. gr. a uppfylli leyfishafi ekki lengur skilyrði fyrir starfsleyfinu eða vanræki gróflega skyldur sínar samkvæmt lögum þessum.

    c. (108. gr. c.)

Vörur sem heimilt er að flytja í umflutningsgeymslu.

    Heimilt er að flytja ótollafgreiddar vörur í umflutningsgeymslu úr fari eða afgreiðslugeymslu. Vörur sem háðar eru innflutningsleyfum er heimilt að flytja í umflutningsgeymslu, enda þótt leyfi liggi ekki fyrir.
    Heimilt er að flytja innlendar vörur í umflutningsgeymslu ef þær eru ætlaðar til að viðhalda óbreyttu ástandi umflutningsvörunnar eða varna umflutningsvöru skemmdum, sbr. 108. gr. d.
    Óheimilt er að flytja vörur í umflutningsgeymslu á annað geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur. Þá er óheimilt að afhenda vörur úr umflutningsgeymslu til notkunar innan lands.

    d. (108. gr. d.)

Aðvinnsla í umflutningsgeymslu.

    Iðnaðarframleiðsla og önnur aðvinnsla vöru er óheimil í umflutningsgeymslu.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. eru aðgerðir til þess að viðhalda óbreyttu ástandi vörunnar eða til þess að verja hana gegn skemmdum heimilar í umflutningsgeymslum.

19. gr.

    12. tölul. 1. mgr. 195. gr. laganna orðast svo: Eftirlitsgjald vegna tolleftirlits með tollfrjálsum forðageymslum, tollfrjálsum verslunum og tollfrjálsum birgðageymslum þeirra, frísvæðum og umflutningsgeymslum.

20. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi að undanskilinni 1. gr. sem tekur gildi 1. febrúar 2008.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á tollalögum. Í fyrsta lagi er lagt til að tilteknar leyfisveitingar verði færðar frá fjármálaráðuneytinu til tollstjórans í Reykjavík vegna geymslusvæða fyrir ótollafgreiddar vörur. Slíkt er í takt við yfirlýsta stefnu að fækka sem kostur er beinum afgreiðsluverkefnum hjá ráðuneytinu.
    Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á ákvæðum 19. gr. laganna um tollafgreiðslugengi í þá veru að í stað þess að miða við gengi 28. hvers mánaðar skuli tollafgreiðslugengi taka mið af daggengi næsta virka dags á undan. Vegna mikilla gengissveiflna undanfarin misseri hafa innflutningsaðilar haft tilhneigingu í þá átt að flýta eða draga tollafgreiðslu fram yfir mánaðamót allt eftir afstöðu tollafgreiðslugengis miðað við daglega skráningu sem skapað hefur óeðlilegt álag hjá tollyfirvöldum. Jafnframt hefur gildandi aðferð skapað ákveðið ósamræmi í skráningu vöruviðskipta okkar við útlönd.
    Í þriðja lagi er lagt til að mótuð verði ný tegund geymslusvæðis fyrir ótollafgreiddar vörur, svokallaðar umflutningsgeymslur. Hlutverk slíkra geymslna er einungis að geyma ótollafgreiddar vörur þar til þær eru fluttar aftur af landi brott. Vörur sem fluttar eru í slíkar geymslur hljóta því aldrei tollafgreiðslu hér á landi.
    Í fjórða lagi er lagt til að allir lögaðilar í atvinnurekstri geti rekið afgreiðslugeymslur en ekki einungis farmflytjendur og tollmiðlarar. Þessi breyting er lögð til vegna þess að það hefur sætt nokkrum vandkvæðum í framkvæmd að takmarka leyfi til reksturs afgreiðslugeymslna við farmflytjendur og tollmiðlara.
    Auk þessara breytinga eru lagðar til nokkrar breytingar sem koma til vegna þess að varnarsvæðið á Keflavíkurflugvelli sem slíkt hefur verið lagt niður.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni er að finna tillögur um breytingar á 19. gr. laganna um tollafgreiðslugengi. Lagt er til að í stað þess að tollafgreiðslugengi sé miðað við gengisskráningu 28. hvers mánaðar þá verði notast við daggengi þannig að við tollafgreiðslu sendinga dag hvern, frá miðnætti til miðnættis, verði ákvörðun tollverðs byggð á opinberu viðmiðunargegni eins og það var skráð af Seðlabanka Íslands síðasta virkan dag á undan. Tollverð vöru sem er tollafgreidd á sunnudegi verður því ákvarðað á grundvelli gengis sem Seðlabankinn skráði sem opinbert viðmiðunargengi á föstudeginum á undan.
    Verði tollafgreiðslugengi miðað við daggengi er þess vænst að upplýsingar um verðmæti inn- og útfluttra vara verði réttari en talsverðar skekkjur hafa birst í heildarfjárhæðum innflutnings og útflutnings annaðhvort til vanmats eða ofmats vegna mikilla sveiflna á gengi innan mánaðar og milli mánaða. Auk þess verður oft mikið álag við tollafgreiðslu dagana áður en nýtt tollafgreiðslugengi tekur gildi ef gengi íslensku krónunnar hefur fallið yfir tímabilið.
    Í dag er orðið afar sjaldgæft að tollafgreitt sé í gjaldmiðlum sem Seðlabankinn tekur ekki til opinberrar skráningar. Seðlabankinn hefur nýlega hafið skráningu á mörgum nýjum gjaldmiðlum sem ekki voru teknir til skráningar áður. Með greininni er lagt til að tollafgreiðslugengi þeirra gjaldmiðla sem Seðlabanki Íslands tekur ekki til opinberrar skráningar verði ákvarðað af Tollstjóranum í Reykjavík að höfðu samráði við Seðlabanka Íslands.
    Lagt er til að breytingar skv. 1. gr. taki gildi 1. febrúar 2008 vegna aðlögunar sem fram þarf að fara á tölvukerfum tollyfirvalda.

Um 2. gr.

    Með greininni er lagt til að tilvísun 2. mgr. 68. gr. til varnarsamnings Íslands og Bandaríkja Norður-Ameríku verði felld út úr lagatextanum.

Um 3. gr.

    Vísað er til athugasemda með 18. gr. frumvarpsins.

Um 4. gr.

    Í 6. gr. frumvarpsins er lagt til að heimild til reksturs afgreiðslugeymslu verði rýmkuð í þá átt að lögaðilar geti sótt um leyfi til reksturs slíkrar geymslu. Samkvæmt gildandi lögum geta eingöngu farmflytjendur og tollmiðlarar sótt um leyfi til reksturs afgreiðslugeymslu. Í ljósi þess eru í þessari grein frumvarpsins lagðar til nauðsynlegar breytingar á 82. gr. laganna um yfirfærslu vörsluábyrgðar í þá átt að sönnun um yfirfærslu vörsluábyrgðar frá farmflytjanda til leyfishafa geymslusvæðis, t.d. þess sem hefur leyfi til þess að reka afleiðslugeymslu, verði tryggð með sama hætti og yfirfærsla vörsluábyrgðar á milli leyfishafa geymslusvæða.

Um 5. gr.

    Hér er lagt til að tilvísun 1. málsl. 1. mgr. 83. gr. til varnarsvæðisins á Keflavíkurflugvelli verði felld brott.

Um 6. gr.

    Á undanförnum misserum hefur skapast nokkur þörf fyrir það að öðrum aðilum en tollmiðlurum og farmflytjendum verði heimilað að reka afgreiðslugeymslur. Þannig verður mögulegt að einn aðili geti þjónustað fleiri aðila en einungis farmflytjendur. Slíkur möguleiki getur verið mikilvægur, sérstaklega í smærri fyrirtækjum. Í greininni er því lagt til að öllum lögaðilum með atvinnurekstur verði heimilað að reka afgreiðslugeymslur en ekki einungis tollmiðlurum eða farmflytjendum. Ekki verður séð að það muni torvelda eftirlit með afgreiðslugeymslum.

Um 7. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.

Um 8.–17. gr.

    Í 8.–17. gr. er lagt til tollstjórinn í Reykjavík veiti leyfi til reksturs tollvörugeymslna, tollfrjálsra forðageymslna, tollfrjálsra verslana og frísvæða í stað ráðherra. Tollstjórinn í Reykjavík veitir nú þegar leyfi til reksturs afgreiðslugeymslna. Þessar breytingar eru lagðar til í samræmi við yfirlýsta stefnu um að fækka sem kostur er beinum afgreiðsluverkefnum hjá ráðuneytinu.

Um 18. gr.

    Í greininni er að finna tillögu að nýrri tegund geymslusvæðis fyrir ótollafgreiddar vörur, svokallaðar umflutningsgeymslur. Skapast hefur þörf fyrir slíkt geymslusvæði sem eingöngu er ætlað að geyma ótollafgreiddar vörur sem fluttar eru til landsins uns þær eru svo aftur fluttar ótollafgreiddar út úr landinu. Með umflutningsgeymslum er hægt að koma til móts við slíkar þarfir. Umflutningsvörur hafa það sérstaka eðli að þær eru ekki ætlaðar til sölu eða ráðstöfunar innan lands.
    Til að hljóta leyfi til að reka umflutningsgeymslu þurfa að vera uppfyllt sömu skilyrði og áskilin eru til að reka aðrar tollvörugeymslur í 1. mgr. 91. gr. laganna. Líkt og áskilið er um tollvörugeymslu þá má sá sem rekur umflutningsgeymslu einungis starfa í þeim tilgangi að veita öðrum þá þjónustu sem felst í rekstri geymslunnar. Leyfishafanum sjálfum er óheimilt að geyma þar vörur.
    Heimilt er að flytja ótollafgreiddar vörur úr fari eða afgreiðslugeymslu í umflutningsgeymslu. Vörur sem háðar eru innflutningsleyfum er heimilt að flytja í umflutningsgeymslu þó leyfi liggi ekki fyrir.
     Óheimilt er að flytja vörur sem þegar eru komnar í umflutningsgeymslu á annað geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur. Þá er einnig óheimilt að afhenda vörur úr umflutningsgeymslu til notkunar innan lands.
    Þrátt fyrir að aðvinnsla og iðnaðarframleiðsla sé bönnuð í umflutningsgeymslum þá eru aðgerðir til þess að viðhalda óbreyttu ástandi vörunnar eða til þess að verja hana gegn skemmdum heimilar í umflutningsgeymslum. Öll aðvinnsla umfram það er bönnuð.

Um 19. gr.

    Í greininni er lagt til að umflutningsgeymslum verði bætt við þau geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur sem þegar eru talin upp í greininni.

Um 20. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki frekari skýringar.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 88/2005,
tollalögum, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á tollalögum. Í fyrsta lagi er lagt til að tilteknar leyfisveitingar verði á hendi tollstjórans í Reykjavík í stað fjármála-ráðuneytisins. Í öðru lagi verði heimiluð ný tegund af geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur sem fluttar verða aftur brott af landinu. Í þriðja lagi verði öllum lögaðilum heimilt að reka afgreiðslugeymslur en ekki einungis farmflytjendum og tollmiðlurum. Í fjórða lagi eru nokkrar breytingar sem leiðir af því að ekki er lengur til staðar sérstakt varnarsvæði við Keflavíkurflugvöll. Loks er lagt til að tollafgreiðslugengi verði framvegis miðað við daglega gengisskráningu Seðlabanka Íslands í stað þess að nota gengi 28. dags hvers mánaðar. Svo stopul gengisskráning hefur þótt vera fremur óheppileg þegar breytingar á gengi hafa verið miklar og stuðlað að ójöfnu álagi við tollafgreiðslu þar sem gætt hefur tilhneigingar hjá innflytjendum til að haga tollafgreiðslu eftir þróun gengis innan mánaðartímabilsins frá 28. hvers mánaðar. Sú breyting er þó ekki talin hafa teljandi áhrif á tekjur ríkissjóðs.
    Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi umtalsverð áhrif á kostnað við framkvæmd tollafgreiðslu verði það að lögum.