Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 231. máls.

Þskj. 250  —  231. mál.Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)
1. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „45 kr.“ í 3. mgr. 1. gr. laganna kemur: 41 kr.

2. gr.

    Í stað 6. mgr. 13. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Sérstakt kílómetragjald af gjaldskyldum bifreiðum skv. 2. mgr. skal vera sem hér segir:
Leyfð
heildarþyngd
ökutækis, kg
Sérstakt
kílómetragjald,
kr.
Leyfð
heildarþyngd
ökutækis, kg
Sérstakt
kílómetragjald,
kr.
5.000–6.000 8,45 18.001–19.000 22,31
6.001–7.000 9,14 19.001–20.000 23,32
7.001–8.000 9,84 20.001–21.000 24,33
8.001–9.000 10,54 21.001–22.000 25,34
9.001–10.000 11,23 22.001–23.000 26,35
10.001–11.000 12,22 23.001–24.000 27,36
11.001–12.000 13,52 24.001–25.000 28,37
12.001–13.000 14,82 25.001–26.000 29,38
13.001–14.000 16,11 26.001–27.000 30,39
14.001–15.000 17,41 27.001–28.000 31,40
15.001–16.000 18,71 28.001–29.000 32,41
16.001–17.000 20,00 29.001–30.000 33,42
17.001–18.000 21,30 30.001–31.000 34,43
31.001 og yfir 35,44

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2008.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að tímabundin lækkun á fjárhæð olíugjalds og sérstaks kílómetragjalds verði fest ótímabundið. Með lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., var fjárhæð olíugjaldsins ákvörðuð 45 kr. á hvern lítra af gjaldskyldri olíu. Með lögunum var stefnt að því að útsöluverð á dísilolíu yrði ívið lægra en á bensíni með það að markmiði að gera dísilknúnar fólksbifreiðar ákjósanlegan kost við val á einkabifreið. Vegna óhagstæðrar þróunar á heimsmarkaðsverði á dísilolíu, samanborið við heimsmarkaðsverð á bensíni, var olíugjaldið lækkað tímabundið, úr 45 kr. í 41 kr., með lögum nr. 70/2005. Gilti sú tímabundna lækkun í sex mánuði frá gildistöku laganna um olíugjald og kílómetragjald, þ.e. frá 1. júlí til 31. desember 2005. Með lögum nr. 126/2005, um breytingu á lögum um olíugjald og kílómetragjald o.fl., var sú tímabundna lækkun framlengd til 1. júlí 2006. Lækkunin var framlengd á ný til 31. desember 2006 með lögum nr. 81/2006, um breytingu á lögum um olíugjald og kílómetragjald o.fl. Enn á ný var svo lækkunin framlengd til 31. desember 2007 með lögum nr. 169/2006, um breytingu á lögum um olíugjald og kílómetragjald o.fl.
    Frá því að olíugjald var tekið upp hefur heimsmarkaðsverð á dísilolíu oftar en ekki verið hærra en heimsmarkaðsverð á bensíni. Spár gera ráð fyrir því að heimsmarkaðsverð á dísilolíu verði á næstu missirum að jafnaði hærra en heimsmarkaðsverð á bensíni.
    Með vísan til framangreinds er með frumvarpi þessu lagt til að þessi tímabundna lækkun olíugjalds og sérstaks kílómetragjalds verði fest til frambúðar.
    Á vegum fjármálaráðherra er starfandi starfshópur sem gera á tillögur fyrir 1. febrúar 2008 um heildarstefnu að því er varðar skattlagningu ökutækja og eldsneytis. Með heildarendurskoðun löggjafar á þessu sviði gefst tækifæri til þess að móta stefnu til frambúðar í þessum málaflokki. Hlutverk starfshópsins er að gera tillögur um samræmda skattlagningu ökutækja og eldsneytis sem hafi það að markmiði að hvetja til notkunar vistvænna ökutækja, orkusparnaðar, minnkunar á losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum, aukinnar notkunar innlendra orkugjafa og að fjármagna uppbyggingu og viðhald vegakerfisins, auk þess að þjóna áfram sem almenn tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Fjárhæð olíugjalds, m.a. gagnvart vörugjaldi af bensíni, er því eitt af þeim atriðum sem koma til skoðunar hjá starfshópnum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Með greininni er lagt til að tímabundin lækkun olíugjalds í 41 kr. á hvern lítra verði fest til frambúðar. Áætlað er að sú ráðstöfun, ásamt lækkun á sérstöku kílómetragjaldi, leiði til þess að tekjur ríkissjóðs verði um 450 millj. kr. lægri á ári en ella hefði orðið og hefur þegar verið reiknað með því í forsendum tekjuhliðar fjárlagafrumvarps fyrir árið 2008.

Um 2. gr.

    Með greininni er lagt til að tímabundin lækkun á sérstöku kílómetragjaldi á bifreiðar til sérstakra nota sé fest til frambúðar til þess að jafnræðis sé gætt í skattlagningu þeirra ökutækja sem greiða olíugjald og þeirra sem greiða sérstakt kílómetragjald.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 87/2004,
um olíugjald og kílómetragjald, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að tímabundin lækkun olíugjalds úr 45 kr. í 41 kr. á hvern lítra og lækkun á gjaldskrá vegna sérstaks kílómetragjalds, sem falla átti úr gildi um næstu áramót, verði gerð ótímabundin þar sem ekki eru horfur á að óhagstæð verðþróun á dísilolíu gagnvart bensíni á heimsmarkaði gangi til baka á næstunni. Áætlað er að sú ráðstöfun leiði til þess að tekjur ríkissjóðs verði í kringum 580 m.kr. lægri en ella hefði orðið og hefur þegar verið reiknað með því í forsendum tekjuhliðar fjárlagafrumvarps fyrir árið 2008. Er þá miðað við að hækkun gjaldsins yrði ekki til þess að draga úr sölunni á olíunni. Lögfesting frumvarpsins ætti því ekki að hafa áhrif á tekjur né útgjöld ríkissjóðs umfram það sem þegar hefur verið gert ráð fyrir.