Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 234. máls.

Þskj. 253  —  234. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      2. tölul. fellur brott.
     b.      3. tölul. verður svohljóðandi: Leyfisbréf fyrir viðskiptabanka og sparisjóði, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002          110.000 kr.
     c.      4. tölul. verður svohljóðandi: Leyfisbréf fyrir lánafyrirtæki, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002          110.000 kr.
     d.      5. tölul. verður svohljóðandi: Leyfisbréf fyrir rafeyrisfyrirtæki, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002          110.000 kr.
     e.      6. tölul. verður svohljóðandi: Leyfisbréf fyrir verðbréfafyrirtæki, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002          110.000 kr.
     f.      7. tölul. verður svohljóðandi: Leyfisbréf fyrir verðbréfamiðlun, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002          55.000 kr.
     g.      8. tölul. fellur brott.
     h.      9. tölul. verður svohljóðandi: Leyfisbréf fyrir rekstrarfélög verðbréfasjóða, sbr. 7. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002          55.000 kr.
     i.      15. tölul. fellur brott.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 14. gr. laganna:
     a.      4. tölul. fellur brott.
     b.      Í stað fjárhæðarinnar „3.000 kr.“ í 5.–13. tölul. kemur: 5.200 kr.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi að undanskildum a-lið 1. gr. og a-lið 2. gr. sem öðlast gildi 1. janúar 2008.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um aukatekjur ríkissjóðs.
    Að tillögu Fjármálaeftirlitsins er hér í fyrsta lagi lagt til að ákvæði 11. gr. í V. kafla um leyfi fyrir atvinnustarfssemi verði breytt til samræmis við lagabreytingar sem átt hafa sér stað á undanförnum árum. Lög nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, og lög nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, hafa verið felld úr gildi með lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Lög nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti, hafa verið felld úr gildi með lögum nr. 33/2003, um verðbréfaviðskipti. Einnig munu lög nr. 31/1999, um alþjóðleg viðskiptafélög, falla úr gildi 1. janúar 2008.
    Í annan stað eru lagðar til breytingar á 14. gr. í VIII. kafla laganna að tillögu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Fyrst og fremst er það gert vegna ákvörðunar Evrópuráðsins frá 1. júní 2006 um gjöld sem greiða skal fyrir vegabréfsáritanir vegna kostnaðar sem fellur til við útgáfu þeirra Auk þess er lagt til að 4. tölul. 1. mgr. 14. gr. um gjald fyrir aðgang að varnarstöðinni á Keflavíkurflugvelli verði felldur niður og sömuleiðis fyrir starfsleyfi alþjóðlegra viðskiptafélaga.
    Ekki verður séð að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Þar sem lög nr. 31/1999, um alþjóðleg viðskiptafélög, koma til með að falla endanlega úr gildi 1. janúar 2008, auk þess sem að öll starfsleyfi alþjóðlegra viðskiptafélaga falla úr gildi sama dag, er með greininni lagt til að 2. tölul. 11. gr. laganna verði felldur brott frá og með 1. janúar 2008.
    Með greininni er lagt til að 8. tölul. 11. gr. verði felldur brott þar sem að samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, er ljóst að fjármálafyrirtæki sem fær undanþágu ráðherra frá búsetuskilyrði þarf samt sem áður að uppfylla önnur skilyrði íslenskra laga. Um slík fjármálafyrirtæki gilda því almennar reglur laga nr. 161/2002 sem vísað er til í frumvarpi þessu, þ.m.t. um gjaldtöku vegna starfsleyfis.
    Þá er lagt til að 15. tölul. 11. gr. verði felldur brott sökum þess að í núgildandi lögum um vátryggingamiðlun er ekki gert ráð fyrir því að gefin séu út bráðabirgðaleyfi til vátryggingamiðlunar.
    Aðrar breytingar sem lagðar eru til með greininni koma til vegna breytinga á öðrum lögum, sbr. almennar athugasemdir við lagafrumvarpið.

Um 2. gr.

    Í 4. tölul. 1. mgr. 14. gr. laganna er vísað til reglugerðar nr. 293/2002 sem utanríkisráðuneytið mun fella úr gildi fljótlega og ný kemur til með að taka við. Í stað gjaldtökuheimildar í lögum um aukatekjur ríkissjóðs verður notast við gjaldtökuheimildir laga nr. 60/1998, um loftferðir. Er því með greininni lagt til að 4. tölul. 1. mgr. 14. gr. verði felldur brott frá og með 1. janúar 2008 þar sem hann kemur til með að verða óþarfur eftir þann tíma.
    Með greininni eru jafnframt lagðar til breytingar á 5.–13. tölul. 1. mgr. 14. gr. laganna vegna ákvörðunar Evrópuráðsins frá 1. júní 2006 um gjöld sem greiða skal fyrir vegabréfsáritanir vegna kostnaðar sem fellur til við útgáfu þeirra ( Council Decision amending Annex 12 of the Common Consular Instructions and Annex 14a of the Common Manual on fees to be charged corresponding to the administrative costs of processing visa applications). Í ákvörðun Evrópuráðsins er kveðið á um að hækka þurfi gjald sem tekið er fyrir útgáfu vegabréfsáritana úr 35 evrum í 60 evrur þar sem að 30 evrur duga ekki lengur fyrir kostnaði við útgáfu vegabréfsáritana. Gjaldið er í dag 3.000 kr. og er því lagt til að gjaldið verði hækkað í 5.200 kr.

Um 3. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki frekari skýringar.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 88/1991,
um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Í fyrsta lagi eru gerðar breytingar á nokkrum ákvæðum sem leiðir af breytingum á öðrum lögum eða vegna laga sem falla úr gildi. Ekki er ástæða til að ætla að það hafi teljandi áhrif á gjaldtöku. Í annan stað er gert ráð fyrir að gjald fyrir vegabréfsáritanir verði hækkað úr 3.000 kr. í 5.200 kr. í samræmi við ákvörðun Evrópuráðsins frá 1. júní 2006 um hækkun á gjaldinu vegna aukins kostnaðar við útgáfuna, m.a. vegna notkun lífkenna. Þar sem Ísland er aðili að Schengen- samstarfinu þurfa fæstir sem hingað ferðast vega-bréfsáritanir til að dveljast hér sem ferðamenn. Fjöldi vegabréfaáritana er í kringum 250 á ári þannig að hækkun gjaldsins hefur óveruleg áhrif á tekjur ríkissjóðs. Ekki verður séð að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum.