Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 268. máls.

Þskj. 298  —  268. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 125/2007, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 125/2007 frá 28. september 2007, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/60/EB frá 23. október 2000 um aðgerðaramma Bandalagsins um stefnu í vatnsmálum.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 125/2007 frá 28. september 2007, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/60/EB frá 23. október 2000 um aðgerðaramma Bandalagsins um stefnu í vatnsmálum.
    Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES- nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni þeirrar gerðar sem hér um ræðir. Gerð þessi felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/60/EB frá 23. október 2000 um aðgerðaramma Bandalagsins um stefnu í vatnsmálum.
    Meginmarkmið tilskipunarinnar er að setja ramma um vernd yfirborðsvatns, grunnvatns, árósavatns og strandsjávar, sem og að hindra frekari rýrnun vatnsgæða og bæta ástand vistkerfa og, að svo miklu leyti sem vatn hefur áhrif á önnur vistkerfi, tekur tilskipunin einnig til gæða þeirra. Þá er ætlunin að tryggja sjálfbæra vatnsnotkun með verndun nytjavatns, auka verndun og bæta vatnakerfi, t.d. með aðgerðum til að draga úr eða stöðva losun hættulegra efna, og stuðla að aðgerðum gegn flóðum til þess að bæta ástand vatns og sjávar.
    Tilskipunin er eingöngu EES-tæk að hluta. Þannig voru þeir þættir sem lúta að náttúruvernd, t.d. lífríki við strendur, ár og vötn, ekki teknir upp í EES-samninginn, heldur aðeins atriði er varða mengun, vöktun með henni og eftirlit. Ákvæði er varða auðlindastjórnun og gjaldtöku voru sömuleiðis ekki tekin upp í samninginn.
    Samningaviðræður stóðu lengi við framkvæmdastjórnina um hvernig væri rétt að taka tilskipunina upp í EES-samninginn. Eftir heimsókn fulltrúa framkvæmdastjórnarinnar til Íslands, þar sem aðstæður hér á landi voru kynntar, náðist niðurstaða um að í almennri yfirlýsingu með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar væri áréttað að ólíkar landfræðilegar aðstæður kölluðu á mismunandi aðgerðir til að ná fram markmiðum tilskipunarinnar og að stjórnvöld gætu því metið á hverjum stað hvaða aðgerða þurfi að grípa til. Þá flutti fulltrúi Íslands einnig yfirlýsingu á fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar, þegar tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn, þar sem sérstaða Íslands var ítrekuð.
    Frá árinu 2001 hefur vinnuhópur á vegum umhverfisráðuneytis og iðnaðarráðuneytis starfað til að fara yfir lögleiðingu tilskipunarinnar. Lauk starfshópurinn störfum í mars 2007. Lagði hópurinn m.a. til að Umhverfisstofnun hæfist þegar handa við gagnaöflun og að starfshópur yrði skipaður til að gera tillögur að frumvarpi til laga um stjórnskipulag á sviði vatnamála í samræmi við tilskipunina. Til að innleiða tilskipunina hér á landi þarf að setja lög um stjórnun vatnsmála sem heyra undir umhverfisráðuneytið og að hluta til undir iðnaðarráðuneytið. Einnig þarf hugsanlega að breyta lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, auk þess sem breyta þarf reglugerðum sem heyra undir umhverfisráðuneytið.
    EES/EFTA-ríkin þurfa ekki að innleiða tilskipunina fyrr en tveimur árum eftir að hún var tekin upp í EES-samninginn. Þá munu allir frestir í tilskipuninni taka mið af því hvenær gerðin kemur inn í EES-samninginn í stað ársins 2000, þegar tilskipunin var samþykkt hjá ESB.
    Ljóst er að verulegur kostnaður mun koma til í tengslum við lögleiðingu tilskipunarinnar hér á landi og vegna úttekta, vöktunar og skýrslugerða þegar tilskipunin verður að fullu komin til framkvæmda. Kostnaðurinn mun aðallega falla á ríkið, en einnig á sveitarfélög vegna framkvæmdar vatnsverndar. Starfshópurinn mat kostnað ríkisins vegna undirbúningsframkvæmda 194,2 milljónir króna, sem mun dreifast á næstu ár, hugsanlega allt til ársins 2013. Í skýrslu starfshópsins til þáverandi umhverfisráðherra frá 12. mars 2007 er gerð nánari grein fyrir sundurliðun framangreinds kostnaðar. Hluti þessa kostnaðar hefur þegar fallið til og verið greiddur hlutaðeigandi stofnunum. Kostnaður heilbrigðiseftirlits, sem rekið er af sveitarfélögunum, mun ekki falla til fyrr en síðar og er ekki ljóst hversu mikill hann verður. Samráð hefur verið haft við sveitarfélögin um upptöku tilskipunarinnar frá því byrjað var að ræða upptöku tilskipunarinnar í EES-samninginn. Lögum samkvæmt verður þó öll vöktun á hendi ríkisins, þ.e. Umhverfisstofnunar.

3. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    EES-samningurinn er reglulega uppfærður með breytingum á viðaukum og bókunum við samninginn. Ákvarðanir um þessar breytingar eru teknar í sameiginlegu EES-nefndinni og með þær hefur ávallt verið farið sem hverja aðra þjóðréttarsamninga. Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda þær aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild í 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Að því er Ísland varðar hefur slíkur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að leita ber eftir samþykki Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt með viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun. Í seinni tíð hefur það verið viðtekinn háttur við staðfestingu þeirra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem krefst lagabreytinga að innleiða, enda kemur hvortveggja til, að frestur til að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara er tiltölulega skammur, auk þess sem ekki er alltaf tímabært að innleiða ákvörðun um leið og hún er tekin.



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 125/2007

frá 28. september 2007

um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir „samningurinn“, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        XX. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 36/2007 frá 27. apríl 2007 ( 1 ).

2)        Fella ber inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/60/EB frá 23. október 2000 um aðgerðaramma Bandalagsins um stefnu í vatnsmálum ( 2 ).

3)        Samkvæmt ákvæðum tilskipunar 2000/60/EB falla úr gildi, hinn 22. desember 2007, tilskipun 75/440/EBE ( 3 ), með áorðnum breytingum, og tilskipun 79/869/EBE ( 4 ), með áorðnum breytingum, en þær gerðir hafa verið felldar inn í samninginn og ber því að fella þær brott þannig að brottfellingin komi til framkvæmdar hinn 22. desember 2007.

4)        Samkvæmt ákvæðum tilskipunar 2000/60/EB falla úr gildi, hinn 22. desember 2013, tilskipun 80/68/EBE ( 5 ), með áorðnum breytingum, og tilskipun 76/464/EBE ( 6 ), með áorðnum breytingum, en þær gerðir hafa verið felldar inn í samninginn og ber því að fella þær brott þannig að brottfellingin komi til framkvæmdar 22. desember 2013.

5)        Ákvæði tilskipunar 2000/60/EB ber að túlka að teknu sérstöku tilliti til þess að markmið með aðgerðum samningsaðila á sviði umhverfismála eru skilgreind í 73. gr. samningsins, en önnur stefnumótun í EB-sáttmálanum fellur utan gildissviðs samningsins.

6)        Í tilskipun 2000/60/EB, sem varðar þróun bandalagsaðgerða á sviði stefnu í vatnsmálum, er vísað bæði til gerða sem hafa verið felldar inn í samninginn og gerða sem hafa ekki verið felldar inn í samninginn.

7)        Hafa ber hliðsjón af sameiginlegri yfirlýsingu sem fylgir ákvörðun þessari.

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.


XX. viðauki við samninginn breytist sem hér segir:

1.        Eftirfarandi liður bætist við á eftir lið 13c (ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 92/446/EBE):

        „13ca.         32000 L 0060: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/60/EB frá 23. október 2000 um aðgerðaramma Bandalagsins um stefnu í vatnsmálum (Stjtíð. EB L 327, 22.12.2000, bls. 1).

                        Ákvæði tilskipunarinnar skulu, að því er samning þennan varðar, aðlöguð sem hér segir:

                        a)    Með fyrirvara um síðari umfjöllun sameiginlegu EES-nefndarinnar ber að hafa í huga að eftirtaldar bandalagsgerðir hafa ekki verið felldar inn í EES- samninginn:

                            i)    Tilskipun ráðsins 76/160/EBE frá 8. desember 1975 um gæði vatna til baða (baðvatnatilskipunin).

                            ii)    Tilskipun ráðsins 79/409/EBE frá 2. apríl 1979 um verndun villtra fugla (fuglatilskipunin).

                            iii)    Tilskipun ráðsins 92/43/EBE frá 21. maí 1992 um vernd náttúrlegra búsvæða og villtra plantna og dýra (búsvæðatilskipunin),

                            iv)    Tilskipun ráðsins 79/923/EBE frá 30. október 1979 um tilskilin gæði vatns fyrir skeldýr.

                            v)    Tilskipun ráðsins 78/659/EBE frá 18. júlí 1978 um gæði fersks vatns sem þarf að vernda eða bæta til að fiskur geti þrifist þar.

                            vi)    Ákvörðun ráðsins 77/795/EBE frá 12. desember 1977 um að taka upp sameiginlega aðferð við skipti á upplýsingum um gæði fersks yfirborðsvatns í Bandalaginu.

                        b)    Frestir, sem settir eru í ii. og iii. lið a-liðar 1. mgr. 4. gr., ii. lið b-liðar 1. mgr. 4. gr., c-lið 1. mgr. 4. gr., 1. og 2. mgr. 5. gr., 1. mgr. 6. gr., 2. mgr. 8. gr., 2. mgr. 10. gr., 7. og 8. mgr. 11. gr., 6. og 7. mgr. 13. gr. og 4. mgr. 17. gr. tilskipunarinnar og taldir eru frá gildistökudegi tilskipunarinnar, skulu lesnir þannig að þeir séu taldir frá gildistökudegi ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 125/2007 frá 28. september 2007 sem hefur að geyma ákvæði um að fella tilskipun þessa inn í samninginn.

                            Í samræmi við 11. mgr. bókunar 1 um altæka aðlögun skulu allar tilvísanir til dagsins, sem um getur í 24. gr., lesnar sem tilvísanir til gildistökudags ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 125/2007 frá 28. september 2007 sem hefur að geyma ákvæði um að fella tilskipun þessa inn í samninginn.“

2.        Texti 3. liðar (tilskipun ráðsins 75/440/EBE) og 5. liðar (tilskipun ráðsins 79/869/EBE) falli brott hinn 22. desember 2007.

3.        Texti 6. liðar (tilskipun ráðsins 80/68/EBE) falli brott hinn 22. desember 2013.

2. gr.


Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2000/60/EB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 29. september 2007 að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 28. september 2007.


     Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
    Formaður



    Stefán Haukur Jóhannesson



    Ritarar
    sameiginlegu EES-nefndarinnar



    Bergdís Ellertsdóttir     Matthias Brinkmann



Sameiginleg yfirlýsing vegna ákvörðunar nr. 125/2007 sem felur í sér ákvæði um að fella tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/60/EB inn í samninginn


„Samningsaðilum er ljóst að vötn um alla Evrópu verða fyrir fjölbreytilegu álagi og áhrifum af mannavöldum. Því getur verið mismunandi frá einu svæði til annars hvaða ráðstafana og aðgerða er þörf til að ná umhverfismarkmiðum tilskipunarinnar. Í rammatilskipuninni um vatn er tekið tillit til þessara fjölbreytilegu aðstæðna. Í henni er yfirvöldum, sem hafa framkvæmd tilskipunarinnar með höndum, látið eftir að ákveða hvaða ráðstafanir og aðgerðir henta best til að mæta ríkjandi álagi og áhrifum þannig að umhverfismarkmiðin náist.“

Fylgiskjal II.

TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2000/60/EB frá 23. október 2000 um aðgerðaramma Bandalagsins um stefnu í vatnsmálum

EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 1. mgr. 175. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1),
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar ( 2),
með hliðsjón af áliti svæðanefndarinnar ( 3),
í samræmi við málsmeðferðina, sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 4), og á grundvelli sameiginlegs texta sáttanefndarinnar frá 18. júlí 2000,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Vatn er ekki eins og hver önnur verslunarvara heldur arfleifð sem ber að vernda, standa vörð um og fara með sem slíka.
2)          Í ályktunum ráðherraþings um stefnu Bandalagsins í vatnsmálum, sem haldið var í Frankfurt 1988, var lögð áhersla á nauðsyn þess að setja löggjöf fyrir Bandalagið um vistfræðileg gæði. Í ályktun sinni frá 28. júní 1988 ( 5) fór ráðið þess á leit við framkvæmdastjórnina að hún legði fram tillögur um leiðir til að bæta vistfræðileg gæði yfirborðsvatns í Bandalaginu.

________________
( 1 )     Stjtíð. EB C 184, 17.6.1997,bls. 20, Stjtíð. EB C 16, 20.1.1998, bls.14 og Stjtíð. EB C 108, 7.4.1998, bls.94.
( 2 )     Stjtíð. EB C 355, 21.11.1997, bls.83.
( 3 )     Stjtíð. EB C 180, 11.6.1998,bls. 38.
( 4 )     Álit Evrópuþingsins frá 11. febrúar 1999 (Stjtíð. EB C 150, 28.5.1999, bls. 419), staðfest 16. september 1999, og sameiginleg afstaða ráðsins frá 22.október 1999 (Stjtíð. EB C 343, 30.11.1999, bls. 1). Ákvörðun Evrópuþingsins frá 7. september 2000 og ákvörðun ráðsins frá 14. september 2000.
( 5 )     Stjtíð. EB C 209, 9.8.1988, bls.3.
3)          Í yfirlýsingu ráðherraþingsins um grunnvatn, sem haldið var í Haag 1991, var viðurkennt að þörf væri á aðgerðum til að koma í veg fyrir að ferskvatn versni til langtíma, bæði að því er varðar gæði og magn, og farið fram á að aðgerðaáætlun, sem hefði að markmiði sjálfbæra stjórnun og vernd ferskvatnsauðlinda, yrði hrundið í framkvæmd eigi síðar en árið 2000. Í ályktunum sínum frá 25. febrúar 1992 ( 6) og 20. febrúar 1995 ( 7) óskaði ráðið eftir aðgerðaáætlun um grunnvatn og endurskoðun á tilskipun ráðsins 80/68/EBE frá 17. desember 1979 um verndun grunnvatns gegn mengun af völdum tiltekinna hættulegra efna ( 8), sem yrði liður í heildarstefnu um vernd ferskvatns.
4)          Æ meiri þrýstingur skapast varðandi vatn í Bandalaginu vegna stöðugt vaxandi eftirspurnar eftir nægu magni af gæðavatni til allra nota. Þann 10. nóvember 1995 lagði Umhverfisstofnun Evrópu fram skýrslu sína „Umhverfismál í Evrópusambandinu – 1995“, uppfærða skýrslu um umhverfismál sem staðfesti nauðsyn þess að grípa til aðgerða til að vernda vatn í Bandalaginu, bæði að því er varðar gæði og magn.
5)          Þann 18. desember 1995 samþykkti ráðið ályktanir þar sem þess var meðal annars krafist að samin yrði ný rammatilskipun um grundvallarreglur sjálfbærrar stefnu í vatnsmálum í Evrópusambandinu og var framkvæmdastjórnin hvött til að leggja fram tillögu þar að lútandi.
6)          Þann 21. febrúar 1996 samþykkti framkvæmdastjórnin orðsendingu til Evrópuþingsins og ráðsins um stefnu Evrópubandalagsins í vatnsmálum þar sem settar voru fram grundvallarreglur varðandi stefnu Bandalagsins í vatnsmálum.
7)          Þann 9. september 1996 lagði framkvæmdastjórnin fram tillögu að ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins um aðgerðaáætlun um samþætta
________________
( 6 )     Stjtíð. EB C 59, 6.3.1992, bls. 2.
( 7 )     Stjtíð. EB C 49, 28.2.1995, bls.1.
( 8 )     Stjtíð. EB L 20, 26.1.1980, bls. 43. Tilskipuninni var breytt með tilskipun 91/692/EBE (Stjtíð. EB L 377, 31.12.1991, bls.48).         vernd og stjórnun grunnvatns ( 1). Í þeirri tillögu benti framkvæmdastjórnin á nauðsyn þess að koma á málsmeðferð um stjórnun ferskvatnstöku og vöktun á gæðum og magni ferskvatns.
8)          Þann 29. maí 1995 samþykkti framkvæmdastjórnin orðsendingu til Evrópuþingsins og ráðsins um skynsamlega nýtingu og vernd votlendis þar sem mikilvægi þess fyrir vernd vatnsauðlinda var viðurkennt.
9)          Nauðsynlegt er að þróa samþætta stefnu Bandalagsins í vatnsmálum.
10)          Ráðið fór þess á leit við framkvæmdastjórnina þann 25. júní 1996, svæðanefndin 19. september 1996, efnahags- og félagsmálanefndin 26. september 1996 og Evrópuþingið 23. október 1996 að hún legði fram tillögu að tilskipun ráðsins þar sem settur væri rammi um stefnu í vatnsmálum í Evrópu.
11)          Eins og fram kemur í 174. gr. í sáttmálanum felst umhverfisstefna Bandalagsins í því að stuðla að því að ná þeim markmiðum að varðveita, vernda og bæta gæði umhverfisins með því að nýta náttúruauðlindir af varúð og skynsemi og byggist hún á varúðarreglunni og þeim meginreglum að girt skuli fyrir umhverfisspjöll, áhersla er lögð á úrbætur þar sem tjón á upptök sín og bótaskylda er lögð á þann sem veldur mengun.
12)          Samkvæmt 174. gr. í sáttmálanum skal Bandalagið, við mótun umhverfisstefnu sinnar, taka tillit til fyrirliggjandi, vísindalegra og tæknilegra upplýsinga, umhverfisskilyrða á hinum ýmsu svæðum Bandalagsins og efnahagslegrar og félagslegrar þróunar í Bandalaginu í heild og jafnvægis í þróun á svæðum þess, sem og til mögulegs ávinnings og kostnaðar af aðgerðum eða aðgerðaleysi.
13)          Innan Bandalagsins eru margvíslegar aðstæður og þarfir sem krefjast sérstakra úrlausna. Taka ber tillit til þessa margbreytileika við skipulagningu og framkvæmd ráðstafana til að tryggja vernd og sjálfbæra notkun vatns innan hvers vatnasviðs. Ákvarðanir skulu teknar á þeim vettvangi sem næstur er stöðunum þar sem vatn hefur orðið fyrir áhrifum eða notað. Veita skal forgang þeim aðgerðum sem aðildarríkin bera ábyrgð á með því að gera áætlanir um ráðstafanir sem eru lagaðar að svæðisbundnum eða staðbundnum aðstæðum.
________________
( 1 )     Stjtíð. EB C 355, 25.11.1996, bls. 1.
14)          Hvernig til tekst með þessa tilskipun byggist á nánu samstarfi og samfellu aðgerða á vettvangi Bandalagsins og aðildarríkjanna og á hverjum stað, og einnig upplýsingamiðlun, samráði og þátttöku almennings, m.a. notenda.
15)          Vatnsveita telst til þjónustu sem er almennt hagsmunamál, eins og skilgreint er í orðsendingu framkvæmdastjórnarinnar um þjónustu sem er almennt hagsmunamál í Evrópu ( 2).
16)          Nauðsynlegt er að fella vernd og sjálfbæra stjórnun vatns enn frekar inn í stefnu Bandalagsins á öðrum sviðum, svo sem á sviði orkumála, flutninga, landbúnaðar, fiskveiða, byggðastefnu og ferðaþjónustu. Þessi tilskipun skal vera grundvöllur áframhaldandi skoðanaskipta og þróunar skipulags er miðar að frekari samþættingu stefnu á einstökum sviðum. Þessi tilskipun getur einnig verið mikilvægt framlag á öðrum sviðum samvinnu milli aðildarríkjanna, s.s. að því er varðar Evrópska svæðisþróunarþáttinn (European Spatial Development Perspective).
17)          Við mótun skilvirkrar og samfelldrar stefnu í vatnsmálum verður að taka tillit til þess hve vatnavistkerfi, sem eru nálægt ströndum og ármynnum eða í flóum eða á tiltölulega aflokuðum hafsvæðum, eru viðkvæm þar sem jafnvægi þeirra veltur mjög á gæðum þess landvatns sem rennur í þau. Vernd á ástandi vatns innan vatnasviða gefur efnahagslegan ávinning með því að stuðla að vernd fiskistofna, m.a. strandsjávarstofna.
18)          Þörf er á gagnsæjum, skilvirkum og samfelldum lagaramma um stefnu Bandalagsins í vatnsmálum. Bandalagið skal setja sameiginlegar grundvallarreglur og heildarramma fyrir áætlunina. Í tilskipun þessari skal kveðið á um slíkan ramma auk þess að samræma og samþætta og, til lengri tíma litið, þróa áfram hinar almennu grundvallarreglur og skipulag fyrir vernd og sjálfbæra notkun vatns í Bandalaginu, í samræmi við dreifræðisregluna.
19)          Þessi tilskipun miðar að því að viðhalda og bæta ástand vatns í Bandalaginu. Þetta markmið snertir fyrst og fremst gæði vatnsins er um ræðir. Vatnsmagn er enn fremur einn þeirra þátta sem þarf að líta eftir með tilliti til vatnsgæða og því ber einnig að gera ráðstafanir varðandi magn til að ná megi því markmiði að tryggja mikil gæði.

________________
( 2 )     Stjtíð. EB C 281, 26.9.1996, bls. 3. 20)          Magnstaða grunnvatns getur haft áhrif á vistfræðileg gæði yfirborðsvatns og landvistkerfa sem tengjast því grunnvatnshloti.
21)          Bandalagið og aðildarríkin eru aðilar að ýmsum alþjóðasamningum sem fela í sér mikilvægar skuldbindingar um vernd sjávar gegn mengun, einkum samningnum um vernd Eystrasalts, sem var undirritaður í Helsinki 9. apríl 1992 og samþykktur með ákvörðun ráðsins 94/157/EB ( 1), samningnum um vernd Norðaustur-Atlantshafsins, sem var undirritaður í París 22. september 1992 og samþykktur með ákvörðun ráðsins 98/249/EB ( 2), og samningnum um vernd Miðjarðarhafsins gegn mengun, sem var undirritaður í Barcelona 16. febrúar 1976 og samþykktur með ákvörðun ráðsins 77/585/EBE ( 3), og bókun við hann um vernd Miðjarðarhafsins gegn mengun frá mengunarvöldum í landi, sem var undirrituð í Aþenu 17. maí 1980 og samþykkt með ákvörðun ráðsins 83/101/ EBE ( 4). Þessi tilskipun á að stuðla að því að gera Bandalaginu og aðildarríkjunum kleift að standa við þessar skuldbindingar.
22)          Þessi tilskipun á að stuðla að því að losun hættulegra efna í vatn verði minnkuð jafnt og þétt.
23)          Þörf er á sameiginlegum grundvallarreglum til að samræma aðgerðir aðildarríkjanna til að auka vernd vatns í Bandalaginu að því er varðar gæði og magn, stuðla að sjálfbærri vatnsnotkun, stuðla að því að ná tökum á vandamálum í tengslum við vatn sem rennur yfir landamæri, vernda vatnavistkerfi og landvistkerfi og votlendi sem eru beint háð þeim og standa vörð um nýja möguleika varðandi nýtingu vatns í Bandalaginu og þróa þá.
24)          Mikil gæði vatns stuðla að því að sjá megi íbúunum fyrir nægu drykkjarvatni.
25)          Ákveða skal sameiginlegar skilgreiningar á ástandi vatns að því er varðar gæði og, þar sem við á vegna umhverfisverndar, að því er varðar magn. Setja skal umhverfismarkmið sem miða að því að tryggja gott ástand yfirborðsvatns og grunnvatns í gervöllu Bandalaginu og að komið sé í veg fyrir að ástand vatns á vettvangi Bandalagsins versni.
________________
( 1 )     Stjtíð. EB L 73, 16.3.1994, bls. 19.
( 2 )     Stjtíð. EB L 104, 3.4.1998, bls. 1.
( 3 )     Stjtíð. EB L 240, 19.9.1977, bls. 1.
( 4 )     Stjtíð. EB L 67, 12.3.1983, bls. 1.
26)          Aðildarríki skulu stefna að því að ná a.m.k. fram markmiðinu um gott ástand vatns með því að skilgreina og framkvæma nauðsynlegar ráðstafanir innan samþættra áætlana um ráðstafanir, að teknu tilliti til gildandi krafna Bandalagsins. Þar sem ástand vatns er gott fyrir ber að viðhalda því. Gerðar eru kröfur um gott ástand grunnvatns en auk þess skal greina ef umtalsverð og viðvarandi, stígandi leitni kemur fram í styrk mengunarvalda í því og snúa þeirri leitni við.
27)          Endanlegt markmið þessarar tilskipunar er að hættulegum forgangsefnum verði útrýmt og að stuðla að því að styrkleiki í sjó verði nálægt bakgrunnsgildum efna sem koma fyrir í náttúrunni.
28)          Yfirborðsvatn og grunnvatn eru í eðli sínu endurnýjanlegar auðlindir. Ef tryggja á gott ástand grunnvatns verður að grípa snemma inn í og skipuleggja vandaða áætlun um verndaraðgerðir til langs tíma, einkum vegna þess hve myndun þess og endurnýjun er hæg frá náttúrunnar hendi. Taka skal tillit til þess tíma, sem það tekur að ná fram umbótum, í tímaáætlunum fyrir ráðstafanir til að ná fram góðu ástandi grunnvatns og snúa við hvers konar umtalsverðri og viðvarandi, stígandi leitni í styrk mengunarvalda í grunnvatni.
29)          Til að ná markmiðunum, sem sett eru fram í þessari tilskipun og við gerð áætlunar um ráðstafanir í því skyni er aðildarríkjunum heimilt að skipta framkvæmd áætlunarinnar niður í áfanga til að dreifa kostnaði við að hrinda henni í framkvæmd.
30)          Til að tryggja að þessi tilskipun verði framkvæmd til fulls og á samræmdan hátt skulu hvers konar frestir, sem gefnir eru, veittir á grundvelli viðeigandi, augljósra og gagnsærra viðmiðana og aðildarríkin skulu færa rök fyrir þeim í stjórnunaráætlunum fyrir vatnasviðaumdæmi.
31)          Ef vatnshlot hefur orðið fyrir svo miklum áhrifum af mannavöldum eða náttúrulegt ástand þess er þannig að ógerlegt eða óhóflega dýrt yrði að koma ástandi þess í gott horf má setja vægari umhverfismarkmið, á grundvelli viðeigandi, augljósra og gagnsærra viðmiðana, og gera skal allar tiltækar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að ástand vatnsins versni enn frekar.
32)          Við sérstakar aðstæður má veita undanþágur frá kröfunni um að koma í veg fyrir að ástandið versni eða koma ástandinu í gott horf ef skaðinn er afleiðing ófyrirsjáanlegra eða sérstakra aðstæðna, einkum flóða og þurrka, eða nýorðinna breytinga á eiginleikum yfirborðsvatnshlots eða breytinga á grunnvatnshloti vegna þess að hagsmunir almennings krefjist þess, að því tilskildu að allar tiltækar ráðstafanir séu gerðar til að draga úr skaðlegum áhrifum á ástand vatnshlotsins.
33)          Leitast skal við að ástand vatns á hverju vatnasviði fyrir sig verði gott til að unnt sé að samræma ráðstafanir varðandi yfirborðsvatn og grunnvatn sem tilheyrir sama vistfræði-, vatnafræði- og vatnajarðfræðilega kerfinu.
34)          Að því er varðar umhverfisvernd er nauðsynlegt að samþætta enn frekar eigind- og megindlega þætti, bæði að því er varðar yfirborðsvatn og grunnvatn, þar sem tillit er tekið til náttúrulegra flæðiskilyrða í hringrás vatnsins.
35)          Á stöðum þar sem vatnsnotkun á tilteknu vatnasviði getur haft áhrif yfir landamæri skal samræma kröfur sem miða að því að umhverfismarkmiðin, sem sett eru samkvæmt þessari tilskipun, nái fram að ganga, einkum hvers kyns áætlanir um ráðstafanir, fyrir vatnasviðaumdæmið í heild sinni. Þar sem vatnasvið ná út fyrir landamæri Bandalagsins skulu aðildarríkin kappkosta að tryggja viðeigandi samræmingu við viðkomandi lönd utan Bandalagsins. Þessari tilskipun er ætlað að stuðla að því að staðið verði við skuldbindingar Bandalagsins samkvæmt alþjóðasamningum um vatnsvernd og -stjórnun, einkum samnings Sameinuðu þjóðanna um vernd og nýtingu vatnsfalla sem renna yfir landamæri og alþjóðlegra stöðuvatna, sem samþykktur var með ákvörðun ráðsins 95/308/EB ( 1) og öllum síðari samningum um beitingu hans.
36)          Nauðsynlegt er að fram fari greining á eiginleikum vatnasviða og áhrifum á þau vegna athafna mannsins, auk efnahagslegrar greiningar á vatnsnotkun. Aðildarríkin skulu vakta þróun í ástandi vatns á kerfisbundinn og sambærilegan hátt í gervöllu Bandalaginu. Þessar upplýsingar eru nauðsynlegar til að skapa traustan grunn fyrir aðildarríkin við gerð áætlana um ráðstafanir sem miða að því að markmiðin, sem sett eru samkvæmt þessari tilskipun, nái fram að ganga.
37)          Aðildarríkin skulu tilgreina vatnslindir þar sem taka drykkjarvatns fer fram og tryggja að farið
________________
( 1 )     Stjtíð. EB L 186, 5.8.1995, bls. 42.
        sé að ákvæðum tilskipunar ráðsins 80/778/EBE frá 15. júlí 1980 um gæði neysluvatns ( 2).
38)          Beiting aðildarríkjanna á efnahagslegum stjórntækjum kann að vera viðeigandi sem hluti af áætlun um ráðstafanir. Taka ber tillit til meginreglunnar um endurheimt kostnaðar vegna vatnsþjónustu, að meðtöldum umhverfis- eða auðlindatengdum kostnaði vegna tjóns eða skaðlegra áhrifa á vatn, einkum mengunarbótareglunnar. Efnahagsleg greining á vatnsþjónustu, sem byggist á langtímaspám um framboð og eftirspurn eftir vatni á vatnasviðaumdæminu, er nauðsynleg í þessu skyni.
39)          Nauðsynlegt er að koma í veg fyrir eða draga úr áhrifum mengunarslysa. Í áætlun um ráðstafanir skulu vera ráðstafanir sem miða að því.
40)          Að því er varðar fyrirbyggjandi aðgerðir gegn mengun og mengunarvarnir skal stefna Bandalagsins í vatnsmálum grundvallast á samræmdri aðferð þar sem gripið er til varna gegn mengun við upptökin með því að setja viðmiðunargildi fyrir losun og umhverfisgæðakröfur.
41)          Að því er varðar vatnsmagn skal setja grundvallarreglur um eftirlit með vatnstöku og vatnsmiðlun til að tryggja að snortin vatnshlot séu sjálfbær frá umhverfissjónarmiði.
42)          Setja skal tilteknar lágmarkskröfur í löggjöf Bandalagsins um almennar umhverfisgæðakröfur og viðmiðunargildi fyrir losun, sem gilda um tiltekna flokka eða hópa mengunarvalda. Tryggja skal að ákvæði um slíkar kröfur séu samþykkt á vettvangi Bandalagsins.
43)          Binda skal endi á mengun með sleppingu, losun eða leka hættulegra forgangsefna eða stöðva hana í áföngum. Evrópuþingið og ráðið skulu, að fenginni tillögu frá framkvæmdastjórninni, komast að samkomulagi um það hvaða efni skuli hafa forgang og til hvaða sérstöku ráðstafana skuli gripið gegn mengun vatns af völdum þeirra efna, um leið og tekið er tillit til allra mikilvægra upptaka þeirra og umfang og samsetning eftirlitsráðstafana, sem eru hagkvæmar og í réttu hlutfalli við þær niðurstöður sem óskað er, er ákvarðað.
44)          Við greiningu hættulegra forgangsefna skal taka tillit til varúðarreglunnar, þá einkum greiningar á hvers kyns hugsanlegum, skaðlegum áhrifum viðkomandi efnis, og vísindalegs áhættumats.
________________
( 2 )     Stjtíð. EB L 229, 30.8.1980, bls. 11. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 98/83/EB (Stjtíð. EB L330, 5.12.1998, bls. 32). 45)          Aðildarríkin skulu samþykkja ráðstafanir til að uppræta mengun yfirborðsvatns af völdum forgangsefna og draga jafnt og þétt úr mengun af völdum annarra efna sem annars myndu hindra aðildarríkin í að ná markmiðum sínum að því er varðar yfirborðsvatnshlot.
46)          Til að tryggja þátttöku almennings, þar á meðal vatnsnotenda, í að koma á og uppfæra stjórnunaráætlanir fyrir vatnasviðaumdæmi er nauðsynlegt að látnar séu í té viðeigandi upplýsingar um fyrirhugaðar ráðstafanir og skýrsla gefin um framvindu framkvæmdarinnar með það fyrir augum að almenningur komi að henni áður en lokaákvarðanir um nauðsynlegar ráðstafanir eru teknar.
47)          Þessi tilskipun skal vera tæki til að taka á þeim hindrunum sem eru í vegi fyrir því að bæta ástand vatns, sem ekki er fjallað um í löggjöf Bandalagsins um vatn, með það í huga að þróa viðeigandi áætlanir á vettvangi Bandalagsins til að yfirstíga þær.
48)          Framkvæmdastjórnin skal árlega leggja fram uppfærða áætlun um framtaksverkefni sem hún hefur í hyggju að gera tillögu um varðandi vatn.
49)          Setja skal tækniforskriftir til að tryggja að beiting einsleitra aðferða í Bandalaginu verði liður í þessari tilskipun. Viðmiðanir fyrir mat á ástandi vatns eru mikilvægt skref í rétta átt. Aðlögun tiltekinna, tæknilegra þátta þessarar tilskipunar að tækniþróun og stöðlun aðferða við vöktun, sýnatöku og greiningu skal fara fram með nefndarmeðferð. Til að auka skilning og samræmda beitingu á viðmiðunum um lýsingu á eiginleikum vatnasviðaumdæma og mat á ástandi vatns getur framkvæmdastjórnin samþykkt viðmiðunarreglur um beitingu þessara viðmiðana.
50)          Samþykkja skal nauðsynlegar ráðstafanir til framkvæmdar á þessari tilskipun í samræmi við ákvörðun ráðsins 1999/468/EB frá 28. júní 1999 um málsmeðferð um beitingu framkvæmdavalds sem framkvæmdastjórninni er falið ( 1).
51)          Með framkvæmd þessarar tilskipunar er stefnt að því að vatnsvernd verði a.m.k. jafnmikil og kveðið er á um í tilteknum, fyrri gerðum, sem þar af leiðandi ber að fella úr gildi um leið og viðeigandi ákvæði þessarar tilskipunar hafa verið framkvæmd til fulls.
________________
( 1 )     Stjtíð. EB C 184, 17.7.1999, bls. 23.
52)          Ákvæði þessarar tilskipunar koma í stað rammaákvæða um varnir gegn mengun af völdum hættulegra efna, sem sett voru með tilskipun 76/464/EBE ( 2). Þá tilskipun ber því að fella úr gildi um leið og viðeigandi ákvæði þessarar tilskipunar hafa verið framkvæmd til fulls.
53)          Tryggja ber að framkvæmd og fullnusta gildandi umhverfislöggjafar um vatnsvernd nái fram að ganga. Nauðsynlegt er að tryggja, með viðeigandi viðurlögum í löggjöf aðildarríkjanna, að ákvæðum um framkvæmd þessarar tilskipunar sé beitt á viðeigandi hátt í gjörvöllu Bandalaginu. Viðurlögin skulu vera árangursrík, í réttu hlutfalli við brot og letjandi.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.
Tilgangur

Tilgangurinn með þessari tilskipun er að setja ramma um vernd yfirborðsvatns á landi, árósavatns, strandsjávar og grunnvatns sem:
a)      kemur í veg fyrir frekari afturför og verndar og bætir ástand vatnavistkerfa og, að því er varðar vatnsþörf þeirra, vistkerfa á landi og í votlendi sem eru beint háð vistkerfum í vatni,
b)      stuðlar að sjálfbærri notkun vatns sem byggir á langtímavernd vatnslinda sem eru fyrir hendi,
c)      miðar að aukinni vernd og umbótum á vatnsumhverfi, m.a. með sérstökum ráðstöfunum til að draga jafnt og þétt úr sleppingu, losun og leka forgangsefna og til að binda endi á eða stöðva í áföngum sleppingu, losun og leka hættulegra forgangsefna,
d)      tryggir að dregið sé jafnt og þétt úr mengun grunnvatns og kemur í veg fyrir frekari mengun þess og
e)      stuðlar að því að milda áhrif af völdum flóða og þurrka
________________
( 2 )     Stjtíð. EB L 129, 18.5.1976, bls. 23. Tilskipuninni var breytt með tilskipun 91/692/EBE (Stjtíð.EB L 377,31.12.1991, bls.48). og stuðlar þar með að því:
     að til sé nóg af góðu yfirborðsvatni og grunnvatni til sjálfbærrar, jafnvægrar og réttlátrar vatnsnotkunar,
     að draga umtalsvert úr mengun grunnvatns,
     að vernda hafið innan og utan landhelgi og
     að markmið viðeigandi alþjóðasamninga náist, þ.m.t. þau sem miða að því að koma í veg fyrir og uppræta mengun sjávar, með aðgerð Bandalagsins skv. 3 mgr. 16. gr. í því skyni að binda endi á eða hætta í áföngum sleppingu, losun og leka hættulegra forgangsefna þar sem meginmarkmiðið er að styrkleiki í sjó verði nálægt bakgrunnsgildum fyrir efni, sem koma fyrir í náttúrunni, og verði nálægt núlli að því er varðar manngerð, tilbúin efni.

2. gr.
Skilgreiningar

Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1.      „Yfirborðsvatn“: landvatn, að undanskildu grunnvatni; árósavatn og strandsjór, en það tekur þó einnig til sjávar innan landhelgi að því er varðar efnafræðilegt ástand.
2.      „Grunnvatn“: allt vatn undir yfirborði jarðar í gegnmettaða laginu og í beinni snertingu við landið eða jarðvegsgrunninn.
3.      „Landvatn“: allt kyrrstætt eða rennandi vatn á yfirborði jarðar og allt grunnvatn sem er landmegin við þá grunnlínu sem breidd landhelgi miðast við.
4.      „Á“: landvatnshlot sem rennur að mestu á yfirborði jarðar en getur runnið neðanjarðar í hluta farvegarins.
5.      „Stöðuvatn“: kyrrstætt yfirborðsvatnshlot á landi.
6.      „Árósavatn“: yfirborðsvatnshlot í nágrenni ármynna sem er að hluta til salt vegna nálægðar sinnar við strandsjó en verður fyrir verulegum áhrifum af aðstreymi ferskvatns.
7.      „Strandsjór“: yfirborðsvatn sem er landmegin við línu sem dregin er sjávarmegin einni sjómílu frá næsta punkti grunnlínu þeirrar sem landhelgi miðast við og teygir sig, þar sem við á, að ytri mörkum árósavatns.
8.      „Manngert vatnshlot“: vatnshlot sem hefur orðið til vegna athafna mannsins.
9.      „Mikið breytt vatnshlot“: yfirborðsvatnshlot sem hefur verulega breytta eðliseiginleika vegna breytinga af mannavöldum, eins og tiltekið er af aðildarríkinu í samræmi við ákvæði II. viðauka.
10.      „Yfirborðsvatnshlot“: afmörkuð heild yfirborðsvatns af umtalsverðri stærð, s.s. stöðuvatn, miðlunarlón, vatnsfall, á eða síki, hluti af vatnsfalli, á eða síki, árósavatn eða strandsjávarkafli.
11.      „Veitir“: berglag eða -lög undir yfirborði jarðar eða önnur jarðlög sem eru svo gropin eða gegndræp að umtalsvert grunnvatn getur runnið um þau eða þar getur farið fram grunnvatnstaka í talsverðum mæli.
12.      „Grunnvatnshlot“: afmarkað rúmmál grunnvatns innan veitis eða veita.
13.      „Vatnasvið“: það landsvæði sem allt afrennsli af yfirborði rennur af í vatnsföllum, ám og jafnvel stöðuvötnum til sjávar við eitt ármynni eða óseyri.
14.      „Undirvatnasvið“: það landsvæði sem allt afrennsli af yfirborði rennur af í vatnsföllum, ám og jafnvel stöðuvötnum til tiltekins staðar í farveginum (yfirleitt stöðuvatns eða ármóta).
15.      „Vatnasviðaumdaæmi“: svæði á landi og sjó sem samanstendur af einu eða fleiri vatnasviðum ásamt grunnvatni og strandsjó sem tengjast þeim, og sem tilgreint er í 1. mgr. 3. gr. sem meginstjórnsýslueining vatnasviða.
16.      „Lögbært yfirvald“: yfirvald eða yfirvöld sem tilgreind eru skv. 2. eða 3. mgr. 3. gr.
17.      „Ástand yfirborðsvatns“: almennt hugtak um ástand yfirborðsvatnshlots sem ákvarðast af vistfræðilegu eða efnafræðilegu ástandi þess, eftir því hvort er lakara. 18.      „Gott ástand yfirborðsvatns“: ástand yfirborðsvatnshlots þegar bæði vistfræðilegt og efnafræðilegt ástand þess er a.m.k. „gott“.
19.      „Ástand grunnvatns“: almennt hugtak um ástand grunnvatnshlots sem ákvarðast af magnstöðu eða efnafræðilegu ástandi þess, eftir því hvort er lakara.
20.      „Gott ástand grunnvatns“: ástand grunnvatnshlots þegar bæði magnstaða og efnafræðilegt ástand þess er a.m.k. „góð/gott“.
21.      „Vistfræðilegt ástand“: hugtak sem á við um gæði gerðar og starfsemi vatnavistkerfa sem tengjast yfirborðsvatni, sem flokkast í samræmi við V. viðauka.
22.      „Gott vistfræðilegt ástand“: ástand yfirborðsvatnshlots, sem flokkast þannig í samræmi við V. viðauka.
23.      „Gott vistmegin“ (good ecological potential): ástand mikið breytts eða manngerðs vatnshlots, sem flokkast þannig í samræmi við viðeigandi ákvæði V. viðauka.
24.      „Gott, efnafræðilegt ástand yfirborðsvatns“: það efnafræðilega ástand sem krafist er til að ná megi umhverfismarkmiðunum fyrir yfirborðsvatn, sem sett eru í a-lið 1. mgr. 4. gr., þ.e.a.s. efnafræðilegt ástand yfirborðsvatnshlots þar sem styrkur mengunarvalda er ekki meiri en leyfilegt er samkvæmt umhverfisgæðakröfunum, sem komið er á með IX. viðauka og settar eru í 7. mgr. 16. gr. og annarri viðeigandi löggjöf Bandalagsins þar sem settar eru umhverfisgæðakröfur á vettvangi Bandalagsins.
25.      „Gott, efnafræðilegt ástand grunnvatns“: efnafræðilegt ástand grunnvatnshlots sem uppfyllir öll skilyrði töflu 2.3.2 í V. viðauka.
26.      „Magnstaða“: hugtak sem er mælikvarði á það hversu mikil áhrif bein eða óbein vatnstaka hefur haft á grunnvatnshlot.
27.      „Tiltæk grunnvatnsauðlind“: ársmeðaltal heildarendurnýjunar grunnvatnshlots til langs tíma, að frádregnu ármeðaltali rennslis til langs tíma, sem nauðsynlegt er til að ná megi markmiðum um vistfræðileg gæði fyrir tengt yfirborðsvatn, sem tilgreint er skv. 4. gr., til þess að forðast að vistfræðilegu ástandi slíks vatns hraki umtalsvert og til að forðast hvers kyns verulegt tjón á tengdum landvistkerfum.
28.      „Góð magnstaða“: sú staða sem skilgreind er í töflu 2.1.2 í V. viðauka.
29.      „Hættuleg efni“: efni eða flokkar efna sem eru eitruð, þrávirk og geta safnast fyrir í lífverum, svo og önnur efni eða flokkar efna sem eru tilefni til jafnmikilla áhyggna.
30.      „Forgangsefni“: efni sem tilgreind eru skv. 2. mgr. 16. gr. og talin upp í X. viðauka. Meðal þessara efna eru „hættuleg forgangsefni“, þ.e. efni sem tilgreind eru í samræmi við 3. og 6. mgr. 16. gr., og vegna þeirra verður að gera ráðstafanir í samræmi við 1. og 8. mgr. 16. gr.
31.      „Mengunarvaldur“: sérhvert efni sem getur valdið mengun, einkum eitthvert þeirra sem talin eru upp í VIII. viðauka.
32.      „Bein slepping í grunnvatn“: það þegar mengunarvöldum er sleppt í grunnvatn án þess að það hripi gegnum jarðveg eða jarðvegsgrunn.
33.      ,,Mengun“: bein eða óbein losun af mannavöldum efna eða varma út í andrúmsloft, vatn eða jarðveg þannig að heilbrigði fólks eða vatnavistkerfum eða landvistkerfum, sem eru beint háð vatnavistkerfum, stafi hætta af, eignatjón verði eða réttmæt not af umhverfinu til tómstundaiðkana eða annarra nota séu hindruð eða trufluð.
34.      „Umhverfismarkmið“: markmiðin sem sett eru fram í 4. gr.
35.      „Umhverfisgæðakrafa“: ákvæði um að ekki megi fara yfir hámarksstyrk tiltekins mengunarvalds eða hóps mengunarvalda í vatni, setlögum eða lífríkinu, sett til að vernda heilbrigði manna og umhverfið.
36.      „Samræmd aðferð“: eftirlit með sleppingu og losun í yfirborðsvatn samkvæmt aðferðinni sem sett er fram í 10. gr.
37.      „Neysluvatn“: hugtak með sömu merkingu og í tilskipun 80/778/EBE, eins og henni var breytt með tilskipun 98/83/EB.
38.      „Vatnsþjónusta“: öll þjónusta fyrir heimili, opinberar stofnanir og hvers konar atvinnustarfsemi sem fólgin er í:
       a.      vatnstöku, miðlun, geymslu, hreinsun eða dreifingu yfirborðsvatns eða grunnvatns,
       b.      söfnun skólps og hreinsun þess í stöðvum sem veita vatninu aftur út í yfirborðsvatn.
39.      „Vatnsnotkun“: vatnsþjónusta ásamt allri annarri starfsemi sem, skv. 5. gr. og II. viðauka, hefur umtalsverð áhrif á ástand vatns.
    Þetta hugtak gildir að því er varðar 1. gr. og efnahagslegu greininguna sem framkvæmd er skv. 5. gr. og b-lið í III. viðauka.
40.      ,,Losunarmörk“: gildi fyrir massa sem er gefinn upp sem tilteknar færibreytur, styrkleiki og/eða umfang losunar, sem óheimilt er að fara yfir á einu eða fleiri tímabilum. Einnig má mæla fyrir um losunarmörk fyrir tiltekna hópa eða flokka efna, einkum efni sem eru tilgreind í 16. gr.
    Losunarmörk fyrir efni gilda að jafnaði á losunarstað efnanna við stöðina og skal ekki taka tillit til þynningar þegar þessi mörk eru ákvörðuð. Þegar losað er óbeint í vatn er heimilt að taka tillit til áhrifa skólphreinsunarstöðva þegar losunarmörk eru ákvörðuð fyrir viðkomandi búnað, að því tilskildu að sambærileg vernd sé tryggð fyrir umhverfið í heild og að þetta leiði ekki til aukinnar mengunar í umhverfinu.
41.      „Stjórnun á losun“: stjórnun sem byggist á sérstökum takmörkunum á losun, til dæmis losunarmörkum, eða þar sem tilgreindar eru á annan hátt takmarkanir á eða skilyrði fyrir áhrifum, eðli eða öðrum eiginleikum losunar eða rekstrarskilyrðum sem hafa áhrif á losun. Ekki skal litið svo á að með notkun orðanna „stjórnun á losun“ í þessari tilskipun, sé verið að endurtúlka ákvæði annarra tilskipana á nokkurn hátt.

3. gr.
Samræming stjórnsýslufyrirkomulags innan vatnasviðaumdæma

1.      Aðildarríkin skulu tilgreina öll vatnasvið á yfirráðasvæði sínu og skipa þeim niður, að því er varðar þessa tilskipun, í sérstök vatnasviðaumdæmi. Lítil vatnasvið má sameina stærri vatnasviðum eða sameina þau aðliggjandi, litlum vatnasviðum og mynda þannig sérstök vatnasviðaumdæmi þar sem við á. Ef grunnvatn fylgir ekki að öllu leyti tilteknu vatnasviði skal tilgreina mörk þess og skipa því niður með næsta vatnasviðaumdæmi eða því sem liggur beinast við að það tengist. Afmarka skal strandsjó og skipa honum niður á næsta eða næstu vatnasviðaumdæmi eða það eða þau sem beinast liggur við að það tengist.
2.      Aðildarríkin skulu tryggja viðeigandi stjórnsýslufyrirkomulag, þar á meðal tilgreina viðeigandi lögbært yfirvald sem beitir ákvæðum þessarar tilskipunar innan hvers vatnasviðaumdæmis á yfirráðasvæði þeirra.
3.      Aðildarríkin skulu tryggja að vatnasviði, sem liggur á yfirráðasvæði fleiri en eins aðildarríkis, sé skipað niður á alþjóðlegt vatnasviðaumdæmi. Að beiðni viðkomandi aðildarríkja skal framkvæmdastjórnin gera sitt til að auðvelda það að skipa megi vatnasviðum á þennan hátt niður í alþjóðleg vatnasviðaumdæmi.
Aðildarríkin skulu tryggja viðeigandi stjórnsýslufyrirkomulag, þ.m.t. að tilgreina viðeigandi, lögbært yfirvald sem beitir ákvæðum þessarar tilskipunar innan sérhvers alþjóðlegs vatnasviðaumdæmis sem er að hluta til á yfirráðasvæði þeirra.
4.      Aðildarríkin skulu tryggja að kröfur þessarar tilskipunar um að umhverfismarkmiðin, sem sett eru í 4. gr., nái fram að ganga og séu samræmdar fyrir vatnasviðaumdæmið í heild sinni, einkum allar áætlanir um ráðstafanir. Að því er varðar alþjóðleg vatnasviðaumdæmi skulu viðkomandi aðildarríki tryggja þessa samræmingu í sameiningu og geta, í því skyni, stuðst við gildandi skipulag sem byggir á alþjóðasamningum. Að beiðni viðkomandi aðildarríkja skal framkvæmdastjórnin gera sitt til að auðvelda það að koma í kring áætlunum um ráðstafanir.
5.      Ef vatnasviðaumdæmi nær út fyrir yfirráðasvæði Bandalagsins skal aðildarríkið eða -ríkin, sem í hlut eiga, kappkosta að koma á viðeigandi samræmingu við viðkomandi lönd utan Bandalagsins til þess að markmið þessarar tilskipunar geti náð fram að ganga á gervöllu vatnasviðaumdæminu. Aðildarríkin skulu tryggja að reglum þessarar tilskipunar verði beitt innan yfirráðasvæðis þeirra.
6.      Aðildarríkin mega tilgreina innlenda stofnun eða alþjóðastofnun, sem fyrir er, sem lögbært yfirvald að því er varðar þessa tilskipun.
7.      Aðildarríkin skulu tilgreina lögbært yfirvald eigi síðar en þann dag sem getið er í 24. gr.
8.      Aðildarríkin skulu láta framkvæmdastjórninni í té skrá yfir lögbær yfirvöld sín og lögbær yfirvöld allra alþjóðastofnana sem þau eru aðilar að, eigi síðar en sex mánuðum eftir daginn sem getið er í 24. gr. Upplýsingarnar, sem settar eru fram í I. viðauka, skulu látnar í té varðandi sérhvert lögbært yfirvald.
9.      Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um allar breytingar á upplýsingunum, sem látnar hafa verið í té í samræmi við 8. mgr., innan þriggja mánaða frá því að breytingin tekur gildi.

4. gr.
Umhverfismarkmið

1.      Við framkvæmd áætlana um ráðstafanir, sem tilgreindar eru í stjórnunaráætlunum fyrir vatnasviðaumdæmi, gildir eftirfarandi:
  a)      þegar um er að ræða yfirborðsvatn,
         i)      aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að ástand yfirborðsvatnshlota versni, samanber þó beitingu 6. og 7. mgr. og með fyrirvara um 8. mgr.,
         ii)      aðildarríkin skulu vernda, styrkja og endurheimta öll yfirborðsvatnshlot, með fyrirvara um beitingu iiiundirgreinar, þegar um er að ræða manngerð og mikið breytt vatnshlot, í því skyni að ástand yfirborðsvatns verði orðið gott eigi síðar en 15 árum eftir gildistökudag þessarar tilskipunar, í samræmi við ákvæðin sem mælt er fyrir um í V. viðauka, með fyrirvara um framlengingu frests skv. 4. mgr. og um beitingu 5., 6. og 7. mgr., samanber þó 8. mgr.,
         iii)      aðildarríkin skulu vernda og styrkja öll manngerð og mikið breytt vatnshlot í því skyni að vistmegin þeirra verði gott og efnafræðilegt ástand yfirborðsvatns verði gott eigi síðar en 15 árum eftir gildistökudag þessarar tilskipunar, í samræmi við ákvæðin sem mælt er fyrir um í V. viðauka, með fyrirvara um framlengingu frests skv. 4. mgr. og um beitingu 5., 6. og 7. mgr., samanber þó 8. mgr.,
         iv)      aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir í samræmi við 1. og 8. mgr. 16. gr. með það fyrir augum að draga jafnt og þétt úr mengun af völdum forgangsefna og binda enda á eða stöðva í áföngum sleppingu, veitu og leka hættulegra forgangsefna,
    með fyrirvara um viðkomandi alþjóðasamninga, sem um getur í 1. gr., sem viðkomandi aðilar hafa gert,
  b)      þegar um er að ræða grunnvatn,
         i)      aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir eða takmarka losun mengunarvalda í grunnvatn og koma í veg fyrir að ástand nokkurs grunnvatnshlots versni, samanber þó beitingu 6. og 7. mgr. og 8. mgr. þessarar greinar, og með fyrirvara um beitingu j-liðar 3. mgr. 11. gr.,
         ii)      aðildarríkin skulu vernda, styrkja og endurheimta öll grunnvatnshlot, tryggja jafnvægi milli vatnstöku og endurnýjunar grunnvatns í því skyni að ástand grunnvatns verði orðið gott eigi síðar en 15 árum eftir gildistökudag þessarar tilskipunar, í samræmi við ákvæðin sem mælt er fyrir um í V. viðauka, með fyrirvara um framlengingu frests skv. 4. mgr. og um beitingu 5., 6. og 7. mgr., samanber þó 8. mgr. þessarar greinar og beitingu j- liðar 3. mgr. 11. gr.,
         iii)      aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að snúa við umtalsverðri og viðvarandi, stígandi leitni í styrk hvers kyns mengunarvalda, sem rekja má til starfsemi manna, í því skyni að draga jafnt og þétt úr mengun grunnvatns.
        Ráðstafanir til að snúa við slíkri leitni skulu gerðar í samræmi við 2., 4. og 5. mgr. 17. gr., að teknu tilliti til gildandi staðla, sem settir eru fram í viðkomandi löggjöf Bandalagsins, með fyrirvara um beitingu 6. og 7. mgr., samanber þó 8. mgr.,
  c)      þegar um er að ræða vernduð svæði,
    aðildarríkin skulu hafa uppfyllt allar kröfur og náð öllum markmiðum eigi síðar en 15 árum eftir gildistökudag þessarar tilskipunar, nema kveðið sé á um annað í löggjöf Bandalagsins um vernd einstakra svæða.
2.      Ef fleiri en eitt markmiðanna í 1. mgr. tengist tilteknu vatnshloti skal það gilda sem strangast er.
3.      Aðildarríkin geta tilnefnt yfirborðsvatnshlot sem manngert eða mikið breytt ef:
  a)      breytingar á vatnsformfræðilegum (hydromorphological) eiginleikum, sem væru nauðsynlegar til að vistfræðilegt ástand yrði gott, hefðu umtalsverð, skaðleg áhrif á:
         i)      umhverfið í heild,
         ii)      siglingar, m.a. hafnaraðstöðu, eða afþreyingu,
         iii)      starfsemi sem felur í sér geymslu á vatni, svo sem þar sem séð er fyrir drykkjarvatni, orkuframleiðslu eða áveitu,
         iv)      vatnsstjórnun, flóðavarnir, framræslu lands eða
         v)      aðra jafnmikilvæg, sjálfbær umsvif manna,   b)      markmiðin um ávinning af manngerðum eða breyttum eiginleikum vatnshlotsins geta ekki, vegna þess að þau eru e.t.v. ekki gerleg eða geta ekki vegna óhóflegs kostnaðar, náðst á sanngjarnan hátt með annarri aðferð sem yrði umtalsvert betri kostur með tilliti til umhverfissjónarmiða.
    Geta ber sérstaklega slíkrar tilnefningar og færa rök fyrir henni í stjórnunaráætlunum fyrir vatnasviðaumdæmi, sem krafist er skv. 13. gr. og endurskoðuð er á 6 ára fresti.
4.      Lengja má frestina, sem fram koma í 1. mgr., þegar um er að ræða að ná markmiðum varðandi vatnshlot í áföngum, að því tilskildu að ástand raskaða vatnshlotsins versni ekki frekar að öllum eftirfarandi skilyrðum uppfylltum:
  a)      aðildarríkin komast að þeirri niðurstöðu að ekki sé sanngjarnt að ætlast til þess að unnt verði að gera allar nauðsynlegar umbætur á ástandi vatnshlota innan þeirra tímamarka sem sett eru fram í málsgreininni af a.m.k. einni af eftirfarandi ástæðum:
         i)      af tæknilegum ástæðum er aðeins hægt að sinna þeim umbótum, sem krafist er, í áföngum sem fara yfir tímamörk, vegna umfangs þeirra,
         ii)      óhóflega dýrt yrði að ljúka við umbæturnar innan tímamarka,
         iii)      náttúruleg skilyrði leyfa ekki að umbætur á ástandi vatnshlotsins verði gerðar í tæka tíð.
  b)      Framlenging frestsins og ástæðurnar fyrir henni eru sérstaklega settar fram og útskýrðar í stjórnunaráætluninni fyrir vatnasviðaumdæmið, sem krafist er skv. 13. gr.
  c)      Framlengingarnar takmarkast við tvær frekari uppfærslur á stjórnunaráætluninni fyrir vatnasviðaumdæmið hið mesta, nema þar sem náttúruleg skilyrði eru þannig að ekki er unnt að ná markmiðunum innan þessa tímabils.
  d)      Í stjórnunaráætluninni fyrir vatnasviðaumdæmið er samantekt ráðstafana, sem krafist er skv. 11. gr., sem taldar eru nauðsynlegar til að færa vatnshlotin smám saman nær því ástandi sem krafist er innan framlengda frestsins, auk ástæðna fyrir sérhverri umtalsverðri töf við framkvæmd þessara ráðstafana og tímaáætlunar fyrir framkvæmdina. Í uppfærslum stjórnunaráætlunar fyrir vatnasviðaumdæmið skal vera endurskoðun á framkvæmd þessara ráðstafana og samantekt á öllum viðbótarráðstöfunum.
5.      Aðildarríkin geta stefnt að því að ná umhverfismarkmiðum sem ganga skemur en þau, sem krafist er í 1. mgr., að því er varðar tiltekin vatnshlot, þegar þau hafa orðið fyrir svo miklum áhrifum af starfsemi manna, eins og ákvarðað er í samræmi við 1. mgr. 5. gr., eða náttúruleg skilyrði þeirra eru þannig að það yrði ógerlegt eða óhóflega dýrt að ná þeim markmiðum, að öllum eftirfarandi skilyrðum uppfylltum:
  a)      ekki er hægt að fullnægja þeim umhverfislegu og félagshagfræðilegu þörfum, sem slík starfsemi manna þjónar, með öðrum hætti sem yrði umtalsvert betri kostur með tilliti til umhverfissjónarmiða og hefði ekki í för með sér óhóflega mikinn kostnað,
  b)      aðildarríkin tryggja,
          að besta, hugsanlega, vistfræðilega og efnafræðilega ástand náist að því er varðar yfirborðsvatn, að teknu tilliti til áhrifa sem ekki er hægt að komast hjá með góðu móti sökum eðlis starfsemi manna eða mengunar,
          að minnstu, hugsanlegu breytingar verði á góðu ástandi grunnvatns, að teknu tilliti til áhrifa sem ekki er hægt að komast hjá með góðu móti sökum eðlis starfsemi manna eða mengunar,
  c)      ástand raskaða vatnshlotsins versnar ekki frekar;
  d)      sérstaklega er getið um setningu vægari umhverfismarkmiða og röksemdanna fyrir þeim í stjórnunaráætluninni fyrir vatnasviðaumdæmi, sem krafist er skv. 13. gr. og þessi markmið eru endurskoðuð á 6 ára fresti.
6.      Þótt ástand vatnshlota versni tímabundið telst það ekki brjóta í bága við kröfur þessarar tilskipunar ef það verður af náttúrulegum orsökum eða óviðráðanlegum aðstæðum sem eru óvenjulegar og ekki hefði verið hægt að sjá fyrir með góðu móti, s.s. vegna stórflóða og langvarandi þurrka, eða ef það orsakast af slysum sem ekki hefði verið hægt að sjá fyrir með góðu móti, og að öllum eftirfarandi skilyrðum uppfylltum:
  a)      allar tiltækar ráðstafanir eru gerðar til að koma í veg fyrir að ástandið versni frekar og til að láta þessar aðstæður ekki stefna í hættu því sem áunnist hefur við að ná markmiðum þessarar tilskipunar að því er varðar önnur vatnshlot,
  b)      í stjórnunaráætluninni fyrir vatnasviðaumdæmið eru sett fram skilyrði fyrir því að bera megi fyrir sig aðstæður sem eru óvenjulegar eða sem ekki hefði verið hægt að sjá fyrir með góðu móti, þ.m.t. samþykkt viðeigandi vísbenda,
  c)      ráðstafanirnar, sem grípa skal til við óvenjulegar aðstæður af þessu tagi, er að finna í áætlun um ráðstafanir og koma ekki í veg fyrir að endurheimta megi gæði vatnshlots þegar aðstæðurnar breytast,
  d)      farið er yfir áhrif vegna aðstæðna, sem eru óvenjulegar eða sem ekki hefði verið hægt að sjá fyrir með góðu móti, árlega og, með fyrirvara um ráðstafanirnar sem mælt er fyrir um í a-lið 4. mgr., eru allar tiltækar ráðstafanir gerðar til þess að endurheimta ástand vatnshlotsins eins og það var áður en aðstæðurnar sköpuðust, svo fljótt sem unnt er og
  e)      samantekt um áhrif vegna aðstæðnanna og ráðstafanirnar, sem gerðar voru eða sem munu verða gerðar í samræmi við a- og d-lið, eru í næstu uppfærslu af stjórnunaráætluninni fyrir vatnasviðaumdæmið.
7.      Aðildarríkin teljast ekki brjóta í bága við þessa tilskipun ef:
     ástæðuna fyrir því ekki tókst að ná fram góðu ástandi vatns, góðu vistfræðilegu ástandi eða, þar sem við á, góðu vistmegni eða koma í veg fyrir að ástand yfirborðsvatnshlots eða grunnvatnshlots versnaði má rekja til nýorðinna breytinga á eðlisrænum eiginleikum yfirborðsvatnshlotsins eða breytinga á hæð grunnvatnshlota eða
     ástæðuna fyrir því að ekki tókst að koma í veg fyrir að ástand yfirborðsvatnshlots breyttist úr mjög góðu ástandi í gott ástand má rekja til nýrrar sjálfbærra umsvifa manna,
og að öllum eftirfarandi skilyrðum uppfylltum:
  a)      allar tiltækar ráðstafanir eru gerðar til að draga úr skaðlegum áhrifum á ástand vatnshlotsins,
  b)      ástæðurnar fyrir þessum breytingum eru sérstaklega tilgreindar og útskýrðar í stjórnunaráætluninni fyrir vatnasviðaumdæmið, sem krafist er skv. 13. gr. og markmiðin eru endurskoðuð á sex ára fresti,
  c)      ástæðurnar fyrir þessum lagfæringum eða breytingum eru þyngri á metunum vegna almannaheilla og/eða ávinningurinn af nýju breytingunum fyrir heilsu og öryggi manna eða sjálfbæra þróun vega þyngra en ávinningur umhverfisins og þjóðfélagsins af því að markmiðin í 1. mgr. náist og
  d)      markmiðin um ávinning af þessum breytingum á vatnshlotinu geta ekki, vegna þess að þau eru e.t.v. ekki gerleg eða geta ekki vegna óhóflegs kostnaðar, náðst á sanngjarnan hátt með annarri aðferð sem yrði umtalsvert betri kostur með tilliti til umhverfissjónarmiða.
8.      Við beitingu 3., 4., 5., 6. og 7. mgr. skal aðildarríki tryggja að beitingin útiloki hvorki né stefni í hættu markmiðum þessarar tilskipunar að því er varðar önnur vatnshlot á sama vatnasviðaumdæmi og að hún samrýmist framkvæmd annarrar umhverfislöggjafar Bandalagsins.
9.      Gera verður ráðstafanir til að tryggja að beiting nýrra ákvæða, þ.m.t. beiting 3., 4., 5., 6. og 7. mgr., tryggi a.m.k. sömu vernd og gildandi löggjöf Bandalagsins.

5. gr.
Eiginleikar vatnasviðaumdæmisins, endurskoðun á umhverfisáhrifum af mannavöldum og efnahagsleg greining á vatnsnotkun

1.      Sérhvert aðildarríki skal tryggja að fyrir hvert vatnasviðaumdæmi eða hluta af alþjóðlegu vatnasviðaumdæmi, sem heyrir undir yfirráðasvæði þess, fari fram:
     greining á eiginleikum þess,
     mat á áhrifum af starfsemi manna á ástand yfirborðsvatns og grunnvatns og
     efnahagsleg greining á vatnsnotkun,
í samræmi við tækniforskriftirnar, sem settar eru fram í II. og III. viðauka, og að þeim sé lokið eigi síðar en fjórum árum eftir gildistökudag þessarar tilskipunar.
2.      Fara skal yfir greiningarnar og matið, sem um er rætt í 1. mgr., og uppfæra þau, ef nauðsyn krefur, eigi síðar en 13 árum eftir gildistökudag þessarar tilskipunar og á sex ára fresti eftir það.

6. gr.
Skrá yfir vernduð svæði

1.      Aðildarríkin skulu tryggja að komið verði upp skrá, eða skrám, yfir öll svæði innan hvers vatnasviðaumdæmis, sem tilgreind hafa verið vegna þess að þau þurfi sérstakrar verndar við samkvæmt sérstakri löggjöf Bandalagsins til verndar yfirborðsvatni og grunnvatni þeirra eða til verndar búsvæða og tegunda sem eru beint háð vatni. Þau skulu tryggja að skráin sé fullgerð eigi síðar en fjórum árum eftir gildistökudag þessarar tilskipunar.
2.      Skráin eða skrárnar skulu taka til allra vatnshlota, sem tilgreind eru skv. 1. mgr. 7. gr., og allra verndaðra svæða sem heyra undir IV. viðauka.
3.      Endurskoða ber og uppfæra skrána eða skrárnar yfir vernduð svæði fyrir sérhvert vatnasviðaumdæmi

7. gr.
Vatn sem er notað til töku drykkjarvatns

1.      Aðildarríkin skulu tilgreina, innan hvers vatnasviðaumdæmis
     öll vatnshlot sem eru notuð til neysluvatnstöku sem nemur meira en 10 m 3 af vatni á dag að meðaltali eða sem sjá fleiri en fimmtíu manns fyrir vatni og
     vatnshlot þar sem slík notkun er fyrirhuguð í framtíðinni.
Aðildarríkin skulu, í samræmi við V. viðauka, vakta þau vatnshlot sem, í samræmi við ákvæði V. viðauka, gefa af sér meira en 100 m 3 af vatni á dag að meðaltali.
2.      Auk þess að ná markmiðum 4. gr., í samræmi við kröfur þessarar tilskipunar, að því er varðar yfirborðsvatnshlot, þ.m.t. gæðakröfurnar sem komið var á vettvangi Bandalagsins skv. 16. gr., skulu aðildarríkin tryggja að vatn frá sérhverju vatnshloti, sem tilgreint er skv. 1. mgr., uppfylli kröfur tilskipunar 80/778/EBE eins og henni var breytt með tilskipun 98/83/EB, samkvæmt gildandi fyrirkomulagi um vatnshreinsun og í samræmi við löggjöf Bandalagsins.
3.      Aðildarríki skulu tryggja nauðsynlega vernd vatnshlotanna, sem tilgreind eru, í því skyni að varna því að gæði þeirra minnki og draga þannig úr þeirri hreinsun sem þörf er á við framleiðslu drykkjarvatns. Aðildarríkin geta komið á verndarsvæðum umhverfis slík vatnshlot.

8. gr.
Vöktun á ástandi yfirborðsvatns og grunnvatns og vöktun verndaðra svæða

1.      Aðildarríkin skulu tryggja að komið verði á áætlunum um vöktun á ástandi vatns til að skapa samfellda heildaryfirsýn yfir ástand vatns innan hvers vatnasviðaumdæmis:
     að því er varðar yfirborðsvatn skulu slíkar áætlanir taka til:
       i)      magns og hæðar vatnsborðs eða hraða rennslisins að því marki sem nauðsynlegt er með tilliti til vist- og efnafræðilegs ástands og vistmegins og
       ii)      vist- og efnafræðilegs ástands og vistmegins,
     að því er varðar grunnvatn skulu slíkar áætlanir taka til vöktunar á efnafræðilegu ástandi og magnstöðu,
     að því er varðar vernduð svæði skulu forskriftirnar, sem er að finna í löggjöf Bandalagsins og sem verndarsvæðin falla undir, koma til viðbótar við framangreindar áætlanir.
2.      Þessar áætlanir skulu koma til framkvæmdar eigi síðar en sex árum eftir gildistökudag þessarar tilskipunar, nema kveðið sé á um annað í viðkomandi löggjöf. Slík vöktun skal vera í samræmi við kröfur V. viðauka.
3.      Mælt skal fyrir um tækniforskriftir og staðlaðar aðferðir við greiningu á og vöktun á ástandi vatns í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 21. gr.

9. gr.
Endurheimt kostnaðar vegna vatnsþjónustu

1.      Aðildarríkin skulu taka tillit til meginreglunnar um endurheimt kostnaðar vegna vatnsþjónustu, þ.m.t. umhverfiseða auðlindatengdur kostnaður, með hliðsjón af efnahagslegu greiningunni sem gerð er í samræmi við III. viðauka, einkum í samræmi við mengunarbótaregluna. Eigi síðar en 2010 skulu aðildarríkin sjá til þess:
     að stefna í verðlagningu vatns verði notendum nægileg hvöt til þess að nýta vatnsauðlindir á hagkvæman hátt og styðji þannig við umhverfismarkmið þessarar tilskipunar,
     að frá hinum ýmsu sviðum vatnsnotkunar, sem verði sundurliðuð í a.m.k. atvinnulíf, heimili og landbúnað, komi framlag fyrir kostnaði vegna vatnsþjónustu, á grundvelli efnahagslegu greiningarinnar sem gerð var skv. III. viðauka og með tilliti til mengunarbótareglunnar.
Aðildarríkin geta, í þessu samhengi, tekið tillit til félagslegra áhrifa, umhverfisáhrifa og efnahagslegra áhrifa við endurheimt þessa kostnaðar, auk landfræðilegra skilyrða og loftslagsskilyrða svæðisins eða svæðanna sem verða fyrir áhrifum.
2.      Í stjórnunaráætlunum fyrir vatnasviðaumdæmi skulu aðildarríkin gefa upplýsingar um fyrirhugaðar ráðstafanir til framkvæmdar á 1. mgr., sem munu stuðla að því að umhverfismarkmið þessarar tilskipunar náist, sem og hve mikið framlag kemur frá hinum ýmsu sviðum vatnsnotkunar til að mæta kostnaði vegna vatnsþjónustu.
3.      Ekkert í þessari grein kemur í veg fyrir að fjármagnaðar séu tilteknar forvarnaráðstafanir eða ráðstafanir til úrbóta er miða að því að markmið tilskipunarinnar náist.
4.      Aðildarríkin teljast ekki brjóta í bága við þessa tilskipun ef þau ákveða, í samræmi við venjur, að beita ekki ákvæðum annars málsliðar 1. mgr., og í því skyni viðeigandi ákvæðum 2. mgr., við tiltekna starfsemi er krefst vatnsnotkunar ef það stefnir ekki tilgangi og markmiðum tilskipunarinnar í hættu. Ef aðildarríkin beita ekki öðrum málslið 1. mgr. að fullu í stjórnunaráætlunum fyrir vatnasviðaumdæmi skulu þau gera grein fyrir ástæðunum fyrir því.

10. gr.
Samræmd aðferð fyrir punktupptök og dreifð upptök mengunar

1.      Aðildarríkin skulu sjá til þess að stjórnun sé höfð á allri sleppingu, sem um getur í 2. mgr., í yfirborðsvatn í samræmi við samræmdu aðferðina sem mælt er fyrir um í þessari grein.
2.      Aðildarríkin skulu sjá til þess að komið sé á og/eða beitt:
  a)      stjórnun á losun sem byggir á fullkomnustu tækni sem völ er á eða
  b)      viðeigandi losunarmörkum eða
  c)      stjórnun, ef um er að ræða dreifð áhrif, sem felur í sér, eftir því sem við á, bestu starfsvenjur í umhverfismálum,
sem mælt er fyrir um í:
     tilskipun ráðsins 96/61/EB frá 24. september 1996 um samþættar mengunarvarnir og eftirlit með mengun ( 1),
     tilskipun ráðsins 91/271/EBE frá 21. maí 1991 um hreinsun skólps frá þéttbýli ( 2),
     tilskipun ráðsins 91/676/EBE frá 12. desember 1991 um verndun vatns gegn mengun af völdum nítrata úr landbúnaði ( 3),
     tilskipununum sem samþykktar eru skv. 16. gr. þessarar tilskipunar,
     tilskipununum sem eru taldar upp í IX. viðauka,
     allri annarri viðeigandi löggjöf Bandalagsins,
eigi síðar en tólf árum eftir gildistökudag þessarar tilskipunar, nema kveðið sé á um annað í viðkomandi löggjöf.
3.      Ef krafist er strangari skilyrða en þeirra sem beiting 2. mgr. hefði í för með sér, samkvæmt gæðamarkmiði eða gæðakröfu, hvort sem þeim er komið á samkvæmt þessari tilskipun eða tilskipununum sem eru taldar upp í IX. viðauka eða samkvæmt einhverri annarri löggjöf Bandalagsins, skal komið á strangari stjórnun á losun í samræmi við það.

11. gr.
Áætlun um ráðstafanir

1.      Sérhvert aðildarríki skal sjá til þess að fyrir hvert vatnasviðaumdæmi, eða hluta af alþjóðlegu vatnasviðaumdæmi á yfirráðasvæði þess, sé komið á áætlun um ráðstafanir þar sem tekið er tillit til niðurstaðna úr greiningunum, sem krafist er skv. 5. gr., til að markmiðin, sem sett eru í 4. gr. náist. Slíkar áætlanir um ráðstafanir geta vísað til ráðstafana í kjölfar löggjafar, sem samþykkt hefur verið ávettvangi tiltekins aðildarríkis og nær til alls yfirráðasvæðis þess.
________________
( 1 )     Stjtíð. EB L 257, 10.10.1996, bls.26.
( 2 )     Stjtíð. EB L 135, 30.5.1991, bls. 40. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 98/15/EB (Stjtíð. EB L 67, 7.3.1998, bls. 29).
( 3 )     Stjtíð. EB L 375, 31.12.1991, bls.1.

Þar sem við á getur aðildarríki samþykkt ráðstafanir sem gilda um öll vatnasviðaumdæmi og/eða hluta alþjóðlegra vatnasviðaumdæma á yfirráðasvæði þess.
2.      Sérhver áætlun um ráðstafanir skal taka til „grunnráðstafananna“, sem tilgreindar eru í 3. mgr., auk „viðbótarráðstafana“, þar sem nauðsyn ber til.
3.      „Grunnráðstafanir“ eru eftirfarandi lágmarkskröfur sem uppfylla þarf:
  a)      ráðstafanir, sem krafist er til framkvæmdar á löggjöf Bandalagsins um vernd vatns, þ.m.t. ráðstafanir sem krafist er samkvæmt löggjöfinni sem tilgreind er í 10. gr. og í Ahluta VI. viðauka,
  b)      ráðstafanir sem teljast viðeigandi vegna 9. gr.,
  c)      ráðstafanir til að stuðla að hagkvæmri og sjálfbærri vatnsnotkun til að markmiðunum, sem tilgreind eru í 4. gr., sé ekki stefnt í hættu,
  d)      ráðstafanir til að uppfylla kröfur 7. gr., þ.m.t ráðstafanir til að standa vörð um gæði vatns til að draga úr þeirri hreinsun sem þörf er á við framleiðslu drykkjarvatns,
  e)      kvaðir varðandi töku fersks yfirborðsvatns og grunnvatns og miðlun fersks yfirborðsvatns, þ.m.t. skrá eða skrár yfir vatnstöku og krafa um að leyfi fyrir vatnstöku og -miðlun sé fengið fyrir fram. Þessar kvaðir skal endurskoða reglulega og uppfæra ef nauðsyn ber til. Aðildarríkin geta veitt undanþágu frá þessari stjórnun vegna vatnstöku eða -miðlunar sem ekki hefur umtalsverð áhrif á ástand vatns,
  f)      kvaðir, þ.m.t. krafa um að leyfi fyrir endurnýjun eða stækkun grunnvatnshlota af mannavöldum sé fengið fyrir fram. Vatnið, sem notað er, má vera tekið úr hvaða yfirborðsvatni eða grunnvatni sem er að því tilskildu að notkun uppsprettunnar stefni ekki í hættu umhverfismarkmiðunum sem sett voru fyrir hana eða endurnýjaða eða stækkaða grunnvatnshlotið. Þessar kvaðir skal endurskoða reglulega og uppfæra ef nauðsyn ber til,
  g)      krafa um að reglusetning, að því er varðar sleppingu frá punktupptökum, sem valdið getur mengun, sé sett fyrir fram, s.s. bann við losun mengunarvalda í vatn, eða um fyrirframleyfi eða skráningu sem byggir á almennum, bindandi reglum þar sem mælt er fyrir um stjórn á losun viðkomandi mengunarvalda, þ.m.t. stjórnun í samræmi við 10. og 16. gr. Þessa stjórnun skal endurskoða reglulega og uppfæra ef nauðsyn ber til,
  h)      ráðstafanir, að því er varðar dreifð upptök sem geta valdið mengun, til að koma í veg fyrir eða stjórna aðflutningi mengunarvalda. Kvaðirnar geta verið fólgnar í kröfu um að reglur séu settar fyrir fram, s.s. banni við losun mengunarvalda í vatn, fyrirframleyfi eða skráningu sem byggir á almennum, bindandi reglum, ef ekki er kveðið annars staðar á um slíka kröfu í löggjöf Bandalagsins. Þessar kvaðir skal endurskoða reglulega og uppfæra ef nauðsyn ber til,
  i)      einkum ráðstafanir, að því er varðar önnur umtalsverð, skaðleg áhrif á ástand vatns sem tilgreind eru skv. 5. gr. og II. viðauka, til að sjá til þess að vatnsformfræðileg skilyrði vatnshlotanna séu í samræmi við vistfræðilegt ástand sem krafist er eða gott vistmegin fyrir vatnshlot sem tilgreind eru sem manngerð eða mikið breytt. Slíkar kvaðir geta verið fólgnar í kröfu um fyrirframleyfi eða skráningu sem byggir á almennum, bindandi reglum, ef ekki er kveðið annars staðar á um slíka kröfu í löggjöf Bandalagsins. Þessar kvaðir skal endurskoða reglulega og uppfæra ef nauðsyn ber til,
  j)      bann við beinni sleppingu mengunarvalda í grunnvatn með fyrirvara um eftirfarandi ákvæði:
    aðildarríkin geta leyft að vatn, sem er notað í tengslum við jarðhita, sé dælt aftur inn í sama veiti og það var tekið úr.
    Þau geta einnig leyft, að uppfylltum tilgreindum skilyrðum:
          ídælingu vatns sem inniheldur efni frá vetniskolefnaleit og -töku eða námuvinnslu og ídælingu vatns af tæknilegum ástæðum í jarðmyndanir, sem vetniskolefni eða önnur efni hafa verið unnin úr, eða í jarðmyndanir sem af náttúrulegum ástæðum koma ekki til með að henta til annarra nota. Í slíku ídælingarvatni skulu ekki vera önnur efni en þau sem koma frá framangreindri starfsemi,
          endurídælingu grunnvatns, sem dælt er frá grjótnámum eða öðrum námum, eða vatns sem tengist smíði eða viðhaldi mannvirkja;
          ídælingu jarðgass eða fljótandi jarðolíugass til geymslu í jarðmyndunum sem af náttúrulegum ástæðum koma ekki til með að henta til annarra nota,
          ídælingu jarðgass eða fljótandi jarðolíugass til geymslu í öðrum jarðmyndunum þar sem brýn þörf er á öruggum gasbirgðum og þar sem ídælingin er þannig að komið er í veg fyrir hættu á að dragi úr gæðum þess grunnvatns sem þar kann að vera, nú eða í framtíðinni,
          byggingu og smíði mannvirkja og annarra hluta og svipaða starfsemi á eða í jörðu sem kemst í snertingu við grunnvatn. Í því skyni geta aðildarríkin ákveðið að líta beri á slíka starfsemi eins og veitt hafi verið leyfi fyrir henni fyrir fram, að því tilskildu að hún fari fram í samræmi við almennar, bindandi reglur sem aðildarríkin þróa í sambandi við slíka starfsemi,
          sleppingu lítils magns efna í vísindaskyni til að lýsa eiginleikum, vernda eða bæta vatnshlot, er takmarkist við það magn sem er algjörlega nauðsynlegt í viðkomandi tilgangi,
    að því tilskildu að slík slepping stefni ekki umhverfismarkmiðunum, sem sett voru fyrir viðkomandi vatnshlot, í hættu.
  k)      ráðstafanir, í samræmi við aðgerðina sem fram fór skv. 16. gr., til að uppræta mengun yfirborðsvatns af völdum efnanna, sem tilgreind eru á skrá yfir forgangsefni sem samþykkt er skv. 2. mgr. 16. gr. og að draga jafnt og þétt úr mengun af völdum annarra efna sem annars myndu hindra aðildarríkin í að ná markmiðum sínum að því er varðar yfirborðsvatnshlot, eins og mælt er fyrir um í 4. gr.,
  l)      allar ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að koma í veg fyrir umtalsverðan leka mengunarvalda frá tæknibúnaði og koma í veg fyrir og/eða draga úr áhrifum mengunarslysa, t.d. í kjölfar flóða, þ.m.t. með kerfi til að nema eða vara við slíkum atburðum, m.a. þegar um er að ræða ófyrirsjáanleg slys, allar nauðsynlegar ráðstafanir til að draga úr hættu fyrir vatnavistkerfi.
4.      „Viðbótarráðstafanir“ eru ráðstafanir sem skipulagðar eru og framkvæmdar, til viðbótar við grunnráðstafanirnar, til að markmiðunum, sem sett voru skv. 4. gr., verði náð. Í B-hluta VI. viðauka er skrá, sem er ekki tæmandi, yfir slíkar ráðstafanir.
Aðildarríkin geta einnig samþykkt frekari viðbótarráðstafanir til að vernda enn frekar eða bæta vatn, sem fellur undir þessa tilskipun, þ.m.t með framkvæmd viðeigandi alþjóðasamninga sem um getur í 1. gr.
5.      Ef vöktunargögn eða önnur gögn gefa til kynna að ólíklegt sé að markmiðin, sem sett voru í 4. gr. fyrir vatnshlot, náist skal aðildarríkið sjá til þess:
     að hugsanlegar orsakir þess að markmiðin náist ekki séu rannsakaðar,
     að viðeigandi heimildir og leyfi séu rannsökuð og endurskoðuð eftir því sem við á,
     að vöktunaráætlanir séu endurskoðaðar og aðlagaðar eftir því sem við á og
     að komið sé á viðbótarráðstöfunum, sem kunna að vera nauðsynlegar til að þessi markmið náist, þ.m.t. setning strangari umhverfisgæðakrafna, eftir því sem við á, samkvæmt málsmeðferð sem mælt er fyrir um í V. viðauka.
Ef um er að ræða náttúrulegar orsakir eða óviðráðanlegar aðstæður, sem eru óvenjulegar og ekki hefði verið hægt að sjá fyrir með góðu móti, s.s. stórflóð og langvarandi þurrka, geta aðildarríkin ákveðið að viðbótarráðstafanir séu ekki framkvæmanlegar, með fyrirvara um 6. mgr. 4. gr.
6.      Við framkvæmd ráðstafana skv. 3. mgr. skulu aðildarríki gera allar viðeigandi ráðstafanir til að varna því að mengun í sjó aukist. Með fyrirvara um gildandi löggjöf má beiting ráðstafana, sem gerðar eru skv. 3. mgr., aldrei leiða til aukinnar mengunar yfirborðsvatns, hvorki beint né óbeint. Þessi krafa gildir ekki ef hún leiðir til aukinnar mengunar umhverfisins í heild.
7.      Gera skal áætlanir um ráðstafanir eigi síðar en níu árum eftir gildistökudag þessarar tilskipunar og allar ráðstafanirnar skulu framkvæmdar eigi síðar en tólf árum eftir þann dag.
8.      Áætlanir um ráðstafanir skulu endurskoðaðar og, ef nauðsyn ber til, uppfærðar eigi síðar en 15 árum eftir gildistökudag þessarar tilskipunar og á sex ára fresti eftir það. Allar nýjar eða endurskoðaðar ráðstafanir, sem ákveðnar eru samkvæmt uppfærðri áætlun, skulu framkvæmdar innan þriggja ára eftir að þær voru ákveðnar.

12. gr.
Álitaefni sem ekki er unnt að ráða fram úr á vettvangi aðildarríkja

1.      Ef upp kemur álitaefni hjá aðildarríki, sem hefur áhrif á stjórnun vatnsmála þess en ríkið getur ekki ráðið fram úr, getur það tilkynnt um málið til framkvæmdastjórnarinnar og þeirra aðildarríkja, sem málið kann að varða, og lagt fram tillögur að lausn þess.
2.      Framkvæmdastjórnin skal bregðast við öllum skýrslum eða tillögum frá aðildarríkjum innan sex mánaða.

13. gr.
Stjórnunaráætlanir fyrir vatnasviðaumdæmi

1.      Aðildarríki skulu sjá til þess að gerð sé stjórnunaráætlun fyrir hvert vatnasviðaumdæmi sem liggur að öllu leyti innan yfirráðasvæðis þess.
2.      Ef um er að ræða alþjóðlegt vatnasviðaumdæmi sem liggur að öllu leyti innan Bandalagsins skulu aðildarríki tryggja samræmi með það fyrir augum að gera eina alþjóðlega stjórnunaráætlun fyrir vatnasviðaumdæmið. Ef ekki er gerð slík alþjóðleg stjórnunaráætlun fyrir vatnasviðaumdæmi skulu aðildarríkin gera stjórnunaráætlun fyrir vatnasviðaumdæmið sem nær a.m.k. til þeirra hluta alþjóðlega vatnasviðaumdæmisins sem liggja innan yfirráðasvæðis þeirra til að uppfylla markmið þessarar tilskipunar.
3.      Ef um er að ræða alþjóðlegt vatnasviðaumdæmi, sem nær út fyrir landamæri Bandalagsins, skulu aðildarríkin kappkosta að gera eina stjórnunaráætlun fyrir vatnasviðaumdæmið en, ef það er ekki gerlegt, skal áætlunin a.m.k. taka til þess hluta alþjóðlega vatnasviðaumdæmisins sem liggur innan yfirráðasvæðis viðkomandi aðildarríkis.
4.      Í stjórnunaráætluninni fyrir vatnasviðaumdæmi skulu vera upplýsingarnar sem tilgreindar eru í VII. viðauka.
5.      Til viðbótar við stjórnunaráætlun fyrir vatnasviðaumdæmi geta komið ítarlegri áætlanir og umsýsluáætlanir fyrir undirvatnasvið, geira, málefni, eða gerð vatns sem fjalla um einstaka þætti vatnsstjórnunar. Framkvæmd þessara ráðstafana skal ekki leysa aðildarríkin undan neinum af skuldbindingum sínum samkvæmt öðrum ákvæðum þessarar tilskipunar.
6.      Stjórnunaráætlanir fyrir vatnasviðaumdæmi skulu birtar eigi síðar en níu árum eftir gildistökudag þessarar tilskipunar.
7.      Stjórnunaráætlanir fyrir vatnasviðaumdæmi skulu endurskoðaðar og uppfærðar eigi síðar en 15 árum eftir gildistökudag þessarar tilskipunar og á sex ára fresti eftir það.

14. gr.
Opinber upplýsingagjöf og samráð við almenning

1.      Aðildarríkin skulu hvetja alla hagsmunaaðila til virkrar þátttöku við framkvæmd þessarar tilskipunar, einkum við að semja, endurskoða og uppfæra stjórnunaráætlanir fyrir vatnasviðaumdæmi. Aðildarríkin skulu tryggja að fyrir hvert vatnasviðaumdæmi sé eftirfarandi birt og almenningi, þ.m.t. notendur, gert kleift að koma á framfæri athugasemdum við það:
  a)      tíma- og vinnuáætlun fyrir gerð áætlunarinnar, þ.m.t. yfirlýsing um þær ráðstafanir um samráð sem gera á, a.m.k. þremur árum áður en tímabilið, sem áætlunin vísar til, hefst;
  b)      bráðabirgðayfirlit yfir mikilvæg mál í sambandi við vatnsstjórnun, sem upp koma varðandi vatnasviðið, eigi síðar en tveimur árum áður en tímabilið, sem áætlunin vísar til, hefst;
  c)      afrit að uppkasti stjórnunaráætlunar fyrir vatnasviðaumdæmi eigi síðar en einu ári áður en tímabilið, sem áætlunin vísar til, hefst.
Ef um það er beðið skal veita aðgang að þeim skjölum og upplýsingum sem notuð eru við samningu á uppkasti stjórnunaráætlunar fyrir vatnasviðaumdæmið.
2.      Aðildarríkin skulu gefa a.m.k. sex mánaða frest til að koma á framfæri skriflegum athugasemdum um þessi skjöl til að virk þátttaka og samráð séu möguleg.
3.      Ákvæði 1. og 2. mgr. gilda einnig um uppfærðar stjórnunaráætlanir fyrir vatnasviðaumdæmi.

15. gr.
Skýrslugjöf

1.      Aðildarríkin skulu senda afrit af stjórnunaráætlunum fyrir vatnasviðaumdæmi og öllum uppfærslum þeirra til framkvæmdastjórnarinnar og þeirra aðildarríkja, sem málið kann að varða, innan þriggja mánaða frá birtingu þeirra sem hér segir:
  a)      að því er varðar vatnasviðaumdæmi sem liggja að öllu leyti innan yfirráðsvæðis aðildarríkis: allar stjórnunaráætlanir fyrir vatnasviðaumdæmi sem taka til þess yfirráðasvæðis og eru birtar skv. 13. gr.,
  b)      að því er varðar alþjóðleg vatnasviðaumdæmi: a.m.k. þann hluta stjórnunaráætlana fyrir vatnasviðaumdæmi sem tekur til yfirráðasvæðis þess aðildarríkis.
2.      Aðildarríkin skulu leggja fram yfirlitsskýrslur um:
     greiningarnar, sem krafist er í 5. gr. og
     vöktunaráætlanirnar sem lýst er í 8. gr.,
sem framkvæmdar eru með hliðsjón af fyrstu stjórnunaráætluninni fyrir vatnasviðaumdæmi innan þriggja mánaða frá því að þær eru fullgerðar.
3.      Aðildarríkin skulu, innan þriggja ára frá birtingu hverrar stjórnunaráætlunar fyrir vatnasviðaumdæmi eða uppfærslu hennar skv. 13. gr., leggja fram bráðabirgðaskýrslu um það hvernig framkvæmd fyrirhuguðu áætlunarinnar um ráðstafanir vindur fram.

16. gr.
Áætlanir gegn vatnsmengun

1.      Evrópuþingið og ráðið skulu samþykkja sérstakar ráðstafanir gegn vatnsmengun af völdum stakra mengunarvalda eða flokka mengunarvalda sem skapa umtalsverða hættu fyrir vatnsumhverfi eða út frá því, þ.m.t. gegn slíkri hættu fyrir vatn þar sem drykkjarvatn er tekið. Að því er varðar þessa mengunarvalda skulu ráðstafanir beinast að því að draga jafnt og þétt úr þeim og, að því er varðar hættuleg forgangsefni, eins og þau eru skilgreind í 30. mgr. 2. gr., að því að binda enda á eða stöðva í áföngum sleppingu, losun og leka þeirra. Slíkar ráðstafanir skulu samþykktar samkvæmt tillögum sem framkvæmdastjórnin leggur fram í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í sáttmálanum.
2.      Framkvæmdastjórnin skal leggja fram tillögu, þar sem sett er fram skrá yfir forgangsefni sem eru valin úr þeim sem skapa umtalsverða hættu fyrir vatnsumhverfi eða út frá því. Efnum skal raðað í forgangsröð, að því er varðar aðgerðir, á grundvelli þess hve mikla hættu þau skapa fyrir vatnsumhverfi eða út frá því, sem greind er með:
  a)      áhættumati, sem unnið er samkvæmt reglugerð ráðsins (EBE) nr. 793/93 ( 1), tilskipun ráðsins 91/414/EBE ( 2), og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/8/EB ( 3) eða
  b)      markvissu mati byggðu á áhættu (þar sem fylgt er aðferðum reglugerðar (EBE) nr. 793/93) þar sem athyglinni er eingöngu beint að visteiturhrifum í vatni og að eiturhrifum á menn frá vatnsumhverfi.
Ef nauðsyn krefur skal raða efnum í forgangsröð að því er varðar aðgerðir, í því skyni að geta staðist tímaáætlunina sem mælt er fyrir um í 4. mgr., á grundvelli þess hve mikla hættu þau skapa fyrir vatnsumhverfi eða út frá því, sem greind er með einfaldri matsaðferð byggðri á áhættu sem grundvallast á vísindalegum meginreglum þar sem einkum er tekið tillit til:
     vísbendinga um eðlislæga hættu af viðkomandi efnum, einkum að því er varðar visteiturhrif þeirra í vatni og eiturhrif á menn í gegnum vatn og
     vísbendinga sem fengnar eru með vöktun á útbreiddri umhverfismengun og
     annarra staðfestra þátta sem gefa til kynna að um útbreidda umhverfismengun geti verið að ræða, s.s. magns viðkomandi efna, sem framleitt er eða notað, og notkunarmynsturs þess.
3.      Í tillögu framkvæmdastjórnarinnar skulu hættuleg forgangsefni einnig tilgreind. Í því sambandi skal framkvæmdastjórnin taka tillit til valsins á viðkomandi efnum sem fram fór í viðeigandi löggjöf Bandalagsins um hættuleg efni eða viðkomandi alþjóðasamninga.
4.      Framkvæmdastjórnin skal endurskoða samþykkta skrá yfir forgangsefni eigi síðar en fjórum árum eftir gildistökudag þessarar tilskipunar og a.m.k. á fjögurra ára fresti eftir það og leggja fram tillögur eins og við á.
________________
( 1 )     Stjtíð. EB L 84, 5.4.1993, bls. 1.
( 2 )     Stjtíð. EB L 230, 19.8.1991, bls. 1. Tilskipunin eins og henni var breytt með tilskipun 98/47/EB (Stjtíð. EB L 191, 7.7.1998, bls. 50).
( 3 )     Stjtíð. EB L 123, 24.4.1998,bls. 1. 5.      Við undirbúning tillögu sinnar skal framkvæmdastjórnin taka tillit til tilmæla frá vísindanefndinni um eiturhrif, visteiturhrif og umhverfi, frá aðildarríkjunum, Evrópuþinginu, Umhverfisstofnun Evrópu, aðstandendum rannsóknarverkefna Bandalagsins, alþjóðastofnunum, sem Bandalagið er aðili að, evrópskum viðskiptastofnunum, þ.m.t þær sem eru í forsvari fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki, evrópskum umhverfissamtökum, svo og til annarra upplýsinga sem henni eru veittar og skipta máli.
6.      Að því er varðar forgangsefni skal framkvæmdastjórnin leggja fram tillögur um eftirlit með:
     því að dregið sé jafnt og þétt úr sleppingu, losun og leka viðkomandi efna og einkum
     með því að bundinn sé endi á eða dregið verði í áföngum úr sleppingu, losun og leka efnanna, eins og tilgreint er skv. 3. mgr., ásamt viðeigandi tímaáætlun fyrir það. Tímaáætlunin skal ekki vera til lengri tíma en til tuttugu ára frá samþykkt Evrópuþingsins og ráðsins á þessum tillögum í samræmi við ákvæði þessarar greinar.
Framkvæmdastjórnin ákveður í því sambandi samsetningu eftirlits, sem skal vera viðeigandi, kostnaðarhagkvæmt og sanngjarnt, með framleiðslu- og vinnsluferli, bæði fyrir stök og dreifð upptök með tilliti til samræmdra losunarmarka í gervöllu Bandalaginu að því er varðar eftirlitið með ferlinu. Þar sem við á, má hefja aðgerðir á vettvangi Bandalagsins, að því er varðar eftirlit með ferlinu, innan hvers sviðs fyrir sig. Ef endurskoðun á viðkomandi leyfum, sem gefin eru út samkvæmt tilskipun 91/414/EBE og tilskipun 98/8/EB, er innifalin í framleiðslueftirliti skal slík endurskoðun fara fram í samræmi við ákvæði þeirra tilskipana. Í sérhverri tillögu um eftirlit skal tilgreina tilhögun við endurskoðun þess, uppfærslu og mat á skilvirkni þess.
7.      Framkvæmdastjórnin skal leggja fram tillögur um gæðakröfur sem gilda um styrk forgangsefna í yfirborðsvatni, setlögum eða lífríkinu.
8.      Framkvæmdastjórnin skal í samræmi við 6. og 7. gr. leggja fram tillögur innan tveggja ára frá því að viðkomandi efni var sett á skrá yfir forgangsefni, a.m.k. varðandi stjórn losunar frá punktupptökum og umhverfisgæðakröfur. Ef ekki er til samningur á vettvangi Bandalagins sex árum eftir gildistökudag þessarar tilskipunar skulu aðildarríkin setja umhverfisgæðakröfur fyrir efnin á fyrstu forgangsskránni fyrir allt yfirborðsvatn sem spillt hefur verið með sleppingu þessara efna og koma á stjórn á helstu upptökum slíkrar sleppingar, sem byggist m.a. á því að vega og meta alla tæknilega kosti til að draga úr henni. Ef ekki er til samningur á vettvangi Bandalagsins skulu aðildarríkin grípa til aðgerða að því er varðar efnin, sem í kjölfar þessa eru sett á skrá yfir forgangsefni, fimm árum eftir að þau voru sett á skrána.
9.      Framkvæmdastjórnin getur undirbúið áætlun gegn vatnsmengun af völdum annarra mengunarvalda eða flokka mengunarvalda, þ.m.t. vegna mengunarslysa.
10.      Við undirbúning tillagna sinna skv. 6. og 7. mgr. skal framkvæmdastjórnin einnig endurskoða allar tilskipanir sem eru tilgreindar í IX. viðauka. Hún skal leggja til, áður en fresturinn skv. 8. mgr. rennur út, endurskoðun á stjórnuninni sem um getur í IX. viðauka að því er varðar öll efni á skrá yfir forgangsefni og koma með tillögu um viðeigandi ráðstafanir, þ.m.t. þann kost að fella niður stjórnun skv. IX. viðauka að því er varðar öll önnur efni.
Öll ákvæði um stjórnun, sem um getur í IX. viðauka og lagt hefur verið til að verði endurskoðuð, falla úr gildi á gildistökudegi þessara endurskoðana.
11.      Skráin yfir forgangsefni, sem framkvæmdastjórnin gerði tillögu um og um getur í 2. og 3. mgr., skal verða X. viðauki við þessa tilskipun þegar Evrópuþingið og ráðið hafa samþykkt hann. Með endurskoðun hennar, sem um getur í 4. mgr., skal fara á sama hátt.

17. gr.
Áætlanir til að koma í veg fyrir og hafa eftirlit með mengun grunnvatns

1.      Evrópuþingið og ráðið skulu samþykkja sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir mengun grunnvatns og hafa eftirlit með henni. Slíkar ráðstafanir skulu miða að því að efnafræðilegt ástand grunnvatns verði gott í samræmi við b-lið 1. mgr. 4. gr. og skulu samþykktar samkvæmt tillögu sem framkvæmdastjórnin leggur fram innan tveggja ára eftir gildistöku þessarar tilskipunar í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í sáttmálanum.
2.      Þegar framkvæmdastjórnin gerir tillögur um ráðstafanir skal hún hafa hliðsjón af greiningunni sem fram fer skv. 5. gr. og II. viðauka. Ef gögn liggja fyrir skulu tillögurnar lagðar fram fyrr og í þeim skulu koma fram:
  a)      viðmiðanir til að meta gott, efnafræðilegt ástand grunnvatns, í samræmi við lið 2.2 í II. viðauka og liði 2.3.2 og 2.4.5 í V. viðauka.
  b)      viðmiðanir til að greina umtalsverða og viðvarandi, stígandi leitni í styrk og til að skilgreina upphafspunkta til að snúa við slíkri leitni, sem nota ber í samræmi við lið 2.4.4 í V. viðauka.
3.      Ráðstafanir, sem tengjast beitingu 1. mgr., skulu innifaldar í áætlunum um ráðstafanir, sem krafist er skv. 11. gr. 4.      Ef viðmiðanir, samþykktar skv. 2. mgr., hafa ekki verið samþykktar á vettvangi Bandalagsins skulu aðildarríkin setja viðeigandi viðmiðanir eigi síðar en fimm árum eftir gildistökudag þessarar tilskipunar.
5.      Ef viðmiðanir, samþykktar skv. 4. mgr., hafa ekki verið samþykktar á innlendum vettvangi skal upphafspunkturinn til að snúa við aukningu í styrk vera að hámarki 75% af gæðakröfunum sem mælt er fyrir um í gildandi löggjöf Bandalagsins um grunnvatn.

18. gr.
Skýrsla framkvæmdastjórnarinnar

1.      Framkvæmdastjórnin skal birta skýrslu um framkvæmd þessarar tilskipunar eigi síðar en 12 árum eftir gildistökudag hennar og á sex ára fresti eftir það og leggja hana fyrir Evrópuþingið og ráðið.
2.      Í skýrslunni skal eftirfarandi koma fram:
  a)      úttekt á því hvernig framkvæmd tilskipunarinnar miðar,
  b)      úttekt á ástandi yfirborðsvatns og grunnvatns í Bandalaginu, sem framkvæmd er í samráði við Umhverfisstofnun Evrópu,
  c)      könnun á stjórnunaráætlunum fyrir vatnasviðaumdæmi, sem lagðar eru fram í samræmi við 15. gr., þ.m.t. uppástungur um að bæta áætlanir í framtíðinni,
  d)      samantekt á viðbrögðum við hverri og einni skýrslu eða tilmælum til framkvæmdastjórnarinnar frá aðildarríkjum skv. 12. gr.,
  e)      samantekt á öllum tillögum, stjórnunarráðstöfunum og -áætlunum sem gerðar hafa verið skv. 16. gr.,
  f)      samantekt á viðbrögðum við athugasemdum frá Evrópuþinginu og ráðinu um fyrri skýrslur um framkvæmd.
3.      Framkvæmdastjórnin skal einnig birta skýrslu um framvindu framkvæmdarinnar byggða á yfirlitsskýrslum, sem aðildarríki leggja fram skv. 2. mgr. 15. gr., og leggja hana fyrir Evrópuþingið og aðildarríkin eigi síðar en tveimur árum eftir dagsetningarnar sem um getur í 5. og 8. gr.
4.      Framkvæmdastjórnin skal, innan þriggja ára frá birtingu hverrar skýrslu skv. 1. mgr., birta bráðabirgðaskýrslu um framvindu framkvæmdarinnar, byggða á bráðabirgðaskýrslum aðildarríkjanna, eins og um getur í 3. mgr. 15. gr. Hún skal lögð fyrir Evrópuþingið og ráðið.
5.      Framkvæmdastjórnin skal boða, þegar við á í tengslum við skýrslugjafarferlið, hagsmunaaðila frá hverju aðildarríki til ráðstefnu um stefnu Bandalagsins í vatnsmálum, svo að þeir geti komið með athugasemdir um framkvæmdarskýrslur framkvæmdastjórnarinnar og miðlað reynslu sinni.
Meðal þátttakenda skulu vera fulltrúar frá lögbærum yfirvöldum, Evrópuþinginu, frjálsum félagasamtökum, aðilum vinnumarkaðarins og úr efnahagslífinu, fulltrúar neytendasamtaka, háskólamenn og aðrir sérfræðingar.

19. gr.
Áætlanir um framtíðarráðstafanir Bandalagsins

1.      Einu sinni á ári skal framkvæmdastjórnin í upplýsingaskyni leggja fyrir nefndina, sem um getur í 21. gr., leiðbeinandi áætlun um ráðstafanir, sem hafa áhrif á löggjöf um vatn, sem hún hefur í hyggju að gera í náinni framtíð, þ.m.t. hvers kyns ráðstafanir sem gerðar eru í kjölfar tillagna, takmörkunarráðstafana og áætlana sem samdar voru skv. 16. gr. Framkvæmdastjórnin skal leggja fram slíka áætlun í fyrsta sinn eigi síðar en tveimur árum eftir gildistökudag þessarar tilskipunar.
2.      Framkvæmdastjórnin mun endurskoða þessa tilskipun eigi síðar en 19 árum eftir gildistökudag hennar og gera tillögur um nauðsynlegar breytingar á henni.

20. gr.
Tæknileg aðlögun tilskipunarinnar

1.      Laga má I. og III. viðauka og lið 1.3.6 í V. viðauka að framförum á sviði vísinda og tækni í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 21. gr. þar sem tillit er tekið til frestanna til að endurskoða og uppfæra stjórnunaráætlanir fyrir vatnasviðaumdæmi eins og um getur í 13. gr. Ef nauðsyn ber til getur framkvæmdastjórnin samþykkt viðmiðunarreglur um framkvæmd II. og V. viðauka í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 21. gr.
2.      Þegar um er að ræða gagnasendingar og -vinnslu, þ.m.t. tölfræðileg gögn og kortagerðargögn, má samþykkja tæknisnið, að því er varðar 1. gr., í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 21. gr.

21. gr.
Stjórnsýslunefnd

1.      Framkvæmdastjórnin skal njóta aðstoðar nefndar (hér á eftir kölluð „nefndin“).
2.      Þegar vísað er til þessarar greinar gilda ákvæði 5. og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB, með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. hennar.
Fresturinn, sem mælt er fyrir um í 6. mgr. 5. gr. tilskipunar 1999/468/EB, skal vera þrír mánuðir.
3.      Nefndin setur sér starfsreglur.

22. gr.
Niðurfelling og bráðabirgðaákvæði

1.      Eftirfarandi tilskipanir og ákvarðanir falli úr gildi 7 árum eftir gildistökudag þessarar tilskipunar:
     tilskipun 75/440/EBE frá 16. júní 1975 um kröfur varðandi gæði yfirborðsvatns í aðildarríkjunum sem nýtt er til drykkjar ( 1),
     ákvörðun ráðsins 77/795/EBE frá 12. desember 1977 um að taka upp sameiginlega aðferð við skipti á upplýsingum um gæði ósalts yfirborðsvatns í Bandalaginu ( 2),
     tilskipun ráðsins 79/869/EBE frá 9. október 1979 um mæliaðferðir og tíðni sýnatöku og greiningar á yfirborðsvatni sem nýtt er til drykkjar í aðildarríkjunum ( 3),
2.      Eftirfarandi tilskipanir falli úr gildi 13 árum eftir gildistökudag þessarar tilskipunar:
     tilskipun ráðsins 78/659/EBE frá 18. júlí 1978 um gæði fersks vatns sem þarf að vernda eða bæta til að fiskur geti þrifist þar ( 4),
________________
( 1 )     Stjtíð. EB L 194, 25.7.1975, bls. 26. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 91/692/EBE.
( 2 )     Stjtíð. EB L 334, 24.12.1977, bls. 29. Tilskipuninni var síðast breytt með aðildarlögunum frá 1994.
( 3 )     Stjtíð. EB L 271, 29.10.1979, bls. 44. Tilskipuninni var síðast breytt með aðildarlögunum frá 1994.
( 4 )     Stjtíð. EB L 222, 14.8.1978, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með aðildarlögunum frá 1994.

     tilskipun ráðsins 79/923/EBE frá 30. október 1979 um tilskilin gæði vatns fyrir skeldýr ( 5),
     tilskipun ráðsins 80/68/EBE frá 17. desember 1979 um verndun grunnvatns gegn mengun af völdum tiltekinna, hættulegra efna,
     tilskipun 76/464/EBE, að undanskilinni 6. gr. er falli úr gildi með gildistöku þessarar tilskipunar.
3.      Eftirtalin bráðabirgðaákvæði gilda um tilskipun 76/464/EBE:
  a)      skráin yfir forgangsefni, sem samþykkt er skv. 16. gr. þessarar tilskipunar, komi í stað skrárinnar yfir forgangsefni í orðsendingu framkvæmdastjórnarinnar til ráðsins 22. júní 1982,
  b)      að því er varðar 7. gr. tilskipunar 76/464/EBE geta aðildarríkin beitt meginreglunum um greiningu á mengunarvanda og efnunum, sem valda honum, setningu gæðakrafna og samþykkt ráðstafana sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun.
4.      Líta ber á umhverfismarkmiðin í 4. gr. og umhverfisgæðakröfurnar, sem eru sett í IX. viðauka og skv. 7. mgr. 16. gr. og sem aðildarríkin setja skv. V. viðauka að því er varðar efni sem eru ekki á skrá yfir forgangsefni og skv. 8. mgr. 16. gr. að því er varðar forgangsefni sem Bandalagið hefur ekki enn sett kröfur um, sem umhverfisgæðakröfur að því er varðar 7. mgr. 2. gr. og 10. gr. tilskipunar 96/61/EB.
5.      Ef efni á forgangsskránni, sem samþykkt var skv. 16. gr., er ekki tilgreint í VIII. viðauka við þessa tilskipun eða í III. viðauka við tilskipun 96/61/EB skal bæta því við þar.
6.      Að því er varðar yfirborðsvatnshlot skulu umhverfismarkmiðin, sem voru sett í fyrstu stjórnunaráætluninni fyrir vatnasviðaumdæmi sem krafist er samkvæmt þessari tilskipun, fela í sér gæðakröfur sem eru a.m.k. jafn strangar og þær sem krafist er við framkvæmd tilskipunar 76/464/EBE.

23. gr.
Viðurlög

Aðildarríkin skulu ákveða viðurlög sem gilda um brot á innlendum ákvæðum sem samþykkt eru samkvæmt þessari tilskipun. Þessi viðurlög skulu vera árangursrík, í réttu hlutfalli við brot og letjandi.
________________
( 5 )     Stjtíð. EB L 281, 10.11.1979, bls. 47. Tilskipuninni var breytt með tilskipun 91/692/EBE.

24. gr.
Framkvæmd

1.      Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 22. desember 2003. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.
2.      Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til. Framkvæmdastjórnin skal tilkynna það hinum aðildarríkjunum.

25. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á þeim degi sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

26. gr.
Viðtakendur

Þessari tilskipun er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Brussel 23. október 2000.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
N. FONTAINE J. GLAVANY
forseti. forseti.

I. VIÐAUKI
UPPLÝSINGAR SEM SKULU KOMA FRAM Í SKRÁNNI YFIR LÖGBÆR YFIRVÖLD

Eins og krafist er í 8. mgr. 3. gr. skulu aðildarríkin láta í té eftirfarandi upplýsingar um öll lögbær yfirvöld á sérhverju vatnasviðaumdæma sinna, sem og á sérhverjum þeim hluta alþjóðlegs vatnasviðaumdæmis sem liggur innan yfirráðasvæðis þeirra.
i)      Heiti og póstfang lögbæra yfirvaldsins – opinbert heiti og póstfang yfirvaldsins sem tilgreint er skv. 2. mgr. gr.
ii)      Landfræðilegt umfang vatnasviðaumdæmisins – nöfn helstu áa innan vatnasviðaumdæmisins auk nákvæmrar lýsingar á mörkum vatnasviðaumdæmisins. Þessar upplýsingar ættu að svo miklu leyti sem unnt er að vera tiltækar til skráningar í landupplýsingakerfi (GIS) og/eða landupplýsingakerfi framkvæmdastjórnarinnar (GISCO).
iii)      Réttarstaða lögbæra yfirvaldsins – lýsing á réttarstöðu lögbæra yfirvaldsins og, þar sem við á, samantekt á eða afrit af stofnsamþykkt þess, stofnsáttmála eða jafngildum lagagerningi.
iv)      Ábyrgð – lýsing á lagalegri ábyrgð og stjórnsýsluábyrgð sérhvers lögbærs yfirvalds og hlutverki þess á hverju vatnasviðaumdæmi fyrir sig.
v)      Aðild – ef lögbæra yfirvaldið er samræmingaraðili fyrir önnur lögbær yfirvöld er krafist skrár yfir þau yfirvöld ásamt samantekt á stofnanatengslum sem komið er á til að tryggja samræmingu.
vi)      Alþjóðatengsl – ef vatnasviðaumdæmi er á yfirráðasvæði fleiri en eins aðildarríkis eða yfir á yfirráðasvæði lands, sem er ekki aðildarríki, er krafist samantektar á stofnanatengslum sem komið er á til að tryggja samræmingu.
Graphic file wpg1b03.tmp with height 1 p and width 25 p Left aligned

II. VIÐAUKI

1.        YFIRBORÐSVATN
1.1.         Lýsing á eiginleikum gerða yfirborðsvatnshlota
        
Aðildarríki skulu tilgreina staðsetningu og mörk yfirborðsvatnshlota og láta útbúa fyrstu lýsingu á eiginleikum allra slíkra hlota í samræmi við eftirfarandi aðferð. Aðildarríki geta flokkað nokkur yfirborðsvatnshlot saman þegar fyrstu lýsingar af þessu tagi eru gerðar.
         i)      Yfirborðsvatnshlotin á vatnasviðaumdæminu skulu flokkuð í einn af eftirtöldum flokkum yfirborðsvatns – ár, stöðuvötn, árósavatn eða strandsjó – eða sem manngerð yfirborðsvatnshlot eða mikið breytt yfirborðsvatnshlot.
         ii)      Í hverjum flokki yfirborðsvatns eru viðkomandi yfirborðsvatnshlot á vatnasviðaumdæminu aðgreind eftir gerðum. Þessar gerðir eru skilgreindar með því að nota annaðhvort „kerfi A“ eða „kerfi B“ sem tilgreind eru í lið 1.2.
         iii)      Ef farið er eftir kerfi A eru yfirborðsvatnshlotin á vatnasviðaumdæminu fyrst aðgreind eftir viðkomandi vistsvæðum í samræmi við landfræðilegu svæðin sem tilgreind eru í lið 1.2 og sýnd á viðkomandi korti í XI. viðauka. Vatnshlotin á hverju vistsvæði fyrir sig skulu því næst aðgreind eftir gerðum yfirborðsvatnshlota samkvæmt þeim lýsum (descriptors) sem eru tilgreindir í töflunum fyrir kerfi A.
         iv)      Ef farið er eftir kerfi B verða aðildarríkin að ná a.m.k. sömu aðgreiningu og hefði náðst ef kerfi A hefði verið notað. Af þessum sökum skulu yfirborðsvatnshlotin á vatnasviðaumdæminu aðgreind í gerðir eftir gildum fyrir skyldubundna lýsa og þá valfrjálsu lýsa, eða fyrir samsetningar lýsa, sem krafist er til að tryggja að af þeim megi leiða líffræðileg viðmiðunarskilyrði sem eru sértæk fyrir hverja gerð.
         v)      Að því er varðar manngerð yfirborðsvatnshlot og mikið breytt yfirborðsvatnshlot skal aðgreiningin gerð í samræmi við lýsa sem eiga við um hvern þann flokk yfirborðsvatns sem mest líkist mikið breytta eða manngerða vatnshlotinu sem um ræðir.
         vi)      Aðildarríkin skulu leggja fyrir framkvæmdastjórnina eitt eða fleiri kort (með GIS-sniði) yfir landfræðilega staðsetningu þeirra gerða sem samræmast þeirri aðgreiningu sem krafist er samkvæmt kerfi A.
1.2.        Vistsvæði og gerðir yfirborðsvatnshlota.
1.2.1.    Ár
         Kerfi A
Föst gerðaflokkun Lýsar
Vistsvæði Vistsvæði sem sýnd eru á korti A í XI. viðauka
Gerð Hæðarflokkun
    hálendi: > 800 m
    miðlungshæð: 200 til 800 m
    láglendi: < 200 m
Stærðarflokkun byggð á aðrennslissvæði
    lítið: 10 til 100 km2
    meðalstórt: 100 til 1 000 km2
    stórt: 1 000 til 10 000 km2
    mjög stórt: > 10 000 km2
Jarðfræði
    kalkkennd
    kísilkennd
    lífræn
        Kerfi B
Annars konar lýsing á eiginleikum Eðlis- og efnafræðilegir þættir sem ákvarða eiginleika ár eða hluta ár og þar af leiðandi gerð og samsetningu lífstofna hennar
Skyldubundnir þættir hæð yfir sjávarmáli
breiddargráða
lengdargráða
jarðfræði
flatarmál
Valfrjálsir þættir fjarlægð frá upptökum árinnar
straumþungi (fall af straumi og halla)
meðalbreidd árinnar
meðaldýpt árinnar
meðalhalli árinnar
gerð og lögun aðalárfarvegarins
rennsliseiginleikaflokkun áa
lögun árdals
flutningur fastra efna
hæfni til að hlutleysa sýru
meðalsamsetning undirlags
klóríð
lofthitasvið
meðallofthiti
úrkoma

1.2.2.    Stöðuvötn
        Kerfi A
Föst gerðaflokkun Lýsar
Vistsvæði Vistsvæði sem sýnd eru á korti A í XI. viðauka
Gerð Hæðarflokkun
    hálendi > 800 m
    miðlungshæð: 200 til 800 m
    láglendi < 200 m
Dýptarflokkun byggð á meðaldýpt
    < 3 m
    3 til 15 m
    > 15 m
Stærðarflokkun byggð á flatarmáli yfirborðs
    0,5 til 1 km2
    1 til 10 km2
    10 til 100 km2
     > 100 km2
Jarðfræði
    kalkkennd
    kísilkennd
    lífræn

        Kerfi B
Annars konar lýsing á eiginleikum Eðlis- og efnafræðilegir þættir sem ákvarða eiginleika stöðuvatns og þar af leiðandi gerð og samsetningu lífstofna þess
Skyldubundnir þættir hæð yfir sjávarmáli,
breiddargráða
lengdargráða
dýpt
jarðfræði
flatarmál
Valfrjálsir þættir meðaldýpt vatnsins
lögun stöðuvatnsins
viðstöðutími
meðallofthiti
lofthitasvið
blöndunareiginleikar (t.d. einblöndun, tvíblöndun, margblöndun)
hæfni til að hlutleysa sýru
bakgrunnsástand næringarefna
meðalsamsetning undirlags
sveiflur í hæð vatnsborðs

1.2.3.    Ísalt árósavatn
        Kerfi A
Föst gerðaflokkun Lýsar
Vistsvæði Eftirfarandi svæði, eins og þau eru tilgreind á korti B í XI. viðauka:
Eystrasalt
Barentshaf
Noregshaf
Norðursjór
Norður-Atlantshaf
Miðjarðarhaf
Gerð Byggt á ársmeðalseltu
< 0,5‰ ferskvatn
0,5 til < 5‰ ísalt vatn
5 til < 18‰ miðlungssaltur sjór
18 til < 30‰ saltur sjór
30 til < 40‰ fullsaltur sjór
Byggt á meðalmun á flóði og fjöru
< 2 m: lítil sjávarföll
2 til 4 m: meðalsjávarföll
> 4 m: mikil sjávarföll

        Kerfi B
Annars konar lýsing á eiginleikum Eðlis- og efnafræðilegir þættir sem ákvarða eiginleika árósavatns og þar af leiðandi gerð og samsetningu lífstofna þeirra
Skyldubundnir þættir breiddargráða
lengdargráða
munur á flóði og fjöru
selta
Valfrjálsir þættir dýpt
straumhraði
ölduhrif (wave exposure)
viðstöðutími
meðalhiti vatns
blöndunareiginleikar
grugg
meðalsamsetning undirlags
lögun
vatnshitasvið

1.2.4.    Strandsjór
        Kerfi A
Föst gerðaflokkun Lýsar
Vistsvæði Eftirfarandi svæði, eins og þau eru tilgreind á korti B í XI. viðauka:
    Eystrasalt
    Barentshaf
    Noregshaf
    Norðursjór
    Norður-Atlantshaf
    Miðjarðarhaf
Gerð Byggt á ársmeðalseltu
    < 0,5‰ ferskvatn
    0,5 til < 5‰ ísalt vatn
    5 til < 18‰ miðlungssaltur sjór
    18 til < 30‰ saltur sjór
    30 til < 40‰ fullsaltur sjór
Byggt á meðaldýpt
    grunnsævi > 30 m
    millidýpi: 30 til 200 m
    djúpsævi > 200 m
        Kerfi B
Annars konar lýsing á eiginleikum Eðlis- og efnafræðilegir þættir sem ákvarða eiginleika strandsjávar og þar af leiðandi gerð og samsetningu lífríkis hans
Skyldubundnir þættir breiddargráða
lengdargráða
munur á flóði og fjöru
selta
Valfrjálsir þættir straumhraði
ölduhrif
meðalhiti vatns
blöndunareiginleikar
grugg
endurnýjunartími (lokaðra flóa)
meðalsamsetning undirlags
vatnshitasvið

1.3.        Setning gerðarsértækra viðmiðunarskilyrða fyrir gerðir yfirborðsvatnshlota
         i)      Fyrir hverja gerð yfirborðsvatnshlota, sem lýst er með tilliti til eiginleika í samræmi við lið 1.1, skal fastsetja gerðarsértæk, vatnsformfræðileg og eðlisefnafræðileg skilyrði er svara til gilda vatnsformfræðilegu og eðlisefnafræðilegu gæðaþáttanna sem tilgreindir eru í lið 1.1 í V. viðauka fyrir þá gerð yfirborðsvatnshlots þegar vistfræðilegt ástand þess er mjög gott samkvæmt skilgreiningu í viðkomandi töflu í lið 1.2 í V. viðauka. Setja skal gerðarsértæk, líffræðileg viðmiðunarskilyrði er svara til gilda líffræðilegu gæðaþáttanna sem tilgreindir eru í lið 1.1 í V. viðauka fyrir þá gerð yfirborðsvatnshlots þegar vistfræðilegt ástand er mjög gott samkvæmt skilgreiningu í viðkomandi töflu í lið 1.2 í V. viðauka.
         ii)      Þegar aðferðunum, sem mælt er fyrir um í þessum þætti, er beitt við mikið breytt eða manngerð yfirborðsvatnshlot skal litið á tilvísanir til mjög góðs vistfræðilegs ástands sem tilvísanir til besta vistmegins, eins og það er skilgreint í töflu 1.2.5 í V. viðauka. Gildin fyrir besta vistmegin vatnshlots skulu endurskoðuð á 6 ára fresti.
         iii)      Gerðarsértæk skilyrði að því er varðar i- og ii-lið og gerðarsértæk, líffræðileg viðmiðunarskilyrði geta annaðhvort byggst á rýmisgreiningu eða líkönum eða þau má finna með samtvinnun þessara aðferða. Ef ekki er mögulegt að beita þessum aðferðum geta aðildarríkin stuðst við álit sérfræðinga við setningu slíkra skilyrða. Þegar mjög gott vistfræðilegt ástand er skilgreint með hliðsjón af styrk sérstakra, tilbúinna mengunarvalda eru greiningarmörkin þau sem hægt er að ná með þeirri tækni sem til er á þeim tíma þegar gerðarsértæk skilyrði verða sett.
         iv)      Að því er varðar gerðarsértæk, líffræðileg viðmiðunarskilyrði, sem byggjast á svæðisgreiningu (spatially based), skulu aðildarríkin þróa viðmiðunarnet fyrir hverja gerð yfirborðsvatnshlota. Innan netsins skal vera nægilegur fjöldi staða þar sem ástand er mjög gott til að tryggja viðunandi áreiðanleika gildanna fyrir viðmiðunarskilyrðin, að teknu tilliti til breytileika gilda þeirra gæðaþátta sem svara til mjög góðs vistfræðilegs ástands fyrir það yfirborðsvatnshlot og reiknilíkanaaðferðanna sem beita á skv. v-lið.
         v)      Leiða má af spálíkönum eða með afturvirkum aðferðum gerðarsértæk, líffræðileg viðmiðunarskilyrði sem byggjast á líkönum. Aðferðirnar skulu styðjast við söguleg og fornminjafræðileg gögn og önnur fyrirliggjandi gögn og þær skulu tryggja viðunandi áreiðanleika gildanna fyrir viðmiðunarskilyrðin svo að skilyrðin, sem þannig eru ákvörðuð, séu samræmd innbyrðis og gildi fyrir hverja gerð yfirborðsvatnshlota.
         vi)      Ef ekki er unnt að ákvarða áreiðanleg, gerðarsértæk viðmiðunarskilyrði fyrir gæðaþátt í gerð yfirborðsvatnshlots vegna þess hve breytilegur sá þáttur er frá náttúrunnar hendi, ekki aðeins eftir árstíðum, má útiloka þann þátt frá mati á vistfræðilegu ástandi fyrir þá gerð yfirborðsvatns. Við slíkar aðstæður skulu aðildarríkin gefa upp ástæðurnar fyrir því að hann er ekki tekinn með í stjórnunaráætluninni fyrir vatnasviðaumdæmi.
1.4.         Álagsgreining
        Aðildarríkin skulu safna og geyma upplýsingar um gerð og umfang þess umtalsverða álags af mannavöldum sem yfirborðsvatnshlot á hverju vatnasviðaumdæmi geta verið undir, einkum um eftirfarandi:
        Mat og greiningu á umtalsverðri mengun frá punktupptökum mengunar, einkum af völdum efnanna sem eru tilgreind í VIII. viðauka, frá búnaði og starfsemi í þéttbýli, í iðnaði og landbúnaði, sem byggist m.a. á upplýsingum sem safnað er samkvæmt:
         i)      15. og 17. gr. tilskipunar 91/271/EBE,
         ii)      9. og 15. gr. tilskipunar 96/61/EB (1),
        og, að því er varðar fyrstu stjórnunaráætlunina fyrir vatnasviðaumdæmi:
         iii)      11. gr. tilskipunar 76/464/EBE og
         iv)      tilskipunum 75/440/EB, 76/160/EBE (2), 78/659/EBE og 79/923/EBE (3).
        Mat og greiningu á umtalsverðri mengun frá dreifðum mengunarupptökum, einkum af völdum efnanna sem eru tilgreind í VIII. viðauka, frá búnaði og starfsemi í þéttbýli, í iðnaði og landbúnaði, sem byggist m.a. á upplýsingum sem safnað er samkvæmt:
         i)      3., 5. og 6. gr. tilskipunar 91/676/EBE (4),
         ii)      7. og 17. gr. tilskipunar 91/414/EBE,
         iii)      tilskipun 98/8/EB,
        og, að því er varðar fyrstu stjórnunaráætlunina fyrir vatnasviðaumdæmi:
         iv)      tilskipunum 75/440/EBE, 76/160/EBE, 76/464/EBE, 78/659/EBE og 79/923/EBE.
        Mat og greiningu á umtalsverðri vatnstöku til notkunar í þéttbýli, iðnaði og landbúnaði og til annarra nota, þ.m.t. árstíðamunur og heildareftirspurn á ári, og á vatnstapi úr dreifingarkerfum.
        Mat og greiningu á áhrifum umtalsverðrar stýringar vatnsflæðis, þ.m.t. vatnsflutningur og veiting vatns í nýjan farveg, á heildarrennsliseiginleika og vatnsjöfnuð.
        Greiningu á umtalsverðum, formfræðilegum breytingum á vatnshlotum.
        Mat og greiningu á öðrum umtalsverðum áhrifum af mannavöldum á ástand yfirborðsvatns.
        Mat á landnýtingarmynstri, þ.m.t. tilgreining helstu þéttbýlissvæða, iðnaðar- og landbúnaðarsvæða og, þar sem við á, fiskveiðisvæða og skóga.
1.5.         Mat á áhrifum
        Aðildarríkin skulu láta fara fram mat á því hversu næmt ástand yfirborðsvatnshlota er fyrir framangreindu álagi.
________________
( 1 )     Stjtíð. EB L 135, 30.5.1991, bls. 40. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 98/15/EB (Stjtíð. EB L 67, 7.3.1998, bls. 29).
( 2 )     Stjtíð. EB L 31, 5.2.1976, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með aðildarlögunum frá 1994.
( 3 )     Stjtíð. EB L 281, 10.11.1979, bls. 47. Tilskipuninni var breytt með tilskipun 91/692/EBE (Stjtíð. EB L 377, 31.12.1991, bls. 48).
( 4 )     Stjtíð. EB L 375, 31.12.1991, bls. 1.
        Aðildarríkin skulu nota framangreindar upplýsingar, sem safnað er, og aðrar viðkomandi upplýsingar, þ.m.t. fyrirliggjandi umhverfisvöktunargögn, til að meta líkurnar á því að yfirborðsvatnshlot innan vatnasviðaumdæmis sé ekki í samræmi við umhverfisgæðamarkmiðin sem sett eru fyrir hlotin í 4. gr. Aðildarríkin geta stuðst við reiknilíkön við slíkt mat.
        Láta skal útbúa, fyrir þau vatnshlot þar sem talin er hætta á að umhverfisgæðamarkmiðin náist ekki, eftir því sem við á, frekari lýsingu á eiginleikum til að bæta, eins og hægt er, tilhögun bæði vöktunaráætlananna, sem krafist er skv. 8. gr., og áætlananna um ráðstafanir sem krafist er skv. 11. gr.
2.         GRUNNVATN
2.1.         Fyrsta lýsing á eiginleikum
        Aðildarríkin skulu láta útbúa fyrstu lýsingu á öllum grunnvatnshlotum til að meta notkun þeirra og hversu mikil hætta er á að markmiðin í 4. gr. náist ekki fyrir hvert grunnvatnshlot. Aðildarríkin geta flokkað nokkur grunnvatnshlot saman þegar fyrstu lýsingar af þessu tagi eru gerðar. Við þessa greiningu má nota fyrirliggjandi, vatnafræðileg, jarðfræðileg og jarðvegsfræðileg gögn, gögn um landnýtingu, sleppingu, vatnstöku og annað, og í þeim skal koma fram:
              staðsetning og mörk grunnvatnshlotsins eða -hlotanna,
              álagið sem grunnvatnshlotið eða -hlotin geta verið undir, þ.m.t.:
                  dreifð upptök mengunar
                  punktupptök mengunar
                  vatnstöku
                  endurnýjun grunnvatns af mannavöldum
              almennir eiginleikar lagsins sem liggur yfir aðrennslissvæðinu sem grunnvatnshlotið endurnýjast frá,
              grunnvatnshlot þar sem vistkerfi yfirborðsvatns eða landvistkerfi eru háð þeim beint.
2.2.         Frekari lýsing á eiginleikum
        Í kjölfar þessarar fyrstu lýsingar á eiginleikum skulu aðildarríkin láta útbúa frekari lýsingu á eiginleikum þeirra grunnvatnshlota eða hópa grunnvatnshlota, sem talið er að séu í hættu, til að unnt sé að meta á nákvæmari hátt mikilvægi slíkrar hættu og tilgreina hvers kyns ráðstafanir sem krafist er í 11. gr. Af þessum sökum skal þessi lýsing á eiginleikum innihalda upplýsingar, sem málið varða, um áhrif af starfsemi manna og, þar sem við á, upplýsingar um:
              jarðfræðilega eiginleika grunnvatnshlotsins, þ.m.t. umfang og gerðir jarðfræðilegra eininga þess,
              vatnajarðfræðilega eiginleika grunnvatnshlotsins, þ.m.t. vatnsleiðni, grop og þrýstiaðstæður,
              eiginleika yfirborðssets og jarðvegs á aðrennslissvæðinu sem grunnvatnshlotið endurnýjast frá, þ.m.t. þykkt, grop, vatnsleiðni og gleypni sets og jarðvegs,
              einkenni lagskiptingar grunnvatnsins innan grunnvatnshlotsins,
              skrá yfir tengd yfirborðskerfi, þ.m.t. landvistkerfi og yfirborðsvatnshlot sem grunnvatnshlotið tengist á hreyfifræðilegan hátt,
              mat á stefnu og umfangi vatnsskipta milli grunnvatnshlotsins og tengdra yfirborðskerfa og
              gögn sem nægja til að reikna út árlegt meðaltal heildarendurnýjunar grunnvatns til langs tíma,
              lýsing á eiginleikum efnasamsetningar grunnvatnsins, þar sem það er tilgreint nákvæmlega sem rekja má til starfsemi manna. Aðildarríkin geta stuðst við formgerðarflokkun til að lýsa eiginleikum grunnvatns þegar náttúruleg bakgrunnsgildi eru ákvörðuð fyrir þessi grunnvatnshlot.
2.3.         Yfirlit yfir áhrif sem starfsemi manna hefur á grunnvatn
        
Að því er varðar þau grunnvatnshlot, sem ná yfir landamæri tveggja eða fleiri aðildarríkja eða sem, í samræmi við fyrstu lýsingu á eiginleikum sem fram fór skv. lið 2.1, talið er að nái ekki markmiðunum sem sett eru fyrir hvert hlot skv. 4. gr., skal upplýsingum um eftirfarandi safnað, eftir því sem við á, og þær geymdar fyrir hvert grunnvatnshlot:
         a)      staðsetning þeirra staða í grunnvatnshlotinu þar sem vatnstaka fer fram, að undanskildum:
                  stöðum þar sem fram fer vatnstaka sem nemur minna en 10 m3 á dag að meðaltali eða
                  stöðum þar sem fram fer neysluvatnstaka sem nemur minna en 10 m3 á dag að meðaltali eða sem sér færri en 50 manns fyrir vatni,
         b)      árleg meðalvatnstaka á slíkum stöðum,
         c)      efnasamsetning vatns sem tekið er úr grunnvatnshlotinu,
         d)      staðsetning staða í grunnvatnshlotinu þar sem vatni er veitt beint í grunnvatnið,
         e)      umfang veitunnar á slíkum stöðum,
         f)      efnasamsetning vatnsins sem veitt er í grunnvatnshlotið og
         g)      landnýting á aðrennslissvæðinu eða -svæðunum, sem grunnvatnshlotið endurnýjast frá, þ.m.t. mengun og breytingar af mannavöldum á endurnýjun grunnvatnsins, s.s. með veitingu regnvatns og frárennslis í nýjan farveg með fyrirhleðslu, endurnýjun grunnvatns af mannavöldum, stíflugerð eða framræslu.
2.4.          Yfirlit yfir áhrif af breytingum á hæð grunnvatnsborðs
        
Aðildarríkin skulu einnig tilgreina þau grunnvatnshlot sem eru þess eðlis að fyrir þau skal, skv. 4. gr., setja vægari markmið, m.a. eftir að tillit hefur verið tekið til þeirra áhrifa sem ástand hlotsins hefur á:
         i)      yfirborðsvatn og tengd landvistkerfi
         ii)      vatnsstjórnun, flóðavarnir og framræslu lands
         iii)      þróun lífskjara.
2.5.          Yfirlit yfir áhrif mengunar á gæði grunnvatns
        Aðildarríkin skulu tilgreina þau grunnvatnshlot sem eru þess eðlis að fyrir þau eru sett, skv. 5. mgr. 4. gr., vægari markmið ef grunnvatnshlotið er, vegna áhrifa af starfsemi manna, eins og ákvarðað er í samræmi við 1. mgr. 5. gr., svo mengað að það yrði óhagkvæmt eða óhóflega dýrt að ná fram góðu efnafræðilegu ástandi grunnvatns.
Graphic file wpg1b13.tmp with height 1 p and width 25 p Left aligned

III. VIÐAUKI
EFNAHAGSLEG GREINING

Í efnahagslegu greiningunni skulu vera nægar upplýsingar og nægilega nákvæmar (með tilliti til kostnaðarins af öflun viðkomandi upplýsinga) til þess að:
a)      gera viðkomandi útreikninga, sem eru nauðsynlegir með tilliti til meginreglunnar um endurheimt kostnaðar vegna vatnsþjónustu, skv. 9. gr., með tilliti til langtímaspár um framboð og eftirspurn eftir vatni á vatnasviðaumdæminu og, ef nauðsyn krefur:
          mat á umfangi, verði og kostnaði í tengslum við vatnsþjónustu og
          mat á tilheyrandi fjárfestingum, þ.m.t. spár um slíkar fjárfestingar,
b)      meta, út frá mati á hugsanlegum kostnaði vegna slíkra ráðstafana, hagkvæmustu samsetningu ráðstafana, að því er varðar vatnsnotkun, sem taka má inn í áætlun um ráðstafanir skv. 11. gr.
Graphic file wpg1b16.tmp with height 1 p and width 25 p Left aligned

IV. VIÐAUKI
VERNDUÐ SVÆÐI

1.    Skráin yfir vernduð svæði, sem krafist er skv. 6. gr., skal taka til eftirtalinna gerða verndaðra svæða:
     i)      svæða þar sem neysluvatnstaka fer fram skv. 7. gr.,
     ii)      svæða sem vernduð eru vegna efnahagslega mikilvægra tegunda vatnalífvera,
     iii)      vatnshlota sem eru tilnefnd sem afþreyingarvötn, þ.m.t. svæði sem eru tilnefnd sem vötn til baða samkvæmt tilskipun 76/160/EBE,
     iv)      svæða, sem eru næm fyrir næringarefnum, þ.m.t. svæði sem eru tilnefnd sem svæði í hættu, samkvæmt tilskipun 91/676/EBE, og svæði, sem eru tilnefnd sem viðkvæm svæði, samkvæmt tilskipun 91/271/EBE og
     v)      svæði sem eru tilnefnd í því skyni að friða búsvæði eða tegundir, þar sem viðhald eða umbætur á ástandi vatnsins er mikilvægur þáttur í verndinni, þ.m.t. staðir viðkomandi Natura 2000 sem eru tilnefndir samkvæmt tilskipun 92/43/EBE (1) og tilskipun 79/409/EBE (2).
2.    Í samantekt skrárinnar, sem krafist er að sé hluti af stjórnunaráætlun fyrir vatnasviðaumdæmi, skulu vera kort sem sýna staðsetningu sérhvers verndaðs svæðis og lýsing á löggjöfinni, þar sem svæðin eru tilnefnd, á vettvangi Bandalagsins eða á vettvangi hvers ríkis eða á staðbundnum vettvangi.
Graphic file wpg1b1a.tmp with height 1 p and width 25 p Left aligned


________________
( 1 )     Stjtíð. EB L 206, 22.7.1992, bls. 7. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 97/62/EB (Stjtíð. EB L 305, 8.11.1997, bls. 42).
( 2 )     Stjtíð. EB L 103, 25.4.1979, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 97/49/EB (Stjtíð. EB L 223, 13.8.1997, bls. 9).

V. VIÐAUKI

1.          ÁSTAND YFIRBORÐSVATNS

  1.1.           Gæðaþættir til flokkunar á vistfræðilegu ástandi
    1.1.1.      Ár
    1.1.2.      Stöðuvötn
    1.1.3.      Árósavatn
    1.1.4.      Strandsjór
    1.1.5.      Manngerð og mikið breytt yfirborðsvatnshlot

  1.2.          Staðlaðar skilgreiningar á flokkun á vistfræðilegu ástandi
    1.2.1.      Skilgreiningar á mjög góðu, góðu og sæmilegu vistfræðilegu ástandi áa
    1.2.2.      Skilgreiningar á mjög góðu, góðu og sæmilegu vistfræðilegu ástandi stöðuvatna
    1.2.3.      Skilgreiningar á mjög góðu, góðu og sæmilegu vistfræðilegu ástandi árósavatns
    1.2.4.      Skilgreiningar á mjög góðu, góðu og sæmilegu vistfræðilegu ástandi strandsjávar
    1.2.5.      Skilgreiningar á besta, góðu og sæmilegu vistmegni mikið breyttra eða manngerðra vatnshlota
    1.2.6.      Málsmeðferð aðildarríkja við setningu efnafræðilegra gæðakrafna

  1.3.          Vöktun á vistfræðilegu og efnafræðilegu ástandi yfirborðsvatns
    1.3.1.      Tilhögun yfirlitsvöktunar
    1.3.2.      Tilhögun aðgerðavöktunar
    1.3.3.      Tilhögun rannsóknarvöktunar
    1.3.4.      Tíðni vöktunar
    1.3.5.      Viðbótarkröfur vegna vöktunar á vernduðum svæðum
    1.3.6.      Staðlar fyrir vöktun á gæðaþáttum

  1.4.          Flokkun og framsetning vistfræðilegs ástands
    1.4.1.      Samanburðarhæfi niðurstaðna líffræðilegrar vöktunar
    1.4.2.      Framsetning á niðurstöðum vöktunar og flokkun vistfræðilegs ástands og vistmegins
    1.4.3.      Framsetning á niðurstöðum vöktunar og flokkun efnafræðilegs ástands

2.          GRUNNVATN
  2.1.          Magnstaða grunnvatns
    2.1.1.      Færibreyta fyrir flokkun á magnstöðu
    2.1.2.      Skilgreining á magnstöðu
  2.2.           Vöktun á magnstöðu grunnvatns
    2.2.1.      Vöktunarnet fyrir hæð grunnvatnsborðs
    2.2.2.      Þéttleiki vöktunarstaða
    2.2.3.      Tíðni vöktunar
    2.2.4.      Túlkun og framsetning á magnstöðu grunnvatns
  2.3.          Efnafræðilegt ástand grunnvatns
    2.3.1.      Færibreytur til að ákvarða efnafræðilegt ástand grunnvatns
    2.3.2.      Skilgreining á góðu efnafræðilegu ástandi grunnvatns

  2.4.           Vöktun á efnafræðilegu ástandi grunnvatns
    2.4.1.      Vöktunarnet fyrir grunnvatn
    2.4.2.      Yfirlitsvöktun
    2.4.3.      Aðgerðavöktun
    2.4.4.      Greining á leitni (trend) með tilliti til styrks mengunarvalda
    2.4.5.      Túlkun og framsetning á efnafræðilegu ástandi grunnvatns

  2.5.           Framsetning á ástandi grunnvatns

1.          ÁSTAND YFIRBORÐSVATNS

  1.1.           Gæðaþættir til flokkunar á vistfræðilegu ástandi
    1.1.1.      Ár
        Líffræðilegir þættir
            
Samsetning og þéttleiki vatnaplantna
            Samsetning og þéttleiki botnhryggleysingja
            Samsetning, þéttleiki og aldursdreifing fiska
        Vatnsformfræðilegir þættir sem styðja líffræðilegu þættina
            Vatnsbúskapur
                vatnsmagn og straumþungi
                tengsl við grunnvatnshlot
            Samfella ár
            Formfræðileg skilyrði
                breytileiki í dýpt og breidd árinnar
                gerð og undirlag árfarvegarins
                gerð bakkasvæðisins
        Efnafræðilegir og eðlisefnafræðilegir þættir sem styðja líffræðilegu þættina
        Almennt
            Hitaskilyrði
            Súrefnisskilyrði
            Selta
            Súrnunarástand
            Næringarskilyrði
        Sérstakir mengunarvaldar
            Mengun af völdum allra forgangsefna em sýnt hefur verið fram á að hafi verið sleppt í vatnshlotið
            Mengun af völdum annarra efna sem sýnt hefur verið fram á að hafi verið sleppt í umtalsverðu magni í vatnshlotið
    1.1.2.      Stöðuvötn
        Líffræðilegir þættir
            Samsetning, fjöldi og lífmassi þörunga í plöntusvifinu
            Samsetning og þéttleiki vatnaplanta
            Samsetning og þéttleiki botnhryggleysingja
            Samsetning, þéttleiki og aldursdreifing fiska
        Vatnsformfræðilegir þættir sem styðja líffræðilegu þættina
            Vatnsbúskapur
                vatnsmagn og straumþungi
                viðstöðutími
                tengsl við grunnvatnshlot
            Formfræðileg skilyrði
                breytileiki í dýpt stöðuvatns
                stærð, gerð og undirlag vatnsbotnsins
                gerð vatnsbakkans
        Efnafræðilegir og eðlisefnafræðilegir þættir sem styðja líffræðilegu þættina
        Almennt
            
Gagnsæi
            Hitaskilyrði
            Súrefnisskilyrði
            Selta
            Súrnunarástand
            Næringarskilyrði
        Sérstakir mengunarvaldar
            Mengun af völdum allra forgangsefna sem sýnt hefur verið fram á að hafi verið sleppt í vatnshlotið
            Mengun af völdum annarra efna sem sýnt hefur verið fram á að hafi verið sleppt í umtalsverðu magni í vatnshlotið
    1.1.3.      Árósavatn
        Líffræðilegir þættir
            Samsetning, fjöldi og lífmassi þörunga í plöntusvifinu
            Samsetning og þéttleiki vatnaplanta
            Samsetning og þéttleiki botnhryggleysingja
            Samsetning og þéttleiki fiska
            Vatnsformfræðilegir þættir sem styðja líffræðilegu þættina
                Formfræðileg skilyrði
                    breytileiki í dýpt
                    stærð, gerð og undirlag botnsins
                    gerð svæðisins milli há- og lágflæðimarka
                Sjávarföll
                    ferskvatnsflæði
                    ölduhrif
        Efnafræðilegir og eðlisefnafræðilegir þættir sem styðja líffræðilegu þættina
        Almennt
            
Gagnsæi
            Hitaskilyrði
            Súrefnisskilyrði
            Selta
            Næringarskilyrði
        Sérstakir mengunarvaldar
            Mengun af völdum allra forgangsefna sem sýnt hefur verið fram á að hafi verið sleppt í vatnshlotið
            Mengun af völdum annarra efna sem sýnt hefur verið fram á að hafi verið sleppt í umtalsverðu magni í vatnshlotið
    1.1.4.      Strandsjór
        Líffræðilegir þættir
            Samsetning, fjöldi og lífmassi þörunga í plöntusvifinu
            Samsetning og þéttleiki vatnaplantna
            Samsetning og þéttleiki botnhryggleysingja
        Vatnsformfræðilegir þættir sem styðja líffræðilegu þættina
            Formfræðileg skilyrði
                breytileiki í dýpt
                gerð og undirlag sjávarbotnsins
                gerð svæðisins milli há- og lágflæðimarka
            Sjávarföll
                stefna ríkjandi strauma
                ölduhrif
        Efnafræðilegir og eðlisefnafræðilegir þættir sem styðja líffræðilegu þættina
        Almennt
            Gagnsæi
            Hitaskilyrði
            Súrefnisskilyrði
            Selta
            Næringarskilyrði
        Sérstakir mengunarvaldar
            Mengun af völdum allra forgangsefna sem sýnt hefur verið fram á að hafi verið sleppt í vatnshlotið
            Mengun af völdum annarra efna sem sýnt hefur verið fram á að hafi verið sleppt í umtalsverðu magni í vatnshlotið.
    1.1.5.      Manngerð og mikið breytt yfirborðsvatnshlot
        Gæðaþættir, sem eiga við um manngerð og mikið breytt yfirborðsvatnshlot, skulu vera þeir sem eiga við um sérhvern þeirra fjögurra framangreindra flokka náttúrulegs yfirborðsvatns sem líkist helst mikið breytta eða manngerða vatnshlotinu sem um ræðir.
  1.2.              Staðlaðar skilgreiningar á flokkun vistfræðilegs ástands
Tafla 1.2.     Almenn skilgreining fyrir ár, stöðuvötn, árósavatn og strandsjó
Í eftirfarandi texta er að finna almenna skilgreiningu á vistfræðilegum gæðum. Að því er varðar flokkun eru gildi gæðaþátta vistfræðilegs ástands fyrir hvern flokk yfirborðsvatns gefin í töflum 1.2.1 til 1.2.4 hér á eftir.
Þáttur Mjög gott ástand Gott ástand Sæmilegt ástand
Almennt Engar eða mjög óverulegar breytingar af mannavöldum hafa orðið á gildum eðlisefnafræðilegra og vatnsformfræðilegra gæðaþátta viðkomandi gerðar yfirborðsvatnshlots miðað við það sem vænta mætti við óröskuð skilyrði.
Gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti yfirborðs vatnshlotsins endurspegla það sem alla jafna mætti vænta við óröskuð skilyrði og engar eða mjög óverulegar vísbendingar um röskun koma fram. Þetta eru gerðarsértæk skilyrði og líffélög.
Gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti viðkomandi gerðar yfirborðsvatnshlotsins sýna litla röskun af mannavöldum en aðeins smávægileg frávik frá því sem alla jafna mætti búast við ef þessi gerð yfirborðsvatnshlots væri óröskuð. Gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti viðkomandi gerðar yfirborðsvatnshlotsins sýna nokkur frávik frá því sem alla jafna mætti búast við ef þessi gerð vatnshlotsins væri óröskuð. Gildin sýna nokkra röskun af mannavöldum og umtalsvert meiri en þar sem ástand er gott.
Ástand vatns, sem er lakara en sæmilegt, skal flokkað sem slakt eða lélegt.
Ástand vatns, þar sem vísbendingar eru um stórvægilegar breytingar á gildum fyrir líffræðilega gæðaþætti viðkomandi gerðar yfirborðsvatnshlots og þar sem viðkomandi líffélög sýna veruleg frávik frá því sem alla jafna mætti vænta við óröskuð skilyrði, skal flokkað sem slakt.
Ástand vatns, þar sem vísbendingar eru um alvarlegar breytingar á gildum fyrir líffræðilega gæðaþætti viðkomandi gerðar yfirborðsvatnshlots og þar sem stórir hlutar viðkomandi líffélaga, sem alla jafna mætti vænta við óröskuð skilyrði, eru ekki til staðar, skal flokkað sem lélegt.
    1.2.1.          Skilgreiningar á mjög góðu, góðu og sæmilegu vistfræðilegu ástandi áa
Líffræðilegir gæðaþættir
Þáttur Mjög gott ástand Gott ástand Sæmilegt ástand
Plöntusvif Tegundasamsetning plöntusvifs er algjörlega eða nánast eins og vænta mætti við óröskuð skilyrði.
Meðalþéttleiki plöntusvifs er fyllilega í samræmi við gerðarsértæku, eðlisefnafræðilegu skilyrðin og er ekki þannig að breyti umtalsvert gagnsæi miðað við gerðarsértæk skilyrði.
Tíðni og umfang plöntusvifsblóma er í samræmi við gerðarsértæku, eðlisefnafræðilegu skilyrðin.
Smávægilegar breytingar eru á tegundasamsetningu og þéttleika sviflægra lífvera miðað við gerðarsértæk líffélög. Slíkar breytingar benda ekki til hraðari þörungavaxtar sem leiðir til óæskilegra truflana á jafnvægi lífvera í vatnshlotinu eða á eðlisefnafræðilegum gæðum vatnsins eða setsins.
Smávægileg aukning á tíðni og umfangi gerðarsértæka plöntusvifsblómans kann að eiga sér stað.
Tegundasamsetning sviflægra lífvera er nokkuð frábrugðin því sem gerist í gerðarsértækum líffélögum.
Nokkur röskun er á þéttleika og kann að vera svo mikil að umtalsverð, óæskileg truflun verði á gildum annarra líffræðilegra og eðlisefnafræðilegra gæðaþátta.
Nokkur aukning á tíðni og umfangi gerðarsértæka plöntusvifsblómans getur komið fram. Yfir sumarmánuðina getur blómi verið viðvarandi.
Fjölfrumuplöntur og botngróður Tegundasamsetning er algjörlega eða nánast eins og vænta mætti við óröskuð skilyrði.
Engar greinanlegar breytingar hafa orðið á meðalþéttleika fjölfrumuplantna og botngróðurs.
Smávægilegar breytingar eru á tegundasamsetningu og meðalþéttleika fjölfrumuplantna og botngróðurs miðað við gerðarsértæk líffélög. Slíkar breytingar benda ekki til hraðari vaxtar botngróðurs eða æðri plantna sem leiða til óæskilegra truflana á jafnvægi lífvera í vatnshlotinu eða á eðlisefnafræðilegum gæðum vatnsins eða setsins.
Líffélög botngróðurs hafa ekki orðið fyrir skaðlegum áhrifum af bakteríubrúskum og -skánum sem eru til komin vegna starfsemi manna.
Tegundasamsetning fjölfrumuplantna og botngróðurs er nokkuð frábrugðin því sem gerist í gerðarsértækum líffélögum og sýnir umtalsvert meiri röskun en þar sem ástand er gott.
Nokkrar breytingar eru sýnilegar á meðalþéttleika fjölfrumuplantna og botngróðurs.
Bakteríubrúskar og -skánir, sem eru til komin vegna starfsemi manna, kunna að hafa haft áhrif á líffélög botngróðurs og á sumum stöðum komið í stað þeirra.
Botnlægir hryggleysingjar Flokkunarfræðileg samsetning og þéttleiki er algjörlega eða nánast eins og vænta mætti við óröskuð skilyrði.
Engin merki breytinga er að sjá á hlutfalli lífvera sem eru viðkvæmar fyrir truflun og lífvera sem eru það ekki miðað við það sem vænta mætti við óröskuð skilyrði.
Fjölbreytileiki hryggleysingja sýnir engin merki breytinga frá því sem vænta mætti við óröskuð skilyrði.
Smávægilegar breytingar eru á tegundasamsetningu og þéttleika hryggleysingja miðað við gerðarsértæk líffélög.
Smávægilegar breytingar eru á hlutfalli lífvera, sem eru viðkvæmar fyrir truflun, og lífvera, sem eru það ekki, miðað við gerðarsértækt stig.
Smávægilegar breytingar eru á fjölbreytileika hryggleysingja miðað við gerðarsértæku gildin.
Tegundasamsetning hryggleysingja er nokkuð frábrugðin því sem gerist í gerðarsértækum líffélögum.
Mikilvæga hópa tegunda gerðarsértæka líffélagsins vantar.
Fjölbreytileikinn og hlutfall lífvera, sem eru viðkvæmar fyrir truflun, og lífvera, sem eru það ekki, eru verulega miklu minni en gerðarsértæku gildin segja til um og umtalsvert minni en þar sem ástand er gott.
Þáttur Mjög gott ástand Gott ástand Sæmilegt ástand
Fiskar Tegundasamsetning og þéttleiki er algjörlega eða nánast eins og vænta mætti við óröskuð skilyrði.
Allar gerðarsértækar tegundir, sem eru viðkvæmar fyrir truflunum, eru til staðar.
Aldursdreifing í líffélögum fiska sýnir lítil merki truflunar af mannavöldum og bendir ekki til þess að viðkomubrestur hafi orðið eða að viðgangi neinnar tiltekinnar tegundar sé ábótavant.
Smávægilegar breytingar eru á tegundasamsetningu og þéttleika miðað við gerðarsértæku líffélögin vegna áhrifa af mannavöldum á eðlisefnafræðilegu og vatnsformfræðilegu gæðaþættina.
Aldursdreifing í líffélögum fiska sýnir merki truflunar eðlisefnafræðilegra eða vatnsformfræðilegra gæðaþátta af mannavöldum og bendir í nokkrum tilvikum til þess að viðkomubrestur hafi orðið eða að viðgangi tiltekinnar tegundar sé ábótavant að því marki að suma aldurshópa kann að vanta.
Nokkrar breytingar eru á samsetningu og þéttleika fisktegunda miðað við gerðarsértæku líffélögin vegna áhrifa af mannavöldum á eðlisefnafræðilegu og vatnsformfræðilegu gæðaþættina.
Aldursdreifing í líffélögum fiska sýnir merki stórvægilegrar truflunar af mannavöldum að því marki að nokkurn hluta gerðarsértæku tegundanna vantar eða þéttleiki þeirra er mjög lítill.

Vatnsformfræðilegir gæðaþættir
Þáttur Mjög gott ástand Gott ástand Sæmilegt ástand
Vatnabúskapur Vatnsmagn og straumþungi og tengsl sem af því hljótast við grunnvatn endurspegla algjörlega eða nánast það sem vænta mætti við óröskuð skilyrði. Skilyrði eru í samræmi við áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti. Skilyrði eru í samræmi við áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti.
Samfella ár Samfella árinnar raskast ekki af starfsemi manna og far vatnalífvera og flutningur sets eru eðlileg. Skilyrði eru í samræmi við áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti. Skilyrði eru í samræmi við áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti.
Formfræðileg skilyrði Árfarvegsmynstur, breytileg dýpt og breidd, straumhraði, skilyrði að því er varðar undirlag og bæði gerð og ástand árbakkasvæða eru algjörlega eða nánast eins og vænta mætti við óröskuð skilyrði. Skilyrði eru í samræmi við áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti. Skilyrði eru í samræmi við áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti.
Eðlisefnafræðilegir gæðaþættir (1)
Þáttur Mjög gott ástand Gott ástand Sæmilegt ástand
Almenn skilyrði Gildi eðlisefnafræðilegu þáttanna eru algjörlega eða nánast eins og vænta mætti við óröskuð skilyrði.
Styrkur næringarefna helst innan þeirra marka sem alla jafna mætti vænta við óröskuð skilyrði.
Selta, sýrustig súrefnisjafnvægi, sýruhlutleysingargeta og hitastig sýna engin merki truflunar af mannavöldum og haldast innan þeirra marka sem alla jafna mætti vænta við óröskuð skilyrði.
Hiti, súrefnisjafnvægi, sýrustig, sýruhlutleysingargeta og selta eru ekki utan þeirra marka sem fastsett hafa verið til að tryggja að gerðarsértæka vistkerfið starfi eðlilega og áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti náist.
Styrkur næringarefna er ekki utan þeirra marka sem fastsett hafa verið til að tryggja að vistkerfið starfi eðlilega og áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti náist.
Skilyrði eru í samræmi við áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti.
Sérstakir, tilbúnir mengunarvaldar Styrkur er nálægt núlli eða a.m.k. undir greiningarmörkum fullkomnustu greiningaraðferða sem eru almennt notaðar. Styrkur er ekki meiri en kröfurnar leyfa sem settar eru í samræmi við málsmeðferðina sem lýst er í lið 1.2.6, samanber þó tilskipun 91/414/EB og tilskipun 98/8/EB. Skilyrði eru í samræmi við áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti.
Aðrir sérstakir mengunarvaldar Styrkur helst innan þeirra marka sem alla jafna mætti vænta við óröskuð skilyrði (bakgrunnsgildi (1)) Styrkur er ekki meiri en kröfurnar leyfa sem settar eru í samræmi við málsmeðferðina sem lýst er í lið 1.2.6 (2), samanber þó tilskipun 91/414/EB og tilskipun 98/8/EB (< umhverfisgæðakröfur). Skilyrði eru í samræmi við áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti.
( 1 )     Skammstafanir eiga ekki við í íslenska textanum.
( 2 )     Við beitingu krafnanna, sem eru settar samkvæmt þessari bókun, skal þess ekki krafist að dregið sé úr styrk mengunarvalda þannig að hann verði undir bakgrunnsgildum (umhverfisgæðakröfur > bakgrunnsgildi).

    1.2.2.          Skilgreiningar á mjög góðu, góðu og sæmilegu, vistfræðilegu ástandi stöðuvatna
Líffræðilegir gæðaþættir
Þáttur Mjög gott ástand Gott ástand Sæmilegt ástand
Plöntusvif Tegundasamsetning og þéttleiki plöntusvifs er algjörlega eða nánast eins og vænta mætti við óröskuð skilyrði.
Meðallífmassi plöntusvifs er í samræmi við gerðarsértæku, eðlisefnafræðilegu skilyrðin og er ekki þannig að það breyti umtalsvert gagnsæi miðað við gerðarsértæk skilyrði.
Plöntusvifsblómi kemur fram í sömu tíðni og í sama umfangi og við gerðarsértæku, eðlisefnafræðilegu skilyrðin.
Smávægilegar breytingar eru á tegundasamsetningu og þéttleika sviflægra lífvera miðað við gerðarsértæk líffélög. Slíkar breytingar benda ekki til hraðari þörunga vaxtar sem leiðir til óæskilegrar truflunar á jafnvægi lífvera í vatnshlotinu eða á eðlisefnafræðilegum gæðum vatnsins eða setsins.
Smávægileg aukning á tíðni og umfangi plöntusvifsblómans getur komið fram miðað við gerðarsértæk skilyrði.
Tegundasamsetning og þéttleiki sviflægra lífvera eru nokkuð frábrugðin því sem gerist í gerðarsértækum líffélögum.
Nokkur röskun er á lífmassa og kann að vera svo mikil að umtalsverð, óæskileg truflun verði á öðrum líffræðilegum gæðaþáttum og eðlisefnafræðilegum gæðum vatnsins eða setsins.
Nokkur aukning á tíðni og umfangi plöntusvifsblómans getur komið fram. Yfir sumarmánuðina getur blómi verið viðvarandi.
Fjölfrumuplöntur og botngróður Tegundasamsetningin er algjörlega eða nánast eins og vænta mætti við óröskuð skilyrði.
Engar greinanlegar breytingar hafa orðið á meðalþéttleika fjölfrumuplantna og botngróðurs.
Smávægilegar breytingar eru á tegundasamsetningu og þéttleika fjölfrumuplantna og botngróðurs miðað við gerðarsértæk líffélög. Slíkar breytingar benda ekki til hraðari vaxtar botngróðurs eða æðri plantna sem leiða til óæskilegrar truflunar á jafnvægi lífvera í vatnshlotinu eða á eðlisefnafræðilegum gæðum vatnsins.
Líffélög botngróðurs hafa ekki orðið fyrir skaðlegum áhrifum af bakteríubrúskum og -skánum sem eru til komin vegna starfsemi manna.
Tegundasamsetning fjölfrumuplantna og botngróðurs er nokkuð frábrugðin því sem gerist í gerðarsértækum líffélögum og sýnir umtalsvert meiri röskun en þar sem ástand er gott.
Nokkrar breytingar á meðalþéttleika fjölfrumuplantna og botngróðurs eru augljósar.
Bakteríubrúskar og -skánir, sem eru til komin vegna starfsemi manna, kunna að hafa haft áhrif á líffélög botngróðurs og á sumum stöðum komið í stað þeirra.
Botnlægir hryggleysingjar Tegundasamsetning og þéttleiki er algjörlega eða nánast eins og vænta mætti við óröskuð skilyrði.
Engin merki breytinga er að sjá á hlutfalli lífvera, sem eru viðkvæmar fyrir truflun, og lífvera, sem eru það ekki, miðað við það sem vænta mætti við óröskuð skilyrði.
Fjölbreytileiki hryggleysingja sýnir engin merki breytinga frá því sem vænta mætti við óröskuð skilyrði.
Smávægilegar breytingar eru á tegundasamsetningu og þéttleika hryggleysingja miðað við gerðarsértæk líffélög.
Smávægilegar breytingar eru á hlutfalli lífvera, sem eru viðkvæmar fyrir truflun, og lífvera, sem eru það ekki, miðað við gerðarsértæk líffélög.
Smávægilegar breytingar eru á fjölbreytileika hryggleysingja miðað við gerðarsértæk skilyrði.
Tegundasamsetning og þéttleiki hryggleysingja eru nokkuð frábrugðin því sem gerist við gerðarsértæk skilyrði.
Mikilvæga hópa tegunda gerðarsértæka líffélagsins vantar.
Fjölbreytileikinn og hlutfall lífvera, sem eru viðkvæmar fyrir truflun, og lífvera, sem eru það ekki, er umtalsvert miklu minni en gerðarsértæku gildin segja til um og mun minni en þar sem ástand er gott.
Þáttur Mjög gott ástand Gott ástand Sæmilegt ástand
Fiskar Tegundasamsetning og þéttleiki er algjörlega eða nánast eins og vænta mætti við óröskuð skilyrði.
Allar viðkvæmar, gerðarsértækar tegundir eru til staðar.
Aldursdreifing í líffélögum fiska sýnir lítil merki um truflun af mannavöldum og benda ekki til að viðkomubrestur hafi orðið eða að viðgangi tiltekinnar tegundar sé ábótavant.
Smávægilegar breytingar eru á samsetningu og þéttleika tegunda miðað við gerðarsértæku líffélögin vegna áhrifa af mannavöldum á eðlisefnafræðilegu og vatnsformfræðilegu gæðaþættina.
Aldursdreifing í líffélögum fiska sýnir merki truflunar af mannavöldum á eðlisefnafræðilegum eða vatnsform fræðilegum gæðaþáttum og bendir í nokkrum tilvikum til viðkomubrests eða að viðgangi tiltekinnar tegundar sé ábótavant að því marki að suma aldurshópa kann að vanta.
Nokkrar breytingar eru á samsetningu og þéttleika fisktegunda miðað við gerðarsértæku líffélögin vegna áhrifa af mannavöldum á eðlisefnafræðilegu og vatnsformfræðilegu gæðaþættina.
Aldursdreifing í líffélögum fiska sýnir merki stórvægilegrar truflunar sem rekja má til áhrifa af mannavöldum á eðlisefnafræðilegu og vatnsformfræðilegu gæðaþættina, að því marki að nokkurn hluta gerðarsértæku tegundanna vantar eða þéttleiki þeirra er mjög lítill.

Vatnsformfræðilegir gæðaþættir
Þáttur Mjög gott ástand Gott ástand Sæmilegt ástand
Vatnasvið Vatnsmagn og straumþungi, vatnshæð, viðstöðutími og tengsl við grunnvatn, sem af því hljótast, endurspegla algjörlega eða nánast það sem vænta mætti við óröskuð skilyrði. Skilyrði eru í samræmi við áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti. Skilyrði eru í samræmi við áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti.
Formfræðileg skilyrði Breytileiki í dýpt stöðuvatns, magn og gerð undirlagsins og bæði gerð og ástand árbakkasvæða eru algjörlega eða nánast eins og vænta mætti við óröskuð skilyrði. Skilyrði eru í samræmi við áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti. Skilyrði eru í samræmi við áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti.
Eðlisefnafræðilegir gæðaþættir (1)
Þáttur Mjög gott ástand Gott ástand Sæmilegt ástand
Almenn skilyrði Gildi eðlisefnafræðilegu þáttanna eru algjörlega eða nánast eins og vænta mætti við óröskuð skilyrði.
Styrkur næringarefna helst innan þeirra marka sem alla jafna mætti vænta við óröskuð skilyrði.
Selta, sýrustig, súrefnisjafnvægi, sýruhlutleysingargeta, gagnsæi og hitastig sýna engin merki truflunar af mannavöldum og haldast innan þeirra marka sem alla jafna mætti vænta við óröskuð skilyrði.
Hiti, súrefnisjafnvægi, sýrustig, sýruhlutleysingargeta, gagnsæi og selta eru ekki utan þeirra marka sem fastsett hafa verið til að tryggja að vistkerfið starfi eðlilega og áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti náist.
Styrkur næringarefna er ekki utan þeirra marka sem fastsett hafa verið til að tryggja að vistkerfið starfi eðlilega og áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti náist.
Skilyrði eru í samræmi við áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti.
Sérstakir, tilbúnir mengunarvaldar Styrkur er nálægt núlli eða a.m.k. undir greiningarmörkum fullkomnustu greiningaraðferða sem eru almennt notaðar. Styrkur er ekki meiri en kröfurnar leyfa sem settar eru í samræmi við málsmeðferðina sem lýst er í lið 1.2.6, samanber þó tilskipun 91/414/EB og tilskipun 98/8/EB (< umhverfisgæðakröfur). Skilyrði eru í samræmi við áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti.
Aðrir sérstakir mengunarvaldar Styrkur helst innan þeirra marka sem alla jafna mætti vænta við óröskuð skilyrði (bakgrunnsgildi (1)). Styrkur er ekki meiri en kröfurnar leyfa sem settar eru í samræmi við málsmeðferðina sem lýst er í lið 1.2.6 (2), samanber þó tilskipun 91/414/EB og tilskipun 98/8/EB (< umhverfisgæðakröfur). Skilyrði eru í samræmi við áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti.
( 1 )     Skammstafanir eiga ekki við í íslenska textanum.
( 2 )     Við beitingu krafnanna, sem eru settar samkvæmt þessari bókun, skal þess ekki krafist að dregið sé úr styrk mengunarvalda þannig að hann verði undir bakgrunnsgildum (umhverfisgæðakröfur > bakgrunnsgildi)
    1.2.3.      Skilgreiningar á mjög góðu, góðu og sæmilegu vistfræðilegu ástandi árósavatns
Líffræðilegir gæðaþættir
Þáttur Mjög gott ástand Gott ástand Sæmilegt ástand
Plöntusvif Tegundasamsetning og þéttleiki plöntusvifs er í samræmi við það sem vænta mætti við óröskuð skilyrði.
Meðallífmassi plöntusvifs er í samræmi við gerðarsértæku, eðlisefnafræðilegu skilyrðin og er ekki þannig að það breyti umtalsvert gagnsæi miðað við gerðarsértæk skilyrði.
Tíðni og umfang plöntusvifsblóma er í samræmi við gerðarsértæku, eðlisefnafræðilegu skilyrðin.
Smávægilegar breytingar eru á tegundasamsetningu og þéttleika plöntusvifs.
Smávægilegar breytingar eru á lífmassa miðað við gerðarsértæk skilyrði. Slíkar breytingar benda ekki til hraðari þörungavaxtar sem leiðir til óæskilegrar truflunar á jafnvægi lífvera í vatnshlotinu eða á eðlisefnafræðilegum gæðum vatnsins.
Smávægileg aukning á tíðni og umfangi gerðarsértæka plöntusvifsblómans getur komið fram.
Tegundasamsetning og þéttleiki plöntusvifs eru nokkuð frábrugðin því sem gerist við gerðarsértæk skilyrði.
Nokkur röskun er á lífmassa og kann að vera svo mikil að umtalsverð, óæskileg truflun verði á öðrum líffræðilegum gæðaþáttum.
Nokkur aukning á tíðni og umfangi plöntusvifsblómans getur komið fram. Yfir sumarmánuðina getur blómi verið viðvarandi.
Stórþörungar Tegundasamsetning stórþörunga er í samræmi við það sem vænta mætti við óröskuð skilyrði.
Engar greinanlegar breytingar eru á þekju stórþörunga af völdum starfsemi manna.
Smávægilegar breytingar eru á tegundasamsetningu og þéttleika stórþörunga miðað við gerðarsértæk líffélög. Slíkar breytingar benda ekki til hraðari vaxtar botngróðurs eða æðri plantna sem leiða til óæskilegrar truflunar á jafnvægi lífvera í vatnshlotinu eða á eðlisefnafræðilegum gæðum vatnsins. Tegundasamsetning stórþörunga er nokkuð frábrugðin því sem gerist við gerðarsértæk skilyrði og sýnir umtalsvert meiri röskun en þar sem ástand er gott.
Nokkrar breytingar eru augljósar á meðalþéttleika stórþörunga og kann að vera svo mikil að veruleg, óæskileg truflun verði á jafnvægi lífvera í vatnshlotinu.
Dulfrævingar Tegundasamsetningin svarar algjörlega eða nánast til þess sem vænta mætti við óröskuð skilyrði.
Engar greinanlegar breytingar eru á þéttleika dulfrævinga af völdum starfsemi manna.
Smávægilegar breytingar eru á tegundasamsetningu dulfrævinga miðað við gerðarsértæk líffélög.
Þéttleiki dulfrævinga sýnir smávægileg merki truflunar.
Tegundasamsetning dulfrævinga er nokkuð frábrugðin því sem gerist í gerðarsértækum líffélögum og sýnir umtalsvert meiri röskun en þar sem ástand er gott.
Nokkur röskun er á þéttleika dulfrævinga.

Þáttur Mjög gott ástand Gott ástand Sæmilegt ástand
Botnlægir hryggleysingjar Fjölbreytileiki og þéttleiki hryggleysingja er innan þeirra marka sem alla jafna mætti vænta við óröskuð skilyrði.
Allar gerðarsértækar lífverur, sem eru viðkvæmar fyrir truflun og vænta mætti við óröskuð skilyrði, eru til staðar.
Fjölbreytileiki og þéttleiki hryggleysingja er lítillega utan þeirra marka sem alla jafna eru tengd gerðarsértækum skilyrðum.
Flestar viðkvæmar lífverur gerðarsértæku líffélaganna eru til staðar.
Fjölbreytileiki og þéttleiki hryggleysingja er nokkuð utan þeirra marka sem alla jafna eru tengd gerðarsértækum skilyrðum.
Lífverur, sem benda til mengunar, eru til staðar.
Margar viðkvæmar lífverur gerðarsértæku líffélaganna eru til staðar.
Fiskar Tegundasamsetning og þéttleiki er í samræmi við það sem vænta mætti við óröskuð skilyrði. Þéttleiki tegunda, sem eru viðkvæmar fyrir truflun, sýnir smávægileg merki röskunar miðað við gerðarsértæku líffélögin vegna áhrifa af mannavöldum á eðlisefnafræðilegu og vatnsformfræðilegu gæðaþættina. Nokkurn hluta gerðarsértæku tegundanna, sem eru viðkvæmar fyrir truflun, vantar sem má rekja til áhrifa af mannavöldum á eðlisefnafræðilegu eða vatnsformfræðilegu gæðaþættina.

Vatnsformfræðilegir gæðaþættir
Þáttur Mjög gott ástand Gott ástand Sæmilegt ástand
Sjávarföll Ferskvatnsflæðið er algjörlega eða nánast eins og vænta mætti við óröskuð skilyrði. Skilyrði eru í samræmi við áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti. Skilyrði eru í samræmi við áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti.
Formfræðileg skilyrði Breytileiki í dýpt, skilyrði að því er varðar undirlag og bæði gerð og ástand svæðisins milli há- og lágflæðimarka eru algjörlega eða nánast eins og vænta mætti við óröskuð skilyrði. Skilyrði eru í samræmi við áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti. Skilyrði eru í samræmi við áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti.

Eðlisefnafræðilegir gæðaþættir (1)
Þáttur Mjög gott ástand Gott ástand Sæmilegt ástand
Almenn skilyrði Eðlisefnafræðilegu þættirnir eru algjörlega eða nánast eins og vænta mætti við óröskuð skilyrði.
Styrkur næringarefna helst innan þeirra marka sem alla jafna mætti vænta við óröskuð skilyrði.
Hitastig, súrefnisjafnvægi og gagnsæi sýna engin merki truflunar af mannavöldum og haldast innan þeirra marka sem alla jafna mætti vænta við óröskuð skilyrði.
Hiti, súrefnisjafnvægi og gagnsæi eru ekki utan þeirra marka sem fastsett hafa verið til að tryggja að vistkerfið starfi eðlilega og áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti náist.
Styrkur næringarefna er ekki utan þeirra marka sem fastsett hafa verið til að tryggja að vistkerfið starfi eðlilega og áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti náist.
Skilyrði eru í samræmi við áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti.
Sérstakir, tilbúnir mengunarvaldar Styrkur er nálægt núlli eða a.m.k. undir greiningarmörkum fullkomnustu greiningaraðferða sem eru almennt notaðar. Styrkur er ekki meiri en kröfurnar leyfa sem settar eru í samræmi við málsmeðferðina sem lýst er í lið 1.2.6, samanber þó tilskipun 91/414/EB og tilskipun 98/8/EB (< umhverfisgæðakröfur). Skilyrði eru í samræmi við áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti.
Aðrir sérstakir mengunarvaldar Styrkur helst innan þeirra marka sem alla jafna mætti vænta við óröskuð skilyrði (bakgrunnsgildi (1)) Styrkur er ekki meiri en kröfurnar leyfa sem settar eru í samræmi við málsmeðferðina sem lýst er í lið 1.2.6, samanber þó tilskipun 91/414/EB og tilskipun 98/8/EB (< umhverfisgæðakröfur). Skilyrði eru í samræmi við áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti.
( 1 )     Skammstafanir eiga ekki við í íslenska textanum.
( 2 )     Við beitingu krafnanna, sem eru settar samkvæmt þessari bókun, skal þess ekki krafist að dregið sé úr styrk mengunarvalda þannig að hann verði undir bakgrunnsgildum (umhverfisgæðakröfur > bakgrunnsgildi)
    1.2.4.      Skilgreiningar á mjög góðu, góðu og sæmilegu vistfræðilegu ástandi strandsjávar
Líffræðilegir gæðaþættir
Þáttur Mjög gott ástand Gott ástand Sæmilegt ástand
Plöntusvif Tegundasamsetning og fjöldi þörunga í plöntusvifinu er í samræmi við það sem vænta mætti við óröskuð skilyrði.
Meðallífmassi plöntusvifs er í samræmi við gerðarsértæku, eðlisefnafræðilegu skilyrðin og er ekki þannig að það breyti umtalsvert gagnsæi miðað við gerðarsértæk skilyrði.
Tíðni og umfang plöntusvifsblóma er í samræmi við gerðarsértæku, eðlisefnafræðilegu skilyrðin.
Tegundasamsetning og fjöldi þörunga í plöntusvifinu sýna smávægileg merki truflunar.
Smávægilegar breytingar eru á lífmassa miðað við gerðarsértæk skilyrði. Slíkar breytingar benda ekki til hraðari þörungavaxtar sem leiðir til óæskilegrar truflunar á jafnvægi lífvera í vatnshlotinu eða á gæðum vatnsins.
Smávægileg aukning á tíðni og umfangi gerðarsértæka plöntusvifsblómans getur komið fram.
Tegundasamsetning og þéttleiki sviflægra lífvera sýna nokkur merki truflunar.
Lífmassi þörunga er verulega langt utan þeirra marka sem alla jafna eru tengd gerðarsértækum skilyrðum og er þannig að það hefur áhrif á aðra líffræðilega gæðaþætti.
Nokkur aukning á tíðni og umfangi plöntusvifs blómans kann að eiga sér stað. Yfir sumarmánuðina getur blómi verið viðvarandi.
Stórþörungar og dulfrævingar Flestir stórþörungar og dulfrævingar, sem eru viðkvæmir fyrir truflun og vænta mætti við óröskuð skilyrði, eru til staðar.
Þekja stórþörunga og dulfrævinga er í samræmi við það sem vænta mætti við óröskuð skilyrði.
Flestir stórþörungar og dulfrævingar, sem eru viðkvæmir fyrir truflun og vænta mætti við óröskuð skilyrði, eru til staðar.
Þekja stórþörunga og þéttleiki dulfrævinga sýna smávægileg merki truflunar.
Nokkur hluti stórþörunga og dulfrævinga, sem eru viðkvæmir fyrir truflun og búast mætti við í ósnortnu vatnshloti, er ekki til staðar.
Nokkur röskun er á þekju stórþörunga og þéttleika dulfrævinga og kann að vera svo mikil að óæskileg truflun verði á jafnvægi lífvera í vatnshlotinu.
Botnlægir hryggleysingjar Fjölbreytileiki og þéttleiki hryggleysingja er innan þeirra marka sem alla jafna mætti vænta við óröskuð skilyrði.
Allar lífverur, sem eru viðkvæmar fyrir truflun og vænta mætti við óröskuð skilyrði, eru til staðar.
Fjölbreytileiki og þéttleiki hryggleysingja er lítillega utan þeirra marka sem alla jafna eru tengd gerðarsértækum skilyrðum.
Flestar viðkvæmar lífverur gerðarsértæku líffélaganna eru til staðar.
Fjölbreytileiki og þéttleiki hryggleysingja er nokkuð utan þeirra marka sem alla jafna eru tengd gerðarsértækum skilyrðum.
Lífverur, sem benda til mengunar, eru til staðar.
Margar viðkvæmar lífverur gerðarsértæku líffélaganna vantar.
Vatnsformfræðilegir gæðaþættir
Þáttur Mjög gott ástand Gott ástand Sæmilegt ástand
Sjávarföll Ferskvatnsflæði og stefna og hraði ráðandi strauma eru algjörlega eða nánast eins og vænta mætti við óröskuð skilyrði. Skilyrði eru í samræmi við áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti. Skilyrði eru í samræmi við áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti.
Formfræðileg skilyrði Breytileiki í dýpt, gerð og undirlag sjávarbotnsins og bæði gerð og ástand svæðisins milli há- og lágflæðimarka eru algjörlega eða nánast eins og vænta mætti við óröskuð skilyrði. Skilyrði eru í samræmi við áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti. Skilyrði eru í samræmi við áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti.
Eðlisefnafræðilegir gæðaþættir (1)
Þáttur Mjög gott ástand Gott ástand Sæmilegt ástand
Almenn skilyrði Eðlisefnafræðilegu þættirnir eru algjörlega eða nánast eins og vænta mætti við óröskuð skilyrði.
Styrkur næringarefna helst innan þeirra marka sem alla jafna mætti vænta við óröskuð skilyrði.
Hiti, súrefnisjafnvægi og gagnsæi sýna engin merki truflunar af mannavöldum og haldast innan þeirra marka sem alla jafna mætti vænta við óröskuð skilyrði.
Hitastig, súrefnisjafnvægi og gagnsæi eru ekki utan þeirra marka sem ákvörðuð hafa verið til að tryggja að vistkerfið starfi eðlilega og til að áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti náist.
Styrkur næringarefna er ekki utan þeirra marka sem fastsett hafa verið til að tryggja að vistkerfið starfi eðlilega og áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti náist.
Skilyrði eru í samræmi við áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti.
Sérstakir, tilbúnir mengunarvaldar Styrkur er nálægt núlli eða a.m.k. undir greiningarmörkum fullkomnustu greiningaraðferða sem eru almennt notaðar. Styrkur er ekki meiri en kröfurnar leyfa sem settar eru í samræmi við málsmeðferðina sem lýst er í lið 1.2.6, samanber þó tilskipun 91/414/EB og tilskipun 98/8/EB (< umhverfisgæðakröfur). Skilyrði eru í samræmi við áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti.
Aðrir sérstakir mengunarvaldar Styrkur helst innan þeirra marka sem alla jafna mætti vænta við óröskuð skilyrði (bakgrunnsgildi (1)). Styrkur er ekki meiri en kröfurnar leyfa sem settar eru í samræmi við málsmeðferðina sem lýst er í lið 1.2.6 samanber þó tilskipun 91/414/EB og tilskipun 98/8/EB (< umhverfisgæðakröfur). Skilyrði eru í samræmi við áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti.
( 1 )     Skammstafanir eiga ekki við í íslenska textanum.
( 2 )     Við beitingu krafnanna, sem eru settar samkvæmt þessari bókun, skal þess ekki krafist að dregið sé úr styrk mengunarvalda þannig að hann verði undir bakgrunnsgildum (umhverfisgæðakröfur > bakgrunnsgildi)

    1.2.5.      Skilgreiningar á besta, góðu og sæmilegu vistmegni mikið breyttra eða manngerðra vatnshlota
Þáttur Besta vistmegin Gott vistmegin Sæmilegt vistmegin
Líffræðilegir gæðaþættir Gildi líffræðilegu gæðaþáttanna endurspegla, eins og kostur er, þau gildi sem tengd eru sambærilegustu gerð yfirborðsvatnshlota, að teknu tilliti til skilyrðanna sem stafa af manngerðum eða mikið breyttum eiginleikum vatnshlotsins. Smávægilegar breytingar eru á gildum viðkomandi fyrir líffræðilega gæðaþætti miðað við gildin sem finnast við besta vistmegin. Nokkrar breytingar eru á gildum viðkomandi fyrir líffræðilega gæðaþætti miðað við gildin sem finnast við besta vistmegin.
Þessi gildi sýna umtalsvert meiri röskun en þar sem ástand er gott.
Vatnsformfræðilegir þættir Vatnsformfræðilegu skilyrðin eru í samræmi við það að einu áhrifin á yfirborðsvatnshlotið séu þau sem stafa af manngerðum eða mikið breyttum eiginleikum vatnshlotsins þegar allar mildandi ráðstafanir hafa verið gerðar til að tryggja bestu aðferðina við að ná vistfræðilegri samfellu, einkum að því er varðar far dýra og hrygningar- og uppeldisstöðvar. Skilyrði eru í samræmi við áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti. Skilyrði eru í samræmi við áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti.
Eðlisefnafræðilegir þættir
Almenn skilyrði Eðlisefnafræðilegu þættirnir eru algjörlega eða nánast eins og búast mætti við í þeirri gerð yfirborðsvatnshlots sem helst er sambærilegt við mikið breytta eða manngerða vatnshlotið sem um ræðir, ef hún væri óröskuð.
Styrkur næringarefna helst innan þeirra marka sem alla jafna mætti vænta við óröskuð skilyrði.
Hiti, súrefnisjafnvægi og sýrustig eru í samræmi við það sem búast mætti við í þeirri gerð yfirborðsvatnshlota sem líkust er við óröskuð skilyrði.
Gildin fyrir eðlisefnafræðilegu þættina eru innan þeirra marka sem ákvörðuð hafa verið til að tryggja að vistkerfið starfi eðlilega og til að áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti náist.
Hita- og sýrustig eru ekki utan þeirra marka sem ákvörðuð hafa verið til að tryggja að vistkerfið starfi eðlilega og til að áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti náist.
Styrkur næringarefna er ekki utan þeirra marka sem fastsett hafa verið til að tryggja að vistkerfið starfi eðlilega og áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti náist.
Skilyrði eru í samræmi við áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti.
Þáttur Besta vistmegin Gott vistmegin Sæmilegt vistmegin
Sérstakir, tilbúnir mengunarvaldar Styrkur er nálægt núlli eða a.m.k. undir greiningarmörkum fullkomnustu greiningaraðferða sem eru almennt notaðar. Styrkur er ekki meiri en kröfurnar leyfa sem settar eru í samræmi við málsmeðferðina sem lýst er í lið 1.2.6, samanber þó tilskipun 91/414/EB og tilskipun 98/8/EB (< umhverfisgæðakröfur). Skilyrði eru í samræmi við áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti.
Aðrir sérstakir mengunarvaldar Styrkur helst innan þeirra marka sem alla jafna mætti vænta í þeirri gerð yfirborðsvatnshlota, sem mest líkist mikið breytta eða manngerða vatnshlotinu sem um ræðir, ef hún væri óröskuð (bakgrunnsgildi). Styrkur er ekki meiri en kröfurnar leyfa sem settar eru í samræmi við málsmeðferðina sem lýst er í lið 1.2.6 (1), samanber þó tilskipun 91/414/EB og tilskipun 98/8/EB (< umhverfisgæðakröfur). Skilyrði eru í samræmi við áðurgreind gildi fyrir líffræðilega gæðaþætti.
( 1 )     Við beitingu krafnanna, sem eru settar samkvæmt þessari bókun, skal þess ekki krafist að dregið sé úr styrk mengunarvalda þannig að hann verði undir bakgrunnsgildum.
    1.2.6.      Málsmeðferð aðildarríkja við setningu efnafræðilegra gæðakrafna
        Við ákvörðun umhverfisgæðakrafna fyrir mengunarvaldana, sem tilgreindir eru í 1. til 9. lið VIII. viðauka, í því skyni að vernda lífríki í vatni skulu aðildarríkin starfa í samræmi við eftirfarandi ákvæði. Setja má kröfur fyrir vatn, set eða lífríki.
        Þar sem unnt er skal afla bæði gagna um bráð og langvarandi eiturhrif á lífveruhópana, sem hér fara á eftir, sem eiga við um viðkomandi gerð vatnshlots, sem og aðrar vatnalífverur sem gögn eru til um. „Grunnhópar“ lífvera eru:
              þörungar og/eða fjölfrumuplöntur,
              halaflær eða lífverur sem eru dæmigerðar fyrir salt vatn,
              fiskar.
         Setning umhverfisgæðakrafna
        Eftirfarandi málsmeðferð gildir um setningu gilda fyrir hámarksmeðalstyrk á ári:
         i)      Aðildarríkin skulu setja viðeigandi öryggisþætti í hverju tilviki í samræmi við eðli og gæði gagna, sem fyrir hendi eru, og leiðbeiningarnar í lið 3.3.1 í II. hluta „Tæknilegra leiðbeininga til stuðnings tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 93/67/EBE um mat á áhættu af völdum nýrra, tilkynntra efna og reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1488/94 um mat á áhættu af völdum skráðra efna“ og í samræmi við öryggisþættina sem fram koma í töflunni hér á eftir:
Öryggisþáttur
A.m.k. eitt tilvik um bráð eiturhrif við miðgildisbanastyrk (L(E)C50) á hverju af þremur fæðuþrepum grunnhópanna.. 1 000
Eitt tilvik um styrk sem hefur engin merkjanleg áhrif (NOEC) (annaðhvort í fiski eða halafló eða dæmigerðri lífveru í söltu vatni). 100
Tvö tilvik um styrk sem hefur engin merkjanleg áhrif í tegundum á tveimur fæðuþrepum (fiski og/eða halafló eða dæmigerðri lífveru í söltu vatni og/eða þörungum). 50
Tilvik um styrk sem hefur engin merkjanleg áhrif í a.m.k. þremur tegundum (yfirleitt fiski, halafló eða dæmigerðri lífveru í söltu vatni og þörungum) á þremur fæðuþrepum. 10
Önnur tilvik, þar með talin vettvangsgögn eða vistkerfalíkön, sem gera kleift að reikna út og styðjast við nákvæmari öryggisþætti. Metið í hverju tilviki,
         ii)      ef gögn eru fyrir hendi um þrávirkni og uppsöfnun í lífverum skal taka tillit til þeirra þegar endanleg gildi fyrir umhverfisgæðakröfur eru ákveðin,
         iii)      kröfurnar, sem þannig eru ákveðnar, skulu bornar saman við fyrirliggjandi niðurstöður úr vettvangsrannsóknum. Ef frávik koma í ljós skal endurskoða ákvörðunina til að reikna megi út nákvæmari öryggisþátt.
         iv)      kröfurnar, sem ákveðnar eru, skulu lagðar fram til jafningjarýni og samráð haft um þær við almenning til að reikna megi út nákvæmari öryggisþátt.
  1.3.          Vöktun á vistfræðilegu og efnafræðilegu ástandi yfirborðsvatns
        Koma skal á vöktunarneti fyrir yfirborðsvatn í samræmi við kröfur 8. gr. Tilhögun vöktunarnetsins skal vera þannig að það gefi samfellda heildarsýn yfir vistfræðilegt og efnafræðilegt ástand innan hvers vatnasviðs og geri kleift að flokka vatnshlotin í fimm flokka í samræmi við stöðluðu skilgreiningarnar í lið 1.2. Aðildarríkin skulu leggja fram með stjórnunaráætluninni fyrir vatnasviðaumdæmi eitt eða fleiri kort sem sýna vöktunarnet fyrir yfirborðsvatn.
        Á grundvelli lýsingar á eiginleikum og mats á áhrifum, sem fram fer í samræmi við 5. gr. og II. viðauka, skulu aðildarríkin koma á yfirlitsvöktunaráætlun og aðgerðavöktunaráætlun fyrir hvert tímabil sem stjórnunaráætlun fyrir vatnasviðaumdæmi gildir. Aðildarríkin geta einnig í sumum tilvikum þurft að koma á áætlunum um rannsóknarvöktun.
        Aðildarríkin skulu fylgjast með færibreytum sem gefa vísbendingar um ástand hvers gæðaþáttar sem máli skiptir. Þegar valdar eru færibreytur fyrir líffræðilega gæðaþætti skulu aðildarríkin tilgreina tegundasamsetningu af viðeigandi nákvæmni svo að flokkun gæðaþáttanna verði nægilega áreiðanleg og nákvæm. Í áætluninni skal koma fram mat á áreiðanleika og nákvæmni niðurstaðna vöktunaráætlananna.
    1.3.1.      Tilhögun yfirlitsvöktunar
        Markmið
        Aðildarríkin skulu koma á yfirlitsvöktunaráætlunum til að afla upplýsinga:
              til að bæta við og fullgilda aðferðina við mat á áhrifum sem lýst er í II. viðauka,
              fyrir skilvirka og árangursríka tilhögun vöktunaráætlana í framtíðinni,
              fyrir mat á langtímabreytingum á náttúrulegum skilyrðum og
              fyrir mat á langtímabreytingum sem stafa af umfangsmikilli starfsemi manna.
        Niðurstöður slíkrar vöktunar skulu yfirfarnar og notaðar ásamt aðferðinni við mat á áhrifum, sem lýst er í II. viðauka, til að ákvarða kröfur um vöktunaráætlanir í núverandi stjórnunaráætlunum fyrir vatnasviðaumdæmi og öðrum sem fylgja í kjölfarið.
        Val á vöktunarstöðum
        Fram skal fara yfirlitsvöktun á nægilega mörgum yfirborðsvatnshlotum til að unnt sé að meta heildarástand yfirborðsvatns innan hvers aðrennslis- eða undiraðrennslissvæðis innan vatnasviðaumdæmisins. Við val á þessum vatnshlotum skulu aðildarríkin tryggja að vöktun fari fram, eftir því sem við á, á stöðum þar sem:
              vatnsrennsli er umtalsvert innan vatnasviðaumdæmisins í heild, þ.m.t. staðir við stórar ár þar sem aðrennslissvæði er stærra en 2 500 km2,
              vatnsmagn er umtalsvert innan vatnasviðaumdæmisins, þ.m.t stór stöðuvötn og miðlunarlón,
              talsvert stór vatnshlot ná yfir landamæri aðildarríkis,
              staðirnir eru tilgreindir samkvæmt ákvörðun 77/795/EBE um skipti á upplýsingum og
        á öðrum stöðum sem þörf er á til að meta álag mengunar sem berst yfir landamæri aðildarríkis og út í umhverfi sjávar.
        Val á gæðaþáttum
        Yfirlitsvöktun skal fara fram í eitt ár á hverjum vöktunarstað, þann tíma sem stjórnunaráætlunin fyrir vatnasviðaumdæmi gildir fyrir, og beinast að:
              færibreytum sem gefa vísbendingar um alla líffræðilega gæðaþætti,
              færibreytum sem gefa vísbendingar um alla vatnsformfræðilega gæðaþætti,
              færibreytum sem gefa vísbendingar um alla almenna, eðlisefnafræðilega gæðaþætti,
              mengunarvöldum á forgangsskrá sem er sleppt út í vatna- eða undirvatnasviðið og
              öðrum mengunarvöldum sem er sleppt í umtalsverðu magni út í vatna- eða undirvatnasviðið,
        nema fyrri yfirlitsvöktun hafi leitt í ljós að viðkomandi vatnshlot hafi náð góðu ástandi og að ekkert í mati á áhrifum af mannavöldum, skv. II. viðauka, bendi til þess að breyting hafi orðið á áhrifum á vatnshlotið. Í slíkum tilvikum skal yfirlitsvöktun fara fram samhliða þriðju hverri stjórnunaráætlun fyrir vatnasviðaumdæmi.
    1.3.2.      Tilhögun aðgerðavöktunar
        Aðgerðavöktun skal fara fram til þess að:
              ganga úr skugga um ástand þeirra vatnshlota sem talið er að nái ekki umhverfismarkmiðum og
              meta hvers kyns breytingar á ástandi slíkra hlota sem stafa af áætlunum um ráðstafanir.
        Áætluninni má breyta á tímabili stjórnunaráætlunar fyrir vatnasviðaumdæmi á grundvelli upplýsinga sem fást í tengslum við kröfurnar í II. viðauka eða þessum viðauka, einkum í því skyni að draga úr tíðni ef í ljós kemur að áhrif eru óveruleg eða viðkomandi álagi hefur verið aflétt.
        Val á vöktunarstöðum
        Aðgerðavöktun skal fara fram á öllum þeim vatnshlotum sem, á grundvelli mats á áhrifum skv. II. viðauka eða á grundvelli yfirlitsvöktunar, er talið að nái ekki umhverfismarkmiðum í 4. gr. og þeim vatnshlotum sem efnum á forgangsskrá er sleppt í. Vöktunarstaðir fyrir efni á forgangsskrá skulu valdir eins og tilgreint er í löggjöfinni þar sem mælt er fyrir um viðkomandi umhverfisgæðakröfur. Í öllum öðrum tilvikum, þar á meðal fyrir efni á forgangsskrá þar sem ekki eru gefnar sérstakar leiðbeiningar í slíkri löggjöf, skal velja vöktunarstaði á eftirfarandi hátt:
              fyrir vatnshlot, sem eru í hættu vegna álags frá verulegum punktupptökum, skal velja nægilega marga vöktunarstaði innan hvers vatnshlots til að unnt sé að meta umfang og áhrif punktupptakanna. Ef vatnshlot er undir álagi frá mörgum punktupptökum má velja vöktunarstaði þannig að unnt sé að meta umfang og áhrif þessa álags í heild.
              fyrir vatnshlot, sem eru í hættu vegna álags frá verulegum, dreifðum upptökum, skal velja nægilega marga vöktunarstaði innan valinna vatnshlota til að unnt sé að meta umfang og áhrif dreifðu upptakanna. Vatnshlotin skulu valin þannig að þau séu dæmigerð fyrir viðkomandi áhættu vegna álags frá dreifðum upptökum og hlutfallslega hættu á að gott ástand yfirborðsvatns náist ekki.
              fyrir vatnshlot, sem eru í hættu vegna umtalsverðs, vatnsformfræðilegs álags, skal velja nægilega marga vöktunarstaði innan valinna vatnshlota til að unnt sé að meta umfang og áhrif vatnsformfræðilega álagsins. Valið á vatnshlotunum skal gefa vísbendingu um heildaráhrif vatnsformfræðilegs álags sem öll vatnshlotin eru undir.
        Val á gæðaþáttum
        Til að meta umfang álags á yfirborðsvatnshlot skulu aðildarríkin fylgjast með þeim gæðaþáttum sem gefa vísbendingu um álagið sem hlotið eða hlotin eru undir. Til að meta áhrif þessa álags skulu aðildarríkin vakta eftirfarandi:
              færibreytur sem gefa vísbendingar um líffræðilega gæðaþáttinn eða -þættina sem eru viðkvæmastir fyrir því álagi sem vatnshlotin eru undir,
              öll efni á forgangsskrá og aðra mengunarvalda sem sleppt er í umtalsverðu magni,
              færibreytur sem gefa vísbendingar um vatnsformfræðilega gæðaþáttinn sem viðkvæmastur er fyrir tilgreindu álagi.
    1.3.3.      Tilhögun rannsóknarvöktunar
        Markmið
        Rannsóknarvöktun skal fara fram:
              ef ástæðan fyrir því að farið er yfir viðmiðunarmörk er óþekkt;
              ef yfirlitsvöktun bendir til þess að ólíklegt sé að markmiðin, sem sett eru skv. 4. gr., fyrir vatnshlot náist og ekki hefur verið komið á aðgerðavöktun, í því skyni að komast að raun um ástæður þess að eitt eða fleiri vatnshlot nær ekki umhverfismarkmiðunum eða
              til að ganga úr skugga um umfang og áhrif mengunarslysa,
        og vera grundvöllur að gerð áætlunar um ráðstafanir til að ná umhverfismarkmiðunum ásamt sértækum ráðstöfunum sem eru nauðsynlegar til að draga úr áhrifum mengunarslysa.
    1.3.4.      Tíðni vöktunar
        Á yfirlitsvöktunartímabilinu skal tíðni vöktunar á færibreytum, sem gefa vísbendingar um eðlisefnafræðilegu gæðaþættina, vera sú sem hér fer á eftir nema færa megi rök fyrir því á grundvelli tækniþekkingar og álits sérfræðinga að vöktunin geti verið strjálli. Að því er varðar líffræðilega gæðaþætti eða vatnsformfræðilega gæðaþætti skal vöktun fara fram a.m.k. einu sinni á yfirlitsvöktunartímanum.
        Að því er varðar aðgerðavöktun skal tíðni vöktunar fyrir hverja færibreytu ákveðin af aðildarríkjunum þannig að afla megi nægilegra gagna til að meta af áreiðanleika stöðu viðkomandi gæðaþáttar. Til viðmiðunar skal haft að vöktun sé ekki strjálli en fram kemur í töflunni hér á eftir nema færa megi rök fyrir því á grundvelli tækniþekkingar og álits sérfræðinga að vöktunin geti verið strjálli.
        Tíðnin skal ákveðin þannig að áreiðanleiki og nákvæmni verði viðunandi. Í stjórnunaráætlun fyrir vatnasviðaumdæmi skal koma fram mat á áreiðanleika og nákvæmni vöktunarkerfisins.
        Ákveða skal hversu oft vöktun fer fram með hliðsjón af breytileika færibreytna sem rekja má bæði til náttúrulegra skilyrða og skilyrða sem eru af mannavöldum. Velja skal vöktunartímana þannig að áhrif árstíðabreytinga á niðurstöðurnar séu í lágmarki og tryggja þannig að niðurstöðurnar endurspegli breytingar á vatnshlotinu sem stafa af breytingum vegna álags af mannavöldum.
        Viðbótarvöktun skal fara fram á ólíkum tímum sama árs til að ná þessu markmiði.
Gæðaþættir Ár Stöðuvötn Árósavatn Strandsjór
Líffræðilegir
Plöntusvif 6 mánuðir 6 mánuðir 6 mánuðir 6 mánuðir
Vatnaplöntur 3 ár 3 ár 3 ár 3 ár
Stórsæir hryggleysingjar 3 ár 3 ár 3 ár 3 ár
Fiskar 3 ár 3 ár 3 ár
Vatnsformfræðilegir
Samfella 6 ár
Vatnafræði stöðugt 1 mánuður
Formfræði 6 ár 6 ár 6 ár 6 ár
Eðlisefnafræðilegir
Hitaskilyrði 3 mánuðir 3 mánuðir 3 mánuðir 3 mánuðir
Súrefnismettun 3 mánuðir 3 mánuðir 3 mánuðir 3 mánuðir
Selta 3 mánuðir 3 mánuðir 3 mánuðir
Næringarefnaástand 3 mánuðir 3 mánuðir 3 mánuðir 3 mánuðir
Súrnunarástand 3 mánuðir 3 mánuðir
Aðrir mengunarvaldar 3 mánuðir 3 mánuðir 3 mánuðir 3 mánuðir
Forgangsefni 1 mánuður 1 mánuður 1 mánuður 1 mánuður

    1.3.5.      Viðbótarkröfur vegna vöktunar á vernduðum svæðum
        Til viðbótar við vöktunaráætlanirnar, sem krafist er hér á undan, skal uppfylla eftirfarandi kröfur:
        Staðir þar sem taka drykkjarvatns fer fram
        Yfirborðsvatnshlot, sem eru tilgreind skv. 7. gr. og gefa af sér meira en 100 m3 á dag að meðaltali, skulu valin sem vöktunarstaðir og þau skulu vera undir þeirri viðbótarvöktun sem nauðsynleg er til að uppfylla kröfur þeirrar greinar. Vöktun slíkra vatnshlota skal beinast að öllum forgangsefnum sem sleppt er og öllum öðrum efnum sem sleppt er í umtalsverðum mæli út í vatnshlotið og kunna að hafa áhrif á það og sem heyra undir ákvæði tilskipunarinnar um drykkjarvatn. Vöktunin skal fara fram svo oft sem hér segir:
Fjöldi vatnsnotenda Tíðni
< 10 000 4 sinnum á ári
10 000 til 30 000 8 sinnum á ári
> 30 000 12 sinnum á ári
        Svæði þar sem búsvæði og tegundir njóta verndar
        Vatnshlot, sem mynda þessi svæði, heyra undir áðurnefnda aðgerðavöktunaráætlun ef talið er, á grundvelli mats á áhrifum og yfirlitsvöktunar, að þau nái ekki umhverfismarkmiðum skv. 4. gr. Vöktun skal fara fram til að meta umfang og áhrif alls umtalsverðs álags af þessu tagi á þessi vatnshlot og, ef nauðsyn krefur, til að meta breytingar á ástandi slíkra vatnshlota sem stafa af áætlunum um ráðstafanir. Vöktun skal haldið áfram uns svæðin uppfylla kröfur, sem tengjast vatnsverndarlöggjöf sem þau falla undir, og þar til markmiðin skv. 4. gr. hafa náðst.
    1.3.6.      Staðlar fyrir vöktun á gæðaþáttum
        Þær aðferðir sem eru notaðar við vöktun á gerðarfæribreytum skulu vera í samræmi við alþjóðlegu staðlana sem hér fara á eftir eða aðra innlenda eða alþjóðlega staðla sem tryggja að jafngild gögn, að því er varðar vísindaleg gæði og samanburðarhæfi, fáist.
        Taka sýna af stórsæjum hryggleysingjum
        ISO 5667-3: 1995    Water quality — Sampling — Part 3: Guidance on the preservation and handling of samples
        EN 27828: 1994    Water quality — Methods for biological sampling — Guidance on hand net sampling of benthic macroinvertebrates
        EN 28265: 1994    Water quality — Methods of biological sampling — Guidance on the design and use of quantitative samplers for benthic macroinvertebrates on stony substrata in shallow waters
        EN ISO 9391: 1995    Water quality — Sampling in deep waters for macroinvertebrates — Guidance on the use of colonisation, qualitative and quantitative samplers
        EN ISO 8689 - 1:1999    Biological classification of Rivers PART I: Guidance on the Interpretation of Biological Quality Data from Surveys of Benthic Macroinvertebrates in Running Waters
        EN ISO 8689 - 2:1999    Biological classification of Rivers PART II: Guidance on the Presentation of Biological Quality Data from Surveys of Benthic Macroinvertebrates in Running Waters

        Taka sýna af fjölfrumuplöntum
        Viðkomandi CEN-/ISO-staðlar þegar þeir verða settir
        Taka sýna af fiskum
        Viðkomandi CEN-/ISO-staðlar þegar þeir verða settir
        Taka sýna af kísilþörungum
        Viðkomandi CEN-/ISO-staðlar þegar þeir verða settir
        Staðlar fyrir eðlisefnafræðilegar færibreytur
        Allir CEN-/ISO-staðlar sem við kunna að eiga
        Staðlar fyrir vatnsformfræðilegar færibreytur
        Allir CEN-/ISO-staðlar sem við kunna að eiga
  1.4.          Flokkun og framsetning vistfræðilegs ástands
    1.4.1.      Samanburðarhæfi niðurstaðna úr líffræðilegri vöktun
         i)      Aðildarríkin skulu koma upp vöktunarkerfum til að meta gildi líffræðilegu gæðaþáttanna sem tilgreindir eru fyrir hvern flokk yfirborðsvatns eða fyrir mikið breytt og manngerð yfirborðsvatnshlot. Við beitingu aðferðarinnar, sem tilgreind er hér á eftir, að því er varðar mikið breytt eða manngerð vatnshlot skal litið á tilvísanir til vistfræðilegs ástands sem tilvísanir til vistmegins. Slík kerfi henta fyrir tiltekna tegund eða hópa tegunda sem eru dæmigerðar fyrir gæðaþáttinn í heild.
         ii)      Til að tryggja samanburðarhæfi slíkra vöktunarkerfa skulu niðurstöður úr kerfunum, sem hvert aðildarríki notar, settar fram sem hlutföll vistfræðilegra gæða til flokkunar vistfræðilegs ástands. Þessi hlutföll tákna sambandið milli gilda líffræðilegu færibreytnanna, sem fást fyrir tiltekið yfirborðsvatnshlot, og gilda þessara færibreytna við viðmiðunarskilyrðin sem gilda fyrir hlotið. Hlutfallið skal sett fram sem tölugildi á bilinu núll til einn þar sem mjög gott, vistfræðilegt ástand er sett fram sem gildi nálægt einum og lélegt, vistfræðilegt ástand sem gildi nálægt núlli.
         iii)      Fyrir hvern flokk yfirborðsvatns skal sérhvert aðildarríki skipta kvarðanum fyrir vistfræðilegt gæðahlutfall í vöktunarkerfi sínu í fimm flokka sem ná frá mjög góðu til lélegs, vistfræðilegs ástands, eins og það er skilgreint í lið 1.2, þannig að hver skil milli flokka fái tiltekið tölugildi. Ákveða skal gildi skilanna milli mjög góðs ástands og góðs ástand og gildi skilanna milli góðs og sæmilegs ástands með millikvörðuninni (intercalibration), sem lýst er hér á eftir.
         iv)      Framkvæmdastjórnin skal auðvelda þessa millikvörðun til að tryggja að flokkaskilin séu sett í samræmi við stöðluðu skilgreiningarnar í lið 1.2 og að þau séu sambærileg hjá öllum aðildarríkjunum.
         v)      Í tengslum við þessa millikvörðun skal framkvæmdastjórnin auðvelda skipti á upplýsingum milli aðildarríkja er leiði til þess að tilgreina megi tiltekna staði á hverju vistsvæði í Bandalaginu sem mynda net millikvörðunar. Netið skal samanstanda af stöðum sem valdir eru úr röð gerða yfirborðsvatnshlota sem eru til staðar á hverju vistsvæði. Fyrir hverja gerð yfirborðsvatnshlots, sem valin er, skulu vera í netinu a.m.k. tveir staðir sem svara til skilanna milli stöðluðu skilgreininganna á mjög góðu og góðu ástandi og a.m.k. tveir staðir sem svara til skilanna milli stöðluðu skilgreininganna á góðu og sæmilegu ástandi. Staðirnir skulu valdir á grundvelli álits sérfræðinga sem byggist á sameiginlegum athugunum og öllum öðrum upplýsingum sem fyrir hendi eru.
         vi)      Vöktunarkerfi sérhvers aðildarríkis skal notað fyrir þá staði í neti millikvörðunar sem eru bæði á vistsvæðinu og af þeirri gerð yfirborðsvatnshlota sem kerfið verður notað fyrir samkvæmt kröfum þessarar tilskipunar. Niðurstöður þessarar beitingar skulu notaðar til að setja tölugildin fyrir viðeigandi flokkaskil í vöktunarkerfi sérhvers aðildarríkis.
         vii)      Innan þriggja ára frá gildistökudegi tilskipunarinnar skal framkvæmdastjórnin gera drög að skrá yfir staðina sem mynda net millikvörðunarinnar sem aðlaga má í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 21. gr. Endanleg skrá yfir staðina skal samin eigi síðar en fjórum árum eftir gildistökudag þessarar tilskipunar og skal framkvæmdastjórnin birta hana.
         viii)      Framkvæmdastjórnin og aðildarríkin skulu ljúka við millikvörðunina innan 18 mánaða frá þeim degi þegar fullgerða skráin er birt.
         ix)      Framkvæmdastjórnin skal birta niðurstöður millikvörðunarinnar og gildin, sem fastsett eru fyrir flokkun vöktunarkerfis aðildarríkisins, innan sex mánaða frá því að millikvörðun lýkur.
    1.4.2.      Framsetning á niðurstöðum vöktunar og flokkun vistfræðilegs ástands og vistmegins
         i)      Að því er varðar flokka yfirborðsvatns skal flokkun vatnshlota eftir vistfræðilegu ástandi gefin upp með því gildi sem lægst er af niðurstöðunum úr líffræðilegri og eðlisefnafræðilegri vöktun fyrir viðkomandi gæðaþætti sem flokkaðir eru í samræmi við fyrsta dálk töflunnar hér á eftir. Aðildarríkin skulu leggja fram kort fyrir hvert vatnasviðaumdæmi þar sem fram kemur flokkun hvers vatnshlots eftir vistfræðilegu ástandi þess, merkt með litakóða, í samræmi við annan dálk töflunnar hér á eftir, sem endurspeglar flokkun vatnshlotsins eftir vistfræðilegu ástandi.
Flokkun eftir vistfræðilegu ástandi Litakóði
Mjög gott Blátt
Gott Grænt
Sæmilegt Gult
Slakt Appelsínugult
Lélegt Rautt
         ii)      Að því er varðar mikið breytt og manngerð vatnshlot skal flokkun vatnshlotsins eftir vistmegni gefin upp með því gildi sem lægst er af niðurstöðunum úr líffræðilegri og eðlisefnafræðilegri vöktun fyrir viðkomandi gæðaþætti sem flokkaðir eru í samræmi við fyrsta dálk töflunnar hér á eftir. Aðildarríkin skulu leggja fram kort fyrir hvert vatnasviðaumdæmi þar sem fram kemur flokkun hvers vatnshlots eftir vistmegni þess, merkt með litakóða, að því er varðar manngerð vatnshlot, í samræmi við annan dálk töflunnar hér á eftir, og að því er varðar mikið breytt vatnshlot, í samræmi við þriðja dálk sömu töflu.
Flokkun eftir vistmegni Litakóði
Manngerð vatnshlot Mikið breytt
Gott og þar fyrir ofan Grænar og ljósgráar rendur, jafnbreiðar Grænar og dökkgráar rendur, jafnbreiðar
Sæmilegt Gular og ljósgráar rendur, jafnbreiðar Gular og dökkgráar rendur, jafnbreiðar
Slakt Appelsínugular og ljósgráar rendur, jafnbreiðar Appelsínugular og dökkgráar rendur, jafnbreiðar
Lélegt Rauðar og ljósgráar rendur, jafnbreiðar Rauðar og dökkgráar rendur, jafnbreiðar
         iii)      Aðildarríkin skulu einnig sýna, með svörtum díl á kortinu, þau vatnshlot þar sem ekki hefur náðst gott ástand eða gott vistmegin vegna þess að þau uppfylla ekki eina eða fleiri umhverfisgæðakrafnanna sem settar hafa verið fyrir vatnshlotið að því er varðar sérstaka tilbúna mengunarvalda og aðra sérstaka mengunarvalda (í samræmi við eigin reglur aðildarríkisins).
    1.4.3.      Framsetning á niðurstöðum úr vöktun og flokkun efnafræðilegs ástands
        Ef vatnshlot er í samræmi við allar umhverfisgæðakröfur, sem settar eru í 16. gr. IX. viðauka og samkvæmt annarri viðeigandi löggjöf Bandalagsins þar sem umhverfisgæðakröfur eru settar, skal skráð að það uppfylli kröfur um gott, efnafræðilegt ástand. Ef svo er ekki skal skráð að hlotið fullnægi ekki kröfum um gott, efnafræðilegt ástand.
        Aðildarríkin skulu leggja fram kort fyrir hvert vatnasviðaumdæmi þar sem fram kemur efnafræðilegt ástand hvers vatnshlots, merkt með litakóða, í samræmi við annan dálk töflunnar hér á eftir, sem endurspeglar flokkun vatnshlotsins eftir efnafræðilegu ástandi.
Efnafræðilegt ástand grunnvatns Litakóði
Gott Blátt
Nær ekki góðu, efnafræðilegu ástandi Rautt
2.          GRUNNVATN
  2.1.          Magnstaða grunnvatns
    2.1.1.      Færibreyta fyrir flokkun á magnstöðu
        Breytingar á hæð grunnvatnsborðs
    2.1.2.      Skilgreining á magnstöðu
Þættir Gott ástand
Hæð grunnvatnsborðs Hæð vatnsborðs í grunnvatnshlotinu er þannig að meðalvatnstaka á ári til langs tíma er ekki meiri en grunnvatnsauðlindin sem er tiltæk.
Hæð grunnvatnsborðsins verður þar af leiðandi ekki fyrir breytingum af mannavöldum sem gætu haft í för með sér:
—    að ekki tekst að ná umhverfismarkmiðunum, sem tilgreind eru í 4. gr. fyrir yfirborðsvatn sem tengjast henni,
—    að ástandi slíks vatns hrakar umtalsvert,
—    umtalsvert tjón á landvistkerfum sem eru háð grunnvatnshlotinu beint,
og breytingar á straumstefnu, sem stafa af vatnsborðsbreytingum, geta átt sér stað tímabundið, eða stöðugt á afmörkuðu svæði, en slíkar breytingar hafa ekki í för með sér innstreymi salts vatns eða annars og benda ekki til viðvarandi og greinilegrar breytingar á straumstefnu af mannavöldum sem líklegt er að leiði til slíks innstreymis.
  2.2.          Vöktun á magnstöðu grunnvatns
    2.2.1.      Vöktunarnet fyrir hæð grunnvatnsborðs
        Koma skal á vöktunarneti fyrir grunnvatn í samræmi við kröfur í 7. og 8. gr. Tilhögun vöktunarnetsins skal vera þannig að með því fáist áreiðanlegt mat á magnstöðu allra grunnvatnshlota eða hópa grunnvatnshlota, þ.m.t tiltæku grunnvatnsauðlindarinnar. Aðildarríkin skulu leggja fram með stjórnunaráætlun fyrir vatnasviðaumdæmi eitt eða fleiri kort sem sýna vöktunarnet fyrir grunnvatn.
    2.2.2.      Þéttleiki vöktunarstaða
        Í netinu skulu vera nægilega margir, dæmigerðir vöktunarstaðir til að unnt sé að meta hæð grunnvatnsborðs í hverju grunnvatnshloti eða hópi grunnvatnshlota, að teknu tilliti til skammtíma- og langtímabreytinga á endurnýjun grunnvatns og einkum:
        –    tryggja, að því er varðar grunnvatnshlot sem talið er að uppfylli ekki umhverfismarkmiðin í 4. gr., að þéttleiki vöktunarstaða sé nægur til að meta megi áhrif vatnstöku og veitu á hæð grunnvatnsborðs.
        –    tryggja, að því er varðar grunnvatnshlot þar sem grunnvatn streymir yfir landamæri aðildarríkis, að nægilega margir vöktunarstaðir séu fyrir hendi til að meta stefnu og rennslishraða grunnvatnsins yfir landamæri aðildarríkisins.
    2.2.3.      Tíðni vöktunar
        Athuganir skulu gerðar nægilega oft til að unnt sé að meta magnstöðu hvers grunnvatnshlots eða hóps grunnvatnshlota, að teknu tilliti til skammtíma- og langtímabreytinga á endurnýjun grunnvatns. Tíðni athugananna skal einkum tryggja:
        –    að því er varðar grunnvatnshlot, sem talið er að uppfylli ekki umhverfismarkmiðin í 4. gr., að mælingar fari fram nægilega oft til að meta megi áhrif vatnstöku og veitu á hæð grunnvatnsborðs.
        –    að því er varðar grunnvatnshlot, þar sem grunnvatn streymir yfir landamæri aðildarríkis, að mælingar fari fram nægilega oft til að meta megi stefnu og rennslishraða grunnvatnsins yfir landamæri aðildarríkisins.
    2.2.4.      Túlkun og framsetning á magnstöðu grunnvatns
        Niðurstöður vöktunarnetsins varðandi grunnvatnshlot eða hópa grunnvatnshlota skulu notaðar til að meta magnstöðu þess hlots eða þeirra hlota. Með fyrirvara um lið 2.5 skulu aðildarríkin leggja fram kort sem sýnir þetta mat á magnstöðu grunnvatns, merkt með eftirfarandi litakóða:
        Gott         grænt
        Slakt         rautt
  2.3.          Efnafræðilegt ástand grunnvatns
    2.3.1.      Færibreytur til að ákvarða efnafræðilegt ástand grunnvatns
        Leiðni
        Styrkur mengunarvalda
    2.3.2.      Skilgreining á góðu, efnafræðilegu ástandi grunnvatns
Þættir Gott ástand
Almennt Efnafræðileg samsetning grunnvatnshlotsins er þannig að styrkur mengunarvalda:
—    eins og hann er tilgreindur hér á eftir, sýnir ekki áhrif vegna innstreymis salts vatns eða annars
—    er ekki yfir gildandi gæðakröfum samkvæmt annarri viðkomandi löggjöf Bandalagsins í samræmi við 17. gr.
—    er ekki þannig að það geti leitt til þess að umhverfismarkmiðin, sem tilgreind eru í 4. gr. fyrir tengt yfirborðsvatn, náist ekki né til þess að vistfræðilegum eða efnafræðilegum gæðum slíkra vatnshlota hrakaði umtalsvert eða umtalsvert tjón yrði á landvistkerfum sem eru háð grunnvatnshlotinu beint.
Leiðni Breytingar á leiðni benda ekki til innstreymis salts vatns eða annars inn í grunnvatnshlotið
  2.4.           Vöktun á efnafræðilegu ástandi grunnvatns
    2.4.1.      Vöktunarnet fyrir grunnvatn
        Koma skal upp vöktunarneti fyrir grunnvatn í samræmi við kröfur 7. og 8. gr. Tilhögun vöktunarnetsins skal vera þannig að það gefi samfellda heildaryfirsýn yfir efnafræðilegt ástand innan hvers vatnasviðs og geri kleift að greina hvort leitni í styrk mengunarvalda af mannavöldum sé stígandi á löngum tíma.
        Á grundvelli lýsingar á eiginleikum og mats á áhrifum, sem fram fer í samræmi við 5. gr. og II. viðauka, skulu aðildarríkin koma á yfirlitsvöktunaráætlun fyrir hvert tímabil sem stjórnunaráætlun fyrir vatnasviðaumdæmi gildir. Niðurstöður þessarar áætlunar skulu notaðar til að koma á fót áætlun um aðgerðavöktun sem gilda skal til loka áætlunartímabilsins.
        Í áætluninni skal koma fram mat á áreiðanleika og nákvæmni niðurstaðna vöktunaráætlananna.
    2.4.2.      Yfirlitsvöktun
        Markmið
        Yfirlitsvöktun skal fara fram til þess að:
              bæta við og fullgilda aðferðina við mat á áhrifum,
              afla upplýsinga til að nota við mat á leitni til langs tíma sem stafar bæði af breytingum á náttúrulegum skilyrðum og af starfsemi manna.
        Val á vöktunarstöðum
        Nægilega margir vöktunarstaðir skulu valdir fyrir hvorn flokk sem hér fer á eftir:
              fyrir vatnshlot sem eru í hættu samkvæmt lýsingu á eiginleikum sem gerð var í samræmi við II. viðauka,
              fyrir vatnshlot sem ná yfir landamæri aðildarríkis.
        Val á færibreytum
        
Í öllum völdum grunnvatnshlotum skal fylgst með eftirtöldum grunnfæribreytum:
              súrefnisinnihaldi
              gildi sýrustigs
              leiðni
              nítrati
              ammoníum
        Í hlotum, sem talið er í samræmi við II. viðauka að umtalsverð hætta sé á að nái ekki góðu ástandi, skal einnig fylgjast með þeim breytum sem benda til álags af þessu tagi.
        Í vatnshlotum, sem eru á landamærum, skal einnig fylgjast með þeim breytum sem eiga við um vernd með tilliti til allrar notkunar grunnvatnsrennslisins.
    2.4.3.      Aðgerðavöktun
        Markmið
        Aðgerðavöktun skal fara fram á þeim tíma sem líður milli yfirlitsvöktunaráætlana til þess að:
              ákvarða efnafræðilegt ástand allra grunnvatnshlota eða hópa grunnvatnshlota sem úrskurðað hefur verið að séu í hættu,
              ákvarða hvort leitni í styrk mengunarvalda af mannavöldum sé stígandi á löngum tíma.
        Val á vöktunarstöðum
        Aðgerðavöktun skal fara fram fyrir öll þau grunnvatnshlot eða hópa -hlota sem, á grundvelli bæði mats á áhrifum sem unnið er skv. II. viðauka og yfirlitsvöktunar, er talið að nái ekki markmiðunum í 4. gr. Val á vöktunarstöðum skal einnig endurspegla mat á því hversu dæmigerð vöktunargögn frá þeim stað eru fyrir gæði viðkomandi grunnvatnshlots eða -hlota.
        Tíðni vöktunar
        Aðgerðavöktun skal fara fram á tímanum milli yfirlitsvöktunaráætlana, þ.e. nægilega oft til að greina áhrif viðkomandi álags en þó eigi sjaldnar en einu sinni á ári.
    2.4.4.      Greining á leitni í styrk mengunarvalda
        Aðildarríkin skulu styðjast við gögn bæði frá yfirlits- og aðgerðarvöktuninni við greiningu á því hvort leitni í styrk mengunarvalda af mannavöldum sé stígandi á löngum tíma og hvernig snúa megi slíkri leitni við. Koma skal fram frá hvaða grunnári eða -tímabili leitnin er reiknuð. Útreikningur á leitninni skal fara fram fyrir eitt grunnvatnshlot eða fleiri, eftir því sem við á. Sýna skal fram á það með tölfræðilegum upplýsingum að leitninni hafi verið snúið við og skal áreiðanleikastig greiningarinnar koma fram.
    2.4.5.      Túlkun og framsetning á efnafræðilegu ástandi grunnvatns
        Við mat á ástandinu skulu niðurstöður frá sérhverjum vöktunarstað innan grunnvatnshlotsins lagðar saman fyrir hlotið sem heild. Til að unnt sé að ná fram góðu ástandi grunnvatnshlots, að því er varðar þær efnafræðilegu breytur sem settar hafa verið umhverfisgæðakröfur fyrir í löggjöf Bandalagsins, skal, með fyrirvara um viðkomandi tilskipanir:
              reikna út meðaltalsgildi niðurstaðna úr vöktun á hverjum stað í grunnvatnshloti eða hópi grunnvatnshlota og
              í samræmi við 17. gr. skal stuðst við þessi meðaltalsgildi til að sýna fram á gott, efnafræðilegt ástand grunnvatnsins.
        Með fyrirvara um lið 2.5 skulu aðildarríkin leggja fram kort, sem sýnir efnafræðilegt ástand grunnvatnsins, merkt með eftirfarandi litakóða:
        Gott         grænt
        Slakt         rautt
        Aðildarríkin skulu einnig gefa til kynna, með svörtum díl á kortinu, í hvaða grunnvatnshlotum er umtalsverð og viðvarandi, stígandi leitni í styrk mengunarvalds sem stafar af áhrifum af starfsemi manna. Þar sem leitninni hefur verið snúið við er blár díll á kortinu.
        Þessi kort skulu vera hluti af stjórnunaráætluninni fyrir vatnasviðaumdæmið.
  2.5.          Framsetning á ástandi grunnvatns
        
Aðildarríkin skulu leggja fram með stjórnunaráætlun fyrir vatnasviðaumdæmi kort sem sýnir magnstöðu og efnafræðilegt ástand sérhvers grunnvatnshlots eða hóps grunnvatnshlota, merkt með litakóða í samræmi við liði 2.2.4 og 2.4.5. Aðildarríkin geta ákveðið að leggja ekki fram sérstök kort samkvæmt liðum 2.2.4 og 2.4.5 en skulu í því tilviki tilgreina, í samræmi við kröfur í lið 2.4.5, á kortinu sem krafist er samkvæmt þessum þætti, þau vatnshlot þar sem greinst hefur umtalsverð og viðvarandi, stígandi leitni í styrk mengunarvalds eða þar sem slíkri leitni hefur verið snúið við.
Graphic file wpg1b50.tmp with height 1 p and width 25 p Left aligned

VI. VIÐAUKI
SKRÁ YFIR RÁÐSTAFANIR SEM TAKA SKAL MEÐ Í ÁÆTLUNUM UM RÁÐSTAFANIR
A-HLUTI

Ráðstafanir sem krafist er samkvæmt eftirfarandi tilskipunum:
i)      tilskipun um vötn til baða (76/160/EBE),
ii)      tilskipun um fugla (79/409/EBE) ( 1 ),
iii)      tilskipun um neysluvatn (80/778/EBE), eins og henni var breytt með tilskipun 98/83/EB,
iv)      tilskipun um stórslys (Seveso-tilskipuninni) (96/82/EB) ( 2 ),
v)      tilskipun um mat á áhrifum á umhverfið (85/337/EBE) ( 3 ),
vi)      tilskipun um seyru (86/278/EBE) ( 4 ),
vii)      tilskipun um hreinsun skólps frá þéttbýli (91/271/EBE),
viii)      tilskipun um plöntuvarnarefni (91/414/EBE),
ix)      tilskipun um nítröt (91/676/EBE),
x)      tilskipun um búsvæði (92/43/EBE) ( 5 ),
xi)      tilskipun um samþættar mengunarvarnir (96/61/EB).

B-HLUTI

Hér á eftir fer skrá, sem er ekki tæmandi, yfir viðbótarráðstafanir sem aðildarríki innan hvers vatnasviðaumdæmis geta valið að hrinda í framkvæmd og yrðu liður í áætluninni um ráðstafanir, sem krafist er í 4. mgr. 11. gr.
i)      lagagerningar
ii)      stjórnsýslugerningar
iii)      efnahagslegar aðgerðir eða skattalegar aðgerðir
iv)      gerðir samningar í umhverfismálum
v)      mengunarvarnir
vi)      reglur um góðar starfsvenjur
vii)      endursköpun og endurheimt votlendissvæða
viii)      eftirlit með vatnstöku
ix)      ráðstafanir til að stjórna eftirspurn, m.a. með því að hvetja til aðlögunar landbúnaðarframleiðslu, s.s. með því að taka upp ræktun nytjaplantna, sem krefjast lítils vatns, á þurrkasvæðum
x)      nýtni- og endurnotkunarráðstafanir, m.a. með því að hvetja til notkunar tækni sem miðar að bættri vatnsnýtingu í iðnaði og vatnssparnaði við áveitu
xi)      byggingarframkvæmdir
xii)      afsöltunarstöðvar
xiii)      endurreisnarverkefni
xiv)      manngerð endurnýjun vatns í veitum
xv)      fræðsluverkefni
xvi)      rannsókna-, þróunar- og tilraunaverkefni
xvii)      aðrar viðeigandi ráðstafanir.
Graphic file wpg1b50.tmp with height 1 p and width 25 p Left aligned

VII. VIÐAUKI
STJÓRNUNARÁÆTLANIR FYRIR VATNASVIÐAUMDÆMI

A.    Í stjórnunaráætlunum fyrir vatnasviðaumdæmi skulu vera eftirtaldir þættir:
     1.      almenn lýsing á eiginleikum vatnasviðaumdæmisins sem krafist er í 5. gr. og II. viðauka. Þar skal eftirfarandi koma fram:
       1.1.      þegar um er að ræða yfirborðsvatn:
        —    kort sem sýnir staðsetningu og mörk vatnshlotanna,
        —    kort sem sýnir vistsvæði og gerðir yfirborðsvatnshlota innan vatnasviðsins,
        —    tilgreining viðmiðunarskilyrða fyrir gerðir yfirborðsvatnshlota,
       1.2.      þegar um er að ræða grunnvatn:
        —    kort sem sýnir staðsetningu og mörk grunnvatnshlotanna,
     2.      samantekt á umtalsverðu álagi og áhrifum af starfsemi manna á ástand yfirborðsvatns og grunnvatns, þ.m.t.:
        —    mat á mengun frá punktupptökum,
        —    mat á mengun frá dreifðum upptökum, þ.m.t. samantekt á landnýtingu,
        —    mat á álagi á magnstöðu vatns, þ.m.t. vatnstaka,
        —    greining á öðrum áhrifum af starfsemi manna á ástand vatns,
     3.      tilgreining verndaðra svæða og kort yfir þau eins og krafist er í 6. gr. og IV. viðauka,
     4.      kort yfir vöktunarnetin, sem komið var á skv. 8. gr. og V. viðauka, ásamt korti sem sýnir niðurstöður vöktunaráætlananna, sem framkvæmdar voru samkvæmt þessum ákvæðum, til þess að sýna ástand:
       4.1.      yfirborðsvatns (vistfræðilegt og efnafræðilegt),
       4.2.      grunnvatns (efnafræðilegt ástand og magnstöðu),
       4.3.      verndaðra svæða,
     5.      skrá yfir umhverfismarkmiðin sem komið er á skv. 4. gr. fyrir yfirborðsvatn, grunnvatn og vernduð svæði, þ.m.t. einkum tilgreining á tilvikum, þar sem ákvæðum 4., 5., 6., og 7. mgr. 4. gr. hefur verið beitt, og tengdar upplýsingar sem krafist er samkvæmt þeirri grein,
     6.      samantekt á efnahagslegu greiningunni á vatnsnotkun sem krafist er í 5. gr. og IV. viðauka,
     7.      samantekt á áætlun eða áætlunum um ráðstafanir, sem samþykktar eru skv. 11. gr., þ.m.t. leiðirnar sem fara skal til að ná markmiðunum í 4. gr.,
       7.1.      samantekt á nauðsynlegum ráðstöfunum til framkvæmdar á löggjöf Bandalagsins um vernd vatns,
       7.2.      skýrsla um hagnýtar ráðstafanir sem gerðar eru til að beita meginreglunni um endurheimt kostnaðar vegna vatnsnotkunar, í samræmi við 9. gr.,
       7.3.      samantekt á ráðstöfununum sem gerðar eru til að fullnægja kröfum 7. gr.,
       7.4.      samantekt á eftirliti með vatnstöku og vatnsmiðlun, þ.m.t. tilvísun til skráa og tilgreining undantekningartilvika skv. e-lið 3. mgr. 11. gr.,
       7.5.      samantekt á stjórnun, sem komið er á vegna sleppingar frá punktupptökum mengunar og annarri starfsemi sem hefur áhrif á ástand vatns í samræmi við ákvæði g- og i-liðar 3. mgr. 11. gr.,
       7.6.      tilgreining tilvika þar sem bein slepping í grunnvatn hefur verið leyfð í samræmi við ákvæði j-liðar 3. mgr. 11. gr.,
       7.7.      samantekt á ráðstöfununum sem gerðar eru til að fullnægja kröfum 16. gr. um forgangsefni,
       7.8.      samantekt á ráðstöfununum sem gerðar eru til að koma í veg fyrir mengunarslys eða draga úr áhrifum þeirra,
       7.9.      samantekt á ráðstöfununum sem gerðar eru skv. 5. mgr. 11. gr. að því er varðar vatnshlot þar sem talið er ólíklegt að markmiðin, sem sett eru í 4. gr., náist,
       7.10.      upplýsingar um viðbótarráðstafanirnar sem taldar eru nauðsynlegar til að settum umhverfismarkmiðum verði náð,
       7.11.      upplýsingar um ráðstafanir sem gerðar eru til að varna því að mengun sjávar aukist, í samræmi við 6. mgr. 11. gr.,
     8.      skrá yfir hvers konar ítarlegri áætlanir og stjórnunaráætlanir fyrir vatnasviðaumdæmið sem eiga við um tiltekin undirvatnasvið, geira, málefni eða gerðir vatns, auk samantektar á inntaki þeirra,
     9.      samantekt á ráðstöfunum, sem gerðar eru varðandi upplýsingar og samráð við almenning, árangurinn af þeim og breytingar sem gerðar eru á áætluninni í kjölfarið,
     10.      skrá yfir lögbær yfirvöld í samræmi við I. viðauka,
     11.      tengiliðir og aðferðir til að afla skjalanna og upplýsinganna, sem um getur í 1. mgr. 14. gr., einkum upplýsinga um eftirlitsráðstafanir, sem samþykktar eru í samræmi við g- og i-lið 3. mgr. 11. gr., og raunveruleg vöktunargögn, sem aflað er í samræmi við 8. gr. og V. viðauka.
B.    Í fyrstu uppfærslu á stjórnunaráætluninni fyrir vatnasviðaumdæmi og í öllum uppfærslum sem á eftir fara skal einnig vera:
     1.      samantekt á hvers konar breytingum eða uppfærslum frá birtingu fyrri útgáfu stjórnunaráætlunar fyrir vatnasviðaumdæmið, þ.m.t. samantekt á endurskoðunum sem fara skulu fram skv. 4., 5., 6. og 7. mgr. 4. gr.,
     2.      mat á því hvernig miðar að ná umhverfismarkmiðunum, þ.m.t. framlagning niðurstaðna úr vöktun á fyrra áætlunartímabili í formi korts, auk skýringar á því af hverju einstök umhverfismarkmið hafa ekki náðst,
     3.      samantekt og skýring á öllum fyrirhuguðum ráðstöfunum í fyrri útgáfu stjórnunaráætlunar fyrir vatnasviðaumdæmið sem hefur ekki verið hrint í framkvæmd,
     4.      samantekt á hvers konar viðbótarráðstöfunum til bráðabirgða, sem samþykktar eru skv. 5. mgr. 11. gr. eftir birtingu fyrri útgáfu stjórnunaráætlunarinnar fyrir vatnasviðaumdæmið.
Graphic file wpg1b50.tmp with height 1 p and width 25 p Left aligned

VIII. VIÐAUKI
LEIÐBEINANDI SKRÁ YFIR HELSTU MENGUNARVALDA

1.      Lífræn halógensambönd og efni sem geta myndað slík sambönd í snertingu við vatn.
2.      Lífræn fosfórsambönd.
3.      Lífræn tinsambönd.
4.      Efni og efnablöndur, eða niðurbrotsefni þeirra, sem sýnt hefur verið fram á að hafi krabbameinsvaldandi eða stökkbreytandi eiginleika, eða eiginleika sem gætu í vatnsumhverfi eða út frá því haft áhrif á myndun stera, starfsemi skjaldkirtils, æxlun eða aðra innkirtlatengda starfsemi.
5.      Þrávirk vetniskolefni og þrávirk, lífræn eiturefni sem safnast fyrir í lífverum.
6.      Sýaníð.
7.      Málmar og sambönd þeirra.
8.      Arsen og sambönd þeirra.
9.      Sæfiefni og plöntuvarnarefni.
10.      Efni í sviflausn.
11.      Efni (einkum nítröt og fosföt) sem stuðla að ofauðgun.
12.      Efni sem hafa óheppileg áhrif á súrefnisjafnvægi (og unnt er að mæla með hjálp færibreytna á borð við lífræna súrefnisþörf (BOD) og efnafræðilega súrefnisþörf (COD)).
Graphic file wpg1b50.tmp with height 1 p and width 25 p Left aligned

IX. VIÐAUKI
VIÐMIÐUNARMÖRK FYRIR LOSUN OG UMHVERFISGÆÐAKRÖFUR

Litið skal á „viðmiðunarmörk“ og „gæðamarkmið“, sem sett voru samkvæmt dótturtilskipunum tilskipunar 76/464/EBE, sem viðmiðunarmörk fyrir losun og umhverfisgæðakröfur að því er varðar þessa tilskipun. Þau eru sett í eftirfarandi tilskipunum:
i)      tilskipun um losun á kvikasilfri (82/176/EBE) ( 1 ),
ii)      tilskipun um losun á kadmíum (83/513/EBE) ( 2 ),
iii)      tilskipun um losun á kvikasilfri (84/156/EBE) ( 3 ),
iv)      tilskipun um losun á hexaklórsýklóhexani (84/491/EBE) ( 4 ), og
v)      tilskipun um losun hættulegra efna (86/280/EBE) ( 5 ).
Graphic file wpg1b60.tmp with height 1 p and width 25 p Left aligned

X. VIÐAUKI
FORGANGSEFNI

Graphic file wpg1b63.tmp with height 1 p and width 25 p Left aligned

VIÐAUKI
KORT A
Kerfi A: Vistsvæði fyrir ár og stöðuvötn

1.      Íberíu-Makrónesíusvæðið
2.      Pýreneafjöllin
3.      Ítalía, Korsíka og Malta
4.      Alparnir
5.      Dínaríski hluti Vestur-Balkanskaga
6.      Hellenski hluti Vestur-Balkanskaga
7.      Austur-Balkanskagi
8.      Vesturhálendið
9.      Miðhálendið
10.      Karpatafjöll
11.      Ungverska láglendið
12.      Pontíska svæðið
13.      Vesturslétturnar
14.      Miðslétturnar
15.      Eystrasaltssvæðið
16.      Austurslétturnar
17.      Írland og Norður-Írland
18.      Stóra-Bretland
19.      Ísland
20.      Norðurhálendið
21.      Túndra
22.      Finnsk-skandinavíski skjöldurinn
23.      Barrskógabelti
24.      Kákasusfjöll
25.      Kaspíadældin
Graphic file wpg59c8.tmp with height 502 p and width 507 p Left aligned

KORT B
Kerfi A: Vistsvæði fyrir árósavatn og strandsjó

Graphic file wpg1b69.tmp with height 516 p and width 431 p Left aligned 1.    Atlantshaf    4.    Norðursjór
2.    Noregshaf    5.    Eystrasalt
3.    Barentshaf     6.    Miðjarðarhaf
Graphic file wpg1b6a.tmp with height 1 p and width 51 p Left aligned
Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 209, 9.8.2007, bls. 65, og EES-viðbætir nr. 38, 9.8.2007, bls. 41.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. EB L 327, 22.12.2000, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 3
(3)    Stjtíð. EB L 194, 25.7.1975, bls. 26.
Neðanmálsgrein: 4
(4)    Stjtíð. EB L 271, 29.10.1979, bls. 44.
Neðanmálsgrein: 5
(5)    Stjtíð. EB L 20, 26.1.1980, bls. 43.
Neðanmálsgrein: 6
(6)    Stjtíð. EB L 129, 18.5.1976, bls. 23.
Neðanmálsgrein: 7
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 8
(1)     Stjtíð. EB L 103, 25.4.1979, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 9
(2)     Stjtíð. EB L 10, 14.1.1997, bls. 13.
Neðanmálsgrein: 10
(3)     Stjtíð. EB L 175, 5.7.1985, bls. 40. Tilskipuninni var breytt með tilskipun 97/11/EC (Stjtíð. EB L 73, 14.3.1997, bls. 5).
Neðanmálsgrein: 11
(4)     Stjtíð. EB L 181, 8.7.1986, bls. 6.
Neðanmálsgrein: 12
(5)     Stjtíð. EB L 206, 22.7.1992, bls. 7.
Neðanmálsgrein: 13
(1)     Stjtíð. EB L 81, 27.3.1982, bls. 29.
Neðanmálsgrein: 14
(2)     Stjtíð. EB L 291, 24.10.1983, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 15
(3)     Stjtíð. EB L 74, 17.3.1984, bls. 49.
Neðanmálsgrein: 16
(4)     Stjtíð. EB L 274, 17.10.1984, bls. 11.
Neðanmálsgrein: 17
(5)     Stjtíð. EB L 181, 4.7.1986, bls. 16.