Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 87. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 300  —  87. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á lögum nr. 43/1990, um Lánasýslu ríkisins, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og skattanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórhall Arason og Bergþóru Bergsdóttur frá fjármálaráðuneytinu. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Seðlabanka Íslands, Samtökum fjármálafyrirtækja, Samtökum fjárfesta, Samtökum iðnaðarins og Hagstofu Íslands. Að auki hafa borist tilkynningar frá Lánasýslu ríkisins, ríkisskattstjóra, Ríkisendurskoðun, Íbúðalánasjóði, Kauphöllinni, Viðskiptaráði, Félagi löggiltra endurskoðenda og Lögmannafélagi Íslands.
    Í frumvarpinu er fylgt eftir breytingum sem þegar hafa verið gerðar með stoð í 1. og 9. gr. laga um Lánasýslu ríkisins, nr. 43/1990, á fyrirkomulagi lánastýringar og lánaumsýslu ríkissjóðs. Á grundvelli umræddrar lagagreinar hefur starfsemi Lánasýslu ríkisins verið hætt og verkefni hennar hafa verið flutt til Seðlabanka Íslands.
    Á fundum nefndarinnar var rætt hversu vel hin nýja tilhögun félli að þeirri meginstarfsemi Seðlabankans sem snýr að stjórn peningamála. Í því efni var bent á að fjármálaráðuneytið hefði með höndum stefnumörkun og ábyrgð á stjórn lánamála ríkissjóðs en að bankinn annaðist framkvæmd lánamála á grundvelli verksamnings. Af ákvæðum hans leiðir að ráðuneytið hefur forræði á verðbréfaútgáfu ríkissjóðs og öðrum helstu aðgerðum í lánamálum.
    Þá ræddi nefndin lánsfjárþörf ríkissjóðs og það að verðbréfaútgáfa væri nú á dögum einkum hugsuð með það að leiðarljósi að anna þörfum innlends fjármálamarkaðar. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að með hliðsjón af þeirri þróun sé álitið hagkvæmt að færa heildarumsjón lánamála ríkissjóðs á einn stað auk þess sem reikna megi með að af því hljótist talsverður sparnaður.
    Við umfjöllun nefndarinnar upplýsti fjármálaráðuneytið að fimm af ellefu starfsmönnum Lánasýslu ríkisins hefðu verið ráðnir til Seðlabankans. Þá kom fram að ráðuneytið teldi ekki ástæðu til að ætla að hinni nýju tilhögun á lánamálum ríkissjóðs yrði illa tekið á vettvangi OECD.
    Nefndin styður frumvarpið en undirstrikar þann skilning að ákvörðunarvald í lánamálum ríkissjóðs sé hjá fjármálaráðherra en ekki Seðlabanka Íslands, sbr. 1. og 9. gr. laga nr. 43/1990. Nefndin leggur til smávægilega breytingu á 4. gr. frumvarpsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

    4. gr. orðist svo:
    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
          a.      Í stað orðsins „Lánasýsla ríkisins“ í 1. mgr. kemur: Fjármálaráðherra.
          b.      Orðin „samkvæmt ákvörðun fjármálaráðherra“ í 1. mgr. falla brott.
          c.      Í stað orðsins „Lánasýslu ríkisins“ í 2. mgr. kemur: Fjármálaráðherra.

    Ellert B. Schram, Gunnar Svavarsson og Katrín Jakobsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 20. nóv. 2007.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Bjarni Benediktsson.


Magnús Stefánsson.



Ragnheiður E. Árnadóttir.


Helgi Hjörvar.


Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.