Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 271. máls.

Þskj. 304  —  271. mál.



Frumvarp til laga

um upprunaábyrgð á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum o.fl.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




I. KAFLI
1. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að stuðla að nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og skapa skilyrði fyrir viðskipti með upprunaábyrgðir á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum.

2. gr.
Skilgreiningar.

     1.      Endurnýjanlegir orkugjafar: Endurnýjanlegir orkugjafar sem eru ekki jarðefnaeldsneyti (vindorka, sólarorka, jarðvarmaorka, öldu- og sjávarfallaorka, vatnsorka og orka úr lífmassa, hauggasi, gasi frá skólphreinsunarstöðvum og lífgasi).
     2.      Lífmassi: Lífbrjótanlegur hluti afurða, úrgangs og efnaleifa frá landbúnaði (þ.m.t. efni úr bæði jurta- og dýraríkinu), skógrækt og tengdum atvinnugreinum, auk lífbrjótanlegs hluta iðnaðarúrgangs og húsasorps.
     3.      Raforka sem er framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum: Raforka frá orkuverum sem eingöngu nota endurnýjanlega orkugjafa, auk raforku sem er framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum í verum með blandaðri tækni þar sem notaðir eru hefðbundnir orkugjafar auk endurnýjanlegra orkugjafa.
     4.      Upprunaábyrgð á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum: Staðfesting á að raforka sé framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum, þ.m.t. vindorku, sólarorku, jarðvarmaorku, öldu- og sjávarfallaorku, vatnsorku og orku úr lífmassa, hauggasi, gasi frá skólphreinsunarstöðvum og lífgasi, en ekki orkugjöfum úr jarðefnaeldsneyti.

II. KAFLI
3. gr.
Upprunaábyrgð á raforku sem er framleidd með
endurnýjanlegum orkugjöfum.

    Iðnaðarráðherra er heimilt að fela Landsneti hf. að hafa eftirlit með útgáfu upprunaábyrgða á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum.
    Landsnet hf. hefur eftirlit með því að raforka, sem það gefur út upprunaábyrgð fyrir, sé í raun framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum í skilningi laga þessara í samræmi við viðmiðanir sem eru hlutlægar, gagnsæjar og án mismununar og hafa hlotið staðfestingu Orkustofnunar.
    Upprunaábyrgð, staðfest og gefin út á Evrópska efnahagssvæðinu, í samræmi við 1. mgr., skal viðurkennd gagnkvæmt sem sönnun á þeim þáttum eingöngu sem um getur í 2. mgr. Synjun þess að viðurkenna upprunaábyrgð sem slíka sönnun, einkum af ástæðum sem tengjast því að koma í veg fyrir svik, verður að byggjast á viðmiðunum sem eru hlutlægar, gagnsæjar og án mismununar.
    Landsneti hf. er heimilt með samþykki iðnaðarráðherra að framselja hlutverk sitt til útgáfu upprunaábyrgða samkvæmt lögum þessum.

4. gr.
Útgáfa upprunaábyrgða.

    Landsnet hf. gefur út upprunaábyrgð á raforku sem er framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum samkvæmt beiðni framleiðanda raforku frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Upprunaábyrgð er heimilt að gefa út skriflega og/eða á rafrænu formi. Staðlaðar upprunaábyrgðir skulu áður hafa hlotið staðfestingu Orkustofnunar um að slíkar upprunaábyrgðir séu í samræmi við ákvæði laga þessara og tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 77/2001/EB frá 27. september 2001 um að auka framleiðslu rafmagns með endurnýjanlegum orkugjöfum til notkunar á innri raforkumarkaði.
    Upprunaábyrgð skal tilgreina með hvaða orkugjafa raforka var framleidd, hvenær og hvar hún var framleidd og, ef um raforkuver er að ræða, vinnslugetu raforkuvers.
    Upprunaábyrgð er eingöngu heimilt að veita vegna liðinna almanaksmánaða. Upprunaábyrgð getur, samkvæmt vali framleiðanda rafmagns frá endurnýjanlegum orkugjöfum, verið gefin út vegna nýliðins almanaksmánaðar eða vegna síðustu 3, 6 eða 12 almanaksmánaða.
    Gefa skal út eitt ábyrgðarskírteini fyrir hverja MWst sem framleidd er.

5. gr.
Umsókn.

    Umsækjandi skal senda Landsneti hf. skriflega beiðni um útgáfu upprunaábyrgðar á raforku sem er framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum í síðasta lagi 30 dögum frá lokum síðasta mánaðar þess tímabils sem upprunaábyrgð skal ná yfir.
    Umsækjandi skal veita Landsneti hf. allar upplýsingar sem Landsnet hf. telur nauðsynlegar viðvíkjandi útgáfu upprunaábyrgðar. Landsnet hf. skal gæta jafnræðis við starfrækslu sína og trúnaðar um upplýsingar er varða viðskiptahagsmuni og aðrar upplýsingar sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari.
    Landsneti hf. er heimilt að krefja umsækjanda um greiðslu vegna útgáfu upprunaábyrgðar. Fyrirtækið skal setja gjaldskrá um framangreinda þjónustu.
    Framleiðanda raforku frá endurnýjanlegum orkugjöfum er heimilt að veita þriðja aðila skriflegt umboð bæði til þess að óska eftir útgáfu upprunaábyrgðar á raforku sem er framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum og til að taka á móti slíkri upprunaábyrgð.

6. gr.
Efni upprunaábyrgðar.

    Í upprunaábyrgð skal m.a. tilgreina:
     1.      Upplýsingar um viðkomandi orkuver.
     2.      Með hvaða orkugjafa raforka var framleidd.
     3.      Hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa af heildarframleiðslu raforku í viðkomandi orkuveri í samræmi við það tímabil sem kveðið er á um í 3. mgr. 4. gr.
     4.      Vinnslugetu orkuversins ef um er að ræða raforku framleidda í orkuveri.
     5.      Upplýsingar um útgefanda upprunaábyrgðarinnar, útgáfudag og útgáfustað.
     6.      Upplýsingar um hvað felist í upprunaábyrgð sem og tilvísun til tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 77/2001/EB frá 27. september 2001 um að auka framleiðslu rafmagns með endurnýjanlegum orkugjöfum til notkunar á innri raforkumarkaði.

III. KAFLI
7. gr.
Erlendar upprunaábyrgðir.

    Upprunaábyrgðir á raforku sem er framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum, sem gefnar eru út í öðru ríki Evrópska efnahagssvæðisins í samræmi við ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 77/2001/EB frá 27. september 2001 um að auka framleiðslu raforku með endurnýjanlegum orkugjöfum til notkunar á innri raforkumarkaði, skulu viðurkenndar hér á landi. Ber Landsneti hf. að leita staðfestingar á útgáfu upprunaábyrgðar í því landi þar sem ábyrgðin er gefin út, telji fyrirtækið þess þörf.
    Landsnet hf. skal veita til þess bærum erlendum útgefendum upprunaábyrgða á raforku sem er framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum upplýsingar varðandi þær ábyrgðir sem fyrirtækið hefur gefið út hér á landi.
    Landsnet hf. skal veita Orkustofnun upplýsingar um staðfestingar þær sem um er getið í 1. og 2. mgr.

IV. KAFLI
8. gr.
Stjórnsýsla og eftirlit.

    Landsnet hf. skal halda skrá um útgefnar upprunaábyrgðir á raforku sem er framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum. Landsnet hf. skal árlega afhenda Orkustofnun upplýsingar um útgefnar upprunaábyrgðir á því formi sem stofnunin ákveður.
    Landsnet hf. skal í samráði við framleiðendur raforku frá endurnýjanlegum orkugjöfum setja reglur um skráningu upplýsinga um útgefnar upprunaábyrgðir á raforku sem er framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum, sbr. 1. mgr., sem Orkustofnun staðfestir.
    Landsneti hf. er skylt að veita stjórnvöldum, viðskiptavinum og almenningi upplýsingar sem nauðsynlegar eru við mat á því hvort fyrirtækið fullnægi skyldum sínum samkvæmt lögum þessum. Landsneti hf. er þó heimilt að halda eftir viðskiptaupplýsingum er varða viðskiptahagsmuni og öðrum upplýsingum sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari nema viðskiptavinir veiti skriflegt samþykki.

9. gr.
Viðurlög.

    Brot gegn ákvæðum laga þessara varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Nú er brot framið í starfsemi lögaðila og má þá gera lögaðilanum fésekt skv. II. kafla A almennra hegningarlaga.

V. KAFLI
10. gr.
Innleiðing á tilskipun.

    Lög þessi fela í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 77/2001/EB frá 27. september 2001 um að auka framleiðslu rafmagns með endurnýjanlegum orkugjöfum til notkunar á innri raforkumarkaði.

11. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

12. gr.
Breytingar á öðrum lögum.

    Við gildistöku laganna verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Raforkulög, nr. 65/2003, með síðari breytingum: 1. málsl. 5. mgr. 8. gr. laganna orðast svo: Flutningsfyrirtækið má ekki stunda aðra starfsemi en þá sem því er nauðsynleg til að geta rækt skyldur sínar samkvæmt lögum þessum eða samkvæmt öðrum lögum.
     2.      Lög um stofnun Landsnets hf., nr. 75/2004: 1. málsl. 2. gr. laganna orðast svo: Hlutverk Landsnets hf. er að annast flutning raforku og kerfisstjórnun samkvæmt ákvæðum III. kafla raforkulaga, nr. 65/2003, og er því óheimilt að stunda aðra starfsemi en þá sem því er nauðsynleg til að geta rækt skyldur sínar samkvæmt raforkulögum eða öðrum lögum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.
    Tilgangur frumvarps þessa er, eins og fram kemur í 1. gr., að stuðla að nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og skapa skilyrði fyrir viðskipti með upprunaábyrgðir á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum. Einnig er með frumvarpi þessu verið að gangast undir þjóðréttarlegar skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum þar sem teknar eru upp í innlendan rétt viðeigandi ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 77/2001/EB frá 27. september 2001 um að auka framleiðslu rafmagns með endurnýjanlegum orkugjöfum til notkunar á innri raforkumarkaði.
    Við samningu frumvarps þessa var höfð til hliðsjónar norræn löggjöf á vettvangi þessum og þá sérstaklega dönsk löggjöf. Við undirbúning lagafrumvarps þessa var leitað umsagnar Orkustofnunar, Samorku og Landsnets hf.

II. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/77/EB frá 27. september 2001 um að auka framleiðslu rafmagns með endurnýjanlegum orkugjöfum til notkunar á innri raforkumarkaði.
    Evrópusambandið hefur allt frá því á áttunda áratug síðustu aldar staðið fyrir ýmsum aðgerðum til að auka orkusparnað og orkunýtni. Að auki hefur sambandið á undanförnum árum lagt aukna áherslu á að draga úr neikvæðum áhrifum hefðbundinna orkugjafa á umhverfið. Að mati sambandsins er aukin notkun raforku, sem er framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum, mikilvægur hluti þeirra ráðstafana sem eru nauðsynlegar til að fara að ákvæðum Kýótó-bókunar við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og öðrum stefnumiðuðum ráðstöfunum til að standa við frekari skuldbindingar. Hins vegar er í aðildarríkjum Evrópusambandsins að óbreyttu yfirleitt mun dýrara að framleiða svokallað grænt rafmagn, þ.e. raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum, heldur en raforku sem framleidd er með hefðbundnu jarðefnaeldsneyti, þ.e. kolum, gasi eða olíu.
    Til að ýta undir raforkuframleiðslu með endurnýjanlegum orkugjöfum var tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/77/EB frá 27. september 2001 um að auka framleiðslu rafmagns með endurnýjanlegum orkugjöfum til notkunar á innri raforkumarkaði samþykkt þar sem hvatt er til aukinnar framleiðslu, sem og notkunar, á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum. Markmið gerðarinnar er m.a. að freista þess að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum raforkuframleiðslu þeirrar sem ekki byggist á endurnýjanlegum orkugjöfum. Einnig er stefnt að því að koma á fjárhagslegum hvata til handa framleiðendum umhverfisvænnar raforku með því að opna leiðir til að stunda viðskipti með upprunaábyrgðir. Gert er ráð fyrir að hvert ríki setji sér markmið um að auka raforkuframleiðslu sem byggist á endurnýjanlegum orkugjöfum. Viðmiðunarár er árið 1997 og skulu ríkin setja sér markmið fyrir árið 2010. Markmið þau sem aðildarríki setja sér samkvæmt tilskipuninni eru ekki bindandi fyrir ríkin og hefur það því engar afleiðingar í för með sér þó að markmiðin náist ekki. Hins vegar hefur Evrópusambandið einsett sér til lengri tíma séð að setja lagalega bindandi mörk á hlutfall græns rafmagns í heildarorkunotkun en ekki hefur enn náðst sátt um slíkar kvaðir innan sambandsins.
    Sökum þess að framleiðsla á raforku með endurnýjanlegum orkugjöfum er yfirleitt kostnaðarsamari en framleiðsla raforku með hefðbundnu jarðefnaeldsneyti í aðildarríkjum Evrópusambandsins hefur verið gripið til ýmissa ráða til að létta á kostnaði framleiðenda umhverfisvænna orkugjafa. Þannig hefur t.a.m. ýmiss konar styrkjum verið komið á laggirnar til að örva framleiðslu á grænni raforku, m.a. með útgáfu grænna vottorða. Græn vottorð, samkvæmt frumvarpi þessu, eru upprunaábyrgðir á raforku sem er framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum og gera raforkuframleiðendum þeim sem hafa hátt hlutfall af endurnýjanlegum orkugjöfum á hinum innri raforkumarkaði færi á að selja slík vottorð vegna raforkuframleiðslu sinnar. Það skilyrði er þó fyrir hendi að orkuver þarf að hafa hlotið svokallaða græna vottun, þ.e. staðfestingu á því að orkuverið uppfylli þær kröfur sem settar eru fram um að orkuverið framleiði í raun raforku með endurnýjanlegum orkugjöfum. Eigendum grænna vottorða er svo heimilt að selja þeim sem eftir því leita vottorð þessi og eru viðskipti með græn vottorð nú þegar möguleg í einstaka ríkjum Evrópusambandsins. Kaupendur eru aðrir framleiðendur á hinum sameiginlega raforkumarkaði sem með kaupunum auka hlutdeild sína í framleiðslu umhverfisvænnar orku sem og aðrir kaupendur sem sjá hag sinn í því að styrkja stoðir framleiðslu grænnar raforku.
    Framleiðsla á raforku sem er framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum skiptist annars vegar í vöruna sjálfa, þ.e. raforkuna, og hins vegar í græna hluta þess, þ.e. grænu vottorðin. Báðir þessir þættir raforkuframleiðslunnar eru söluvara og þjóna grænu vottorðin þeim tilgangi að staðfest er að uppruni raforkunnar er frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Hafa því opnast nýjar gáttir fyrir framleiðendur raforku frá endurnýjanlegum orkugjöfum til að markaðssetja afurð sína, þ.e. annars vegar vöruna sjálfa og hins vegar grænu vottorðin.
    Samkvæmt tilskipuninni er aðildarríkjum í sjálfsvald sett að ákveða með hvaða hætti raforkuframleiðendur eru hvattir til að auka framleiðslu sína á endurnýjanlegum orkugjöfum og er sala grænna vottorða háð skilyrðum sem sett eru í hverju aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins fyrir sig. Skilyrðin geta því verið mismunandi eftir því hvaða ríki á í hlut. Í megindráttum felur tilskipunin í sér þrjár tegundir grænna vottorða. Í fyrsta lagi vottorð sem seld eru til að fullnægja lagaskyldu um hlutfall framleiðslu á grænni orku en enn sem komið er hefur slíkri lagaskyldu ekki verið komið á. Í annan stað vottorð sem seld eru til að fullnægja landsmarkmiðum samkvæmt tilskipuninni. Loks í þriðja lagi vottorð sem seld eru til að auka sýnileika grænnar framleiðslu á reikningum raforkuframleiðanda.
    Eins og að framan var getið hefur enn sem komið er ekki náðst samstaða innan Evrópusambandsins varðandi lagalega bindandi hlutföll raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum, þ.e. grænnar raforku, af heildarorkunotkun en ljóst er að slík lagaskylda mun opna nýjar gáttir fyrir innlenda raforkuframleiðendur til að markaðssetja upprunaábyrgðir samkvæmt frumvarpi þessu. Að óbreyttu eru, eins að framan var getið, slíkar ábyrgðir eingöngu seldar á frjálsum markaði til að auka sýnileika grænnar framleiðslu á reikningum raforkuframleiðanda. Slíkur markaður er háður því að kaupendur hafi áhuga á að fjárfesta í slíkum ábyrgðum án þess að lagaskylda eða önnur skylda standi að baki slíkum kaupum.

III. Efni frumvarpsins.
    
Í samræmi við skuldbindingar Íslands á grundvelli EES-samningsins ber stjórnvöldum að innleiða ákvæði framangreindrar tilskipunar í íslenskan rétt. Með aðild Íslands að hinum sameiginlega innri raforkumarkaði í Evrópu opnuðust ný tækifæri fyrir íslenska raforkuframleiðendur en með frumvarpi þessu er verið að setja á fót kerfi til að tryggja og sannreyna vottanir upprunaábyrgða á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum. Með frumvarpi þessu er lagt til að flutningsfyrirtækinu samkvæmt raforkulögum, þ.e. Landsneti hf., verði falið hlutverk vottunaraðila hér á landi í samræmi við ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/77/EB frá 27. september 2001 um að auka framleiðslu rafmagns með endurnýjanlegum orkugjöfum til notkunar á innri raforkumarkaði.
    Í fyrsta kafla frumvarpsins er að finna markmiðsákvæði frumvarpsins sem er að stuðla að nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og skapa skilyrði fyrir viðskipti með upprunaábyrgðir á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum. Einnig er í kaflanum að finna skilgreiningar á þeim hugtökum sem máli skipta varðandi frumvarpið.
    Í öðrum kafla frumvarpsins er að finna ákvæði er varða upprunaábyrgð á raforku sem er framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum. Í kaflanum er kveðið á um að Landsnet hf. skuli annast eftirlit með útgáfu upprunaábyrgða og skal fyrirtækið einnig ganga úr skugga um áreiðanleika erlendra upprunaábyrgða sem gefin eru út á Evrópska efnahagssvæðinu. Einnig er í kaflanum kveðið á um umsóknir og útgáfu upprunaábyrgða og hvað skal tilgreint í slíkum ábyrgðum.
    Í þriðja kafla frumvarpsins er kveðið á um að upprunaábyrgðir á raforku sem er framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum, í samræmi við ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 77/2001/EB, skuli viðurkenndar hér á landi. Sú skylda er lögð á Landsnet hf. að leita staðfestingar á útgáfu upprunaábyrgðar í því landi sem ábyrgðin var gefin út. Að sama skapi er Landsneti hf. skylt að veita erlendum vottunaraðilum upplýsingar um þær upprunaábyrgðir sem gefnar eru út hér á landi.
    Í fjórða kafla frumvarpsins er kveðið á um stjórnsýslu og eftirlit vegna útgáfu upprunaábyrgða á rafmagni sem framleitt er með endurnýjanlegum orkugjöfum. Að auki er í kaflanum viðurlagaákvæði vegna brota gegn ákvæðum frumvarpsins.
    Loks er í fimmta kafla frumvarpsins innleiðingargrein og gildistökuákvæði auk þess sem lagðar eru til breytingar á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum, og lögum um stofnun Landsnets hf., nr. 75/2004, þar sem Landsneti hf. verði heimilað að annast útgáfu upprunaábyrgða á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum. Að óbreyttu hefur Landsnet hf. ekki heimild í framangreindum lögum til að annast hlutverk samkvæmt frumvarpi þessu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni er kveðið á um markmið laganna sem er að stuðla að nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og skapa skilyrði fyrir viðskipti með upprunaábyrgðir á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum.

Um 2. gr.

    Í greininni er kveðið á um skilgreiningar hugtaka samkvæmt frumvarpinu. Skilgreiningar þessar eru til samræmis við skilgreiningar þær sem fram koma í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 77/2001/EB.

Um 3. gr.

    Í greininni er almennt kveðið á um upprunaábyrgðir á raforku sem er framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum. Í 1. mgr. er kveðið á um að Landsneti hf. verði falið það hlutverk að hafa eftirlit með útgáfu upprunaábyrgða á rafmagni sem er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum. Er Landsneti hf., sem flutningsfyrirtækis samkvæmt raforkulögum, falið sambærilegt hlutverk og kerfisstjórar hinna Norðurlandanna í þessu tilliti.
    Í 2. mgr. er kveðið á um skyldu Landsnets hf. að sjá til þess að raforka frá endurnýjanlegum orkugjöfum sé í raun framleidd með slíkum orkugjöfum í skilningi frumvarpsins. Skal þess gætt að þær viðmiðanir sem stuðst er við séu hlutlægar, gagnsæjar og án allrar mismununar. Skulu þær viðmiðanir hafa áður hlotið staðfestingu Orkustofnunar á að vera í samræmi við frumvarp þetta sem og ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 77/2001/EB. Skal þess gætt að umsækjendum um upprunaábyrgðir sé ekki mismunað, bæði hvað varðar mismunun innan lands sem og á innri raforkumarkaði Evrópska efnahagssvæðisins.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að upprunaábyrgð, sem staðfest er og gefin út á Evrópska efnahagssvæðinu, skuli fela í sér gagnkvæma staðfestingu á þeim skilyrðum sem fram koma í 2. mgr., þ.e. að raforka sem sannarlega er framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum, sbr. skilgreiningu skv. 2. gr. frumvarpsins og a-lið 2. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 77/2001/EB. Einnig er í málsgreininni kveðið á um að synjun á viðurkenningu upprunaábyrgðar skuli byggjast á viðmiðunum sem eru hlutlægar, gagnsæjar og án mismununar og fer þá um þau sjónarmið líkt og með skilyrði þau sem getið er í 2. mgr. Með slíkum skilyrðum er verið að sporna gegn því að aðilum innri raforkumarkaðar Evrópska efnahagssvæðisins sé ekki mismunað og synjun á gagnkvæmri viðurkenningu sé byggð á málefnalegum sjónarmiðum, t.d. að komið sé í veg fyrir svik eða villandi upplýsingar.
    Loks er í 4. mgr. kveðið á um heimild Landsnets hf. til þess að framselja hlutverk sitt til útgáfu upprunaábyrgða samkvæmt frumvarpi þessu. Hins vegar er slíkt framsal háð samþykki iðnaðarráðherra. Heimild þessari er ætlað að tryggja það að íslenskum stjórnvöldum sé unnt að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt ákvæðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 77/2001/EB sé Landsneti hf. einhverra hluta vegna ekki fært að annast útgáfu upprunaábyrgða og einnig ef Landsnet hf. telur sig einhverra hluta vegna ekki fært að annast slíka útgáfu.

Um 4. gr.

    Í greininni er kveðið á um útgáfu upprunaábyrgðar á raforku sem er framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum. Í 1. mgr. segir að Landsnet hf. skuli gefa út upprunaábyrgð samkvæmt beiðni framleiðanda raforku frá endurnýjanlegum orkugjöfum um slíkt. Er Landsneti hf. heimilt að gefa út umbeðna upprunaábyrgð á stöðluðu skriflegu og/eða rafrænu formi. Hins vegar skulu slíkar staðlaðar upprunaábyrgðir áður hafa hlotið samþykki Orkustofnunar um að ábyrgðirnar séu í samræmi við ákvæði laga þessara og tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 77/2001/EB.
    Í 2. mgr. er kveðið á um hvað skal tilgreint í upprunaábyrgð á raforku sem er framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum. Nánar er kveðið á um efni og innihald upprunaábyrgðar í 6. gr. frumvarpsins.
    Í 3. mgr. er kveðið á um fyrir hvaða tímabil Landsneti hf. er heimilt að gefa út upprunaábyrgð fyrir. Kemur fram í málsgreininni að upprunaábyrgð skuli gefin út samkvæmt vali framleiðanda rafmagns frá endurnýjanlegum orkugjöfum vegna nýliðins almanaksmánaðar eða vegna síðustu 3, 6 eða 12 almanaksmánaða. Landsneti hf. er samkvæmt þessu óheimilt að gefa út upprunaábyrgð vegna tímabils sem nær út fyrir þennan tímaramma, þ.e. lengur en vegna síðustu 12 almanaksmánaða. Með þessum valmöguleikum á tímabilum sem upprunaábyrgðir taka til er verið að samræma ábyrgðirnar þeim tímabilum sem kveðið er á um í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 77/2001/EB og þeirri framkvæmd innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Loks er í 4. mgr. kveðið á um að gefa skuli út eitt ábyrgðarskírteini fyrir hverja þá MWst sem framleidd er og er hver ábyrgð einnota, þ.e. ekki er heimilt að gefa út fleiri en eina ábyrgð fyrir hverja MWst sem framleidd hefur verið og upprunaábyrgð gefin út fyrir.

Um 5. gr.

    Í greininni er að finna ákvæði um umsóknarferli vegna útgáfu upprunaábyrgðar á raforku sem er framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum. Skv. 1. mgr. ber að senda Landsneti hf. skriflega beiðni um útgáfu upprunaábyrgðar í síðasta lagi 30 dögum frá lokum síðasta mánaðar þess tímabils sem upprunaábyrgð skal ná yfir. Hvað varðar tímabil sem upprunaábyrgð nær yfir vísast til 3. mgr. 4. gr. frumvarpsins. Landsneti hf. er því óheimilt að taka tillit til umsókna sem berst eftir að 30 dagar eru liðnir frá lokum síðasta mánaðar þess tímabils sem upprunaábyrgð skal ná yfir.
    Í 2. mgr. er kveðið á um skyldu umsækjanda til að veita Landsneti hf. allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru að mati Landsnets hf. viðvíkjandi útgáfu upprunaábyrgðar. Einnig er áréttað að Landsnet hf. skuli gæta jafnræðis við starfrækslu sína og trúnaðar um upplýsingar sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari.
    Í 3. mgr. er kveðið á um heimild til handa Landsneti hf. að krefjast greiðslu fyrir útgáfu upprunaábyrgðar og er þeirri greiðslu ætlað að standa straum af kostnaði sem Landsnet hf. leggur í vegna útgáfu upprunaábyrgðar. Gjaldskrá um framangreinda gjaldtöku skal taka mið af því að fjárhæð gjaldtöku fyrir viðkomandi þjónustu verði ekki hærri en sem nemur kostnaði við að veita hana. Ekki er um að ræða almenna tekjuheimild til handa Landsneti hf. heldur eingöngu um að ræða greiðslu á sannarlegum kostnaði Landsnets hf. vegna útgáfunnar og/eða staðfestingar á útgefinni upprunaábyrgð.
    Loks er í 4. mgr. kveðið á um heimild umsækjanda til að fela, með skriflegu umboði, þriðja aðila að annast umsókn um og/eða móttöku upprunaábyrgðar fyrir sína hönd.

Um 6. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 7. gr.

    Í greininni er kveðið á um viðurkenningu á upprunaábyrgðum sem gefnar eru út í öðru ríki Evrópska efnahagssvæðisins í samræmi við ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 77/2001/EB. Í 1. mgr. er Landsneti hf. veitt heimild til að leita staðfestingar á útgáfu upprunaábyrgðar í því landi þar sem ábyrgðin er gefin út. Að sama skapi er Landsneti hf. skv. 2. mgr. skylt að veita erlendum vottunaraðilum sambærilegar upplýsingar um þær upprunaábyrgðir sem útgefnar eru hér á landi. Að lokum er í 3. mgr. kveðið á um skyldu Landsnets hf. um að veita Orkustofnun upplýsingar um þær staðfestingar sem um er getið í 1. og 2. mgr.

Um 8. gr.

    Í greininni er kveðið á um stjórnsýslu laganna og eftirlit. Samkvæmt greininni er Landsneti hf. skylt að halda skrá um útgefnar upprunaábyrgðir og skal fyrirtækið árlega afhenda Orkustofnun upplýsingar um útgefnar upprunaábyrgðir á því formi sem stofnunin ákveður.
    Í 2. mgr. er kveðið á um skyldu Landsnets hf., í samráði við framleiðendur raforku frá endurnýjanlegum orkugjöfum, að setja reglur um skráningu upplýsinga sem um er getið í 1. mgr. Reglur þessar eru háðar staðfestingu Orkustofnunar.
    Að lokum er í 3. mgr. ákvæði til að tryggja aðhald með Landsneti hf. þar sem kveðið er á um skyldu fyrirtækisins til þess að veita stjórnvöldum, viðskiptavinum og almenningi upplýsingar sem nauðsynlegar eru við mat á því hvort fyrirtækið fullnægi skyldum sínum samkvæmt lögum þessum. Hins vegar skal fyrirtækið einnig gæta hagsmuna viðskiptavina sinna og því segir í ákvæðinu að fyrirtækinu sé heimilt að halda eftir viðskiptaupplýsingum er varða viðskiptahagsmuni og öðrum upplýsingum sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari nema viðskiptavinir veiti skriflegt samþykki fyrir afhendingu þeirra.

Um 9.–11. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringar.

Um 12. gr.

    Samkvæmt ákvæðum raforkulaga, nr. 65/2003, með síðari breytingum, er skýrt kveðið á um réttindi og skyldur flutningsfyrirtækis, þ.e. Landsnets hf. Þar segir m.a. að Landsneti hf. er óheimilt að stunda aðra starfsemi en þá sem því er nauðsynleg til að geta rækt skyldur sínar samkvæmt raforkulögum. Til að tryggja að Landsnet hf. geti sinnt lögboðnu hlutverki sínu samkvæmt frumvarpi þessu er nauðsynlegt að gera þær breytingar á 1. málsl. 5. mgr. 8. gr. raforkulaga að fyrirtækinu sé heimilt að starfrækja skyldur sínar samkvæmt raforkulögum sem og öðrum lögum. Samhliða breytingum á raforkulögum kallar frumvarp þetta á sambærilegar breytingar á 1. málsl. 2. gr. laga um stofnun Landsnets hf., nr. 75/2004.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um upprunaábyrgð á raforku sem framleidd er
með endurnýjanlegum orkugjöfum o.fl.

    Tilgangur frumvarpsins er annars vegar að stuðla að nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og hins vegar að gangast undir þjóðréttarlegar skuldbindingar íslenska ríkisins, samkvæmt EES-samningnum, um að auka framleiðslu rafmagns með endurnýjanlegum orkugjöfum. Samkvæmt frumvarpinu verður iðnaðarráðherra heimilt að fela Landsneti hf. að hafa eftirlit með útgáfu upprunaábyrgða á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum. Þá skal Landsnet hf. árlega afhenda Orkustofnun upplýsingar um útgefnar upprunaábyrgðir. Í 5. gr. frumvarpsins er kveðið á um að Landsneti hf. verði heimilt að krefjast greiðslu fyrir útgáfu upprunaábyrgðar og er þeirri greiðslu ætlað að standa undir þeim kostnaði sem Landsnet hf. leggur í vegna útgáfunnar. Ekki er um að ræða almenna tekjuheimild til handa Landsneti hf. heldur eingöngu heimild til að innheimta greiðslu til að standa undir þeim kostnaði sem hlýst af við útgáfuna.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.