Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 272. máls.

Þskj. 305  —  272. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




1. gr.

    Við 4. gr. laganna bætist svohljóðandi málsgrein:
    Það teljast veiðar í atvinnuskyni ef eigandi eða útgerð báts tekur gjald af þeim sem nýta bátinn til veiða. Um veiðar og afla fer samkvæmt gildandi reglum um veiðar í atvinnuskyni. Ráðherra getur þó með reglugerð sett sérstakar reglur um veiðar og afla, m.a. hvað varðar skyldur skipstjóra, tilkynningar og skýrsluskil.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. september 2008.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið að tilhlutan sjávarútvegsráðherra en með því er lagt til að gerð verði breyting á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, er lýtur að því að kveða með skýrum hætti á um að í skilningi laga á sviði fiskveiðistjórnunar teljist það vera veiðar í atvinnuskyni þegar eigandi eða útgerð báts tekur gjald af þeim sem veiðarnar stunda. Bátar sem nýttir eru með þessum hætti þurfa samkvæmt því að hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni og nægilegar aflaheimildir í þeim kvótabundnu tegundum sem þeir veiða og selja eða fénýta á annan hátt.
    Samkvæmt 6. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, er heimilt án sérstaks leyfis að stunda í tómstundum fiskveiðar með handfærum án sjálfvirknibúnaðar. Afla, sem fæst við slíkar veiðar, er einungis heimilt að hafa til eigin neyslu og er óheimilt að selja hann eða fénýta á annan hátt. Tilgangur þessa lagaákvæðis er augljóslega að heimila að þeir sem hafa yfir tómstundabátum að ráða geti rennt fyrir fisk sér til gamans, enda verði aflinn ekki meiri en svo að þeir geti sjálfir neytt hans.
    Nokkuð er um að fyrirtæki og einstaklingar, sem eiga eða gera út báta, hafi af því atvinnu að bjóða þeim sem þess óska og gjald greiða að fara í sjóferðir á bátunum, ýmist undir fararstjórn af hálfu útgerðar eða án þess að fulltrúi útgerðar sé um borð. Stundum er eini eða aðaltilgangur slíkra ferða að stunda fiskveiðar en í öðrum tilvikum eru veiðarnar einn liðurinn í þeirri afþreyingu sem boðið er upp á. Hvað sem því líður er ljóst að umræddir bátar eru nýttir í atvinnuskyni og eru fiskveiðar þáttur í þeirri nýtingu. Afli, sem fæst við þessar veiðar, er að sjálfsögðu mismikill en þar sem það eru yfirleitt ferðamenn, erlendir og innlendir, sem veiðarnar stunda eru þeir sjaldnast í góðri aðstöðu til að taka aflann með sér og neyta hans sjálfir. Því getur verið heppilegt og hagkvæmt fyrir þá en þó ekki síður útgerðir hlutaðeigandi báta að geta selt aflann eða fénýtt hann á annan hátt. Verulegur og vaxandi áhugi virðist vera á umræddum veiðum, einkum meðal erlendra áhugamanna um veiðar með sjóstöng og koma margir þeirra hingað til lands í þeim tilgangi fyrst og fremst að stunda slíkar veiðar. Ástæða sýnist því til að ætla að atvinnustarfsemi af þessum toga kunni að aukast umtalsvert á næstu árum og þar með sá afli sem fæst með þessum hætti.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að skýrlega verði kveðið á um að það teljist veiðar í atvinnuskyni en ekki tómstundaveiðar þegar eigandi eða útgerð báts tekur gjald af þeim sem nýta bátinn til veiða. Bátar, sem þannig eru nýttir, þurfa samkvæmt því að hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni og nægilegar aflaheimildir í kvótabundnum tegundum sem þeir stunda veiðar á. Hvaða veiðarfæri heimilt er að nota við veiðarnar ræðst af því hvort hlutaðeigandi bátur hefur veiðileyfi í almennu aflamarkskerfi eða krókaaflamarkskerfi og af öðrum reglum sem eiga við um notkun veiðarfæra en þó má gera ráð fyrir að hér eftir sem hingað til verði sjóstöng algengasta veiðarfærið. Afla, sem fæst við þessar veiðar, er heimilt að selja eða fénýta á annan hátt og dregst aflinn frá aflaheimildum hlutaðeigandi báta samkvæmt reglum sem um það gilda.
    Gert er ráð fyrir að almennar reglur sem gilda um veiðar í atvinnuskyni eigi við um umrædda báta, veiðar þeirra og afla. Þær aðferðir sem hagkvæmastar eru og almennt eru hafðar við útgerð þessara báta eru hins vegar nokkuð frábrugðnar því sem tíðkast við rekstur annarra atvinnubáta. Í því sambandi má t.d. nefna að nokkuð mun um að þessir bátar fari til veiða án þess að um borð sé skipstjóri sem starfar í þágu hlutaðeigandi útgerðar. Því þykir nauðsynlegt að leggja til að sjávarútvegsráðherra verði heimilt að setja sérstakar reglur um umrædda báta, m.a. hvað varðar skyldur skipstjóra og tilkynningar og skýrsluskil til stjórnvalda varðandi veiðar og afla.
    Þá er gert ráð fyrir að frumvarpið taki gildi 1. september 2008 og er það gert til að veita aðilum í ferðaþjónustu nægjanlegt ráðrúm bæði til skipulags starfsemi sinnar sem og til sölu þjónustunnar sem oft er frágengin með margra mánaða fyrirvara.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006,
um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er skilgreint að það teljist veiðar í atvinnuskyni ef eigandi eða útgerð báts tekur gjald af þeim sem nýta bátinn til veiða. Bátar sem nýttir eru með þeim hætti þurfa samkvæmt því að hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni og nægilegar aflaheimildir í kvótabundnum tegundum sem þeir veiða og selja eða fénýta á annan hátt.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóðs.