Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 274. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 308  —  274. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um aukna samvinnu og samráð um öryggis- og björgunarmál milli Vestur-Norðurlandanna og við önnur ríki við Norður-Atlantshaf.

Flm.: Karl V. Matthíasson, Árni Johnsen, Guðbjartur Hannesson,
Guðjón A. Kristjánsson, Guðni Ágústsson, Jón Gunnarsson.


    Alþingi skorar á ríkisstjórnina að gera samkomulag við landsstjórnir Færeyja og Grænlands um að auka samvinnu og samráð um öryggis- og björgunarmál milli Vestur-Norðurlandanna og við önnur ríki við Norður-Atlantshaf. Lagt er til að komið verði á sameiginlegum björgunaræfingum til að samræma viðbúnað og samhæfa viðbrögð við alvarlegum slysum á Norður-Atlantshafi.

Greinargerð.


    Tillaga þessi er sett fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 3/2007 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 23. ágúst 2007 í Nuuk á Grænlandi. Ályktun ráðsins hljóðar svo í íslenskri þýðingu:
    „Vestnorræna ráðið skorar á ríkisstjórn Íslands og landsstjórnir Færeyja og Grænlands að gera með sér samkomulag um að stuðla að aukinni samvinnu, samráði og samhæfingu um öryggis- og björgunarmál á Norður-Atlantshafi, bæði við Norðurlönd og önnur lönd við Norður-Atlantshaf. Lagt er til að unnið sé að því að koma á sameiginlegum björgunaræfingum til að samræma viðbúnað og samhæfa viðbrögð við stórslysum í Norður-Atlantshafi.

Rökstuðningur.
    Til að hægt sé að tryggja öryggi í og við Norður-Atlantshaf er mikilvægt að varanlegur og viðeigandi öryggis- og björgunarviðbúnaður sé fyrir hendi. Það er hagsmunamál allra við Norður-Atlantshafið, ekki síst Vestur-Norðurlandanna sem eru umkringd sjó.
    Ákvörðun bandarískra stjórnvalda um að flytja herafla sinn frá Íslandi, þ.m.t. björgunarþyrlur og eldsneytisvélar, auk samdráttar í viðbúnaði bandaríska hersins á Grænlandi og í Færeyjum, hefur gert það að verkum að ekki er lengur til staðar nægilegur búnaður til að bregðast við slysum á afskekktum stöðum eða langt frá landi. Á sama tíma fer atvinnustarfsemi eins og olíuvinnsla og skipaumferð um Norður-Atlantshaf sívaxandi og þar með slysahætta.
    Ljóst er að bæði atvinnustarfsemi og skipaumferð eiga eftir að aukast til muna í norðurhöfum samfara aukinni bráðnun hafíss, sem opnar möguleikann á nýjum siglingaleiðum, auk þess sem ný tækni auðveldar auðlindanýtingu á norðurslóðum. Aukinn áhugi á svæðinu er þegar kominn í ljós bæði í atvinnulífinu og meðal ferðamanna. Það sést á aukinni umferð vöruflutningaskipa og farþegaskipa í norðurhöfum sem eru fjarri mannabyggðum og þar sem hætta stafar af ís en reynsla og menntun skipstjóra tekur ekki endilega mið af aðstæðum á norðurslóðum.
    Þetta getur haft í för með sér aukna hættu á umhverfisslysum og/eða mannskaða, sem krefst varanlegs og viðeigandi viðlegu- og björgunarbúnaðar á sjó og landi auk samvinnu, samráðs og samhæfingar á sviði björgunarmála við Norður-Atlantshaf.
    Vestnorræna ráðið telur mikilvægt að löndin á svæðinu auki samvinnu og samráð sín á milli til að geta brugðist við vá með fullnægjandi hætti og skorar á stjórnvöld að stuðla að slíku til viðbótar við tvíhliða samkomulög sem fyrir eru. Slík samkomulög eru af hinu góða en meira þarf til að hægt sé að bregðast við alvarlegum slysum sem kunna að verða á Norður- Atlantshafssvæðinu. Vestnorræna ráðið mælir því með að komið verði á sameiginlegri björgunaræfingu allra landa sem liggja að Norður-Atlantshafi.“