Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 286. máls.

Þskj. 320  —  286. mál.Frumvarp til laga

um framhaldsskóla.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)
I. KAFLI
Gildissvið, hlutverk og yfirstjórn.
1. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi taka til skólastarfs á framhaldsskólastigi. Nám á framhaldsskólastigi er skipulagt sem framhald af námi á grunnskólastigi. Það miðar að lokaprófi, svo sem framhaldsskólaprófi, starfsréttindaprófi, stúdentsprófi eða öðrum skilgreindum námslokum, sem geta miðast við tiltekin störf og veitt sérstök réttindi þeim tengd.
    Lög þessi taka til opinberra framhaldsskóla, sbr. II. kafla, og annarra skóla á framhaldsskólastigi sem hlotið hafa viðurkenningu ráðherra, sbr. III. kafla.

2. gr.
Hlutverk.

    Hlutverk framhaldsskóla er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi með því að bjóða hverjum nemanda nám við hæfi.
    Framhaldsskólar búa nemendur undir þátttöku í atvinnulífinu og frekara nám. Þeir skulu leitast við að efla siðferðisvitund, ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi nemenda, þjálfa þá í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum og gagnrýninni hugsun, kenna þeim að njóta menningarlegra verðmæta og hvetja til þekkingarleitar. Framhaldsskólar sinna miðlun þekkingar og þjálfun nemenda þannig að þeir öðlist færni til að gegna sérhæfðum störfum og hafi forsendur til að sækja sér frekari menntun.

3. gr.
Yfirstjórn.

    Menntamálaráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála er lög þessi taka til og ber ábyrgð á eftirfarandi:
     a.      almennri stefnumótun í málefnum framhaldsskóla,
     b.      aðalnámskrá og staðfestingu á námskrám og námsbrautarlýsingum skóla,
     c.      eftirliti með stjórnsýslu og skólastarfi,
     d.      stuðningi við þróunarstarf í framhaldsskólum og þróun námsefnis,
     e.      söfnun, úrvinnslu og miðlun upplýsinga um skólastarf.

II. KAFLI
Opinberir framhaldsskólar.
4. gr.
Stofnun framhaldsskóla.

    Opinber framhaldsskóli er ríkisstofnun og heyrir undir menntamálaráðherra.
    Ráðherra, eftir atvikum í samstarfi við sveitarfélög, eitt eða fleiri, getur haft frumkvæði að stofnun opinbers framhaldsskóla. Opinber framhaldsskóli er stofnaður með því að Alþingi leggur skólanum til rekstrarfé í fjárlögum.
    Opinberir framhaldsskólar þarfnast ekki sérstakrar viðurkenningar, en þeir skulu uppfylla öll almenn skilyrði fyrir viðurkenningu framhaldsskóla, sbr. 12. gr.

5. gr.
Skólanefndir.

    Ráðherra skipar skólanefnd við framhaldsskóla til fjögurra ára í senn. Í skólanefnd skulu sitja fimm einstaklingar. Tveir eru skipaðir samkvæmt tilnefningum sveitarstjórna og þrír án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Nefndin kýs sér formann til eins árs í senn. Áheyrnarfulltrúar eru þrír með málfrelsi og tillögurétt, einn tilnefndur af skólafundi, einn af nemendafélagi skólans og einn af foreldraráði, til eins árs í senn. Skólameistari situr fundi skólanefndar með málfrelsi og tillögurétt. Hann er framkvæmdastjóri nefndarinnar.
    Hlutverk skólanefndar er að:
     a.      marka áherslur í starfi skólans og stuðla að sem bestri þjónustu við íbúa á starfssvæði skólans og tengslum hans við atvinnu-, félags- og menningarlíf,
     b.      vera skólameistara til samráðs um námsframboð skóla,
     c.      staðfesta skólanámskrá að fenginni umsögn almenns skólafundar og fylgjast með framkvæmd hennar,
     d.      veita skólameistara umsögn um árlega starfs- og fjárhagsáætlun í samræmi við niðurstöður fjárlaga og fylgjast með framkvæmd hennar,
     e.      vera skólameistara til samráðs um fjárhæð þeirra gjalda sem skólameistari ákveður skv. 45. gr.,
     f.      vera skólameistara til samráðs um samninga sem viðkomandi skóli gerir,
     g.      vera skólameistara til samráðs um starfsmannamál,
     h.      veita ráðherra umsögn um umsækjendur um stöðu skólameistara.

6. gr.
Skólameistari.

    Ráðherra skipar skólameistara í framhaldsskólum til fimm ára í senn. Skólanefnd veitir umsögn um umsækjendur um starf skólameistara. Kennari, sem skipaður er skólameistari, skal fá leyfi frá kennarastarfi sínu þann tíma sem hann gegnir embætti skólameistara.
    Skólameistari veitir framhaldsskóla forstöðu. Hann stjórnar daglegum rekstri og starfi framhaldsskóla og gætir þess að skólastarfið sé í samræmi við lög, reglugerðir, aðalnámskrá og önnur gildandi fyrirmæli á hverjum tíma. Hann ber ábyrgð á gerð fjárhagsáætlunar og að henni sé fylgt og hefur frumkvæði að gerð skólanámskrár og umbótastarfi innan skólans.

7. gr.
Skólaráð.

    Skólaráð skal vera skólameistara til samráðs og aðstoðar. Skólameistari er oddviti skólaráðs sem auk hans skal skipað staðgengli hans og fulltrúum kennara og nemenda. Heimilt er að setja í reglugerð nánari ákvæði um skipan skólaráðs, verksvið þess og starfshætti.

8. gr.
Starfslið framhaldsskóla.

    Skólameistari ræður stjórnendur, kennara og aðra starfsmenn skólans að höfðu samráði við skólanefnd.
    Skólameistari ræður staðgengil sinn til allt að fimm ára í senn. Kennari, sem ráðinn er staðgengill skólameistara, skal eftir atvikum fá leyfi frá kennarastarfi sínu þann tíma sem hann gegnir staðgöngu.
    Um skilyrði þess að vera ráðinn skólameistari eða kennari við framhaldsskóla fer eftir ákvæðum gildandi laga um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum framhaldsskólakennara.
    Ráðherra setur í reglugerð ákvæði um menntun og starfssvið náms- og starfsráðgjafa, starfsfólks skólasafna og annars starfsliðs framhaldsskóla, eftir því sem við á. Sama gildir um starfssvið skólameistara og kennara.

9. gr.
Skólafundir.

    Í framhaldsskólum skal halda skólafund a.m.k. einu sinni á skólaári. Rétt til setu á skólafundi eiga allir starfsmenn skóla ásamt fulltrúum nemenda samkvæmt nánari ákvörðun skólameistara. Á skólafundi er rætt um málefni viðkomandi skóla og kosnir áheyrnarfulltrúar í skólanefnd. Skólameistari boðar til fundar, leggur fram dagskrá og stýrir fundi, eða felur öðrum stjórn hans. Fundargerð skólafundar skal kynnt skólanefnd.
    Skylt er skólameistara að halda skólafund ef þriðjungur fastra starfsmanna skóla krefst þess.

10. gr.
Kennarafundir.

    Í framhaldsskólum skal halda kennarafund a.m.k. tvisvar sinnum á skólaári. Skólameistari boðar til fundar, leggur fram dagskrá og stýrir fundi, eða felur öðrum stjórn hans. Fundargerð kennarafundar skal kynnt skólanefnd. Almennir kennarafundir í framhaldsskólum skulu fjalla um stefnumörkun í starfi skóla, m.a. námsskipan, kennsluhætti, gerð skólanámskrár, tilhögun prófa og námsmat.
    Skólanefnd, skólameistari og skólaráð geta leitað til kennarafundar um önnur mál.
    Kennarafundur kýs við upphaf haustannar fulltrúa í skólaráð.
    Allir kennarar sem starfa við skóla eiga rétt til setu á kennarafundi. Skólameistari undirbýr mál er fyrir kennarafund koma, en öllum sem þar eiga seturétt er heimilt að bera þar fram mál.

11. gr.
Námsorlof.

    Kennari sem starfað hefur í a.m.k. fimm ár getur óskað eftir að fá sérstakt námsorlof til að efla þekkingu sína og kennarahæfni. Skal hann senda menntamálaráðuneyti beiðni um námsorlof. Ráðuneytið getur, að fenginni umsögn skólameistara, veitt námsorlof allt að einu ári á föstum launum. Kennari er nýtur námsorlofs getur jafnframt sótt um styrk til að standa straum af kostnaði við ferðalög og námsdvöl í sambandi við námsorlofið. Sá sem fær orlof skilar skýrslu til ráðuneytisins um hvernig því var varið.
    Ákvæði þessarar greinar taka einnig til skólameistara og annarra faglegra stjórnenda.
    Ráðherra setur reglugerð um námsorlof samkvæmt grein þessari.

III. KAFLI
Aðrir skólar á framhaldsskólastigi.
12. gr.
Viðurkenning.

    Ráðherra getur veitt skólum, öðrum en þeim sem falla undir II. kafla, viðurkenningu til kennslu á framhaldsskólastigi. Slíka skóla má starfrækja sem sjálfseignarstofnun, hlutafélag eða með öðru viðurkenndu rekstrarformi. Skilyrði fyrir viðurkenningu lúta að eftirtöldum þáttum:
     a.      hlutverki og markmiðum skóla,
     b.      stjórnskipan skóla og skipulagi hans,
     c.      skólanámskrám og námsbrautarlýsingum,
     d.      fyrirkomulagi náms og kennslu,
     e.      hæfisskilyrðum starfsmanna,
     f.      inntökuskilyrðum nemenda,
     g.      réttindum og skyldum nemenda,
     h.      starfsaðstöðu og aðbúnaði kennara og nemenda og þjónustu við þá,
     i.      innra gæðakerfi,
     j.      fjárhagsmálefnum og tryggingum.
    Í viðurkenningu skóla felst staðfesting á því að starfsemi viðkomandi skóla uppfylli, á þeim tíma sem viðurkenning er veitt, almenn skilyrði laga þessara og reglna sem settar eru með stoð í þeim. Skóli sem hlotið hefur viðurkenningu hefur sjálfdæmi um starfsemi sína að öðru leyti en því sem kveðið er á um í lögum þessum, reglum eða öðrum stjórnvaldsfyrirmælum sem sett eru á grundvelli laganna.
    Í viðurkenningu felst ekki skuldbinding um fjárframlög úr ríkissjóði til viðkomandi skóla og eigi heldur ábyrgð á skuldbindingum hans.
    Skóli sem hlotið hefur viðurkenningu skal leitast við að leysa úr málum er varða réttindi og skyldur nemenda í samræmi við lög og góða stjórnsýsluhætti.
    Uppfylli skóli, sem fengið hefur viðurkenningu, ekki skilyrði laga þessara og reglur og skilyrði sem sett eru á grundvelli þeirra getur ráðherra afturkallað viðurkenninguna.
    Í reglugerð skal kveðið nánar á um skilyrði fyrir viðurkenningu og hvernig staðið er að veitingu viðurkenningar, eftirlit með starfsemi skóla, sbr. VIII. kafla, og afturköllun viðurkenningar.

13. gr.
Skólameistari, kennarar.

    Stjórn skóla, sem hlýtur viðurkenningu ráðherra á grundvelli 12. gr., ræður skólameistara til að stýra daglegri starfsemi skólans. Hann ber ábyrgð á starfsemi skólans í umboði stjórnar eða ábyrgðaraðila í samræmi við samþykktir, stofnskrá eða önnur stofnskjöl viðkomandi skóla.
    Um skilyrði þess að vera ráðinn skólameistari eða kennari fer eftir ákvæðum laga um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum framhaldsskólakennara.
    Heimilt er ráðherra að víkja frá menntunarkröfum kennara í skólum sem hljóta viðurkenningu skv. 12. gr., enda sé þá ekki um að ræða nám sem byggist á aðalnámskrá framhaldsskóla heldur sérhæft starfsmiðað nám.

14. gr.
Skóla- og kennarafundir.

    Um skóla- og kennarafundi fer samkvæmt ákvæðum 9. og 10. gr.

IV. KAFLI
Skipulag náms, námslok.
15. gr.
Námseiningar.

    Öll vinna nemenda í framhaldsskóla skal metin í stöðluðum námseiningum og skal að baki hverri einingu liggja því sem næst jafnt vinnuframlag nemanda. Eitt námsár, sem mælir alla ársvinnu nemanda með fullnaðarárangri, veitir 60 einingar. Er þá miðað við að árlegur fjöldi vinnudaga nemenda sé að lágmarki 180 dagar.
    Ráðherra setur í aðalnámskrá nánari reglur um mat á námi til eininga og vinnu nemenda í framhaldsskólum.

16. gr.
Framhaldsskólapróf.

    Til að útskrifast með framhaldsskólapróf skal nemandi hafa lagt stund á nám sem svarar til 90–120 eininga samkvæmt námskrá og námsbrautarlýsingu sem hlotið hefur staðfestingu ráðherra skv. 23. gr.

17. gr.
Próf til starfsréttinda.

    Til að útskrifast með starfsréttindapróf frá framhaldsskóla skal nemandi hafa lokið námi með fullnaðarárangri samkvæmt námskrá og námsbrautarlýsingu sem hlotið hefur staðfestingu ráðherra, sbr. einnig 23. gr.

18. gr.
Stúdentspróf.

    Til að útskrifast með stúdentspróf frá framhaldsskóla skal nemandi hafa lokið námi með fullnaðarárangri samkvæmt námskrá og námsbrautarlýsingu sem hlotið hefur staðfestingu ráðherra, sbr. 23. gr. Námsbraut til stúdentsprófs skal innihalda að lágmarki 45 námseiningar er skiptast milli náms í kjarnagreinum framhaldsskóla, þ.e. íslensku, stærðfræði og ensku, samkvæmt nánari ákvæðum í aðalnámskrá.
    Stúdentspróf miðar m.a. að því markmiði að undirbúa nemendur undir nám á háskólastigi. Við mat á námsbrautarlýsingu til stúdentsprófs og staðfestingu ráðherra á henni skal það vera tryggt að prófið uppfylli almennar kröfur háskóla um undirbúning fyrir nám á háskólastigi.

19. gr.
Önnur lokapróf.

    Framhaldsskólar geta boðið nám til annarra skilgreindra námsloka en getið er um í 16., 17. og 18. gr. á námsbrautum sem hlotið hafa staðfestingu ráðherra, sbr. nánar ákvæði V. kafla.

20. gr.
Viðbótarnám við framhaldsskóla.

    Heimilt er framhaldsskólum að hafa í boði nám í framhaldi af skilgreindum námslokum á framhaldsskólastigi, sbr. 17., 18. og 19. gr. Skal ráðherra staðfesta námsbrautarlýsingar fyrir slíkt nám, sbr. nánar ákvæði V. kafla, sem og heiti viðkomandi prófgráða.
    Nám sem stundað er samkvæmt grein þessari skal metið í einingum, sbr. 15. gr., og þegar við á í námseiningum háskóla, sbr. 6. gr. laga nr. 63/2006.
    Nám sem í boði er samkvæmt grein þessari getur veitt sérstök eða aukin réttindi.

V. KAFLI
Námskrár og námsbrautir.
21. gr.
Aðalnámskrá.

    Aðalnámskrá framhaldsskóla, er ráðherra setur, kveður á um markmið og fyrirkomulag skólastarfs á framhaldsskólastigi. Aðalnámskrá framhaldsskóla skiptist í tvo hluta, almennan hluta samkvæmt grein þessari og námsbrautarlýsingu skv. 23. gr. Tilkynning um gildistöku aðalnámskrár eða hluta hennar skal birt í Stjórnartíðindum.
    Í almennum hluta aðalnámskrár eru útfærðir starfshættir og markmið framhaldsskóla. Almennur hluti aðalnámskrár skal m.a. innihalda eftirfarandi:
     a.      ákvæði um uppbyggingu námsbrautarlýsinga og um vægi kjarnagreina framhaldsskóla,
     b.      skilyrði um hvernig markmið einstakra áfanga og námsbrauta og lokamarkmið náms skulu skilgreind,
     c.      viðmið um námskröfur og námsframvindu,
     d.      reglur um námsmat og vitnisburð,
     e.      skilgreining á vinnustaðanámi og reglur um fyrirkomulag vinnustaðanáms,
     f.      reglur um mat á starfsnámi og skilgreiningu færnimarkmiða,
     g.      reglur um raunfærnimat, jafngildingu náms og mat á námi þegar nemendur flytjast milli skóla eða námsbrauta,
     h.      almennar reglur um skólanámskrár,
     i.      ákvæði um mat á skólastarfi,
     j.      almennar reglur um réttindi og skyldur nemenda og meðferð ágreiningsmála.

22. gr.
Skólanámskrá.

    Sérhver framhaldsskóli skal gefa út skólanámskrá. Skólanámskrá skiptist í tvo hluta, almennan hluta og námsbrautarlýsingar.
    Í almennum hluta skólanámskrár skal gerð grein fyrir starfsemi skólans, helstu áherslum og stefnumörkun, stjórnskipan, námsframboði og skipulagi náms, kennsluháttum, námsmati, stuðningi, ráðgjöf og þjónustu við nemendur, réttindum og skyldum nemenda, foreldrasamstarfi og samstarfi við utanaðkomandi aðila, sjálfsmati og gæðamálum og öðru sem skóli kýs að kveða á um í skólanámskrá. Jafnframt skal skóli gera grein fyrir því hvernig hann uppfyllir skilyrði samkvæmt almennum hluta aðalnámskrár framhaldsskóla og markmið laga þessara og reglna sem settar eru með stoð í þeim.
    Um setningu námsbrautarlýsinga í skólanámskrá skal farið að ákvæðum 23. gr.
    Skólanámskrá skal staðfest af skólanefnd að fenginni umsögn skólafundar, sbr. 5. gr. Skólanefnd fylgist með framkvæmd skólanámskrár.

23. gr.
Námsbrautarlýsingar.

    Framhaldsskólar setja sér námsbrautarlýsingar og leggja þær fyrir ráðherra til staðfestingar. Námsbrautarlýsingar framhaldsskóla sem hlotið hafa staðfestingu ráðherra eru þar með hluti af aðalnámskrá framhaldsskóla. Heimilt er að tveir eða fleiri framhaldsskólar standi sameiginlega að gerð námsbrautarlýsingar og leiti staðfestingar á henni. Tilkynning um staðfestingu ráðherra á námsbrautarlýsingu skal birt í Stjórnartíðindum. Brottfelling námsbrautarlýsingar skal auglýst með sama hætti.
    Námsbrautarlýsingar skulu byggðar upp í samræmi við ákvæði almenns hluta aðalnámskrár framhaldsskóla og skólanámskrár viðkomandi skóla. Í námsbrautarlýsingu skal kveðið á um innihald og vægi áfanga í einstökum greinum, samhengi í námi, vægi námsþátta og lokamarkmið náms. Þar er ákveðinn lágmarksfjöldi áfanga og eininga í einstökum námsgreinum og inntak náms í megindráttum. Nám á einstökum námsbrautum getur skipst í kjarnaáfanga og valáfanga. Hlutfall milli þessara þátta getur verið mismunandi eftir brautum. Kjarnaáfangar eru skyldunám brautar.
    Heimilt er ráðherra að setja sérstakar reglur um flokkun og þrepaskiptingu náms í samræmi við færni- og lokamarkmið námsins.
    Staðfesting ráðherra á námsbrautarlýsingu er háð því að skilyrðum aðalnámskrár skv. 21. gr. sé fullnægt.
    Ráðherra er heimilt að gefa út námsbrautarlýsingar sem einstakir framhaldsskólar geta haft til viðmiðunar í starfi sínu. Slíkar viðmiðunarnámskrár eru þá hluti aðalnámskrár framhaldsskóla og geta náð til eftirfarandi námsbrauta:
     a.      námsbrauta sem leiða til starfsréttindaprófs, þar á meðal þeirra sem leiða til sveinsprófs,
     b.      námsbrauta sem leiða til stúdentsprófs,
     c.      annarra námsbrauta sem leiða til prófa og skilgreindra námsloka samkvæmt ákvörðun ráðherra.

24. gr.
Starfsgreinaráð, skipan.

    Ráðherra skipar til fjögurra ára í senn starfsgreinaráð fyrir starfsgreinaflokka eða starfsgreinar. Í starfsgreinaráði skulu eiga sæti fimm fulltrúar, þar af tveir tilnefndir af samtökum atvinnurekenda, tveir af samtökum launþega í viðkomandi starfsgreinum og einn fulltrúi tilnefndur sameiginlega af Félagi íslenskra framhaldsskóla og Kennarasambandi Íslands. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Starfsgreinaráð kýs formann og varaformann úr hópi aðalmanna til tveggja ára í senn.
    Tilnefningaraðilar greiða kostnað af störfum fulltrúa sinna í starfsgreinaráði. Menntamálaráðuneytið greiðir kostnað af sérfræðilegri vinnu við námskrárgerð.

25. gr.
Hlutverk starfsgreinaráða.

    Starfsgreinaráð eru, hvert á sínu sviði, ráðherra til ráðgjafar um starfsnám á framhaldsskólastigi.
    Starfsgreinaráð skilgreina almenn markmið náms og þarfir fyrir kunnáttu og hæfni sem námsbrautarlýsingar fyrir viðkomandi starfsgrein skulu byggjast á. Þau setja viðmið fyrir skiptingu náms í skóla- og vinnustaðanám og gera tillögur um uppbyggingu og inntak prófa í einstökum starfsgreinum. Þau gera tillögu til ráðherra um brautarlýsingu fyrir einstakar námsbrautir, sem framhaldsskólar geta haft til viðmiðunar, sbr. 23. gr. Jafnframt skulu þau veita ráðherra umsögn um námsbrautarlýsingar starfsnáms sem einstakir skólar leita eftir staðfestingu á af hálfu ráðherra, sbr. 23. gr.
    Ráðherra getur leitað álits starfsgreinaráðs við mat á beiðni skóla um viðurkenningu, sbr. 12. gr.
    Ráðherra setur reglugerð um skipan og störf starfsgreinaráða.

26. gr.
Fagráð.

    Starfsgreinaráð geta stofnað fagráð fyrir hverja starfsgrein sem eru skipuð fulltrúum einstakra starfsgreina og fagkennurum skóla og/eða öðrum sérfræðingum. Fagráð veitir ráðgjöf um nýjungar og þróun starfsgreina á viðkomandi sviði og gerir tillögur um sérstök tilrauna- og þróunarverkefni. Starfsgreinaráð móta að öðru leyti reglur um verksvið fagráða.

27. gr.
Starfsgreinanefnd, skipun og hlutverk.

    Formenn starfsgreinaráða skipa sérstaka starfsgreinanefnd, ásamt formanni og varaformanni sem eru skipaðir án tilnefningar.
    Hlutverk starfsgreinanefndar er að vera ráðherra til ráðgjafar um stefnumótun í starfsnámi og framkvæmd starfsnáms, að vera vettvangur samráðs og samræmingar milli starfsgreinaráða, og að veita álit á skiptingu og flokkun starfsgreina milli starfsgreinaráða.
    Starfsgreinaráð greiða kostnað af störfum fulltrúa sinna í nefndinni. Menntamálaráðuneytið greiðir kostnað af fulltrúum sem skipaðir eru án tilnefningar.

28. gr.
Vinnustaðanám.

    Verknám og starfsþjálfun á vinnustað byggist á almennum ákvæðum aðalnámskrár um nám á vinnustað.
    Skóli ber ábyrgð á gerð sérstaks starfsþjálfunarsamnings um vinnustaðanám við vinnustað, samtök eða aðila sem er hæfur til að veita nemanda tilskilda þjálfun og menntun. Starfsþjálfunarsamningar skulu kveða á um rétt og skyldur vinnuveitenda, skóla og nemanda, markmið vinnustaðanáms og gæðakröfur, gildistíma, meðferð ágreinings og samningsslit.
    Sé þörf á því að gera sérstakan ráðningarsamning milli nema og vinnuveitanda skal skóli staðfesta hann. Skulu slíkir samningar vera í samræmi við gildandi kjarasamninga um nema í viðkomandi starfsnámi.
    Starfsgreinaráð skulu halda skrá yfir fyrirtæki og vinnustaði sem uppfylla skilyrði til vinnustaðanáms.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um vinnustaðanám og starfsþjálfun á vinnustað og skal þá áður leitað umsagnar aðila vinnumarkaðar og samtaka nemenda um efni þeirra.

29. gr.
Kjarnaskólar.

    Ráðherra getur gert framhaldsskóla að kjarnaskóla á tilteknu sviði um lengri eða skemmri tíma. Kjarnaskóli hefur forgöngu um að þróa námsefni, námsskipan og kennsluaðferðir og aðstoðar aðra skóla og fyrirtæki við umbætur í kennslu og þjálfun á viðkomandi sviði.
    Í samningi, er ráðherra gerir við skóla er tekur að sér hlutverk kjarnaskóla, skal verkefnið skilgreint, stjórnun þess, lengd samningstíma og hvernig úttekt þess skuli háttað. Hagsmunaaðilar á vinnumarkaði og starfsgreinaráð geta átt aðild að slíkum samningi.
    Menntamálaráðuneytið leggur kjarnaskólum til sérstakar fjárveitingar vegna samningsbundinna verkefna.

30. gr.
Námsmat.

    Almennt námsmat í framhaldsskóla er í höndum kennara, undir umsjón skólameistara. Matið byggist á markmiðum skólastarfs sem kveðið er á um í aðalnámskrá og skólanámskrá.
    Nemandi á rétt til að fá útskýringar á mati er liggur að baki lokaeinkunn í námsáfanga innan fimm virkra daga frá birtingu einkunnar. Vilji nemandi, sem ekki hefur náð lágmarkseinkunn, þá eigi una mati kennarans getur hann snúið sér til skólameistara og óskað eftir mati sérstaks prófdómara. Þá skal kveðja til óvilhallan prófdómara sem metur prófúrlausnir. Úrskurður hans er endanlegur og verður ekki skotið til æðra stjórnvalds.
    Þeir nemendur sem hyggjast ljúka stúdentsprófi skulu hafa lokið öllum námsáföngum samkvæmt námskrá með fullnægjandi árangri samkvæmt mati viðkomandi skóla. Í kjarnagreinum framhaldsskóla, sbr. 18. gr., skal námsmat í lokaáföngum til stúdentsprófs taka mið af viðmiðunarprófum sem ráðherra lætur í té eða viðurkennir. Jafnframt getur ráðherra ákveðið að leggja fyrir könnunarpróf í einstökum greinum.
    Námi í löggiltum iðngreinum lýkur með sveinsprófi. Ráðherra setur reglugerð um uppbyggingu og framkvæmd sveinsprófa. Heimilt er ráðherra að skipa sérstakar sveinsprófsnefndir í löggiltum iðngreinum til að annast samræmingu, framkvæmd og mat í tengslum við prófhald. Heimilt er ráðherra jafnframt að fela sveinsprófsnefnd mat á annarri iðnmenntun þegar við á.
    Ráðherra setur reglugerð þar sem nánar er kveðið á um fyrirkomulag og framkvæmd færni- og könnunarprófa sem lögð eru fyrir nemendur í framhaldsskólum.

31. gr.

Viðurkenning á námi og raunfærni.

    Nemandi sem flyst á milli skóla sem starfa samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla á rétt á því að fá nám sem hann hefur lokið metið til eininga í viðtökuskóla, enda falli námið að námskrá og námsbrautarlýsingum viðkomandi skóla. Viðurkennda námsþætti sem falla utan brautarkjarna ber að meta sem valgreinar.
    Nemandi sem innritast í framhaldsskóla á rétt á því að raunfærni hans sé metin til náms og námseininga, enda falli metin raunfærni að námskrá og námsbrautarlýsingum viðkomandi skóla. Viðurkennda raunfærni sem fellur utan brautarkjarna ber að meta sem valgreinar.
    Ráðherra setur í aðalnámskrá reglur um viðurkenningu náms og raunfærnimat og tilhögun þess.

VI. KAFLI
Nemendur.
32. gr.
Innritun, réttur til náms.

    Þeir sem lokið hafa grunnskólanámi, hafa hlotið jafngilda undirstöðumenntun eða hafa náð 16 ára aldri eiga rétt á að hefja nám í framhaldsskóla. Þeir sem rétt eiga á að hefja nám í framhaldsskóla samkvæmt málsgrein þessari eiga jafnframt rétt á því að stunda nám í framhaldsskóla til 18 ára aldurs, sbr. ákvæði 2. gr. og 33. gr.
    Hver framhaldsskóli ber ábyrgð á innritun nemenda, en í samningi skóla og menntamálaráðuneytis skv. 44. gr. skal kveðið sérstaklega á um skyldur einstakra framhaldsskóla við innritun nemenda og þær forsendur sem skóli leggur til grundvallar innritun nemenda. Heimilt er framhaldsskóla að gera sérstakar kröfur um undirbúning og námsárangur vegna innritunar á einstakar námsbrautir framhaldsskóla.
    Heimilt er ráðherra að setja í reglugerð nánari fyrirmæli og ákvæði um innritun nemenda.

33. gr.
Skólareglur og meðferð mála.

    Í skólanámskrá hvers skóla skulu vera reglur þar sem gerð er grein fyrir réttindum og skyldum nemenda. Skólareglur skulu geyma ákvæði um eftirfarandi þætti:
     a.      skólasókn,
     b.      hegðun og umgengni,
     c.      námsmat, námsframvindu og prófareglur,
     d.      viðurlög vegna brota á skólareglum,
     e.      reglur um meðferð ágreiningsmála og um beitingu viðurlaga.
    Við meðferð ágreiningsmála og beitingu viðurlaga vegna brota á skólareglum skal fara að ákvæðum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Liggi fyrir endanleg ákvörðun innan framhaldsskóla um rétt eða skyldu nemanda er heimilt að kæra slíka ákvörðun til menntamálaráðuneytisins. Um málskot gilda ákvæði VII. kafla stjórnsýslulaga.

34. gr.
Nemendur með sérþarfir.

    Á framhaldsskólastigi skal veita nemendum með fötlun, sbr. skilgreining á hugtakinu fatlaður í 2. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, kennslu og sérstakan stuðning í námi. Látin skal í té sérfræðileg aðstoð og viðeigandi aðbúnaður eftir því sem þörf krefur að mati menntamálaráðuneytisins. Nemendur með fötlun skulu stunda nám við hlið annarra nemenda eftir því sem kostur er.
    Ráðherra getur í samningi við framhaldsskóla heimilað rekstur sérstakra námsbrauta við framhaldsskóla fyrir nemendur með fötlun.
    Nemendur með leshömlun skulu eiga aðgang að sérsniðnum námsgögnum eftir því sem við verður komið. Framhaldsskóli gerir grein fyrir því í skólanámskrá hvernig staðið er að skimun og greiningu leshömlunar, ásamt eftirfylgni og stuðningi við nemendur sem greindir eru með leshömlun.
    Framhaldsskólar skulu leitast við að veita þeim nemendum sérstakan stuðning sem eiga við sértæka námsörðugleika að stríða eða veikindi.
    Ráðherra getur sett reglugerð með nánari ákvæðum um réttindi, kennslu og nám í framhaldsskólum. Einnig skal í reglugerð kveðið á um rétt heyrnarskertra eða heyrnarlausra nemenda til sérstakrar kennslu í íslensku táknmáli.

35. gr.
Tungumál, nemendur með annað móðurmál en íslensku.

    Kennsla í framhaldsskólum skal fara fram á íslensku.
    Heimilt er að nám fari fram á öðrum tungumálum en íslensku þegar
     a.      það leiðir af eðli náms eða námskrár og
     b.      þegar um er að ræða námsbrautir sem sérstaklega eru ætlaðar nemendum sem ekki hafa vald á íslensku eða verða að stunda eða hafa stundað hluta af námi sínu erlendis.
    Nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku eiga rétt á kennslu í íslensku sem öðru tungumáli. Sama gildir um nemendur sem dvalist hafa langdvölum erlendis og hafa litla kunnáttu í íslensku. Miða skal við að nemendur með annað móðurmál en íslensku fái tækifæri til að viðhalda móðurmáli sínu sem valgrein, í fjarnámi eða með öðrum hætti.
    Í reglugerð skal kveðið nánar á um rétt nemenda til kennslu í íslensku, svo og um tilhögun og mat á náminu.

36. gr.
Heilsuvernd, hollustuhættir, forvarnir.

    Skólameistari framhaldsskóla skal hafa samráð við heilsugæslustöð í nágrenni skólans um heilsuvernd og hollustuhætti. Framhaldsskóli og viðkomandi heilsugæslustöð geri samkomulag um fyrirkomulag heilbrigðisþjónustu sem veitt er nemendum.
    Framhaldsskólar skulu tryggja að í boði sé innan veggja hvers skóla heilnæmt fæði í samræmi við opinber manneldismarkmið.
    Framhaldsskólar skulu hvetja til heilbrigðs lífernis og heilsuræktar nemenda. Sérhver framhaldsskóli skal setja sér stefnu um forvarnir og skal sú stefna birt opinberlega. Skólinn skal gera grein fyrir því með reglubundnum hætti hvernig forvarnastarfi er háttað.

37. gr.
Náms- og starfsráðgjöf.

    Nemendum í framhaldsskóla skal standa til boða ráðgjöf og leiðsögn um náms- og starfsval og um persónuleg mál er snerta nám þeirra og skólavist. Þeir sem þjónustuna veita skulu að jafnaði hafa menntun á sviði slíkrar ráðgjafar og leiðsagnar.
    Í skólanámskrá framhaldsskóla skal markmiðum og stefnu skóla varðandi ráðgjöf lýst og þar skal einnig koma fram hvernig skóli rækir skyldur sínar og hlutverk á þessu sviði.

38. gr.
Námsferilsskrá.

    Framhaldsskóla ber skylda til að varðveita upplýsingar um nám nemenda og veita nemendum aðgang að þeim. Um aðgang annarra en nemenda að upplýsingum um námsferil fer eftir nánari reglum 55. gr. og reglugerð settri samkvæmt þeirri grein.

39. gr.
Nemendafélög í framhaldsskólum.

    Í hverjum framhaldsskóla skal starfa nemendafélag. Nemendafélagið setur sér reglur um skipan, starfssvið og starfshætti nemendafélags, sem skólameistari staðfestir. Nemendafélög starfa á ábyrgð skóla. Framhaldsskólum er heimilt að styrkja starfsemi nemendafélaga fjárhagslega og skal bókhald þeirra háð sömu endurskoðun og aðrar fjárreiður framhaldsskóla. Nemendafélögum skal búin aðstaða til starfsemi sinnar.

VII. KAFLI
Mat og eftirlit með gæðum.
40. gr.
Markmið.

    Markmið mats og eftirlits með gæðum starfs í framhaldsskólum er að:
     a.      veita upplýsingar um skólastarf, árangur þess og þróun til fræðsluyfirvalda, starfsliðs framhaldsskóla, viðtökuskóla, atvinnulífs, foreldra og nemenda,
     b.      tryggja að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrár framhaldsskóla,
     c.      auka gæði náms og skólastarfs og stuðla að umbótum,
     d.      tryggja að réttindi nemenda séu virt og að þeir fái þá þjónustu sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum.

41. gr.
Innra mat.

    Hver framhaldsskóli metur með kerfisbundnum hætti árangur og gæði skólastarfs á grundvelli 40. gr. með virkri þátttöku starfsmanna, nemenda og foreldra eftir því sem við á.
    Framhaldsskóli birtir opinberlega upplýsingar um innra mat sitt, tengsl þess við skólanámskrá og áætlanir um umbætur.
    

42. gr.
Ytra mat.

    Menntamálaráðuneyti annast öflun, greiningu og miðlun upplýsinga um skólahald í framhaldsskólum og er það liður í reglubundnu ytra mati á gæðum skólastarfs ásamt úttektum, könnunum og rannsóknum.
    Ytra mat getur náð til framhaldsskóla í heild, aðferða við innra mat eða annarra skilgreindra þátta í starfsemi framhaldsskóla. Jafnframt getur ytra mat náð til nokkurra framhaldsskóla í senn. Framhaldsskólar skulu leggja fram þá aðstoð og þau gögn sem matið útheimtir þ.m.t. niðurstöður innra mats. Matsskýrslur sem unnar eru samkvæmt lögum þessum skulu birtar opinberlega. Að loknu ytra mati skal framhaldsskóli gera grein fyrir því hvernig brugðist verður við niðurstöðum þess. Menntamálaráðuneyti skal leitast við að fylgja innra og ytra mati eftir með stuðningi, fræðslu og ráðgjöf til viðkomandi skóla þannig að slíkt mat leiði til umbóta í skólastarfi.
    Menntamálaráðuneyti gerir áætlun til þriggja ára um kannanir og úttektir sem miða að því að veita upplýsingar um framkvæmd laga þessara, aðalnámskrár framhaldsskóla og annarra þátta skólastarfs. Jafnframt getur ráðherra ákveðið að láta fara fram sérstakt ytra mat á framhaldsskóla eða einstökum þáttum skólastarfs ef ástæða þykir til. Úttekt á framhaldsskóla skal fara fram eigi sjaldnar en á fimm ára fresti og unnin af óháðum aðilum.
    Ytra mat nær eingöngu til framhaldsskóla sem hljóta fjárveitingar í fjárlögum og gerður hefur verið samningur við, sbr. 44. gr.
    Ráðherra setur reglugerð um innra og ytra mat.

VIII. KAFLI
Rekstrar- og fjárhagsmálefni.
43. gr.
Rekstrarframlög.

    Ríkissjóður greiðir samkvæmt lögum þessum rekstrarframlög til þeirra framhaldsskóla sem njóta framlaga í fjárlögum. Skólar sem njóta framlaga í fjárlögum eru opinberir framhaldsskólar og aðrir framhaldsskólar sem ráðherra gerir þjónustusamninga við um kennslu á framhaldsskólastigi, enda hafi þeir hlotið viðurkenningu, sbr. 12. gr.
    Hver skóli hefur sérstaka fjárveitingu í fjárlögum. Ráðherra gerir tillögur um fjárveitingar í fjárlögum til hvers skóla, til kennslu og eftir atvikum annarra verkefna. Tillögurnar eru unnar á grundvelli reiknireglna, sem ráðherra setur með reglugerð. Reiknireglurnar skulu m.a. styðjast við áætlun um fjölda nemenda, áætlaðan fjölda kennslustunda, námsframboð, kostnað sem leiðir af kjarasamningum kennara og annars starfsliðs, húsnæði og annað, sem ráðherra metur að máli skipti.
    Rekstrarframlagi skv. 1. mgr. er ekki ætlað að standa straum af námskeiðs-, skráningar- eða skólagjöldum sem innheimt kunna að vera af öðrum skólum, þ.m.t. tónlistarskólum, vegna náms sem metið verður til eininga í framhaldsskóla. Ráðherra getur í samningum við framhaldsskóla, sbr. 44. gr., heimilað framhaldsskóla að ganga til samninga um greiðslur vegna slíks náms.

44. gr.
Samningar við framhaldsskóla.

    Umfang starfsemi framhaldsskóla, að svo miklu leyti sem hún er fjármögnuð með framlögum úr ríkissjóði, er ákveðið í fjárlögum.
    Í samningum milli ráðherra og einstakra framhaldsskóla, sem gerðir eru til 3–5 ára í senn, skulu koma fram helstu áherslur í starfsemi skólans, námskrár, námsframboð, kennslufyrirkomulag, mat og eftirlit með gæðum og annað, sem æskilegt er talið af hálfu samningsaðila. Farið skal yfir framkvæmd þessara samninga árlega og gildandi samningar endurskoðaðir ef samningsaðilar telja ástæðu til.
    Þjónustusamningar sem gerðir eru við aðra en opinbera framhaldsskóla skulu, auk þeirra atriða sem talin eru í 2. mgr., kveða á um réttarstöðu nemenda, nemendafjölda, gjaldtöku af nemendum og greiðslur fyrir aðra þjónustu sem veitt er á grundvelli samningsins.

45. gr.
Gjaldtökuheimildir opinberra framhaldsskóla.

    Skólameistari ákveður upphæð innritunargjalds og efnisgjalds sem nemendum er gert að greiða við upphaf námsannar eða skólaárs:
     a.      Upphæð innritunargjalds skal taka mið af kostnaði við nemendaskráningu. Heimilt er að taka 25% hærra gjald af þeim sem fá leyfi til innritunar utan auglýsts innritunartíma og er heimilt að láta gjaldið renna í skólasjóð, enda sé tekjum hans samkvæmt skipulagsskrá ráðstafað í þágu nemenda.
     b.      Ekki er heimilt að innheimta gjald fyrir efni sem nemendum er látið í té samkvæmt einhliða ákvörðun skóla. Heimilt er að innheimta efnisgjald af nemendum fyrir efni sem skóli lætur nemendum í té ef nemandi hefur af því ávinning eða sérstök not. Skal það taka mið af raunverulegum efniskostnaði og framlögum til skóla í fjárlögum til að mæta efniskostnaði. Halda skal bókhald um fjárreiður þessar. Um endurskoðun gilda sömu reglur og um annan rekstur.
    Ráðherra ákveður hámark innritunargjalds og efnisgjalds í reglugerð.
    Framhaldsskólum er heimilt að bjóða nám utan reglubundins starfstíma framhaldsskóla að sumri til og er þá heimilt að taka gjald af nemendum til að mæta þeim sérgreinda launakostnaði sem til fellur vegna kennslunnar.
    Framhaldsskólum er heimilt að bjóða nám utan reglubundins daglegs starfstíma framhaldsskóla og í fjarnámi og er þá heimilt að taka gjald af nemendum sem svarar til allt að 10% af meðalkennsluframlagi á nemanda á framhaldsskólastigi samkvæmt fjárlögum.
    Heimilt er framhaldsskólum að innheimta gjald af nemendum fyrir valkvæða starfsemi sem í boði er, svo sem námsferðir, safnferðir eða leikhúsferðir.
    Heimilt er framhaldsskólum að innheimta gjald fyrir aðra þjónustu sem í boði er og telst ekki vera hluti af eða leiða af lögbundnu hlutverki skóla, svo sem vegna útgáfu skírteina, skápaleigu, o.þ.h.
    Ráðherra setur nánar í reglugerð ákvæði um gjaldtöku samkvæmt þessari grein.

46. gr.
Heimavistir í opinberum framhaldsskólum.

    Í samningum milli ráðuneytis og framhaldsskóla, sbr. 44. gr., er heimilt að kveða á um rekstur heimavistar við framhaldsskóla. Ráðherra leitar heimilda í fjárlögum til þess að mæta kostnaði við umsjón og almennan rekstur. Nemendur bera sjálfir hluta sérgreinds kostnaðar í heimavistum, sem skilgreindur er í reglugerð sem ráðherra setur. Skólameistari ber ábyrgð á starfsemi heimavistar, en getur með samningi falið öðrum að annast daglega umsýslu og rekstur.

47. gr.
Stofnkostnaður opinberra framhaldsskóla.

    Þegar stofnað er til framhaldsskóla skal gera samning um stofnkostnað og skiptingu hans milli þeirra sem standa að stofnun skólans. Með stofnkostnaði er átt við kostnað vegna húsnæðis og almenns búnaðar, sem samningsaðilar ákveða að leggja til skólans. Lóðir undir framhaldsskóla skulu sveitarfélög leggja til án endurgjalds. Ráðherra setur viðmið um stofnkostnað framhaldsskóla að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.
    Þegar ráðherra og sveitarfélög ákveða í sameiningu að stofna framhaldsskóla skal gerður samningur um undirbúning og umsjón með stofnframkvæmdum. Stofnframkvæmdir geta verið á forræði og ábyrgð ríkis, sveitarfélaga eða ríkis og sveitarfélaga í sameiningu, eftir því sem um semst:
     a.      Þegar sveitarfélög annast undirbúning og verkframkvæmdir, sbr. 2. mgr., greiðir ríkissjóður 60% kostnaðar við stofnframkvæmdir, aðrar framkvæmdir á lóð, stofnbúnað og eftir atvikum heimavist við þá, samkvæmt sérstökum viðmiðum um stofnkostnað.
     b.      Þegar ráðuneyti annast undirbúning og verkframkvæmdir, sbr. 2. mgr., greiða sveitarfélög 40% kostnaðar við stofnframkvæmdir, aðrar framkvæmdir á lóð, stofnbúnað og eftir atvikum heimavist við þá, samkvæmt sérstökum viðmiðum um stofnkostnað.
     c.      Ef um sameiginlega framkvæmd er að ræða greiðir ríkissjóður 60% og sveitarfélag 40%.
    Ef ríki og sveitarfélag, eitt eða fleiri, ákveða að leggja skóla sem þau standa að í sameiningu til húsnæði og búnað í eigu þriðja aðila skal samið sérstaklega um skiptingu kostnaðar sem af því hlýst. Skal þá miðað við að kostnaðarskipting ríkis og sveitarfélaga verði með hliðstæðum hætti og þegar um framkvæmd á þeirra vegum er að ræða, sbr. 2. mgr.
    Ákveði Alþingi að stofna skóla án aðildar sveitarfélags greiðist stofnkostnaður úr ríkissjóði.
    Um notkun heimavistarhúsnæðis utan skólatíma skal samið sérstaklega. Halda skal fjárreiðum vegna slíkrar notkunar aðskildum í reikningshaldi framhaldsskóla. Tekjur vegna slíkrar þjónustu skulu renna til viðhalds heimavistarhúsnæðis.

48. gr.
Viðhaldskostnaður, eignarhald, breytt nýting á opinberu skólahúsnæði.

    Ráðherra er heimilt að fela ríkisstofnun eða öðrum til þess bærum aðila umsýslu vegna húsnæðis framhaldsskóla gegn gjaldi. Meiri háttar viðhald framhaldsskóla í eigu ríkissjóðs og sveitarfélaga, sem ekki hefur verið ráðstafað með framangreindum hætti, skal greitt af sérstakri fjárveitingu sem ákveðin er í fjárlögum.
    Eignarhlutfall skólamannvirkja í eign ríkis og sveitarfélaga skal vera í sömu hlutföllum og stofnkostnaður er greiddur, eða hefur verið greiddur sé um eldra húsnæði að ræða. Verði húsnæði framhaldsskóla ráðstafað til annarra nota en framhaldsskólahalds skulu eignaraðilar gera með sér samkomulag þar um. Verði eign seld öðrum hvorum eignaraðila skal hún metin af dómkvöddum mönnum.
    Heimilt er að nýta skólahúsnæði til félagsstarfsemi utan reglulegs skólatíma. Tekjur vegna slíkrar þjónustu skulu nýttar til að mæta sérgreindum kostnaði sem af slíkri nýtingu hlýst.

49. gr.
Styrktarsjóðir.

    Heimilt er skólameistara, að fenginni umsögn skólanefndar og samþykki menntamálaráðuneytis, að stofna sérstaka styrktarsjóði við opinbera framhaldsskóla. Skal um slíka sjóði sett skipulagsskrá, leitað staðfestingar á henni og hún birt í Stjórnartíðindum.

IX. KAFLI
Ýmis ákvæði.
50. gr.
Foreldraráð.

    Við hvern framhaldsskóla skal starfa foreldraráð. Skólameistari boðar til stofnfundar þess. Hlutverk foreldraráðs er að styðja við skólastarfið, huga að hagsmunamálum nemenda og í samstarfi við skólann efla samstarf foreldra og forráðamanna ólögráða nemenda við skólann. Félagsmenn geta verið foreldrar nemenda við skólann.
    Kjósa skal í stjórn ráðsins á aðalfundi þess. Foreldraráð tilnefnir einn áheyrnarfulltrúa í skólanefnd. Foreldraráð setur sér starfsreglur.

51. gr.
Námsgögn.

    Í fjárlögum ár hvert skal tilgreind sú fjárhæð sem veitt er til að mæta kostnaði nemenda vegna námsgagna. Ráðherra setur reglur um skiptingu fjárins og fyrirkomulag þessa stuðnings.

52. gr.
Nýbreytni í skólastarfi.

    Ráðherra getur heimilað framhaldsskóla að innleiða nýbreytni í skólastarfi og gera tilraunir með ákveðna þætti þess með undanþágu frá ákvæðum laga þessara og reglugerða er settar kunna að verða samkvæmt þeim. Slíkum tilraunum skulu ávallt sett eðlileg tímamörk og í leyfi kveðið á um úttekt að tilraun lokinni.

53. gr.
Sprotasjóður.

    Sprotasjóður styður við þróun og nýjungar í skólastarfi í samræmi við stefnu stjórnvalda og aðalnámskrá. Sjóðurinn er sameiginlegur fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.
    Til sjóðsins renna fjármunir samkvæmt fjárlögum hverju sinni. Menntamálaráðuneyti hefur umsjón með sjóðnum og setur reglugerð um styrkveitingar. Í reglugerð er heimilt að fela stofnun á vegum ráðuneytisins eða öðrum þar til bærum aðilum umsjón með sjóðnum og að annast úthlutanir úr honum.

54. gr.
Þátttaka opinberra framhaldsskóla í símenntun.

    Framhaldsskóla er heimilt, að fengnu samþykki ráðherra, í samvinnu við sveitarfélög, faggreinafélög, stéttarfélög, atvinnurekendur eða aðra hagsmuna- og áhugahópa, að eiga aðild að rekstri símenntunarmiðstöðvar. Samstarfsaðilar skulu gera með sér samning um starfsemina.
    Framhaldsskóla er heimilt, að fengnu samþykki ráðherra, í samvinnu við faggreinafélög, stéttarfélög, atvinnurekendur eða aðra hagsmuna- eða áhugahópa, að standa fyrir námskeiðahaldi og fræðslu fyrir fullorðna. Halda skal kostnaði vegna þessara námskeiða aðgreindum frá öðrum rekstri skólans og skal hann greiddur að fullu af þeim aðilum er að námskeiðum standa með skólanum eða með þátttökugjöldum.
    Heimilt er ráðherra að setja nánari reglur um starfsemi samkvæmt grein þessari.

55. gr.
Upplýsingagjöf.

    Menntamálaráðuneytið annast söfnun og miðlun upplýsinga um skólahald og skólastarf á framhaldsskólastigi sem varða mats- og eftirlitshlutverk þess. Skulu framhaldsskólar gera ráðuneytinu árlega eða oftar, sé þess óskað, grein fyrir framkvæmd skólahalds.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um upplýsingaskyldu framhaldsskóla um skólahald og enn fremur aðra kerfisbundna skráningu skóla og meðferð persónuupplýsinga, þar á meðal um námsferil nemenda.

56. gr.
Skýrslur til Alþingis.

    Ráðherra gerir Alþingi grein fyrir framkvæmd skólastarfs í framhaldsskólum landsins á þriggja ára fresti.

X. KAFLI
Gildistaka o.fl.
57. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. ágúst 2008. Um leið falla úr gildi lög um framhaldsskóla, nr. 80/1996.

Ákvæði til bráðabirgða.

I.

    Þrátt fyrir ákvæði 57. gr. skulu framhaldsskólar, sem starfandi eru við gildistöku laga þessara, uppfylla ákvæði IV. og V. kafla eigi síðar en 1. ágúst 2011.

II.

    Framhaldsskólar sem falla undir III. kafla skulu hafa aflað sér viðurkenningar ráðherra eigi síðar en 1. ágúst 2011, sbr. 12. gr.

III.

    Reglugerðir, auglýsingar og önnur fyrirmæli sett samkvæmt lögum nr. 80/1996, með síðari breytingum, skulu halda gildi sínu að svo miklu leyti sem þau stangast ekki á við lög þessi þar til nýjar reglugerðir, auglýsingar eða önnur fyrirmæli hafa öðlast gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


Inngangur.
    Frumvarp til laga um framhaldsskóla, sem nú er lagt fram á Alþingi á 135. löggjafarþingi, felur í sér veigamiklar breytingar á skipulagi náms á framhaldsskólastigi. Frumvarpið er afrakstur af vinnu sem unnin hefur verið á undanförnum árum og lýtur að því að endurskoða lögbundna skipan framhaldsskólastigsins og leggja drög að breytingum á henni, þar sem náið tillit er tekið til endurskoðunar laga sem varða önnur skólastig. Samhliða frumvarpi þessu eru lögð fyrir Alþingi frumvarp um leikskóla og frumvarp um grunnskóla, en ný lög um háskóla tóku gildi í júní 2006. Þá mun Alþingi jafnframt hafa til meðferðar samhliða þeim frumvörpum, sem hér eru nefnd og varða einstök skólastig, frumvarp til laga um lögverndun á starfsheiti kennara.
    Menntamálaráðherra skipaði hinn 6. júní 2006 nefnd til að annast heildarendurskoðun laga um framhaldsskóla, nr. 80/1996, með síðari breytingum. Starfið byggðist á ýmsum skýrslum og nefndarálitum sem meðal annars voru unnin samkvæmt svokölluðu 10 skrefa samkomulagi sem menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, og Kennarasamband Íslands (KÍ) gerðu með sér 2. febrúar 2006 um sókn í skólastarfi og skólaumbætur.
    Í erindisbréfi nefndarinnar segir að nefndin skuli m.a. vinna að útfærslu á eftirfarandi markmiðum:
          að auka samfellu í skólastarfi og stuðla að bættum námsárangri,
          að sem flestir ljúki skólagöngu með skilgreindum námslokum úr framhaldsskóla,
          að allir nemendur eigi kost á námi við hæfi,
          að góð tengsl séu við aðliggjandi skólastig,
          og að marka skýrar leiðir fyrir nemendur til að stunda nám við hæfi og skapa skilyrði fyrir aukinn sveigjanleika í námi.
    Eiginleg vinna nefndarinnar að endurskoðun laga um framhaldsskóla hófst seint á árinu 2006. Sú tímasetning helgast m.a. af því, að samkvæmt því samkomulagi ráðherra og KÍ sem vitnað er til að framan var ráð fyrir því gert að starfshópar og nefndir mundu fjalla um afmarkaða þætti sem lúta að skipulagi og skólahaldi í framhaldsskólum. Þar á meðal má nefna starfshópa um starfsnám, fjar- og dreifnám, almenna námsbraut, og sveigjanleika og fjölbreytileika í skipulagi náms og námsframboðs. Við gerð frumvarpsins var leitast við að taka ríkt tillit til þeirrar umfjöllunar sem fram fór í einstökum starfshópum og nefndum, niðurstaðna þeirra og tillagna.
    Í nefnd um endurskoðun laga um framhaldsskóla áttu sæti Guðmundur Árnason, formaður, án tilnefningar, Jón B. Stefánsson og Lárus H. Bjarnason, skólameistarar, tilnefndir af Félagi íslenskra framhaldsskóla, Anna María Gunnarsdóttir og Ingibergur Elíasson, framhaldsskólakennarar, tilnefndir af Félagi framhaldsskólakennara, Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, sem tók þátt í störfum nefndarinnar sem varamaður Ingibergs, og Elín Thorarensen, tilnefnd af Heimili og skóla – landssamtökum foreldra. Áheyrnarfulltrúar voru Sigurður Haukur Gíslason, tilnefndur af Félagi grunnskólakennara, Svandís Ingimundardóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, og Lárus Thorlacius, tilnefndur af háskólastiginu. Starfsmenn menntamálaráðuneytisins sem störfuðu með nefndinni voru Karl Kristjánsson, Sigurður Sigursveinsson og Magnús Þorkelsson.

Meginatriði frumvarpsins.
    Almennt markmið frumvarpsins er að styrkja framhaldsskólastigið í íslensku menntakerfi og tryggja að gott samræmi sé í uppbyggingu þess og tengslum við önnur skólastig. Sérstaða og hlutverk framhaldsskólastigsins eru undirstrikuð, en þau felast m.a. í því að markmið náms á framhaldsskólastigi eru í senn almenn og sértæk. Framhaldsskólanám er sá lokaundirbúningur sem menntakerfið býr mörgum áður en þeir hefja atvinnuþátttöku. Það styður við og gefur tækifæri til frekari menntunar fyrir marga sem hafa verið á vinnumarkaði til lengri eða skemmri tíma og framhaldsskólanám er undirbúningur og í mörgum tilvikum forsenda frekara náms. Samtímis er lögð áhersla á samfélagslegt hlutverk framhaldsskóla og rétt og skyldur þeirra einstaklinga sem skólunum er ætlað að þjóna.
    Greina má meginatriði og markmið frumvarpsins í nokkra þætti, svo sem gert er hér að aftan, en áhersla er lögð á að frumvarpið felur í sér heildstæðar breytingar á framhaldsskólakerfinu. Markmið þess og meginbreytingar, og þær leiðir sem lagt er til að farnar verði til að ná þeim, ber því að skoða í samhengi. Frumvarpið miðar að því:
          að réttur nemenda til skólavistar og náms verði styrktur m.a. með fræðsluskyldu stjórnvalda til 18 ára aldurs,
          að gildi stúdentsprófs sem undirbúnings fyrir háskólanám verði óskorað, en framhaldsskólum gefinn kostur á að byggja upp sveigjanlegt námsframboð hvað inntak og skipulag náms varðar,
          að skipulag skólastarfs miðist við kröfur og væntingar nemenda, þar sem sveigjanleiki námsskipulags verði stóraukinn, námsleiðum fjölgað og skilyrði sköpuð fyrir fleiri til að ljúka skilgreindu námi og þar með draga úr brottfalli,
          að efla ráðgjöf og stuðning við nemendur og taka upp framhaldsskólapróf sem byggt verði á sérstökum námsbrautum,
          að veita framhaldsskólum frelsi til að þróa sérstakar námsbrautir sem byggjast á sérstöðu þeirra og styrkleika og spurn eftir sérhæfðum námsleiðum og úrræðum,
          að draga stórlega úr miðstýringu á námsframboði og í námskrárgerð,
          að auka svigrúm og sveigjanleika við gerð námsbrautarlýsinga með því m.a. að taka upp nýtt einingamatskerfi,
          að mat á vinnu nemenda í öllu námi á framhaldsskólastigi, þ.m.t. í iðn- og verknámi, verði gagnsætt og sambærilegt og stúdentspróf á bóknáms- og verknámsbrautum jafngilt,
          að fela menntastofnunum aukna ábyrgð á að þróa námsframboð á mörkum skólastiga til að auka sveigjanleika og möguleika nemenda við flutning þeirra milli skólastiga,
          að tryggja hag og stöðu nemenda í iðn- og verknámi, og starfsnámi almennt, m.a. með því að framhaldsskólar beri ábyrgð á vinnustaðanámi,
          að gæði náms verði tryggð með því að efla innra og ytra mat á skólastarfi og með stuðningi við umbætur í skólastarfi.
    Æ fleiri þeirra sem ljúka námi á grunnskólastigi innritast til náms í framhaldsskóla, en umtalsverður fjöldi hverfur frá námi án þess að ljúka skilgreindum áföngum eða lokaprófi. Almennari sókn í framhaldsskóla kallar á að námsframboð og fyrirkomulag náms sé í takt við mismunandi markmið og námsforsendur nemenda. Minni stýring á námsskipan og inntaki náms af hálfu menntamálayfirvalda þýðir að skólum er falið aukið ábyrgðarhlutverk við að leggja mat á þörf fyrir námsframboð. Þetta kallar jafnframt á æskilega nýsköpun enda liggur þekkingin á ástandi mála hjá skólunum og þeir því í stakk búnir að bregðast við aðstæðum sem geta verið býsna ólíkar milli staða á landinu.
    Meginmarkmið frumvarpsins er að efla og bæta íslenskt menntakerfi.

Gerð námsbrautarlýsinga til skólanna.
    Samkvæmt frumvarpinu færist gerð námsbrautarlýsinga frá ráðuneyti til framhaldsskólanna. Það þýðir að skólunum er falin eiginleg tillögugerð um fyrirkomulag, samhengi og inntak náms. Menntamálaráðuneytið mun eftirleiðis eingöngu gefa út almennan hluta aðalnámskrár, en framhaldsskólar bera ábyrgð á gerð skólanámskrár og þeir semja námsbrautarlýsingar á grunni skólanámskrár og leggja fyrir menntamálaráðherra til staðfestingar. Þetta fyrirkomulag gildir um allt nám á framhaldsskólastigi, sérhæfðar námsbrautir, og iðn- og verknám jafnt sem bóknám.
    Í almennum hluta aðalnámskrár verður kveðið á um fjölmörg atriði sem varða almenna menntastefnu og skólahald í framhaldsskólum. Þar verður jafnframt kveðið á um þau atriði sem framhaldsskólum ber skylda til að virða við gerð skólanámskrár og þar verður jafnframt kveðið nánar á um það, hvernig skólar geta og hvernig þeim ber að haga gerð námsbrautarlýsinga. Menntamálaráðuneytið mun einvörðungu gefa út almennan hluta aðalnámskrár framhaldsskóla. Ráðuneytinu er heimilt að gefa út viðmiðunarnámskrár fyrir einstakar námsbrautir, en sú heimild helgast af því að það kann að taka skóla einhvern tíma að byggja upp eigin námskrár. Einstakir framhaldsskólar munu á grundvelli almenns hluta aðalnámskrár semja sínar eigin skólanámskrár og aftur á grundvelli eigin skólanámskrár semja eigin námsbrautarlýsingar. Mælt er fyrir um að skólar geti sameinast um þá vinnu og leitað sameiginlega staðfestingar ráðherra á námskrá sem þá gildi fyrir fleiri en einn skóla. Starfsgreinaráð verða til umsagnar um einstakar tillögur að námsbrautarlýsingum hvert á sínu sviði. Við það að ráðherra staðfesti námsbrautarlýsingu og auglýsi verður viðkomandi námsbrautarlýsing hluti af aðalnámskrá framhaldsskóla.
    Gild rök eru fyrir þeirri breytingu sem hér er mælt fyrir um. Óumdeilt er að almennar samfélagslegar breytingar sem átt hafa sér stað hér á landi leiði af sér þörf á fjölbreytilegra námi en áður hefur staðið til boða. Einstakir framhaldsskólar hafa hver sína sérstöðu í margvíslegu tilliti. Þeir hafa sérhæft sig og byggt upp þekkingu, færni og getu á mismunandi sviðum og þeir hafa lagt sig fram um að þjóna mismunandi hópum nemenda. Í framhaldsskólum er að finna góða þekkingu á þörfum þeirra sem skólarnir þjóna, bæði nemenda, atvinnulífs, menntastofnana og annarra, og það er æskilegt að nýta þá þekkingu um leið og sköpuð eru skilyrði fyrir því að þessum þörfum sé betur mætt. Framhaldsskólarnir munu að fengnu þessu hlutverki geta markað sér sérstöðu, fetað eigin leiðir og byggt upp getu sína og færni í því markmiði að ná að þjóna betur skilgreindum markmiðum. Þannig mótaðist núverandi framhaldsskólakerfi og hefur gert það innan þess ramma sem settur var með lögum 1996. Nú þykir tímabært að opna á nýjan leik fyrir hugmyndaauðgi þess mannauðs sem í skólunum býr. Námsbrautir verða þó háðar samþykki ráðherra sem setur viðmið og ramma utan um þau lokapróf sem rétt er að gera kröfur um að miðað sé við. Gerð námsbrauta flyst þannig til skólanna en staðfestingarvaldið verður hjá ráðherra sem þannig metur inntak náms, forkröfur og lokakröfur, námsgreinaskipan og námsmat.

Nýtt einingakerfi.
    Frumvarpið kveður á um að horfið verði frá því einingakerfi sem við lýði er í framhaldsskólum, en samkvæmt því og þeim námskrám sem í gildi eru á bóknámsbrautum þarf nemandi að ljúka 140 einingum til að ljúka stúdentsprófi. Algengt er að einstakir áfangar svari til 2 til 3 eininga. Í því kerfi sem lagt er til að tekið verði upp er útreikningur eininga miðaður við vinnuframlag nemenda. Það kerfi sem við lýði er byggðist á kennslustundafjölda í einstökum áföngum. Samkvæmt frumvarpinu mundi ársvinna nemenda svara til 60 eininga samkvæmt nýju einingakerfi. Styðja má tillögu um breytt kerfi eftirfarandi rökum helstum:
     1.      Æskilegt er að einingamat í námi á framhaldsskólastigi sé samræmt og taki til alls náms. Beinast liggur við að nota einingar sem mælikvarða á vinnuframlag nemenda, en ekki starf kennara. Við upptöku á nýju einingakerfi gefst kostur á að meta allt nám og vinnu nemenda með einum gagnsæjum mælikvarða, þ.m.t. vinnustaðanám og annað nám sem ekki hefur verið fellt undir hefðbundið einingamat.
     2.      Það einingakerfi sem lagt er til að tekið verði upp svarar til einingakerfis sem tekið var upp á háskólastigi með gildistöku laga nr. 63/2006, um háskóla. Það einingakerfi er almennt notað fyrir mat á vinnu nemenda í háskólum í þeim ríkjum sem taka þátt í svokölluðu Bologna-ferli og það færist í vöxt að sami eða sambærilegur mælikvarði sé lagður til grundvallar við mat á námi á framhaldsskólastigi. Einingarnar eru því þekkt stærð í alþjóðlegu tilliti og ljóst er að það er í þágu nemenda sem færa sig milli landa í námi sínu eða vilja fá nám sitt metið milli skólastiga eða á milli landa að í íslenskum framhaldsskólum sé byggt á einingakerfi sem er samþýðanlegt og auðskilið.
     3.      Skil á milli skólastiga háskóla og framhaldsskóla eru oft og tíðum þannig að nám getur reiknast til eininga á fleiri skólastigum en einu. Þetta hefur færst í vöxt og mun enn gera, eftir því sem það gerist algengara að skólar bjóði upp á nám sem skilgreint er sem viðbótarnám á framhaldsskólastigi (e. post-secondary education) eða fornám á framhaldsskólastigi fyrir nám í háskóla. Samræmanlegt einingamat í háskólum og framhaldsskólum miðar að því að auðveldara verði fyrir nemendur að fá nám metið milli skólastiga og einstakra skóla á framhalds- og háskólastigum. Að sama skapi er auðvelt að útbúa einingakerfi á mörkum framhaldsskóla og grunnskóla sem enn frekar eykur sveigjanleika í skólastarfi.
     4.      Sveigjanleg skil milli skólastiga eru mikilvægt markmið og gildir það einnig um skil grunnskóla og framhaldsskóla. Nýtt og samræmt einingakerfi sem nær til alls náms er til þess fallið að auðvelda grunnskólanemendum að fá nám á framhaldsskólastigi sem þeir leggja stund á samhliða námi í grunnskóla metið óháð því í hvaða framhaldsskóla þeir innritast. Áhersla hefur verið lögð á að haldið sé til haga sjónarmiðum sem fram koma m.a. í skýrslu starfshóps um sveigjanleika og fjölbreytni í skipulagi náms og námsframboðs en hann var hluti þeirrar vinnu sem unnin var í tengslum við fyrrgreint 10 punkta samkomulag.
     5.      Loks mætti nefna að sú meginbreyting sem frumvarpið mælir fyrir um, að námsbrautarlýsingar færist á ábyrgðarsvið framhaldsskóla, kallar á endurskoðun umfangs náms og skilgreiningar einstakra áfanga sem nú eru kenndir í framhaldsskólum. Endurskoðun áfangasafnsins og aðlögun áfanga að lengingu árlegs starfstíma framhaldsskóla, svo sem frumvarpið kveður á um, og aðlögun að nýjum áherslum í nýjum námsbrautarlýsingum, er vandasamt verk og mjög mikilvægt að því verði sinnt af kostgæfni. Gera verður ráð fyrir að slík aðlögun geti tekið 2 til 3 ár, og nauðsynlegt er að skapa framhaldsskólum svigrúm og stöðu til að sinna þessu verkefni.
    Rök fyrir því að viðhalda núverandi einingakerfi eru vandfundin, önnur en þau að skipti í nýtt kerfi krefjast nokkurrar fyrirhafnar. Eins og bent hefur verið á kallar sitthvað, svo sem lengri árlegur starfstími framhaldsskóla, breyttir starfshættir og möguleikar til náms og kennslu, óhjákvæmilega á endurmat á inntaki og einingavægi einstakra námsáfanga. Slíkt endurmat kann á hinn bóginn að vera tímabært í mörgum tilvikum.
    Ljóst er að aðlögun að nýju einingamatskerfi er vandasamt verkefni þar sem tryggja þarf samræmi í vægi eininga og þeirri vinnu sem að baki liggur. Til að leysa þetta verkefni farsællega er mikilvægt að efna til samráðs og samstarfs ráðuneytis, skólameistara og kennara. Miðað er við að komið verði á samstarfi þessara aðila um verkefnið.

Mismunandi námstími til námsloka í framhaldsskólum.
    Í frumvarpi þessu er að finna greinar sem kveða á um lokapróf í framhaldsskóla, sem geta verið afar ólík. Þróun námsframboðs á framhaldsskólastigi hefur verið með þeim hætti að til hafa orðið nýjar námsbrautir þar sem námstími er mislangur, allt frá einni önn (dæmi: vélaverðir) til tíu anna (dæmi: vélstjórn). Menntamálaráðuneytið, að tillögu starfsgreinaráða, hefur sett námskrár fyrir þessar nýju námsleiðir. Það er engum vafa undirorpið að þessi þróun hefur orðið til þess að framhaldsskólar hafa getað mætt menntunarþörf heilla starfsgreina og fjölda einstaklinga. Sú nýsköpun sem átt hefur sér stað í starfsmenntamálum hefur almennt styrkt menntakerfi og atvinnulíf, og stuðlað að menntunarþátttöku margra á jákvæðan hátt.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir aukinni sveigju í uppbyggingu námsbrauta og við skilgreiningu á lokaprófum framhaldsskóla á öllum sviðum. Lokapróf falla í eftirtalda meginflokka:
     1.      Framhaldsskólapróf.
     2.      Starfsréttindapróf.
     3.      Stúdentspróf.
     4.      Önnur lokapróf.
     5.      Viðbótarnám á framhaldsskólastigi.

Framhaldsskólapróf.

    Lagt er til að nýtt próf, framhaldsskólapróf, verði tekið upp og að það svari til 90–120 eininga náms á framhaldsskólastigi. Miðað er við að framhaldsskólar semji sérstakar námsbrautarlýsingar fyrir sérstakar námsbrautir þar sem reynt er að koma til móts við þarfir nemenda sem ekki hyggja á önnur próflok. Slíkt nám mundi koma í stað náms sem skipulagt hefur verið og í boði er undir formerkjum almennra brauta framhaldsskóla. Vonir standa til að tilkoma þessa prófs geti verið mikilvægur liður í að draga úr brottfalli nemenda, en það er undir einstökum skólum komið, með atbeina og stuðningi menntamálaráðuneytis, hvort þessi leið muni skila árangri. Ótvírætt er að þar sem skipulag almennra námsbrauta hefur verið tekið föstum tökum hafa þær skilað ágætu námsfólki upp framhaldsskólann, til fagnáms, til stúdentsprófs, til æðri mennta. Leiða má líkur að því að þeir einstaklingar sem farið hafa þessar leiðir hefðu fyrir fáum áratugum hrakist frá námi án þjálfunar og réttinda, og án þess að hafa náð skilgreindum námslokum. Mikilvægt er að nýta fengna reynslu af rekstri almennra námsbrauta þegar kemur að því að skipuleggja námsbrautir til framhaldsskólaprófs. Skipulag almennra námsbrauta og reynsla af þeim hefur verið til athugunar og er ljóst að samhliða því sem tekið er upp nýtt framhaldsskólapróf munu gefast færi á að koma á ýmsum öðrum úrbótum í slíku námi.

Starfsréttindapróf.
    Starfsréttindapróf er samheiti yfir öll lokapróf sem veita tiltekin starfsréttindi. Hér er um að ræða sveinspróf og próf í löggiltum iðngreinum. Miðað er við að starfsgreinaráð séu ráðgefandi um megininntak starfsréttindaprófa, en að skólar fái svigrúm til að þróa eigin námsleiðir og námsbrautarlýsingar í þessum greinum. Líkt og í öðru námi munu einstakir framhaldsskólar setja fram tillögur að námsbrautarlýsingum í starfsréttindanámi sem í öðru námi og miðstýring í námskrárgerð verður þar með afnumin. Ekki er um meiri háttar breytingar að ræða hvað varðar skipan prófa til starfsréttinda, en hins vegar eru ráðgerðar umtalsverðar breytingar á skipulagi námsins; á hlutverki og ábyrgð skóla, annars vegar, og réttindum nemenda hins vegar, svo sem greinir hér að aftan. Þær breytingar munu vafalítið verða starfsréttindanámi til framdráttar.

Stúdentspróf.
    Styrkur hins íslenska stúdentsprófs, og um leið sérstaða þess, hefur legið í því að námið er almennt og víðfeðmt og veitir að jafnaði góðan almennan undirbúning fyrir líf og starf. Námsleiðir til stúdentsprófs eru nú fjórar lögum samkvæmt, en margir framhaldsskólar hafa boðið nemendum að velja ólík kjörsvið við einstakar brautir. Námskrárgerð og gerð námsbrautarlýsinga til stúdentsprófs hefur alfarið verið í höndum menntamálaráðuneytis, en skólar hafa haft takmarkað svigrúm til að mismunandi útfærslna á námsbrautarlýsingum.
    Eins og gilda mun um allt annað nám á framhaldsskólastigi munu framhaldsskólar gera tillögur til menntamálaráðherra að námsbrautarlýsingum sem leiða til stúdentsprófs. Þó er tilskilið að 45 einingar á hverri námsbraut til stúdentsprófs skuli vera í þeim greinum sem nefndar eru kjarnagreinar framhaldsskólans, þ.e. í stærðfræði, íslensku og ensku. Samkvæmt þessu verður það á ábyrgð einstakra skóla að skilgreina inntak námsins og þar með stúdentsprófsins. Þess er að vænta að framhaldsskólar, við gerð námsbrautarlýsinga til stúdentsprófs, muni kappkosta að tryggja að meginkostum stúdentsprófsins sé við haldið, jafnframt því sem þeir leitast við að marka sér sérstöðu og byggja á þeim sérstöku gæðum sem þeir ráða yfir. Nemendum er aftur gefinn kostur á að taka um það ákvörðun í hvaða framhaldsskóla þeir sækja um námsvist og þær ákvarðanir munu vafalítið byggjast á einstaklingsbundnum sjónarmiðum um námsinnihald og áherslur. Við skipulag náms munu skólar vafalaust kappkosta að nýta námstíma svo vel sem kostur er. Í því felst að framhaldsskólarnir þurfa að skilgreina gaumgæfilega markmið námsins og þær leiðir sem þeir feta til að ná þeim markmiðum.
    Í anda þess aukna almenna sveigjanleika sem frumvarpið miðar að er gert ráð fyrir því að skólar muni vinna að því að undirbúa breytingar á skipulagi og tilhögun náms. Það leiðir m.a. af því að frumvarpið felur í sér lengingu skólaársins, en ekki síður af því að tilfærsla áfanga til grunnskóla, sem þegar er orðin, gefur færi á breyttu námsskipulagi. Þegar hafa verið gerðar breytingar á námskrá grunnskóla sem fela í sér að hluti þess náms sem nú er kenndur í framhaldsskólum færist til grunnskóla. Ekki er miðað við það í frumvarpinu að námstími eða tilskilinn einingafjöldi til stúdentsprófs sé skilgreindur í lögum. Leitast er við að skapa framhaldsskólum svigrúm til að gera tillögu um uppbyggingu, skipulag og inntak náms til stúdentsprófs, sem lögð er fyrir ráðherra til staðfestingar. Gert er ráð fyrir að einstakir skólar nýti þetta svigrúm til að útfæra mismunandi námsbrautir til stúdentsprófs, ekki síst í iðn- og verknámsgreinum, þannig að það nám sem stendur framhaldsskólanemum til boða sé sem fjölbreytilegast, geti verið mismunandi að inntaki og umfangi, og mæti þannig mismunandi þörfum og áherslum einstaklinga. Markvisst er stefnt að því að aukinn sveigjanleiki og fjölbreyttara námsframboð á námsbrautum til stúdentsprófs muni leiða til þess að fleiri ljúki námi til stúdentsprófs á skemmri tíma en nú er, en að námstími geti verið hinn sami eða jafnvel lengri. Almenn samstaða er um það markmið að fleiri en verið hefur nái skilgreindum námslokum á framhaldsskólastigi.
    Svo sem fram kemur í frumvarpstextanum er mörkuð sú stefna að íslenskt stúdentspróf skuli eftir sem áður að lágmarki svara til þeirra krafna sem að jafnaði eru gerðar til undirbúnings háskólanáms á Norðurlöndum, þ.e. í þeim ríkjum sem Íslendingar eiga mest samskipti við á sviði menntamála. M.ö.o. er með þessu lágmarki verið að tryggja að íslenskt stúdentspróf verði hið minnsta jafngilt stúdentsprófi eða aðgangsprófi að háskólum í helstu nágrannaríkjum. Þannig er tryggt að íslenskt stúdentspróf veiti áfram aðgang að háskólum á Norðurlöndunum og jafnframt góðan undirbúning fyrir nám á háskólastigi hvarvetna. Hins vegar er einnig ljóst að með auknum sveigjanleika og frelsi framhaldsskólanna til að móta námsleiðir og námsframboð mun fjölbreytni stúdentsprófs aukast, bæði hvað innihald og námstíma varðar.
    Miðað er við að ráðherra setji í almennum hluta aðalnámskrár almenn viðmið um uppbyggingu alls náms á framhaldsskólastigi og er gert ráð fyrir að þar komi fram þær almennu kröfur sem gerðar eru um uppbyggingu, skipulag og inntak náms, vægi kjarnagreina, í heild og innbyrðis. Brýnt er að skilyrði aðalnámskrár liggi fyrir sem fyrst til að einstakir skólar, í samvinnu við ráðuneytið, geti hafist handa við aðlögun að þeirri skipan sem mælt er fyrir um í frumvarpi þessu. Litið er til þess að nám til stúdentsprófs hefur aukist umtalsvert á síðustu árum vegna lengingar skólaársins. Við bætist að nám á grunnskólastigi hefur aukist af sömu ástæðum, þ.e. vegna fjölgunar skóladaga og vegna aukins námstíma.
    Innan hins nýja kerfis verður til fjöldi nýrra námsleiða sem henta á breiðum hópi fólks með mismunandi áherslur og þarfir. Kjarni málsins hlýtur að vera sá að nemendur eigi þess kost að ljúka stúdentsprófi á eigin forsendum, miðað við að þeir fari að reglum skólans um ástundun og annað er að námi lýtur. Framhaldsskólar eiga að þjóna þeim hópi og til að svo megi verða þarf hann tækin til þess. Gildir þar einu hvort um verður að ræða staðbundið nám, fjar- eða dreifnám. Framhaldsskólar munu miða námsframboð sitt við almenn markmið laga þessara, en ljóst er að þörf er á stöðugri samræðu milli framhaldsskóla og háskóla um það, hvernig undirbúningi nemenda fyrir nám á háskólastigi verði best háttað. Af hálfu háskóla hefur sú afstaða komið fram, að undirbúningur fyrir háskólanám eigi að felast í góðu almennu námi. Því til viðbótar þurfi staðgóða þekkingu á þeim sviðum og í greinum sem tengdar eru þeim námsgreinum sem nemendur innrita sig í. Þau sjónarmið þarf að leggja til grundvallar framhaldsskólanámi. Sömuleiðis munu framhaldsskólar þurfa að fylgjast með almennum og sérstökum þörfum og menntunarkröfum sem varða atvinnumarkaðinn. Þetta hafa skólarnir vitanlega gert, en aukið sjálfstæði, aukin fjölbreytni í námsframboði og aukin sérhæfni og samkeppni framhaldsskóla um nemendur gera að verkum að skólarnir þurfa að fylgjast vel með samfélagslegum breytingum og menntaþörf.

Önnur skilgreind námslok.
    Rétt þykir að kveða sérstaklega á um það í frumvarpinu að framhaldsskólar geti, að fenginni staðfestingu menntamálaráðherra, skilgreint önnur námslok og lokapróf en framhaldsskólapróf, starfsréttindapróf og stúdentspróf. Ef litið er til þróunar á framhaldsskólastigi undanfarin missiri má greina að mikill og mestur vöxtur hefur verið í aðsókn að ýmsum styttri og sérhæfðari námsbrautum sem falla undir skilgreininguna annað starfsnám í viðtekinni flokkun framhaldsskólanáms (aðrir flokkar eru iðn- og verknám, sem að mestu fellur undir skilgreiningu á starfsréttindanámi að framan, og bóknámsbrautir til stúdentsprófs). Dæmi um námsbrautir sem falla hér undir eru félagsliðabraut, skrifstofubraut, verslunarbraut og upplýsinga- og fjölmiðlabraut. Ástæða er til að veita framhaldsskólum svigrúm til að setja á legg slíkar námsbrautir en í nágrannaríkjum, svo sem í Danmörku, er rík hefð fyrir slíkum brautum. Frumkvæði að stofnun slíkra námsbrauta getur eftir atvikum komið frá launþegasamtökum og fagfélögum, atvinnurekendum, starfsgreinaráðum eða öðrum skólum og öðrum fræðsluaðilum.

Viðbótarnám á framhaldsskólastigi.
    Loks er í frumvarpinu sérstaklega vikið að námi sem skilgreint er sem viðbótarnám á framhaldsskólastigi. Hér er um að ræða lengra nám að loknum öðrum lokaprófum. Dæmi um slíkt nám er að finna í framhaldsskólum í gildandi fyrirkomulagi, en þar er m.a. um að ræða nám til iðnmeistaraprófs í löggiltum iðngreinum, og viðbúið er að nám sem að óbreyttu telst vera umfram nám til stúdentsprófs mun falla að þessari skilgreiningu, en í því tilliti mætti t.a.m. nefna vélstjórnarnám, skipstjórnarnám og nám FTÍ í rekstri og stjórnun í atvinnulífinu. Gera má ráð fyrir að fram komi óskir um að hluti þess náms sem fellur undir þessa skilgreiningu verði jafnframt metinn til eininga á háskólastigi, en lög um háskóla fela í sér heimild til handa háskólum til að meta nám til þess.
    Til að tryggja heildstæða og gagnsæja uppbyggingu náms í framhaldsskólum gerir frumvarpið ráð fyrir að menntamálaráðherra birti sérstök viðmið sem yrðu kerfisbundin lýsing á uppbyggingu náms og prófa á framhaldsskólastigi sem taka sérstaklega til þekkingar, hæfni og getu nemenda við námslok. Samkvæmt þeim er nám í framhaldsskólum flokkað í þrep. Með hliðsjón af viðmiðunum skulu framhaldsskólar lýsa inntaki og útkomu einstakra námsleiða og jafnframt útfæra viðmiðin nánar með hliðsjón af sérkennum viðkomandi skóla. Þetta gerir nemendum kleift að sjá hvaða hæfni og getu þeir geti vænst að búa yfir við námslok. Einnig verður auðveldara fyrir nemendur að fá nám sitt viðurkennt og metið bæði hér á landi og erlendis. Auk gagnsemi viðmiðanna fyrir nemendur, skóla, atvinnuveitendur og aðra hagsmunaaðila eru þau mikilvægur þáttur í ytra eftirliti með gæðum skólastarfs.

Jafnstaða iðn- og verknáms við annað nám.
    Í skýrslu starfsnámsnefndar, sem skilað var í júní 2006, koma fram miklar áhyggjur af aðgreiningu skólastarfs í bóknám og verknám, sem og af því hversu ólíkar forsendur skipulags þessara tveggja námskerfa eru m.a. hvað varðar kennslu, þjálfun og námsmat. Þar er lagt til að þessi aðgreining verði sem allra minnst og henni verði helst alveg útrýmt.
    Mikilvægt er að efla verknám og gera því jafnhátt undir höfði og bóknámi. Það sýna tölur um skiptingu nemendahópsins á gerðir náms. Í þessu sambandi eru eftirtalin atriði lögð til grundvallar:
     1.      Að skólar taki ábyrgð á námi nemenda í starfsnámi m.a. með því að tryggja þeim samninga við aðila sem standast kröfur sem skólar setja um vinnustaðanám og starfsþjálfun. Í dag er slíkt undir hælinn lagt, þ.e. hvort nemandinn komist í starfsþjálfun annars vegar og hins vegar hvort hún komi að því gagni sem þarf. Hér er um mjög mikla breytingu að ræða frá núverandi kerfi þar sem það er á ábyrgð nemandans að komast í starfsþjálfun að loknu námi á viðkomandi braut í skóla. Með þessari breytingu eru bundnar vonir við að samstarf skóla og atvinnulífs eflist nemendum til hagsbóta. Með þessu skapast einnig sterkari tengsl skóla og vinnustaða.
     2.      Að afnumin verði mörk kennslutíma og próftíma sem leiðir til þess að haga má skipulagi kennslu í iðn- og verknámi með öðrum hætti en t.d. í bóknámi. Með þessari breytingu má gera ráð fyrir að tími í verklegum áföngum nýtist mun betur en nú er. Í núverandi kerfi fer mikill tími í próf og þá fellur kennsla yfirleitt niður einnig í verklegum áföngum þar sem um símat er að ræða í flestum tilfellum. Þetta mun leiða til þess að verknámsaðstaða skólanna mun nýtast betur og nemendur fá meiri kennslu í verklegum greinum en nú er.
     3.      Að auðveldara verði að meta starfsreynslu eða starfsþjálfun sem hluta af námi en áður hefur verið. Frumvarpið kveður á um að í almennum hluta aðalnámskrár verði settar reglur um mat á starfsnámi og skilgreiningu færnimarkmiða. Þar verði einnig reglur um raunfærnimat, jafngildingu náms og mat á námi þegar nemendur flytjast á milli skóla eða námsbrauta.
     4.      Að auðveldara verði að tengja framhald náms eftir að iðn- eða verknámi er lokið yfir í bóknám og með því að viðmið hafa verið sett um hverju nemendur þurfa að ljúka þá einfaldast slíkur flutningur enn frekar. Frumvarpið miðar að því að skapa sveigjanleika til þess að ýmiss konar starfsmiðuðu námi megi ljúka með stúdentsprófi.
     5.      Vel hefur komið í ljós á þeim uppgangstímum sem verið hafa undanfarin ár hversu mikil eftirspurn er eftir fólki í iðngreinum og þjónustu. Frumvarpið opnar leið fyrir skóla til að efla þessar námsgreinar og endurspegla hlut þeirra í starfi sínu.
     6.      Með nýju einingakerfi opnast einnig dyr til að meta mun markvissar en áður starfsreynslu fólks, starfstíma utan skólans og efla til muna samstarf við símenntunarstofnanir sem vinna mikilvægt starf utan skólastofnana.
    Í tengslum við þetta má benda á að í skilabréfi nefndar um frumvarp til laga um framhaldsskóla er vikið að kostnaði við vinnustaðanám. Þar segir: „Nefndin gerir tillögur um grundvallarbreytingar á skipulagi verknáms í þá veru að skólar axli aukna ábyrgð á því, þ.m.t. vinnustaðanámi. Nefndin telur að setja eigi á fót sjálfstæðan sjóð sem hafi það hlutverk að greiða fyrir nám á vinnustað, enda verði námið skipulagt í samvinnu vinnuveitenda og framhaldsskóla, eftir atvikum með fulltingi viðkomandi starfsgreinaráðs. Er lagt til við menntamálaráðherra og ríkisstjórn að undirbúningur að löggjöf um slíkan sjóð hefjist sem fyrst.“ Vakin er athygli á þessu.

Réttur til náms á framhaldsskólastigi; fræðsluskylda til 18 ára aldurs.
    Í frumvarpinu er í fyrsta sinn skilgreindur sérstakur réttur nemenda til náms í framhaldsskóla. Þar segir að allir þeir, sem (a) lokið hafa grunnskóla, (b) hafa jafngilda undirstöðumenntun eða (c) hafa náð 16 ára aldri skuli eiga rétt til innritunar í framhaldsskóla og til að stunda þar nám að 18 ára aldri. Samhliða því að réttur nemenda er skilgreindur með þessum hætti er þeim jafnframt ætlað að virða þær skyldur sem fylgja námsvist í framhaldsskóla, en þær lúta að skólasókn, hegðun og umgengni, námsmati, framvindu og prófreglum, að skólareglur séu virtar o.s.frv.
    Það nýmæli sem í þessu felst er að nemendum er tryggð námsvist hafi þeir lokið grunnskólanámi eða jafngildu námi annars staðar, en jafnframt er nemendum sem einhverra hluta vegna hafa ekki lokið grunnskólanámi eða jafngildu námi veittur réttur til innritunar í framhaldsskóla, hafi þeir náð 16 ára aldri. Gert er ráð fyrir að menntamálaráðuneyti, í samningum sem frumvarpið mælir fyrir um að gerðir verði við einstaka framhaldsskóla, tryggi að fyrir hendi verði svigrúm til að tryggja öllum sem eftir leita og rétt eiga námsvist í framhaldsskóla.
    Almenn sókn í nám á framhaldsskólastigi hefur aukist hratt undanfarin ár og nú er svo komið að um 95% þeirra sem ljúka grunnskólanámi innritast í framhaldsskóla. Athygli vekur að námsárangur þeirra 5% sem ekki æskja innritunar er almennt ágætur. Í sumum löndum hefur skólaskylda verið lengd og lenging skólaskyldu hefur verið til umræðu m.a. á Norðurlöndum, svo sem í Finnlandi. Annars staðar eru nemendum sett skilyrði um að þeir ljúki áföngum á framhaldsskólastigi, svo sem í Hollandi. Þau sjónarmið búa að baki að þar sem atvinnuhættir og almennir samfélagshættir hafa breyst, svo sem í þróuðum iðnríkjum sé æskilegt að undirbúningur fyrir hvort heldur sem er, atvinnuþátttöku eða frekara nám, stöðvist ekki við aldursmörk grunnskóla.
    Með þeirri hugsun sem í frumvarpinu felst er verið að innleiða fræðsluskyldu sem leggst á stjórnvöld. Þar með er verið að tryggja að nemandi sem hugsanlega er ekki tilbúinn í langt bóknám eða starfstengt nám fái engu að síður þjálfun og mannrækt sem skilar sér í betri undirbúningi fyrir atvinnu og borgaralegar skyldur.
    Reynslan hefur sýnt að skipulegt starf með þessa óráðnu unglinga, reglufesta og markviss vinnubrögð skila sér oft í öflugum námsmönnum þó að síðar verði. Það hefur mikið forvarnagildi, ýmiss konar vandamál skilgreinast og úrlausnir eru fundnar. Í öllu falli hefur reynsla síðustu ára sýnt að með skipulegum og markvissum vinnubrögðum hefur skólum tekist afar vel með marga þessara nemenda.
    Úrræðin byggjast á ótrúlegri útsjónarsemi kennara, stuðningi stjórnenda, fjölbreyttum lausnum og oft og tíðum úrræðum sem nálgast sérkennslu. Með þessu fækkar þeim sem hætta í skóla, hrekjast út eða falla ekki að lausnum sem miða við stóra hópa. Fleiri ljúka skilgreindum markmiðum og þar með fara þeir út í lífið betur undirbúnir og jákvæðari í garð þess að hafa verið í skóla. Nokkur hópur þess fólks sem aðrir hafa afskrifað fer alla leið til stúdentsprófs og í háskóla með ríflega þokkalegum árangri.
    Nefnd sem fjallaði um almenna námsbraut í framhaldsskólum benti á fjölmargar lausnir en betur þykir fara á því að setja fræðsluskyldu á stjórnvöld. Ekki þykja því vera knýjandi rök fyrir því að setja á skólaskyldu umfram nám á grunnskólastigi.
    Meginmarkmiðið verður samkvæmt frumvarpinu að byggja upp skólakerfi sem þjónar þeim breiða hópi sem til þess leitar, búa til sveigjanleika svo skólarnir geti mætt þessum hópi, efla nám til starfsréttinda, til háskólanáms og gefa nemendum í íslenskum framhaldsskólum færi á að sækja sér áfram gagnlegt nám á sínum forsendum og hraða.

Náms- og starfsráðgjöf.
    Mikilvægi náms- og starfsráðgjafar hefur aukist á umliðnum árum. Þegar verið er að byggja upp kerfi sem býður enn frekar en áður marga valkosti þá er slíkt óhjákvæmilegt. Góð ráðgjöf á þessu sviði getur styrkt nemendur í vel ígrunduðu námsvali, unnið gegn brottfalli og aðstoðað nemendur sem áður hafa horfið frá námi svo þeir finni sér betri farveg. Er því brýnt að náms- og starfsráðgjöf í skólakerfinu verði efld enn frekar. Mikilvægt er að þeir sem sinna náms- og starfsráðgjöf hafi menntun á því sviði.

Gæði – umbætur í skólastarfi.
    Samhliða auknu sjálfstæði framhaldsskóla og minni miðstýringu á námsframboði og námskrárgerð er mikilvægt að tryggja gæði starfs þeirra. Mat og eftirlit með gæðum skólastarfs í frumvarpi þessu tekur mið af tveimur meginsjónarmiðum. Annars vegar að unnið sé markvisst að eflingu gæða innan skólanna með innra mati. Hins vegar að skólarnir sýni ábyrgðarskyldu út á við gagnvart þeim sem að skólunum standa, þjónustu þeirra njóta og hagsmuni hafa af starfi skólanna. Í því felst að skólar fari í starfi sínu eftir gildandi lögum og reglum um starf framhaldsskóla og veiti nemendum viðeigandi þjónustu.
    Frá því að síðustu lög um framhaldsskóla tóku gildi árið 1996 hafa skólar á þessu skólastigi búið við þá skyldu að meta starf sitt með innra mati (sjálfsmati). Hefur menntamálaráðuneytið tvisvar staðið fyrir úttektum á sjálfsmatsaðferðum þeirra, árin 2002 og 2007. Ráðuneytið hefur á undanförnum árum veitt umtalsvert fjármagn til endurmenntunar stjórnenda og kennara í mati á skólastarfi og veitt styrki til skóla til að leita sér ráðgjafar. Einnig hefur í tengslum við kjarasamninga verið veitt sérstakt fjármagn til þess að greiða kennurum laun vegna vinnu við sjálfsmat. Síðasta úttekt á sjálfsmatsaðferðum framhaldsskóla sýnir öflugt starf þeirra en jafnframt að enn megi bæta innra mat þeirra. Þar sem skapast hefur góður grunnur að slíku starfi í skólum er mikilvægt að þróa það áfram.
    Frumvarpið felur í sér að framhaldsskólum er ætlað skilgreina inntak þess náms sem þeir hafa í boði. Framhaldsskólarnir munu samkvæmt þessu skilgreina markmið einstakra námsáfanga og námsbrauta. Menntamálaráðuneytið mun, svo sem lýst hefur verið að framan, fara yfir tillögur skóla að námsbrautarlýsingum og þær verða hluti af aðalnámskrá framhaldsskóla að fenginni staðfestingu ráðherra. Markmið þessara breytinga er að skapa skilyrði fyrir auknu og fjölbreytilegra námsframboði. Gangi þær væntingar eftir er afar mikilvægt að allt það nám sem í boði er uppfylli kröfur sem settar eru.
    Menntamálaráðuneytið ber ábyrgð á reglubundnu ytra mati á skólastarfi, könnunum, prófum og rannsóknum samkvæmt frumvarpi þessu. Ráðherra ákveður hvenær ytra mat fer fram og gerir áætlanir um slíkt mat til þriggja ára, sem er nýmæli. Ekki er kveðið á um hver skuli annast hið eiginlega mat, enda er æskilegt að svigrúm sé fyrir hendi til að beita ólíkum aðferðum og leiðum við framkvæmd matsins. Ein slík leið er að fela það sjálfstætt starfandi sérfræðingum eða stofnunum sem sinna menntun kennara og menntarannsóknum. Önnur leið verður að efna til samstarfs við stjórnvöld og matsstofnanir í öðru ríkjum um ytra mat, sem eftir atvikum gæti beinst að einstökum framhaldsskólum eða t.a.m. tekið til einstakra sviða, greina eða námsbrauta. Slíku samstarfi hefur að frumkvæði menntamálaráðuneytisins verið komið á við erlendar matsstofnanir í tengslum við viðurkenningu háskóla og í undirbúningi er frekari útfærsla á því samstarfi vegna ytri úttekta. Aukinn hreyfanleiki nemenda milli landa og sveigja í námsskipulagi mæla með því að þessi leið verði farin ásamt öðrum, auk þess sem margvíslegan ávinning annan er að hafa af alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði. Auk reglubundins ytra mats getur menntamálaráðherra ákveðið að láta fara fram sérstakt mat á framhaldsskóla eða einstökum þáttum skólastarfs ef ástæða þykir til. Hér er einkum átt við tilvik þar sem efasemdir eru um að kennsla eða skólastarf mæti ekki þeim lágmarkskröfum sem til skóla eru gerðar.
    Ekki er í frumvarpi þessu að finna ákvæði um samræmt námsmat á framhaldsskólastigi. Á hinn bóginn segir að menntamálaráðuneyti skuli hafa með höndum ytra mat, kannanir, próf og rannsóknir.
    Ljóst er að auknum kröfum til skóla um innra mat, aukin virkni ráðuneytis við ytra mat og eftirlit, próf, kannanir og rannsóknir, líkt og kveðið er á um í frumvarpinu, mun fylgja kostnaður. Þá er ekki síður mikilvægt að þegar teknar eru ákvarðanir um fjárveitingar verði skapað svigrúm til að fylgja eftir niðurstöðum innra og ytra mats, þannig að tryggt megi vera að það skili sér í raunverulegum umbótum í skólastarfi.
    Með virku innra mati skóla skapast grundvöllur fyrir markvissri skoðun á árangri og leiðum til úrbóta og upplýsingagjöf um starfsemina. Í ytra mati á starfi framhaldsskóla mun menntamálaráðuneyti skilgreina upplýsingar sem skólar þurfa að standa skil á og ráðuneytið sannreynir. Í staðfestingu menntamálaráðuneytis á námsleiðum í framhaldsskólum felst viðurkenning á því að viðkomandi skóli uppfylli þær kröfur sem ráðuneytið skilgreinir í aðalnámskrá og þarf að mæta til að bjóða fram tiltekið nám. Ráðuneytið mun síðan fylgja því eftir að námsframboð framhaldsskóla sé í samræmi við skilyrði staðfestingar með öflun skilgreindra upplýsinga og úttektum sem miða að því að meta námsferlið, hvort markmiðum þess sé náð og að þau áhrif sem stefnt er að skili sér til lengri og skemmri tíma. Þar munu árangurssamningar milli ráðuneytis og skóla gegna mikilvægu hlutverki. Ekki er nóg að mæla tölfræði skólastarfs. Það þarf einnig að vinna með inntak þess og gæði.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Greinin er mikið breytt frá gildandi lögum um framhaldsskóla, nr. 80/1996. Skýrar er hér tekið fram um gildissvið framhaldsskólans með hliðsjón af þeim prófum sem unnt er að ljúka þar. Greinin nær bæði til opinberra framhaldsskóla og annarra skóla sem hljóta viðurkenningu til starfa samkvæmt frumvarpi þessu.

Um 2. gr.


    Greinin er að stofni til óbreytt frá gildandi lögum en skýrar er kveðið á um hlutverk skólans við að miðla þekkingu og þjálfa nemendur til að gegna sérhæfðum störfum og styrkja forsendur þeirra til að sækja sér frekari menntun. Þá er kveðið á um það hlutverk að bjóða hverjum nemanda nám við hæfi.

Um 3. gr.


    Kemur í stað 4. gr. í gildandi lögum en kveður skýrar á um hlutverk menntamálaráðherra í yfirstjórn framhaldsskólans. Samkvæmt greininni verður eftirlit með framhaldsskólum eitt veigamesta hlutverk ráðuneytis ásamt almennri stefnumótun. Þá skal ráðherra staðfesta námskrár og námsbrautarlýsingar skólanna. Þannig undirstrikar greinin í heild aukið faglegt sjálfstæði framhaldsskóla. Felld er niður málsgrein um að ráðherra geri tillögur um fjárveitingar til framhaldsskóla og flutt í 43. gr. í VII. kafla. Þá er felld niður málsgrein um eftirlit með því að framhaldsskólar hafi fullnægjandi búnað en með því er ekki gert ráð fyrir stefnubreytingu frá gildandi fyrirkomulagi.

Um 4. gr.


    Ný grein sem byggist að hluta til á 37. gr. gildandi laga en fjallar eingöngu um stofnun opinberra framhaldsskóla. Tekið er fram að opinber framhaldsskóli verði stofnaður með því að Alþingi leggi honum til fé í fjárlögum. Á sama hátt er gert ráð fyrir að opinber framhaldsskóli verði því aðeins lagður niður að í fjárlögum sé gert ráð fyrir að starfsemi hans leggist af, sbr. lög um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997.

Um 5. gr.


    Kemur í stað 6. og 7. gr. í gildandi lögum. Lagt er til það nýmæli að fulltrúi foreldrafélags verði áheyrnarfulltrúi í skólanefnd (um foreldrastarf er nánar fjallað í 50. gr. þessa frumvarps). Felld er út heimild ráðherra um að tveir eða fleiri skólar geti sameinast um eina skólanefnd. Talið er óþarft að tiltaka slíkt sérstaklega í lögum. Að öðru leyti er skipan skólanefnda óbreytt. Sveitarfélög tilnefna áfram tvo fulltrúa af fimm. Skilyrði um að allir fulltrúar séu búsettir í sveitarfélagi skóla er hins vegar fellt niður enda talið óþarft að festa það í lögum.
    Síðari málsgrein fjallar um hlutverk skólanefndar. Kveðið er skýrar á um aðkomu skólanefnda að faglegri stefnumörkun og námsframboði framhaldsskóla. Mikilvægi þeirra við að móta áherslur í skólastarfinu og þjónustu skólanna er eflt en dregið úr ábyrgð þeirra á rekstri og gerð fjárhagsáætlana. Það er í samræmi við þá reynslu sem fengist hefur af starfi nefndanna frá setningu gildandi laga. Hlutverkið er fært til samræmis við þá reynslu. Ákvæði um að skólanefndir veiti ráðherra umsögn um umsækjendur um stöðu skólameistara er fellt inn í þessa grein en var í lögunum frá 1996 í 11. gr. sem fjallar um ráðningu starfsmanna framhaldsskóla.

Um 6. gr.


    Þessi grein er hliðstæð 8. gr. gildandi laga og kveður á um starfsskyldur skólameistara. Efnislega er hún lítið breytt, en forræði og ábyrgð skólameistara sem forstöðumanns ríkisstofnunar og almennt stjórnunarumboð hans er skýrt og telst áþekkt því sem almennt gerist um forstöðumenn ríkisstofnana.

Um 7. gr.


    Þessi grein er sambærileg seinni hluta 8. gr. núverandi laga og fjallar um hlutverk skólaráðs. Samsetningu skólaráðs er breytt þannig að ekki er lengur bundið að áfangastjóri eigi sæti í skólaráði, starfi hann við skólann. Það á að tryggja betra jafnvægi milli fulltrúa stjórnenda, kennara og nemenda í skólaráði og að skólameistari sé ekki bundinn við tiltekin starfsheiti stjórnenda. Þá er fjöldi fulltrúa ekki bundinn en við flesta skóla eru þegar grónar hefðir sem ekki er vert að breyta. Orðalagi um hlutverk skólaráðs er breytt þannig að það skuli vera skólameistara til samráðs og aðstoðar en í gildandi lögum segir að skólaráð skuli vera skólameistara til aðstoðar við stjórn skólans.

Um 8. gr.


    Þessi grein kemur í stað 11. gr. í gildandi lögum. Efni greinarinnar er aðlagað auknu sjálfstæði skóla um fyrirkomulag starfsmannamála. Tekið er út ákvæði um að fjöldi starfsmanna fari eftir stærð og gerð skóla og fjárveitingum hverju sinni. Þá er ekki lengur getið sérstaklega um ráðningar aðstoðarskólameistara og áfangastjóra en í staðinn gert ráð fyrir að staðgengill skólameistara verði ráðinn til fimm ára í senn. Er miðað við að einstakir skólar ákveði sjálfir skipulag sitt og hvaða starfsheiti þeir veita stjórnendum skóla. Fellt er niður ákvæði gildandi laga um að ráðherra setji skólameisturum og kennurum erindisbréf.

Um 9. gr.


    Þessi grein er ný og fjallar um samstarfsvettvang allra starfsmanna skóla. Skólafundir eru þá til þess að fjalla um málefni viðkomandi skóla. Gert er ráð fyrir að skólafundur verði haldinn a.m.k. einu sinni á ári. Þessi breyting er til að tryggja aðkomu allra starfsmanna að upplýsingum og umræðum um skólastarfið og þar með undirstrikað að framhaldsskólar eru lýðræðislegir vinnustaðir. Lagt er til að skólafundur kjósi áheyrnarfulltrúa í skólanefnd.

Um 10. gr.


    Þessi grein er efnislega samhljóða núgildandi lögum en hlutverk kennarafundar eykst þó enn frekar við námskrárgerð og stefnumótun skólans. Ákvæði um kosningu kennarafundar á fulltrúa í skólaráð er óbreytt.

Um 11. gr.


    Þessi grein er sambærileg 12. gr. í gildandi lögum og er efnislega óbreytt. Ákvæðið um orlof nær til allra þeirra sem ráðnir eru á grundvelli lögverndunarlaga, skólameistara, staðgengils hans, annarra faglegra stjórnenda, svo sem áfangastjóra, námsráðgjafa og þeirra er gegna sambærilegra starfa.

Um 12. gr.


    Greinin felur í sér nýmæli. Samkvæmt henni getur ráðherra veitt öðrum skólum en opinberum framhaldsskólum heimild til að starfa samkvæmt lögum um framhaldsskóla með sérstakri viðurkenningu. Greinin greiðir götu fyrir mismunandi rekstrarformum framhaldsskóla.
    Í 1. mgr. er mælt fyrir um þau skilyrði sem skólar þurfa að uppfylla til að ráðherra geti viðurkennt þá sem framhaldsskóla er starfa samkvæmt lögum um framhaldsskóla.
    Í umsókn um viðurkenningu ráðherra skal gerð grein fyrir:
     a.      Hlutverki og markmiðum skóla, sem endurspeglast í námsframboði og skólastefnu.
     b.      Stjórnskipan og skipulagi skóla, en með því er átt við fyrirkomulag og verkaskiptingu innan stjórnkerfis skólans, sem verður að taka mið af II. kafla frumvarpsins.
     c.      Skólanámskrá og námsbrautarlýsingum, en þetta felur í sér að framhaldsskóli setur sér skólanámskrá og byggir upp námsbrautir með hliðsjón af aðalnámskrá og sem menntamálaráðherra staðfestir ef skilyrði eru uppfyllt.
     d.      Fyrirkomulagi náms og kennslu, en með því er átt við tilhögun kennslu og skólasóknar.
     e.      Hæfisskilyrðum starfsmanna skólans, en það á við þá menntun og starfsréttindi sem krafist er af hálfu skólans og lögum samkvæmt.
     f.      Inntökuskilyrðum nemenda, en um þau er fjallað í VI. kafla auk þess sem um þau verður fjallað í námskrá.
     g.      Réttindum og skyldum nemenda, en gert er ráð fyrir því að þau séu sem sambærilegust því sem gildir um nemendur opinberra framhaldsskóla.
     h.      Starfsaðstöðu og aðbúnaði kennara og nemenda og þjónustu við þá, en aðstaða nemenda og kennara skal vera með þeim hætti að framhaldsskóla sé kleift að uppfylla hlutverk sitt og markmið. Þjónusta við kennara og nemendur er háð sama skilyrði.
     i.      Innra gæðakerfi skóla, en með því er átt við mat á skólastarfi eins og því er lýst í 41. gr. frumvarps þessa.
     j.      Fjárhagsmálefnum skóla og tryggingum. Varðandi fjárhagsmálefni og tryggingar er gert ráð fyrir að sýnt sé fram á að fjárhagsgrundvöllur skólans sé viðunandi og að tryggingar séu settar fyrir því að hann geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart innrituðum nemendum. Um form trygginga er algengast að yfirlýsing fjármálastofnunar sé lögð til grundvallar.
    Í 2. mgr. gerð grein fyrir réttaráhrifum viðurkenningar sem er bundin við starfsemi skóla á þeim tíma sem hún var veitt.
    Í 3. mgr. er áréttað að viðurkenningu fylgi engin skuldbinding um framlög úr ríkissjóði til viðkomandi skóla eða ábyrgð á skuldbindingum hans.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að skóli sem hlotið hefur viðurkenningu skuli leitast við að leysa úr málum er varða réttindi og skyldur nemenda í samræmi við lög og góða stjórnsýsluhætti. Með þessu ákvæði er leitast við að tryggja nemendum við skóla skv. III. kafla laganna sambærileg réttindi og gildir um nemendur opinberra framhaldsskóla.
    Í 5. mgr. er ákvæði um að ráðherra geti afturkallað viðurkenningu uppfylli skóli ekki lengur skilyrði laganna, að uppfylltum málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga.
    Í 6. mgr. er mælt fyrir um að nánar skuli kveðið á um veitingu og afturköllun viðurkenningar og eftirlit með starfsemi skóla í reglugerð sem ráðherra setur.

Um 13. gr.


    Greinin fjallar um ráðningu skólameistara og ábyrgð hans á skólastarfinu. Þá staðfestir hún að einkareknir framhaldsskólar skulu uppfylla sömu kröfur er varða menntun skólameistara og kennara og gerðar er í lögum um lögverndun á starfsheiti kennara og skólastjórnenda. Í greininni er jafnframt heimild fyrir ráðherra til að víkja frá ákvæðum lögverndunarlaga í tilviki skóla sem starfrækja nám sem ekki byggist á aðalnámskrá framhaldsskóla og starfrækja sérhæfða starfsmiðaða menntun.

Um 14. gr.


    Greinin skýrir sig sjálf.

Um 15. gr.


    Hér er mælt fyrir um það nýmæli að námseiningar nemenda skuli skilgreindar út frá vinnuframlagi þeirra en ekki kennslustundafjölda eingöngu. Að baki hverri einingu skal vera sem næst jafnt vinnuframlag nemenda. Þannig getur mismunandi fjöldi kennslustunda legið að baki einingum í ólíkum námsgreinum. Gert er ráð fyrir að fullt námsár sé 60 námseiningar. Reiknað er með að vinnudögum fjölgi um 5 á skólaári frá gildandi lögum og verði 180 í stað 175 eins og kveðið er á um í reglugerð um starfstíma. Í gildandi lögum er kveðið á um 9 mánaða starfstíma framhaldsskóla og 145 kennsludaga að lágmarki. Í þessari grein er farin sú leið að tiltaka ekki skiptingu vinnudaga í kennslu- og prófadaga heldur gert ráð fyrir að 180 vinnudagar nemenda ráðist af skipulagi og kennsluháttum hvers skóla og inntaki námsbrauta. Þegar talað er um vinnudaga nemenda þá er vitaskuld ekki verið að tala um vinnudaga kennara við undirbúning og aðra vinnu utan nemendadaga en um slíkt þarf vitaskuld að semja í kjarasamningi.

Um 16. gr.


    Framhaldsskólapróf er nýmæli í þessu frumvarpi og er ný gerð lokaprófs úr framhaldsskóla. Prófið er hugsað í samhengi við þá áherslu sem lögð er í frumvarpinu á að nemendur njóti fræðsluskyldu til 18 ára aldurs og að framhaldsskólarnir bjóði upp á menntun sem henti þörfum hvers og eins. Nemendur geta brautskráðst með framhaldsskólapróf að loknu 90–120 eininga námi sem sniðið er að einstaklingsbundnum þörfum þeirra. Hér kemur fram sú áhersla að sem allra flestir eigi að geta lokið námi úr framhaldsskólum sem í senn styrkir stöðu þeirra sem einstaklinga í nútímasamfélagi og nýtist jafnframt sem undirstaða til frekari menntunar.

Um 17. gr.


    Starfsréttindapróf er í frumvarpi þessu samheiti yfir öll próf sem leiða til starfsréttinda.

Um 18. gr.


    Þessi grein kemur í stað ákvæða um bóknámsbrautir í 16. gr. gildandi laga og ákvæða um viðbótarnám til stúdentsprófs af starfsnámsbrautum, en þær brautir veita nemendum undirbúning til náms á háskólastigi. Miðað er við að 45 einingar að lágmarki skuli vera í kjarnagreinum framhaldsskólans, íslensku, stærðfræði og ensku. Ekki eru sett skilyrði um innbyrðis vægi þessara námsgreina í kjarna, en menntamálaráðherra getur kveðið á um lágmarksnám í kjarnagreinum í aðalnámskrá framhaldsskóla, sbr. 21. gr. Með þessu fyrirkomulagi er tekið tillit til þeirrar áherslu á sveigjanleika og fjölbreytileika sem liggur að baki frumvarpi þessu, sem og sjálfstæðis framhaldsskóla við mótun námsframboðs. Fellt er brott það fyrirkomulag í lögum að skipta bóknámsbrautum í kjarna, kjörsvið og val, en mælt verður fyrir um skipulag náms á einstökum námsbrautum til stúdentsprófs í skólanámskrá hvers framhaldsskóla sem ráðuneytið samþykkir eins og kveðið er á um í 22. gr. í frumvarpi þessu.
    Í ljósi þess að framhaldsskólar axla nú aukna ábyrgð á samsetningu stúdentsprófs er talið rétt að taka fram í frumvarpinu að stúdentsprófið skuli áfram að miðast m.a. við það að undirbúa nemendur undir háskólanám, sbr. 19. gr. laga nr. 63/2006, um háskóla.

Um 19. gr.


    Hér er opnuð sú leið að skólar geti skilgreint önnur námslok en tilgreind eru í 16., 17. og 18. gr. í frumvarpinu til samræmis við þann sveigjanleika í námsframboði og skólastarfi sem gengið er út frá í frumvarpi þessu.

Um 20. gr.


    Hér er um nýmæli að ræða. Mikil umræða hefur átt sér stað á undanförnum missirum um að þörf sé fyrir nám sem skilgreint sé í framhaldi af námi á framhaldsskólastigi en falli þó ekki að öllu að skipulagi náms á háskólastigi. Sérhæft nám í framhaldi af starfsnámi er oft nefnt í þessu sambandi. Til að bregðast við því er gert ráð fyrir að framhaldsskólar geti haft í boði nám í framhaldi af skilgreindum námslokum á framhaldsskólastigi samkvæmt námsbrautarlýsingum sem menntamálaráðherra samþykkir. Hér er lagt til að slíkt nám verði skilgreint í stöðluðum námseiningum og geti veitt sérstök réttindi. Hugsanlegt er að slíkt nám fáist metið af háskólum sem hluti af námi á háskólastigi. Mögulegt er að framhaldsskólar og háskólar hafi samstarf um framboð á námi af þessari gerð.

Um 21. gr.


    Í þessari grein sem svarar til 21. gr. í gildandi lögum er kveðið skýrar á um hlutverk og uppbyggingu aðalnámskrár. Lögð er áhersla á að skerpa þau atriði sem eiga að vera í almennum hluta aðalnámskrár með það að markmiði að tryggja sem vandaðasta starfshætti skóla með hagsmuni nemenda að leiðarljósi. Þá er að finna í greininni ákvæði um að nám skuli vera flokkað og þrepaskipt í samræmi við lokamarkmið námsins, og eru þau ákvæði í samræmi við flokkunarkerfi námsmarkmiða sem unnið er að á vettvangi Evrópuríkja (e. EQF: European Qualification Framework) og sér t.d. þegar stað á háskólastiginu í auglýsingu um útgáfu viðmiða um æðri menntun og prófgráður, nr. 80/2007, sbr. 5. gr. laga um háskóla, nr. 63/2006.

Um 22. gr.


    Hér er um að ræða sambærilegt ákvæði og er í 22. gr. gildandi laga með þeirri breytingu að ákvæði um skiptingu skólanámskrár í tvo hluta, almennan hluta og námsbrautarlýsingar, eru skýrð frekar.

Um 23. gr.


    Hér er um algera nýjung að ræða. Í stað þess að ráðuneytið gefi út námsbrautarlýsingar eins og kveðið er á um í 16. og 17. gr. gildandi laga er lagt til að ráðherra verði veitt heimild að gefa út námsbrautarlýsingar sem skólar geta haft til viðmiðunar. Þannig er gert ráð fyrir því að skólar semji sjálfir sínar eigin námsbrautarlýsingar og fái þær staðfestar af menntamálaráðherra. Í greininni eru almenn fyrirmæli um uppbyggingu námsbrauta. Hér er fylgt eftir því markmiði laganna að skólar sýni frumkvæði og sjálfstæði við mótun náms og framkvæmd kennslu.

Um 24. gr.


    Þessi grein kemur í stað 28. gr. gildandi laga en gerð er sú breyting að lagt er til að fjöldi aðila í starfsgreinaráðum verði lögbundinn og fulltrúum fækkað úr 7 til 9, samkvæmt gildandi reglugerð, í 5 í hverju ráði. Breytingin er gerð með það í huga að gera starfsemi starfsgreinaráðanna sveigjanlegri og skilvirkari. Þá er sú breyting lögð til að í stað fulltrúa menntamálaráðherra í starfsgreinaráði komi sameiginlegur fulltrúi kennara og skóla.

Um 25. gr.


    Ákvæðið samsvarar 29. gr. í gildandi lögum. Hér er lögð megináhersla á það hlutverk starfsgreinaráðanna að skilgreina þarfir fyrir kunnáttu og hæfni sem starfsnámið á að taka mið af. Dregið er úr öðrum verkefnum ráðanna í samræmi við breytt fyrirkomulag við gerð námsbrautarlýsinga og skipulag náms svo sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir.

Um 26. gr.


    Í þessari grein er starfsgreinaráðum gefin heimild til þess að stofna fagráð fyrir hverja starfsgrein enda nær hvert starfsgreinaráð yfir mörg fög. Greinin er nýmæli.

Um 27. gr.


    Starfsgreinanefndin kemur í staðinn fyrir samstarfsnefnd um starfsnám á framhaldsskólastigi sem kveðið er á um í 26. gr. í gildandi lögum. Hér er um mikla breytingu að ræða þar sem gert er ráð fyrir að formenn starfsgreinaráðanna skipi starfsgreinanefndina sem hafi það hlutverk að vera ráðherra til ráðgjafar um stefnumörkun og framboð starfsnáms. Þetta er gert til að tengja saman störf starfsgreinaráðanna með betri yfirsýn yfir stöðu og þróun starfsnáms í huga. Vonast er til að með þessu fyrirkomulagi verði til mun virkari stýrihópur fyrir starfsnám en reyndin hefur verið með þá samstarfsnefnd um starfsnám sem starfar samkvæmt gildandi lögum.

Um 28. gr.


    Grein þessi kemur í stað 32. gr. gildandi laga. Meginbreytingin er fólgin í því að samkvæmt greininni er skólum falin ábyrgð á því að gerðir séu samningar fyrir nemendur um þá starfsþjálfun sem þeir þurfa til að geta lokið námi sínu. Þetta á að tryggja að nemendur, sem teknir eru til náms í tiltekinni starfsgrein, fái viðeigandi starfsþjálfun í stað þess að þeir beri sjálfir ábyrgð á þeim þætti námsins eins og nú er. Að öðru leyti er ákvæðið í samræmi við áðurnefnda 32. gr. gildandi laga.
    Nefnd um endurskoðun laga um framhaldsskóla hefur beint því til ráðherra að stofnaður verði vinnustaðanámssjóður með sérstökum lögum til að tryggja vinnustaðanámi framgang og gerði grein fyrir því í skilabréfi sínu til ráðherra.

Um 29. gr.


    Greinin samsvarar 31. gr. gildandi laga og er samhljóða að öðru leyti en því að ekki er lengur gert ráð fyrir því að ráðherra þurfi umsögn starfsgreinaráðs til að gera framhaldsskóla að kjarnaskóla, en það er hins vegar í samræmi við þá almennu breytingu sem gerð er á hlutverki ráðanna að ráðherra leiti álits ráðanna áður en til slíkra ákvarðana kemur. Þá gerir lagagreinin ráð fyrir því að kjarnaskólar fái sérstakar fjárveitingar eftir því sem um semst.

Um 30. gr.


    Samsvarar 24. gr. gildandi laga. Nýtt er að skólameistari hafi umsjón með námsmati sem ekki er í gildandi lögum. Ákvæði um rétt nemenda til að áfrýja niðurstöðum námsmats eru tekin úr almennum hluta aðalnámskrár og færð inn í frumvarpið og þar með lagt til að sá réttur nemenda verði lögfestur. Ekki er gert ráð fyrir samræmdum prófum en lagt til að útbúin verði viðmiðunarpróf í lokaáföngum auk þess sem heimild er til þess að leggja fyrir könnunarpróf, m.a. í rannsóknarskyni.

Um 31. gr.


    Hér er um mikilvægt nýmæli í lögum að ræða sem er ætlað að tryggja rétt nemenda til að fá nám metið milli skóla. Miðað er við að framhaldsskólar geti jafnframt fært sér í nyt svokallað raunfærnimat sem unnið er af viðurkenndum fræðsluaðilum. Raunfærnimat felur í sér að þekking og færni sem einstaklingar hafa aflað sér án þess að hafa lagt stund á nám samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla er metið til eininga á framhaldsskólastigi. Um mat á óformlegu námi er nú fjallað í aðalnámskrá framhaldsskóla.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir því að þeir sem stunda nám við framhaldsskóla geti fengið færni sína metna til jafns við nám eða til námseininga og þar með til styttingar námsins. Slíkt mat er á ábyrgð skólameistara og byggist á viðmiðunum sem settar verða í skólanámskrá og áfanga- og námsbrautarlýsingu framhaldsskóla. Menntamálaráðherra setur í aðalnámskrá nánari fyrirmæli um raunfærnimat.

Um 32. gr.


    Þessi grein kemur í stað 15. gr. í gildandi lögum og eru hér lagðar til veigamiklar breytingar. Samkvæmt ákvæðinu skulu allir sem náð hafa 16 ára aldri eiga rétt á að hefja nám í framhaldsskóla. Þeir skulu jafnframt eiga rétt á því að stunda nám í framhaldsskóla til 18 ára aldurs, þó að því gefnu að þeir hlýði almennum skólareglum. Hér er í reynd tryggð fræðsluskylda fyrir alla ólögráða nemendur sem felur í sér nýmæli.

Um 33. gr.


    Þessi grein felur í sér nýmæli. Ákvæði um skólareglur og málsmeðferð hafa fram að þessu verið í almennum hluta aðalnámskrár framhaldsskóla. Lagt er til að þessar reglur verði útfærðar í skólanámskrá og með því undirstrikað mikilvægi þess að skýr ákvæði gildi um réttindi og skyldur nemenda.

Um 34. gr.


    Hér er fjallað um rétt fatlaðra til náms í framhaldsskólum, hliðstætt 19. gr. í gildandi lögum um framhaldsskóla. Ráðherra getur með samningi við skóla heimilað rekstur sérstakra námsbrauta fyrir nemendur með fatlanir en útfærsla þeirra yrði skv. 23. gr. um námsbrautir. Frá því að lög um framhaldsskóla, nr. 80/1996, tóku gildi, en þar var menntamálaráðherra heimilað að stofna sérstakar deildir við framhaldsskóla fyrir fatlaða nemendur, hefur þróun orðið sú að meiri hluti framhaldsskóla á Íslandi býður nú upp á sérstakar námsbrautir fyrir fatlaða nemendur. Svo til allir nemendur með skilgreindar fatlanir nýta sér lögbundinn rétt sinn til fjögurra ára náms í framhaldsskólum. Framhaldsskóli sem er fyrir alla, þarf einnig að taka aukið tillit til sérþarfa annarra nemenda, svo sem þeirra sem eiga erfitt með nám sökum sértækra námsörðugleika eða veikinda. Þörfum þessa nemendahóps má mæta á ýmsa vegu, t.d. í minni námshópum, eins og margir skólar hafa gert, sbr. skýrslu starfshóps um almenna námsbraut.
    Að auki er vísað til úrlausna vegna nemenda með leshamlanir og þá er einnig nýmæli að mælt er fyrir um að í reglugerð sem menntamálaráðherra setur skuli kveðið á um rétt heyrnarlausra og heyrnarskertra nemenda til sérstakrar kennslu í íslensku táknmáli. Í gildandi lögum er heyrnarlausum nemendum einungis tryggður réttur til sérstakrar íslenskukennslu.

Um 35. gr.


    Grein þessari er ætlað að koma í stað 20. gr. gildandi laga. Nýmæli er að hér er kveðið á um að kennsla í framhaldsskólum skuli fara fram á íslensku en slíkt ákvæði hefur ekki verið að finna í lögum eða reglugerðum um framhaldsskóla fyrr. Fjallað er um rétt þeirra sem eru með annað móðurmál en íslensku sem og þá sem hafa íslensku sem móðurmál en hafa verið búsettir erlendis árum saman. Þá er sama viðhorf hér og í frumvarpi til laga um grunnskóla að nemandi með annað móðurmál en íslensku geti fengið það metið, samkvæmt ákvörðun skólameistara. Í þessu ákvæði felst heimild til að kenna tilteknar greinar á erlendu tungumáli, enda leiði það af eðli náms, en þar er átt við m.a. tungumálanám og nám þar sem námskrá og námsbrautarlýsing miðar við sérstakar kvaðir. Á síðarnefnda ákvæðið t.d. við um flugnám. Þá er skólum heimilað að taka upp námsbraut á erlendu tungumáli fyrir þá nemendur sem falla undir ákvæðið, en slíkt er þá háð öðrum almennum skilyrðum sem lögin kveða á um í tengslum við framboð náms, svo sem staðfestingu ráðherra á námskrá og samningum milli viðkomandi framhaldsskóla og ráðuneytis.

Um 36. gr.


    Þessi grein kemur í stað 13. gr. gildandi laga en gengur lengra í að skylda skólameistara til að koma á skipulegri heilsuvernd í samstarfi við hlutaðeigandi heilsugæslustöð. Þá er nýmæli að framhaldsskólar skulu tryggja að nemendum standi til boða heilnæmt fæði innan veggja skólans. Einnig er nýtt það ákvæði að skólar skulu hvetja nemendur til heilbrigðs lífernis og heilsuræktar.
    Mikilvægt er að ráðuneyti þau er fara með menntamál og heilbrigðismál komi sér saman um útfærslu þessa ákvæðis enda þörf á að þessari þjónustu sé sinnt bæði vegna aukinnar áherslu á forvarnir sem og þess að aukist hefur eftirspurn eftir ýmiss konar þjónustu með flóknari samsetningu nemendahópsins í skólunum.

Um 37. gr.


    Ákvæðið er efnislega samhljóða 14. gr. gildandi laga og þarfnast ekki skýringa. Heldur fastar er þó kveðið að þeirri skyldu að hafa sérmenntað fólk starfandi við ráðgjöf.

Um 38. gr.


    Þetta er nýmæli og tryggir að upplýsingar um nám nemenda séu varðveittar án tilgreindra tímamarka. Jafnframt er hér kveðið á um að nemendur hafi aðgang að upplýsingum um eigið nám og er það í samræmi við meginreglu laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000. Hvers kyns afhending upplýsinga til annarra en nemandans sjálfs telst vera tilkynningarskyld upplýsingavinnsla og þarf að styðjast við heimild og löglegan tilgang skv. II. kafla laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Því er lagt til að um slíka upplýsingagjöf fari eftir reglugerð settri skv. 55. gr. frumvarpsins og reglum settum samkvæmt þeirri grein.

Um 39. gr.


    Ákvæðið er sambærilegt við 10. gr. gildandi laga en talsvert breytt. Meginbreyting er að hér er lagt til að nemendafélög starfi á ábyrgð skóla. Gagnrýnt hefur verið að ábyrgð skóla á starfi nemendafélaga hefur verið á reiki, einkum eftir að sjálfræðisaldur var hækkaður úr 16 árum í 18 ár. Þá er gert ráð fyrir að skólar geti styrkt nemendafélög fjárhagslega.

Um 40. gr.


    Í grein þessari eru sett fram skýr markmið um mat og eftirlit með gæðum skólastarfs í framhaldsskólum. Markvisst mat og eftirlit er mikilvægur þáttur í frumvarpi þessu sem kveður á um aukið faglegt og stjórnunarlegt sjálfstæði framhaldsskóla miðað við gildandi lög.

Um 41. gr.


    Ákvæði þessarar greinar koma í stað 23. gr. gildandi laga. Skólum ber að tryggja þátttöku starfsmanna og nemenda í innra gæðastarfi og birta upplýsingar um innra matið, framkvæmd þess, árangur og áætlanir um umbætur.

Um 42. gr.


    Í þessari grein er gert ráð fyrir mun ítarlegra eftirliti ráðuneytisins með starfi framhaldsskóla en í gildandi lögum. Ekki er eingöngu gert ráð fyrir því að sjálfsmatsaðferðir skólanna sæti úttekt (sbr. 23. gr. gildandi laga) heldur er gert ráð fyrir því að matið geti náð til skólastarfsins í heild eða skilgreindra þátta í starfsemi þeirra. Þá er gert ráð fyrir því að viss framkvæmdaratriði matsins verði í lögum, svo sem um að niðurstöður mats skuli birta opinberlega svo og viðbrögð skóla við niðurstöðunum. Rétt er að ítreka þá augljósu skyldu ráðuneytisins til að fylgja eftir niðurstöðum ytra mats og styðja skóla í umbótastarfi í samræmi við niðurstöðurnar, þó að hún sé ekki lögbundin. Með því að binda þessi ákvæði í lög er undirstrikað mikilvægi mats og eftirlits með gæðum í skólastarfi. Loks er kveðið á um að ytra mat nái einvörðungu til skóla sem hljóta fjárveitingar á fjárlögum og eru undir samningi við menntamálaráðuneytið.

Um 43. gr.


    Í þessari grein er fjallað um skyldur ríkissjóðs til greiðslu rekstrarkostnaðar framhaldsskóla og kveðið á um að framlög til rekstrar ráðist af reiknireglu sem ráðherra setur með reglugerð. Ákvæðið er hliðstætt ákvæði sama efnis í 39. gr. gildandi laga. Í 3. mgr. er að finna nýmæli sem tekur til kostnaðar nemenda sem stunda einingafært nám utan framhaldsskóla. Í ákvæðinu felst sú meginregla að slíkt nám er á kostnað nemanda nema það sé metið sem hluti af skipulagðri námsbraut sem menntamálaráðherra hafi viðurkennt. Gert er ráð fyrir að kostnaðarþátttaka framhaldsskóla verði á grundvelli samkomulags við hlutaðeigandi skóla, t.d. tónlistarskóla, og að fjallað sé um slíkt nám í samningi milli ráðuneytis og hlutaðeigandi skóla, sbr. 44. gr.

Um 44. gr.


    Ákvæðið felur í sér nýmæli en ákvæði um rekstrarsamninga ráðuneytisins við framhaldsskóla er að finna í 39. gr. gildandi laga. Greinin geymir mun ítarlegri ákvæði um inntak samninga en er að finna í gildandi lögum. Þannig er nýmæli að samið skuli um helstu áherslur í starfsemi skólans, námskrár, námsframboð, kennslufyrirkomulag og mat og eftirlit með gæðum. Þá er nýmæli í lögum að farið skuli yfir framkvæmd samninga árlega og gildandi samningar endurskoðaðir, ef samningsaðilar telja ástæðu til. Talið er mikilvægt fyrir stöðu nemenda að í samningi komi fram ákvæði um réttarstöðu nemenda, nemendafjölda, gjaldtöku af nemendum og greiðslur fyrir aðra þjónustu sem veitt er á grundvelli samningsins. Þessi nýja umgjörð skólasamninga er liður í að skapa umgjörð fyrir samræðu ráðuneytis og skóla og gera eftirlit ráðuneytisins skilvirkara og samstarf við skóla um þau mál betra.

Um 45. gr.


    Grein þessi kemur í stað hluta 7. gr. í gildandi lögum og mælir fyrir um þau gjöld sem nemendum framhaldsskóla er gert að greiða. Sú breyting er lögð til að upphæð gjalda skuli birt í reglugerð sem ráðherra gefur út. Ekki þarf þá lagabreytingu til að endurskoða upphæð nemendagjalda eins og nú er.
    Undirstrikað er að megintilgangur þessarar greinar er að skýra gjaldtökuheimildir framhaldsskóla og breyta fyrirkomulagi varðandi það hvernig farið skuli með ákvarðanir um gjaldtöku, jafnframt því sem greinin gefur færi á því að ráðherra afmarki nánar í reglugerð heimildir til gjaldtöku.

Um 46. gr.


    Þessi grein er að mestu samhljóða 40. gr. gildandi laga en hefur að geyma það nýmæli að skilgreina skuli sérgreindan kostnað í reglugerð og að skólameistara sé heimilað að fela öðrum að annast daglega umsýslu og rekstur heimavistar.

Um 47. gr.


    Efni þessarar greinar er sambærilegt 37. gr. gildandi laga. Nýmæli er að gert er ráð fyrir að ríkið geti gert samning um stofnkostnað við aðra aðila en sveitarfélög.

Um 48. gr.


    Fyrsta málsgrein er ný og veitir menntamálaráðherra heimild til að fela aðilum að sjá um viðhald skólahúsnæðis. Ef slíkur samningur liggur ekki fyrir eru fjárheimildir til slíks settar í fjárlög.
    2. mgr. er efnislega óbreytt 38. gr. nema heldur skýrar er að orði kveðið um framgang mála.
    3. mgr. er óbreytt 37. gr. núverandi laga.

Um 49. gr.


    Hér er um að ræða ákvæði sem er efnislega samhljóða 4. mgr. 7. gr. gildandi laga. Um er að ræða staðfestingu á skipulagsskrá samkvæmt lögum nr. 19/1988, um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.

Um 50. gr.


    Þetta er nýmæli í lögum. Foreldraráð eru talin mikilvægur tengill milli skólans og forráðamanna ólögráða nemenda. Sem dæmi um markmið slíks ráðs eru:
          Að vera samráðs- og samstarfsvettvangur foreldra/forráðamanna.
          Að stuðla að aukinni vitund foreldra/forráðamanna um forsjárskyldur sínar og þekkingu þeirra á réttindum og skyldum sínum og barna þeirra.
          Að vera bakhjarl skólans og auka áhrif foreldra/forráðamanna sem hagsmunahóps um bættan hag og stöðu skólans.
          Að hvetja til aukins stuðnings, aðhalds og hvatningar foreldra/forráðamanna við börn sín og nám þeirra. Að koma á og tryggja öflugt og gott samstarf foreldra/forráðamanna, nemenda og starfsfólks skólans.
    Í öllu falli er ljóst að með þeim breytingum sem orðnar eru á þjónustu og starfsumhverfi framhaldsskóla þá eru sterk rök til þess að slík ráð séu stofnuð. Margnefnd breyting á sjálfræðisaldri er hér augljós hluti umræðunnar. Þrýstingur hefur verið á slíkt en hér með er slíkt ráð lögbundið og því ekki einungis lagt í hendur áhugasamra forráðamanna.

Um 51. gr.


    Þessi grein er nýmæli og er í samræmi við lög um námsgögn, nr. 71/2007. Verklagsreglur og fjárhæðir er eftir að útfæra. Þetta er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. maí 2007.

Um 52. gr.


    Þessi grein er óbreytt 44. gr. núverandi laga, nema felld var út setning um að fjárframlög til tilraunastarfs af þessu tagi fari samkvæmt ákvörðun Alþingis. Þar með getur menntamálaráðherra veitt slíkt leyfi. Rétt þykir að gera ráð fyrir að skólar geti borið fram óskir um að gera tilraunir með nýjungar í skólastarfi sem verði að víkja frá ákvæðum laga og reglugerða. Með ákvæðum greinar þessarar er menntamálaráðherra veitt heimild til að veita slíkar undanþágur en jafnframt sett takmörk varðandi tímalengd og kveðið á um að ávallt skuli fara fram úttekt á slíkum tilraunum að þeim loknum.

Um 53. gr.


    Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir því að Þróunarsjóður framhaldsskóla verði áfram í fjárlögum en undir nýju nafni Sprotasjóðs sem verði einn sjóður fyrir öll þrjú skólastigin, leik-, grunn- og framhaldsskóla, og verði í umsjón menntamálaráðuneytis. Gert er ráð fyrir að sjóðurinn fái víðtækara hlutverk en samkvæmt núverandi lögum, þ.e. að styðja við innleiðingu nýjunga í skólastarfi í samræmi við stefnu stjórnvalda og stuðla að markvissum tengslum leik,- grunn- og framhaldsskóla. Auk þess fái sjóðurinn það hlutverk að styðja námskeiðahald vegna nýjunga í skólastarfi í tengslum við stefnu stjórnvalda og nýrra ákvæða í aðalnámskrá. Með því móti getur menntamálaráðuneyti veitt stuðning við innleiðingu nýrrar stefnu með markvissari hætti en verið hefur.
    Samhljóða ákvæði um skólaþróunarsjóði er einnig í frumvarpi til laga um leikskóla og grunnskóla. Æskilegt er að auka tengsl milli þróunarsjóða fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla til að ná því markmiði sjóðsins að stuðla að aukinni samfellu og tengslum skólastiga. Til þess að einfalda framkvæmd og gera ráðstöfun þeirra fjármuna sem ráðstafað er í fjárlögum markvissari er lagt til að menntamálaráðuneytið geti í reglugerð ákveðið að sjóðurinn verði sameinaður skólaþróunarsjóðum á öðrum skólastigum og verði vistaður hjá stofnun á vegum ráðuneytisins eftir því sem henta þykir og með hliðsjón af markmiðum og tilgangi sjóðsins.

Um 54. gr.


    Þessi grein er nýmæli en framhaldsskólar hafa engu að síður verið í samstarfi svipuðu því sem hér er fjallað um. Mikilvægt er að setja ramma utan um þennan mikilvæga þátt náms og kennslu enda fer nokkurt fjármagn í þennan málaflokk þegar. Með þessari grein er jafnframt hægt að fara að setja reglur um símenntun og yfirfærslugildi endurmenntunar utan skólanna yfir á nám innan skólanna.

Um 55. gr.


    Þessi grein er nýmæli en framhaldsskólar hafa skilað upplýsingum á grundvelli samninga sem við þá eru gerðir. Þess verður að gæta í lagasetningunni að ráðuneytið eigi greiðan aðgang að þeim upplýsingum sem það þarf um leið og sjónarmiða stjórnsýslulaga og laga um persónuvernd sé að fullu gætt. Annars vegar er gerður greinarmunur á upplýsingum sem menntamálaráðuneytið aflar, varðveitir og ber ábyrgð á og því eru nauðsynlegar til að rækja mats- og eftirlitshlutverk sitt og hins vegar persónuupplýsingum sem skólar safna um einstaka nemendur, en meðferð slíkra upplýsinga er á ábyrgð stjórnenda hlutaðeigandi skóla, sbr. 38. gr. Ekki er lagt til að ráðuneytið varðveiti eða miðli slíkum upplýsingum.
    Í 1. mgr. er gert ráð fyrir fjöldavinnslu upplýsinga um nemendur. Slík vinnsla er ávallt tilkynningarskyld til Persónuverndar í samræmi við II. kafla laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um að menntamálaráðherra setji annars vegar í reglugerð nánari fyrirmæli um upplýsingaskyldu framhaldsskóla um skólahald og aðra kerfisbundna skráningu skóla og hins vegar meðferð upplýsinga um námsferil nemenda eða aðrar persónuupplýsingar. Ástæða þykir að mæla fyrir um þetta efni í reglugerð svo tryggt verði að öll vinnsla persónuupplýsinga varðandi nemendur, námsferil þeirra og einkahagi standist meginreglur II. kafla laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Um 56. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa. Þessi grein er 46. gr. núverandi laga og er efnislega óbreytt.

Um 57. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Í ljósi þess hversu umfangsmiklar breytingar eru fram undan þykir mikilvægt að skólar fái aðlögunartíma. Þrjú ár eru talin hæfileg enda hefjist menn handa þegar lögin hafa verið sett. Skólar sem kunna að vera fyrri til geta þá tekið til starfa samkvæmt nýjum lögum fyrr.
    Þeir skólar sem nú starfa og eru í samstarfi við menntamálaráðuneytið og/eða njóta fjármagns þaðan munu þurfa að sækja um viðurkenningu.
    Ákvæði III þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um framhaldsskóla.


    Markmiðið með frumvarpinu er að styrkja framhaldsskólastigið og auka samræmi í uppbyggingu þess og tengsl við önnur skólastig, en samhliða frumvarpi þessu eru lögð fyrir Alþingi frumvarp um leikskóla og frumvarp um grunnskóla. Í frumvarpinu er meðal annars kveðið á um að fræðsluskylda verði til 18 ára aldurs, aukinn sveigjanleiki í námsframboði, námsleiðum fjölgað, námsframboð aukið, dregið verði úr miðstýringu á námsframboði og í námskrárgerð, starfsþjálfun í tengslum við verknám og aukinn sveigjanleiki til að klára stúdentspróf á skemmri tíma en nú er gert ráð fyrir.
    Ýmis atriði í frumvarpinu kunna að hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð. Taka skal fram að í ýmsum atriðum frumvarpsins er mjög erfitt að sjá nákvæmlega fyrir um hugsanlegan kostnað. Eftirfarandi kostnaðartölur byggjast á mati og forsendum frá menntamálaráðuneytinu. Allar tölur eiga við um heilt námsár. Í fyrsta lagi ber að nefna aukið námsframboð í formi almennrar brautar til að draga úr brottfalli og mæta kröfu um fræðsluskyldu til 18 ára aldurs. Aukinn rekstrarkostnaður við slíka braut er talinn vera allt að 500 m.kr. Þar að auki er áætlað að kostnaður vegna stoðþjónustu við almenna braut muni auka útgjöld um allt að 120 m.kr. Stór hluti þessara auknu útgjalda mun felast í aukinni náms- og starfsráðgjöf við nemendur, en aukið námsframboð og markmið um minna brottfall knýr á um aukna þjónustu á þessu sviði. Í öðru lagi mun kostnaður við nemendafjölgun vegna fræðsluskyldu til 18 ára aldurs nema allt að 500 m.kr. En þar er miðað við að líta megi á framhaldsskólapróf sem lengingu almennrar brautar úr tveimur önnum í fjórar sem tvöfaldar fjölda nemenda á almennri braut, miðað við forsendur fjárlagafrumvarps 2008. Í þriðja lagi er reiknað með að fjölgun vinnudaga í skólaári um 5 daga muni kosta allt að 350 m.kr. En skólaárið fer þá úr 175 dögum í 180 daga. Í fjórða lagi er reiknað með að umsýslukostnaður skólanna vegna starfsþjálfunar nemenda í verknámi geti numið allt að 200 m.kr. En í forsendum fyrirliggjandi fjárlagafrumvarps er reiknað með að ársnemendur í verklegum áföngum verði 1.845 talsins. Í fimmta lagi reiknar menntamálaráðuneytið með því að breytingar yfir í nýtt námseiningakerfi og færsla við gerð námsbrautalýsinga úr menntamálaráðuneytinu yfir í framhaldsskólana geti kostað allt að 80 m.kr. að frádregnum fjárheimildum í frumvarpi 2008. Þar að baki liggur áætlun um 10–15 stöðugildi í framhaldsskólunum. Áætlað er að útgjöld við nýtt námseiningakerfi og yfirfærslu á gerð námsbrautalýsinga verði tímabundin til ársins 2011. Taka skal fram að kostnaðarmatið miðar við að framhaldsskólarnir velji að gera umtalsverðar breytingar á námsbrautalýsingum sínum. Í sjötta lagi er áætlað að aukið eftirlit og úttektir muni kosta allt að 21 m.kr., 10–14 m.kr. vegna ytri úttekta og eitt nýtt stöðugildi hjá menntamálaráðuneytinu. Í sjöunda og síðasta lagi er áætlað að kostnaður vegna vinnu innan menntamálaráðuneytisins við staðfestingar á námsbrautum sem framhaldsskólarnir setji sér nemi allt að 7 m.kr. og er þar reiknað með einu nýju stöðugildi.
    Samantekið reiknar menntamálaráðuneytið með því að aukinn árlegur kostnaður vegna frumvarpsins verði á bilinu 1.310 til 1.780 m.kr. og þar af eru 1.270 til 1.700 m.kr. varanleg útgjaldaaukning. Þar sem áætlað er að lögin taki gildi 1. ágúst 2008 er reiknað með að um 50 m.kr. falli til á næsta ári. Á móti er ekki búið að reikna með sparnaði við það að nemendur kynnu að nýta sér möguleika við að ljúka stúdentsprófi á skemmri tíma miðað við það sem algengt er í dag. Fjármálaráðuneytið hefur ekki forsendur til meta þann sparnað. Eins og fyrr sagði eru margir óvissuþættir í kostnaðarmatinu og í sumum tilvikum er það talsvert matsatriði hvort þættir eins og t.d. færsla námsbrautalýsinga þurfi að leiða af sér umtalsverða útgjaldaaukningu.
    Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2008 er ekki gert ráð fyrir auknum fjárveitingum til að standa straum af kostnaði sem hlýst af þessu frumvarpi.
    Vakin er athygli á því að samþykkt ríkisstjórnarinnar um meðferð mála við 2. umræðu fjárlagafrumvarps gerir ráð fyrir að með frumvörpum, sem leiða til aukinna útgjalda, skuli fylgja tillögur um hvernig dregið verði úr öðrum útgjöldum á móti til að útgjaldarammi raskist ekki. Tillögur um slíkar mótvægisráðstafanir vegna þessa frumvarps liggja ekki fyrir af hálfu menntamálaráðuneytisins.