Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 288. máls.

Þskj. 322  —  288. mál.Frumvarp til laga

um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda
við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)
I. KAFLI

Gildissvið.
1. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi taka til menntunar og ráðningar kennara og skólastjórnenda við leik-, grunn- og framhaldsskóla og lögverndunar starfsheita og starfsréttinda þeirra.

2. gr.
Markmið.

    Markmið laganna er að tryggja að þeir sem leggja stund á kennslu- og uppeldisstörf í leik-, grunn- og framhaldsskólum hafi menntun í samræmi við störf þeirra og ábyrgð.


II. KAFLI
     Menntun kennara, starfsheiti, leyfisbréf.
3. gr.
Starfsheitið leikskólakennari.

    Rétt til að nota starfsheitið leikskólakennari og starfa við leikskóla á vegum opinberra aðila eða aðra hliðstæða skóla hefur sá einn sem til þess hefur leyfi menntamálaráðherra.
    Leyfi til þess að nota starfsheitið leikskólakennari má aðeins veita þeim sem lokið hefur:
     1.      meistaraprófi frá háskóla sem hlotið hefur viðurkenningu ráðherra á grundvelli laga um háskóla, nr. 63/2006, á fræðasviði sem ráðherra viðurkennir til kennslu á leikskólastigi; eða
     2.      öðru námi sem jafngildir meistaraprófi skv. 1. tölul. og ráðherra viðurkennir til kennslu á leikskólastigi.

4. gr.
Starfsheitið grunnskólakennari.

    Rétt til að nota starfsheitið grunnskólakennari og starfa við grunnskóla á vegum opinberra aðila eða aðra hliðstæða skóla hefur sá einn sem til þess hefur leyfi menntamálaráðherra.
    Leyfi til þess að nota starfsheitið grunnskólakennari má aðeins veita þeim sem lokið hefur:
     1.      meistaraprófi frá háskóla sem hlotið hefur viðurkenningu ráðherra á grundvelli laga um háskóla, nr. 63/2006, á fræðasviði sem ráðherra viðurkennir til kennslu á grunnskólastigi; eða
     2.      öðru námi sem jafngildir meistaraprófi skv. 1. tölul. og ráðherra viðurkennir til kennslu á grunnskólastigi; eða
     3.      meistararéttindum í iðngrein sem nýtist til kennslu á grunnskólastigi í skilgreindri námsgrein eða á skilgreindu námssviði, enda komi slík sérhæfing fram í leyfisbréfi, auk 60 eininga náms í kennslu- og uppeldisfræði; eða
     4.      fullgildu lokaprófi í listgrein, tæknigrein eða verkgrein sem nýtist til kennslu á grunnskólastigi í skilgreindri námsgrein eða á skilgreindu námssviði enda komi slík sérhæfing fram í leyfisbréfi. Skal menntun a.m.k. vera 270–300 námseiningar, þar af að lágmarki 60 námseiningar í kennslu- og uppeldisfræði.


5. gr.
Starfsheitið framhaldsskólakennari.

    Rétt til að nota starfsheitið framhaldsskólakennari og starfa við framhaldsskóla hefur sá einn sem til þess hefur leyfi menntamálaráðherra. Í leyfisbréfi skal tilgreina kennslugrein/ar eða sérsvið viðkomandi framhaldsskólakennara samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.
    Leyfi til þess að nota starfsheitið framhaldsskólakennari má aðeins veita þeim sem lokið hefur:
     1.      meistaraprófi frá háskóla sem hlotið hefur viðurkenningu ráðherra á grundvelli laga nr. 63/2006, á fræðasviði sem ráðherra viðurkennir til kennslu á framhaldsskólastigi; eða
     2.      öðru námi sem jafngildir meistaraprófi skv. 1. tölul. og ráðherra viðurkennir til kennslu á framhaldsskólastigi; eða
     3.      meistararéttindum í iðngrein sem nýtist til kennslu á framhaldsskólastigi í skilgreindri námsgrein eða á skilgreindu námssviði, auk 60 eininga náms í kennslu- og uppeldisfræði; eða
     4.      fullgildu lokaprófi í listgrein, tæknigrein eða verkgrein sem nýtist til kennslu á framhaldsskólastigi í skilgreindri námsgrein eða á skilgreindu námssviði, enda komi slík sérhæfing fram í leyfisbréfi. Skal menntun a.m.k. vera 270–300 námseiningar, þar af að lágmarki 60 námseiningar í kennslu- og uppeldisfræði.

6. gr.
Réttindi sem aflað er í ríki innan EES eða í aðildarríki EFTA.

    Menntamálaráðherra skal staðfesta leyfi til að nota starfsheitið leikskólakennari, grunnskólakennari eða framhaldsskólakennari samkvæmt umsókn ríkisborgara frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins ef viðkomandi leggur fram vottorð um viðurkennd kennsluréttindi í ríki innan svæðisins í samræmi við skilyrði tilskipunar 89/48/EBE, sbr. lög um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum, nr. 83/1983.
    Samkvæmt umsókn frá ríkisborgara aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu skal ráðherra staðfesta leyfi til að nota starfsheitið leikskólakennari, grunnskólakennari eða framhaldsskólakennari með sömu skilyrðum og tilgreind eru í 1. mgr. enda leggi viðkomandi fram vottorð um viðurkennd kennsluréttindi í aðildarríki samtakanna.

7. gr.
Matsnefnd.

    Leiki vafi á hvort umsækjandi um leyfi til þess að nota starfsheitið leikskólakennari, grunnskólakennari eða framhaldsskólakennari fullnægi þeim skilyrðum sem kveðið er á um í lögum þessum skal leita umsagnar matsnefndar sem menntamálaráðherra skipar til fjögurra ára í senn.
    Matsnefnd skal skipuð fimm fulltrúum, einum fulltrúa tilnefndum af samstarfsnefnd um háskólastigið, tveimur fulltrúum tilnefndum af heildarsamtökum kennara, einum fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga og einum fulltrúa án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar. Jafnmarga varamenn skal skipa á sama hátt.
    Nánar skal kveðið á um starfshætti nefndarinnar í reglugerð.

8. gr.
Um inntak menntunar leik-, grunn- og framhaldsskólakennara.

    Menntamálaráðherra setur reglugerð þar sem inntak menntunar leik-, grunn- og framhaldsskólakennara er nánar skilgreint með tilliti til lágmarkskrafna um vægi kennslu- og uppeldisfræða og vægi faggreina.


III. KAFLI
Starfsréttindi og ráðningar í leikskólum.
9. gr.
Leikskólakennarar og ráðning þeirra.

    Að lágmarki 2/ 3hlutar stöðugilda við kennslu, umönnun og uppeldi barna í hverjum leikskóla skulu teljast til stöðugilda leikskólakennara. Til þess að verða ráðinn leikskólakennari skal umsækjandi hafa öðlast leyfi til þess að nota starfsheitið leikskólakennari, sbr. 3. og 24. gr.
    Sveitarstjórn, eða sá sem sveitarstjórn felur umboð sitt, eða aðrir rekstraraðilar, ráða leikskólakennara og skólastjórnendur við leikskóla í samræmi við lög þessi, fyrirmæli leikskólalaga og ákvæði sveitarstjórnarlaga.

10. gr.
Ráðning stjórnenda í leikskólum.

    Til þess að verða ráðinn leikskólastjóri eða aðstoðarleikskólastjóri við leikskóla skal umsækjandi hafa starfsheitið leikskólakennari og viðbótarmenntun í stjórnun eða kennslureynslu á leikskólastigi.

11. gr.
Auglýsingar og ráðningar.

    Auglýsa skal öll laus störf kennara og stjórnunarstörf í leikskóla. Ekki er skylt að auglýsa störf við afleysingar, svo sem vegna orlofs, veikinda, fæðingarorlofs eða námsleyfis, enda sé afleysingu ekki ætlað að standa lengur en 12 mánuði samfellt.
    Ekki er skylt að auglýsa störf sem eiga að standa í tvo mánuði eða skemur eða tímabundin störf í minna en 1/ 3 hluta starfs.
    Ráða skal til starfa samkvæmt 1. og 2. mgr. með ráðningarsamningi með þriggja mánaða gagnkvæmum uppsagnarfresti sem er þó einn mánuður á fyrstu þremur mánuðum í starfi enda sé ráðningu ætlað að standa í a.m.k. þrjá mánuði.

IV. KAFLI
Starfsréttindi og ráðningar í grunnskólum.
12. gr.
Ráðning grunnskólakennara og sérfræðinga.

    Til þess að verða ráðinn kennari við grunnskóla skal umsækjandi hafa öðlast leyfi til þess að nota starfsheitið grunnskólakennari skv. 4. og 24. gr.
    Sveitarstjórn, eða sá sem sveitarstjórn felur umboð sitt, eða aðrir rekstraraðilar, ráða grunnskólakennara og skólastjórnendur við grunnskóla í samræmi við ákvæði laga þessara, fyrirmæli grunnskólalaga og ákvæði sveitarstjórnarlaga.
    Skólastjórar ráða grunnskólakennara til tímabundinnar forfallakennslu eða afleysinga og aðra sérfræðinga, sbr. 4. mgr.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að ráða sérfræðing tímabundið að hámarki eitt skólaár í senn til að kenna sérgrein sína enda sé aðeins um að ræða kennslu sem nemur 240 mínútum eða minna á viku.

13. gr.
Ráðning skólastjórnenda grunnskóla.

    Til þess að verða ráðinn skólastjóri eða aðstoðarskólastjóri við grunnskóla skal umsækjandi hafa starfsheitið grunnskólakennari, viðbótarmenntun í stjórnun eða kennslureynslu á grunnskólastigi.

14. gr.
Auglýsingar og ráðningar.

    Auglýsa skal öll laus kennslu- og stjórnunarstörf. Í auglýsingu skal m.a. tilgreina sérsvið, þ.e. aðalkennslugrein eða -greinar og/eða aldursstig nemenda. Ekki er skylt að auglýsa þau störf sem getið er um í 15. gr. Ráðningum skal lokið fyrir 31. maí eftir því sem við verður komið.

15. gr.
Sérstök tilvik.

    Kennsla skal falin grunnskólakennurum sem þegar hafa ráðningu eftir því sem við verður komið. Heimilt er þó að ráða grunnskólakennara og aðra sérfræðinga, sbr. 4. mgr. 12. gr., án auglýsingar til tímabundinnar forfallakennslu eða afleysinga, svo sem vegna orlofs, veikinda, fæðingarorlofs eða námsleyfis enda sé afleysingu ekki ætlað að standa lengur en 12 mánuði.
    Heimilt að ráða án auglýsingar grunnskólakennara til kennslustarfa sem eiga að standa tvo mánuði eða skemur sem og til tímabundinna starfa í minna en 1/ 3hluta starfs.
    Ráða skal til starfa skv. 1. og 2. mgr. með ráðningarsamningi með þriggja mánaða gagnkvæmum uppsagnarfresti sem er þó einn mánuður fyrstu þrjá mánuði í starfi, enda sé ráðningu ætlað að standa í a.m.k. þrjá mánuði.

V. KAFLI
Starfsréttindi og ráðningar í framhaldsskólum.
16. gr.
Starfslið framhaldsskóla og ráðning þess.

    Til þess að verða ráðinn til kennslu í framhaldsskóla skal umsækjandi hafa öðlast leyfi til þess að nota starfsheitið framhaldsskólakennari skv. 5. og 22. gr. Miða skal við að framhaldsskólakennari kenni þær greinar eða á því sviði sem menntun hans nær til.
    Skólameistari framhaldsskóla ræður starfslið framhaldsskóla í samræmi við ákvæði laga um framhaldsskóla og lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er skólameistara heimilt að ráða sérfræðing tímabundið að hámarki eitt skólaár í senn til að kenna sérgrein sína enda sé aðeins um að ræða kennslu sem nemur 240 mínútum eða minna á viku.

17. gr.
Skólastjórnendur framhaldsskóla.

    Við ráðningu í stjórnunarstörf við framhaldsskóla skal umsækjandi hafa starfsheitið framhaldsskólakennari.

18. gr.
Auglýsingar og ráðningar.

    Auglýsa skal öll laus kennslu- og stjórnunarstörf í framhaldsskóla í samræmi við reglur fjármálaráðherra um auglýsingar á lausum störfum. Í auglýsingu skal m.a. tilgreina kennslugrein/ar eða sérsvið. Ekki er skylt að auglýsa þau störf sem getið er um í 19. gr. Ráðningum skal lokið fyrir 31. maí eftir því sem við verður komið.

19. gr.
Sérstök tilvik.

    Kennsla skal falin framhaldskólakennurum sem þegar hafa ráðningu eftir því sem við verður komið. Heimilt er þó að ráða framhaldsskólakennara og aðra sérfræðinga sbr. 3. mgr. 16. gr. án auglýsingar til tímabundinnar forfallakennslu eða afleysinga, svo sem vegna orlofs, veikinda, fæðingarorlofs eða námsleyfis enda sé afleysingu ekki ætlað að standa lengur en 12 mánuði samfellt.
    Þá er heimilt að ráða framhaldsskólakennara til kennslustarfa sem eiga að standa tvo mánuði eða skemur sem og til tímabundinna starfa í minna en 1/ 4hluta starfs.
    Ráða skal til starfa samkvæmt 1. og 2. mgr. með ráðningarsamningi með þriggja mánaða gagnkvæmum uppsagnarfresti sem er þó einn mánuður fyrstu þrjá mánuði í starfi, enda sé ráðningu ætlað að standa í a.m.k. þrjá mánuði.


VI. KAFLI
Undanþágur.
20. gr.
Undanþáguheimild fyrir leikskóla.

    Sæki enginn leikskólakennari um auglýst leikskólakennarastarf, leikskólastjórastarf eða aðstoðarleikskólastjórastarf þrátt fyrir endurtekna auglýsingu er heimilt að lausráða í starfið til bráðabirgða, að hámarki til eins árs í senn, einstakling sem ekki er leikskólakennari. Hið sama gildir ef umsækjandi uppfyllir ekki þau almennu skilyrði sem nauðsynleg teljast til þess að fá ráðningu í starf. Starfsmaður sem ráðinn er vegna framangreindra aðstæðna má ekki bera starfsheitið leikskólakennari og ekki má endurráða hann án undangenginnar auglýsingar.


21. gr.
Undanþágunefnd grunnskóla.

    Menntamálaráðherra skipar undanþágunefnd grunnskóla til fjögurra ára í senn. Nefndin skal skipuð fjórum fulltrúum, einum fulltrúa tilnefndum af heildarsamtökum kennara, einum fulltrúa tilnefndum af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, einum fulltrúa tilnefndum af samstarfsnefnd um háskólastigið og einum fulltrúa án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar. Jafnmarga varamenn skal skipa á sama hátt.
    Óheimilt er að ráða aðra en þá sem uppfylla ákvæði laga þessara til kennslu við grunnskóla á vegum opinberra aðila eða hliðstæða skóla, sbr. lög um grunnskóla.
    Nú sækir enginn grunnskólakennari um auglýst kennslustarf þrátt fyrir endurtekna auglýsingu og getur skólastjóri þá sótt um heimild til undanþágunefndar grunnskóla um að lausráða tiltekinn starfsmann til kennslustarfa til bráðabirgða, þó aldrei lengur en til eins árs í senn. Undanþágunefnd er heimilt að víkja frá kröfu um endurtekna auglýsingu þegar sótt er um undanþágu til að endurráða einstakling sem er í námi til kennsluréttinda. Slíkri umsókn skal fylgja staðfesting á að viðkomandi sé í námi og áætlun um námsframvindu. Skólastjóra er ekki skylt að leita til undanþágunefndar sé um að ræða kennslu sem nemur 240 mínútum á viku eða minna, sbr. 4. mgr. 12. gr.
    Málsaðili getur skotið ákvörðun undanþágunefndar til ráðherra. Málskot frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar undanþágunefndar.
    Ef hvorki skólastjóri né að minnsta kosti tveir skólanefndarmenn mæla með ráðningu grunnskólakennara í kennslustarf getur skólastjóri þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. leitað til undanþágunefndar og óskað eftir heimild nefndarinnar til að lausráða annan einstakling.
    Nú fæst heimild frá undanþágunefnd til að lausráða einstakling skv. 3. eða 5. mgr. og skal hann þá ráðinn með sérstökum ráðningarsamningi til ákveðins tíma með þriggja mánaða gagnkvæmum uppsagnarfresti sem er þó einn mánuður á fyrstu þremur mánuðum í starfi. Slíkur starfsmaður má ekki bera starfsheitið grunnskólakennari og ekki má endurráða hann án undangenginnar auglýsingar.
    Starfsreglur undanþágunefndar skal ákveða nánar í reglugerð.

22. gr.
Undanþágunefnd framhaldsskóla.

    Menntamálaráðherra skipar undanþágunefnd framhaldsskóla til fjögurra ára í senn. Nefndin skal skipuð þremur fulltrúum, einum fulltrúa tilnefndum af heildarsamtökum kennara, einum fulltrúa tilnefndum af Félagi íslenskra framhaldsskóla og einum fulltrúa án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar. Jafnmarga varamenn skal skipa á sama hátt.
    Óheimilt er að ráða aðra en þá sem uppfylla ákvæði laga þessara til kennslu við framhaldsskóla, sbr. lög um framhaldsskóla.
    Nú sækir enginn sem fullnægir ákvæðum þessara laga um auglýst kennslustarf þrátt fyrir endurtekna auglýsingu og getur skólameistari þá sótt um heimild til undanþágunefndar framhaldsskóla um að lausráða tiltekinn starfsmann til kennslustarfa til bráðabirgða, þó aldrei lengur en til eins árs. Undanþágunefnd er heimilt að víkja frá kröfu um endurtekna auglýsingu þegar sótt er um undanþágu til að endurráða einstakling sem er í námi til kennsluréttinda. Slíkri umsókn skal fylgja staðfesting á að viðkomandi sé í námi og áætlun um námsframvindu. Skólameistara er ekki skylt að leita til undanþágunefndar sé um að ræða kennslu sem nemur 240 mínútum á viku eða minna, sbr. 3. mgr. 16. gr.
    Málsaðili getur skotið ákvörðun undanþágunefndar til ráðherra. Málskot frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar undanþágunefndar.
    Ef hvorki skólameistari né að minnsta kosti tveir skólanefndarmenn mæla með ráðningu framhaldsskólakennara í kennslustarf getur skólameistari þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. leitað til undanþágunefndar og óskað eftir heimild nefndarinnar til að lausráða annan einstakling sem hefur sérmenntun í auglýstri kennslugrein.
    Nú fæst heimild frá undanþágunefnd til að lausráða einstakling skv. 3. eða 5. mgr. og skal hann þá ráðinn með sérstökum ráðningarsamningi með þriggja mánaða gagnkvæmum uppsagnarfresti sem er þó einn mánuður á fyrstu þremur mánuðum í starfi. Slíkur starfsmaður má ekki bera starfsheitið framhaldsskólakennari og ekki má endurráða hann án undangenginnar auglýsingar.
    Starfsreglur undanþágunefndar skal ákveða nánar í reglugerð.

VII. KAFLI
Almenn ákvæði.
23. gr.
Mat á umsóknum og forgangur til starfs.

    Við ráðningu skólastjórnenda í leik-, grunn- og framhaldsskólum skal tekið tillit til menntunar, starfsferils, stjórnunarreynslu eða viðbótarmenntunar í stjórnun og umsagna um starfshæfni umsækjanda. Sæki fleiri en einn um sama starf og uppfylli tveir eða fleiri þær kröfur sem gerðar eru skal m.a. tekið tillit til menntunar, starfsreynslu og umsagna um starfshæfni umsækjenda þegar ákvörðun er tekin um ráðningu í starfið.
    Grunnskólakennari sem hefur sérhæft sig til kennslu í tiltekinni námsgrein, á tilteknu námssviði eða aldursstigi, skal við ráðningu hafa forgang til kennslu miðað við það.
    Einstaklingar sem hafa lokið bakkalárprófi á sviði uppeldis- og kennslufræða, og aðrir þeir sem hafa sambærilega menntun sem nýtist til starfa í leikskólum, skulu njóta forgangs umfram aðra við ráðningu í störf í leikskólum samkvæmt þessari grein.
    Einstaklingar sem hafa lokið bakkalárprófi á sviði uppeldis- og kennslufræða, og aðrir þeir sem hafa sambærilega menntun sem nýtist til starfa í grunnskólum, skulu njóta forgangs umfram aðra við ráðningu í störf í grunnskólum.
    Einstaklingar með starfsréttindapróf eða háskólapróf og a.m.k. 120 staðlaðar námseiningar í auglýstri kennslugrein skulu njóta forgangs umfram aðra við ráðningu í störf í framhaldsskólum.

24. gr.
Um gildissvið leyfisbréfa og útgáfu þeirra.

    Menntamálaráðherra veitir kennurum leyfisbréf til notkunar á starfsheitum kennara skv. 3.–5. gr. Um gildissvið leyfisbréfa fer að öðru leyti eftir því sem hér segir:
     1.      Leyfisbréf grunnskólakennara sem sérhæft hefur sig í kennslu yngri barna veitir honum heimild til kennslu elstu aldursflokka í leikskólum.
     2.      Leyfisbréf leikskólakennara sem sérhæft hefur sig í kennslu eldri barna veitir honum heimild til kennslu í 1.–3. bekkjum grunnskóla.
     3.      Leyfisbréf framhaldsskólakennara veitir honum heimild til kennslu á sérsviði sínu í 8.–10. bekkjum grunnskóla.
     4.      Leyfisbréf grunnskólakennara sem lokið hefur a.m.k. 120 eininga sérmenntun í kennslugrein veitir honum heimild kennslu á sérsviði sínu í byrjunaráföngum framhaldsskóla.
    Leikskólakennari sem lokið hefur a.m.k. 60 eininga viðbótarmenntun í stjórnun eða sérkennslu á rétt á leyfisbréfi sem grunnskólakennari og starfa sem slíkur.
    Grunnskólakennari sem lokið hefur a.m.k. 60 eininga viðbótarmenntun í stjórnun eða sérkennslu á rétt á leyfisbréfi sem leikskólakennari og starfa sem slíkur.
    Ráðherra er heimilt að fela háskólum, sem hlotið hafa viðurkenningu á grundvelli laga um háskóla og sinna menntun kennara eftir samningi við ráðuneytið, að annast útgáfu leyfisbréfa samkvæmt lögum þessum. Skal þá ráðherra veita hlutaðeigandi stofnunum sérstök fyrirmæli um hvernig útgáfu slíkra leyfisbréfa skuli nánar háttað.
    Ráðherra er heimilt að setja nánari fyrirmæli um útgáfu leyfisbréfa í reglugerð.
    

25. gr.
Eldri réttindi.

    Leikskólakennarar með bakkalárpróf á sviði uppeldis- og kennslufræða frá viðurkenndri kennaramenntunarstofnun, eða annað jafngilt nám sem lokið var með prófum sem tryggðu kennsluréttindi fyrir gildistöku laga þessara, skulu halda réttindum sínum.
    Grunn- og framhaldsskólakennarar með leyfisbréf við gildistöku laga þessara halda fullum réttindum til jafns við þá sem öðlast starfsréttindi grunn- og framhaldsskólakennara samkvæmt lögum þessum.

26. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2008. Frá sama tíma falla úr gildi lög nr. 86/1998, um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra.
    Ákvæði 3., 4. og 5. gr. taka til þeirra sem hefja nám eftir gildistöku laga þessara.
    Fram til 1. júlí 2011 skulu þeir sem fá leyfisbréf til kennslu í leik-, grunn- og framhaldsskólum hafa lokið bakkalárprófi og tilskildu námi í uppeldis- og kennslufræðum.
    

27. gr.
Breytingar á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á 5. gr. laga um réttindi og skyldur kennara og skólastjónenda grunnskóla, nr. 72/1996:
     a.      Í stað 1. málsl. 1. mgr. koma tveir nýir málsliðir sem orðast svo: Auglýsa skal öll laus kennslu- og stjórnunarstörf í grunnskóla. Ekki er skylt að auglýsa þau störf sem getið er um í 15. gr. laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.
     b.      2. mgr. fellur brott.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Við gildistöku laga þessara skulu gefin út leyfisbréf til handa leik-, grunn- og framhaldsskólakennurum sem til þess eiga tilkall og ekki hafa þegar fengið slík bréf, enda óski þeir eftir því.
    Lög um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla skulu endurskoðuð innan tveggja ára frá gildistöku laga þessara.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um leikskóla, frumvarpi til laga um grunnskóla og frumvarpi til laga um framhaldsskóla. Frumvarpið er byggt á vinnu starfshóps sem menntamálaráðherra skipaði í apríl 2005, til þess að endurskoða ákvæði laga nr. 86/1998, um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra. Frumvörpin fela í sér heildareindarskoðun á löggjöf um skólamál hér á landi. Í megindráttum felur frumvarpið í sér að ríkari kröfur verða gerðar til kennaramenntunar. Með því er lögð áhersla á að börn og ungmenni búi við sem best uppeldis- og námsskilyrði. Í því felst jafnframt að skólastigin, leikskólinn, grunnskólinn og framhaldsskólin, verði færð nær hvert öðru og stuðlað verði að því strax í leikskóla hefjist undirbúningur að samfellu í skólastarfi þar sem eitt skólastig tekur við af öðru. Stærsta breytingin felst í þeim kröfum sem gerðar verða til kennaramenntunar. Til þess að geta fengið leyfisbréf sem leikskólakennari, grunnskólakennari og framhaldsskólakennari verður sá sem þess óskar að hafa lokið meistaraprófi frá háskóla sem hlotið hefur viðurkenningu ráðherra á fræðasviði til kennslu á viðkomandi skólastigi. Sérstaklega mun þetta, og sú stefnumörkum sem fram kemur í frumvarpinu að minnst 2/ 3 hlutar stöðugilda við kennslu, umönnun og uppeldi barna í hverjum leikskóla skuli teljast til stöðugilda leikskólakennara, hafa þýðingu fyrir störf leikskólakennara. Í því felst jafnframt mikilsverð viðurkenning á störfum leikskólakennara og því þýðingarmikla hlutverki þeirra að mennta börn í leiskólum sem er fyrsta skólastigð.

1.

    Gildandi lög um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra, nr. 86/1998, hafa staðið nær óbreytt frá gildistöku fyrir utan nokkur ákvæði sem bættust við 2003 vegna viðauka við tilskipun vegna ESS samningsins, 89/48/EBE. Lögunum hefur ekki verið breytt í kjölfar breytinga á starfsumhverfi skólanna undanfarin ár. Á sama tíma hafa átt sér stað miklar breytingar á háskólastiginu hérlendis, þar með talið í starfsmenntun kennara.
    Með lögum um leikskóla 1994 og útgáfu aðalnámskrár leikskóla voru tekin af tvímæli um að leikskólinn er fyrsta stig skólakerfisins. Lögin kveða einnig á um að leikskólakennarapróf skuli veita forgang til kennslustarfa í leikskólum. Starfsheiti leikskólakennara er hins vegar ekki lögvarið á sama hátt og starfsheiti grunnskólakennara og framhaldsskólakennara. Á undanförnum árum hefur fæst í vöxt að fólk með erlend leikskólakennarapróf sæki í störf hérlendis. Þar sem starfsheiti leikskólakennara er ekki lögvarið og menntunarkröfur sem gerðar eru í lögum eru óskýrar hefur reynst erfitt að meta starfsréttindi leikskólakennara með erlend próf.
    Eftir útkomu aðalnámskráa grunn- og framhaldsskóla 1999 reyndi í auknum mæli á túlkun lögverndunarlaga hvað varðar menntunarskilyrði, ekki síst á grunnskólastigi. Ýmsir háskólamenntaðir einstaklingar með próf í uppeldis- og kennslufræði hafa sótt fast að fá starfsleyfi sem grunnskólakennarar eða framhaldsskólakennarar. Einnig hafa iðnmeistarar úr ýmsum iðngreinum sótt um leyfisbréf grunnskólakennara og sömuleiðis fólk með menntun á sviði listgreina, tæknigreina og verkgreina. Á undanförnum árum hefur þróunin orðið sú að matsnefnd grunnskóla eða menntamálaráðherra hafa veitt kennsluréttindi nýjum hópum háskólamenntaðs fólks og einnig iðnmeisturum og fólki með listmenntun og tæknimenntun. Sífellt erfiðara hefur reynst fyrir matsnefndina að ákvarða menntunarkröfur í þessu sambandi, með skírskotun í kennslugrein, ekki síst með tilkomu nýrra námskráa í lífsleikni og upplýsinga- og tæknimennt í grunnskólum. Ýmsir einstaklingar sem fengið hafa synjun matsnefndar um að hljóta starfsleyfi sem grunn- eða framhaldsskólakennarar hafa kært þá ákvörðun til ráðherra og kvartað til umboðsmanns Alþingis. Nú er svo komið að erfitt er, einkum fyrir matsnefnd grunnskóla, að vinna eftir lögunum þar sem búið er að reyna á þanþol þeirra með túlkun undanfarinna ára.

2.
    

    Menntamálaráðherra skipaði í febrúar árið 2005 starfshóp sem var falið að endurskoða stöðu laga nr. 86/1998, um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra, með tilliti til breytts skólaumhverfis. Í hópnum voru frá menntamálaráðuneytinu Karl Kristjánsson, deildarstjóri skóla- og símenntunardeildar ráðuneytisins, formaður, frá Kennarasambandi Íslands Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, og frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga Sigurður Óli Kolbeinsson, lögfræðingur og sviðsstjóri lögfræðisviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þá var Guðni Olgeirsson sérfræðingur í skóladeild menntamálaráðuneytisins starfsmaður hópsins.
    Í vinnu starfshópsins voru einnig skoðaðar hugmyndir um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum leikskólakennara. Í ljósi yfirlýsingar menntamálaráðherra og Kennarasambands Íslands um 10 skref til sóknar í skólastarfi, dags. 2. febrúar 2006, og stefnu menntamálaráðuneytisins um aukna samfellu í námi, aukin tengsl milli skólastiga, breytta námsskipan til stúdentsprófs og endurskoðun á skipan kennaramenntunar er hér lagt til að ákvæði frumvarpsins nái einnig til leikskólakennara. Gert er ráð fyrir sambærilegum ákvæðum um starfsheiti og starfsréttindi leikskólakennara og fyrir grunn- og framhaldsskólakennara en ekki er gert ráð fyrir undanþágunefnd leikskóla.
    Í mars 2005 skipaði menntamálaráðherra starfshóp sem falið var að endurmeta skipulag kennaramenntunar og setja fram tillögur um framtíðarskipan menntunar leikskólakennara, grunnskólakennara og framhaldsskólakennara. Hópnum var jafnframt falið að kanna sýn hagsmunaaðila á gæðamál og kröfur til námsins. Í hópnum sátu Sigurjón Mýrdal, deildarstjóri í námskrárdeild menntamálaráðuneytis, formaður, Kristrún Lind Birgisdóttir, verkefnisstjóri í menntamálaráðuneyti, Ólafur Proppé, rektor Kennaraháskóla Íslands, Elna Katrín Jónsdóttir, varaformaður Kennarasambandi Íslands, Hafdís Ingvarsdóttir, dósent í Háskóla Íslands, og Ársæll Guðmundsson, sveitarstjóri, fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga.
    Starfshóparnir tveir höfðu samráð sín í milli og héldu sameiginlegan fund. Skýrsla starfshópsins um framtíðarskipan kennaramenntunar og niðurstöður voru afhentar menntamálaráðherra í mars 2006.
    Í vinnu sinni leit starfshópurinn um lögverndunarlögin til allra þátta núgildandi laga og kom sér saman um drög að frumvarpi til nýrra laga um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum leikskólakennara, grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjórnenda á þessum skólastigum. Aflað var upplýsinga um sambærilega lögverndun á Norðurlöndum. Farið var yfir skýrslur undanþágunefnda grunn- og framhaldsskóla og ýmis gögn skoðuð frá matsnefndum grunn- og framhaldsskóla. Rætt var við formenn matsnefnda og undanþágunefnda og farið yfir ýmis álitamál sem upp hafa komið við túlkun laganna á undanförnum árum. Er nefndin hafði skilað tillögum sínum að lagafrumvarpi fór menntamálaráðuneytið yfir öll fjögur frumvörpin með tilliti til samræmingar og einföldunar og hafði í því sambandi samráð við fulltrúa hagsmunaaðila í starfshópnum.
    

3.

    Tillögurnar sem hér liggja fyrir fela í sér allnokkrar breytingar frá gildandi lögverndunarlögum. Meginbreytingartillögur eru eftirfarandi:

          Menntunarskilyrði til að öðlast starfsheiti og starfsréttindi grunnskólakennara og framhaldsskólakennara eru aukin í samræmi til tillögur starfshóps um framtíðarskipan kennaramenntunar, auknar kröfur til kennarastéttarinnar og þróun kennaramenntunar í þeim löndum sem við berum okkur saman við.
          Frumvarpið kveður í fyrsta skipti á um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum leikskólakennara og stjórnenda leikskóla. Hér er höfð hliðsjón af því að leikskólinn er fyrsta stig íslenska skólakerfisins.
          Menntunarskilyrði til að öðlast starfsheiti og starfsréttindi leikskólakennara eru í samræmi við tillögur starfshóps um framtíðaskipan kennaramenntunar, auknar kröfur til kennarastéttarinnar og þróun kennaramenntunar í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Gerðar eru sambærilegar kröfur um menntun leikskólakennara og gerðar eru til grunnskóla- og framhaldsskólakennara.
          Menntunarskilyrði á grunnskólastigi eru gerð almennari, þ.e. ekki eru tilgreindar ákveðnar kennaramenntunarstofnanir, en menntunarkröfurnar eru skýrari.
          Gert er ráð fyrir sérhæfingu í leyfisbréfi á grunnskólastigi fyrir fólk sem hefur fagmenntun á ákveðnu sviði, ásamt kennslu- og uppeldisfræði.
          Kveðið er á um að kennari sem hefur sérhæft sig í tiltekinni námsgrein, á tilteknu námssviði eða aldursstigi grunnskóla hafi forgang til kennslu í grunnskóla miðað við það. Um er að ræða útvíkkun á núgildandi forgangi sem miðast einungis við kennslugreinar á unglingastigi.
          Skólastjóra grunnskóla verði heimilt að ráða sérfræðing tímabundið að hámarki eitt skólaár í senn til að kenna sérgrein sína enda sé aðeins um að ræða kennslu sem nemur 240 mínútum eða minna á viku. Sambærileg heimild er fyrir skólameistara framhaldsskóla skv. IV. kafla gildandi lögverndunarlaga.
          Gildissvið leyfisbréfa leik-, grunn- og framhaldsskólakennara er útvíkkað til aðliggjandi skólastiga þannig að viðkomandi kennari hefi einnig heimild til að kenna ákveðnum aldursflokkum eða á sérsviði sínu, samkvæmt takmörkunum í 23. gr. og er þetta gert til að stuðla að ákveðnum sveigjanleika milli skólastiga.
          Í leikskólum skulu að lágmarki 2/ 3 hlutar stöðugilda við kennslu, umönnun og uppeldi barna í hverjum leikskóla teljast til stöðugilda leikskólakennara. Ekki er gert ráð fyrir því að þetta ákvæði leiði til þess að skylt verði að segja núverandi starfsmönnum leikskóla upp störfum.
          Gert er ráð fyrir að einstaklingar án kennsluréttinda en með B.Ed. gráðu og aðrir sem hafa sambærilega menntun sem nýtist til starfa á tilteknu skólastigi, skulu njóta forgangs við ráðningu í störf á því skólastigi. Hér er m.a. litið til tillagna um háskólapróf í svonefndu Bologna-ferli.
          Matsnefnd grunnskóla og matsnefnd framhaldsskóla eru sameinaðar í eina matsnefnd og hlutverk nefndarinnar verður einnig að fara yfir umsóknir um leyfisbréf fyrir leikskólakennara.
          Ein reglugerð verður um lögverndun á starfsheiti leikskólakennara, grunnskólakennara og framhaldsskólakennara í stað tveggja áður, þ.e. um hvort skólastig sérstaklega.
          Ekki er í þessu frumvarpi fjallað sérstaklega um stundakennara en þess í stað rætt um störf sem eiga að standa tvo mánuði eða skemur, tímabundna ráðningu í minna en 1/ 3 hluta starfs í leik-, og grunnskóla eða í framhaldsskólum í minna en 1/ 4 hluta starfs og störf við afleysingar, svo sem vegna orlofs, veikinda, fæðingarorlofs og námsleyfis.
          Menntamálaráðherra getur falið háskólum sem hlotið hafa viðurkenningu ráðuneytisins og sinna menntun kennara samkvæmt samningi við ráðuneytið að annast útgáfu leyfisbréfa.
          Ýmsar lagfæringar eru gerðar á orðalagi einstakra greina núgildandi laga og þau ákvæði felld brott úr lögunum sem ekki er talin þörf á að hafa þar inni.
    Frumvarpið skiptist í sjö kafla. Í I. kafla er fjallað um gildissvið og markmið frumvarpsins. Í II. kafla eru meginákvæði um lögverndun á starfsheitunum leikskólakennari, grunnskólakennari og framhaldsskólakennari. Kveðið er á um þau skilyrði sem umsækjandi þarf að uppfylla til að geta fengið slíkt leyfi. Þar á meðal eru ákvæði um að leyfisbréf menntamálaráðherra þurfi fyrir notkun á umræddum starfsheitum. Sérstök ákvæði eru í III., IV. og V. kafla um starfsréttindi og ráðningarreglur á hverju skólastigi fyrir sig. Þar er m.a. að finna ákvæði um skilyrði fyrir ráðningum, um ráðningarvald, auglýsingar og ráðningar í laus störf. Ákvæði þessi eru að mestu leyti sambærileg gildandi lögum. Mismunurinn skýrist einkum af mismunandi lagaumgjörð og starfsumhverfi skólastiganna. Rekstur fyrstu tveggja skólastiga er hjá sveitarfélögum en ríkið fer með rekstur þess þriðja, þ.e. framhaldskóla. Leikskóla- og grunnskólakennarar, sem og stjórnendur þessara skóla, eru því almennt hluti af starfsliði sveitarfélaga en um það gilda ákvæði V. kafla sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998. Þá gilda sérstök lög um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla, nr. 72/1996. Kennarar og skólastjórnendur framhaldsskóla heyra aftur á móti almennt undir gildissvið laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, enda eru langflestir framhaldsskólarnir ríkisstofnanir. Í VI. kafla frumvarpsins eru ákvæði um undanþágur. Þar eru ákvæði um undanþágur til að lausráða til bráðabirgða, þó aldrei lengur en til eins árs í senn, einstaklinga sem ekki hafa það starfsheiti sem um ræðir. Afla þarf heimildar fyrir slíkum ráðningum á grunn- og framhaldsskólastigi hjá hlutaðeigandi undanþágunefnd. Í VII. kafla eru tekin saman ákvæði sem eru sameiginleg fyrir öll skólastigin, en með því er reynt að einfalda uppsetningu laganna. Gert er ráð fyrir því eins og nánar er lýst í 24. gr. að réttindi samkvæmt leyfisbréfi á tilgreindu skólastigi geti að ákveðnu marki einnig tekið til annarra skólastiga. Þar er einnig að finna önnur ákvæði, þar á meðal um setningu reglugerðar um útgáfu leyfisbréfa og breytingar á öðrum lögum. Þá er þar tryggður réttur þeirra sem þegar hafa aflað sér starfsréttinda til kennslu í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum og þeirra sem þegar hafa leyfisbréf til að nota starfsheiti grunnskólakennara og framhaldsskólakennara.

4.

    Ljóst er að beint samhengi er á milli gæða og skilvirkni menntakerfis annars vegar og menntunarstigs, lífsgæða og efnahagsþróunar samfélagsins hins vegar. Þetta er löngu viðurkennt í þeim löndum sem við Íslendingar berum okkur saman við. Við stefnumörkun í skólamálum á vegum alþjóðastofnana og einstakra ríkja hafa menn jafnframt í vaxandi mæli gert sér grein fyrir miðlægri stöðu kennarans í breytingaferlinu og þeirri kjölfestu sem kennaramenntun er í menntakerfinu. Af þessum sökum hefur starfsmenntun kennara verið tekin til endurskoðunar víða um heim. Austanhafs og vestan hafa menn reynt að greina fjölbreytileika kennarastarfsins og alls staðar komist að þeirri niðurstöðu að efla þurfi kennaramenntun fyrir öll skólastig og tryggja stöðu hennar á háskólastigi. Við samningu frumvarps þessa hefur verið litið til þessara stefnumörkunar.
    Á undanförnum árum hefur kennaramenntun verið færð á háskólastig í flestum vestrænum ríkjum og bæði fræðilegur og verklegur hluti hennar aukinn. Hlutverk kennarastéttarinnar í samrunaferli Evrópusambandsins hefur verið viðurkennt og þar er litið á kennaramenntun sem lykilþátt í mótun nýrrar menntastefnu fyrir árið 2010. Þar er einnig unnið að aðlögun kennaramenntunar að annarri starfsmenntun í samræmi við Bologna-yfirlýsinguna frá 1999 um samevrópskt háskólasvæði. Megintilgangur Boglogna-ferlisins er að fyrir árið 2010 verði til samevrópskt háskólasvæði þar sem hreyfanleiki nemenda og háskólafólks er auðveldaður. Af þeim markmiðum sem menntamálaráðherrar þátttökulandanna að Bologna-ferlinu komu sér saman um að stefna að er áhersla á að nám á háskólastigi sé skipulagt í grunnnám og framhaldsnám, þar sem grunnnám er að lágmarki þrjú ár, meistaranám tvö ár og síðan doktorsnám. Löndin sem taka þátt í Bologna-ferlinu eru nú (2007) 46 talsins.
    Í skýrslu frá Efnahags- og framfarastofnuninni, OECD, um kennara (Teachers Matter, 2005) kemur fram að starfsmenntun kennara er skipulögð á mjög mismunandi hátt í aðildarlöndunum og spannar frá þremur árum (t.d. á Írlandi, Spáni og Íslandi) til sjö ára menntunar fyrir framhaldsskólakennara (t.d. í Þýskalandi, Slóvakíu og á Ítalíu). Kennaramenntun á Íslandi er nú skipulögð sem 3–4 ára háskólanám (180–240 einingar). Það er með því stysta sem þekkist í löndum á Evrópska efnahagssvæðinu og í OECD-ríkjunum. Meðallengd kennaramenntunar í OECD-löndunum er nú 3,9 ár fyrir barnakennara, 4,4 ár fyrir unglingaskólakennara og 4,9 ár fyrir framhaldsskólakennara. Hér er um meðaltöl að ræða sem þýðir að í mörgum löndum spannar kennaramenntunin lengri tíma, t.d. í Finnlandi, Frakklandi, á Ítalíu, í Slóvakíu og Þýskalandi. Hér við bætist að í mörgum löndum er gert ráð fyrir starfsþjálfun eftir kennaranám, sk. kandídatsárum, áður en menn öðlast formleg kennsluréttindi (oft eftir sérstakt kennarapróf). Dæmi um slík kandídatsár má finna á Írlandi, í Englandi, Portúgal, Skotlandi, á Spáni og víðar. Dæmi um sérstök kennarapróf að loknu starfsnámi má finna í Frakklandi, Þýskalandi, Grikklandi, á Ítalíu og víðar. Sé skyggnst út fyrir Evrópu má finna áhugaverð dæmi um lengri kennaramenntun, kandídatsár og kennarapróf víða í fylkjum Ástralíu, Kanada og Bandaríkjanna.
    Menntun leikskólakennara hefur nokkra sérstöðu í alþjóðlegu samhengi þar sem leikskólinn er ekki alls staðar talinn hluti hins almenna skólakerfis. Íslendingar voru í framvarðarsveit ríkja til að skilgreina leikskólann sem fyrsta stig skólakerfisins árið 1994. Við höfum verið í forystu varðandi þetta og jafnframt lagt áhersla á að fagleg starfsmenntun leikskólakennara sé þeim mun mikilvægari sem nemendur eru yngri. Menntun leikskólakennara hérlendis er nú þriggja ára háskólanám. Annars staðar á Norðurlöndunum er menntun leikskólakennara nú 3–3 1/ 2 ára háskólanám og hún hefur víða verið færð á háskólastig, t.d. í Bretlandi, Þýskalandi, á Spáni og í Luxemborg. Eðlilegt er að fagleg og fræðileg viðfangsefni í starfsmenntun kennara hérlendis verði dýpkuð í samræmi við auknar kröfur til kennarastarfsins, m.a. vegna breyttra þjóðfélagsaðstæðna og nýrrar þekkingu á tengslum menntunar og samfélagsþróunar. Á tímum hraðra samfélagsbreytinga þarf að gera auknar kröfur til fagstéttar kennara á öllum skólastigum.
    Starfshópur menntamálaráðherra um framtíðarskipan kennaramenntunar skilaði ráðherra skýrslu í mars 2006. Þar var lagt til að menntun leikskóla-, grunnskóla- og framhaldsskólakennara verði lengd þannig að hún verði sambærileg við það sem tíðkast hjá nágrannaþjóðunum. Jafnframt verði form hennar lagað að Bologna-ferlinu um skipan háskólanáms í Evrópu. Það þýðir að kennaranám verði skipulagt sem þriggja ára grunnnám og tveggja ára framhaldsnám til meistaraprófs (M.Ed.-, MA- eða MS-gráðu) en auk þess þarf að gefa kost á símenntun og framhaldsnámi allt til doktorsnáms. Hliðstæðar áherslubreytingar þarf að gera á menntun verk- og starfsmenntakennara í samræmi við Kaupmannahafnaryfirlýsingu Evrópusambandsins frá 2003. Þar var lögð áhersla á að tryggja gæði starfsmenntunar, m.a. með bættri menntun kennara sem sinna starfsmenntun. Ofan á tilskilda menntun í kennslugrein þarf að bætast tveggja ára kennaramenntun, sniðin að þörfum verk- og starfsmennta.
    Í frumvarpinu er námsvinna nemenda skilgreind á grundvelli svokallaðra ECTS-eininga ( e. European Credit Transfer System) og eru skilgreindar sem staðlaðar námseiningar á grundvelli laga nr. 63/2006, um háskóla. Við einingarmat er miðað við fasta grunntölu um fullt nám, 60 námseiningar ár hvert. Einingin endurspeglar alla námsvinnu nemandans og þátttöku í hvers kyns kennslustundum, sem og viðveru í fyrirlestrum, umræðutímum, æfingum, verklegum tímum og prófum, fjölda og umfang verkefna og lesefni. Nám getur verið skipulagt með ýmsum hætti en óháð fyrirkomulagi kennslunnar og námsins er samanlagður einingafjöldi allra námskeiða og verkefna eins árs að jafnaði 60 staðlaðar námseiningar. Ekki skiptir máli í því sambandi hversu margar kennsluvikur eru á ári.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni er fjallað um gildissvið frumvarpsins. Í samræmi við heiti frumvarpsins er gildissvið þess afmarkað við menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leik-, grunn- og framhaldsskóla. Ekki er lengur vísað í heiti laganna til lögverndunar starfsheita kennara á hlutaeigandi skólastigum. Í því felst ekki efnisbreyting. Þykir heitið sem hér er lagt til lýsa betur efni frumvarpsins.

Um 2. gr.

    Greinin fjallar um markmið frumvarpsins. Áhersla er lögð á að með viðurkenningu starfsheita kennara sé verið að tryggja að þeir sem leggja stund á kennslu- og uppeldisstörf í leik-, grunn-, og framhaldsskólum hafi menntun í samræmi við störf þeirra og ábyrgð.

Um 3. gr.

    Í 1. mgr. er skilgreindur réttur til að nota starfsheitið leikskólakennari og til að starfa sem slíkur við leikskóla á vegum opinberra aðila eða við aðra hliðstæða skóla, sbr. lög um leikskóla. Hér er lagt til sambærilegt skilyrði á leikskólastigi og verið hafa á grunn- og framhaldsskólastigi, þ.e. leyfi menntamálaráðherra til notkunar á umræddu starfsheiti.
    Í 2. mgr. eru skilgreindar menntunarkröfur vegna leyfis til þess að nota starfsheitið leikskólakennari. Miðað er við að meistaranám í leikskólakennarafræðum sé skilyrði leikskólakennararéttinda. Krafist er meistaraprófs í leikskólafræðum frá viðurkenndri kennaramenntunarstofnun á Íslandi. Einnig er mögulegt að fá metið annað jafngilt nám sem hefur það að markmiði að veita undirbúning til kennslu á leikskólastigi miðað við aðalnámskrá leikskóla. Hér er t.d. átt við leikskólakennara með próf í leikskólakennarafræðum frá erlendum menntastofnunum sem talin eru jafngild viðurkenndum prófum, einnig grunnskólakennara sem hafa bætt við sig skilgreindu námi í leikskólakennarafræðum sem menntamálaráðuneytið viðurkennir fullnægjandi. Einnig er átt við að fagmenntaðir kennarar eða aðrir menntunarfræðingar fái leyfisbréf sem leikskólakennarar þegar þeir hafa lokið viðbótarmenntun í leikskólakennarafræðum.
    Í 8. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því að menntamálaráðherra setji reglugerð um inntak menntunar leik-, grunn- og framhaldsskólakennara.

Um 4. gr.

    Fyrsta málsgrein ákvæðisins er samhljóða 1. mgr. 1. gr. gildandi laga um rétt til þess að nota starfsheitið grunnskólakennari.
    Í 2. mgr. eru skilgreindar auknar menntunarkröfur miðað við 2. gr. gildandi laga vegna leyfis til þess að nota starfsheitið grunnskólakennari. Lagt er til að meginviðmið verði sett við meistarapróf í grunnskólakennarafræðum. Undir þennan lið falla einnig þeir sem hafa aðra jafngilda menntun, t.d. frá erlendum kennaramenntunarstofnunum. Þá eru skilgreindar lágmarkskröfur fyrir þá kennara, t.d. í verkgreinum, tæknigreinum og listgreinum, sem ekki hafa lokið meistaraprófi frá háskóla.
    Skv. 1. tölul. 2. mgr. eru almenn starfsleyfisskilyrði grunnskólakennara meistarapróf í grunnskólafræðum frá viðurkenndri kennaramenntunarstofnun hér á landi. Vegna eðlis kennarastarfs á grunnskólastigi er talið æskilegt að miða við minnst 60 eininga nám í uppeldis- og kennslufræði til kennsluréttinda.
    Skv. 2. tölul. 2. mgr. er mögulegt að fá metið annað jafngilt nám, sbr. 1. tölul., sem hefur það að markmiði að veita undirbúning til kennslu á grunnskólastigi miðað við aðalnámskrá grunnskóla. Hér er einkum átt við kennaramenntun frá erlendum kennaramenntunarstofnunum, en einnig t.d viðbótarnám leikskólakennara og framhaldsskólakennara sem sérhæft hafa sig til kennslu í grunnskólum.
    Í 3. tölul. 2. mgr. eru, eins og í núgildandi lögum, ákvæði um sérhæfingu í leyfisbréfi iðnmeistara í sérgrein í grunnskólum, enda hafi viðkomandi leyfisbréf iðnmeistara í sérgreininni og a.m.k. 60 eininga námi í uppeldis- og kennslufræðum til kennsluréttinda. Í samræmi við tillögur starfshóps menntamálaráðherra um framtíðarskipan kennaramenntunar (mars 2006) er hér lagt til að menntun starfsmenntakennara verði lengd og metin jafngild öðru kennaranámi. Kennslufræðihluti þess náms fari fram í kennaramenntunarstofnunum á háskólastigi.
    Í 4. tölul. 2. mgr. er fjallað um annars konar lokapróf sem má meta til að veita starfsheitið grunnskólakennari, t.d. á sviði verkgreina, tæknigreina eða listgreina, enda hafi viðkomandi lokið 270–300 eininga námi á sérsvið sínu og a.m.k. 60 eininga námi á háskólastigi í uppeldis- og kennslufræðum til kennsluréttinda. Hér er gert ráð fyrir því að veitt sé takmarkað starfsleyfi fyrir þá sem falla undir þennan tölulið. Þeir fái ekki starfsleyfið grunnskólakennari almennt, heldur í tiltekinni námsgrein, námssviði eða aldursstigi.
    Í 8. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því að menntamálaráðherra setji reglugerð um inntak menntunar leik-, grunn- og framhaldsskólakennara.


Um 5. gr.

    1. mgr. er samhljóða 11. gr. gildandi laga um rétt til þess að nota starfsheitið framhaldsskólakennari.
    Í 2. mgr. ákvæðisins eru skilgreindar auknar menntunarkröfur vegna leyfis til þess að nota starfsheitið framhaldsskólakennari. Lagðar eru til nokkrar breytingar frá 11. og 12. gr. gildandi laga og lágmarksviðmið sett við meistarapróf á fræðasviði sem viðurkennt er til kennslu í framhaldsskólum.
    Í 1. tölul. 2. mgr. eru almenn starfsleyfisskilyrði framhaldsskólakennara miðuð við meistarapróf frá viðurkenndri háskólastofnun hér á landi. Eðlilegt er að meistaraprófið sé á starfssviði sem menntamálaráðuneyti viðurkennir til kennslu í framhaldsskólum samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla.
    Skv. 2. tölul. 2. mgr. er mögulegt að fá metið annað jafngilt nám, sbr. 1. tölul., sem hefur það að markmiði að veita undirbúning til kennslu á framhaldsskólastigi miðað við aðalnámskrá framhaldsskóla. Hér er einkum átt við sérmenntun eða kennslufræðimenntun frá erlendum kennaramenntunarstofnunum.
    Í 3. tölul. 2. mgr. eru, eins og í núgildandi lögum, ákvæði um kennsluréttindi iðnmeistara í sérgrein, enda hafi viðkomandi leyfisbréf iðnmeistara í sérgreininni og a.m.k. 60 eininga námi í uppeldis- og kennslufræðum til kennsluréttinda. Í samræmi við tillögur starfshóps menntamálaráðherra um framtíðarskipan kennaramenntunar (mars 2006) er hér lagt til að menntun starfsmenntakennara verði lengd og metin jafngild öðru kennaranámi. Kennslufræðihluti þess náms fari fram í kennaramenntunarstofnunum á háskólastigi.
    Í 4. tölul. 2. mgr. er fjallað um annars konar lokapróf sem má meta nægjanlegt til að fá starfsheitið framhaldsskólakennari, t.d. á sviði verkgreina, tæknigreina eða listgreina, enda hafi viðkomandi lokið 270–300 eininga námi á sérsvið sínu og a.m.k. 60 eininga námi á háskólastigi í uppeldis- og kennslufræðum til kennsluréttinda.
    Í 8. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því að menntamálaráðherra setji reglugerð um inntak menntunar leik-, grunn- og framhaldsskólakennara.
    

Um 6. gr.

    Grein þessi kveður á um staðfestingu menntamálráðherra á leyfi til að nota starfsheiti leikskólakennara, grunnskólakennara og framhaldsskólakennara samkvæmt umsókn tiltekinna erlendra ríkisborgara leggi viðkomandi fram tilskilin vottorð. Hún er samhljóða sambærilegu ákvæði 3. og 13. gr. gildandi laga um staðfestingu á leyfi til að nota starfsheiti grunnskólakennara og framhaldsskólakennara samkvæmt umsókn ríkisborgara innan Evrópska efnahagssvæðisins eða ríkisborgara aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu. Menntamálaráðuneyti staðfestir slíkt leyfi að höfðu samráði við matsnefnd.
    Ráðuneytið getur notað sama farveg til að staðfesta leyfi samkvæmt umsóknum annarra ríkisborgara eftir því sem þörf krefur.

Um 7. gr.

    Í þessari grein segir að leita skuli umsagnar matsnefndar ef vafi leikur á hvort umsækjandi fullnægir skilyrðum 3.–6. gr. til þess að fá leyfi til að nota starfsheitið leikskólakennari, grunnskólakennari eða framhaldsskólakennari. Sambærileg ákvæði eru um matsnefndir fyrir starfsheitin grunnskólakennari og framhaldsskólakennari í ákvæðum 4. og 14. gr. gildandi laga.
    Lagt er til að ein matsnefnd verði starfrækt fyrir öll starfsheitin en samkvæmt gildandi lögum eru nú starfræktar tvær matsnefndir, annars vegar fyrir starfsheiti grunnskólakennara og hins vegar fyrir starfsheiti framhaldsskólakennara, þannig að fjallað sé á einum stað um umsóknir sem vafi er um. Með þeim hætti ætti að tryggja sem skilvirkasta stjórnsýslu í tengslum við veitingu leyfisbréfa og mat á námi til undirbúnings kennslu á þessum skólastigum. Um ákveðna hagræðingu er einnig að ræða en oft sækja einstaklingar um starfsleyfi sem grunn- og framhaldsskólakennari og með einni nefnd ætti öll vinnsla mála að verða skilvirkari. Einnig er líklegt að margir kennarar óski eftir leyfisbréfum bæði í leikskóla og grunnskóla. Lagt er til að Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefni einn fulltrúa í matsnefndina til viðbótar við núverandi tilhögun.

Um 8. gr.

    Í ákvæðinu er menntamálaráðherra gert að skilgreina nánar í reglugerð inntak menntunar leik-, grunn- og framhaldsskólakennara. Gert er ráð fyrir því að í slíkri reglugerð komi fram þau meginviðmið og vinnureglur sem byggt verði á við mat á kennaramenntun. Í skýrslu starfshóps um framtíðarskipan kennaramenntunar var lögð áhersla á að boðnar yrðu fjölbreytilegar námsleiðir til kennsluréttinda og í auknum mæli horft fram hjá skilum milli skólastiga við veitingu kennsluréttinda. Í reglugerð þarf því að skilgreina ólíka samsetningu náms í sérgreinum og kennslufræðum til kennsluréttinda á mismunandi skólastigum. Má þar taka mið af aðalnámskrám skólastiganna. Vegna eðlis starfsins verður að krefjast 60 staðlaðra námseininga í kennslufræðum hið minnsta eða sem nemur heilsársnámi.

Um 9. gr.

    Í 1. mgr. er að finna nýmæli um mönnun í leikskólum. Gert er ráð fyrir því að 2/ 3 hlutar stöðugilda við kennslu, umönnun og uppeldi barna í hverjum leikskóla séu stöðugildi leikskólakennara. Þessu til viðbótar koma störf leikskólastjóra og aðstoðarleikskólastjóra, störf vegna sérkennslu, afleysinga og ræstinga og störf í eldhúsi samkvæmt mati rekstraraðila miðað við stærð leikskóla. Þetta felur jafnframt í sér að sveitarfélög eða aðrir rekstraraðilar leikskóla geta fastráðið starfsfólk með annan bakgrunn en leikskólakennaramenntun í allt að 1/ 3 hluta stöðugilda sem sjá um kennslu, umönnun og uppeldi barna í hverjum leikskóla. Ekkert er því þó til fyrirstöðu að ákveðið verði að ráða leikskólakennara í þessi stöðugildi. Það verður í valdi hvers rekstraraðila að ákveða það þjónustustig og þau gæði sem hann vill bjóða íbúum sínum upp á í leikskólamálum. Í því felst jafnframt skylda sveitarstjórnarmanna til að taka afstöðu til málsins.
    Í 2. mgr. er greint frá því hver fer með valdið til að ráða leikskólakennara og skólastjórnendur leikskóla til starfa og er í því efni m.a. vísað til 56. gr. sveitarstjórnarlaga með síðari breytingum. Fram kemur að ráðningarvaldið er hjá sveitarstjórn, þeim sem hún felur umboð sitt, eða hjá hlutaðeigandi rekstraraðila þegar um sjálfstætt rekna leikskóla er að ræða. Þetta er í samræmi við nefnda 56. gr. en þar segir að sveitarstjórn ráði starfsmenn í helstu stjórnunarstöður hjá sveitarfélagi og stofnunum þess og veiti þeim lausn frá starfi. Um ráðningu annarra starfsmanna fari eftir ákvæðum í samþykkt um stjórn sveitarfélags. Séu þar eigi sérstök ákvæði þess efnis gefi sveitarstjórn almenn fyrirmæli um hvernig staðið skuli að ráðningu starfsmanna.

Um 10. gr.

    Í þessu ákvæði er kveðið á um skilyrði fyrir ráðningu leikskólastjóra og aðstoðarleikskólastjóra. Gerð er krafa um kennsluréttindi, þ.e. leyfi menntamálaráðherra til að nota starfsheitið leikskólakennari, og viðbótarnámi í stjórnun eða kennslureynslu á leikskólastigi. Skilyrði þessi eru sambærileg þeim sem lögð eru til um skólastjóra og aðstoðarskólastjóra grunnskóla.

Um 11. gr.

    Ákvæðið geymir nýmæli þar sem kveðið er á um skyldu til að auglýsa laus til umsóknar kennslu- og stjórnunarstörf við leikskóla. Ekki er tekið sérstaklega fram hvar skuli auglýst. Ljóst er að átt er við að auglýst sé opinberlega, t.d. með auglýsingu í dagblaði sem gefið er út á landsvísu eða auglýsingu á sérstöku vefsvæði sem ætlað er fyrir laus störf hjá sveitarfélögum, þ.e. verði slíkur vefur settur á laggirnar. Þá er að finna undantekningar frá auglýsingaskyldunni, en þá er annars vegar um að ræða tilvik þegar um er að ræða afleysingu í allt að 12 mánuði og hins vegar tímabundin störf sem ætlað er að standa í tvo mánuði eða skemur eða tímabundin störf í minna en 1/ 3 hluta starfs.
    Tímabundin ráðning vegna afleysinga getur að hámarki staðið í 12 mánuði. Ef ráðningu er ætlað að standa lengur en þrjá mánuði er gert ráð fyrir því að í ráðningarsamningi sé kveðið á um þriggja mánaða uppsagnarfrest og að á fyrstu þremur mánuðum í starfi verði uppsagnarfresturinn einn mánuður. Með þessu er litið á fyrstu þrjá mánuðina sem reynslutíma.

Um 12. gr.

    Í þessu ákvæði er kveðið á um skilyrði fyrir ráðningu grunnskólakennara og hver fari með valdið til að ráða grunnskólakennara og skólastjórnendur grunnskóla til starfa. Fram kemur í 2. mgr. að valdið til að ráða í umrædd störf er hjá sveitarstjórn, eða þeim sem hún felur umboð sitt, eða hlutaðeigandi rekstraraðila þegar um sjálfstætt rekna grunnskóla er að ræða. Þetta er í samræmi við frumvarp til grunnskólalaga, sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu. Um ráðningu kennara og annarra starfsmanna fer því eftir ákvæðum í samþykkt um stjórn sveitarfélags. Séu þar eigi sérstök ákvæði þessa efnis gefi sveitarstjórn eða byggðaráð fyrirmæli til skóla um hvernig staðið skuli að ráðningu starfsmanna. Þá er lagt til að felld verði brott ákvæði 2. og 3. mgr. 6. gr. gildandi laga um heimild til að fastráða kennara eftir eitt ár og rétt til fastráðningar og uppsagnarfrest og heimild til ótímabundinnar ráðningar grunnskólakennara með uppsagnarfresti. Ráðning kennara, aðstoðarskólastjóra og skólastjóra skal vera í samræmi við ákvæði gildandi grunnskólalaga og laga um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla. Horfið er frá notkun á hugtakinu stundakennari, en í stað þess er fjallað um grunnskólakennara til tímabundinnar forfallakennslu eða afleysinga og aðra sérfræðinga, en það lýsir betur við hvað er átt. Í 3. mgr. er tekið fram að skólastjóri ráði grunnskólakennara til tímabundinnar forfallakennslu eða afleysingu eða aðra sérfræðinga.
    Við þessa grein er einnig bætt sambærilegu ákvæði og í kaflanum um framhaldsskólakennara þess efnis að skólastjóra sé heimilt að ráða sérfræðing tímabundið til að kenna sína sérgrein enda sé aðeins um að ræða kennslu sem nemur 240 mínútum eða minna á viku. Hér er einkum átt við þegar um kennslustörf er að ræða sem menntun og sérhæfing fastra kennara dugir ekki til, svo sem vegna mjög sérhæfðrar eða óvenjulegrar kennslu miðað við viðkomandi skólastig, t.d. kennslu í ákveðnum valgreinum á unglingastigi, kennslu í afmörkuðum þáttum lífsleikni og ýmis tilfallandi verkefni. Skólastjórar þurfa ekki að óska eftir heimild undanþágunefndar til að lausráða slíkan sérfræðing til að hámarki árs í senn.

Um 13. gr.

    Hér er fjallað um skilyrði fyrir ráðningu skólastjóra og aðstoðarskólastjóra við grunnskóla. Um smávægilegar breytingar að ræða frá gildandi lögum. Lagt er til að felld verði niður ákvæði í lögunum sem heimila skipun skólastjórnanda sem starfað hefur í a.m.k. tvö ár við grunnskóla, þar af eitt ár sem skólastjórnandi. Ekki er ástæða til þess að tilgreina slíkt í frumvarpinu, ráðningarmál skólastjóra eiga að vera í höndum hlutaðeigandi skólanefndar og sveitarstjórnar. Nægjanlegt er í lögum að tilgreina að skólastjórar og aðstoðarskólastjórar eigi að hafa leyfisbréf grunnskólakennara, viðbótarmenntun í stjórnun eða kennslureynslu á grunnskólastigi.

Um 14. gr.

    Í greininni er fjallað um auglýsingaskyldu og undantekningar frá henni, þ.e. tilvísun til þeirra sérstöku tilvika sem kveðið er á um í 15. gr. frumvarpsins. Varðandi auglýsingaskylduna er ákvæðið óbreytt frá 2. mgr. 8. gr. gildandi laga og í samræmi við 5. gr. laga um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla, nr. 72/1996. Lokamálsliður greinarinnar byggist á niðurlagi 2. mgr. 8. gr. gildandi laga en þó þannig að í frumvarpinu er lagt til að viðmiðunardagsetning fyrir lok ráðninga verði 31. maí í stað 1. maí. Eftir sem áður er ljóst að það er hagsmunamál fyrir alla aðila að gengið sé frá ráðningum í lausar stöður kennara sem fyrst að vori.

Um 15. gr.

    Í 1. mgr. er ákvæði sambærilegt við 1. mgr. 9. gr. gildandi laga en orðalagi er breytt. Ákvæðið felur að öðru leyti í sér nokkra breytingu frá nefndri 9. gr. um stundakennara. Í frumvarpi þessu er horfið frá því að fjalla sérstaklega um stundakennara. Þess í stað er annars vegar rætt um störf sem eiga að standa tvo mánuði eða skemur og tímabundna ráðningu í minna en 1/ 3 hluta starfs og hins vegar störf við afleysingar í allt að 12 mánuði, svo sem vegna orlofs, veikinda, fæðingarorlofs og námsleyfis. Rökin fyrir því að fella út stundakennarahugtakið eru fyrst og fremst þau að það hefur ekki lengur raunverulega merkingu, hvað varðar kennara með mánaðarlaunaráðningu, heldur eingöngu um stundakennara á tímakaupi. Helstu breytingar frá gildandi lögum eru að nú er gert ráð fyrir minna en 1/ 3 stöðu í stað hálfrar stöðu. Horfið er frá ákvæði 3. tölul. nefndrar 9. gr. um þann sem gegnir öðru launuðu aðalstarfi. Gert er ráð fyrir að störf samkvæmt ákvæði þessu verði undanþegin auglýsingaskyldu eins og tekið er fram í 11. gr.
    Í 3. mgr. er tekið fram hvert ráðningarformið skuli vera á störfum sem ekki er skylt að auglýsa laus til umsóknar skv. 1. og 2. mgr. Tímabundin ráðning vegna afleysinga getur að hámarki staðið í 12 mánuði. Ef ráðningu er ætlað að standa lengur en þrjá mánuði er gert ráð fyrir því að í ráðningarsamningi sé kveðið á um þriggja mánaða uppsagnarfrest og að á fyrstu þremur mánuðum í starfi verði uppsagnarfresturinn einn mánuður. Með þessu er litið á fyrstu þrjá mánuðina sem reynslutíma.
    Fellt er úr lögum að Samband íslenskra sveitarfélaga skuli setja reglur um umsóknareyðublað. Meginrökin fyrir því eru þau að sambandið hefur ekki sett slíkar reglur og takmörkuð eftirspurn hefur verið eftir þeim.

Um 16. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um skilyrði fyrir ráðningu framhaldsskólakennara sem eru hin sömu og samkvæmt 15. gr. gildandi laga, þ.e. að viðkomandi hafi leyfi menntamálaráðherra til að nota starfsheitið framhaldsskólakennari.
    Í 2. mgr. er greint frá því hver fer með valdið til að ráða skólastjórnendur, kennara og annað starfslið framahaldsskóla. Er það í samræmi við 11. gr. gildnandi framhaldsskólalaga og 5. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í þessu sambandi segir í 11. gr. framhaldsskólalaga að menntamálaráðherra skipi skólameistara til fimm ára í senn að fenginni tillögu hlutaðeigandi skólanefndar og að skólameistari ráði aðstoðarskólaskólameistara til allt að fimm ára í senn, áfangastjóra til allt að fjögurra ára og aðra stjórnendur að höfðu samráði við skólanefnd. Þá segir að skólameistari ráði einnig kennara, námsráðgjafa, starfsfólk skólasafns og aðra starfsmenn skólans að höfðu samráði við skólanefnd. Þá er lagt til að efni 16. gr. núgildandi laga um ráðningarform, þ.e. ráðningartíma og þess háttar, verði fellt út enda óþarft þar sem kveðið er á um þessi atriði í 41. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996.
    Í 3. málsgrein er kveðið á um ráðningu sérfræðinga með sama hætti og í 2. mgr. 15. gr. gildandi laga en þó þannig að ekki er fjallað um kennslustundafjölda á viku eins og í gildandi lögum. Í stað þess er fjallað um hámarksmínútufjölda á viku í kennslu.
    Horfið er frá reglugerðarheimild fyrir framkvæmd ákvæðisins.

Um 17. gr.

    Í þessu ákvæði er kveðið á um skilyrði fyrir ráðningu í stjórnunarstörf við framhaldsskóla. Ákvæðið er samhljóða 17. gr. gildandi laga.
    

Um 18. gr.

    Fyrstu tveir málsliðir greinarinnar fjalla um auglýsingaskyldu og undantekningar á henni, þ.e. tilvísun til þeirra sérstöku tilvika sem kveðið er á um í 19. gr. frumvarpsins. Varðandi auglýsingaskylduna er ákvæðið óbreytt frá 2. mgr. 18. gr. gildandi laga. Um skyldu til þess að auglýsa laus störf í framhaldsskólum fer að öðru leyti eftir 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og reglum fjármálaráðherra settum samkvæmt þeim nr. 464/1996, um auglýsingar á lausum störfum.
    Lokamálsliður greinarinnar byggist á 3. mgr. 18. gr. gildandi laga en þó þannig að í frumvarpinu er lagt til að viðmiðunardagsetning fyrir lok ráðninga verði breytt í 31. maí í stað 1. maí. Eftir sem áður er ljóst að það er hagsmunamál fyrir alla aðila að gengið sé frá ráðningum í lausar stöður kennara sem fyrst að vori.

Um 19. gr.

    Í 1. og 2. mgr. er að finna ákvæði sambærilegt 1. mgr. 19. gr. gildandi laga en orðalaginu er breytt. Horfið er frá því að fjalla sérstaklega um stundakennara. Þess í stað er annars vegar rætt um störf sem eiga að standa tvo mánuði eða skemur og tímabundna ráðningu í minna en 1/ 4hluta starfs og hins vegar störf við afleysingar í allt að tólf mánuði, svo sem vegna orlofs, veikinda, fæðingarorlofs og námsleyfis. Rökin fyrir því að fella út stundakennarahugtakið er að það hefur enga raunverulega merkingu lengur hvað varðar kennara með mánaðarlaunaráðningu heldur aðeins varðandi svokallaða stundakennara á tímataxta. Helstu breytingar frá gildandi lögum eru að nú er horfið frá ákvæði 2. tölul. nefndrar 19. gr. um tímabundna forfallakennslu og afleysingar að hámarki í eina önn. Þá er horfið frá ákvæði 3. tölul. í sama ákvæði um þann sem gegnir öðru launuðu aðalstarfi.
    Í 3. málsgrein er tekið fram hvert ráðningarformið skuli vera á störfum, sem ekki er skylt að auglýsa laus til umsóknar skv. 1. og 2. mgr. Tímabundin ráðning vegna afleysinga getur að hámarki staðið í 12 mánuði. Ef ráðningu er ætlað að standa lengur en þrjá mánuði er gert ráð fyrir því að í ráðningarsamningi sé kveðið á um þriggja mánaða uppsagnarfrest og að á fyrstu þremur mánuðum í starfi verði uppsagnarfresturinn einn mánuður. Með þessu er litið á fyrstu þrjá mánuðina sem reynslutíma.

Um 20. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um ráðningar starfsmanna við kennslu, umönnun og uppeldi barna í leikskólum þegar enginn leikskólakennari sækir um þrátt fyrir auglýsingar. Í slíkum tilvikum er heimilt að lausráða starfsmann til tiltekins tíma en þó aldrei lengur en til eins árs í senn. Sama gildir um ráðningu í stöður leikskólastjóra og aðstoðarleikskólastjóra.
    Einnig þykir rétt að undirstrika að auk þess að hafa leyfisbréf verður umsækjandi einnig að uppfylla almenn skilyrði til þess að verða ráðinn í stafið. Í lögum hafa ekki verið tilgreind almenn skilyrði fyrir leikskólakennara eða aðra sem starfa í leikskólum við uppeldi og kennslu barna. Ljóst er engu að síður að til þess að geta sinnt tilteknu starfi verða umsækjendur að uppfylla þau almennu skilyrði sem telja verður nauðsynleg til þess að geta gegnt starfinu. Er þá bæði litið til skilyrða sem beinlínis kann að leiða af lögum um leikskóla og þeirra faglegu krafna sem gerðar eru til leikskólakennarastarfsins. Um slík skilyrði kann að verða fjallað í lögum, samþykktum sveitarfélags eða eftir atvikum í kjarasamningum. Hvað sem því líður verður að telja rétt að til almennra skilyrða sé vísað í auglýsingu um starfið og enn fremur til annarra krafna sem gerðar eru. Meðal þess sem hér geta fallið undir eru áskilnaður um heilbrigði, líkamlegt og andlegt, reglusemi og að umsækjandi hafi ekki gerst uppvís að háttsemi sem væri þess eðlis að hann teldist ekki verðugur til þess að gegna starfinu.Við mat á umsóknum, sbr. 23. gr. verður að ganga úr skugga um að þau atriði sem ætlunin er að byggja hafi verið rannsökuð. Á það m.a. við um það hvort umsækjandi hafi gerst brotlegur við ákvæði XXII. kafla almennra hegningarlaga, sbr. ákvæði 3. mgr. 6. gr. frumvarps til laga um leikskóla, sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu. Komi í ljós að umsækjandi uppfyllir ekki þau almennu skilyrði eða þær málefnalegu kröfur sem gerðar eru til starfsins, þrátt fyrir að hafa leyfisbréf, kemur hann ekki til greina í starfið. Telji umsækjandi um starf í leikskóla sveitarfélags rétt á sér brotinn getur hann krafist rökstuðnings og auk þess skotið málinu til félagsmálaráðuneytis með stjórnsýslukæru, sbr. 103. gr. sveitarstjórnarlaga. Í þeim tilvikum sem hér um ræðir er heimilt að lausráða starfsmann til kennslustarfa til eins árs. Starfsmaður verður ekki endurráðinn í þann hluta stöðugilda sem ætlaður er leiksskólakennurum nema að undangenginni auglýsingu. Ekki er gert ráð fyrir undanþágunefnd fyrir leikskólastigið með sama hætti og fyrir grunn- og framhaldsskóla.

Um 21. gr.

    Í ákvæði þessu er lagðar til allnokkrar breytingar frá 10. gr. gildandi laga. Áfram er gert ráð fyrir sérstakri undanþágunefnd fyrir grunnskóla en í nefndina bætist fulltrúi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga en undanfarin ár hefur sambandið átt áheyrnarfulltrúa í nefndinni. Einnig er gert ráð fyrir að samstarfsnefnd um háskólastigið tilnefni í nefndina í stað sameignlegrar tilnefningar Kennaraháskóla Íslands og Háskólans á Akureyri.
    Veigamikil breyting felst í heimild til að lausráða starfsmann til kennslustarfa án endurtekinna auglýsinga þegar um er að ræða endurráðningu leiðbeinanda sem er í kennsluréttindanámi. Gert er ráð fyrir að unnt sé að endurráða slíka starfsmenn strax að vori, þ.e. eftir að lögboðinni auglýsingaskyldu hefur verið fullnægt. Hér er einnig bætt við því ákvæði að ekki þurfi að leita til undanþágunefndar þegar um 240 mínútur eða færri á viku er að ræða fyrir sérfræðing, sbr. nýtt ákvæði í 4. mgr. 12. gr., og er það til samræmis við framhaldsskólastigið.
    Ákvæði um ráðningarformið er breytt til samræmis við ákvæði um ráðningar í sérstökum tilvikum.

Um 22. gr.

    Lagt er til að áfram verði sérstök undanþágunefnd starfandi fyrir framhaldsskóla. Gert er ráð fyrir að nefndin verði skipuð einum fulltrúa Félags íslenskra framhaldsskólakennara, einum fulltrúa tilnefndum af heildarsamtökum kennara og einn án tilnefningar.
    Orðalagi 2. mgr. er breytt frá gildandi lögum til samræmis við orðalagið í ákvæðinu um undanþágunefnd grunnskóla.
    Undanþágubeiðnum á framhaldsskólastigi hefur fækkað á undanförnum árum. Á undanförnum árum hefur verið rætt um að leggja undanþágunefndirnar niður og færa ábyrgð á lausráðningum til einstakra framhaldsskóla. Eftir vandlega skoðun á því máli er lagt til að undanþágunefnd framhaldsskóla starfi áfram.
    Veigamikil breyting felst í heimild til að lausráða starfsmann til kennslustarfa án endurtekinna auglýsinga þegar um er að ræða endurráðningu leiðbeinanda sem eru í kennsluréttindanámi. Gert er ráð fyrir að unnt sé að endurráða slíka starfsmenn strax að vori, þ.e. eftir að lögboðinni auglýsingaskyldu hefur verið fullnægt.
    Gert er ráð fyrir að einstaklingar án kennsluréttinda en með háskólapróf og a.m.k 120 eininga nám í auglýstri kennslugrein, skulu njóta forgangs við lausráðningu í störf í framhaldsskólum. Hér er einkum átt við einstaklinga sem lokið hafa sveinsprófi, öðru fagnámi eða háskólaprófi sem nýtist til kennslu í framhaldsskólum.
    Ákvæði um ráðningarformið er breytt til samræmis við ákvæði um ráðningar í sérstökum tilvikum.

Um 23. gr.

    Í 1. mgr. er fjallað með almennum hætti um þau sjónarmið sem leggja skal til grundvallar við ráðningu skólastjórnenda í leik-. grunn- og framhaldsskólum, sem hlotið hafa leyfisbréf. Uppfylli umsækjendur þau almennu hæfisskilyrði sem nauðsynleg teljast að örðu leyti til þess að geta fengið kennarastarf verður sá sem ræður í starfið að byggja ákvörðun sína á málefnalegum sjónarmiðum. Betur þykir fara á því að tilgreina slík sjónarmið sem almennt eiga við um ráðningu í opinbert starf hvort sem er hjá ríki eða sveitarfélögum í einu ákvæði. Ákvæðið er í samræmi við þá óskráðu reglu að við veitingu starfa hjá opinberum aðilum skuli ráða hæfasta umsækjandann og að slík matskennd ákvörðun verði að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum. Hvernig þau sjónarmið skulu nánar valin fer eftir almennum reglum og ákvörðun stjórnenda. Þó svo ákvæðið geymi nokkuð ítarlega talningu á þeim sjónarmiðum sem komið geta til greina er hún ekki tæmandi. Þannig verður t.d. að taka tillit þess að sjónarmið um jafnrétti kvenna og karla geta fengið aukið vægi og ákvæði um forgang fatlaðra, sbr. 32. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðra.
    Í 2.–5. mgr. eru talin upp þau sjónarmið sem geta haft aukið vægi við ráðningu í kennarastörf samkvæmt frumvarpinu. Gerður er greinarmunur annars vegar í 2. mgr. þar sem um er að ræða grunnskólakennara sem fengið hafa leyfisbréf og hins vegar í 3.–5. mgr. þegar enginn með fullgild kennsluréttindi hefur sótt um laust starf kennara í leik-, grunn- eða framhaldsskóla. Sæki enginn um laust starf kennara í grunnskóla eða framhaldsskóla sem uppfyllir skilyrði laganna skal skólastjóri eða skólameistari, að undangengnu mati, sbr. 1. mgr., sækja um undanþágu, sbr. 21. og 22. gr. Um undanþágur vegna leiksskólakennara fer skv. 20. gr.
    Í 2. mgr. er lagt til að í stað þess að grunnskólakennari, sem hefur sérhæft sig til kennslu í tiltekinni grein, skuli hafa forgang við ráðningu til kennslu í sinni grein/greinum í 8.–10. bekk, þá hafi grunnskólakennari forgang í tiltekinni grein, á tilteknu námssviði eða aldursstigi. Grunnskólakennarar geta því eins notið forgangs til kennslu yngri barna og tiltekinna verk- og listgreina sem kenndar eru á öllum stigum grunnskóla. Gert er ráð fyrir að mat á slíkum forgangi sé í höndum skólastjórnenda og sveitarstjórna.
    Tekið er fram í 3. mgr. að einstaklingar með bakkalárgráðu eða aðrir sem hlotið hafa sambærilega menntun sem nýtist til starfa í leikskólum, njóti forgangs umfram aðra leiðbeinendur við lausráðningu í störf í leikskólum samkvæmt þessari grein. Hér er einkum átt við einstaklinga sem lokið hafa fyrstu háskólagráðu til starfsréttinda í leikskólum.
    Gert er ráð fyrir því í 4. mgr. að einstaklingar án kennsluréttinda en með bakkalárgráðu á sviði uppeldis- og kennslufræða eða aðrir sem hlotið hafa sambærilega menntun sem nýtist til starfa í grunnskólum, njóti forgangs umfram aðra leiðbeinendur við lausráðningu í störf í grunnskólum.
    Loks er í 5. mgr. gert ráð fyrir því að einstaklingar án kennsluréttinda en með háskólapróf og a.m.k 120 eininga nám í auglýstri kennslugrein, skulu njóta forgangs við lausráðningu í störf í framhaldsskólum. Hér er einkum átt við einstaklinga sem lokið hafa sveinsprófi, öðru fagnámi eða háskólaprófi sem nýtist til kennslu í framhaldsskólum.

Um 24. gr.

    Hér er fjallað um gildissvið leyfisbréfa. Í samræmi við ákvæði 3.–5. gr. er áréttað að menntamálaráðherra veiti kennurum leyfisbréfi. Gert er ráð fyrir að ráðherra gefi út leyfisbréf fyrir leikskólakennara og að umsýslan verði með sama hætti og fyrir kennara á grunn- og framhaldsskólastigi.
    Í greininni er því nánar lýst hvert geti verið gildissvið leyfisbréfs á tilteknu skólastigi. Í fyrsta lagi er vísað til þess að leyfisbréf grunnskólakennara sem sérhæft hefur sig í kennslu yngri barna veiti honum heimild til kennslu elstu aldursflokka í leikskólum. Í öðru lagi að leyfisbréf leikskólakennara sem sérhæft hefur sig í kennslu eldri barna veiti honum heimild til kennslu í 1.–3. bekkjum grunnskóla. Í þriðja lagi að leyfisbréf framhaldsskólakennara veiti honum heimild til kennslu á sérsviði sínu í 8.–10. bekkjum grunnskóla og í fjórða lagi að leyfisbréf grunnskólakennara sem lokið hefur a.m.k 120 eininga sérmenntun í kennslugrein veiti honum heimild til kennslu á sérsviði sínu í byrjunaráföngum framhaldsskóla. Með þessu fyrirkomulagi er stuðlað að ákveðnum sveigjanleika milli skólastiga. Til þess að gildissvið leyfisbréfs fái rýmra gildissvið verður hlutaðeigandi kennari að framvísa skriflegum gögnum um að hann hafi þá sérhæfingu og menntun sem vísað er til í ákvæðinu.
    Í 2. og 3. mgr. er lagt til að leikskólakennari með a.m.k. 60 eininga viðbótarmenntun í stjórnun eða sérkennslu eigi rétt á leyfisbréfi sem grunnskólakennari og starfa sem slíkur og með sama hætti að grunnskólakennari sem lokið hefur a. m.k. 60 eininga viðbótarmenntun í stjórnun eða sérkennslu eigi rétt á leyfisbréfi sem leikskólakennari og starfa sem slíkur. Byggist heimild þessi á þeirri framkvæmd matsnefndar grunnskóla að leikskólakennarar með viðbótarmenntun fá nú leyfisbréf sem grunnskólakennarar en eðlilegt er að slíkt gildi einnig um leikskólastigið, enda er lögð áhersla á aukna samfellu milli þessara skólastiga.
    Þá er kveðið á um heimild menntamálaráðherra til þess að fela háskólum, sem hlotið hafa viðurkenningu á grundvelli laga um háskóla og sinna menntun kennara samkvæmt samningi við menntamálaráðuneytið, að annast útgáfu leyfisbréfa samkvæmt ákvæðum frumvarpsins. Með því skapast svigrúm til þess að auka hagkvæmni og einfalda framkvæmd. Gert er ráð fyrir því að menntamálaráðherra veiti hlutaðeigandi sérstök fyrirmæli um hvernig skuli staðið að útgáfu leyfisbréfa.

Um 25. gr.

    Að því er varðar réttindi sem kennarar hafa áunnið sér við gildistöku frumvarpsins er byggt á því að leikskólakennarar með bakkalápróf á sviði leikskólakennarafræða frá viðurkenndri kennaramenntunarstofnun, eða annað jafngilt nám haldi réttindum sínum. Ekki þykir ástæða til þess að setja sérstök tímamörk. Í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða er gert ráð fyrir því að þeir leikskólakennarar sem ákvæðið tekur til geti fengið útgefið leyfisbréf óski þeir eftir því.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að það að grunnskólakennarar og framhaldskólakennarar er hafa leyfisbréf við gildistöku frumvarpsins haldi réttindum sínum með sama hætti og þeir sem öðlast réttindi sín samkvæmt frumvarpinu, sbr. 26. gr.

Um 26. gr.

    Í 1. mgr. er tekið fram að ákvæði frumvarpsins öðlist gildi við birtingu þeirra. Við það er miðað að ákvæði 3.–5. gr. um rétt til leyfisbréfs að loknu meistaranámi taki til þeirra sem hefja nám sitt eftir gildistöku laganna. Samkvæmt því er almennt við það miðað að ákvæði 3.–5. gr. frumvarpsins verði komin að fullu til framkvæmda á árinu 2013. Að því er varðar þá sem nú eru í námi eða hafa hafið nám er veitir þeim réttindi til þess að starfa sem leik-, grunn- eða framhaldsskólakennarar samkvæmt núgildandi lögum er gert ráð fyrir því að þeir hafi lokið námi sínu fyrir 1. júlí 2011. Með þeim hætti gefst hæfilegt svigrúm fyrir þá sem eru í námi eða hafa hafið nám við gildistölu laga þessara að ljúka því og fá útgefið viðeigandi leyfisbréf.

Um 27. gr.

    Lagt er til að ákvæði 5. gr. laga um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla, nr. 72/1996, verði breytt á þann hátt að ekki sé gerð krafa um birtingu auglýsinga um kennslu- og stjórnunarstörf í grunnskólum í Lögbirtingarblaðinu. Lagt er til að ákvæðið hljóði þannig að umrædd störf skuli auglýst. Um er að ræða sama orðalag og notað er um auglýsingar á öðrum skólastigum. Með því er átt við að auglýst sé opinberlega, t.d. með auglýsingu í dagblaði sem gefið er út á landsvísu eða auglýsingu á sérstöku vefsvæði sem ætlað er fyrir laus störf hjá sveitarfélögum.
    Þá er lagt til að 2. mgr. nefndrar 5. gr. verði felld brott, enda er óþarfi að hafa sérstakt ákvæði þess efnis að veita skuli umsækjendum og stéttarfélögum kennara og skólastjórnenda grunnskóla kost á að fá vitneskju um það hverjir hafi sótt um auglýst starf. Almenna heimild er að finna um slíkt að því er varðar umsóknir um störf hjá ríki og sveitarfélögum í 4. tölul. 4. gr. upplýsingalaga, nr. 50/1996.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Ákvæðið er tvíþætt. Annars vegar er tekið fram að leik-, grunn- og framhaldsskólakennarar sem eiga tilkall til leyfisbréfs á tilteknu skólastigi geti leyst þau til sín þegar þeir óska eftir því. Hins vegar er mælt fyrir um að innan tveggja ára frá gildistöku laga þessara skuli endurskoða ákvæði laga nr. 72/1996, um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla. Ákvæði þeirra laga eru að stórum hluta byggð á ákvæðum laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sem felld voru úr gildi 1. júlí 1996 er ákvæði laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, leystu þau af hólmi. Af efni laga nr. 72/1996 er ljóst að þau eiga ekki við lengur nema að litlu leyti. Það er því tímabært að taka þau til gagngerrar endurskoðunar.Fylgiskjal I.


Menntamálaráðuneyti:

Umsögn um frumvarp til laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

    Menntamálaráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa sameiginlega metið forsendur kostnaðaráhrifa vegna frumvarps menntamálaráðherra og eru sammála um eftirfarandi:
    Sé miðað við gildandi ákvæði í kjarasamningum Launanefndar sveitarfélaga við Félag leikskólakennara annars vegar og KÍ fyrir grunnskóla hins vegar um launaauka til þeirra sem lokið hafa meistaranámi má gera ráð fyrir að árlegur launakostnaðarauki verði 65 m.kr. vegna leikskólakennara og 90 m.kr. vegna grunnskólakennara eða samtals 155 m.kr. m.v. launagreiðslu ársins 2007. Er þá miðað við að um 150 leikskólakennarar og um 400 grunnskólakennarar með meistaragráðu séu ráðnir til skólanna á ári hverju. Hér er um árlegan viðbótarkostnað að ræða sem þýðir að við lok 5. skólaársins eftir gildistökuna árið 2013 og 10 árum eftir gildistöku laganna árið 2018 verður árlegur viðbótarkostnaður vegna leikskólakennara með meistaranám 390 m.kr. og vegna grunnskólakennara með meistaranám 540 m.kr. eða samtals um 930 m.kr. Framangreindir útreikningar eru á verðlagi 2007 og taka mið af fyrirliggjandi forsendum um fjölda nýráðinna kennara ár hvert en taka ekki tillit til hugsanlegra kjarabreytinga á komandi árum.
    Menntamálaráðuneytið telur að miðað við sambærilegar reikniforsendur megi áætla að útgjöld ríkissjóðs vegna launa framhaldsskólakennara geti numið allt að 50 m.kr. í formi árlegs kostnaðarauka frá og með árinu 2013 og verði allt að 300 m.kr. árið 2018. Er þá miðað við að um 200 framhaldsskólakennarar með meistaragráðu séu ráðnir til skólanna á ári hverju.
    Aðilar telja að frumvarpið muni hvorki hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs né sveitarfélaga á komandi fjárlagaári.Fylgiskjal II.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um menntun og ráðningu kennara
og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

    Með frumvarpinu eru skilgreindar auknar menntunarkröfur vegna leyfa til að nota starfsheitið leik-, grunn- og framhaldsskólakennari, en í frumvarpinu er lagt til að krafist verði meistaraprófs á öllum skólastigum. Önnur nýmæli í frumvarpinu eru þau að nú er skilgreindur rétturinn til að nota heitið leikskólakennari og til að starfa sem slíkur við leikskóla á vegum opinberra aðila eða við aðra hliðstæða skóla. Leikskólakennarar sem eru með bakkalárpróf á sviði uppeldis- og kennslufræða eða annað fagilt nám sem tryggði kennsluréttindi fyrir gildistöku þessara laga skulu þó halda réttindum sínum. Einnig munu grunn- og framhaldsskólakennarar með leyfisbréf við gildistöku laga þessara halda fullum réttindum. Menntamálaráðuneytið setur eina reglugerð um útgáfu leyfisbréfa til notkunar á starfsheitum leikskóla-, grunnskóla- og framhaldsskólakennara, í stað tveggja. Einstaklingar greiða fyrir útgáfu leyfisbréfa fyrir grunn- og framhaldsskólastigin 5.500 kr., skv. lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs. Gera má ráð fyrir að sama muni gilda um útgáfu leyfisbréfa fyrir leikskólakennara. Áætlað er að tekjur ríkissjóðs vegna leyfisbréfa leikskólakennara muni fyrst um sinn nema 10 m.kr. Í heild er áætlað að árlegar tekjur af leyfisveitingum hækki um 20% og verði um 4,5 m.kr.
    Það helsta í frumvarpinu sem leiðir af sér aukin útgjöld er að menntunarskilyrði til að öðlast starfsheiti og starfsréttindi leik-, grunn- og framhaldsskólakennara eru aukin þar sem gerð er krafa um meistarapróf. Því mun nám leikskólakennara og grunnskólakennara lengjast úr þremur árum í fimm, en nám framhaldsskólakennara lengist úr fjórum árum í fimm. Menntamálaráðuneytið áætlar að krafan um meistarapróf fyrir kennararéttindi muni kosta allt að 80 m.kr. í aukinn árlegan kostnað fyrir ríkissjóð. Þess skal getið að nú þegar fer talsverður fjöldi þeirra sem klára grunnskólakennaranám í meistaranám.
    Auk þess ber að nefna að auknar kröfur um menntun kennara gæti leitt af sér auknar launakröfur viðkomandi stétta. Mjög erfitt er að áætla hvort, hvenær eða hvernig slíkar kröfur yrðu lagðar fram. Fjármálaráðuneytið hefur ekki forsendur til að meta hugsanlegan aukin launakostnað framhaldskóla-, grunnskóla- og leikskólakennara.
    Gert er ráð fyrir því að lögin taki gildi 1. júlí 2008. Ekki er reiknað með neinum auknum útgjöldum fyrr en árið 2011 þegar nemendur í kennaranámi halda áfram í lengra nám en nú er gerð krafa um. Því munu fyrstu kennarar með leyfisbréf samkvæmt þessu frumvarpi útskrifast árið 2013. Óljóst er hvort lengri námstími muni hafa áhrif á ásókn í kennaranám. Þá er talsverð óvissa um hugsanlegar auknar launakröfur kennara.