Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 130. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 336  —  130. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Stefán Aðalsteinsson frá Bandalagi háskólamanna, Harald Benediktsson frá Bændasamtökum Íslands, Sif Traustadóttur frá Dýralæknafélagi Íslands, Svanhildi Konráðsdóttur frá Ferðamálaráði, Pétur Rafnsson frá Ferðamálasamtökum Íslands, Þórð Ásgeirsson frá Fiskistofu, Nökkva Bragason og Ólaf Hjálmarsson frá fjármálaráðuneyti, Pál Þórhallsson frá forsætisráðuneyti, Skúla Skúlason frá Háskólanum á Hólum, Ólöfu Sigurbjartsdóttur frá Héraðs- og Austurlandsskógum, Ágúst Sigurðsson frá Landbúnaðarháskóla Íslands, Jón Gíslason frá Landbúnaðarstofnun, Svein Runólfsson frá Landgræðslu Íslands, Borgþór S. Kærnested, Grétar Snæ Hjartarson og Margréti Margeirsdóttur frá Landssambandi eldri borgara, Valgerði Jónsdóttur frá Norðurlandsskógum, Ragnheiði Ingu Þórarinsdóttur frá Orkustofnun, Guðjón Bragason og Þórð Skúlason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Jón Karl Ólafsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Hallgrím Indriðason frá Skógfræðingafélagi Íslands, Brynjólf Jónsson og Magnús Gunnarsson frá Skógræktarfélagi Íslands, Aðalstein Sigurgeirsson og Jón Loftsson frá Skógrækt ríkisins, Kristínu Lindu Árnadóttur frá Umhverfisstofnun, Magnús Jónsson frá Veðurstofunni og Sigurð Guðjónsson frá Veiðimálastofnun. Nefndinni bárust einnig á fimmta tug umsagna um frumvarpið.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum í þeim tilgangi að færa til verkefni innan Stjórnarráðs Íslands. Er frumvarpið liður í áformum ríkisstjórnarinnar um að endurskipuleggja Stjórnarráðið og ráðuneytin innan þess til að þau geti betur sinnt verkefnum sínum. Þegar hafa verið gerðar lagabreytingar í samræmi við þessa endurskipulagningu, sbr. lög nr. 102/2007, um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, og lög nr. 109/2007, um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands.
    Á þessu þingi hefur nefndin einnig haft til umfjöllunar frumvarp til laga um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð (128. mál). Með framangreindum lögum um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands var meðal annars ákveðið að leggja stofnunina niður sem sérstakt ráðuneyti.
    Með frumvarpinu eru lagðar til nauðsynlegar lagabreytingar til samræmis við tilfærslu málaflokka milli ráðuneyta og skiptist frumvarpið í ellefu þætti. Í fyrsta þætti eru lagðar til breytingar vegna flutnings sveitarstjórnarmála frá félagsmálaráðuneyti til samgönguráðuneytis. Í öðrum þætti eru lagðar til breytingar vegna flutnings ferðamála frá samgönguráðuneyti til iðnaðarráðuneytis og í þriðja þætti eru lagðar til breytingar vegna flutnings alferða frá samgönguráðuneyti til viðskiptaráðuneytis. Þá eru í fjórða þætti lagðar til breytingar vegna fyrirhugaðs flutnings menntastofnana landbúnaðarins frá landbúnaðarráðuneyti til menntamálaráðuneytis. Jafnframt eru í frumvarpinu ákvæði um viðurkenningu, námsframboð og prófgráður þessara stofnana færð til samræmis við rammalög um háskóla, nr. 63/2006. Munu búfræðslulög þó gilda áfram sem sérlög um skólana. Í fimmta þætti eru lagðar til breytingar í þeim tilgangi að færa stjórnsýslulegt forræði og ábyrgð á Skógrækt ríkisins og Landgræðslu ríkisins frá landbúnaðarráðuneyti til umhverfisráðuneytis. Jafnframt eru lagðar til breytingar til að einfalda framkvæmd dýraverndar með búfé og til að tryggja betur sjónarmið umhverfisverndar við innflutning á dýrum. Í sjötta þætti er að finna tillögur um breytingar vegna fyrirhugaðs flutnings vatnamælinga frá iðnaðarráðuneyti til umhverfisráðuneytis. Vatnamælingar eru nú hluti af Orkustofnun og munu flytjast í nýja stofnun ásamt núverandi starfsemi Veðurstofunnar. Í sjöunda þætti er lagt til að stjórnsýslulegt forræði og ábyrgð matvælamála flytjist á forræði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis en þessi málaflokkur heyrir nú undir umhverfisráðuneyti. Samkvæmt þessu verður aukið við hlutverk Landbúnaðarstofnunar sem fær heitið Matvælaeftirlitið og mun sú starfsemi Umhverfisstofnunar sem tengist lögum um matvæli flytjast til Matvælaeftirlitsins ásamt því matvælaeftirliti sem er nú hjá Fiskistofu. Í áttunda þætti er lagt til að málefni Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins flytjist frá viðskiptaráðherra til iðnaðarráðherra. Í níunda þætti eru lagðar til breytingar sem lúta að því að Einkaleyfastofan og hugverkaréttindi á sviði iðnaðar heyri undir viðskiptaráðuneytið. Í tíunda þætti eru lagðar til breytingar vegna flutnings málefna varðandi fasteignir frá dómsmálaráðuneyti til viðskiptaráðuneytis. Í lokaþætti frumvarpsins er lögð til breyting á lögum um Stjórnarráð Íslands þess efnis að meðferð ólokinna mála skuli ljúka í því ráðuneyti sem tekur við málefni.
    Fram hefur komið að óljóst þykir hvað átt sé við með ummælum í athugasemdum frumvarpsins um að vatnamælingar heyri undir umhverfisráðuneyti frá 1. janúar 2008 en að starfsemi þeirra verði vistuð hjá Orkustofnun uns sameiningu þeirra og Veðurstofu Íslands er lokið. Því er til að svara að gert er ráð fyrir því að starfsemi vatnamælinga verði óbreytt vistuð hjá Orkustofnun, undir forræði umhverfisráðherra, þar til sú starfsemi hefur verið sameinuð starfsemi Veðurstofu Íslands í nýja stofnun. Starfsemi vatnamælinga verður því óbreytt þar til ný lög, sem umhverfisráðherra mun undirbúa á árinu 2008, taka gildi.
    Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu: Lagt er til að við frumvarpið bætist nýr kafli um breytingu á lögum um varnir gegn landbroti en tilgangur þeirra er að draga úr eða koma í veg fyrir landbrot og annað tjón á landi, landkostum eða mannvirkjum með fyrirhleðslum gegn ágangi vatna. Skv. 3. gr. laganna fer Landgræðsla ríkisins fyrir hönd landbúnaðarráðherra með yfirstjórn þeirra mála sem lögin fjalla um. Meiri hlutinn leggur til að umhverfisráðherra fari með yfirstjórn þessara mála í stað landbúnaðarráðherra. Í 1. mgr. 6. gr. laga um varnir gegn landbroti er gert ráð fyrir tilkynningarskyldu til Landbúnaðarstofnunar. Meiri hlutinn leggur til að heiti stofnunarinnar breytist.
    Þá eru lagðar til breytingar á 23., 26. og 66. gr. frumvarpsins til að bæta við breytingu á lögum vegna heitis ráðherra og ráðuneyta. Jafnframt er lagt til að tilvísun í 13. gr. laga um landgræðslu í 23. gr. frumvarpsins falli brott. Það verði því áfram landbúnaðarráðherra (sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra frá 1. janúar 2008) sem samþykki sölu á landi sem Landgræðslan hefur eignast skv. 2. tölul. 7. gr. laga um landgræðslu.
    Lögð er til breyting á 29. gr. frumvarpsins í þeim tilgangi að 1. málsl. 2. mgr. 14. gr. laga um dýravernd standi óhaggaður en þar er kveðið á um að dýr skuli ávallt svipt meðvitund áður en blóðtæming fer fram.
    Þá leggur meiri hlutinn til viðbót við a-lið 35. gr. frumvarpsins þannig að við upptalningu bætist orðið frumframleiðsla. Í frumvarpinu og athugasemdum með því kemur fram að ekki sé ætlunin að breyta verksviði heilbrigðisnefnda sveitarfélaganna gagnvart Matvælaeftirlitinu. Verkaskipting milli þessara aðila á því að vera óbreytt frá því sem nú er. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. laga um matvæli falli brott þar sem kveðið er á um að landbúnaðarráðherra fari með yfirstjórn mála er varða eftirlitsstörf dýralækna enda er talið eðlilegt að flokka eftirlitsþætti með samræmdri aðferð. Þykir því rétt að kveða á um með skýrum hætti hvernig háttað er verkaskiptingu vegna frumframleiðslu á landbúnaðarafurðum og þá sérstaklega hvað varðar eftirlit með mjólkurframleiðslu á bæjum. Með frumframleiðslu er átt við framleiðslu, eldi eða ræktun undirstöðuafurða, ásamt uppskeru, mjöltum og framleiðslu eldisdýra fram að slátrun samkvæmt reglugerð EB nr. 178/2002 um almennar meginreglur og kröfur samkvæmt lögum um matvæli, um stofnun Matvælaöryggisstofnunar Evrópu og um málsmeðferð vegna öryggis matvæla. Er því talið rétt að fram komi með skýrum hætti í 35. gr. frumvarpsins, þar sem verkefni Matvælaeftirlitsins eru tilgreind, að stofnunin fari með eftirlit með frumframleiðslu landbúnaðarafurða. Af þessum sökum er lagt til að a-liður 6. gr. laganna taki einnig til frumframleiðslu.
    Gerð er tillaga um breytt orðalag 48. gr. frumvarpsins til að aðlaga það betur verksviði Matvælaeftirlitsins. Þá er lagt til að 52. gr. frumvarpsins falli brott en sambærilegt ákvæði er í 59. gr. þess þar sem gert er ráð fyrir að við lög um Landbúnaðarstofnun bætist ákvæði sem verði 5. gr. a um að ráðherra geti falið Matvælaeftirlitinu að gera samkomulag við aðrar ríkisstofnanir um að annast tiltekna þætti í starfsemi stofnunarinnar. Ekki er því talin þörf á að taka það sérstaklega upp í önnur lög sem falla undir verksvið stofnunarinnar.
    Lögð er til breyting á 55. gr. frumvarpsins en í henni er lagt til að orðið „matvæli“ falli brott úr 2. mgr. 3. gr. og ákvæði til bráðabirgða í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Vegna þessarar breytingar á lögunum er rökrétt að það sama eigi við um orðin „m.a. með tilliti til manneldismála“ í framangreindu ákvæði. Í lögum um matvæli er tekið á öllum þáttum sem varða matvæli og matvælaeftirlit, og þá einnig fræðslumálum, sbr. ákvæði 19. gr. þeirra. Meiri hlutinn leggur því til að orðin „m.a. með tilliti til manneldismála“ falli einnig brott úr lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.
    Lagt er til að gerð verði breyting á 60. gr. frumvarpsins í þá veru að tilvísun í i-lið falli brott. Umræddur liður vísar til verkefna sem matvælasvið Umhverfisstofnunar hefur haft með höndum og gert er ráð fyrir að færist til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis 1. janúar 2008. A-liður í bráðabirgðaákvæðinu mun þá eingöngu taka til verkefna sem eru hjá Fiskistofu en þar er gert ráð fyrir svigrúmi fyrir ráðherra til að ákveða tímasetningu tilfærslu.
    Meiri hlutinn leggur einnig til að við frumvarpið bætist tveir nýir kaflar þar sem verði gerðar breytingar á annars vegar lögum um Rannsóknardeild fiskisjúkdóma og hins vegar vatnalögum. Breytingarnar eru lagðar til vegna ákvæða umræddra laga þar sem vísað er til Landbúnaðarstofnunar enda lagt til í frumvarpinu að nafni stofnunarinnar verði breytt.
    Þá leggur meiri hlutinn til að tvö þeirra ákvæða sem vísað er til í 75. gr. falli brott enda þegar lögð til breyting á þessum ákvæðum í 28. og 29. gr. frumvarpsins. Meiri hlutinn leggur einnig til að Landbúnaðarstofnun fái annað heiti en gert er ráð fyrir í frumvarpinu og kallist Matvælastofnun. Af þessum sökum eru lagðar til breytingar á ýmsum ákvæðum frumvarpsins.
    Þá leggur meiri hlutinn til að við frumvarpið bætist nýr kafli þar sem gerð verði breyting á lögum um stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þessi viðbót við frumvarpið er lögð til vegna fyrirhugaðrar tilfærslu málefna Keflavíkurflugvallar til samgönguráðuneytisins. Áformað er að flytja sérstakt frumvarp síðar á þessu þingi um sameiningu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar í eitt opinbert hlutafélag í eigu íslenska ríkisins þar sem samgönguráðherra fari með hlutabréf íslenska ríkisins í félaginu og önnur atriði varðandi framtíðarskipan mála á Keflavíkurflugvelli. Það frumvarp er enn í undirbúningi en eigi að síður er lagt til að flytja yfirstjórn málefnisins til samgönguráðuneytis nú um áramót.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Karl V. Matthíasson og Jón Magnússon voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 28. nóv. 2007.



Birgir Ármannsson,


form., frsm.


Ágúst Ólafur Ágústsson.


Sigurður Kári Kristjánsson.


Ellert B. Schram.


Ólöf Nordal.