Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 346  —  1. mál.




Nefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2008.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.



Inngangur.
    Fjárlagafrumvarp það sem hér liggur frammi er frumraun núverandi ríkisstjórnar og lagt fram í upphafi kjörtímabils. Við lok síðasta kjörtímabils jukust ríkisútgjöld meira en áður hafði sést í tíð fráfarandi ríkisstjórnar enda var þá einnig mjög góð afkoma á ríkissjóði og tekjuafgangur verulegur þrátt fyrir útgjaldaauka. Í ljósi þeirra váboða sem síðan hafa komið fram í íslensku efnahagslífi, skal viðurkennt að vel hefði mátt fara hægar í aukningu ríkisútgjalda undir lok tímabilsins. Að sjálfsögðu horfa mörg mál sem fram koma í fjárlagafrumvarpinu til framfara. Sérstaklega ber að fagna því að ríkisstjórnin ætlar að standa við það samkomulag sem síðasta ríkisstjórn gerði um að bæta kjör aldraðra og öryrkja.
    Núverandi ríkisstjórn tók við afar góðu búi en um leið vandasömum aðstæðum í þjóðarbúinu vegna viðvarandi uppgangs og góðæris í efnahagslífinu sem margt bendir til að nú sjái fyrir endann á. 2. minni hluti er sammála meiri hlutanum um það mat á aðstæðum að vel geti komið til þess að dragi úr þenslu á næstu missirum, en um það ríkir óvissa sem taka þarf tillit til. En raunalegt er að sjá hversu fjárlagafrumvarp það sem hér er til umræðu er í litlu samræmi við þessar aðstæður og ber í raun öll með sér þau lausatök efnahagsmála sem hafa verið einkenni núverandi stjórnarsamstarfs. Í fyrstu umræðu um fjárlagafrumvarpið sagði Árni Mathiesen fjármálaráðherra m.a.: „Í ljósi þessara markmiða kann ýmsum að þykja vöxtur útgjalda heldur mikill. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs aukist tímabundið sem hlutfall af vergri landsframleiðslu árin 2007–2009, en fari síðan lækkandi þegar ráðstöfun á söluandvirði Landssímans er lokið og dregur úr mótvægisaðgerðum. Rúmlega 86% af hækkun útgjalda af landsframleiðslu frá árinu 2007 til 2008 má rekja til framkvæmda og mótvægisaðgerða og afganginn að mestu til aukinna tilfærsluútgjalda, meðal annars vegna spár um aukið atvinnuleysi svo og vegna samnings um bætt kjör eldri borgara og öryrkja.“
    2. minni hluti telur rangt og beinlínis háskalegt að bregðast þannig við sólarmerkjum um minnkandi þenslu í samfélaginu með hátt stemmdum fjárlögum, enda geti það orðið til að ýta undir brotlendingu skuldsettra heimila og fyrirtækja vegna vaxtahækkana.
    Mikilvægt er að efnahagsstjórn, þar sem fjárlögin eru eitt mikilvægasta stjórntækið, sé ávallt viðbúin að takast á við þær sveiflur sem verða á hverjum tíma. Eins og málum er háttað er mikil óvissa um hagsveiflu næstu missira. Ríkið þarf að vera viðbúið og hafa svigrúm til að bregðast við. Ef þenslan verður áfram mikil, þarf að fara í aðgerðir til að draga úr peningamagni í umferð með sparnaðarhvetjandi aðgerðum en verði samdráttur ráðandi þarf ríkið að koma inn með hvetjandi hætti, t.d. með skattalækkunum.
    Með hátt stemmdu fjárlagafrumvarpi, eins og hér er lagt fram, er þetta svigrúm ríkissjóðs afar lítið ef nokkuð og hagstjórnarmöguleikar eftir því litlir.

Mikil útgjaldaaukning.
    Nú stefnir í að ríkisútgjöld muni aukast um 60 ma.kr. milli áranna 2007 og 2008, þ.e. um rúma 40 ma.kr. samkvæmt fjárlagafrumvarpinu og að hefðbundin framúrkeyrsla verði í kringum 20 ma.kr. Þetta er um þriðjungi meiri aukning en varð milli áranna 2006 og 2007 og sambærileg aukning og sjá mátti á tveggja til þriggja ára tímabili að meðaltali í stjórnartíð fyrri ríkisstjórnar. Það er eðlilegt að einhver aukning verði á ríkisútgjöldum á kosningaári en aðstæður í efnahagslífinu nú kalla þvert á móti á að gætt sé aðhalds og að minnsta kosti ekki siglt hraðar en verið hefur í aukningu ríkisútgjalda.

Tekjur og gjöld ríkissjóðs 2002–2008.
(Milljarðar kr. á verðlagi hvers árs.)

2002 2003 2004 2005 2006 2007 2008
Tekjur 251,6 267,4 306,6 362,6 412,3 438,8 455,8
Gjöld 262,0 282,6 297,4 317,0 350,5 397,6 438,3
Aukning tekna 15,7 39,2 56,0 49,7 26,5 17,0
Aukning gjalda 20,6 14,7 19,7 33,5 47,1 40,7 *
* Gera má ráð fyrir að þessi tala verði um 60 ma.kr. miðað við hefðbundnar framúrkeyrslur.

    Engum vafa er undirorpið að hið hátt stemmda fjárlagafrumvarp sem hér liggur frammi eru ein af ástæðunum fyrir síendurtekinni hækkun stýrivaxta hjá Seðlabanka sem svo aftur skilar sér beint í kjararýrnum skuldsettra heimila í landinu. Önnur afleiðing slælegrar efnahagsstjórnar um hálfs árs skeið skilar sér þegar í horfum á lakara lánshæfismati íslenska ríkisins sem hefur keðjuverkandi áhrif á peningamarkaðinn í heild.
    Þá er áhyggjuefni hversu lítil fylgni er milli aðgerða Seðlabanka Íslands og ríkisvaldsins. Komi til erfiðleika á íslenskum hlutafjármarkaði og í bankarekstri er enn brýnna en ella að þessir aðilar séu samstíga í aðgerðum sínum.
    Nauðsynlegt er að ríkisstjórnin taki fast á efnahagsmálum með aðhaldssömum fjárlögum og undirbúningi skattalækkana sem grípa má til með skömmum fyrirvara ef og þegar til þess kemur að samdráttur verður í einkaneyslu og atvinnulífi. Sterk staða ríkissjóðs samfara mikilli skuldasöfnun almennings og atvinnulífs kallast á um aðgerðir í þá veru út frá almennum reglum um sanngirni og þjóðarsátt. Með því mætti færa hluta af góðri afkomu ríkissjóðs til lækkunar skulda í samfélaginu. Þegar í stað mætti grípa til skattaívilnana vegna hlutafjárkaupa sem verkað getur til að gera lendingu efnahagslífsins mýkri með bindingu sparifjár jafnframt því sem rennt væri sterkari stoðum undir atvinnulíf á viðkvæmum tímum. Sömuleiðis getur ríkið ýtt undir frekari sparnað með endurupptöku sérstaks viðbótarframlags í séreignarlífeyrissjóði og upptöku mótframlags við húsnæðissparnað til kaupa á fyrstu íbúð.
    Framundan er erfiður tími kjarasamninga þar sem takast á miklar væntingar í kjölfar góðæris og horfur á minnkandi þenslu á mörgum sviðum atvinnulífsins. Ríkisvaldið hefur oft þurft að koma inn í gerð kjarasamninga með ýmsum hætti og þarf að vera í stakk búið til að geta einnig gert það á komandi kjarasamningum.

Forsendur frumvarpsins.
    Í frumvarpi til fjárlaga 2008 er gert ráð fyrir að heildartekjur ríkissjóðs verði um 461 ma.kr., þar af nemi skatttekjur um 422 ma.kr. Samkvæmt því er gert ráð fyrir að tekjur verði 85 ma.kr. meiri en er í fjárlögum 2007. Þegar betur er að gáð kemur í ljós að tekjur ríkisins árið 2007 verða líklega um 456 ma.kr., sbr. endurskoðaða tekjuáætlun við 2. umræðu um frumvarp til fjáraukalaga, eða um 80 ma.kr. meiri en gert var ráð fyrir í fjárlögunum. Tekjur ársins 2008 eru því áætlaðar um 5 ma.kr. hærri ef miðað er við endurskoðaða tekjuáætlun 2007. Ný tekjuáætlun fjármálaráðuneytis gerir ráð fyrir því að tekjur ríkisins hækki um 8 ma.kr. og verði 469,4 ma.kr. Munar þar mest um hækkun á virðisaukaskatti um 5 ma.kr. en einnig er gert ráð fyrir að tekjuskattur hækki um 1,5 ma.kr. og stimpilgjöld um 1 ma.kr.
    Gjöldin eru áætluð um 430 ma.kr. og að tekjujöfnuður verði tæplega 31 ma.kr. Gert er ráð fyrir að útgjöldin aukist um 63 ma.kr. milli ára, sé miðað við fjárlög 2007 en um 42 ma.kr. sé miðað við áætluð útgjöld árið 2007. Miðað við fyrri fjárlög þar sem útgjöldin hækkuðu um tæpan 21 ma.kr., eða um rúm 5% af upphaflegri áætlun, má gera ráð fyrir að útgjaldahækkunin á árinu 2008 verði um 24 ma.kr., eða um 17%. Nú þegar hefur ríkisstjórnin sett fram óskalista um hækkun útgjalda upp á 3,7 ma.kr. en þar af fara 2,7 ma.kr. í ýmis útgjöld sem tengjast Keflavíkurflugvelli. Sá milljarður sem þá er eftir dreifist víða en athygli vekur að um 200 m.kr. eru áætlaðar til breytinga á húsnæði vegna breytinga á verkskiptingu ráðuneyta. Þá er gert fyrir lækkun útgjald frá fyrri tillögum og munar þar mest um 2,5 ma.kr. lækkun á framlögum til vegamála. Í heild er gert ráð fyrir að tekjujöfnuður ríkissjóðs aukist um tæpa 9 ma.kr.

Fjárlagafrumvörp, fjárlög og fjárauki 2007–2008.

Tekjur alls Gjöld samtals Tekjujöfnuður
Fjárlög 2007 376.413,7 367.260,0 9.153,7
Frumvarp til fjáraukalaga fyrir 2007 71.861,0 15.826,0 56.035,0
Frumvarp til fjáraukalaga eftir 2. umr. 8.202,0 4.931 3.271,0
Samtals: 456.476,7 388.017 68.459,7
Frumvarp til fjárlaga fyrir 2008 461.168,4 430.354,9 30.813,5
Áætlun fyrir 2. umræðu 469.400,0 434.157,4 39.242,0

    Helstu forsendur frumvarpsins eru að hagvöxtur ársins 2008 verði um 1,2%, samdráttur í þjóðarútgjöldum verði tæplega 5%, en viðsnúningur verði í utanríkisviðskiptum sem beri uppi hagvöxtinn. Gert er ráð fyrir að verulega dragi úr viðskiptahalla, hann verði tæplega 9% af landsframleiðslu, og að atvinnuleysi aukist og verði um 2,9% af vinnuafli. Loks er gert ráð fyrir að verðbólga minnki niður í um 3,3% á árinu 2008 og að það dragi úr einkaneyslu. Helstu óvissuþættir frumvarpsins eru áform um frekari stóriðjuframkvæmdir, ástand á alþjóðamörkuðum, gengi íslensku krónunnar og komandi kjarasamningar. Hér er ekki um að ræða neina smávægilega óvissuþætti og þeir veikja verulega tiltrú á að tekjuáætlunin sé raunhæf og að hún sé trúverðug. Í raun á það við um fjárlagafrumvarpið í heild.

Hagspá fjármálaráðuneytis fyrir árið 2008.

Magnbreytingar, %, milli ára
Einkaneysla –0,9
Samneysla 2
Fjármunamyndun –19,8
Þjóðarútgjöld –4,8
Útflutningur 9,2
Innflutningur –7
Viðskiptajöfnuður –8,8
Hagvöxtur 1,2
Verðbólga 3,3
Atvinnuleysi 2,9
Gengisvísitala 119,3

    Fulltrúar fjármálaráðuneytisins sem kynntu þjóðhagsspá ráðuneytisins og gerðu grein fyrir forsendum tekjuáætlunarinnar lögðu áherslu á að mikið hafi verið lagt upp úr því að bæta áætlanagerð undanfarin ár. Mikilvægt er að sá þáttur fjárlagagerðarinnar sé eins markviss og frekast er kostur. Engu að síður er mjög athyglisvert að veruleg frávik eru í endurskoðaðri tekjuáætlun ársins 2007 frá fjárlögum ársins. Samkvæmt endurskoðaðri áætlun eru heildartekjur ríkissjóðs áætlaðar um 80 ma.kr. meiri en fjárlögin gerðu ráð fyrir og er það rúmlega 21% frávik. Um er að ræða það mikla skekkju að efast má um að finna megi neitt fordæmi um svipað í öðrum löndum sem við berum okkur gjarnan saman við. Þótt ekki sé eingöngu við ráðuneytið að sakast varðandi þessi miklu frávik er ljóst að þau gefa tilefni til að gagnrýna áætlanagerðina og kalla fram ýmsar spurningar um hana. Helstu skýringar sem gefnar hafa verið á frávikunum eru að um hafi verið að ræða verulegt vanmat í hagspá og á hagrænum þáttum. Mikill og viðvarandi þróttur efnahagslífsins er meginskýring á meiri tekjum en fjárlög 2007 gera ráð fyrir, einkaneysla hafi verið mun meiri en gert var ráð fyrir og atvinnuleysi hafi minnkað á þessu ári.
    Ljóst er að gagnrýna má ýmsar forsendur frumvarpsins. Gera má ráð fyrir að áfram verði mikill þróttur í efnahagslífinu og miðað við nýjustu tíðindi er vart hægt að gera ráð fyrir því að úr þeim þrótti dragi eins fljótt og frumvarpið gerir ráð fyrir. Mikil þensla er á vinnumarkaði og engin merki um að úr henni dragi í bráð, þvert á móti er vinnumarkaðurinn í vexti og hálaunastörfum er að fjölga. Framleiðniaukning á sér stað, hvergi eru nein merki um samdrátt í framleiðni og almennt vex kaupmáttur mikið. Líklegt má telja að dragi úr fjárfestingum en sá krepputónn sem er í spám fjármálaráðuneytis og Seðlabanka um 15–20% samdrátt er mjög ósannfærandi. Gera má ráð fyrir að samneyslan verði meiri en gert er ráð fyrir í frumvarpinu enda er verið að leggja til aukin útgjöld í ýmsa málaflokka og reynslan hefur sýnt að frekar er vanáætlað en of þegar nýjungar í velferðarmálum eru innleiddar, en þær eru sem kunnugt er þónokkrar. Hver einkaneyslan verður er erfitt að spá um en spár undanfarinna ára um minnkandi einkaneyslu hafa ekki gengið eftir. Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir mun meiri samdrætti þjóðarútgjalda, þ.e. einkaneyslu, samneyslu og fjármunamyndun, og sama má segja um aðrar helstu hagstærðir. Hér spila margir þættir inn í, t.d. vaxtaákvarðanir Seðlabanka Íslands og gengi krónunnar. Þróunin á húsnæðismarkaði skiptir einnig miklu máli en hækkun fasteignaverðs hefur verið einn helsti verðbólguvaldurinn á undanförnum árum. Gert var ráð fyrir áframhaldandi miklum umsvifum í byggingariðnaði þar sem aukin fólksfjölgun og mikill kaupmáttur mundi áfram halda uppi eftirspurn eftir húsnæði. Eftir miklar vaxtahækkanir á húsnæðislánum í kjölfar stýrivaxtahækkunar Seðlabanka Íslands og yfirlýsingar forsætisráðherra um að fólk ætti að halda að sér höndum í fasteignakaupum er fasteignamarkaðurinn í uppnámi. Forsendur frumvarpsins um 1,2% hagvöxt eru ekki í takti við það sem greiningardeildir bankanna spá. Hagspár eru á bilinu 2,0–3,8% en í nýjustu spá Seðlabankans (Peningamál 2007:3) er gert ráð fyrir 0,4% hagvexti. Svartsýni Seðlabanka Íslands um framvindu íslenskra efnahagsmála er áfellisdómur yfir hagstjórninni.

Hagspár 2008.

ASÍ Fjármálaráðun. Glitnir Kaupþing Landsbankinn Seðlabankinn
Einkaneysla –0,6 –0,9 –1 –1,7 2,5 –1,7
Samneysla 2,7 2 2,8 3,6 3,1 3,4
Fjármunamyndun –4,4 –19,8 –13 –4,7 1,6 –15,3
Þjóðarútgjöld –0,8 –4,8 –3,2 –1,3 2,5 –3,7
Útflutningur 6,5 9,2 13,7 9,8 4,9 14,1
Innflutningur –2,9 –7 –2,3 –3,8 1,2 –0,1
Viðskiptajöfnuður –9,1 –8,8 –10,3 –10,7 –15,5 –14,4
Hagvöxtur 2,3 1,2 2 3,8 3,7 0,4
Verðbólga 4,7 3,3 4,5 3,9 2,2 4,1
Atvinnuleysi 1,5 2,9 1,8 3,3 1,3 2,7
Gengisvísitala* 119,3 121,6 122 121,1 118,8
* ASÍ gerir ráð fyrir að gengisvísitalan verði 118–123 á árunum 2007–2009.

    Tekjuskattur lögaðila hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár og tekjuskattur lögaðila hefur verið verulega vanáætlaður í tekjuáætlun frumvarpsins. Á sama hátt eru áætlaðar tekjur af tryggingagjaldi vanáætlaðar í frumvarpinu. Ef gengið er út frá því að umsvif efnahagslífsins verði meiri en forsendur frumvarpsins gera ráð fyrir þá liggur fyrir að tekjur af virðisaukaskatti eru vanáætlaðar í frumvarpinu. Fjármagnstekjuskattur hefur aukist mjög mikið á undanförnum árum og í frumvarpinu er gert ráð fyrir að tekjur af honum aukist á næsta ári. Fjármagnstekjuskattur er mjög kvikur tekjustofn sem endurspeglar m.a. þróun hlutabréfamarkaðar og óvarlegt er að treysta um of á hann til tekjuöflunar, sérstaklega í ljósi núverandi aðstæðna.
    Atvinnuleysi hefur verið um eða undir 1% mestan hluta árs 2007. Rök fyrir því að atvinnuleysi muni aukast hratt á næsta ári og verða 2,9% á ársgrundvelli eru ekki haldbær. Allt útlit er fyrir að umsvif í atvinnulífinu verði áfram mikil á næsta ári, enda engin sérstök merki um samdrátt á vinnumarkaði.
    Forsendur frumvarpsins um að verðbólga minnki í 3,3% árið 2008 eru ekki trúverðugar, m.a. miðað við álit ýmissa greiningaraðila og útlit varðandi ýmsa áhrifaþætti hagkerfisins. Miðað við síðustu ákvarðanir Seðlabanka um hækkun stýrivaxta verður að telja forsendur frumvarpsins lýsa bjartsýni, 12 mánaða verðbólga mælist nú yfir 5%. Við ákvörðun um stýrivexti leitast Seðlabanki við að spá um ástand efnahagsmála meira en ár fram í tímann og við nýjustu ákvörðun um hækkun stýrivaxta hlýtur Seðlabanki að gera ráð fyrir að verðbólguþrýstingur sé meiri en áður var gert ráð fyrir. Það er að mörgu leyti rökrétt að gera ráð fyrir meiri verðbólgu árið 2008 en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Það liggur fyrir að óvissuþættir eru það veigamiklir að gera má ráð fyrir miklum frávikum frá áætluninni og að heildartekjur ríkissjóðs verði mun meiri en frumvarpið gerir ráð fyrir. Ráðaleysi ríkisstjórnarinnar í stjórn efnahagsmála gefur heldur ekki tilefni til að ætla að draga muni úr þenslu í hagkerfinu eins og þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins gerir ráð fyrir. Því eru öll teikn á lofti um að því miður sé um að ræða verulegt vanmat í hagspá og á hagrænum þáttum í forsendum tekjuáætlunar frumvarpsins.

Hagstjórnin.
    Hagstjórn hefur verið gagnrýnd af greiningardeildum innlendra banka, fjölmörgum hagsmunasamtökum atvinnurekenda og launþega, sem og erlendum matsfyrirtækjum. Nýlega breytti matsfyrirtækið Standard & Poor's horfum á lánshæfismati ríkissjóðs úr stöðugum í neikvæðar.
    Í fréttatilkynningu Seðlabanka Íslands sagði m.a.: „Matsfyrirtækið Standard & Poor's greindi frá því í dag (20. nóvember 2007) að það hefði breytt horfum á lánshæfismati ríkissjóðs Íslands í neikvæðar úr stöðugum. Matsfyrirtækið staðfesti einnig óbreyttar lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs Íslands í erlendri mynt A+ (les: A plús) fyrir langtímaskuldbindingar og A-1 (les: A1) fyrir skammtímaskuldbindingar. Í íslenskum krónum eru einkunnirnar AA (les: AA) fyrir langtímaskuldbindingar og A-1+ (les: A1 plús) fyrir skammtímaskuldbindingar. Endurskoðun á horfunum endurspeglar vaxandi og þrálátt ójafnvægi í íslenska hagkerfinu, auk skorts á aðhaldi í ríkisfjármálum. Þótt skammtímaraunvextir Seðlabankans hafi farið yfir 8% er virkni miðlunar peningastefnunnar takmörkuð af snarpri aukningu í erlendum lántökum heimila og lítilli svörun vaxta á íbúðalánum við auknu aðhaldi peningastefnunnar. Endurnýjaður vöxtur í neyslu og seinkun á aukningu útflutnings leiða til þess að viðskiptahallinn mun ekki lagast eins hratt og búist var við. Áframhald á mikilli lántöku til húsnæðiskaupa kyndir undir verðhækkunum á húsnæði sem aftur dregur úr hjöðnun verðbólgu. Þetta er undirrót þess að Seðlabankinn hækkaði stýrivexti í 13,75% í nóvember 2007. Hagvöxtur hefur verið mikill í síðustu uppsveiflum í fjárfestingu og útlánum og á húsnæðismarkaði. En hægja mun óhjákvæmilega á honum þegar hagkerfið kólnar. Veruleg hætta er á að hagvöxtur dragist saman vegna áhrifa frá leiðréttingu á gengi, fasteignamarkaði eða lánamarkaði. Fjármál hins opinbera bötnuðu verulega í efnahagsuppsveiflunni. Afgangur af rekstri ríkis og sveitarfélaga var að meðaltali 5,6% af VLF árin 2005–2007. Ásamt myndarlegum tekjum frá einkavæðingu mun þetta hjálpa til við að færa skuldir hins opinbera undir 10% af VLF árið 2007 úr 38% árið 2003. Hins vegar hafa óbeinar ábyrgðir vegna fjármálageirans vaxið mikið vegna hraðrar útlánaaukningar innanlands. Neikvæðar horfur endurspegla vaxandi hættu á harðri lendingu íslenska hagkerfisins. Sá efnahagssamdráttur sem nú er hafinn mun hjálpa til við að vinda ofan af efnahagslegu ójafnvægi en sú þróun mun líklega tefjast vegna áætlana um hraða aukningu á útgjöldum hins opinbera sem og því að stöðugt hefur mistekist að endurskipuleggja Íbúðalánasjóð. Í tengslum við háa og hækkandi innlenda og alþjóðlega vexti munu þessir þættir auka áhættuna á harðri lendingu íslenska hagkerfisins. Lánshæfismatið gæti lækkað ef jafnvægi fæst aðeins með harkalegri aðlögun, sem hefði áhrif á stöðu opinberra fjármála þegar halli á ríkissjóði vex og gengið verður á óbeinar ábyrgðir. Ef hins vegar verður undið ofan af ójafnvæginu án verulegra vankvæða og áhættu því samfara er hamin ættu horfur aftur að verða stöðugar á ný.“
    Eins og fram kemur í áliti Standard & Poor's er ástæða lækkunar lánshæfismatsins vaxandi og þrálátt ójafnvægi í hagkerfinu og skortur á aðhaldi í ríkisfjármálum. Aukin hætta er á harðri lendingu hagkerfisins. Hröð aukning opinberra útgjalda viðheldur efnahagslegu ójafnvægi og við það ástand bætast háir og hækkandi innlendir og alþjóðlegir vextir. Lítið hefur dregið úr viðskiptahalla vegna aukinnar neyslu og seinkunar á útflutningsaukningu. Með þessu áliti Standard & Poor's hefur íslenskum stjórnvöldum verið gefið gula spjaldið með þeim skilaboðum að nauðsynlegt sé að ná betri tökum á ríkisfjármálum, vilji stjórnvöld forðast lækkun á lánshæfiseinkunum ríkissjóðs. Enn um sinn haldast lánshæfiseinkunnir óbreyttar en Standard & Poor's segir að gangi lending hagkerfisins ekki mjúklega fyrir sig gæti orðið breyting þar á. Að sama skapi verður horfunum breytt í stöðugar á ný ef vel tekst til að binda enda á það ójafnvægi sem einkennt hefur íslenska hagkerfið undanfarin missiri.
    Þótt matsfyrirtækið Standard & Poor's hafi ekki breytt lánshæfismati íslenska ríkisins, heldur eingöngu breytt horfum úr stöðugum í neikvæðar, eru þetta slæm tíðindi fyrir ríkissjóð. Þegar mati á horfum hefur verið breytt eru miklar líkur á að innan nokkurra mánaða verði lánshæfismatinu breytt í takt við þær breytingar sem voru gerðar á horfunum. Fari svo að lánshæfismatið verði lækkað verða afleiðingarnar þær að íslenska ríkið fær verri lánskjör á erlendum og innlendum lánamarkaði. Að vísu er ríkið ekki stór lántakandi vegna sterkrar stöðu ríkissjóðs en lánshæfismatið hefur áhrif á lánshæfismat íslenskra ríkisfyrirtækja, svo sem Landsvirkjunar og Íbúðalánasjóðs, en hvort um sig er stór lántakandi, og hefur líklega einnig áhrif á lánshæfismat fjármálafyrirtækja.
    Greining og álit Standard og Poor's er fyrst og fremst áfellisdómur yfir íslenskri hagstjórn frá því að núverandi ríkisstjórn tók við. Í öllum meginatriðum er það samhljóða greiningu og áliti Seðlabanka Íslands eins og það birtist í Peningamálum 2007:3. Bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa gagnrýnt Standard & Poor's fyrir álit þess. Forsætisráðherra sagði m.a. í viðtali við Morgunblaðið 21. nóvember: „Auðvitað er það óheppilegt að þeir skuli breyta horfunum en ég tel að rökstuðningnum fyrir því sé nokkuð ábótavant.“ Hann sagði einnig að „ákvörðun Standard & Poor's komi á óvart og ýmsar forsendur sem matsfyrirtækið gefi sér séu heldur vafasamar“ að hans mati og „ekki í samræmi við raunveruleikann hér á landi“. Hann benti á að flestir þeirra sem verið hefðu að spá um efnahagsmál á Íslandi gerðu ráð fyrir því að viðskiptahallinn minnkaði hratt og hagvöxtur yrði minni en verið hefði og þannig mundi draga úr þenslu. Þá væri mjög myndarlegur afgangur af ríkisbúskapnum og skuldir hins opinbera hefðu minnkað mikið. Nýjustu breytingar á fjáraukalagafrumvarpinu sýndu einnig að tekjuafgangur ríkissjóðs væri að aukast þrátt fyrir að óhjákvæmilegt væri að bæta við útgjöld í nokkrum greinum „og það er ekki ólíklegt að þannig verði það líka með fjárlagafrumvarpið sjálft fyrir næsta ár“. Hér er forsætisráðherra að segja að ekki sé gert ráð fyrir að fara að ábendingum Standard & Poor's varðandi hagstjórnina. Fjármálaráðherra tekur öllu dýpra í árinni enda virðist hann ekki átta sig ástandinu. Í viðtali við Morgunblaðið 21. nóvember sagði hann m.a. „Stundum áttar maður sig hreint ekki á álitum sem koma frá þessum aðilum. Það er sífellt talað um sömu hlutina, alveg sama hverjar aðstæðurnar eru. Það er sama hvort við erum búin að skera framkvæmdir ríkissjóðs niður í 1% af landsframleiðslu eða hvort þær eru 2% af landsframleiðslu. Það eru sömu athugasemdirnar sem koma frá þeim við aðstæður sem eru allt aðrar. Það hlýtur að segja manni að þeir eru ekkert að skoða aðstæðurnar hérna hjá okkur.“
    Þessar yfirlýsingar eru sérkennilegar í ljósi þess að erlend matsfyrirtæki hafa mikil og náin samskipti við Seðlabanka Ísland sem útvegar allar nauðsynlegar upplýsingar. Þau fá m.a. allar upplýsingar um þjóðhagsreikninga, verðvísitölur og milliríkjaviðskipti. Þeim er haldið upplýstum um allt sem Seðlabankinn gerir og bankinn sér til þess að matsfyrirtækin fá ávallt nýjustu upplýsingar sem til eru um íslensk efnahagsmál. Matsfyrirtækin láta sér þetta ekki nægja og fulltrúar fyrirtækjanna koma til landsins öðru hverju til að gera sínar eigin úttektir. Í slíkum heimsóknum ræða þeir við starfsmenn Seðlabankans, fara í viðskiptabankana, opinberar stofnanir, ráðuneyti, fyrirtæki og í háskóla og ræða m.a. við hagfræðinga og stjórnmálafræðinga. Starfsmenn Seðlabankans hitta þar að auki matsmenn fyrirtækjanna reglulega á fundum erlendis og einnig eru haldnir símafundir, komi eitthvað sérstakt upp á. Kostnaðurinn við þessa vinnu fyrirtækjanna er greiddur af ríkissjóði samkvæmt samningum við þau.
    Lánshæfismat er forsenda þess að ríkissjóður geti gefið út skuldabréf á alþjóðamarkaði og lánshæfismatið hefur einnig áhrif á lánshæfismat íslenskra fyrirtækja. Með því að gera lítið úr lánshæfimatinu er verið að gera lítið úr þeim vinnureglum sem viðhafðar eru á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og vissulega er það athyglisvert að forsætisráðherra og fjármálaráðherra Íslands láti til sín taka á þeim markaði. Fjárhagsleg staða ríkissjóðs er afar sterk og hefur aldrei verið betri og þess vegna túlka greiningardeildir á fjármálamarkaði breytingu á horfum að verulegu leyti sem áfellisdóm yfir stjórn efnahags- og ríkisfjármála. Einkum er bent á að þrátt fyrir metháa stýrivexti hafi einkaneyslan á ný farið á fullan skrið og erfiðlega gangi að hemja verðbólguna. Það er í raun ríkisvaldið sem er helsti þensluvaldur og verðbólguhvati í hagkerfinu en almenningi er kennt um.
    Aðalatriðið er að greining og álit Standard & Poor's er í öllum aðalatriðum samhljóða áliti Seðlabanka Íslands, sbr. Peningamál 2007:3, og þegar forsætisráðherra og fjármálaráðherra eru að gagnrýna Standard & Poor's eru þeir í raun að gagnrýna fyrrverandi leiðtoga sinn, Davíð Oddsson, sem nú stýrir Seðlabankanum.

Útgjöld.
    Sem fyrr segir er staða ríkissjóðs sterk en aðstæður til að nýta sér þann mikla afgang sem er hafa sjaldan verið verri vegna óvissu í hagkerfinu.

Skipting útgjalda eftir málaflokkum.1

Rekstrargrunnur, m.kr. Reikningur
2005
Reikningur
2006
Fjárlög
2007
Áætlun
2007
Frumvarp
2008
Almenn opinber þjónusta 16.859 18.217 20.542 22.270 21.640
Löggæsla og öryggismál 13.490 15.234 15.761 16.398 19.687
Fræðslumál 30.205 34.004 36.988 38.060 40.975
Heilbrigðismál 79.302 88.489 93.636 95.902 102.695
Almannatryggingar
    og velferðarmál
67.837 71.553 86.615 85.548 94.311
Húsnæðis-, skipulags-
    og hreinsunarmál
3.261 3.622 3.980 5.080 4.980
Menningar- og kirkjumál 11.836 13.979 14.043 14.249 14.824
Eldsneytis- og orkumál 2.327 2.314 2.245 2.361 2.076
Landbúnaðar- og sjávarútvegsmál 17.024 16.307 15.990 16.529 16.546
Iðnaðarmál 1.484 1.560 1.536 1.536 1.704
Samgöngumál 18.541 21.941 25.401 24.551 44.650
Önnur útgjöld vegna atvinnuvega 5.430 4.847 5.389 5.806 6.286
Önnur útgjöld ríkissjóðs 40.798 48.103 45.135 53.938 59.983
Samtals 308.393 340.170 367.260 382.228 430.355
1    Samkvæmt COFOG-staðli, sem er alþjóðlegur staðall Sameinuðu þjóðanna (Classification of the Functions of Government).
2    Fjárlög að viðbættum fjáraukalögum ársins.

    Þegar litið er á hagræna skiptingu útgjalda í fjárlagafrumvarpinu sést að hækkun einstakra liða er afar mismunandi og langmestu munar um nærri tvöföldun útgjalda til samgöngumála. Í breytingartillögum meiri hlutans fyrir aðra umræðu hefur upphæð til samgöngumála verið lækkuð um hálfan þriðja milljarð, úr tæplega 45 ma.kr. Heildarupphæðin sem ríkisstjórnarmeirihlutinn hyggst verja til framkvæmda er eftir sem áður tvöföld sú upphæð sem áætluð var í samgönguáætlun sem lögð var fram á nýliðnum vetri eða liðlega 40 ma.kr. á meðan samgönguáætlun gerir ráð fyrir tæplega 22 ma.kr. 2. minni hluti fjárlaganefndar styður öll þau áform sem eru um samgöngubætur í landinu en telur að fyrirheit þau sem felast í umræddri hækkun séu langt því frá að vera raunhæf vegna skipulagsmála, hönnunar og umhverfismats og ekki síður vegna takmarkana sem ákvarðast af getu íslensks atvinnulífs til framkvæmda. Rétt er að minna á að við fyrstu umræðu um frumvarpið lýstu bæði formaður og varaformaður fjárlaganefndar efasemdum sínum um hversu raunhæf þessi framkvæmdaáætlun væri. 2. minni hluti fjárlaganefndar leggur til að umrædd hækkun verði endurskoðuð og færð nær raunhæfum markmiðum um það sem hægt er að framkvæma á árinu.
    Af öðrum liðum í útgjaldaskiptingu vekur stórfelld hækkun útgjalda vegna löggæslu og öryggismála athygli og sömuleiðis hækkun annarra óskilgreindra útgjalda ríkissjóðs. 2. minni hluti telur að hér hefði mátt beita aðhaldi að því marki að hækkun fjárlaga milli ára væri sambærileg og ekki hærri en það sem var í stjórnartíð Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Í frumvarpi til laga vegna breytinga á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins (þskj. 131, 130. mál 135. löggjafarþings) segir orðrétt um kostnað vegna frumvarpsins: „Fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir að áhrif frumvarpsins á kostnað ríkissjóðs verði einkum í formi tilflutnings á kostnaði milli ráðuneyta og stofnana og auki þannig ekki heildarkostnað ríkissjóðs. Samkvæmt lauslegu yfirliti sem ráðuneytið hefur tekið saman kann þessi tilflutningur að snerta fjárveitingar um 200 viðfangsefna á fjárlögum og er áformað að flytja tillögur þess efnis við 2. umræðu fyrirliggjandi fjárlagafrumvarps. Í einhverjum tilvikum kann þó að koma til breytinga á kostnaði, svo sem vegna breytinga á starfsmannafjölda eða húsnæði, en komi til slíkra óvæntra útgjalda eða biðlauna verður að fjalla um það sérstaklega. Markmið ríkisstjórnarinnar í því sambandi er að þeim kostnaði verði haldið í lágmarki þannig að hann rúmist innan ramma viðkomandi ráðuneyta og stofnana.“ Síðan umrætt þingskjal var lagt fram hafa komið fram útgjaldatillögur vegna breytinga á Stjórnarráðinu í fjáraukalagafrumvarpi og fjárlagafrumvarpi sem nema líklega hundruðum milljóna. Það er mat 2. minni hluta að þó sé ekki kominn fram allur sá útgjaldaauki sem verður vegna þessa og gagnrýnir harðlega vinnulag fjármálaráðuneytis við málið. Umræddur útgjaldaauki mun allur verða til aukinnar þenslu á helsta þenslusvæði landsins.
    Á nýliðnu sumri lagði Framsóknarflokkurinn fram tillögur að mótvægisaðgerðum vegna skerðingar á aflamarki, sjá fylgiskjal. 2. minni hluti bendir á að sú viðbót sem þar er lögð til er óveruleg og verður hæglega vegin upp með fyrrgreindu mati á raunhæfni í vegaframkvæmdum og frestun á breytingum á Stjórnarráðinu.

Niðurstaða.
    2. minni hluti fjárlaganefndar gagnrýnir harðlega þau lausatök sem eru á efnahagsstjórninni og koma skýrt fram í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Bent er á að grípa þarf til aðhaldsaðgerða í ríkisfjármálum. Jafnframt því þarf ríkisvaldið að vera búið undir skattalækkanir ef til niðursveiflu kemur í hagkerfinu. Þá telur 2. minni hluti að mikil hækkun ríkisútgjalda, átök milli ríkisvalds og Seðlabanka um efnahagsstjórnina og óraunhæfar tillögur um vegaframkvæmdir verki allt til þess að skapa óvissu sem eykur líkur á harðri lendingu eftir samfellt hagvaxtar- og hagsældarskeið í tíð síðustu ríkisstjórnar.

Alþingi, 27. nóv. 2007.



Bjarni Harðarson.



Fylgiskjal.


Tillögur þingflokks framsóknarmanna um mótvægisaðgerðir
vegna niðurskurðar þorskkvóta.

(www.framsokn.is, september 2007)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.