Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 181. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 349  —  181. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum.

Frá viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigríði Rafnar Pétursdóttur frá viðskiptaráðuneyti. Nefndinni bárust einnig umsagnir um málið.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 3. og 4. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.
    Á 134. löggjafarþingi voru samþykkt á Alþingi lög nr. 111/2007, um breytingar á lagaákvæðum um fjármálafyrirtæki o.fl.
    Lögin fólu m.a. í sér breytingu á 3. mgr. 3. gr. laga um fjármálafyrirtæki þar sem kveðið er á um undanþágu tiltekinna aðila frá leyfisskyldri starfsemi. Við gildistöku laganna urðu rekstrarfélög verðbréfasjóða og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu undanskilin gildissviði laga um fjármálafyrirtæki, en það fer gegn öðrum ákvæðum laganna sem hafa þvert á móti að geyma ýmis ákvæði er varða slík rekstrarfélög.
    Lögin fólu einnig í sér breytingu á 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um fjármálafyrirtæki sem mælir fyrir um hvaða starfsemi sé starfsleyfisskyld. Stafliðum 6. tölul. 1. mgr. var fjölgað en við þá breytingu riðlaðist röð stafliða ákvæðisins frá því sem áður var. Við setningu laganna láðist hins vegar að gera ráð fyrir þessari breytingu í 7. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um fjármálafyrirtæki sem vísar til stafliðar í 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. sömu laga.
    Nauðsynlegt er að bæta úr þessum ágöllum og er frumvarpið lagt fram í þeim tilgangi.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    
Árni Páll Árnason, Jón Gunnarsson og Höskuldur Þórhallsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Atli Gíslason sat fund fyrir Jón Bjarnason.
    Jón Magnússon er áheyrnarfulltrúi í nefndinni og er hann samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 27. nóv. 2007.



Ágúst Ólafur Ágústsson,


form., frsm.


Guðfinna S. Bjarnadóttir.


Atli Gíslason.



Birgir Ármannsson.


Birkir J. Jónsson.


Björk Guðjónsdóttir.