Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 305. máls.

Þskj. 377 —  305. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




1. gr.

    Í stað „0,12%“ í 3. mgr. 22. gr. laganna kemur: 0,65%.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Samkvæmt lögum um fjarskipti geta fyrirtæki sem veita alþjónustu átt rétt á framlögum úr jöfnunarsjóði alþjónustu. Hingað til hefur Neyðarlínan ehf. eitt fyrirtækja fengið greitt úr sjóðnum og hefur svo verið allt frá árinu 2000. Á árunum 2000 og 2001 voru lögð fram frumvörp á Alþingi þar sem álagningarstofninn var ákveðinn sérstaklega fyrir hvert ár, sbr. 3. mgr. 15. gr. fjarskiptalaga, nr. 107/1999, sbr. lög nr. 72/2000 og lög nr. 160/2000. Með lögum nr. 145/2001 var hins vegar gerð sú breyting á 3. mgr. 15. gr. þágildandi fjarskiptalaga að gjaldstofninn var gerður ótímabundinn og því gert óþarft að leggja sérstakt frumvarp fyrir Alþingi nema breytingar yrðu á fjárþörf eða tekjum jöfnunarsjóðsins. Sami háttur var hafður á þegar núgildandi fjarskiptalög voru samþykkt, sbr. 3. mgr. 22. gr. laganna. Hefur því ekki verið ástæða til að breyta álagningarprósentunni enda hefur hún reynst nægileg til að standa undir þeim skuldbindingum sem fallið hafa á sjóðinn vegna Neyðarlínunnar ehf. Þann 11. júní sl. tók Póst- og fjarskiptastofnun ákvörðun um framlag að fjárhæð 29.688.000 kr. úr jöfnunarsjóði til Neyðarlínunnar vegna rekstrar talsímaþjónustu á sviði neyðarþjónustu og svörunar neyðarsímtala vegna ársins 2007.
    Þann 7. desember 2006 tók Póst- og fjarskiptastofnun ákvörðun um framlag til handa Símanum hf. úr jöfnunarsjóði alþjónustu vegna ársins 2005, að fjárhæð 18.880.079 kr., vegna veitingar gagnaflutningsþjónustu með 128 kb/s flutningsgetu. Ákvörðun stofnunarinnar var kærð til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála. Nefndin kvað upp úrskurð 10. október 2007 (mál 1/2007) um að greiðsla úr sjóðnum vegna kostnaðar Símans hf. af alþjónustukvöð fyrir árið 2005 væri 163.233.277 kr. Samtals hafa því fallið skuldbindingar á jöfnunarsjóð á þessu ári sem nema 192.921.277 kr.
    Núgildandi álagningarprósenta er 0,12% af bókfærðri veltu fjarskiptafyrirtækja, sbr. 3. mgr. 22. gr. fjarskiptalaga. Sú álagningarprósenta tekur einungis mið af fyrri útgjöldum vegna framlags til Neyðarlínunnar. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar er það hlutverk Póst- og fjarskiptastofnunar að endurskoða fjárþörf jöfnunarsjóðs alþjónustu. Niðurstaða þeirrar endurskoðunar, ásamt tillögu um breytt gjaldhlutfall skal lögð fyrir samgönguráðherra. Eins og fjallað er um hér að framan er ljóst að sjóðurinn mun ekki að óbreyttu geta staðið undir þeim skuldbindingum sem á hann hafa fallið. Í ljósi þess er óumflýjanlegt að gerðar verði breytingar á 3. mgr. 22. gr. fjarskiptalaga og álagningarprósenta hækkuð þannig að jafnvægi skapist í rekstri sjóðsins. Í ljósi framangreinds lagði Póst- og fjarskiptastofnun til við samgönguráðherra að álagningarprósenta (gjaldhlutfall) jöfnunargjalds yrði hækkuð úr 0,12% í 0,65%.
    Í samræmi við tillögu stofnunarinnar er lagt til að jöfnunargjald verði ákveðið 0,65% fyrir árið 2008. Prósentutala þessi er miðuð við áætlaða veltu gjaldskyldra aðila á árinu 2008 (32 milljarðar). Ef frumvarpið verður að lögum verða heildartekjur jöfnunarsjóðs á árinu 2008 í kringum 208 millj. kr.
    Álagning og innheimta jöfnunargjalds fer að öðru leyti eftir ákvæðum VIII.–XIV. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.




Fylgiskjal I.


A. Stofn til jöfnunargjalds.
Texti Stofn
Innheimt 2006 – Stofn 2005 24.500.000.000
Innheimt 2007 – Stofn 2006 28.850.000.000
Innheimt 2008 – Stofn 2007 – Áætlun 31.000.000.000
Innheimt 2009 – Stofn 2008 – Áætlun 32.000.000.000


B. Jöfnunargjald m.v. jöfnunargjaldsstofn.
Ál. % Innheimt 2006
– Stofn 2005
Innheimt 2007
– Stofn 2006
Innheimt 2008
– Stofn 2007
Innheimt 2009
– Stofn 2008
0,60% 147.000.000 173.100.000 186.000.000 192.000.000
0,65% 159.250.000 187.525.000 201.500.000 208.000.000
0,70% 171.500.000 201.950.000 217.000.000 224.000.000
0,75% 183.750.000 216.375.000 232.500.000 240.000.000




Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjarskipti,
nr. 81/2003, með síðari breytingum.

    Meginmarkmiðið með frumvarpinu er að gera þá breytingu á 3. mgr. 22. gr. laga um fjarskipti að í stað 0,12% kemur 0,65%. Með þessari lagabreytingu er gert ráð fyrir því að heildartekjur jöfnunarsjóðs alþjónustu á árinu 2008 verði í kringum 208 m.kr. ef tekið er mið af áætlaðri veltu gjaldskyldra aðila fyrir það sama ár eða 32.000 m.kr. Hér er því um að ræða tekjuaukningu upp á tæpar 170 m.kr.
    Samkvæmt lögum um fjarskipti geta fyrirtæki sem veita alþjónustu átt rétt á framlögum úr jöfnunarsjóði alþjónustu. Hingað til hefur Neyðarlínan ehf. eitt fyrirtækja fengið greitt úr sjóðnum og er ákvarðað framlag til stofnunarinnar vegna ársins 2007 29,7 m.kr. Við þetta hefur hins vegar bæst ákvörðun úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála er tilgreinir að Símanum hf. beri að fá 163,2 m.kr. greiddar úr sjóðnum vegna ársins 2005. Samtals hafa því fallið skuldbindingar á jöfnunarsjóð á þessu ári sem nema tæpum 193 m.kr. og það er því ljóst að sjóðurinn mun ekki að óbreyttu geta staðið undir þeim skuldbindingum sem á hann hafa fallið.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir því að tekjur og gjöld ríkissjóðs aukist um 163 m.kr. á ársgrundvelli.