Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 130. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 381  —  130. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

Frá minni hluta allsherjarnefndar.Inngangur.
    Í athugasemdum með frumvarpinu er greint frá því að við myndun núverandi ríkisstjórnar hafi verið ákveðið að fara heildstætt yfir verkaskiptingu milli ráðuneyta með það fyrir augum að hagræða, einfalda stjórnsýslu og skipa skyldum málaflokkum undir eina stjórn, enn fremur að lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969, hafi verið breytt í því skyni á síðasta löggjafarþingi. Minni hlutinn telur þessar skýringar alls ekki réttar. Þær breytingar sem mælt er fyrir um í frumvarpinu má fyrst og síðast rekja til skiptingar ráðuneyta og ráðherrastóla milli samstarfsflokkanna í ríkisstjórninni sl. vor. Ákvörðun var tekin og lögum um Stjórnarráð Íslands breytt án þess að skilgreind og rökstudd markmið og þarfa- og kostnaðargreining lægju fyrir og án heildstæðrar stefnumótunar og skýrrar framtíðarsýnar. Ekki er gerð hin minnsta tilraun til að bera saman núgildandi skipan mála og málaflokka miðað við breytta skipan samkvæmt frumvarpinu og meta með faglegum og rökstuddum hætti áhrif breytinganna. Hvergi örlar á slíkum rökstuðningi í greinargerð með frumvarpinu, aðeins fullyrðingum um meinta samhæfingu, aukna skilvirkni, að kerfið verði auðskiljanlegra og aðgengilegra almenningi o.s.frv. Má draga stórlega í efa að þessar breytingar leiði almennt séð til hagræðingar, einföldunar og aukinnar skilvirkni í stjórnsýslunni. Reyndar liggur fyrir í mörgum umsögnum um frumvarpið að ýmsar breytingar sem mælt er fyrir um muni hafa þveröfug áhrif í veigamiklum atriðum, skapi óvissu og að vinnubrögðin séu óvönduð, sbr. t.d. umsagnir Landgræðslu ríkisins, Dýralæknafélags Íslands, Bændasamtaka Íslands, Orkustofnunar, starfsmanna matvælasviðs Fiskistofu, Skógfræðingafélags Íslands, Skógræktarfélags Íslands, Suðurlandsskóga og fleiri hliðstæðra stofnana, Hólaskóla, Ferðamálasamtaka Íslands, fiskistofustjóra og Skógræktar ríkisins. Þá er gagnrýnisvert að umsagnir skortir frá ýmsum stofnunum sem þurfa að sæta breytingum samkvæmt frumvarpinu. Er full ástæða til að afla þeirra. Jafnframt er gagnrýnisvert að breytingar innan heilbrigðisráðuneytis og á sviði utanríkisráðuneytis hafi ekki verið samhliða til umfjöllunar hjá allsherjarnefnd.
    Í athugasemdum með frumvarpinu er fullyrt að víðtækt samráð hafi verið haft við þær stofnanir sem í hlut eiga. Það er staðfest með umsögnum um frumvarpið og á fundum nefndarinnar með forsvarsmönnum þeirra stofnana sem breytingarnar taka til að þessi fullyrðing er beinlínis röng. Frumvarpið var samið án nokkurs samráðs við viðkomandi stofnanir, starfsmenn þeirra og aðra hagsmunaaðila. Sama gildir um samráð við stjórnarandstöðuna og hún var reyndar beitt meirihlutavaldi þingmanna ríkisstjórnarinnar til að knýja fram með óvönduðum lagasetningarhætti breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands á síðasta löggjafarþingi. Það gengur þvert á fyrri yfirlýsingar forsætisráðherra um að þverpólitísk samstaða væri forsenda slíkra breytinga og þvert á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að eiga gott samstarf við alla flokka á Alþingi. Breytingarnar eru auk þess í hreinni mótsögn við stefnu Samfylkingarinnar um málefnalega samræðu, samráð og lýðræði. Það er alvarleg fljótaskrift á frumvarpinu og vinnubrögðin eftir því óvönduð. Þá er fráleitt að ætla að þessar breytingar muni ekki hafa í för með sér aukinn heildarkostnað ríkissjóðs, eins og fullyrt er í umsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarpið. Sú fullyrðing er órökstudd og ófagleg. Að mati minni hlutans munu fyrirhugaðar tilfærslur innan Stjórnarráðsins hafa í för með sér kostnað sem hleypur á hundruðum milljóna króna og fer að öllum líkindum yfir einn milljarð króna þegar öll kurl eru komin til grafar.
    Minni hlutinn gagnrýnir málsmeðferð allsherjarnefndar. Þar hefur málið verið keyrt hratt áfram og án þeirrar yfirvegunar og yfirlegu sem jafnviðamikið og mikilvægt mál þarfnast. Boðað var með stuttum fyrirvara að málið yrði tekið úr nefndinni 28. nóvember 2007. Á þeim fundi lagði meiri hluti allsherjarnefndar fram ófullgert nefndarálit sitt og lagði jafnframt til breytingartillögur í 15 liðum auk undirliða. Síðar var gengið frá endanlegu áliti meiri hlutans og breytingartillögum og þau lögð fram fyrir 2. umræðu um fjárlög sem hófst 29. nóvember 2007. Í áliti meiri hlutans voru aðvaranir minni hlutans um hundruð milljóna króna kostnað vegna tilfærslnanna að engu hafðar og minnihlutaálit komst ekki að fyrir 2. umræðu fjárlaga. Minni hlutinn gagnrýnir þessi vinnubrögð og alla málsmeðferðina við samningu og afgreiðslu frumvarpsins. Óvandað löggjafarstarf leiðir óhjákvæmilega til óvandaðrar og óskilvirkrar lagasetningar.
    Minni hlutinn bendir á að í nóvember 2007 kom út handbók um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa. Útgefendur eru forsætisráðuneytið, dóms- og kirkjumálaráðuneytið og skrifstofa Alþingis. Frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingu á ýmsum lögum um tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands brýtur gegn öllum meginsjónarmiðum og viðmiðunum sem þar eru reifuð um vandaða frumvarpssmíð. Leggur minni hlutinn til að frumvarpinu verði vísað frá og það unnið á nýjan leik í samræmi við þær leiðbeiningarreglur sem handbókin mælir fyrir um og ný lög um verkefni innan Stjórnarráðs Íslands taki ekki gildi fyrr en 1. janúar 2009. Þessi tillaga samræmist auk þess í einu og öllu samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 17. október 2006 um Einfaldara Ísland.

Athugasemdir við frumvarpið.
    Frumvarp ríkisstjórnarinnar um tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands er í ellefu þáttum. Við umfjöllun sína um málið fékk allsherjarnefnd umsagnir frá fjölda stofnana og samtaka, einkum undirstofnana þeirra ráðuneyta sem færa á verkefni á milli. Einnig komu gestir á fund nefndarinnar. Greinilegt er, eftir umfjöllun allsherjarnefndar, að frumvarpið er unnið í flýti, ekki hefur verið haft samráð við hagsmunaaðila og undirstofnanir og ekki hefur verið gerð fullnægjandi greining á kostnaðarauka vegna frumvarpsins eins og fyrr er rakið.

1., 2. og 3. þáttur.
    Í fyrsta þætti eru lagðar til breytingar vegna flutnings sveitarstjórnarmála frá félagsmálaráðuneyti til samgönguráðuneytis. Í öðrum þætti eru lagðar til breytingar vegna flutnings ferðamála frá samgönguráðuneyti til iðnaðarráðuneytis og í þriðja þætti eru lagðar til breytingar vegna flutnings alferða frá samgönguráðuneyti til viðskiptaráðuneytis.
    Minni hlutinn bendir á að eftir breytingarnar muni veigamiklir félagslegir þættir, sem varða sveitarfélög miklu, heyra undir tvö ráðuneyti, það er félagsmálaráðuneytið og samgönguráðuneytið. Þá er gagnrýnisvert að nafni samgönguráðuneytisins skuli ekki vera breytt, t.d. í byggða- og samgönguráðuneyti eða sveitarstjórna- og samgönguráðuneyti.
    Flutningur ,,ferðamála“ frá samgönguráðuneyti til iðnaðarráðuneytis var gagnrýndur og kom fram að atvinnugreinin sé nú vistuð á ýmsum stöðum í stjórnkerfinu, nema í iðnaðarráðuneyti. Samband sveitarfélaga gerir þá athugasemd að málefni ferðaþjónustunnar heyri nú þegar undir mörg ráðuneyti og þessar breytingar séu ekki til að einfalda stjórnsýslu eða stefnumótun í ferðamálum. Flókin stjórnsýsla ferðamála og mikill fjöldi leyfisveitenda og umsagnaraðila hefur reynst ferðaþjónustuaðilum til trafala. Ferðamálasamtök Íslands benda á að atvinnugreinin sé vistuð út um allt í stjórnkerfinu – nema í iðnaðarráðuneyti, og gagnrýnir breytinguna harðlega
    Fram kom að það eina sem eigi að færa til samkvæmt frumvarpinu séu ekki ferðamálin í heild heldur einungis það sem tilheyri lögum um skipan ferðamála. Lög og lagaumhverfi málaflokksins séu annars á þann veg að bókhald, reikningsskil og upplýsingagjöf ferðaskrifstofa heyri undir samgönguráðuneyti, veitinga- og gististaðir falli undir dómsmálaráðuneyti, lög um skipulag á fólksflutningum með hópferðabifreiðum og lög um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga, lög um bílaleigur og lög um skip og hafnir falli undir samgönguráðuneyti. Nú á samkvæmt frumvarpinu að flytja alferðir til viðskiptaráðuneytis. Þessi breyting var nánast einróma gagnrýnd og lagt var til að tilfærslunni yrði frestað um 1–2 ár og sett af stað vinna til að ná utan um alla þætti þessarar fjölbreyttu og þverfaglegu atvinnugreinar.
    Ferðamálaráð og Samtök ferðaþjónustunnar voru jákvæð í garð tillagnanna en töldu að huga hefði átt að fleiri þáttum og það var samdóma álit allra sem komu fyrir nefndina að heildarúttektar væri þörf á skipan ferðamála til að auka skilvirkni greinarinnar. Minni hlutinn telur að meint markmið þessara breytinga séu til þess eins að flækja málin og gera þeim sem starfa að ferðamálum erfiðara fyrir.

4., 5. og 6. þáttur.
    Í fjórða þætti eru lagðar til breytingar vegna fyrirhugaðs flutnings menntastofnana landbúnaðarins frá landbúnaðarráðuneyti til menntamálaráðuneytis. Jafnframt eru í frumvarpinu ákvæði um að viðurkenning, námsframboð og prófgráður þessara stofnana verði færð til samræmis við rammalög um háskóla, nr. 63/2006. Munu búfræðslulög þó gilda áfram sem sérlög um skólana. Ýmsir hafa reifað réttmætar áhyggjur af því að með þessum tilflutningi kunni tengsl milli skólanna og annarra stofnana landbúnaðarins að raskast. Hefur komið fram að einn fremsti landbúnaðarskóli heims, í Svíþjóð, heyri undir landbúnaðarráðuneyti og enn fremur að æskilegt kunni að vera vegna faglegrar samkeppni og fleiri þátta að skipa landbúnaðarskólum undir landbúnaðarráðuneytið. Rétt er að taka fram, að landbúnaðarskólarnir hafa heyrt undir atvinnuvegaráðuneytið frá upphafi og reynst þeim vel. Sem hluti af heildarstoðkerfi landbúnaðarins og annars atvinnulífs hinna dreifðu byggða hafa þessir skólar náð að vaxa og dafna og þróa með sér náið samstarf við atvinnulífið. Enginn rökstuðningur hefur komið fram sem réttlætir þessa tilfærslu, að skólarnir muni standa betur undir stjórn menntamálaráðuneytisins. Að því leyti virðist tilfærslan gerð tilfærslunnar vegna. Í þessu samhengi er einnig vísað til meðfylgjandi umsagnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar.
    Í 5. þætti frumvarpsins er lagt til að stjórnsýslulegt forræði og ábyrgð á Skógrækt ríkisins og Landgræðslu ríkisins færist frá landbúnaðarráðuneyti til umhverfisráðuneytis. Hins vegar helst ræktun nytjaskóga í landbúnaðarráðuneyti. Samhliða þessum breytingum eru gerðar tillögur um lagabreytingar til að einfalda framkvæmd dýraverndar með búfé og til að tryggja betur sjónarmið umhverfisverndar við innflutning á dýrum. Áfram verður unnið að endurskoðun laga um búfjárhald og laga um dýravernd til að skýra valdmörk og einfalda stjórnsýslu í málaflokknum.
    Flestir, ef ekki allir, umsagnaraðilar leggjast gegn þessari breytingu. Vísuðu þeir sérstaklega til þess meinta markmiðs frumvarpsins að einfalda stjórnsýslu og skipa skyldum málefnum undir eina stjórn þannig að ráðuneyti og ríkisstofnanir sem í hlut eigi verði öflugri og skilvirkari einingar. Ekki sé hægt að sjá merki einföldunar og hagræðingar með því að kljúfa þennan málaflokk milli tveggja ráðherra, annars vegar milli landbúnaðarráðherra og hins vegar umhverfisráðherra, eins og lagt er til.
    Hefur komið fram að mörk skógræktar og landgræðslu annars vegar og nytjaskógræktar hins vegar séu ekki alltaf skýr. Nytjaskógrækt sé í eðli sínu ekki frábrugðin öðru skógræktarstarfi og sömuleiðis geti margháttuð starfsemi vel farið saman í skógrækt.
    Gagnrýni hefur komið fram, m.a. frá meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, á að fjármunir vegna verkefna eins og „Bændur græða landið“, sem hafa heyrt undir Landgræðslu ríkisins, verða eftir í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti á meðan önnur starfsemi stofnunarinnar flyst til umhverfisráðuneytisins, enn fremur að gert sé ráð fyrir að fjármunir til rannsókna í skógrækt falli undir bæði ráðuneytin og bent á að skipting málaflokka milli ráðuneyta geri stjórnsýslu erfiðari. Ekki hefur verið tekið tillit til ábendinga meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.
    Varhugavert verður að teljast að kljúfa málefni skógræktar í sundur. Umsagnaraðilar hafa af því þungar áhyggjur að málaflokkurinn muni líða fyrir þessa breytingu, skógræktarstarf verði sundurslitið og að hætt sé við því að málaflokkurinn lendi utangarðs í stjórnkerfinu. Leggja umsagnaraðilar til að málaflokkurinn tilheyri einu ráðuneyti. Fram kom það sjónarmið að landgræðsla og skógrækt ættu að heyra undir landbúnaðarráðuneyti, sem atvinnuvegaráðuneyti þar sem slík verkefni hafi verið að flytjast til bænda og þau gætu orðið vaxandi þáttur í tekjuöflun þeirra og sveitanna. Jafnframt má benda á að með breytingunum mun umhverfisráðuneytið verða beggja vegna við borðið, þ.e. hafa eftirlit með og gæta umhverfisverndar og sinna um leið hagsmunum skógræktar sem atvinnugreinar. Er óhjákvæmilegt að umhverfisráðuneytið muni þurfa að úrskurða um ágreining þegar hagsmunir skógræktar og umhverfisverndar fara ekki saman. Einkar óheppilegt er að mati minni hlutans að umhverfisráðuneytið gegni einnig hlutverki sem atvinnuvegaráðuneyti.
    Helstu sjónarmið umsagnaraðila eru eftirfarandi:
    Bændasamtök Íslands.
    Orðrétt segir í umsögn samtakanna: „Stjórn BÍ leggst eindregið gegn því að landgræðsla og skógrækt flytjist frá landbúnaðarráðuneyti til umhverfisráðuneytis.“ Slík verkefni hafa verið að flytjast til bænda og geta orðið vaxandi þættir í tekjuöflun þeirra og sveitanna. Líta svo á að verkefni samkvæmt lögum um landshlutaverkefni í skógrækt verði á forræði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis, en virðist hafa farist fyrir að breyta þeim lögum til samræmis við aðrar breytingar. Öfugsnúið að færa fagstarf Skógræktar ríkisins til umhverfisráðuneytisins enda fari langmesta skógræktarstarfið fram á vegum landshlutaverkefnanna. Rannsókna og þróunarstarfið (t.d. í Mógilsá) miðar einkum að því að styrkja grundvöll atvinnuskógræktar – frekar á að treysta tengslin við landshlutaverkefnin heldur en að lengja boðleiðir.
    Skógfræðingafélag Íslands.
    Telur þær breytingar sem eru fyrirhugaðar á stjórnsýslu skógræktarmála ganga í þveröfuga átt miðað við það sem stefnt er að. Telur skynsamlegra að öll stjórnsýsla sem snerti skógrækt verði vistuð í einu ráðuneyti.
    Norðurlandsskógar.
    Sjá ekki hagræðingu og einföldun í því að kljúfa málaflokkinn skógrækt niður á tvö ráðuneyti. Heppilegra að Skógrækt ríkisins hefði verið vistuð hjá landbúnaðarráðuneyti.
    Skógræktarfélag Íslands.
    Telur með hliðsjón af frumvarpinu verulega hættu „á því að skógræktarstarfið verði ómarkvisst og sundurslitið og málaflokkurinn komi til með að líða fyrir það í heild sinni.“ Leggur til að málaflokkurinn tilheyri einu ráðuneyti.
    Skógrækt ríkisins.
    Segir að með frumvarpinu sé verið að flækja málin og fjarlægjast höfuðmarkmið frumvarpsins. Orðrétt segir í umsögn Skógræktarinnar ,,er hér í uppsiglingu eitt allsherjar stjórnsýslulegt klúður á málaflokknum skógrækt, sem draga mun úr mætti skógræktarstarfs í landinu um ókomin ár. Greinilega er ekki pólitísk samstaða um flutning á forræði yfir málaflokknum til umhverfisráðuneytisins og felst málamiðlunin í því að kljúfa hann upp.“
    Skjólskógar á Vestfjörðum.
    Telja varhugavert að kljúfa málaflokkinn „skógrækt á Íslandi“ milli tveggja ráðuneyta. Ekki hefð fyrir þessu í íslenskri stjórnsýslu – hætt við að málaflokkurinn muni lenda utangarðs í stjórnkerfinu.
    Þá segir í umsögn Landgræðslu ríkisins: „hefði kosið að landbúnaðarráðuneytið hefði haft mun meira samráð um málefni Landgræðslu ríkisins.“
    Við blasir að með þeim tillögum sem lagðar eru til í frumvarpinu sé verið að flækja málin og fjarlægjast það höfuðmarkmið frumvarpsins að einfalda stjórnsýslu og skipa líkum málaflokkum undir sömu stjórn. Minni hlutinn tekur undir þau sjónarmið að í uppsiglingu sé stjórnsýslulegt klúður og að greinilegt sé að ekki ríki pólitísk samstaða um þennan flutning og það sé því einhvers konar málamiðlun að kljúfa hann upp í þágu skiptingar ráðherrastóla. Gagnrýnir minni hlutinn þennan þátt sérstaklega sem valdbeitingu að ofan gagnvart þeim stofnunum sem hlut eiga að máli.
                                  
6. þáttur.
    Í 6. þætti er að finna tillögur um flutning vatnamælinga frá iðnaðarráðuneyti til umhverfisráðuneytis. Vatnamælingar, sem nú eru hluti af Orkustofnun, verða samkvæmt frumvarpinu færðar til nýrrar stofnunar ásamt núverandi starfsemi Veðurstofu Íslands. Til að gefa nægilegt svigrúm til þessarar sameiningar er lagt til að umhverfisráðherra verði falið að undirbúa hana á árinu 2008, m.a. að því er varðar nauðsynlegar lagabreytingar. Umsagnaraðilar fagna þessari tilfærslu en telja framkvæmdina gagnrýnisverða, benda m.a. á að ekki sé skýrt hvað felist í flutningnum og leggja áherslu á að gengið verði frá málum sem varða réttindi starfsmanna í nánu samstarfi við starfsmenn, stéttarfélög þeirra og viðsemjendur.
    Mörg veigamikil vandamál blasa við vegna þessarar tilfærslu. Hér hefur, eins og varðandi aðra þætti málsins, ekkert samráð verið haft við forsvarsmenn þessara stofnana og starfsmenn, sem hafa þungar og réttmætar áhyggjur. Við blasa mikil húsnæðisvandamál. Veðurstofan getur ekki tekið við þeim fjölda starfsmanna sem eiga að flytjast til starfsstöðvar hennar og var þó ekki á húsnæðisvanda stofnunarinnar bætandi. Umtalsverður kostnaður mun óhjákvæmilega fylgja sem ekkert hefur verið hugað að, bæði vegna húsnæðis og ekki síður við það að koma á fót nýrri stofnun veðurathugana og vatnamælinga. Þar fyrir utan má reikna með biðlaunakostnaði og fleirum ónefndum þáttum sem engin greining liggur fyrir um. Um nánari rökstuðning er vísað til umfjöllunar undir 7. þætti hér á eftir.

7. þáttur.
    Í 7. þætti frumvarpsins er lagt til að stjórnsýslulegt forræði og ábyrgð matvælamála, sem nú heyra undir umhverfisráðuneytið, flytjist á forræði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis. Þetta þýðir að starfsemi Umhverfisstofnunar, sem fellur nú undir matvælasvið Umhverfisstofnunar, flyst frá umhverfisráðuneyti til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis.
    Aukið verður við hlutverk Landbúnaðarstofnunar að þessu leyti og er lagt til að hún fái heitið Matvælaeftirlitið. Mun hún taka við því matvælaeftirliti sem nú er hjá Fiskistofu og Umhverfisstofnun. Þá er gert ráð fyrir að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra geti gert samninga við stofnanirnar um að sinna þeim verkefnum sem eru á verksviði þeirra við gildistöku þessara laga, allt til ársloka 2008.
    Almenn ánægja virðist vera með það fyrirkomulag að öll stjórnsýsla á matvælasviði verði sameinuð í einni stofnun undir stjórn sameinaðs sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis. Hins vegar er ýmislegt í framkvæmdinni gagnrýnt. Ekki hefur verið haft samráð við undirstofnanir og starfsfólk. Fram kemur í umsögn starfsmanna Fiskistofu að þeir hafi fyrir löngu lagt til að skipaður yrði starfshópur sem gerði tillögur um fyrirkomulag matvælaeftirlits og tekið yrði tillit til skyldu samkvæmt gerðum ESB um matvælaöryggi. Þeir telja miður að frumvarpið sé samið í flýti og án samráðs við Fiskistofu. Þessari skoðun deila þeir sem til þekkja á sviði matvælaeftirlits.
    Sérstaka athygli vekur að Heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga var ekki sent frumvarpið til umsagnar, þrátt fyrir að breyta eigi bæði matvælalögum og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Virðist ekkert hafa verið hugað að mikilvægu hlutverki heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga og samhæfingu þess við matvælaeftirlit á vegum ríkisins. Ber það vott um mikinn flumbrugang við samningu frumvarpsins.
    Umtalsverð óvissa og órói ríkir meðal starfsmanna þeirra stofnana sem eiga að færast til Landbúnaðarstofnunar sem fær annað heiti, sbr. einnig umfjöllun undir 6. þætti. Starfsstöð þeirrar stofnunar verður jafnframt á Selfossi og óvíst að starfsmenn sem búa á höfuðborgarsvæðinu sjái sér fært að flytja þangað. Störf í þessum geira eru mjög sérhæfð og umtalsverður vafi leikur á að hæft starfsfólk fáist velji starfsmenn að flytjast ekki til hinnar nýju stofnunar. Í umsögn starfsmanna Fiskistofu er á það bent að Landbúnaðarstofnun hafi aðsetur og aðalskrifstofu á Selfossi. Starfsfólk Fiskistofu óttast því að starfsstöð þess flytjist þangað. Þessi staðsetning þykir óheppileg fyrir þá sem starfa að eftirliti með sjávarafurðum, fáar fiskvinnslur séu á Suðurlandi. Langmest af innflutningi matvæla fari um hafnir á höfuðborgarsvæðinu. Sérfræðiþekking muni tapast ef starfsmenn sjái sér ekki fært að starfa hjá hinni nýju stofnun. Félag íslenskra náttúrufræðinga bendir á að Landbúnaðarstofnun hafi aðsetur á Selfossi. Starfsmenn þurfi því að rífa sig upp með rótum og fara að vinna í öðru sveitarfélagi án þess að nokkuð þyki athugavert við það. Heilu fjölskyldurnar þurfi jafnvel að flytjast búferlum. Er talið að ekki sé verið að bjóða mönnum sambærileg störf og kjör því slíkur flutningur geti haft veruleg áhrif á eignir og afkomu starfsfólks. Jafnframt er talið að þegar störf séu flutt á milli landshluta þá jafnist það á við niðurfellingu starfs. Það hefur fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins staðfest. Þessar tvær umsagnir o.fl. staðfesta að starfsmenn lifa í algjörri óvissu um framtíð sína, eru ekkert upplýstir og hafa engan viðbúnað getað haft um þær breytingar sem eru samkvæmt frumvarpinu að bresta á.
    Minni hlutinn tekur undir með Sambandi sveitarfélaga sem bendir á að vænta megi þess að störfum á landsbyggðinni fjölgi verði stofnunin áfram á Selfossi. Það telur minni hlutinn jákvætt, en telur jafnframt að við slíkar breytingar verði að hafa víðtækt samstarf við starfsmenn viðkomandi stofnana og með afar góðum fyrirvara, en koma ekki fram af því tillitsleysi sem raun ber vitni.
    Ýmsar athugasemdir hafa komið fram vegna heitis hinnar nýju stofnunar. Komið hafa fram tillögur um eftirfarandi heiti: Matvælastofa, Matvælastofnun, Matvælaeftirlit ríkisins, Matgát (Íslensk matvælagát) og Hollustuvernd. Er æskilegt að samstaða sé um nýtt nafn stofnunarinnar áður en frumvarpið verður að lögum.
    Að mati minni hlutans er það sérdeilis ámælisvert að engin kostnaðargreining hefur farið fram á þessum stórfelldu breytingum á matvælaeftirliti. Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins er gengið út frá því sem meginreglu að enginn kostnaður verði samfara tilfærslum samkvæmt frumvarpinu. Þar segir m.a. orðrétt: „Í einhverjum tilvikum kann þó að koma til breytinga á kostnaði, svo sem vegna breytinga á starfsmannafjölda eða húsnæði, en komi til slíkra óvæntra (feitletrun minni hluta) útgjalda eða biðlauna verður að fjalla um það sérstaklega.“
    Umsögnin er að mati minni hlutans röng. Við blasir mjög verulegur aukinn kostnaður. Má reikna með að kostnaður við tilfærslu matvælaeftirlits undir eina nýja stofnun hlaupi á hundruðum milljóna króna. Hér er um að ræða umtalsverðan húsnæðiskostnað, kostnað við að setja á fót nýja stofnun með tilheyrandi tölvukerfum, stoðþjónustu, nafnabreytingu, merki, bréfsefni, auglýsingum o.s.frv. Þá er ótalinn fyrirséður biðlaunakostnaður, kostnaður við ráðningu og þjálfun nýrra starfsmanna, aksturskostnaður og þannig mætti áfram telja. Þá mun stoðþjónusta Fiskistofu og annar starfsbúnaður hennar nýtast verr. Við þetta bætist fyrirhuguð breyting á matvælalöggjöf og innflutningur matvæla sem felur í sér stóraukin verkefni og brýna þörf á umfangsmikilli eflingu matvælaeftirlits. Nægir þar að nefna upprunagreiningu, innihaldsgreiningu og aðrar óhjákvæmilegar rannsóknir og athuganir á innfluttum landbúnaðarvörum og öðrum matvælum. Hér er í húfi framtíð íslensks landbúnaðar. Með faglegri fyrir fram gerðri kostnaðargreiningu, sem yrði unnin í nánu samstarfi við viðkomandi stofnanir, mátti auðveldlega reikna út þennan fyrirséða kostnað.
    Umsagnaraðilar telja miður að frumvarpið hafi verið samið í óðagoti skiptingar ráðherrastóla og án samráðs við undirstofnanir og starfsmenn þeirra, sem hafa mesta þekkingu á málaflokknum. Í því ljósi eru ummæli í frumvarpinu þess efnis að víðtækt samráð hafi verið haft við þær stofnanir sem eiga í hlut óboðleg.

8., 9., 10. og 11. þáttur.
    Í áttunda þætti er lagt til að málefni Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins flytjist frá viðskiptaráðherra til iðnaðarráðherra. Í níunda þætti eru lagðar til breytingar sem lúta að því að Einkaleyfastofan og hugverkaréttindi á sviði iðnaðar heyri undir viðskiptaráðuneytið. Í tíunda þætti eru lagðar til breytingar vegna flutnings málefna varðandi fasteignir frá dómsmálaráðuneyti til viðskiptaráðuneytis. Í lokaþætti frumvarpsins er lögð til breyting á lögum um Stjórnarráð Íslands þess efnis að meðferð ólokinna mála skuli ljúka í því ráðuneyti sem tekur við málefni.
    
Lokaorð.

    Minni hlutinn vill árétta að afar mikilvægt er við breytingar sem þessar, einkum vegna sameiningar Veðurstofu Íslands og Vatnamælinga annars vegar og flutnings stofnana í nýja stofnun matvælaeftirlits hins vegar, að náið samráð verði þegar tekið upp og haft við starfsmenn allra þeirra stofnana sem hlut eiga að máli og réttinda þeirra og hagsmuna gætt í hvívetna.
    Eins og fyrr greinir kemur fram í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytis að ráðuneytið geri ráð fyrir að áhrif frumvarpsins á kostnað ríkissjóðs verði einkum í formi tilflutnings á kostnaði milli ráðuneyta og stofnana og auki þannig ekki heildarkostnað ríkissjóðs. Fram hefur komið að ráðuneytið hefur tekið saman lauslegt yfirlit þar sem fram kemur að tilflutningur verkefnanna kunni að snerta fjárveitingar um 200 viðfangsefna á fjárlögum og er áformað að flytja tillögur þess efnis við fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp.
    Nú hafa komið fram útgjaldatillögur vegna breytinga á Stjórnarráðinu í frumvarpi til fjáraukalaga og í fjárlagafrumvarpinu sem nema líklega hundruðum milljóna króna. Það er staðföst skoðun minni hlutans að ekki sé kominn fram allur sá útgjaldaauki sem verður vegna þessara tilfærslna og átelur harðlega vinnulag fjármálaráðuneytisins. Beinir minni hlutinn þeirri áskorun til ríkisstjórnarinnar að þegar í stað fari fram ítarleg kostnaðargreining á tilfærslum verkefna innan stjórnarráðsins og að hún verði lögð fram fyrir 3. umræðu um fjárlög, enn fremur að skipuð verði nefnd sem taki skipan Stjórnarráðs Íslands og verkefni til heildarendurskoðunar með aukna skilvirkni og þjónustu við almenning að leiðarljósi.
    Eins og fyrr er rakið voru gerðar breytingar á skipan ráðuneyta sl. vor, sbr. lög nr. 109/ 2007. Benda má á hversu iðnaðarráðuneytið annars vegar og hins vegar viðskiptaráðuneytið eru lítil (sjá fylgiskjal). Fjöldi stöðugilda í iðnaðarráðuneyti miðað við greidd laun í apríl 2007 er 13,1 en viðskiptaráðuneytis 15,2. Til samanburðar má geta þess að fjöldi stöðugilda hjá Súðavíkurhreppi miðað við 1. apríl 2007 er 17,1.
    Í inngangi og víðar í þessu áliti minni hlutans er ítarlega rakið að samráð hefur ekki verið haft við lykilstofnanir. Ítrekar minni hlutinn þá skoðun sína að frumvarpið hafi verið samið í því skyni að tryggja helmingaskipti stjórnarflokkanna í ríkisstjórn. Er ljóst að formenn stjórnarflokkanna hafa samið um þessi mál við myndun ríkisstjórnarinnar á Þingvöllum sl. vor án nokkurs tillits til þeirra meintu markmiða sem frá greinir í frumvarpinu. Ákvarðanir hafa allar verið teknar að ofan eins og einn gesta allsherjarnefndar hafði á orði. Það eru óviðunandi vinnubrögð sem ala af sér óvandaða löggjöf eins og frumvarpið og umsagnir um það staðfesta.
    Leggur minni hlutinn til að frumvarpinu verði vísað frá með svofelldri

RÖKSTUDDRI DAGSKRÁ:


    Þar sem færð hafa verið gild rök fyrir því að:
     a.      sú lagasetning sem í frumvarpinu felst muni ekki hafa í för með sér þá skilvirkni, hagræðingu og einföldun sem að er stefnt,
     b.      vönduð málsmeðferð búi ekki að baki samningu frumvarpsins, t.d. hefur ekkert samráð verið haft við undirstofnanir og hagsmunaaðila,
     c.      ekki liggur fyrir greining á annars vegar kostnaði við lagasetninguna og hins vegar þörfinni fyrir hana,
leggur minni hlutinn til að málinu verði vísað frá og tekið fyrir næsta mál á dagskrá.

Alþingi, 3. des. 2007.Atli Gíslason,


frsm.

Siv Friðleifsdóttir.


Fylgiskjal I.


Fjöldi starfsmanna stjórnarráðsins.
(Minnisblað frá fjármálaráðuneytinu, 5. júní 2007.)
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal II.


Umsögn frá Skógrækt ríkisins.
(24. október 2007.)Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal III.


Umsögn frá Bændasamtökum Íslands.
(8. nóvember 2007.)Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal IV.


Umsögn frá Landgræðslu ríkisins.
(9. nóvember 2007.)Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal V.


Umsögn frá Orkustofnun.
(12. nóvember 2007.)Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal VI.


Umsögn frá heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra.
(15. nóvember 2007.)Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal VII.


Umsögn frá Bandalagi háskólamanna.
(19. nóvember 2007.)Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal VIII.


Umsögn frá Félagi íslenskra náttúrufræðinga.
(20. nóvember 2007.)Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal IX.


Umsögn frá sveitarfélaginu Skagafirði – viðbót.
(19. nóvember 2007.)Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.