Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 195. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 399  —  195. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð, lögum um sjúklingatryggingu, lögum um heilbrigðisþjónustu, lögum um málefni aldraðra og lögum um eftirlaun til aldraðra.

Frá meiri hluta heilbrigðisnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Berglindi Ásgeirsdóttur, Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur og Vilborgu Hauksdóttur frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, Sigríði Lillý Baldursdóttur, Kristján Guðjónsson, Ragnar M. Gunnarsson og Ágúst Þór Sigurðsson frá Tryggingastofnun ríkisins, Margréti Margeirsdóttur, Borgþór Kjærnested, Sigurð Einarsson og Grétar Snæ Hjartarson frá Landssambandi eldri borgara, Jóhann Árnason og Kristján Sigurðsson frá Samtökum fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu, Guðjón Bragason og Gunnlaug Júlíusson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Gunnar Ármannsson og Birnu Jónsdóttur frá Læknafélagi Íslands, Ólaf Darra Andrason frá ASÍ, Stefán Aðalsteinsson frá BHM og Sigurstein Másson frá Öryrkjabandalagi Íslands. Einnig hafa nefndinni borist umsagnir frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, og félags- og tryggingamálanefnd. Jafnframt hafa borist ýmis gögn sem málinu tengjast.
    Frumvarp þetta er flutt í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. maí 2007 um breytta verkaskiptingu milli ráðuneyta og tekur sérstaklega til flutnings verkefna frá heilbrigðisráðuneyti til félags- og tryggingamálaráðuneytis á sviði almannatrygginga og öldrunarmála. Frumvarpið hefur sama markmið og frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands, 130. mál, sem nú er til meðferðar á Alþingi.
    Tilgangur frumvarpsins er að gera fyrirkomulag heilbrigðis- og tryggingakerfisins auðskiljanlegra og aðgengilegra almenningi. Það verður meðal annars gert með því að samhæfa og gera skilvirkara hlutverk ríkisins sem kaupanda heilbrigðisþjónustu gagnvart þeim sem hana veita og einfalda almannatryggingakerfið.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að félags- og tryggingamálaráðherra fari með lífeyristryggingar en heilbrigðisráðherra verði áfram með forræði yfir slysa-, sjúkra- og sjúklingatryggingum. Starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins verður skipt upp og mun hún færast undir félags- og tryggingamálaráðuneytið og sjá um framkvæmd lífeyristryggingahluta almannatrygginga og laga um félagslega aðstoð. Úrskurðarnefnd almannatrygginga mun starfa áfram undir Tryggingastofnun ríkisins, en ákvarðanir vegna laga um almannatryggingar, hvort sem þær varða lífeyristryggingar eða slysa- og sjúkratryggingar, verða áfram kæranlegar til nefndarinnar. Sett verði á fót ný stofnun undir heilbrigðisráðuneyti sem sjái um sjúkra- og slysatryggingar samt kaupum á heilbrigðisþjónustu. Gert er ráð fyrir að Tryggingastofnun ríkisins veiti hinni nýju stofnun þjónustu vegna slysa- og sjúkratrygginga. Gert er ráð fyrir að nánar verði kveðið á um skipulag og hlutverk þessarar stofnunar í sérstöku frumvarpi sem lagt verði fram á vorþingi 2008.
    Með frumvarpinu er jafnframt lagt til að yfirstjórn málefna aldraðra og þjónusta við aldraða önnur en heilbrigðisþjónusta ásamt yfirstjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra færist til félags- og tryggingamálaráðuneytis frá 1. janúar 2008. Skilið verði milli veitingar heilbrigðisþjónustu við aldraða sem heilbrigðisráðuneytið mun áfram sinna og hins vegar búsetuúrræða og almennrar öldrunarþjónustu, sem verður flutt til félags- og tryggingamálaráðuneytis.
    Gestir nefndarinnar og umsagnaraðilar lýstu velflestir ánægju með meginatriði frumvarpsins. Nokkrir lýstu þó ákveðnum áhyggjum af flóknari rekstri hjúkrunarheimila sem munu samkvæmt frumvarpinu vera undir yfirstjórn tveggja ráðuneyta, félags- og tryggingamálaráðuneytis hvað varðar yfirstjórn búsetu- og almennrar öldrunarþjónustu og heilbrigðisráðherra varðandi heilbrigðisþjónustu við aldraða á hjúkrunarheimilum.
    Meiri hlutinn tekur undir með umsagnaraðilum og gestum nefndarinnar sem lýstu ánægju með að málefni aldraðra væru flutt frá heilbrigðisráðuneytinu til félags- og tryggingamálaráðuneytis. Sú tilhögun er meðal annars líkleg til að auðvelda flutning á málaflokki aldraðra til sveitarfélaga, eins og stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar segir til um.
    Meiri hlutinn tekur undir það viðhorf sem kemur fram í greinargerð frumvarpsins að öldrun sé ekki sjúkdómur og leggur áherslu á nauðsyn þess að skilja annars vegar á milli almennrar öldrunarþjónustu og hins vegar heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða. Meiri hlutinn telur þó rétt að benda á þá staðreynd að öldrun fylgja oft veikindi og aldraðir einstaklingar glíma oft við fjölþætta sjúkdóma. Þeir einstaklingar þurfa ekki aðeins öldrunar- og umönnunarþjónustu, heldur faglega heilbrigðisþjónustu
    Meiri hlutinn vekur athygli á athugasemdum í greinargerð við lagafrumvarpið en þar kemur meðal annars fram að nokkurn tíma muni taka að skilja á milli almennrar öldrunarþjónustu og heilbrigðisþjónustu við aldraða og að gert sé ráð fyrir að ráðuneytin skilgreini þessa þætti nánar og móti hvernig samskiptum við öldrunarstofnanir og greiðslum til þeirra verði háttað í framtíðinni. Boðað er frumvarp um frekari breytingar á lögum um málefni aldraðra á vorþingi 2008 og að stefnt sé að því að þessari vinnu verði lokið fyrir 1. september 2008.
    Meiri hlutinn telur að mikilvægt skref sé tekið með því að greina milli heilbrigðisþjónustu annars vegar og lífeyris- og bótaréttar hins vegar. Með flutningi lífeyristrygginga til félags- og tryggingamálaráðherra gefst möguleiki á einföldun á bótarétti lífeyrisþega og að einfalda almannatryggingakerfið, sem er til hagsbóta fyrir lífeyrisþega. Jafnframt fagnar meiri hlutinn því að sett verði á fót stofnun sem taki við hlutverki Tryggingastofnunar ríkisins að annast kaup, greiðslur og samninga um heilbrigðisþjónustu og sinna slysa- og sjúkratryggingum.
    Í kostnaðarmati fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins sem er fylgiskjal með frumvarpinu kemur fram að frumvarpið feli fyrst og fremst í sér orðalagsbreytingar sem tengdar eru flutningi málaflokka á milli ráðuneyta og því sé ekki gert ráð fyrir auknum kostnaði við framkvæmd verkefna heldur aðeins færslu fjárheimilda á milli ráðuneyta. Meiri hlutanum þykir rétt að benda á að ætíð megi reikna með auknum kostnaði þegar breytingar, eins og um er að ræða, eru gerðar.
    Í 11. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum um félagslega aðstoð, þar sem lagt er til að í stað orðanna heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra komi ráðherra. Meiri hlutinn vill benda á að með þeirri breytingu kæmi hvergi fram undir hvaða ráðherra málaflokkurinn heyrir. Því telur meiri hlutinn nauðsynlegt að fram komi að lögin falli undir yfirstjórn félags- og tryggingamálaráðherra.
    Í 27. gr. frumvarpsins er kveðið á um að vistunarmat nái einungis til hjúkrunarrýma og hjúkrunarheimila enda er fyrst og fremst um að ræða mat á hjúkrunarþörf. Meiri hlutinn leggur til að jafnframt verði gert mat á þjónustuþörf vegna annarra stofnana fyrir aldraða, sem tilgreindar eru í 1. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga um málefni aldraðra, en það eru dvalarheimili, sambýli og íbúðir sem sérhannaðar eru fyrir þarfir aldraðra, sem eru ekki færir um að annast heimilishald. Félags- og tryggingamálaráðherra setji reglugerð um framkvæmd mats á þjónustuþörf.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 4. des. 2007.



Ásta Möller,


form., frsm.


Ágúst Ólafur Ágústsson.


Pétur H. Blöndal.



Ragnheiður Ríkharðsdóttir.


Árni Páll Árnason.


Ellert B. Schram.