Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Prentað upp.

Þskj. 427  —  1. mál.
Leiðréttur texti.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2008.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.



    Nefndin hefur haft fjárlagafrumvarpið til athugunar frá því að 2. umræða fór fram 29. nóvember sl. Til viðræðna við nefndina komu forsvarsmenn B-hluta stofnana, þ.e. Happdrættis Háskóla Íslands og Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Enn fremur komu til viðræðna við nefndina fulltrúar C-hluta stofnana, þ.e. Íbúðalánasjóðs og Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.
    Formaður efnahags- og skattanefndar, Pétur H. Blöndal, kom á fund nefndarinnar og kynnti álit er varðar tekjuhlið frumvarpsins.
    Í nefndarálitinu er fyrst gerð grein fyrir meginbreytingum sem varða tekjuhlið frumvarpsins. Þá er gerð grein fyrir þeim breytingum sem lagðar eru til á sundurliðun 2. Að lokum er gerð grein fyrir breytingum sem lagt er til að verði gerðar á sundurliðunum 3 og 4 (B- og C- hluta) og 5. gr. frumvarpsins.
    Í endurskoðaðri tekjuáætlun efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytis er gert ráð fyrir að tekjur verði 473.439,5 m.kr. sem er rúmlega 4 milljarða kr. hækkun. Munar þar mest um 4 milljarða kr. fyrir sölu eigna á fyrrum varnarsvæði við Keflavíkurflugvöll. Þá hækka ríkistekjur af flugvallasköttum og varaflugvallagjaldi um 110 m.kr.
    Tillögur meiri hlutans er varða útgjöld A-hluta ríkissjóðs leiða til 2.608,6 m.kr. hækkunar útgjalda og er því gert ráð fyrir að heildarútgjöld verði 434.231,5 m.kr. og tekjuafgangur verði 39.208 m.kr.
    Hér á eftir fylgja skýringar á breytingartillögum meiri hlutans.

SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR

01 Forsætisráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild forsætisráðuneytis verði lækkuð um 50 m.kr.
190     Ýmis verkefni.
        1.91 Til stjórnmálaflokka með hliðsjón af nýrri kjördæmaskipan og breyttum aðstæðum þingmanna af þeim sökum.
Í samræmi við 4. gr. laga nr. 162/2006, um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra, er lagt til að niður falli 50 m.kr. framlag til stjórnmálaflokka sem vistað hefur verið á þessu viðfangsefni hjá forsætisráðuneytinu og að það færist á viðfangsefnið 1.18 Framlög til stjórnmálasamtaka undir fjárlagaliðnum 09-999 hjá fjármálaráðuneytinu.

02 Menntamálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild menntamálaráðuneytis verði aukin um 168,9 m.kr.
201     Háskóli Íslands.
        1.01
Háskóli Íslands. Gerð er tillaga um 100 m.kr. hækkun fjárveitingar til að efla starfsemi Háskólans á sviði kennslu og rannsókna vegna fjölgunar ársnemenda.
                  Þá er lagt til að 20 m.kr. fjárheimild verði millifærð af þessum lið yfir á viðfangsefni 02-451-1.20 Háskólasetur í Vestmannaeyjum. Tillagan var hluti af mótvægisaðgerðum sem ríkisstjórnin ákvað að grípa til í því skyni að draga úr neikvæðum áhrifum af tímabundnum samdrætti í þorskveiðum.
217     Hólaskóli Háskólinn á Hólum.
        1.01
Hólaskóli – Háskólinn á Hólum. Gerð er tillaga um 3 m.kr. tímabundið framlag til Guðbrandsstofnunar vegna verkefnisins Hólar 902.
318     Framhaldsskólar, stofnkostnaður.
        6.95
Tæki og búnaður, óskipt. Gerð er tillaga um að veita Reykjanesbæ 4 m.kr. tímabundið framlag til uppbyggingar aðstöðu fyrir fjarnám á háskólastigi á Suðurnesjum.
319     Framhaldsskólar, almennt.
        1.35
Myndlistarskólinn í Kópavogi. Gerð er tillaga um 2,5 m.kr. tímabundið framlag til reksturs Myndlistarskóla Kópavogs.
451     Símenntun og fjarkennsla.
        1.20
Háskólasetur í Vestmannaeyjum. Lagt er til að 20 m.kr. fjárheimild verði millifærð hingað af liðnum 02-201-1.01 Háskóli Íslands. Tillagan var hluti af mótvægisaðgerðum sem ríkisstjórnin ákvað að grípa til í því skyni að draga úr neikvæðum áhrifum af tímabundnum samdrætti í þorskveiðum.
902     Þjóðminjasafn Íslands.
        1.01
Þjóðminjasafn Íslands. Gerð er tillaga um 2 m.kr. tímabundið framlag til safnsins vegna umsýslu með verkefnum sem hlotið hafa styrk á liðnum 02-902-1.10.
        1.10
Byggða- og minjasöfn. Gerð er tillaga um 5 m.kr. hækkun á liðnum vegna þriggja verkefna. Þar er í fyrsta lagi lagt til 2 m.kr. tímabundið framlag til Hólarannsóknarinnar í Háskólanum á Hólum til að halda áfram fornleifauppgreftri á tanganum við Kolkuós (Kolbeinsárós) en framlagið er til viðbótar 3 m.kr. framlagi sem samþykkt var við 2. umræðu. Í öðru lagi er lagt til 2 m.kr. tímabundið framlag til kaupa á minjasafni Kristjáns Runólfssonar frá Brúarlandi í Skagafirði sem ætlunin er að afhenda Byggðasafni Skagfirðinga. Loks er í þriðja lagi gerð tillaga um 1 m.kr. tímabundið framlag til Byggðasafnsins í Garði.
919     Söfn, ýmis framlög.
        1.90
Söfn, ýmis framlög. Gerð er tillaga um 3 m.kr. tímabundna hækkun safnliðarins og er framlagið ætlað Eyrbyggju, sögumiðstöð í Grundarfirði, til viðbótar við 3 m.kr. framlag sem samþykkt var við 2. umræðu. Í 1. yfirliti í sundurliðun óskiptra liða í A-hluta breytist því 1. tölul. í samræmi við það.
971     Ríkisútvarpið.
        1.10
Ríkisútvarpið, afnotagjöld. Lagt er til að veitt verði 14 m.kr. tímabundin fjárheimild á árinu 2008 þar sem áformað er að létta skuldum við ríkissjóð sem því nemur af Ríkisútvarpinu en afskriftirnar verða færðar til gjalda á þennan lið. Í fjáraukalögum fyrir árið 2007 er gert ráð fyrir að 65 m.kr. af skuldum félagsins verði afskrifaðar. Með lánaafléttingunni, hækkun afnotagjalda og öðrum aðgerðum verður eiginfjárhlutfall í hlutafélaginu um 15% eins og til stóð við stofnun þess. Stofnun félagsins seinkaði um þrjá mánuði og varð rekstrarafkoma á því tímabili nokkru lakari en ráð var fyrir gert í upphaflegri áætlun, einkum vegna aukinna biðlauna og hærri launakostnaðar. Samtals verður aflétt lánum við ríkissjóð sem nema 79 m.kr. og er þá miðað við að 35 m.kr. séu vegna biðlauna umfram forsendur og 44 m.kr. vegna þess sem vantaði á til að eigið fé um síðustu áramót hefði verið um 15%.
974     Sinfóníuhljómsveit Íslands.
        1.01
Sinfóníuhljómsveit Íslands. Lagt er til að beint framlag greitt úr ríkissjóði lækki um 2,7 m.kr. Við 2. umræðu var hljómsveitinni veitt 15 m.kr. fjárheimild til að mæta auknum kostnaði, bæði vegna tveggja nýrra stöðugilda og hækkunar húsaleigu. Í þeirri tillögu láðist að taka tillit til þess að samkvæmt lögum um hljómsveitina á Reykjavíkurborg að greiða 18% af rekstrarkostnaði hennar á móti 82% hluta ríkisins og færist það framlag á tekjuhlið ríkissjóðs. Með þessari tillögu er þetta leiðrétt með því að 2,7 m.kr. af fjárveitingunni verða fjármagnaðar með innheimtum ríkistekjum. Þessi breyting hefur ekki áhrif á útgjaldaheimild hljómsveitarinnar.
979     Húsafriðunarnefnd.
        6.10
Húsafriðunarsjóður. Gerð er tillaga um 7 m.kr. tímabundið framlag til hækkunar á framlagi til þriggja verkefna sem samþykkt voru við 2. umræðu. Framlag til endurbóta Kvennaskólahússins á Blönduósi hækkar þannig um 5 m.kr. og verður alls 10 m.kr. Framlag til endurbóta á Kaupfélagshúsinu, elsta íbúðarhúsinu á Höfn í Hornafirði, hækkar um 1 m.kr. og verður 2 m.kr. Framlag til endurnýjunar pakkhúss sem hýsir mótorbátinn Skaftfelling hækkar um 1 m.kr. tímabundið og verður 2 m.kr.
982
     Listir, framlög.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


        1.24
Starfsemi atvinnuleikhópa. Við 2. umræðu var gerð tillaga um 6 m.kr. hækkun á þessum lið og tilgreint að þar af ættu 3 m.kr. að vera rekstrarframlag til skrifstofu Sjálfstæðu leikhúsanna en 3 m.kr. ættu að renna til starfsemi atvinnuleikhópa. Hér er áréttað að þar er átt við aukinn stuðning við bandalag Sjálfstæðra leikhúsa (SL) vegna ýmissa verkefna á þeirra vegum.
         1.70 Heiðurslaun listamanna samkvæmt ákvörðun Alþingis. Gerð er tillaga um 2,4 m.kr. hækkun á liðnum. Sundurliðun er sýnd í sérstakri breytingartillögu.
         1.90 Listir. Gerð er tillaga um 1 m.kr. tímabundna hækkun safnliðarins og er framlagið ætlað handverksverkefninu Vestnorden, Arts and Crafts. Við 4. yfirlit í sundurliðun óskiptra liða í A-hluta bætist því nýr töluliður, Vestnorden, Arts and Crafts, handverksverkefni, með 1 m.kr. framlagi.
983     Ýmis fræðistörf.
        1.11 Styrkir til útgáfumála.
Gerð er tillaga um 2 m.kr. tímabundna hækkun á safnliðnum og er framlagið ætlað til útgáfu fornbókmennta. Við 5. yfirlit í sundurliðun óskiptra liða í A-hluta bætist því nýr töluliður, Útgáfufélagið Guðrún, útgáfa og markaðssetning á íslenskum fornbókmenntum.
        1.52
Skriðuklaustur. Gerð er tillaga um 3 m.kr. tímabundið framlag til Gunnarsstofnunar.
         1.53 Snorrastofa. Gerð er tillaga um að veita Snorrastofu 3 m.kr. tímabundið framlag til að vinna að bók þar sem teknar verða saman í eitt heildarverk helstu niðurstöður uppgraftar á bæjarstæðinu í Reykholti árin 1987–1989 og 1997–2003. Bókin er hugsuð bæði fyrir fræðimenn og almenning.
989     Ýmis íþróttamál.
        6.56
Skíðamannvirki í Skarðsdal, Siglufirði. Gerð er tillaga um 5 m.kr. tímabundið framlag til uppbyggingar á skíðamannvirkjum og aðstöðu í skíðalandi Siglfirðinga í Skarðsdal.
999     Ýmislegt.
        1.90
Ýmis framlög. Gerð er tillaga um 7 m.kr. tímabundna hækkun safnliðarins. Við 9. yfirlit í sundurliðun óskiptra liða í A-hluta bætast þrír nýir töluliðir: Íslenskar æviskrár frá landsnámstíð til 2000, með 2 m.kr. framlag, Ljósmyndasafn Steingríms, með 0,5 m.kr. framlag og Minnisvarði um ferjumanninn, með 2 m.kr. framlag. Þá fær Handverk og hönnun (8. tölul.) 2,5 m.kr. hækkun á framlagi sem nemur þannig alls 17,5 m.kr.
        6.90
Ýmis stofnkostnaðarframlög. Gerð er tillaga um 5 m.kr. tímabundna hækkun safnliðarins. Í 11. yfirliti í sundurliðun óskiptra liða í A-hluta hækkar 19. tölul., Hreindýrasetur í Skjöldólfsstaðaskóla á Jökuldal, um 2 m.kr. og verður þannig 3 m.kr. Þá hækkar 66. tölul., Þjóðfræðimiðstöð á Stokkseyri, um 3 m.kr. og verður 6 m.kr.


04
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis verði aukin um 17 m.kr.
190     Ýmis verkefni.
        1.90
Ýmis verkefni. Gerð er tillaga um 5 m.kr. tímabundna hækkun safnliðarins. Við 12. yfirlit í sundurliðun óskiptra liða í A-hluta bætast tveir nýir töluliðir: Biopol, með 4 m.kr. framlagi, og Vöktun á ástandi bleikju og urriða í Þingvallavatni, Suðurlandsdeild Veiðimálastofnunar, með 1 m.kr. framlagi.
483     Landgræðsla og skógrækt í þágu landbúnaðar.
        1.13
Fyrirhleðslur. Lagt er til að liðurinn hækki um 12 m.kr. Við 2. umræðu voru framlög til fyrirhleðslna hjá Landgræðslu ríkisins, sem nú heyrir undir umhverfisráðuneyti, hækkuð um 12 m.kr. Við þá breytingu láðist að taka tillit til þess að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að framkvæmdir við varnir gegn landbroti verði fjármagnaðar af þessum lið hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu samkvæmt samningi við stofnunina. Til leiðréttingar á þessu er fjárheimild þessa fjárlagaliðar hækkuð um 12 m.kr. en á móti er lagt til að sértekjur Landgræðslunnar hækki um sömu fjárhæð þannig að heildarútgjöld ríkisins verði óbreytt eftir sem áður.
831     Jarðasjóður og Jarðeignir ríkisins.
        6.20
Jarðasjóður og Jarðeignir ríkisins. Lagt er til að beint framlag greitt úr ríkissjóði hækki um 100 m.kr. Við 2. umræðu var fjárheimild sjóðsins lækkuð um 100 m.kr. Í þeirri tillögu láðist að taka tillit til þess að sjóðurinn er fjármagnaður með mörkuðum ríkistekjum. Með þessari tillögu er þetta leiðrétt með því að fjármögnunarliðurinn viðskiptahreyfingar lækkar um 100 m.kr. í stað þess að liðurinn greitt úr ríkissjóði lækki um þá fjárhæð. Þessi breyting hefur ekki áhrif á útgjaldaheimild fjárlagaliðarins.

07 Félags- og tryggingamálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild félags- og tryggingamálaráðuneytis verði aukin um 2.186,3 m.kr.
190     Ýmis verkefni.
        1.90
Ýmislegt. Gerð er tillaga um 2,5 m.kr. tímabundið framlag til rannsóknarverkefnis sem fjallar um mansal.
505     Öldrunarstofnanir, almennt.
        Við myndum nýrrar ríkisstjórnar sl. vor og í stefnuyfirlýsingu hennar voru sett fram áform um endurskipulagningu á verkaskiptingu ráðuneyta sem nú hafa verið útfærð frekar í lagafrumvörpum. Í samræmi við það eru málefni öldrunarmála flutt frá heilbrigðisráðuneyti til félags- og tryggingamálaráðuneytis. Hér er gerð tillaga um tilfærslu fjárveitingar til uppbyggingar hjúkrunarrýma af lið heilbrigðisráðuneytisins, 08-401 Öldrunarstofnanir, almennt, yfir á þennan nýja lið hjá félags- og tryggingamálaráðuneyti, 07-505 Öldrunarstofnanir, almennt. Númer viðfangsefnis stofnana helst óbreytt sem og fjárheimild þeirra. Eftirfarandi liðir flytjast þannig til félags- og tryggingamálaráðuneytis:
             6.15 Hjúkrunarheimilið Hulduhlíð, Eskifirði              14,1 m.kr.
             6.27 Jaðar, Ólafsvík               40 m.kr.
             6.82
Hjúkrunarheimili í Kópavogi              350 m.kr.
             6.83
Hjúkrunarheimili í Mosfellsbæ               93 m.kr.
             6.84
Hjúkrunarheimili í Reykjanesbæ              159 m.kr.
             6.85
Hjúkrunarheimilið Hlíð, Akureyri              11,5 m.kr.
             6.86
Hjúkrunarheimilið Suðurlandsbraut 66, Reykjavík              194,7 m.kr.
             6.99
Bygging hjúkrunarheimila og endurhæfingarstofnana, óskipt              100 m.kr.
821     Tryggingastofnun ríkisins.
        1.01
Tryggingastofnun ríkisins. Lögð er til 35 m.kr. hækkun á framlagi til almannatrygginga í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að bæta hag elli- og örorkulífeyrisþega. Aðgerðirnar felast í því að draga úr tekjutengingum við bætur, afnema tekjutengingu við tekjur maka, að ríkissjóður tryggi 25 þús. kr. lífeyrissjóðsgreiðslu á mánuði, að hækka vasapeninga og draga úr of- og vangreiðslum almannatrygginga. Einnig eru fyrirhugaðar sérstakar aðgerðir fyrir örorkulífeyrisþega vegna örorkumats og starfsendurhæfingar.
                  Gerðar eru tillögur um hækkun á ýmsum liðum hér á eftir vegna þessara aðgerða en samtals er áætlað að þær muni kosta 2.700 m.kr. á næsta ári.
825     Bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.
        1.11
Mæðra- og feðralaun. Lögð er til 46 m.kr. lækkun á framlagi í samræmi við endurskoðaða áætlun um útgjöld næsta árs.
        1.31
Endurhæfingarlífeyrir. Lögð er til 384 m.kr. hækkun á framlagi til almannatrygginga í samræmi við framangreinda ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að bæta hag elli- og örorkulífeyrisþega.
                  Þá er lögð til 34 m.kr. lækkun á framlagi í samræmi við endurskoðaða áætlun um útgjöld næsta árs.
        1.35
Barnalífeyrir vegna menntunar. Lögð er til 32 m.kr. lækkun á framlagi í samræmi við endurskoðaða áætlun um útgjöld næsta árs.
        1.41 Heimilisuppbót. Lögð er til 157 m.kr. hækkun á framlagi til almannatrygginga í samræmi við framangreinda ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að bæta hag elli- og örorkulífeyrisþega.
                  Þá er lögð til 157 m.kr. lækkun á framlagi í samræmi við endurskoðaða áætlun um útgjöld næsta árs. Heildarbreyting á fjárheimild liðarins verður því engin.
        1.51
Frekari uppbætur. Lögð er til 61 m.kr. lækkun á framlagi í samræmi við endurskoðaða áætlun um útgjöld næsta árs.
827     Lífeyristryggingar.
        1.11
Ellilífeyrir. Lögð er til 20 m.kr. hækkun á framlagi til almannatrygginga í samræmi við framangreinda ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að bæta hag elli- og örorkulífeyrisþega.
                  Jafnframt er lögð til 68 m.kr. lækkun á framlagi í samræmi við endurskoðaða áætlun um útgjöld næsta árs.
        1.21
Tekjutrygging ellilífeyrisþega. Lögð er til 602 m.kr. hækkun á framlagi til almannatrygginga í samræmi við framangreinda ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að bæta hag elli- og örorkulífeyrisþega.
                  Jafnframt er lögð til 450 m.kr. lækkun á framlagi í samræmi við endurskoðaða áætlun um útgjöld næsta árs.
        1.25
Tekjutrygging örorkulífeyrisþega. Lögð er til 1.367 m.kr. hækkun á framlagi til almannatrygginga í samræmi við framangreinda ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að bæta hag elli- og örorkulífeyrisþega. Við það bætast 100 m.kr. sem fluttar eru af öðrum lið frumvarpsins þannig að samtals nemur hækkunin 1.467 m.kr.
                  Þá er gerð tillaga um að 100 m.kr. fjárheimild vegna örorkulífeyrisþega sem veitt var við 2. umræðu verði flutt á þetta viðfangsefni af viðfangsefninu 1.13 Sérstök framlög undir liðnum 09-391 Jöfnun á örorkubyrði almennra lífeyrissjóða hjá fjármálaráðuneytinu. Áformað var að leita samninga við almenna lífeyrissjóði um að þeir frestuðu eða féllu frá lækkun lífeyrisgreiðslna til þeirra sem nú hafa hærri tekjur samanlagt en bætur til þeirra byggðust á þegar þeir urðu öryrkjar. Ekki náðist samkomulag um þetta við lífeyrissjóðina og er því lagt til að fjárhæðin verði notuð til annarra aðgerða sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að grípa til í þágu öryrkja.
                  Loks er lögð til 161 m.kr. lækkun á framlagi í samræmi við endurskoðaða áætlun um útgjöld næsta árs.
        1.28
Vasapeningar ellilífeyrisþega. Lögð er til 35 m.kr. hækkun á framlagi til almannatrygginga í samræmi við framangreinda ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að bæta hag elli- og örorkulífeyrisþega.
                  Þá er lögð til 62 m.kr. lækkun á framlagi í samræmi við endurskoðaða áætlun um útgjöld næsta árs.
        1.31
Örorkustyrkur. Lögð er til 58 m.kr. lækkun á framlagi í samræmi við endurskoðaða áætlun um útgjöld næsta árs.
        1.35
Barnalífeyrir. Lögð er til 201 m.kr. lækkun á framlagi í samræmi við endurskoðaða áætlun um útgjöld næsta árs.
        1.91
Annað. Lögð er til 170 m.kr. lækkun á framlagi í samræmi við endurskoðaða áætlun um útgjöld næsta árs.
999     Félagsmál, ýmis starfsemi.
        1.47
Félagsþjónusta við nýbúa. Gerð er tillaga um 5 m.kr. tímabundið framlag til áframhaldandi uppbyggingarstarfs á sviði innflytjendarannsókna á vegum MIRRU, miðstöðvar innflytjendarannsókna Reykjavíkurakademíunni.
        1.90
Ýmis framlög. Gerð er tillaga um 16,5 m.kr. tímabundna hækkun safnliðarins. Við 14. yfirlit í sundurliðun óskiptra liða í A-hluta bætast þrír nýir töluliðir, Fjölskylduhjálp Íslands, með 1,5 m.kr. framlag, Foreldra- og styrktarfélag Öskjuhlíðarskóla, sumardvöl barna, með 4 m.kr. framlag og Regnbogabörn, með 3 m.kr. framlag. Þá hækka framlög til fjögurra félagasamtaka: framlag til Félags einstæðra foreldra hækkar um 1 m.kr. og verður 3 m.kr., til Félags heyrnarlausra um 1 m.kr. og verður 4 m.kr., til Samtakanna ´78 um 5 m.kr. og verður 6,5 m.kr., og loks hækkar framlag til Vímulausrar æsku um 1 m.kr. og verður 8,5 m.kr.

08 Heilbrigðisráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild heilbrigðisráðuneytis verði lækkuð um 955,3 m.kr.
340     Málefni fatlaðra.
        1.70 Endurhæfingarstöð hjarta- og lungnasjúklinga, Akureyri. Gerð er tillaga um 3 m.kr. tímabundið framlag til endurhæfingarstöðvar Sjálfsbjargar á Akureyri.
399     Heilbrigðismál, ýmis starfsemi.
        1.90
Ýmis framlög. Gerð er tillaga um 4 m.kr. tímabundna hækkun safnliðarins og er framlagið ætlað AE-starfsendurhæfingu. Kemur það til viðbótar 4 m.kr. framlagi sem samþykkt var við 2. umræðu og breytist 1. tölul. í 16. yfirliti í sundurliðun óskiptra liða í A-hluta samkvæmt því.
401     Öldrunarstofnanir, almennt.
        Gerð er tillaga um tilfærslu fjárveitingar til uppbyggingar hjúkrunarrýma af þessum lið heilbrigðisráðuneytisins yfir á nýjan lið hjá félags- og tryggingamálaráðuneyti, 07-505 Öldrunarstofnanir, almennt, eins og þar greinir. Númer viðfangsefnis stofnana helst óbreytt sem og fjárheimild þeirra. Eftirfarandi liðir flytjast þannig frá heilbrigðisráðuneyti:
             6.15 Hjúkrunarheimilið Hulduhlíð, Eskifirði              14,1 m.kr.
             6.27 Jaðar, Ólafsvík               40 m.kr.
             6.82
Hjúkrunarheimili í Kópavogi              350 m.kr.
             6.83
Hjúkrunarheimili í Mosfellsbæ               93 m.kr.
             6.84
Hjúkrunarheimili í Reykjanesbæ              159 m.kr.
             6.85
Hjúkrunarheimilið Hlíð, Akureyri              11,5 m.kr.
             6.86
Hjúkrunarheimilið Suðurlandsbraut 66, Reykjavík              194,7 m.kr.
             6.99
Bygging hjúkrunarheimila og endurhæfingarstofnana, óskipt              100 m.kr.

09 Fjármálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild fjármálaráðuneytis verði hækkuð um 1.171,7 m.kr.
391     Jöfnun á örorkubyrði almennra lífeyrissjóða.
        1.13
Sérstök framlög. Gerð er tillaga um að 100 m.kr. fjárheimild vegna örorkulífeyrisþega á þessum lið sem veitt var við 2. umræðu verði flutt á viðfangsefnið 07-827-1.25 Tekjutrygging örorkulífeyrisþega. Áformað var að leita samninga við almenna lífeyrissjóði um að þeir frestuðu eða féllu frá lækkun lífeyrisgreiðslna til þeirra sem nú hafa hærri tekjur samanlagt en bætur til þeirra byggðust á þegar þeir urðu öryrkjar. Ekki náðist samkomulag um þetta við lífeyrissjóðina og er því lagt til að fjárhæðin verði notuð til annarra aðgerða sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að grípa til í þágu öryrkja.
973     Tapaðar kröfur og tjónabætur.
        6.11
Tapaðar kröfur. Lagt er til að beint framlag greitt úr ríkissjóði hækki um 110 m.kr. Við 2. umræðu var fjárheimild viðfangsefnisins lækkuð um 110 m.kr. Í þeirri tillögu láðist að taka tillit til þess að um er að ræða kröfur sem eru afskrifaðar og gjaldfærðar en engar greiðslur eiga sér stað við það. Með þessari tillögu er þetta leiðrétt með því að fjármögnunarliðurinn viðskiptahreyfingar lækkar um 110 m.kr. í stað þess að liðurinn greitt úr ríkissjóði lækki um þá fjárhæð. Þessi breyting hefur ekki áhrif á útgjaldaheimild fjárlagaliðarins.
984     Fasteignir ríkissjóðs.
        1.11
Rekstur fasteigna. Lagt er til að sértekjur liðarins hækki um 0,2 m.kr. Um er að ræða leiðréttingu á afrúningi verðlagsreiknings í frumvarpinu.
985    Fyrrum varnarsvæði við Keflavíkurflugvöll.
         1.01 Fyrrum varnarsvæði við Keflavíkurflugvöll. Gert er ráð fyrir 1.210 m.kr. tímabundnu framlagi til að mæta kostnaði við rekstur og umsjón með fyrrum varnarsvæði við Keflavíkurflugvöll og er það til viðbótar 280 m.kr. framlagi sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Þar er aðallega um að ræða útgjöld í tengslum við hreinsun svæðisins og lagfæringar og breytingar á fasteignum til að koma þeim í söluhæfara ástand. Áætlað er að andvirði seldra eigna á árinu nemi um 4 milljörðum kr., eins og gert er ráð fyrir í breytingu á tekjuhlið frumvarpsins, en samkvæmt samningum greiðist það á þremur árum. Reiknað er með að greiðslurnar af sölusamningum ársins 2008 verði 1,5 milljarðar kr. en því til viðbótar komi 4 milljarða kr. greiðslur samkvæmt samningum um eignir sem seldar voru á árinu 2007 þannig að greiddar tekjur nemi alls 5,5 milljörðum kr. Alls er áætlað að heildarsöluandvirði eignanna geti orðið allt að 18 milljarðar kr. þegar umbreytingu svæðisins verði lokið á næstu 3–4 árum. Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar annast þróun, umsjón og ráðstöfun eigna á svæðinu með það að markmiði að koma eignum sem fyrst í hagfelld borgaraleg not.
999     Ýmislegt.
        1.18
Framlög til stjórnmálasamtaka. Í samræmi við 4. gr. laga nr. 162/2006, um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra, er lagt til að á þetta viðfangsefni færist 50 m.kr. framlag til stjórnmálaflokka sem vistað hefur verið hjá forsætisráðuneytinu á viðfangsefninu 01-190-1.91 Til stjórnmálaflokka með hliðsjón af nýrri kjördæmaskipan og breyttum aðstæðum þingmanna af þeim sökum. Auk þess er gert ráð fyrir verðlagshækkun á fjárveitingunni sem nemur 11,5 m.kr. og er hækkunin því alls 61,5 m.kr.

10 Samgönguráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild samgönguráðuneytis verði lækkuð um 133,6 m.kr.
190     Ýmis verkefni.
        1.42 Gestastofur, söfn og markaðsstarf
. Fjárheimild þessa liðar, 9 m.kr., færist yfir á nýjan lið hjá iðnaðarráðuneyti, 11-599-1.90 Ýmis ferðamál, í samræmi við endurskipulagningu á verkaskiptingu ráðuneyta þar sem ferðamál verða flutt frá samgönguráðuneyti til iðnaðarráðuneytis.
        1.90
Ýmislegt. Fjárheimild þessa liðar, 49,2 m.kr., færist sömuleiðis yfir á nýjan lið hjá iðnaðarráðuneyti, 11-599-1.90 Ýmis ferðamál, í samræmi við endurskipulagningu á verkaskiptingu ráðuneyta þar sem ferðamál verða flutt frá samgönguráðuneyti til iðnaðarráðuneytis.
        1.98
Ýmis framlög samgönguráðuneytis. Af þessum safnlið flyst 75,4 m.kr. framlag til ferðamála til iðnaðarráðuneytis, á liðinn 11-599-1.98 Ýmis ferðamál iðnaðarráðuneytis, í samræmi við endurskipulagningu á verkaskiptingu ráðuneyta þar sem ferðamál verða flutt frá samgönguráðuneyti til iðnaðarráðuneytis. Óskipt 8,5 m.kr. framlag verður eftir á lið samgönguráðuneytisins.
251     Umferðarstofa.
        1.01
Umferðarstofa. Lagt er til að beint framlag greitt úr ríkissjóði hækki um 25 m.kr. Við 2. umræðu var fjárheimild stofnunarinnar lækkuð um 25 m.kr. Í þeirri tillögu láðist að taka tillit til þess að stofnunin er fjármögnuð með mörkuðum ríkistekjum. Með þessari tillögu er þetta leiðrétt með því að fjármögnunarliðurinn innheimt af ríkistekjum lækkar um 25 m.kr. í stað þess að liðurinn greitt úr ríkissjóði lækki um þá fjárhæð. Þessi breyting hefur ekki áhrif á útgjaldaheimild stofnunarinnar.
475     Flugvellir og flugleiðsöguþjónusta.
        6.41
Framkvæmdir. Lögð er til 346,7 m.kr. lækkun á greiðslu úr ríkissjóði til leiðréttingar á fjármögnun. Fjármögnun af mörkuðum tekjum eykst að sama skapi. Við 2. umræðu var samþykkt að veita 456,7 m.kr. tímabundið framlag vegna flughlaðs við fyrirhugaða samgöngumiðstöð á Reykjavíkurflugvelli. Gert var ráð fyrir að fjármögnun verkefnisins yrði þannig að greiddar yrðu fyrir fram 346,7 m.kr. af mörkuðum tekjum en 110 m.kr. yrðu greiddar af viðbótartekjum af flugmálaáætlun. Vegna mistaka í skráningu tillögunnar var fyrirframráðstöfun mörkuðu teknanna meðhöndluð sem framlag úr ríkissjóði.

11 Iðnaðarráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild iðnaðarráðuneytis verði aukin um 152,6 m.kr.
299     Iðja og iðnaður, framlög.
        1.50
Nýsköpun og markaðsmál. Gerð er tillaga um 7 m.kr. tímabundna hækkun safnliðarins. Þar af eru 6 m.kr. ætlaðar Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga og 1 m.kr. er ætluð Villimey slf., græðandi smyrsl úr íslenskum jurtum, og bætast þannig tveir töluliðir við 22. yfirlit í sundurliðun óskiptra liða í A-hluta.
501
     Ferðamálastofa.
        1.11
Ferðamálasamtök landshluta. Lagt er til að framlag liðarins verði hækkað um 12 m.kr. vegna uppbyggingar í landshlutum og þróunarvinnu markaðsstofa.
599     Ýmis ferðamál.
        1.90
Ýmis ferðamál. Framlög til ýmissa verkefna á sviði ferðamála að fjárhæð 58,2 m.kr. flytjast af liðum 10-190-1.42 og 10-190-1.90 hjá samgönguráðuneyti til iðnaðarráðuneytis í samræmi við endurskipulagningu á verkaskiptingu ráðuneyta. Þannig flytjast 18. og 19. yfirlit í sundurliðun óskiptra liða í A-hluta og sameinast í eitt.
        1.98
Ýmis ferðamál iðnaðarráðuneytis. Í samræmi við endurskipulagningu á verkaskiptingu ráðuneyta flyst 75,4 m.kr. framlag til ferðamála af safnlið samgönguráðuneytis til iðnaðarráðuneytis og breytist 20. yfirlit í sundurliðun óskiptra liða í A-hluta í samræmi við það.

14 Umhverfisráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild umhverfisráðuneytis verði aukin um 51 m.kr.
101 Umhverfisráðuneyti, aðalskrifstofa.
         1.01 Umhverfisráðuneyti, aðalskrifstofa. Lagt er til að veitt verði 5 m.kr. tímabundið framlag til tveggja ára vegna innleiðingar vatnatilskipunar Evrópusambandsins 2000/ 60/EB. Innleiðing tilskipunarinnar og framkvæmd hennar kallar á ítarlega greiningu og samantekt á skyldum og stjórnsýslukröfum tilskipunarinnar, greiningu á núverandi stjórnsýslukerfi hér á landi og uppsetningu framtíðarkerfis varðandi vernd og nýtingu vatnamála í samráði við viðkomandi stjórnvöld og hagsmunaðila. Hluti af þessari vinnu felur í sér ferðir á fundi hjá ESB.
190     Ýmis verkefni.
        1.44
Skógræktarfélag Íslands. Gerð er tillaga um 4 m.kr. tímabundið framlag til félagsins til viðbótar við 3 m.kr. framlag sem samþykkt var við 2. umræðu til að opna ný skógræktarsvæði við þjóðleiðir landsins.
        1.90
Ýmis verkefni. Gerð er tillaga um 1 m.kr. hækkun á safnliðnum og er framlagið ætlað Náttúrufræðisetri á Ólafsfirði. Við 25. yfirlit í sundurliðun óskiptra liða í A-hluta bætist því nýr töluliður, 6. Náttúrufræðisetur á Ólafsfirði, með 1 m.kr. framlagi.
        1.98 Ýmis framlög umhverfisráðuneytis. Lagt er til að veittar verði 15 m.kr. til að standa straum af framkvæmd Kyoto-bókunarinnar á Íslandi. Á árinu 2006 fengust 15 m.kr. til þessa verkefnis og hafa þær heimildir að mestu leyti farið til eflingar á loftlagsbókhaldi Umhverfisstofnunar og uppsetningar á skráningu fyrir svokallaðar Kyoto-einingar (losunarheimildir Íslands) en sá kostnaður er töluvert meiri en gert var ráð fyrir, einkum vegna hárra reikninga fyrir hugbúnað og þjónustu við kerfið frá evrópskum rekstraraðilum þess. Á næsta ári má búast við því að mestöll fjárveiting til framkvæmdar Kyoto- bókunarinnar fari í þessa tvo liði. Brýnt er að setja upp svokallaða landsskrifstofu um loftslagsvæna þróunaraðstoð, sem ríkisstjórnin hefur samþykkt að setja á fót og er nauðsynleg fyrir framkvæmd laga um losun gróðurhúsalofttegunda, auk þess sem hún er lykilaðgerð til að liðka fyrir virku framlagi Íslands til þróunaraðstoðar á sviði loftslagsmála. Reikna má með að uppsetning skrifstofunnar á Umhverfisstofnun kosti eitt ársverk næstu 2–3 ár, en síðan verður skoðað og endurmetið hvernig sú vinna fellur að öðrum verkefnum Umhverfisstofnunar í loftslagsmálum. Reikna má með að vinna „hagfræðinganefndar“ sem falið er að meta hagkvæmni og kostnað aðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda kosti að lágmarki 3 m.kr.
211    Umhverfisstofnun.                  
         1.01 Umhverfisstofnun. Gerð er tillaga um 15 m.kr. tímabundið framlag til fimm ára vegna innleiðingar vatnatilskipunar Evrópusambandsins 2000/60/EB. Tilskipunin var tekin inn í EES-samninginn á fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar þann 28. september 2007 og verður vinnu við undirbúning lagafrumvarps að ljúka fyrir árslok 2008. Innleiðing tilskipunarinnar og framkvæmd hennar kallar á kortlagningu fyrirliggjandi gagna hjá opinberum aðilum og öðrum er varða tilskipunina og mat á þeim gögnum sem vantar til að hægt sé að uppfylla kröfur tilskipunarinnar, samantekt á núverandi vöktun, uppbyggingu gagnaveitu og rekstur heimasíðu tengdrar verkefninu og greiningu á kostnaði við innleiðingu tilskipunarinnar en um langtímaverkefni er að ræða sem fjölmargir munu koma að. Sækja þarf fundi hjá ESB vegna framkvæmdar tilskipunarinnar.
231     Landgræðsla ríkisins.
        1.01
Landgræðsla ríkisins. Lögð er til 15 m.kr. fjárveiting til að styrkja kolefnisbindingarverkefni Landgræðslu ríkisins.
        1.90
Fyrirhleðslur. Lagt er til að sértekjur liðarins hækki um 12 m.kr. Við 2. umræðu voru framlög til fyrirhleðslna hjá Landgræðslu ríkisins hækkuð um 12 m.kr. Við þá breytingu láðist að taka tillit til þess að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að framkvæmdir við varnir gegn landbroti verði fjármagnaðar af liðnum 04-483-1.13 hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu samkvæmt samningi við stofnunina. Til leiðréttingar á þessu er fjárheimild þess fjárlagaliðar hækkuð um 12 m.kr. en á móti er lagt til að sértekjur Landgræðslunnar hækki um sömu fjárhæð þannig að heildarútgjöld ríkisins verði óbreytt eftir sem áður.
381     Ofanflóðasjóður.
        6.60
Ofanflóðasjóður. Lagt er til að beint framlag greitt úr ríkissjóði hækki um 100 m.kr. Við 2. umræðu var fjárheimild sjóðsins lækkuð um 100 m.kr. Í þeirri tillögu láðist að taka tillit til þess að sjóðurinn er fjármagnaður með mörkuðum ríkistekjum. Með þessari tillögu er þetta leiðrétt með því að fjármögnunarliðurinn innheimt af ríkistekjum lækkar um 100 m.kr. í stað þess að liðurinn greitt úr ríkissjóði lækki um þá fjárhæð. Þessi breyting hefur ekki áhrif á útgjaldaheimild fjárlagaliðarins.
403     Náttúrustofur.
        1.12
Náttúrustofa Bolungarvík. Gerð er tillaga um 8 m.kr. tímabundið framlag til rannsókna í Hornstrandafriðlandi á vegum Náttúrustofu Vestfjarða í Bolungarvík.


SKÝRINGAR VIÐ BREYTINGARTILLÖGU VIÐ
SUNDURLIÐUN 3 (B-HLUTA)

    Í samræmi við endurskipulagningu á verkaskiptingu ráðuneyta er gerð tillaga um að Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli flytjist frá utanríkisráðuneyti til samgönguráðuneytis.

SKÝRINGAR VIÐ BREYTINGARTILLÖGU VIÐ
SUNDURLIÐUN 4 (C-HLUTA) OG VIÐ 5. GR.

    Gerð er breytingartillaga við 5. gr. um 2.000 m.kr. hækkun á heimild Íbúðalánasjóðs til lántöku og lánveitingar vegna almennra leiguíbúða og breytast fjárreiður stofnunarinnar í C-hluta og 4. gr. til samræmis við það.


    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum þeim sem skýrðar hafa verið og gerðar eru tillögur um í sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 10. des. 2007.


Gunnar Svavarsson,


form., frsm.


Kristján Þór Júlíusson.


Guðbjartur Hannesson.


    

Illugi Gunnarsson.


Ásta Möller.


Steinunn Valdís Óskarsdóttir.



Ármann Kr. Ólafsson.


Björk Guðjónsdóttir.



Fylgiskjal.



Framhaldsálit



um 1. gr. frv. til fjárlaga fyrir árið 2008, sbr. sundurliðun 1, og áhrif skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs.

Frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar.



    Hinn 22. nóvember 2007 barst efnahags- og skattanefnd erindi frá formanni fjárlaganefndar þar sem óskað var eftir framhaldsáliti í tengslum við tekjugrein fjárlagafrumvarpsins, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis.
    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórhall Arason frá fjármálaráðuneyti og Magnús Gunnarsson og Kjartan Eiríksson frá Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar ehf.
    Erindi formanns fjárlaganefndar fylgdu tvö bréf fjármálaráðuneytisins til fjárlaganefndar, annað dagsett 16. nóvember 2007 en hitt 21. nóvember 2007. Með þeim fylgdi yfirlit yfir helstu breytingar á tekjuhlið frumvarps til fjárlaga fyrir 2008 og frumvarps til fjáraukalaga fyrir 2007 sem ráðuneytið lagði til við fjárlaganefnd við 2. umræðu. Meginhluta þessara breytinga má rekja til sölu eigna á fyrrum varnarsvæðinu við Keflavíkurflugvöll og takmarkaði efnahags- og skattanefnd því umfjöllun sína við þann þátt breytinganna.
    Í áætlun fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir að tekjur í fjáraukalagafrumvarpi þessa árs muni hækka um 21,9 milljarða kr. og þar af nemi tekjur af sölu eigna á fyrrum varnarsvæðinu um 13,7 milljörðum kr. Jafnframt er gert ráð fyrir að í fjárlagafrumvarpi næsta árs muni tekjur hækka um 12 milljarða kr. og þar af nemi tekjur af umræddri sölu um 4 milljörðum kr.
    Þar sem fjárlaganefnd hefur látið áhrif tekna af umræddri sölu liggja á milli hluta við 2. umræðu um bæði frumvörpin ber að skoða álit nefndarinnar sem innlegg í 3. umræðu.
    Forsvarsmenn Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf. komu fyrir nefndina og gerðu grein fyrir starfsemi félagsins. Áliti þessu fylgir umsögn sem þeir lögðu fram að beiðni nefndarinnar.
    Gunnar Svavarsson og Katrín Jakobsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. des. 2007.

Pétur H. Blöndal, form.
Ellert B. Schram.
Magnús Stefánsson.
Ragnheiður E. Árnadóttir.
Lúðvík Bergvinsson.
Arnbjörg Sveinsdóttir.


Fskj.

KADECO, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar:
Greinargerð vegna fundar með efnahags- og skattanefnd.
(26. nóvember 2007.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.