Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 230. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 447  —  230. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 3/2006, um ársreikninga, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og skattanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórð Reynisson frá fjármálaráðuneytinu og Guðmund Guðbjarnason frá ríkisskattstjóra. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Fjármálaeftirlitinu, skattrannsóknarstjóra, ríkisskattstjóra, Seðlabanka Íslands, Ríkisendurskoðun, Félagi löggiltra endurskoðenda, Samtökum fjárfesta, Samtökum fjármálafyrirtækja, Félagi íslenskra stórkaupmanna, Viðskiptaráði Íslands og Kauphöll OMX Nordic Exchange. Nefndinni barst einnig tilkynning frá Hagstofu Íslands.
    Frumvarp þetta varðar upplýsingagjöf stjórnenda félaga sem gefið hafa út verðbréf á skipulegum verðbréfamarkaði, afnám skyldu tilgreindra félaga til að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum og eftirlitsheimildir ársreikningaskrár.
    Á fundum nefndarinnar kom fram að efni frumvarpsins stendur í nánum tengslum við lög um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2008, sem sett voru á síðasta þingi. Þar voru gefin fyrirheit um frekari innleiðingu á efni tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2004/109/EB um samræmingu krafna um gagnsæi í tengslum við upplýsingar um útgefendur verðbréfa sem eru skráð á skipulegan markað og um breytingu á tilskipun 2001/34/EB. Kemur fram í almennum athugasemdum að 2.–5. mgr. 4. gr. og 2.–5. mgr. 5. gr. verði innleidd í íslenskan rétt með breytingum á lögum um ársreikninga. Ákvæðin varða upplýsingagjöf félaga sem skráð hafa verðbréf á skipulegum verðbréfamarkaði í ársreikningum og árshlutareikningum.
    Nefndin fjallaði einnig um rétt og skyldu félaga til að taka upp alþjóðlega reikningsskilastaðla. Með lögum nr. 45/2005, um breytingu á lögum um ársreikninga, var leidd í lög reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1606/2002 um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla, sbr. einnig ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 37/2003. Þar var kveðið á um skyldu félaga sem skráð hafa verðbréf sín á skipulegum verðbréfamörkuðum innan EES til að færa reikningsskil sín til samræmis við alþjóðlega reikningsskilastaðla. Reglan þjónar þeim tilgangi að auka samanburðarhæfni reikningsskila innan Evrópska efnahagssvæðisins og efla traust fjárfesta á fjármálamörkuðum. Skv. 4. gr. reglugerðarinnar gildir reglan við gerð samstæðureikninga en einstökum aðildarríkjum innan EES er síðan eftirlátið á grundvelli 5. gr. að ákveða hvort sama regla skuli gilda um ársreikninga skráðra félaga óháð því hvort þau gera samstæðureikninga eða ekki. Ísland taldi við setningu framangreindra laga rétt að nýta þessa heimild og samkvæmt því ber móður- og dótturfélögum að færa ársreikninga sína til samræmis við alþjóðlega reikningsskilastaðla. Að fenginni reynslu gerir frumvarpið nú ráð fyrir að þessar kvöð verði aflétt enda eigi það ekki að koma niður á gæðum samstæðureiknings viðkomandi samstæðu.
    Loks ræddi nefndin hlutverk ársreikningaskrár og tengsl hennar við Fjármálaeftirlitið. Með lagabreytingu frá 133. löggjafarþingi, sbr. lög nr. 160/2006, voru eftirlitsúrræði ársreikningaskrár rýmkaðar þannig að skránni var heimilað að leggja sektir á minni félög í skilningi laga um ársreikninga í þeim tilvikum þegar fyrirsvarsmenn þeirra vanrækja að standa skil á ársreikningum eða samstæðureikningum til opinberrar birtingar. Í athugasemdum við 3. gr. laganna kemur fram að heimild þessari megi beita óháð sök fyrirsvarsmanna en væri til staðar grunur um meiri háttar brot yrði gert ráð fyrir því að ársreikningaskrá vísaði máli til skattrannsóknarstjóra ríkisins. Til meiri háttar brota telst það m.a. þegar fyrirsvarsmenn stærri félaga í skilningi laga um ársreikninga gerast sekir um ofangreinda vanrækslu, sbr. 121. gr. Samkvæmt upphafsgrein gildandi laga um ársreikninga teljast hlutafélög sem hafa verðbréf sín skráð á skipulegum verðbréfamarkaði til stærri félaga og verði frumvarp þetta samþykkt mun það sama eiga við um önnur skráð félög í skilningi 2.–4. tölul. 1. gr. laganna. Þá er ársreikningaskrá heimilað skv. 3. málsl. 3. mgr. 126. gr. laganna að leggja sektir á félög, stór og smá, sem vanrækja að leggja fram fullnægjandi upplýsingar eða skýringar með ársreikningi eða samstæðureikningi sem lagður hefur verið fram til opinberrar birtingar. Enn fremur getur skráin sektað lögaðila fyrir brot gegn lögunum óháð því hvort brot megi rekja til saknæms verknaðar fyrirsvarsmanns eða starfsmanns lögaðilans, sbr. 125. gr.
    Með frumvarpinu eru eftirlitsúrræði ársreikningaskrár aukin á ný. Er það rökstutt með vísan til þess að skráin hafi takmarkaðar heimildir til að bregðast við þegar félög sem beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum, sbr. VIII. kafla laganna, veita ekki umbeðnar upplýsingar, einkum í tengslum við árshlutauppgjör. Leggur frumvarpið því til að ársreikningaskrá fái heimild til að beita dagsektum auk þess sem henni verður heimilt að birta opinberlega upplýsingar um reikningsskil sem talin eru ófullnægjandi og heimild til að óska eftir tímabundinni stöðvun viðskipta með verðbréf viðkomandi félags í kauphöll.
    Nefndin fellst á breytingar frumvarpsins en vekur athygli á því að samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, er eftirlit með verðbréfamarkaði að meginstefnu til í höndum Fjármálaeftirlitsins þótt viðurkennt sé að ársreikningaskrá annist eftirlit með reikningsskilum, sbr. 1. mgr. 133. gr.
    Eftir ábendingu fjármálaráðuneytisins leggur nefndin til smávægilegar breytingar á frumvarpinu sem lúta að formi en ekki efni. Nefndinni þykir þó rétt að geta þess að við meðferð málsins hafa borist athugasemdir um að einstök ákvæði laganna séu ekki svo skýr sem vera ber.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:


     1.      Í stað orðanna „á Evrópska efnahagssvæðinu“ í b-lið (66. gr. b.) 5. gr. komi: innan Evrópska efnahagssvæðisins.
     2.      Á eftir 5. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
              Í stað „65. og 66. gr.“ í 2. mgr. 85. gr. laganna kemur: VI. kafla.
     3.      Eftirfarandi breytingar verði á 6. gr.:
       a.      Í stað orðanna „á Evrópska efnahagssvæðinu“ í 1. mgr. a-liðar (87. gr. a.) komi: innan Evrópska efnahagssvæðisins.
       b.      Í stað orðsins „stjórnar“ í 1. málsl. b-liðar (87. gr. b.) komi: stjórnar félaga skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr.
       c.      Í stað orðanna „á Evrópska efnahagssvæðinu“ í 1. málsl. c-liðar (87. gr. c.) komi: í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins.
       d.      Í stað orðanna „á Evrópska efnahagssvæðinu“ í 1. málsl. d-liðar (87. gr. d.) komi: í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins.
       e.      Í stað orðanna „á Evrópska efnahagssvæðinu skal birta árshlutareikning, sbr. 3. mgr. 87. gr.“ í e-lið (87. gr. e.) komi: í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins skal birta árshlutareikning, sbr. 3. mgr. 87. gr. a.

    Gunnar Svavarsson, Lúðvík Bergvinsson og Katrín Jakobsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 5. des. 2007.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Ellert B. Schram.


Ögmundur Jónasson.



Magnús Stefánsson.


Ragnheiður E. Árnadóttir.


Herdís Þórðardóttir.