Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 472  —  1. mál.




Breytingartillögur



við frv. til fjárlaga fyrir árið 2008.

Frá Jóni Bjarnasyni, Álfheiði Ingadóttur og Atla Gíslasyni.



    1.    Við 6. gr. Liður 5.1 falli brott.
    2.    Við 6. gr. Nýir liðir:
              7.12    Að kaupa aftur hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja.
              7.13    Að breyta Matís ohf. úr hlutafélagi í ríkisstofnun og leggja fram lagafrumvarp þess efnis.
              7.14    Að breyta Flugstoðum ohf. í ríkisstofnun og leggja fram lagafrumvarp þess efnis.

Greinargerð.


    Hér er gerð tillaga um að fella úr gildi heimild til að selja hlut ríkisins í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar. Orkuveita Reykjavíkur og ríkissjóður eiga og reka hitaveituna saman og á ríkissjóður liðlega 20% hlut í henni. Hitaveitan á jafnframt jarðhitaréttindi á jörðinni Deildartungu í Reykholtsdal, þar á meðal Deildartunguhver, einn vatnsmesta hver jarðar. Með vísan til þess hvernig ríkisstjórnarflokkarnir nýttu heimild á fjárlögum til sölu Hitaveitu Suðurnesja er mjög brýnt að afnema nú þegar heimild til sölu á hlut ríkisins í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar ásamt Deildartunguhver.
    Salan á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja til einkafyrirtækis hleypti af stað atburðarás í einkavæðingu og sölu orkuveitna úr samfélagseigu sem ekki sér fyrir endann á. Nú er lag að stöðva frekari einkavæðingu og sölu orkuveitna og orkulinda landsmanna með því að ríkið kaupi aftur þann hlut sem það átti í Hitaveitu Suðurnesja, eins og hér er gerð tillaga um.
    Breytingin á Matís úr ríkisstofnun í hlutafélag hefur verið kostnaðarsöm og óskilvirk og orkað mjög tvímælis hvað varðar réttindi starfsfólks. Hér er því lagt til að sú breyting gangi til baka.
    Einnig hefur sýnt sig að það voru mistök að breyta Flugstoðum í hlutafélag. Brýnt er að nýta tækifærið nú og breyta Flugstoðum aftur í ríkisstofnun, ekki síst í ljósi þess að nú mun flugumferðarstjórn á Keflavíkurflugvelli færast undir samgönguráðuneytið. Þá er eftirsóknarvert að þjónustan og reksturinn lúti öllum lögum og reglum sem gilda um opinberan rekstur, þar á meðal ráðningar starfsmanna.