Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 91. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 489  —  91. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 116 10. ágúst 2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Frá 1. minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.


    Eitt meginmarkmiða frumvarpsins er að fella tímabundið niður veiðigjald á aflaheimildir í þorski vegna verulegs niðurskurðar á aflaheimildum á yfirstandandi fiskveiðiári en jafnframt eru ákveðnar líkur á að aflaheimidlir í þorski aukist ekki í bráð. Er hér um hluta svonefndra mótvægisaðgerða að ræða. Hitt meginmarkmiðið er að fella niður veiðiskyldu á úthafsrækju, en eins og kunnugt er hefur aflabrestur háð veiðum á úthafsrækju. Ef ekkert væri að gert hefði aflahlutdeildin verið felld niður að því marki sem ekki tókst að veiða upp í úthlutaðar heimildir.
    Sjávarútvegur er einn af hornsteinum íslensks atvinnulífs og grundvallarþáttur í að halda uppi atvinnu- og búsetu í landinu auk þess sem hann hefur verið einn mikilvægasti þátturinn í öflun gjaldeyristekna fyrir þjóðina. Stjórnvöldum ber því skilyrðislaust að hlúa að atvinnugreininni og tryggja henni eins stöðugan og fyrirsjáanlegan rekstrar- og lagaramma og frekast er kostur og að hún sitji að minnsta kosti í einu og öllu við sama borð um skattlagningu o.fl. og aðrar atvinnugreinar.
    Ákvarðanir stjórnvalda um að skera niður aflahlutdeild í þorski á yfirstandandi fiskveiðiári um 30% eru gríðarlegt áfall fyrir greinina og ekki enn útséð hvernig við verði brugðist. Í áliti og tillögum meiri hluta nefndarinnar er lagt til að veiðigjald verði almennt lækkað tímabundið í 4,8% fyrir yfirstandandi og næsta fiskveiðiár en að óbreyttu hefði það orðið 8,0% á árinu og 8,7% á því næsta og hámarksgjaldi 9,5% náð árið 2009. 1. minni hluti telur tillögur meiri hlutans vera til bóta en ganga þó allt of skammt.
    Fyrsti minni hluti telur að eins og á stendur sé eina rökrétta leiðin og mun öflugri mótvægisaðgerð að fella veiðigjald á sjávarútveginn alfarið niður í ákveðinn tíma og bíða átekta í a.m.k. þrjú fiskveiðiár og taka þá nýja ákvörðun að vel yfirlögðu ráði þegar nýjar rannsóknir og veiðireynsla hafa sýnt fram á veiðiþol þorskstofnsins. Sé ekki vilji til þess telur 1. minni hluti að það beri að ráðstafa veiðigjaldinu til að stórefla hafrannsóknir í þeim sjávarbyggðum sem verst verða úti vegna niðurskurðar á þorskaflaheimildum í samstarfi við Hafrannsóknastofnun eða styrkja viðkomandi sveitarfélög með öðrum hætti. Vekur 1. minni hluti m.a. athygli á að greiðslur frá Vestmannaeyjum vegna veiðigjalds nema liðlega 100 millj. kr.
    Fjölmargar umsagnir bárust nefndinni. Sammerkt þeim nær öllum var gagnrýni á veiðigjaldið, ráðstöfun þess o.fl. 1. minni hluti telur að ekki verði litið fram hjá þeirri staðreynd að veiðigjaldið er fyrst og fremst skattur á landsbyggðina. Alkunna er að landsbyggðin er mun háðari sjávarútveginum en höfuðborgarsvæðið. Það er og staðreynd að þar eru atvinnutækifæri færri og laun almennt lægri en tíðkast á höfuðborgarsvæðinu. Sveitarfélög landsins standa í ströngu við að halda uppi þjónustustigi sem landsmenn eiga rétt á og uppfylla kröfur sem ríkisvaldið leggur á herðar þeim um gæði og magn þjónustu, þrátt fyrir að tekjustofnar fylgi sjaldnast auknum kröfum. Það skýtur því skökku við að skattleggja eina tegund atvinnurekstrar umfram aðrar og sérstaklega þegar svo háttar til að sú tegund atvinnurekstrar er mjög mikilvæg fyrir byggðastefnu í landinu sem stjórnvöldum ber að hlúa að. Fram kom í nefndinni að talið væri að landsbyggðin greiddi um 85% af heildarálagningu veiðileyfagjalds ár hvert án þess að njóta þessarar gjaldtöku.
    Fyrsti minni hluti vekur sérstaka athygli á að hæpið sé út frá jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að leggja auðlindagjald á nýtingu einnar tegundar náttúruauðlindar umfram aðrar.
    Að kröfu minni hlutans kannaði nefndin sérstaklega þá mismunun sem felst í að fella aðeins niður veiðigjald í þorski og en ekki öðrum tegundum. Fræðimenn sem komu á fund nefndarinnar töldu þetta fyrirkomulag geta staðist stjórnarskrána að vissum skilyrðum uppfylltum eins og meiri hlutinn tíundar í áliti sínu. Frumskilyrðið er þó að um tímabundna aðgerð sé að ræða til að bregðast við sérstökum aðstæðum og að ákveðinn hópur verður fyrir meiri skakkaföllum en aðrir. 1. minni hluti er ekki sannfærður um að öll skilyrði slíkrar mismununar séu uppfyllt og vekur sérstaka athygli á að ávallt er rétt að láta stjórnarskrá lýðveldisins njóta vafans. Þótt fellt sé niður tímabundið veiðigjald á þorskaflamark er allt eins hugsanlegt að önnur útgerð verði illa úti, að ekki sé minnst á landvinnsluna sem einnig verður fyrir verulegum búsifjum vegna aðgerða stjórnvalda. Þá er hugsanlegt að samkeppnisstaða útgerða skekkist með því að einni útgerð er ívilnað umfram aðra. Eins og hér stendur er bæði skynsamleg og eðlisrökrétt að fella veiðigjald alfarið niður tímabundið í stað þess að mismuna eftir tegundum og auðlindum.
    Fyrsti minni hluti sér sérstaka ástæðu til að vekja athygli á því að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur á yfirstandandi þingi lagt fram frumvarp um heildarendurskoðun á fiskveiðistjórnunarkerfinu, þar með talið veiðigjald á aflaheimildir, og að núgildandi lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, verði markaður gildistími til 1. september 2010. Þá taki nýtt kerfi við. Samkvæmt framangreindu og að virtum þeim umsögnum sem nefndinni bárust og viðtölum við gesti hennar telur 1. minni hluti rökréttast að fella veiðigjaldið alfarið niður í þrjú fiskveiðiár og taka svo nýja ákvörðun að þeim tíma liðnum. Enn fremur skorar 1. minni hluti á sjávarútvegsráðherra að beita sér fyrir því að kannað verði hvort ekki fari betur að fella niður aflahlutdeild í rækju fremur en að veita ítrekað undanþágu frá veiðiskyldu.
    Fyrsti minni hluti leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 2. gr. Greinin orðist svo:
    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði V. kafla laganna skal ekki leggja veiðigjald á veiðiheimildir fiskveiðiárin 2007/2008, 2008/2009 og 2009/2010. Fiskistofa skal endurgreiða útgerðum veiðigjald sem innheimt hefur verið á fiskveiðiárinu 2007/2008.

Alþingi, 10. des. 2007.Atli Gíslason.