Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 290. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 509  —  290. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Maríönnu Jónasdóttur og Ingibjörgu Helgu Helgadóttur frá fjármálaráðuneytinu og Ingvar Rögnvaldsson og Guðmund Guðbjarnason frá ríkisskattstjóra. Á fund nefndarinnar komu einnig Ólafur Örn Ólafsson frá Grindavíkurbæ, Oddný Harðadóttir frá Sveitarfélaginu Garði, Sigurður Valur Ásbjarnarson frá Sandgerðisbæ og Róbert Ragnarsson frá Sveitarfélaginu Vogum og lögðu fram greinargerð Sambands íslenskra sveitarfélaga.
    Í frumvarpinu er lagt til að fjárhæðir vegna sjómannaafsláttar, barnabóta og vaxtabóta hækki í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2008. Gert er ráð fyrir að á umræddu tímabili muni hækkun vísitölunnar nema um 4,8%. Jafnframt er í frumvarpinu lagt til að reglum um greiðslu barnabóta verði breytt þannig að þær samræmist betur skuldbindingum Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Meiri hlutinn vekur athygli á því að í upphafsgrein frumvarpsins er lagt til að ríkisskattstjóra verði falið að úrskurða um heimilisfesti lögaðila. Þessi tillaga lætur ekki mikið yfir sér en þó kemur fram í athugasemdum að ríkisskattstjóri eigi á grundvelli hennar að geta ákvarðað á hvaða forsendum lögaðilar teljist heimilisfastir hér á landi. Meiri hlutinn bendir á að úrskurðarvald ríkisskattstjóra er ekki ótakmarkað, sbr. 2. mgr. 2. gr. tekjuskattslaga, nr. 90/2003. Þá verður ríkisskattstjóri að taka mið af stjórnsýslulögum, ákvæðum stjórnarskrár og skuldbindingum Íslands samkvæmt alþjóðlegum samningum við beitingu þessa valds.
    Fram kom á fundum nefndarinnar að samfara aukinni alþjóðavæðingu og netvæðingu hafi fjölgað þeim álitaefnum sem varða ákvörðun á skattalegu heimilisfesti lögaðila. Ríkisskattstjóra er því fengin heimild til að úrskurða í vafatilvikum og ber honum þá m.a. að líta til þeirra viðmiða sem fram koma í umræddri lagagrein eða, eftir atvikum, tvísköttunarsamningum sem Ísland hefur gert. Gert er ráð fyrir að þörfin til að úrskurða verði mest þegar slíkir samningar eru ekki fyrir hendi.
    Eftir ábendingu fjármálaráðuneytisins leggur meiri hlutinn til nokkrar breytingar á einstökum greinum frumvarpsins. Í fyrsta lagi er lagt til að 5. og 11. gr. falli brott þar sem breytingar sem þar eru lagðar til þarfnast meiri undirbúnings. Í annan stað er lagt til nýtt orðalag í 10. gr. frumvarpsins sem meiri hlutinn telur að falli betur að markmiði 73. gr. tekjuskattslaga. Þriðja breytingin varðar 12. gr. frumvarpsins og er henni ætlað að leiðrétta misræmi sem hefur orðið þegar sveitarfélög hafa sameinast þvert á skattumdæmi. Tilgangur fjórðu breytingarinnar er sá að heimila álagningu tekjuskatts á rekstrartekjur alþjóðlegra viðskiptafélaga á árinu þrátt fyrir að lögin sem um þau gilda, nr. 31/1999, falli úr gildi um næstu áramót.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Katrín Jakobsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 12. des. 2007.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Ellert B. Schram.


Bjarni Benediktsson.



Gunnar Svavarsson.


Lúðvík Bergvinsson.


Ólöf Nordal.