Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 326. máls.

Þskj. 521  —  326. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um matvæli, nr. 93/1995.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




1. gr.

    Við 14. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Rekjanleika umbúða og annarra efna og hluta sem ætlað er að snerta matvæli skal tryggja á öllum stigum. Ráðherra er heimilt með reglugerð að setja nánari ákvæði um skyldu framleiðenda og dreifingaraðila til að hafa kerfi og verklagsreglur sem tryggi rekjanleika umbúða og annarra efna og hluta sem ætlað er að komast í snertingu við matvæli til að auðvelda eftirlit, innköllun gallaðra vara, miðlun upplýsinga til neytenda og til að ákvarða ábyrgð á hinni gölluðu vöru.
    Þegar eftirlitsaðili hefur ástæðu til að ætla á grundvelli nýrra upplýsinga eða endurmats á fyrirliggjandi upplýsingum að notkun umbúða og annarra efna eða hluta stofni heilbrigði manna í hættu, þrátt fyrir að umbúðir og önnur efni eða hlutir uppfylli ákvæði laga og reglugerða, er eftirlitsaðila heimilt að takmarka eða stöðva dreifingu vara.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í tengslum við innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1935/2004 frá 27. október 2004 um efni og hluti sem ætlað er að komast í snertingu við matvæli og niðurfellingu á tilskipunum 80/590/EBE og 89/109/EBE.
    Reglugerðin var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 97/2005, þann 8. júlí 2005. Að athuguðu máli þykir ástæða til að kveða á um rekjanleika umbúða og annarra efna og hluta sem ætlað er að komast í snertingu við matvæli í lögum um matvæli, en sú regla er nýmæli. Þegar liggja fyrir ákvæði um rekjanleika matvæla í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 178/2002 um almennar meginreglur og kröfur samkvæmt lögum um matvæli, um stofnun Matvælaöryggisstofnunar Evrópu og um málsmeðferð vegna öryggis matvæla. Rekjanleiki umbúða og annarra efna og hluta sem ætlað er að komast í snertingu við matvæli getur í vissum tilvikum verið jafn mikilvægur með tilliti til öryggis matvæla og rekjanleiki matvælanna sjálfra.
    Efni og hlutir sem ætlað er að snerta matvæli kunna að hafa áhrif á samsetningu matvæla, útlit þeirra, bragð eða lykt. Markmið reglugerðar EB nr. 1935/2004 er m.a. að efni og hlutir sem ætlað er að komast í snertingu við matvæli með beinum eða óbeinum hætti verði að vera nægilega óvirk svo að efni berist ekki í matvæli í því magni sem gæti stofnað heilbrigði manna í hættu eða haft í för með sér óviðunandi breytingu á samsetningu matvæla eða spillt þeim á annan hátt.
    Markmið með kröfum til framleiðenda og dreifingaraðila um rekjanleika umbúða og annarra efna og hluta sem ætlað er að komast í snertingu við matvæli á öllum stigum er að auðvelda eftirlit, innköllun gallaðra vara og miðlun upplýsinga til neytenda. Framleiðendur og dreifingaraðilar efna og hluta skulu a.m.k. geta bent á þau fyrirtæki sem efnin og hlutirnir eru afgreidd frá og til. Kveðið er á um rekjanleika efna og hluta í 17. gr. reglugerðar EB nr. 1935/2004. Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga fer með eftirlit með rekjanleika umbúða og annarra efna og hluta samhliða öðru eftirliti með öryggi matvæla. Í gildi er reglugerð nr. 537/1993 um efni og hluti sem er ætlað að snerta matvæli auk sérreglugerða um umbúðir og önnur efni og hluti.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 93/1995, um matvæli.

    Markmið frumvarpsins er að auka rekjanleika umbúða og annarra efna og hluta sem ætlað er að komast í snertingu við matvæli. Jafnframt eru heimildir eftirlitsaðila styrktar og skýrðar.
    Ekki verður séð að frumvarpið, verði það óbreytt að lögum, hafi í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð.