Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 327. máls.

Þskj. 522  —  327. mál.         
Prentað upp.     

Leiðréttur texti.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs,
nr. 55/2003, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)
1. gr.

    Við 3. gr. laganna bætast eftirfarandi skilgreiningar í viðeigandi stafrófsröð, svohljóðandi:
     1.      Framleiðandi og innflytjandi: aðili sem, óháð þeirri sölutækni sem er notuð,
                  i.      framleiðir og selur raf- og rafeindatæki undir eigin vörumerki,
                  ii.      endurselur raf- og rafeindatæki, undir eigin vörumerki, sem aðrir birgjar framleiða; endursöluaðilinn telst þó ekki vera framleiðandi ef vörumerki framleiðandans er á tækjabúnaðinum eins og kveðið er á um í i. lið, eða
                  iii.      flytur raf- og rafeindatæki inn eða út úr landinu í atvinnuskyni.
     2.      Raf- og rafeindatæki: búnaður sem þarf rafstraum eða rafsegulsvið til að geta starfað á réttan hátt og búnaður til að framleiða, flytja og mæla slíkan rafstraum og rafsegulsvið, sbr. I. viðauka.
     3.      Raf- og rafeindatækjaúrgangur: raf- eða rafeindatæki sem er úrgangur, þ.m.t. allir íhlutir, undireiningar og aukahlutir sem eru hluti af búnaðinum.
     4.      Raf- og rafeindatækjaúrgangur frá heimilum: raf- og rafeindatækjaúrgangur sem kemur frá heimilum, einnig raf- og rafeindatækjaúrgangur frá verslun, iðnaði, stofnunum og annars staðar frá sem er að eðli og umfangi svipaður þeim sem kemur frá heimilum.
     5.      Skilakerfi: fyrirtæki eða aðili sem tekur að sér ábyrgð framleiðanda og innflytjanda á raf- og rafeindatækjaúrgangi.

2. gr.

    Á eftir II. kafla laganna kemur nýr kafli, III. kafli, Raf- og rafeindatækjaúrgangur, með níu nýjum greinum, svohljóðandi, og breytast númer annarra greina og kafla samkvæmt því:

    a. (14. gr.)     

Skyldur sveitarfélaga varðandi raf- og rafeindatækjaúrgang.


    Söfnunarstöðvar sveitarfélaga skulu bjóða upp á móttöku á raf- og rafeindatækjaúrgangi frá heimilum eins og nánar er kveðið á um í reglugerð. Ber þeim að taka við slíkum úrgangi frá heimilum gjaldfrjálst.
    Söfnunarstöðvum sveitarfélaga ber einnig að taka við öðrum raf- og rafeindatækjaúrgangi en frá heimilum og er heimilt að taka gjald til að standa undir kostnaði við móttöku og geymslu hans.
    Sveitarfélögin skulu veita leiðbeiningar um hvernig beri að flokka og skila raf- og rafeindatækjaúrgangi til söfnunarstöðva sveitarfélaga.

    b. (15. gr.)

Ábyrgð framleiðanda og innflytjanda á raf- og rafeindatækjaúrgangi.


    Framleiðandi og innflytjandi skulu bera ábyrgð á þeim raf- og rafeindatækjum sem framleidd eru hér á landi eða flutt inn og falla undir viðauka I. Í ábyrgð framleiðanda og innflytjanda felst að þeir skulu fjármagna og tryggja meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs að frátalinni söfnun til söfnunarstöðvar sveitarfélaga og geymslu þar. Skulu framleiðendur og innflytjendur uppfylla skyldur sínar með rekstri eigin skilakerfis eða með aðild að sameiginlegu skilakerfi fleiri framleiðenda og innflytjenda. Ábyrgð framleiðenda og innflytjenda á söfnun frá söfnunarstöð sveitarfélaga nær til landsins alls án tillits til hvar varan er seld og skal allur raf- og rafeindatækjaúrgangur sem fellur undir lög þessi fara til meðhöndlunar. Seljandi raf- og rafeindatækja sem falla undir lög þessi og seld eru í tollfrjálsri verslun hér á landi og ætluð til innlendra nota ber ábyrgð framleiðanda og innflytjanda samkvæmt lögum þessum.
    Umhverfisráðherra getur, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar, kveðið á um í reglugerð að framleiðanda og innflytjanda annarra raf- og rafeindatækja en raf- og rafeindatækja fyrir heimili sé heimilt að gera samkomulag um að kaupandi raf- og rafeindatækis yfirtaki ábyrgð skv. 1. mgr. Tilkynna ber stýrinefnd raf- og rafeindatækjaúrgangs um gerð slíkra samninga. Umhverfisstofnun skal leita umsagnar stýrinefndar og skilakerfa við gerð tillagna að reglugerð.

    c. (16. gr.)

Upplýsingaskylda framleiðenda og innflytjenda.


    Framleiðandi og innflytjandi skulu í upplýsingum sem ætlaðar eru til dreifingar til kaupanda upplýsa um hvar sé heimilt að skila raf- og rafeindatækjaúrgangi, að hægt sé að skila raf- og rafeindatækjaúrgangi frá heimilum án greiðslu og að ábyrgst sé að hann verði meðhöndlaður í samræmi við gildandi reglur.

    d. (17. gr.)

Upplýsingar til þeirra er meðhöndla úrgang.


    Framleiðendur og innflytjendur skulu veita upplýsingar um rétta meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs til þeirra sem hafa starfsleyfi til að meðhöndla raf- og rafeindatækjaúrgang. Slíkar upplýsingar skulu veittar eigi síðar en ári frá því að raf- og rafeindatæki var markaðssett.

    e. (18. gr.)

Skilakerfi.


    Hlutverk skilakerfis er að:
     a.      tryggja söfnun og móttöku á raf- og rafeindatækjaúrgangi frá söfnunarstöðvum sveitarfélaga og í samráði við sveitarfélögin, alls staðar á landinu,
     b.      tryggja að raf- og rafeindatækjaúrgangur sé meðhöndlaður af atvinnurekstri sem hefur gilt starfsleyfi.
    Skilakerfi skal hafa nægt fjármagn frá framleiðendum og innflytjendum til að tryggja að það geti staðið undir skuldbindingum fyrir hönd viðskiptavina sinna.
    Skilakerfi skal safna og taka á móti og koma til meðhöndlunar því heildarmagni raf- og rafeindatækjaúrgangs sem jafngildir markaðshlutdeild þeirra framleiðenda og innflytjenda sem samning hafa við skilakerfið hvort sem um er að ræða sameiginlegt skilakerfi eða skilakerfi sem er fjármagnað af einum framleiðanda eða innflytjanda.
    Skilakerfum er þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 15. gr. heimilt með samningi að skipta með sér landsvæðum að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga með það að markmiði að stuðla að sem hagkvæmastri söfnun raf- og rafeindaúrgangs. Leggja skal samninginn fyrir stýrinefnd til samþykktar eða synjunar.
    Skilakerfi ber að leggja fram tryggingu um fjárhagslega ábyrgð vegna starfsemi sinnar. Umhverfisráðherra setur að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar reglugerð um upphæð og form hinnar fjárhagslegu ábyrgðar. Heimilt er í reglugerðinni að undanþiggja skilakerfi, sem hefur innan sinna vébanda ákveðinn fjölda framleiðenda og innflytjenda og eru með tiltekna lágmarksmarkaðshlutdeild, tryggingu um fjárhagslega ábyrgð. Umhverfisstofnun skal leita umsagnar stýrinefndar og skilakerfa, svo og annarra hagsmunaaðila, við gerð tillagna að reglugerð.
    Áður en skilakerfi hefur starfsemi skal það afla leyfis Umhverfisstofnunar. Með umsókn um leyfi til rekstrar skilakerfis ber að fylgja trygging um fjárhagslega ábyrgð, sbr. þó 2. málsl. 5. mgr., ásamt umsögn stýrinefndar. Umsóknargjald er 100.000 kr. og skal það standa undir kostnaði við yfirferð umsóknar og útgáfu leyfis.
    Skilakerfi ber að leggja fram upplýsingar til stýrinefndar um að það uppfylli kröfur samkvæmt ákvæðum greinar þessarar.

    f. (19. gr.)

Stýrinefnd raf- og rafeindatækjaúrgangs.


    Sérstök stýrinefnd raf- og rafeindatækjaúrgangs skal hafa umsjón með starfsemi skilakerfa. Stjórn Úrvinnslusjóðs, sbr. lög nr. 162/2002, um úrvinnslugjald, fer með hlutverk stýrinefndar. Hlutverk stjórnar Úrvinnslusjóðs samkvæmt lögum um úrvinnslugjald er ekki á ábyrgð stýrinefndar.
    Hlutverk stýrinefndar er að:
     a.      halda skrá yfir framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindatækja og hafa eftirlit með því að þeir séu skráðir í skráningarkerfið,
     b.      reka skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda,
     c.      safna upplýsingum frá skilakerfum um magn raf- og rafeindatækjaúrgangs og ráðstöfun hans og vinnslu þeirra upplýsinga og skila þeim til Umhverfisstofnunar,
     d.      reikna hlutfall þess raf- og rafeindatækjaúrgangs sem einstökum skilakerfum ber að safna eftir flokkun sem fram kemur í viðauka I í samræmi við markaðshlutdeild,
     e.      meta hvort skilakerfi uppfylli skyldur sínar,
     f.      meta hvort skilakerfi geti staðið undir fjárhagslegum skuldbindingum sínum,
     g.      taka ákvörðun um staðfestingu eða synjun samninga skv. 18. gr.
    Telji stýrinefnd að skilakerfi uppfylli ekki skyldur sínar ber henni að tilkynna það til Umhverfisstofnunar. Stofnuninni er þá heimilt að beita skilakerfi þvingunarúrræðum samkvæmt lögum þessum og ef brot eru alvarleg að svipta skilakerfi leyfi til að starfa.
    Stýrinefnd skal innheimta gjald af skilakerfum til að standa undir kostnaði við uppbyggingu og rekstur stýrinefndar sem hlýst af ákvæðum laga þessara og skal gjaldið vera í samræmi við markaðshlutdeild þeirra innflytjenda og framleiðenda sem aðild eiga að viðkomandi skilakerfi. Skilakerfi geta óskað eftir upplýsingum frá stýrinefnd um samsetningu gjalda, svo sem stofnkostnað, rekstur skráningarkerfis og kostnað við störf stýrinefnda. Gjöld mega ekki vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu.
    Heimilt er að kæra ákvarðanir stýrinefndar skv. g-lið 2. mgr. til umhverfisráðherra.

    g. (20. gr.)

Skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda.


    Framleiðanda og innflytjanda raf- og rafeindatækja ber að skrá sig hjá skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda a.m.k. 15 dögum áður en vara sem fellur undir viðauka I er markaðssett hér á landi.
    Umhverfisráðherra skal að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar setja reglugerð um skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda. Í henni skal fjallað um skyldu framleiðanda og innflytjanda raf- og rafeindatækja til að skrá sig og skila upplýsingum um innflutning eða framleiðslu á raf- og rafeindatækjum til stýrinefndar og á hvaða hátt það skuli gert. Umhverfisstofnun skal leita umsagnar stýrinefndar og skilakerfa, svo og annarra hagsmunaaðila, við gerð tillagna að reglugerð.

    h. (21. gr.)

Eftirlit með framleiðendum og innflytjendum.


    Telji stýrinefnd að framleiðandi eða innflytjandi hafi ekki skráð sig í skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda og að hann framleiði eða flytji inn raf- eða rafeindatæki sem falla undir viðauka I skal stýrinefnd tilkynna það til Umhverfisstofnunar. Stofnunin skal að fenginni tilkynningu stýrinefndar gefa hugsanlegum framleiðanda og innflytjanda kost á að tjá sig um hvort hann framleiði eða flytji inn raf- eða rafeindatæki sem falla undir I. viðauka. Umhverfisstofnun sker úr um hvaða raf- og rafeindatæki falla undir lög þessi. Umhverfisstofnun skal taka ákvörðun um hvort leggja skuli fyrir viðkomandi framleiðanda eða innflytjanda að skrá sig í samræmi við lög þessi. Ef aðili verður ekki við tilmælum Umhverfisstofnunar um skráningu er stofnuninni heimilt að beita þvingunarúrræðum samkvæmt lögum þessum.
    Stýrinefnd er heimilt að óska eftir upplýsingum frá toll- og skattyfirvöldum um heildarmagn, magn í einstökum flokkum, sbr. viðauka I, og magn frá einstökum framleiðendum og innflytjendum vegna framleiðslu og innflutnings á raf- og rafeindatækjum sem falla undir lögin. Ákvæði 188. gr. tollalaga, nr. 88/2005, og 117. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum, skulu ekki vera því til fyrirstöðu að starfsmenn toll- og skattyfirvalda veiti stýrinefnd upplýsingar samkvæmt þessari grein.
    Stýrinefnd er bundin þagnarskyldu um atriði er varða framleiðslu- og verslunarleynd. Sama gildir um atriði sem þeir fá vitneskju um og leynt skulu fara samkvæmt lögum og eðli máls.

    i. (22. gr.)

Reglugerðir um raf- og rafeindatæki.


    Ráðherra er heimilt, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar sem leita skal umsagnar um tillögurnar hjá stýrinefnd, skilakerfum og Sambandi íslenskra sveitarfélaga, að setja reglugerð um eftirtalin atriði:
     a.      fjölda gámastæða á söfnunarstöðvum sveitarfélaga sem þeim ber að bjóða upp á, sbr. 14. gr.,
     b.      bann við sölu á raf- og rafeindatækjum sem ekki er unnt eða erfitt er að endurnota eða endurnýta,
     c.      takmörkun eða bann á sölu á raf- og rafeindatækjum til annarra landa á Evrópska efnahagssvæðinu og utan þess, svo og reglur um söluna,
     d.      lágmarkskröfur um meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs,
     e.      nánari ákvæði um skyldu framleiðenda, innflytjenda, sveitarfélaga og seljenda til að upplýsa kaupendur raf- og rafeindatækja, sbr. ákvæði 16., 17. og 18. gr.,
     f.      skyldu framleiðanda og innflytjanda til að merkja raf- og rafeindatæki sem falla undir viðauka I,
     g.      skyldur innflytjanda sem selur raf- og rafeindatæki í atvinnuskyni í póstverslun, netverslun eða á sambærilegan hátt beint til heimila hér á landi,
     h.      þau markmið sem framleiðanda og innflytjanda ber að ná árlega, um söfnun endurnýtingu og endurnotkun og hlutverk Umhverfisstofnunar til að hafa eftirlit með því að þau markmið náist,
     i.      ítarlegri skrá yfir þau raf- og rafeindatæki sem falla undir yfirflokka í viðauka I,
     j.      nánari útfærslu á hvenær og hvernig skilakerfi sækja raf- og rafeindatækjaúrgang frá söfnunarstöðvum sveitarfélaga,
     k.      nánari útfærslu á skyldu stýrinefndar til að safna upplýsingum frá skilakerfum um magn raf- og rafeindatækjaúrgangs og ráðstöfun hans, vinnslu þeirra upplýsinga og skil á þeim til Umhverfisstofnunar.

3. gr.

    Við 23. gr. laganna, er verður 32. gr., bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Rísi ágreiningur milli stýrinefndar, skilakerfa eða sveitarfélaga vegna söfnunarstöðva sveitarfélaga um framkvæmd laga þessara skal vísa málinu til úrskurðar ráðherra.

4. gr.

    Við lögin bætist viðauki sem orðast svo ásamt fyrirsögn:

VIÐAUKI I


Flokkar raf- og rafeindatækja.


    Raf- og rafeindatæki sem hönnuð eru til notkunar við rafspennu sem fer ekki yfir 1.000 volt þegar um er að ræða riðstraum og ekki yfir 1.500 volt þegar um er að ræða jafnstraum:
     1.      Stór heimilistæki.
     2.      Lítil heimilistæki.
     3.      Upplýsingatækni- og fjarskiptabúnaður.
     4.      Neytendabúnaður.
     5.      Ljósabúnaður.
     6.      Raf- og rafeindatæki (að frátöldum stórum, föstum tækjum til iðnaðar).
     7.      Leikföng og tómstunda-, íþrótta- og útivistarbúnaður.
     8.      Lækningatæki (að frátöldum ígræðsluvörum og vörum sem bera smit).
     9.      Vöktunar- og eftirlitstæki.
     10.      Sjálfsalar.

5. gr.

Innleiðing á tilskipunum.


    Lög þessi eru sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/96/EB frá 27. janúar 2002 um raf- og rafeindabúnaðarúrgang og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/108/EB frá 8. desember 2003 um breytingu á tilskipun 2002/96/EB um raf- og rafeindabúnaðar, sem vísað er til í 1. undirmgr. í lið 32fa í XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 82/2004, og með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 134/2004.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindatækja skulu skrá sig hjá skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda fyrir 1. júní 2008 og eiga aðild að skilakerfi frá sama tíma. Ábyrgð framleiðenda og innflytjenda á raf- og rafeindatækjum og úrvinnslu þess úrgangs sem af þeim hlýst samkvæmt lögum þessum tekur gildi 1. nóvember 2008.

7. gr.

Breytingar á lögum um úrvinnslugjald.


    Eftirfarandi breytingar verða á lögum nr. 162/2002, um úrvinnslugjald:
     a.      1. mgr. 16. gr. laganna orðast svo:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


                  Umhverfisráðherra skipar sex manna stjórn Úrvinnslusjóðs til fjögurra ára í senn. Umhverfisráðherra skipar formann stjórnar án tilnefningar, en fimm meðstjórnendur skulu skipaðir að fenginni tilnefningu viðkomandi aðila, þ.e. einn eftir sameiginlegri tilnefningu Samtaka fiskvinnslustöðva og Landssambands íslenskra útvegsmanna, einn frá Samtökum iðnaðarins, einn frá SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu, einn frá Félagi íslenskra stórkaupmanna og einn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Varaformaður sem skipaður er af ráðherra, eftir tilnefningu stjórnar, skal koma úr hópi stjórnarmanna. Þurfi að kjósa um afgreiðslu mála skal atkvæði formanns ráða úrslitum falli atkvæði jafnt.
     b.      Við 1. mgr. 17. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Enn fremur skal stjórn Úrvinnslusjóðs sinna verkefnum sem henni er falið samkvæmt lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið af nefnd sem skipuð var af umhverfisráðherra 4. maí 2005 og var falið það hlutverk að semja drög að frumvarpi til innleiðingar á tilskipun 2002/96/EB um raf- og rafeindatækjaúrgang og tilskipun 2003/108/EB um breytingu á tilskipun 2002/96/EB um raf- og rafeindatækjaúrgang. Í nefndinni áttu sæti Kristín Linda Árnadóttir, formaður, umhverfisráðuneyti, Sigurbjörg Sæmundsdóttir deildarstjóri, umhverfisráðuneyti, Andrés Magnússon framkvæmdastjóri, tilnefndur af Félagi íslenskra stórkaupmanna, Gunnlaug Einarsdóttir fagstjóri, tilnefnd af Umhverfisstofnun, og Pétur Reimarsson forstöðumaður, tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins. Hinn 7. júní 2007 var Björn H. Halldórsson, framkvæmdastjóri, skipaður í nefndina, samkvæmt tilnefningu frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Nefndin skilaði 22. október 2007 tillögum sínum til umhverfisráðherra ásamt skilabréfi.
    Nefndin skoðaði ítarlega hvort innleiða bæri tilskipun 2002/96/EB um raf- og rafeindatækjaúrgang á grundvelli þess kerfis sem lög um úrvinnslugjald, nr. 162/2002, með síðari breytingum, byggjast á. Niðurstaða varð um það í nefndinni að það kerfi hentaði ekki óbreytt til innleiðingar á framangreindri tilskipun. Byggðist þessi niðurstaða nefndarinnar m.a. á efni tilskipunarinnar sjálfrar og innheimtukerfi úrvinnslugjalds sem fer í gegnum ríkissjóð. Við vinnslu frumvarpsins horfði nefndin til þess hvernig önnur lönd innan EES-svæðisins hugðust innleiða tilskipunina. Nefndin hafði í störfum sínum sérstaklega hliðsjón af kerfum þeim sem hafa verið sett upp í Noregi og Danmörku vegna innleiðingar á tilskipunum um raf- og rafeindatækjaúrgang.
    Eftir að nefndin skilaði af sér til ráðherra var farið yfir frumvarpið í umhverfisráðuneytinu og gerðar breytingar frá tillögum nefndarinnar, m.a. um að stjórn Úrvinnslusjóðs skyldi taka yfir hlutverk stýrinefndar samkvæmt frumvarpinu, og við það breyttist stýrinefndin og fjöldi fulltrúa hennar. Voru gerðar breytingar á ákvæði um stýrinefnd til samræmis við þetta. Haft var samráð við hagsmunaaðila um þær breytingar.
    Í greinargerð þessari verður farið yfir helstu efnisatriði tilskipunar 2002/96/EB um raf- og rafeindatækjaúrgang, fjallað verður um meginreglu um framleiðendaábyrgð og hvaða kröfur hún setur fram og loks verður farið yfir helstu þætti frumvarpsins.

I. Innleiðing á tilskipunum um raf- og rafeindatækjaúrgang.
    Frumvarp þetta er sett fram til innleiðingar á tilskipun 2002/96/EB um raf- og rafeindatækjaúrgang ásamt tilskipun 2003/108/EB um breytingu á tilskipun 2002/96/EB. Í tilskipun 2002/96/EB eru settar fram skyldur framleiðenda og innflytjenda til að fjármagna, safna, meðhöndla og þ.m.t. að endurnýta raftækja- og rafeindatækjaúrgang. Markmið tilskipunarinnar er að draga úr myndun raftækja- og rafeindatækjaúrgangs, auka endurnýtingu og endurnotkun á slíkum úrgangi og vinna að aukinni umhverfisvitund allra sem koma að vörunni á lífsferli hennar. Gerð er krafa um að safna 4 kg af raftækja- og rafeindatækjaúrgangi á hvern íbúa á ári hverju. Síðan ber að endurnota eða endurnýta ákveðið hlutfall af þeim raftækjum sem safnað er, svo og að taka spilliefni úr tækjunum og meðhöndla þau sérstaklega. Gerður er greinarmunur á raftækjum og rafeindatækjum sem ætluð eru til heimilisnota og þeim sem notuð eru í atvinnulífinu.
    Í tilskipuninni er framleiðandi skilgreindur sem aðili sem framleiðir og selur raf- og rafeindatæki undir eigin vörumerki, aðili sem endurselur búnað, undir eigin vörumerki, sem aðrir birgjar framleiða og að lokum aðili sem flytur raf- og rafeindatæki inn eða út úr aðildarríki í atvinnuskyni. Ótvírætt er að innflytjendur raf- og rafeindatækja eru framleiðendur samkvæmt tilskipuninni en að dreifingaraðilar eru það ekki. Heimilt er hins vegar samkvæmt tilskipuninni að skylda dreifingaraðila til að taka við raf- og rafeindatækjaúrgangi á skiptigrundvelli þegar þeir selja sambærilega vöru, þ.e. að taka við raftækjaúrgangi frá kaupanda þegar hann kaupir nýtt raftæki. Hér er þó einungis um heimildarákvæði að ræða.
    Í tilskipuninni er lögð sú skylda á aðildarríkin að þau skuli sjá til þess að framleiðendur eða þriðju aðilar fyrir þeirra hönd í samræmi við löggjöf sambandsins setji upp kerfi til meðhöndlunar og endurnýtingar á raf- og rafeindatækjaúrgangi. Þessar greinar gera ráð fyrir þeim möguleika að þriðji aðili, sem verður þó að uppfylla almennar kröfur sem tilskipunin setur, geti séð um meðhöndlun og endurnýtingu fyrir hönd framleiðenda. Þessi heimild er nauðsynleg til að framleiðendur geti uppfyllt skyldur sínar sameiginlega. Einnig má gera ráð fyrir að sjálfstæð fyrirtæki muni sjá um flutning á raf- og rafeindatækjaúrgangi og meðhöndlun hans en ólíklegt er að hver og einn framleiðandi og innflytjandi muni sjá um þá hluti sjálfur.
    Fjármögnun á meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs frá heimilum er þó óheimilt að setja yfir á þriðja aðila. Aðildarríkjunum er skylt skv. 8. gr. tilskipunarinnar að sjá til þess að framleiðendur fjármagni a.m.k. söfnun frá söfnunarstöð sveitarfélaga og meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs frá heimilum sem er afhentur í söfnunarstöðvar skv. 2. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar. Aðildarríkjunum ber einnig að sjá til þess að hver og einn framleiðandi og innflytjandi leggi fram tryggingu, þegar hann setur vöru á markað, um að meðferð alls raf- og rafeindatækjaúrgangs verði fjármögnuð og að framleiðendur merki vörur sínar greinilega. Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. tilskipunarinnar getur slík trygging verið í formi þátttöku framleiðandans í viðeigandi fjármögnunarkerfum fyrir meðferð raf- og rafeindatækjaúrgangs, endurvinnslutryggingar eða lokaðs bankareiknings. Gert er ráð fyrir að fjármögnun við meðferð eldri raf- og rafeindatækjaúrgangs (historical waste) sé greiddur af öllum framleiðendum á markaði.
    Tilskipunin gerir einnig ráð fyrir að framleiðendum sé heimilt að uppfylla skyldur sínar samkvæmt henni sjálfir eða með því að setja upp eitt eða fleiri sameiginleg kerfi.
    Í viðauka I með tilskipuninni er skrá yfir þau raftæki og rafeindatæki sem falla undir gildissvið hennar, í viðauka II er tilgreint hvaða hluti þurfi að fjarlægja sérstaklega úr tækjabúnaði fyrir förgun hans. Í viðauka III eru sérkröfur um staði þar sem raf- og rafeindatækjaúrgangur skal geymdur og meðhöndlaður og loks er í viðauka IV merki sem setja skal á raf- og rafeindatækin sem eiga að sýna að þeim megi ekki henda með öðrum úrgangi.
    Í frumvarpi þessu er einnig gerð tillaga um að innleidd verði tilskipun 2003/108/EB sem breytir 9. gr. í upphaflegu tilskipuninni og skýrir reglur sem gilda um kostnað við förgun eldri búnaðar annars en þess sem kemur frá heimilum.

II. Framleiðendaábyrgð.
    Helstu meginreglur sem lagt er til í frumvarpi þessu eru að stuðla beri að aukinni endurnýtingu og endurnotkun úrgangs, að dregið sé úr myndun úrgangs og að framleiðendur séu gerðir ábyrgir fyrir úrvinnslu úrgangs þeirra vara sem þeir framleiða, svokölluð framleiðendaábyrgð. Hugmyndafræðin um framleiðendaábyrgð (Producer Responsibility eða Extended producer responsibility, EPR) er ekki nýtilkomin. Meginmarkmið framleiðendaábyrgðar samkvæmt skýrslu OECD frá árinu 2005 sem nefnist „Analytical Framework for evaluating the cost and Benefits of Extended Producer Responsibility programmes“ er að minnka kostnað og umhverfisáhrif vegna meðhöndlunar úrgangs með því að framlengja ábyrgð framleiðenda á vöru sinni svo hún nái einnig yfir ábyrgð á öllum samfélagslegum kostnaði við meðhöndlun úrgangs, þar á meðal umhverfiskostnaði vegna förgunar. Skýrsluhöfundar benda á að venjubundin meðhöndlun á úrgangi frá heimilum sé vanalega á ábyrgð sveitarfélaga og er kostnaði vegna þessa náð með almennri skattlagningu eða með þjónustugjaldi sem sett er á heimili eða fyrirtæki. Það sem gerir kerfi sem byggist á framleiðendaábyrgð frábrugðið öðrum kerfum er í fyrsta lagi að framleiðendaábyrgð færir fjárhagslega ábyrgð, að hluta til eða að öllu leyti, vegna kostnaðar við úrvinnslu úrgangs til framleiðenda og frá sveitarfélögunum og skattgreiðendum. Í öðru lagi er algengt að kerfi sem byggist á framleiðendaábyrgð geri framleiðendur ábyrga fyrir framkvæmdahlið við úrvinnslu sértæks úrgangs, til dæmis söfnun eða stjórnun á úrvinnslukerfi. Í þriðja lagi eru slík kerfi hönnuð á þann hátt að það á að fá framleiðendur til að gera sér betri grein fyrir kostnaði við lokastig vörunnar, þegar hún verður að úrgangi eða fer til endurnýtingar. Þannig er kerfi sem byggist á framleiðendaábyrgð ætlað að hvetja framleiðandann til að taka þennan kostnaðarlið með í reikninginn allan lífsferil vörunnar, þ.e. allt frá hönnun til framleiðslu, notkunar, markaðssetningar og úrvinnslu hennar.
    Í aðfaraorðum tilskipunar um raf- og rafeindatækjaúrgang er tekið fram að bandalagið hafi í fimmtu aðgerðaáætlun sinni á sviði umhverfismála bent á raf- og rafeindatækjaúrgang sem eitt af þeim sviðum sem nauðsynlegt væri að setja reglur um svo að beita mætti meginreglum um að koma í veg fyrir myndun úrgangs, endurnýta hann og farga honum á öruggan hátt. Það var Evrópuþingið sem fór þess á leit með ályktun frá 14. nóvember 1996 að framkvæmdastjórnin legði fram tillögur að tilskipunum um ýmsar tegundir forgangsúrgangs, þ.m.t. raf- og rafeindatækjaúrgang, og að þessar tillögur væru byggðar á meginreglu um ábyrgð framleiðenda.
    Áhersla er lögð á í tilskipuninni að mismunandi beiting ríkjanna á meginreglu um ábyrgð framleiðanda geti leitt til verulegs misræmis í fjárhagsbyrði rekstraraðila og að mismunandi stefnur aðildarríkjanna muni hamla skilvísri endurvinnslu. Tekið er fram að ábyrgð framleiðenda, sem komið er á með tilskipuninni, sé ein leið til að hvetja til þess að raf- og rafeindatæki séu hönnuð og framleidd á þann hátt að tekið sé fullt tillit til og stuðlað að viðgerðum, hugsanlegum endurbótum, endurnotkun, sundurtekningu og endurvinnslu. Bandalagið leggur þannig áherslu á að setja verður grundvallarreglur um fjármögnun á meðferð raf- og rafeindatækjaúrgangs og þurfa þær fjárhagsáætlanir að stuðla að söfnun í miklum mæli og einnig framkvæmd meginreglu um ábyrgð framleiðanda.
    Samkvæmt tilskipuninni skulu notendur raf- og rafeindatækja á heimilum eiga möguleika á því að skila raf- og rafeindatækjaúrgangi á almennar söfnunarstöðvar í sveitarfélögum, a.m.k. án þess að greiða fyrir það. Það eru því framleiðendur sem eiga að fjármagna a.m.k. söfnun frá söfnunarstöðvum og meðferð, endurnýtingu og förgun á raf- og rafeindatækjaúrgangi. Til að hugmyndin um ábyrgð framleiðenda beri sem mestan árangur skal hver framleiðandi bera ábyrgð á því að fjármagna meðferð úrgangs frá eigin framleiðslu. Framleiðandinn getur valið um það hvort hann uppfyllir þessa skyldu einn eða með því að taka þátt í sameiginlegu kerfi. Löggjöf aðildarríkja þarf því að tryggja að framleiðendur geti stofnað eitt eða fleiri sameiginleg kerfi eða að þeir geti staðið einir að slíku kerfi. Lögð er áhersla á að hver framleiðandi og innflytjandi skuli, þegar hann setur vöru á markað, leggja fram fjárhagslega tryggingu til að koma í veg fyrir að kostnaður við meðferð raf- og rafeindatækjaúrgangs frá vöru, sem er ekki lengur framleidd, falli á samfélagið eða aðra framleiðendur. Hins vegar er talið rétt að ábyrgðin á að fjármagna meðferð eldri úrgangs skiptist á milli allra starfandi framleiðenda í sameiginlegu fjármögnunarkerfi sem allir framleiðendur leggi fjármagn til í réttu hlutfalli við markaðshlutdeild. Sameiginleg fjármögnunarkerfi skulu þó ekki hafa þau áhrif að þeir sem framleiða fyrir lítinn markað og í litlu magni, innflytjendur eða nýir aðila á markaði verði útilokaðir.
    Á aðlögunartímabili skal framleiðendum vera það í sjálfsvald sett hvort þeir vekja athygli kaupenda á kostnaðinum við söfnun, meðhöndlun og umhverfisvæna förgun eldri úrgangs við sölu nýrrar vöru. Framleiðendur, sem nýta sér þetta ákvæði, skulu sjá til þess að tilgreindur kostnaður sé ekki meiri en raunverulegur kostnaður.
    Tilskipunin leggur áherslu á að þau kerfi sem sett eru á fót til að sjá um úrvinnslu raf- og rafeindatækjaúrgangs séu sambærileg á öllu EES-svæðinu og á það skilyrði sérstaklega við um fjármögnun kerfisins þar sem mismunandi kröfur milli landa gætu skekkt samkeppnisstöðu fyrirtækja. Hér skiptir einnig miklu að löggjöf landanna stuðli að eðlilegri samkeppni á markaðnum enda er úrvinnsla úrgangs talin sú atvinnugrein sem er í hvað örustum vexti í Evrópusambandinu. Einnig er mikil áhersla lögð á forvarnagildi kerfisins, þ.e. að framleiðendur leitist við að framleiða vöru sem hagkvæmt er að endurvinna, endurnýta eða endurnota. Miklu skiptir því að hver einstakur framleiðandi og innflytjandi geri sér grein fyrir þessu kerfi og taki ábyrgð á rekstri þess.

III. Meginþættir frumvarpsins.
    Hér á eftir verður farið yfir helstu þætti frumvarpsins með áherslu á ábyrgð þeirra aðila sem koma að því. Frumvarpið byggist eins og áður hefur komið fram á meginreglu um framleiðendaábyrgð. Gert er ráð fyrir að framleiðendur og innflytjendur muni bera fjárhagslega ábyrgð á rekstri kerfis um úrvinnslu raf- og rafeindatækjaúrgang en jafnframt beri þeim að uppfylla sínar skyldur með aðild að skilakerfum eða að reka slíkt skilakerfi sjálfir. Skilakerfi er skilgreint í 1. gr. frumvarpsins sem fyrirtæki eða aðili sem tekur að sér ábyrgð framleiðanda og innflytjanda á raf- og rafeindatækjaúrgangi.
    Skilgreining á því hvaða raf- og rafeindatæki falla undir gildissvið frumvarpsins er að finna í skilgreiningu á raf- og rafeindatæki, sbr. 1. gr. frumvarpsins, og að auki í flokkun raf- og rafeindatækja sem er að finna í I. viðauka. Ýmsir möguleikar eru á því hvernig framleiðendur og innflytjendur geta leyst sín mál í samræmi við frumvarpið. Framleiðendur og innflytjendur geta sjálfir tekið sig saman um að stofna skilakerfi, sjálfstætt fyrirtæki gæti tekið að sér rekstur skilakerfis fyrir framleiðendur og innflytjendur og eins getur hver einstakur framleiðandi eða innflytjandi uppfyllt sjálfur sínar skyldur. Gera má ráð fyrir að í raun muni skilakerfi gera samninga við starfandi fyrirtæki á markaðnum, t.d. gámafyrirtæki, um að sækja raf- og rafeindatækjaúrgang til viðkomandi sveitarfélaga. Skilakerfið mundi síðan krefja sína viðskiptamenn um greiðslur í samræmi við kostnað skilakerfisins á hverjum tíma. Hér er því ekki gert ráð fyrir mikilli sjóðsöfnun hjá skilakerfum.
    Í frumvarpinu er lögð áhersla á skýra skiptingu milli ábyrgðarsviðs sveitarfélaga annars vegar og framleiðanda og innflytjanda hins vegar. Þannig er tekið fram að sveitarfélögin eiga að bjóða á söfnunarstöðvum sínum upp á gáma fyrir móttöku á raf- og rafeindatækjaúrgangi. Það er þannig ákvörðun sveitarfélaganna hversu margar söfnunarstöðvar þeir bjóða upp á í sínum sveitarfélögum og hvernig þeir söfnunarstaðir eru reknir. Þegar gámur með raf- og rafeindatækjaúrgangi er fullur ber söfnunarstöð að tilkynna það til hlutaðeigandi skilakerfis sem verður þá að sækja gáminn innan ákveðins frests. Í reglugerð verður kveðið á um hve langur tími má líða frá því söfnunarstöð sveitarfélaga óskar eftir að gámur sé sóttur og þar til hann verður sóttur. Sátt er um að sveitarfélögin sjái um að hafa ákveðin gámastæði fyrir raf- og rafeindatækjaúrgang á söfnunarstöðvum án greiðslu gegn því að framleiðendur taki að sér meðhöndlun á öllum raf- og rafeindatækjaúrgangi sem safnast en ekki einungis að þeir uppfylli lágmarkskröfu tilskipunar, þ.e. 4 kg á íbúa á ári, en þessi útfærsla á kostnaðarskiptingu í samræmi við þau kerfi sem helst hafa verið notuð sem viðmið í frumvarpi þessu, þ.e. kerfi Norðmanna og Dana. Eðlilega geta aðrar söfnunarstöðvar en söfnunarstöðvar sveitarfélaga boðið upp á þessa þjónustu en þeim ber engin skylda til þess.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að það sé alfarið framleiðenda að sjá um aðra og rekstur kerfisins og er það hornsteinn þess enda er það markmiðið með framleiðendaábyrgð að færa ábyrgð á fjármögnun og rekstri á ákveðnum tegundum á úrgangi frá ríki og sveitarfélögum til framleiðenda og innflytjenda sjálfra. Tillögunni er ætlað að tryggja að sem skýrust skil séu milli ábyrgðar framleiðenda og innflytjenda annars vegar og sveitarfélaga hins vegar þannig að ekki þurfi að deila um hverjum beri að gera hvað.
    Þegar kerfið er orðið virkt verður það hlutverk Umhverfisstofnunar að taka á móti upplýsingum frá stýrinefnd eftir flokkum raf- og rafeindatækjaúrgangs og vinna úr þeim upplýsingum. Til þess þarf að setja upp gagnagrunn sem heldur utan um allar upplýsingar sem berast eiga stofnuninni varðandi raf- og rafeindatæki. Gagnagrunnurinn verður settur upp þannig að auðvelt verði að ná í upplýsingar sem Umhverfisstofnun ber að senda til Eftirlitsstofnunar EFTA. Jafnframt mun stofnunin vinna umhverfisvísa úr þessum upplýsingum. Gagnagrunnurinn mun þannig gera stofnuninni kleift að staðreyna að framleiðendur og innflytjendur standi við skuldbindingar sínar og að koma upplýsingum áleiðis til réttra aðila, þar á meðal umhverfisráðuneytisins. Mikilvægt er að gott eftirlit verði með því að kerfið í heild sinni skili þeim árangri sem að er stefnt. Í frumvarpinu er lagt til að Umhverfisstofnun veiti leyfi vegna reksturs skilakerfis en að allt almennt eftirlit með að framleiðendur og innflytjendur standi við skyldur sínar verði í höndum stýrinefndar. Lagt er til að stýrinefnd hafi umsjón með skilakerfum, þar á meðal að gæta þess að fyrirtæki sem bera framleiðendaábyrgð uppfylli sínar skuldbindingar. Hlutverk stýrinefndar verður í höndum stjórnar Úrvinnslusjóðs. Stýrinefnd ber einnig að taka á vandamálum sem geta komið upp. Þetta á t.d. við um hvenær sækja eigi úrgang og hvar ef fleiri en eitt skilakerfi verða á markaðnum og þau koma sér ekki saman um skiptingu landsvæða. Skilakerfi geta samið sín á milli um skiptingu landsvæða og ber stýrinefnd að samþykkja eða synja gerðum samningum. Einnig verði stýrinefndinni falið að safna saman gögnum frá skilakerfum og skila til Umhverfisstofnunar.
    Lagt er til að ráðherra verði heimilt í reglugerð að ákveða að skilakerfi sem hafi ákveðinn fjölda aðila og verulega markaðshlutdeild þurfi ekki að leggja fram ábyrgðartryggingu. Með því að falla frá kröfu um ábyrgðartryggingu á fyrirtæki sem hafa umtalsverða markaðshlutdeild er verið að stuðla að því að framleiðendur taki sig saman um að reka slík kerfi og koma í veg fyrir að fyrirtæki þurfi að leggja fram háar tryggingar. Mikilvægt er að rétt verði að málum staðið þannig að ekki komi upp krafa síðar meir um að ríkið taki yfir þennan málaflokk vegna þess að ákveðin félög framleiðenda hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar.
    Á hinum Norðurlöndunum er komin þónokkur reynsla af kerfum þar sem framleiðendum og innflytjendum hefur verið falinn rekstur og fjármögnun á úrvinnslu úrgangs. Það sem hefur helst verið gagnrýnt er að ekki hafi allir framleiðendur og innflytjendur tekið þátt í slíku kerfi. Í frumvarpi þessu er lögð áhersla á að tryggja að allir þeir sem flytja inn eða framleiða ákveðna vöru sem framleiðendaábyrgð er á taki þátt í fyrirhuguðu kerfi. Þetta er gert samkvæmt kröfu um að allir framleiðendur og innflytjendur skrái sig hjá skrá framleiðenda og innflytjenda. Þessi skylda á einnig við um þá er selja tollfrjáls raf- og rafeindatæki til notkunar hér á landi.
    Í tilskipun um raf- og rafeindatækjaúrgang er gert ráð fyrir að mismunandi reglur gildi hvað varðar ábyrgð framleiðanda og innflytjenda á raf- og rafeindatækjum sem markaðssett eru fyrir eða eftir 13. ágúst 2005. Í ljósi þess að rúm tvö ár eru liðin frá þeim tíma og hversu stuttur líftími flestra þeirra raf- og rafeindatækja er sem tilskipunin nær til er ekki talin ástæða til að flækja kerfið með því að gera mismunandi kröfur eftir því hvenær raf- og rafeindatækið var markaðssett heldur láta ákvæði laganna gilda um öll raf- og rafeindatæki.
    Í tilskipuninni er gerður greinarmunur á reglum hvað varðar raf- og rafeindatækjaúrgang frá heimilum annars vegar og hins vegar frá fyrirtækjum, t.d. iðnfyrirtækjum, stofnunum eða annars staðar frá. Í tilskipuninni er úrgangur frá heimilum skilgreindur sem úrgangur sem kemur frá heimilum eða frá verslun, iðnaði, stofnun og annars staðar frá og er að eðli og umfangi svipaður þeim sem kemur frá heimilum. Hvað varðar raf- og rafeindatækjaúrgang frá iðnaði sem fellur ekki undir að vera heimilisúrgangur er gert ráð fyrir að framleiðandi og innflytjandi fjármagni söfnun og meðhöndlun hans en einnig að heimilt verði að semja um annars konar fyrirkomulag, sbr. b-lið 2. gr. (15. gr.) frumvarpsins.
    Lagt er til í frumvarpinu að skýr ábyrgðarskipting sé á milli framleiðenda og sveitarfélaga hvað varðar kynningu um að skila beri raf- og rafeindatækjaúrgangi sérgreindum á söfnunarstöðvar. Gert er ráð fyrir að sveitarfélögin sjái um að kynna sín söfnunarkerfi, t.d. hvar almenningur getur skilað raf- og rafeindatækjaúrgangi og hvaða tækjum þeir taki við. Það sé hins vegar á ábyrgð framleiðenda að kynna fyrir almenningi hvaða tækjum beri að skila til söfnunarstöðva. Eðlilegt er að framleiðendur og sveitarfélögin eigi samráð um hvernig beri að tryggja að almenningur fái aðgang að upplýsingum um skil á raf- og rafeindatækjum.
    Margs konar skylda er lögð á framleiðanda og innflytjanda hvað varðar merkingar og upplýsingagjöf til ríkis, almennings og þeirra sem meðhöndla úrgang. Framleiðendur og innflytjendur eru skyldaðir til að gefa upplýsingar um magn og tegund raf- og rafeindatækja sem þeir setja á markað, hafa safnað saman, endurnotað og endurnýtt og um magn útflutts úrgangs.
    Framleiðendum og innflytjendum ber að upplýsa notendur raf- og rafeindatækja um að raf- og rafeindatækjaúrgangi sé safnað sérstaklega, hvernig það sé gert, hlutverk neytandans í því að safna þessu saman og hugsanleg áhrif á umhverfið og heilsu manna vegna hættulegra efna í vörunni í tengslum við markaðssetningu á henni. Einnig ber framleiðendum að merkja vörur sínar á ákveðinn hátt.
    Í frumvarpinu er lagt til að stýrinefnd beri að halda skrá yfir framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindatækja. Skráin er einn af mikilvægustu þáttum kerfisins þar sem henni er ætlað að koma í veg fyrir að einstakir framleiðendur og innflytjendur standi fyrir utan kerfið. Þessi skrá gerir það síðan mögulegt að safna saman nauðsynlegum upplýsingum frá framleiðendum og innflytjendum og öðrum aðilum sem koma að kerfinu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. gr. frumvarpsins er að finna tillögu að skilgreiningum sem bæta á við 3. gr. laganna.
    Framleiðandi og innflytjandi er skilgreindur sem aðili sem framleiðir og selur raf- og rafeindatæki undir eigin vörumerki eða endurselur búnað undir eigin vörumerki sem aðrir birgjar framleiða. Einnig telst sá vera framleiðandi og innflytjandi sem flytur raf- og rafeindatæki inn eða út frá Íslandi í atvinnuskyni. Telja verður að á Íslandi sé algengast að raf- og rafeindatæki séu flutt inn frá útlöndum og telst sá aðili sem flytur inn slíka vöru vera innflytjandi. Hins vegar telst sá sem eingöngu leggur til fjármagn samkvæmt einhvers konar samningi um fjármögnun ekki framleiðandi eða innflytjandi nema hann starfi einnig sem framleiðandi í skilningi i. til iii. liðar. Mikilvægt er að skilgreiningin sé óháð þeirri sölutækni sem er notuð og nái þannig m.a. yfir fjarsölu.
    Raf- og rafeindatæki eru skilgreind sem búnaður sem þarf rafstraum eða rafsegulsvið til að geta starfað á réttan hátt og búnaður til að framleiða, flytja og mæla slíkan rafstraum og rafsegulsvið. Í viðauka I er að finna nánari tilgreiningu á flokkum raf- og rafeindatækja og skal búnaðurinn hannaður til notkunar við rafspennu sem fer ekki yfir 1.000 volt þegar um er að ræða riðstraum og ekki yfir 1.500 volt þegar um er að ræða jafnstraum. Viðauki I við lögin er samhljóða viðauka I a við tilskipun um raf- og rafeindatækjaúrgang. Við nánari útfærslu á hvaða raf- og rafeindatæki falla undir lögin ber að nota viðauka I b við tilskipun um raf- og rafeindatækjaúrgang sem viðmið, sbr. heimild í i. lið 2. gr. frumvarpsins til að setja reglugerð þar um.
    Lagt er til í greininni að raf- og rafeindatækjaúrgangur frá heimilum sé skilgreindur sem raf- og rafeindatækjaúrgangur sem kemur frá heimilum eða frá verslun, iðnaði, stofnunum og annars staðar frá og er að eðli og umfangi svipaður þeim sem kemur frá heimilum. Þessi skilgreining byggist á tilskipun um raf- og rafeindatækjaúrgang. Er það á valdsviði söfnunarstöðva sveitarfélaga að ákveða hvað sé raf- og rafeindatækjaúrgangur sem er að eðli og umfangi svipaður þeim sem kemur frá heimilum. Söfnunarstöðvum sveitarfélaga er skylt að taka við raf- og rafeindatækjaúrgangi sem fellur ekki undir skilgreiningu að vera frá heimilum en þeim er heimilt í samræmi við a-lið (14. gr.) 2. gr. frumvarpsins að taka gjald til að mæta kostnaði við móttöku og geymslu hans.
    Raf- og rafeindatækjaúrgangur er skilgreindur sem úrgangur, þ.m.t. allir íhlutir, undireiningar og aukahlutir sem eru hluti af vörunni þegar henni er fleygt. Mikilvægt er að allir þeir hlutar raf- og rafeindatækja sem eru hluti af vörunni þegar hún er seld falli undir að vera raf- og rafeindatækjaúrgangur þegar varan er orðin að úrgangi.
    Skilakerfi er skilgreint sem fyrirtæki eða aðili sem tekur að sér ábyrgð framleiðanda og innflytjanda á raf- og rafeindatækjaúrgangi. Framleiðanda og innflytjanda ber að uppfylla skyldur sínar með aðild að skilakerfi, sbr. b-lið (15. gr.) 2. gr. frumvarpsins. Einn framleiðandi eða innflytjandi getur fallið undir að vera skilakerfi en einnig geta framleiðendur og innflytjendur gert samning við skilakerfi um að þeir taki að sér ábyrgð á þeim samkvæmt frumvarpinu.

Um 2. gr.


    Lagt er til að við lögin bætist nýr kafli, III. kafli, sem beri heitið Raf- og rafeindaúrgangur með níu nýjum greinum og breytist númer annarra greina laganna í samræmi við það.
     Um a-lið (14. gr.).
    Í a-lið er fjallað um skyldur sveitarfélaga til að taka á móti raf- og rafeindatækjaúrgangi.
    Lagt er til í 1. mgr. að söfnunarstöðvum sveitarfélaga beri að bjóða upp á móttöku á raf- og rafeindatækjaúrgangi frá heimilum, hvort sem sveitarfélög gera það beint eða semja við einkaaðila um að reka söfnunarstöðvar í viðkomandi sveitarfélögum. Eðlilega geta aðrar söfnunarstöðvar boðið þessa þjónustu en þeim ber engin skylda til þess. Skyldan liggur einungis hjá söfnunarstöðvum sveitarfélaga. Í i-lið (22. gr.) 2. gr. frumvarpsins er lagt til að Umhverfisstofnun í samráði við stýrinefnd, Samband íslenskra sveitarfélaga og skilakerfi vinni tillögu að reglugerð til umhverfisráðherra um fjölda þeirra gámastæða sem söfnunarstöðvum sveitarfélaga ber að leggja til vegna gáma undir raf- og rafeindatækjaúrgang. Lagt er til að kveðið verði á um fjölda gámastæða í reglugerð enda munu upplýsingar, m.a. byggðar á reynslu og þróun á markaði, móta þau ákvæði sem munu kveða á um þessa skyldu og því ekki rétt að rígbinda það í lögum. Gert er ráð fyrir að skilakerfi sem vilja t.d. aðeins safna ákveðnum merkjum af raf- og rafeindatækjum þyrftu þá að semja sérstaklega við sveitarfélögin um gámastæði og greiða fyrir þau. Einnig er gert ráð fyrir að skilakerfi geti síðar samið sérstaklega við sveitarfélögin um að þau bjóði upp á frekari flokkun á raf- og rafeindatækjaúrgangi, t.d. ef það hentar betur að hafa fleiri gáma á söfnunarstöð fyrir raf- og rafeindatækjaúrgang en upphaflega var gert ráð fyrir. Einungis er gert ráð fyrir að tekið sé gjaldfrjálst við þeim úrgangi sem fellur undir skilgreininguna á raf- og rafeindatækjaúrgangur frá heimilum, sbr. 1. gr. frumvarpsins.
    Í 2. mgr. er kveðið á um skyldu sveitarfélaga til að taka á móti öðrum raf- og rafeindatækjaúrgangi en frá heimilum. Tiltekið er að söfnunarstöðvum sveitarfélaga sé heimilt að taka gjald vegna kostnaðar við móttöku og geymslu slíks úrgangs sem fellur ekki undir að vera raf- og rafeindatækjaúrgangur frá heimilum. Það er síðan skilakerfis að sækja raf- og rafeindatækjaúrgang frá söfnunarstöðvum sveitarfélaga og koma honum til meðhöndlunar. Gert er ráð fyrir að kveðið sé á í reglugerð, sbr. i. lið 2. gr. frumvarpsins, um þann tíma sem má líða milli þess sem söfnunarstöð sveitarfélaga óskar eftir að gámur sé sóttur og þess að náð er í hann.
    Í 3. mgr. er kveðið á um þá skyldu sveitarfélaga að leiðbeina heimilum um flokkun og skil á raf- og rafeindatækjaúrgangi til söfnunarstöðvar. Eðlilegt er að það sé á ábyrgð sveitarfélaga að kynna þetta fyrir íbúum enda geta sveitarfélög boðið upp á mismunandi kerfi hvað varðar skil. Er þetta í samræmi við ábyrgð sveitarfélaga á söfnun á heimilisúrgangi. Einnig er gert ráð fyrir að sveitarfélög leiðbeini öðrum sem vilja nýta sér þjónustu söfnunarstöðva sveitarfélaganna.
     Um b-lið (15. gr.).
    Í b-lið er fjallað um ábyrgð framleiðenda og innflytjenda á raf- og rafeindatækjum á að fjármagna og tryggja úrvinnslu raf- og rafeindatækjaúrgangs. Kveðið er á um skyldu þeirra til að fjármagna meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs að frátalinni söfnun til söfnunarstöðva sveitarfélaga og geymslu á söfnunarstöð sveitarfélaga. Er framleiðendum og innflytjendum heimilt að uppfylla ábyrgð sína sameiginlega eða standa einir. Í báðum tilvikum ber þeim að gera það í skilakerfi. Stór hluti smærri raf- og rafeindatækja sem eru í notkun hér á landi eru seld í fríhöfn, þ.e. í tollfrjálsri verslun. Mikilvægt er að allir sem selja raf- og rafeindatæki sem verða að úrgangi hér á landi séu með í því kerfi sem fyrirhugað er að setja upp. Því er kveðið á um það í b-lið (15. gr.) að seljandi raf- og rafeindatækja sem seld eru í tollfrjálsri verslun hér á landi og ætluð eru til innlendra nota beri framleiðendaábyrgð samkvæmt ákvæðum frumvarpsins.
    Skylda skilakerfa nær ætíð til landsins alls án tillits til þess hvar vara er seld. Í e-lið (18. gr.) 2. gr. er að finna ákvæði um kröfur sem skilakerfi þurfa að uppfylla hvort sem framleiðendur og innflytjendur ákveða að uppfylla skyldur sínar sjálfstætt eða með aðild að sameiginlegu skilakerfi. Framleiðandi og innflytjandi skulu bera ábyrgð á þeim flokkum raf- og rafeindatækjaúrgangs sem hann flytur inn eða framleiðir hér á landi. Mikilvægt er að ábyrgð framleiðenda og innflytjenda á að sækja raf- og rafeindatækjaúrgang nái einungis til söfnunarstöðva sem sveitarfélögin reka. Aðrar söfnunarstöðvar, svo og fyrirtæki, verða að semja sérstaklega við skilakerfi um söfnun á raf- og rafeindatækjaúrgangi frá þeim. Byggist þessi aðgreining á skýrri skyldu sveitarfélaga, sem fram kemur í tilskipun um raf- og rafeindatækjaúrgang, til að taka gjaldfrjálst á móti raf- og rafeindatækjaúrgangi frá heimilum og skyldu þeirra til að taka við öðrum raf- og rafeindatækjaúrgangi þótt heimilt sé að taka gjald fyrir móttöku og geymslu. Skilgreining á söfnunarstöð er að finna í 3. gr. laganna.
    Í 2. mgr. er að finna ákvæði um að umhverfisráðherra verði heimilt í reglugerð að kveða á um heimild framleiðanda og innflytjanda raf- og rafeindatækja sem ætluð eru til nota í verslunum, iðnaði eða stofnunum o.s.frv. og munu ekki falla undir skilgreiningu á raf- og rafeindatækjaúrgangi frá heimilum til að semja um sín á milli að kaupandi búnaðarins yfirtaki ábyrgð skv. 1. mgr. Þessi heimild mun þannig einungis ná yfir mjög stór og/eða sérhæfð tæki sem ljóst er að muni ekki verða skilað sem almennum úrgangi. Er hér um að ræða undanþáguákvæði sem ber að skilgreina þröngt og mun t.d. ekki ná yfir tölvur sem eru einnig seldar til almennings.
     Um c-lið (16. gr.).
    Í c-lið er að finna kröfu um að framleiðandi og innflytjandi skuli í upplýsingum sem ætlaðar eru til dreifingar til kaupenda upplýsa a.m.k. um hvar sé heimilt að skila raf- og rafeindatækjaúrgangi, að heimilt sé að skila viðkomandi úrgangi frá heimilum án greiðslu og að ábyrgst sé að hann verði meðhöndlaður í samræmi við gildandi reglur. Í i-lið (22. gr.) er umhverfisráðherra heimilað að setja í reglugerð frekari ákvæði um upplýsingaskyldu framleiðenda og innflytjenda. Framleiðendum og innflytjendum ber m.a. að taka fram í upplýsingum sem komið er á framfæri til kaupenda að eftir líftíma vörunnar skuli ekki blanda henni saman við annan úrgang og að heimilt sé að skila henni á söfnunarstöðvar sveitarfélaga án greiðslu sé um að ræða raf- og rafeindatækjaúrgang frá heimilum.
     Um d-lið (17. gr.).
    Í d-lið er lagt til að framleiðendum og innflytjendum beri að veita upplýsingar um rétta meðhöndlun hverrar gerðar af nýjum raf- og rafeindatækjum sem sett er á markað til þeirra aðila sem sjá um meðhöndlun slíks úrgangs. Tilgangur þessa ákvæðis er að auðvelda endurnotkun og rétta meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangi, þ.m.t. viðhald, uppfærslu, endurnýjun og endurvinnslu. Gert er ráð fyrir að slíkar upplýsingar þurfi að lágmarki að uppfylla kröfur sem nauðsynlegar eru aðilum sem sjá um meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs til að geta endurnotað og endurnýtt slíkan úrgang, svo sem vegna íhluta og efniviðar raf- og rafeindatækja og hættulegra efna og efnablandna. Slíkum upplýsingum er hægt að koma á framfæri á ýmsan hátt, t.d. í handbók eða á rafrænum miðlum svo sem geisladiskum eða með beinlínuþjónustu. Skulu upplýsingar um rétta meðhöndlun á raf- og rafeindatækjaúrgangi veittar innan árs frá því að raf- og rafeindatækið var markaðssett.
     Um e-lið (18. gr.).
    Í e-lið er kveðið á um ábyrgð sem skilakerfi tekur að sér fyrir hönd framleiðenda og innflytjenda. Helstu skyldur skilakerfis eru að tryggja að úrgangi sé safnað án gjaldtöku frá söfnunarstöðvum sveitarfélaga og skal hafa samráð við sveitarfélögin um fyrirkomulag við söfnunina. Ber skilakerfi þannig ábyrgð á að sækja til söfnunarstöðva sveitarfélaga söfnuðum raf- og rafeindatækjaúrgangi og ábyrgjast að hann hljóti viðeigandi meðferð. Samráðið skal meðal annars taka til þess hvenær úrgangur er sóttur hjá hverri söfnunarstöð og á hvern hátt. Skilakerfi ber að safna og taka við raf- og rafeindatækjaúrgangi alls staðar á landinu. Verði skilakerfi fleiri en eitt er þeim heimilt með samningi að skipta landinu sín á milli til að tryggja hagkvæmni, þannig að skilakerfum sé ekki skylt að safna og taka við úrgangi frá öllu landinu. Slíka samninga skal leggja fyrir stýrinefnd til samþykktar eða synjunar. Jafnvel þótt skilakerfi hafi t.d. umbjóðendur sem selja einungis á höfuðborgarsvæðinu er skyldan fortakslaus um að þeim beri að safna á landinu öllu nema búið sé að skipta landinu upp með staðfestum samningi. Eins og áður greinir er skilakerfum heimilt með samningi sín á milli að skipta landinu upp í svæði ef tvö eða fleiri skilakerfi verða á markaðnum. Skilakerfi skulu hafa samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga um skiptingu í landsvæði. Mikilvægt er að hver söfnunarstöð sveitarfélaga þurfi einungis að eiga samskipti við eitt skilakerfi.
    Skilakerfi er einungis heimilt að semja um úrvinnslu úrgangs við atvinnurekstur með gilt starfsleyfi. Þetta á einnig við ef skilakerfi semur við aðila í öðru landi en Íslandi innan EES- svæðisins.
    Þess er krafist að skilakerfi hafi nægjanlegt fjármagn til að standa undir skuldbindingum sínum. Er það hlutverk stýrinefndar að fylgjast með að skilakerfi geti staðið við sínar skuldbindingar en einnig er í 5. mgr. krafa um tryggingu um fjárhagslega ábyrgð. Mikilvægt er að skilakerfið hafi nægilegt fjármagn til að tryggja að það geti staðið við skuldbindingar sínar fyrir hönd viðskiptavina sinna. Gert er ráð fyrir að skilakerfi þurfi að sækja um leyfi til Umhverfisstofnunar, sbr. 6. mgr., áður en þeim er heimilt að hefja starfsemi.
    Í 3. mgr. er kveðið á um skyldu skilakerfis til að safna og taka á móti hlutfalli af heildarmagni raf- og rafeindatækjaúrgangs sem jafngildir markaðshlutdeild þeirra fyrirtækja sem samning hafa við það. Er það á ábyrgð stýrinefndar sem rekur skrá framleiðenda og innflytjenda að reikna út hlutfall þess raf- og rafeindatækjaúrgangs sem einstökum skilakerfum ber að safna.
    Í 5. mgr. er eins og áður segir lagt til að skilakerfum beri að leggja fram tryggingu um fjárhagslega ábyrgð vegna rekstrar síns. Lagt er til að umhverfisráðherra setji reglugerð þar sem nánari reglur verða settar um upphæð og form ábyrgðar eða tryggingar. Upphæð ábyrgðar eða tryggingar, svo og form, þarf að tryggja að nægilegir fjármunir séu tiltækir til að greiða fyrir úrvinnslu þess úrgangs sem viðkomandi hefur sett á markað. Lagt er til að ákveðið verði í reglugerð að skilakerfi sem hafi ákveðinn fjölda viðskiptavina sem hafa ákveðna markaðshlutdeild geti verið undanþegið sérstakri ábyrgðartryggingu. Í norska og danska kerfinu er gert ráð fyrir að skilakerfi sem hafi a.m.k. 10 meðlimi eða 30% skráðra framleiðenda eða innflytjenda á framleiðendaskrá og hafi a.m.k. 30% markaðshlutdeild í einum af þeim flokkum sem er að finna í viðauka I geti verið undanþegið ábyrgðartryggingu. Í ljósi smæðar hins íslenska markaðar gæti verði ástæða til að hafa kröfu um markaðshlutdeild hærri hér á landi.
    Umhverfisstofnun ber skv. 6. mgr. að veita leyfi til rekstrar skilakerfis. Tiltekið er að með umsókn til rekstrar skilakerfis til Umhverfisstofnunar beri að fylgja umsögn stýrinefndar um hvort hún telur að umsækjandi uppfylli skilyrði laganna. Lagt er til að Umhverfisstofnun sé heimilt að innheimta 100.000 kr. vegna yfirferðar umsóknar. Þar sem ljóst er að Umhverfisstofnun muni ekki fá margar slíkar umsóknir er talið eðlilegra að binda umsóknargjald í lögin. Leyfi fyrir skilakerfi eru ótímabundin.
    Í 7. mgr. er kveðið á um skyldur skilakerfa til að leggja fram upplýsingar til stýrinefndar um að það uppfylli kröfur samkvæmt þessari grein. Einnig er kveðið á um þau þvingunarúrræði sem heimilt er að beita vegna þeirra fyrirtækja sem uppfylla ekki skyldur sínar til að leggja fram upplýsingar. Er Umhverfisstofnun m.a. heimilt að beita þvingunarúrræðum sem er að finna í 21. gr. laganna sem verður 32. gr. verði frumvarpið að lögum.
     Um f-lið (19. gr.).
    Í f-lið er lagt til að stjórn Úrvinnslusjóðs fari með hlutverk stýrinefndar raf- og rafeindatækjaúrgangs. Gert er ráð fyrir að bætt verði við stjórn Úrvinnslusjóðs fulltrúa Félags íslenskra stórkaupmanna. Skýr greinarmunur er gerður á því hvenær stjórnin er að störfum samkvæmt lögum um úrvinnslugjald og hvenær hún er að sinna störfum stýrinefndar. Stýrinefndinni er ætlað það hlutverk að hafa umsjón með starfsemi skilakerfisins, þ.e. að skilakerfin ef þau verða tvö eða fleiri uppfylli skyldur sínar, tryggja að það virki og safna saman upplýsingum frá þeim til að skila til Umhverfisstofnunar. Stýrinefnd er samstarfsvettvangur atvinnulífsins og þannig ætlað að tryggja að allir innflytjendur og framleiðendur axli ábyrgð sína og að hún deilist niður á þá í samræmi við innflutning og framleiðslu.
    Í 2. mgr eru settar fram þær skyldur sem stýrinefnd ber að sinna. Stýrinefnd ber að meta hvort skilakerfi uppfylli skyldur sínar og hvort það geti staðið undir fjárhagslegum skuldbindingum sínum. Gert er ráð fyrir að stýrinefnd reki skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda, sbr. g-lið (20. gr.) 2. gr. frumvarpsins. Stýrinefnd skal hafa eftirlit með að framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindatækja séu skráðir í skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda. Telji stýrinefnd að skilakerfi uppfylli ekki skyldur sínar ber henni að tilkynna það til Umhverfisstofnunar, sbr. 3. mgr. Einnig skal stýrinefnd safna saman og vinna úr upplýsingum frá skilakerfum og senda til Umhverfisstofnunar. Í d-lið (17. gr.) er lagt til að stýrinefnd beri að reikna út hlutfall þess raf- og rafeindatækjaúrgangs sem einstökum skilakerfum ber að safna eftir flokkum sem tilteknir eru í viðauka I.
    Skilakerfi hafa heimild til að skipta landsvæðum milli einstakra skilakerfa að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Slík skipting er háð samningi sem stýrinefnd staðfestir eða synjar. Heimilt er að kæra slíkar ákvarðanir stýrinefndar til umhverfisráðherra.
    Lagt er til í 4. mgr. að stýrinefnd verði skylt að innheimta gjöld sem standa eiga undir kostnaði við uppbyggingu og rekstur stýrinefndar. Þetta þýðir að nefndinni sé einungis heimilt að taka gjöld sem nægja til að standa undir kostnaði við framangreint en hún á ekki að skila hagnaði. Til að veita nefndinni aðhald geta skilakerfi óskað eftir upplýsingum um einstaka gjaldaliði. Gjaldtökuheimildin nær til þeirra rekstrarþátta sem nefndinni er ætlað að sinna í samræmi við lögin.
     Um g-lið (20. gr.).
    Lagt er til í 1. mgr. að framleiðendum og innflytjendum raf- og rafeindatækja beri að skrá sig hjá skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda a.m.k. 15 dögum áður en vara er markaðssett hér á landi. Stýrinefnd rekur skráningarkerfið. Framleiðendur og innflytjendur skulu einnig gefa skráningarkerfinu upplýsingar, sbr. 2. mgr. Í h-lið (21. gr.) 2. gr. frumvarpsins er að finna heimildir til handa stýrinefnd og Umhverfisstofnun til að tryggja að allir framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindatækjaúrgangs skrái sig hjá kerfinu.
    Lagt er til í 2. mgr. að umhverfisráðherra setji að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar reglugerð um skráningarkerfi framleiðenda. Í henni skal fjallað um skyldu framleiðenda raf- og rafeindatækjaúrgangs til að skrá sig og til að gefa upplýsingar um innflutning eða framleiðslu á raf- og rafeindatækjum eftir einstökum flokkum auk annara upplýsinga sem stýrinefnd telur nauðsynlegt að fá afhentar til að tryggja virkni kerfisins. Við vinnslu á reglugerðinni skal Umhverfisstofnun leita umsagnar hjá stýrinefnd og skilakerfi, auk annarra hagsmunaaðila.
     Um h-lið (21. gr.).
    Gerð er krafa í tilskipun um raf- og rafeindatækjaúrgang að þvingunarúrræði skuli vera til staðar til að tryggja virkni kerfisins. Skulu þvingunarúrræðin vera áhrifarík, vera í samræmi við meðalhófsreglu og vera til varnaðar. Í 1. mgr. er lagt til að stýrinefnd skuli hafa eftirlit með að framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindatækja séu skráðir í skráningarkerfi framleiðenda. Skrái framleiðandi eða innflytjandi raf- og rafeindatækja sig ekki hjá skráningarkerfinu skal stýrinefnd tilkynna það til Umhverfisstofnunar. Stofnunin skal taka mál til skoðunar og taka ákvörðun um hvort leggja skuli fyrir viðkomandi framleiðanda eða innflytjanda að skrá sig í samræmi við g-lið frumvarpsins. Verði viðkomandi ekki við tilmælum Umhverfisstofnunar er stofnuninni heimilt að beita þvingunarúrræðum í samræmi við ákvæði laganna.
    Í 2. mgr. er lagt til að stýrinefnd sé heimilt að óska eftir upplýsingum frá tollayfirvöldum um heildarmagn, magn í einstökum flokkum, sbr. viðauka I, og magn frá einstaka framleiðanda og innflytjanda vegna framleiðslu og innflutnings á raf- og rafeindatækjum sem falla undir lögin. Tiltekið er að ákvæði 188. gr. tollalaga, nr. 88/2005, og 117. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum, skulu ekki vera því til fyrirstöðu að starfsmenn toll- og skattyfirvalda veiti stýrinefnd upplýsingar samkvæmt þessari grein. Er hér um að ræða mikilvæga heimild fyrir virkni kerfisins þar sem útreikningar eru á ábyrgð einstakra framleiðenda og innflytjenda og eru gerðir á grundvelli hlutdeildar í heildarinnflutningi. Skilakerfunum er heimilt þegar þau gera samninga við einstaka framleiðendur og innflytjendur að gera kröfu um þær upplýsingar sem þau telja sig þurfa á að halda til að geta yfirtekið ábyrgð þeirra samkvæmt frumvarpinu. Er þar um að ræða frjálsa samninga milli tveggja aðila og þarf því ekki að fjalla um það í frumvarpinu.
    Í 3. mgr. er lagt til að stýrinefnd sé bundin þagnarskyldu um atriði er varðar framleiðslu- og verslunarleynd. Sama gildir um atriði sem nefndin fær vitneskju um og leynt skulu fara samkvæmt lögum og eðli máls.
     Um i-lið (22. gr.).
    Í greininni er að finna tillögur að reglugerðarheimildum til handa umhverfisráðherra. Umhverfisstofnun skal vinna tillögurnar og leita við þá vinnu umsagnar hjá stýrinefnd, skilakerfum og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Í a-lið er sett fram heimild til að tilgreina fjölda gámastæða á söfnunarstöðvum sveitarfélaga fyrir raf- og rafeindatækjaúrgang.
    Í b-lið er að finna heimild til að banna sölu á raf- og rafeindatækjum sem ekki er unnt eða erfitt er að endurnota eða endurnýta. Er þessi heimild í samræmi við kröfur í tilskipun um raf- og rafeindatækjaúrgang.
    Í c-lið er að finna heimild til að setja reglugerð um sölu á raf- og rafeindatækjum til annarra landa á Evrópska efnahagssvæðinu og landa utan þess. Setja þarf reglur sem skylda útflytjanda raf- og rafeindatækjaúrgangs til að skrá sig í skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda í innflutningslandi.
    Í d-lið er að finna heimild til að setja í reglugerð lágmarkskröfur um meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs. Þessar kröfur er að finna í viðaukum við tilskipun um raf- og rafeindatækjaúrgang.
    Í e-lið er kveðið á um heimild til að setja í reglugerð nánari ákvæði um skyldu framleiðanda, innflytjanda, sveitarfélaga og seljenda til að upplýsa kaupendur raf- og rafeindatækja, sbr. 16., 17. og 18. gr. laganna verði frumvarp þetta að lögum. Ástæða er talin til að heimila að kveðið verði á um upplýsingaskyldu seljenda í reglugerð enda er hann sá aðili sem neytandi kaupir vöruna af. Kynning seljanda á þeim upplýsingum sem framleiðandi og innflytjandi útbúa til kaupenda skiptir þannig miklu um hvernig til tekst við að koma upplýsingum á framfæri.
    Í f-lið er að finna heimild til að kveða á um skyldu framleiðanda og innflytjanda til að merkja raf- og rafeindatæki sem falla undir viðauka I. Tiltekið er í tilskipun um raf- og rafeindatækjaúrgang hvernig merkið er með skýringarmynd og er það nú þegar komið í notkun.
    Í g-lið er að finna heimild til að kveða á um skyldu innflytjanda sem selur í póstverslun, í netverslun eða með sambærilegum hætti beint til heimila vörur sem falla undir lögin. Þetta er mikilvægt þar sem töluvert magn af raf- og rafeindatækjum kemur inn í landið á þennan hátt.
    Í h-lið er að finna heimild til að kveða á um þau markmið um söfnun, endurnotkun og aðra meðhöndlun sem framleiðanda og innflytjanda ber að ná árlega eftir flokkum, sbr. viðauka I. Samkvæmt tilskipun 2002/96/EB er gert ráð fyrir að stjórnvöld sjái til þess að framleiðendur eða þriðju aðilar fyrir þeirra hönd nái ákveðnum markmiðum hvað varðar endurnotkunarhlutfall raf- og rafeindatækjaúrgangs. Það er á ábyrgð framleiðenda og innflytjenda að ná þeim markmiðum sem sett verða í reglugerð af umhverfisráðherra að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að öllum raf- og rafeindatækjaúrgangi sem er sérgreindur frá öðrum úrgangi fari í endurnotkun eða aðra meðhöndlun. Það verður síðan hlutverk Umhverfisstofnunar sem eftirlitsaðila með kerfinu að fylgjast með því að kerfið í heild sinni nái að lágmarki þeim kröfum sem reglugerðir gera ráð fyrir. Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að allur raf- og rafeindatækjaúrgangur sem er safnað verði komið í viðeigandi ferli og má því gera ráð fyrir að lágmarkskröfum reglugerða verði náð fljótlega eftir að kerfið hefur starfsemi.
    Í i-lið er lagt til að sett verði í reglugerð nánari tilgreining á undirflokkum þeirra raf- og rafeindatækja sem tilgreind eru í viðauka I. Í tilskipun 2002/96/EB er að finna í I. viðauka A og B lista yfir þau raf- og rafeindatæki sem falla undir tilskipunina. Gert er ráð fyrir að nánari tilgreining sem sett verður í reglugerð byggist á tilskipun 2002/96/EB. Helstu flokkar raf- og rafeindatækja sem falla undir frumvarpið eru stór heimilistæki, lítil heimilistæki, upplýsingatæki og fjarskiptabúnaður, neytendabúnaður, ljósabúnaður, raf- og rafeindatæki að frátöldum stórum föstum tækjum til iðnaðar, leikföng, tómstunda-, íþrótta- og útivistarbúnaður, lækningatæki að frátöldum ígræðsluvörum og vörum sem bera smit, vöktunar- og eftirlitstæki og sjálfsalar, sbr. viðauka I.
    Í j-lið er að finna heimild til að kveða á um nánari útfærslu á hvenær og hvernig skilakerfi sækja raf- og rafeindatækjaúrgang frá söfnunarstöðvum sveitarfélaga. Hér er um mikilvæga heimild að ræða ef aðilar verða ekki á eitt sáttir um hvernig söfnun frá söfnunarstöð á að fara fram.
    Í k-lið er að finna heimild til handa ráðherra til að skylda stýrinefnd til að safna upplýsingum frá skilakerfum um magn raf- og rafeindatækjaúrgangs og ráðstöfun hans og til að vinna úr þeim upplýsingum og um skil á þeim til Umhverfisstofnunar.

Um 3. gr.


    Í greininni er lagt til að rísi upp ágreiningur milli stýrinefndar, skilakerfa eða sveitarfélaga vegna söfnunarstöðva sveitarfélaga um framkvæmd laga þessara sé heimilt að vísa málinu til úrskurðar ráðherra. Gert er ráð fyrir að ráðherra fari með úrskurðarvald í þeim tilvikum þar sem rís upp ágreiningur milli framangreindra aðila um framkvæmd laganna vegna söfnunarstöðva sveitarfélaga og raf- og rafeindatækjaúrgangs. Ekki er talið eðlilegt að úrskurðarnefnd fjalli um mál sem þessi, enda hefur svo ekki verið til þessa.

Um 4. gr.


    Í 4. gr. er lagður til nýr viðauki sem hefur að geyma lista yfir þau raf- og rafeindatæki sem III. kafla laganna er ætlað að ná yfir. Heimilt er skv. i-lið í i-lið (22. gr.) 2. gr. að setja reglugerð þar sem framangreindur viðauki er útfærður og ber þá að fara eftir nánari tilgreiningu í B-lið I. viðauka við tilskipun um raf- og rafeindatækjaúrgang en þar er að finna nánari tilgreiningu á hvaða raf- og rafeindatæki falla undir tilskipunina og þar með frumvarp þetta.

Um 5. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 6. gr.


    Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi til að framleiðendur og innflytjendur geti strax byrjað að undirbúa sig undir að bera ábyrgð á raf- og rafeindatækjaúrgangi. Lagt er til að framleiðendum og innflytjendum sem eru starfandi við gildistöku laganna beri að skrá sig eigi síðar en 1. júní 2008 hjá skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda og þar með eiga aðild að skilakerfi frá sama tíma. Lagt er til að framleiðendur og innflytjendur skuli bera ábyrgð á raf- og rafeindatækjaúrgangi eigi síðar en 1. nóvember 2008.

Um 7. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á lögum nr. 162/2002, um úrvinnslugjald, sem öðlast eiga gildi á sama tíma og lögin um breytingu á lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs. Breytingarnar eru tilkomnar vegna þess að í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að stjórn Úrvinnslusjóðs fari með hlutverk stýrinefndar skv. f-lið (19. gr.) 2. gr. frumvarpsins.
    Í a-lið er lagt til að breyting verði gerð á 1. mgr. 16. gr. laga um úrvinnslugjald í þá veru að stjórn Úrvinnslusjóðs verði skipuð sex mönnum í stað fimm eins og nú er. Nýr fulltrúi kemur inn samkvæmt tilnefningu frá Félagi íslenskra stórkaupmanna. Falli ákvæði jafnt við afgreiðslu í Úrvinnslusjóði ræður atkvæði formanns.
    Í b-lið er lagt til að stjórn Úrvinnslusjóðs beri að sinna verkefnum sem henni eru sérstaklega falin í lögum um meðhöndlun úrgangs, þ.e. að fara með hlutverk stýrinefndar.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 55/2003,
um meðhöndlun úrgangs, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er mælt fyrir um svokallaða framleiðendaábyrgð á úrvinnslu raf- og rafeindatækjaúrgangs. Framleiðendum og innflytjendum raf- og rafeindatækja verður skylt að fjármagna og tryggja meðhöndlun þessara tækja eftir að þau eru orðin að úrgangi með rekstri eigin skilakerfis eða aðild að sameiginlegu skilakerfi. Sérstök stýrinefnd skal hafa umsjón með starfsemi skilakerfa og skal stjórn Úrvinnslusjóðs fara með hlutverk stýrinefndar. Skýr greinamunur er gerður á því hvenær stjórnin er að störfum samkvæmt lögum um úrvinnslugjald og hvenær hún er að sinna störfum stýrinefndar. Skilakerfin skulu standa undir kostnaði við stýrinefndina. Umhverfisstofnun veitir skilakerfum rekstrarleyfi, tekur á móti upplýsingum frá stýrinefndinni og annast úrvinnslu þeirra.
    Áhrif frumvarpsins á kostnað ríkissjóðs verða einkum hjá Umhverfisstofnun. Áætlað er að vinna við móttöku, utanumhald og úrvinnslu gagna frá stýrinefndinni samsvari rúmlega hálfu ársverki og er kostnaður stofnunarinnar metinn 6 m.kr. á ári.
    Eins og gefur að skilja mun kostnaður vegna laganna þó einkum falla til hjá framleiðendum og innflytjendum raf- og rafeindatækja við rekstur skilakerfa. Ekki er lagt mat á þann kostnað hér.