Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 293. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 525  —  293. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um breyt. á l. um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, sbr. lög nr. 74/1992, 102/1993, 68/2007 og 102/2007.

Frá Atla Gíslasyni, Álfheiði Ingadóttur, Árna Þór Sigurðssyni, Jóni Bjarnasyni,


Katrínu Jakobsdóttur, Kolbrúnu Halldórsdóttur, Steingrími J. Sigfússyni,


Þuríði Backman og Ögmundi Jónassyni.



     1.      Við bætist ný grein er verði 1. gr., svohljóðandi:
                  Við 3. mgr. 3. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Komi forseti úr þingflokki sem stendur að stjórnarmeirihluta skal 1. varaforseti ætíð koma af þeim lista er ekki tilheyrir stjórnarmeirihluta og flest atkvæði fær. Að öðru leyti gildi ákvæði 68. gr. um kosninguna.
     2.      Við 1. gr. (er verði 2. gr.). 4. og 5. málsl. 3. efnismgr. b-liðar orðist svo: Tillögu um lengri fundartíma getur forseti borið upp án fyrirvara, enda hafi hann gert þingmönnum viðvart um að slíkrar tillögu megi vænta í síðasta lagi fyrir kl. 3 síðdegis á fundardegi. Án viðvörunar um að vænta megi lengri fundartíma verður tillaga um slíkt eigi upp borin.
     3.      Á eftir 1. gr. (er verði 2. gr.) komi ný grein, svohljóðandi:
                  Við 2. mgr. 14. gr. laganna bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Við kosningu formanna og varaformanna fastanefnda skal leitast við að tryggja öllum þingflokkum og bæði stjórnarmeirihluta og minni hluta sanngjarnan hlut í forustustörfum miðað við hlutfallslegan þingstyrk þeirra. Skulu forseti og formenn þingflokka vinna að samkomulagi um slíkt áður en kosningar fara fram. Sama gildir um kosningu formanna og varaformanna alþjóðanefnda skv. 35. gr.
     4.      Við 10. gr. (er verði 12. gr.). Við bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Þingmenn geta jafnan starfa sinna vegna sent fyrirspurnir almenns eðlis, óskað gagna eða upplýsinga úr opinberri stjórnsýslu og um opinber málefni. Skulu þá ráðuneyti, opinberar stofnanir og fyrirtæki og aðrir aðilar sem fara með opinbert hlutverk greiða úr óskum þeirra eftir föngum.
     5.      Við 12. gr. (er verði 14. gr.).
                  a.      Við 1. efnismgr. bætist tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Við 2. umræðu fjárlaga skal þó sjálfkrafa gilda hið minnsta tvöfaldur hinn almenni ræðutími. Forseti getur leitað samkomulags um að skipuleggja umræðuna í nokkrum meginefnislotum til að auðvelda skoðanaskipti þingmanna og ráðherra viðkomandi málaflokka.
                  b.      3. efnismgr. orðist svo:
                       Ef fyrir liggur rökstudd beiðni þingflokks skal við 1. eða 2. umræðu um lagafrumvörp og við síðari umræðu um þingsályktunartillögu gilda tvöfaldur sá ræðutími er tilgreindur er í 80. gr. Hver þingflokkur hefur rétt til að bera slíka ósk fram fjórum sinnum á hverju þingi. Einu sinni á hverju þingi á hver þingflokkur rétt á að óska þess að 2. umræða um lagafrumvarp eða síðari umræða um þingsályktunartillögu fari fram í tveimur ótímabundnum umræðum. Beiðni af þessum toga skal borin upp áður en umræða hefst.
     6.      Við 15. gr. (er verði 17. gr.). Síðari efnismálsliður a-liðar falli brott.
     7.      Á eftir 15. gr. (er verði 17. gr.) komi ný grein er verði 18. gr., svohljóðandi:
                  Í stað orðanna „tveir þriðju“ í 79. gr. laganna kemur: þrír fjórðu.
     8.      Við 16. gr. (er verði 19. gr.). Reglur um ræðutíma orðist svo:
1. sinn 2. sinn Oftar
LAGAFRUMVÖRP
1. umræða:
    Flutningsmaður (ráðherra eða þingmaður)
30 mín. 15 mín. 5 mín.
    Ráðherra og aðrir þingmenn
20 mín. 10 mín. 5 mín.
2. umræða:
    Framsögumaður nefndarálits
60 mín. 30 mín. 5 mín.
    Ráðherra og aðrir þingmenn
40 mín. 20 mín. 5 mín.
3. umræða:
    Framsögumaður nefndarálits
30 mín. 15 mín. 5 mín.
    Ráðherra og aðrir þingmenn
15 mín. 5 mín. 5 mín.
ÞINGSÁLYKTUNARTILLÖGUR
Fyrri umræða:
    Flutningsmaður (ráðherra eða þingmaður)
15 mín. 10 mín. 5 mín.
    Ráðherra og aðrir þingmenn
10 mín. 5 mín. 5 mín.
Síðari umræða:
    Sama og við 2. umræðu lagafrumvarpa
Ein umræða:
    Sama og við 2. umræðu lagafrumvarpa
FYRIRSPURNIR
    Fyrirspyrjandi
3 mín. 2 mín.
    Ráðherra
5 mín. 2 mín.
    Aðrir þingmenn og ráðherrar (stutt athugasemd)
1 mín.
ÓUNDIRBÚINN FYRIRSPURNATÍMI
    Fyrirspyrjandi og ráðherra
2 mín. 1 mín.
SKÝRSLUR
    Framsögumaður (ráðherra eða þingmaður)
20 mín. 10 mín. 5 mín.
    Talsmenn þingflokka
15 mín. 5 mín. 5 mín.
    Ráðherra og aðrir þingmenn
10 mín. 5 mín.
STÖRF ÞINGSINS
    Þingmenn og ráðherrar
2 mín. 2 mín.
UMRÆÐUR UTAN DAGSKRÁR (HÁLFTÍMI)
    Málshefjandi
5 mín. 2 mín.
    Ráðherra (sem er til andsvara)
5 mín. 2 mín.
    Aðrir þingmenn og ráðherrar
2 mín. 2 mín.
UMRÆÐUR UTAN DAGSKRÁR (HINAR LENGRI)
    Sama og við skýrslur
ANDSVÖR (ALLT AÐ 15 MÍN.)
    Þingmenn og ráðherrar
2 mín. 2 mín.
    Ræðumaður
2 mín. 2 mín.
ATHUGASEMDIR
Að gera grein fyrir atkvæði sínu
1 mín.
Fundarstjórn forseta, bera af sér sakir, athugasemd um
atkvæðagreiðslu

2 mín.

1 mín.
     9.      Við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                  Í framhaldi af setningu laga þessara skal skipa starfshóp fulltrúa allra þingflokka sem ásamt fulltrúum frá yfirstjórn skrifstofu Alþingis og Félagi starfsmanna Alþingis stýri úttekt á starfsemi og starfsháttum Alþingis, starfsaðstöðu þingmanna jafnt sem starfsmanna og hlutverki og stöðu Alþingis í samfélagi nútímans. Tillögur sínar til úrbóta skal starfshópurinn leggja fyrir Alþingi í formi skýrslu fyrir árslok 2008.