Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 130. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 529  —  130. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um breyt. á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.



    Við umfjöllun málsins í nefndinni bárust henni umsagnir frá öðrum nefndum þingsins. Meiri hlutinn telur rétt að þær umsagnir komi fram í þingskjölum og birtast þær í fylgiskjölum við álit þetta.

Alþingi, 13. des. 2007.



Birgir Ármannsson,


form., frsm.


Guðbjartur Hannesson.


Ragnheiður E. Árnadóttir.



Ellert B. Schram.


Ólöf Nordal.




Fylgiskjal I.


Umsögn meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.


    Vísað er til bréfs allsherjarnefndar frá 22. október sl. þar sem sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd er beðin um að veita umsögn um ofangreint þingmál.
    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Baldur Erlingsson frá landbúnaðarráðuneyti, Sigríði Norðmann frá sjávarútvegsráðuneyti, Svein Runólfsson og Andrés Arnalds frá Landgræðslu ríkisins, Þórð Ásgeirsson frá Fiskistofu, Gunnlaug Guðjónsson frá Skógrækt ríkisins, Aðalstein Sigurgeirsson frá Rannsóknarstöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá og Jón Gíslason frá Landbúnaðarstofnun.
    Nefndin fékk einnig til skoðunar umsagnir þeirra sem sendu inn umsagnir um málið til allsherjarnefndar auk viðbótargagna.
    Í grundvallaratriðum varðar lögfesting frumvarpsins fjóra meginþætti sem snúa að málefnasviði sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Í fyrsta lagi verður matvælaeftirlit að frátöldu eftirliti heilbrigðisnefnda sveitarfélaga falið einni stofnun, Landbúnaðarstofnun, sem mun fá nýtt heiti. Í öðru lagi verða menntastofnanir sem áður heyrðu undir landbúnaðarráðuneyti færðar til menntamálaráðuneytis. Í þriðja lagi verða landgræðslumál flutt til umhverfisráðuneytis og í fjórða lagi verða skógræktarmálefni flutt til sama ráðuneytis.
    Við athugun nefndarinnar kom í ljós að málefni Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins hafa valdið stjórnendum þeirra stofnana áhyggjum vegna skiptingar málaflokka milli ráðuneyta. Þannig er gert ráð fyrir að fjármunir til verkefna eins og Bændur græða landið (BGL) sem hafa heyrt undir Landgræðslu ríkisins verða eftir í sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneyti á meðan önnur starfsemi stofnunarinnar flyst undir umhverfisráðuneyti. Þá verður málefnum skógræktar skipt upp þannig að skógrækt falli undir umhverfisráðuneyti, landshlutabundin skógræktarverkefni, sbr. lög 95/2006 falli undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og gert er ráð fyrir að fjármunir til rannsókna í skógrækt falli undir bæði ráðuneytin og að þau semji sameiginlega um rannsóknirnar. Þá var á það bent að skipting málaflokka milli ráðuneyta gerði stjórnsýslu erfiðari.
    Meiri hlutinn telur skynsamlegt að fella matvælaeftirlit undir eitt ráðuneyti í stað þriggja áður en bendir á að enn eru mörg atriði óljós í tengslum við matvælalöggjöfina enda liggur fyrir að setja þarf ný heildarlög um eftirlit með matvælum á næstunni. Þá bendir meiri hlutinn á að finna þarf annað og betra heiti á þá stofnun sem fari með eftirlit með matvælum, dýraeftirlit, auk ýmiskonar rannsóknarstarfsemi. Jafnframt bendir meiri hlutinn á að við skipulag þeirrar stofnunar þarf að hafa í huga ýmis atriði sem lúta að skilvirkni og einfaldaðri stjórnsýslu.
    Meiri hlutinn styður frumvarpið en beinir því til allsherjarnefndar að taka til athugunar þau atriði sem fram koma í umsögnum aðila og kanna hvernig unnt sé að einfalda stjórnsýslu þótt málaflokkum sé skipt milli ráðuneyta. Jafnframt bendir meiri hlutinn á að þar sem verkefnið Bændur græða landið er eitt af mikilvægustu verkefnum Landgræðslunnar sé ástæða til að efla þá starfsemi enn frekar eftir breytingarnar. Loks vekur meiri hlutinn athygli á því að stór hluti rannsóknarverkefna innan skógræktar þjónar landshlutabundnum skógræktarverkefnum sem slíkum og þarf að taka tillit til þess.

Alþingi, 16. nóv. 2007

Arnbjörg Sveinsdóttir, form.
Kjartan Ólafsson.
Helgi Hjörvar.
Jón Gunnarsson.
Karl V. Matthíasson.




Fylgiskjal II.


Umsögn 1. minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.


    Við myndun nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar þann 23. maí sl. tóku formenn stjórnarflokkanna ákvörðun um að gera breytingar á Stjórnarráði Íslands. Samkvæmt greinargerð með frumvarpi því sem kveður á um breytingu á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands var haft að leiðarljósi að einfalda stjórnsýslu og skipa skyldum málaflokkum undir eina stjórn. Fyrsta skrefið var raunar stigið á vorþingi þegar landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti voru sameinuð í eitt ráðuneyti með lögum frá og með 1. janúar næstkomandi.
    1. minni hluti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar er þeirrar skoðunar að illa hafi tekist til við þessa breytingu. Hún er handahófskennd enda augljóst að raunverulegur tilgangur breytinganna var að skipta verkefnum á milli stjórnarflokkanna en ekki að einfalda stjórnsýslu. Með því að Sjálfstæðisflokkur fékk í sinn hlut bæði sjávarútvegsráðuneyti og landbúnaðarráðuneyti var gripið til þess ráðs að skipta upp iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, sem hafa verið samrekin um langt árabil, til þess að ráðherrar Samfylkingarinnar í ríkisstjórn gætu orðið jafn margir og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins. Þar sem um lítil ráðuneyti er að ræða var leitað logandi ljósi að verkefnum í ýmsum ráðuneytum til að reyna að styrkja þessi tvö ráðuneyti og auk þess að færa verkefni frá málaflokkum sem að óbreyttu ættu að heyra undir ráðuneyti sem Sjálfstæðisflokkurinn fer nú með til ráðuneyta sem Samfylkingin hefur tekið við, til þess að reyna að jafna leikinn.
    Niðurstaðan varð það frumvarp sem hér um ræðir og er mikill óskapnaður.
    Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd fær til umsagnar frá allsherjarnefnd þann kafla frumvarpsins sem varðar þá málaflokka sem undir nefndina heyra og fékk til viðtals við sig fulltrúa ráðuneyta og þeirra stofnana sem lenda í flutningum og uppskiptingu verkefna. Á fundi nefndarinnar með fyrrgreindum fulltrúum kom fram að ekkert samráð hafði verið haft við umræddar stofnanir um þessar breytingar. Þrátt fyrir að við breytingarnar séu stofnanir klofnar upp langsum og þversum og að kostnaðarsamara verði að reka sumar stofnanir eftir breytingarnar, eins og kom fram hjá fulltrúa Skógræktar ríkisins.
    Fram kom hjá einum gesta nefndarinnar að flutningur stofnunar í annað ráðuneyti væri pólitísk ákvörðun sem forstöðumenn stofnana ættu ekki að hafa skoðun á en það að kljúfa stofnanir upp og gera þeim að heyra undir fleiri en eitt ráðuneyti væri slæm ráðstöfun.
    Hvað varðar Skógrækt ríkisins þá flyst hún frá landbúnaðarráðuneyti til umhverfisráðuneytis. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og umhverfisráðherra munu standa í sameiningu að gerð tímabundins rannsóknarsamnings við Rannsóknastofnun Skógræktarinnar um það hvernig fjármunir skuli nýttir. Að einhverju leyti verða Bændasamtök Íslands höfð með í ráðum. Fram kom hjá fulltrúa Skógræktarinnar að það væru nýmæli að blanda Bændasamtökunum inn í þetta verkefni. Þá er að vænta annars frumvarps um það að „Þjóðskógar“ færist til umhverfisráðuneytisins. Eðlilegra hefði verið að leysa það mál í tengslum við þessa breytingu frekar en að skilja það eftir í lausu lofti.
    Hvergi er minnst á „landshlutaverkefni“ í frumvarpinu en álitið er að þau eigi að vera hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti. Hins vegar er fjallað um „Nytjaskógrækt á bújörðum“ sem er úrelt hugtak. Þá er hugtakið fjölnytjaskógar ekki skýrt.
    Hvað Landgræðslu ríkisins varðar þá flyst hún til umhverfisráðuneytis að því undanskildu að verkefnið „Bændur græða landið“ á að vera áfram í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti. Fram kom hjá forstjóra Landgræðslunnar að þjónusta og ráðgjöf Landgræðslunnar við þátttakendur í BGL verkefninu varði öll starfssvið stofnunarinnar og er órjúfanlega samþætt starfi hennar að gróðurvernd, stöðvun jarðvegsrofs og endurheimt skaddaðra vistkerfa. Það væri því mjög misráðið að kljúfa þessa starfsemi frá stofnuninni.
    Í 7. þætti frumvarpsins er lagt til að stjórnsýslulegt forræði og ábyrgð matvælamála, sem nú heyra undir umhverfisráðuneytið, flytjist á forræði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis. Þetta þýðir að sú starfsemi Umhverfisstofnunar sem tengist lögum nr. 93/1995 um matvæli og nú fellur undir matvælasvið Umhverfisstofnunar flyst frá umhverfisráðuneyti til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis. Mun stofnunin einnig taka við matvælaeftirliti sem nú er hjá Fiskistofu.
    Hjá Fiskistofu kom fram gagnrýni á framkvæmdina á þeim tilflutningi sem fyrirhugaður er frá stofnuninni. Ekki síst þá ákvörðun að matvælaeftirlitið skuli flutt til Landbúnaðarstofnunar á Selfossi. Bent var á að mörg hagsmunasamtök tengist stofnuninni geri það óhentugt að hún sé utan Reykjavíkur. Þá taldi forstjórinn að erfiðara yrði að fá starfsfólk eftir þessa breytingu en ella. Minni hlutinn tekur ekki undir þessi sjónarmið. Bent var á mikilvægi þess að setja ný matvælalög. Þá kom fram sú skoðun að rétt hefði verið að auglýsa ný störf laus til umsóknar. Forstjórinn taldi að það væri skortur á tíma til undirbúnings breytingunni og mælti með að hún færi fram 1. apríl nk
    Ekki voru gerðar athugasemdir við breytingarnar af hálfu forstjóra Landbúnaðarstofnunar.
    1. minnihluti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar er þeirrar skoðunar að rétt hefði verið að sameina landbúnaðarráðuneyti og sjávarútvegsráðuneyti í heilu lagi. Þó hefði verið rétt að koma eftirliti á matvælum fyrir í einni stofnun sem vel geti verið Landbúnaðarstofnun og hún þá fengið nýtt heiti.
    1. minnihluti styður ekki þær breytingar á Stjórnarráði Íslands sem varða breytingar á stofnunum sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneyta.

Valgerður Sverrisdóttir.




Fylgiskjal III.


Umsögn 2. minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.


    Í greinargerð með frumvarpi að lögunum er greint frá því að við myndun núverandi ríkisstjórnar hafi verið ákveðið að fara heildstætt yfir verkaskiptingu milli ráðuneyta með það fyrir augum að hagræða, einfalda stjórnsýslu og skipa skyldum málaflokkum undir eina stjórn. Ennfremur að lögum um Stjórnarráð Íslands nr. 73/1969 hafi verið breytt í því skyni á síðasta löggjafarþingi. Minni hlutinn telur þessar skýringar alls ekki réttar. Þær breytingar sem mælt er fyrir um í frumvarpinu má fyrst og síðast rekja til skiptingar ráðuneyta og ráðherrastóla milli samstarfsflokkanna í ríkisstjórninni. Ákvörðun var tekin og lögum um Stjórnarráð Íslands breytt án þess að skilgreind og rökstudd markmið og þarfa- og kostnaðargreining lægju fyrir og án heildstæðrar stefnumótunar og skýrrar framtíðarsýnar. Ekki er gerð hin minnsta tilraun til að bera saman núgildandi skipan mála og málaflokka við breytta skipan samkvæmt frumvarpinu og meta með faglegum og rökstuddum hætti áhrif breytinganna. Hvergi örlar á slíkum rökstuðningi í greinargerð með frumvarpinu, aðeins fullyrðingum um meinta samhæfingu, aukna skilvirkni, að kerfið verði auðskiljanlegra og aðgengilegra almenningi og svo framvegis. Má draga það stórlega í efa að umræddar breytingar leiði til hagræðingar, einföldunar og aukinnar skilvirkni í stjórnsýslunni. Reyndar liggur fyrir í nokkrum umsögnum um frumvarpið að ýmsar breytingar sem mælt er fyrir um muni hafa þveröfug áhrif í veigamiklum atriðum, skapi óvissu og að vinnubrögðin séu óvönduð, sbr. til dæmis umsagnir Landgræðslu ríkisins, Dýralæknafélags Íslands, Bændasamtaka Íslands, Orkustofnunar, starfsmanna matvælasviðs Fiskistofu, Skógfræðingafélag Íslands, Skógræktarfélag Íslands, Suðurlandsskóga og fleiri hliðstæðar stofnanir, Hólaskóla, Ferðamálasamtaka Íslands, fiskistofustjóra og Skógræktar ríkisins. Þá er gagnrýnisvert að umsagnir skortir frá ýmsum mikilvægum stofnunum sem þurfa að sæta breytingum samkvæmt frumvarpinu. Er full ástæða til að afla þeirra.
    Í greinargerð með frumvarpinu er fullyrt að víðtækt samráð hafi verið haft við þær stofnanir sem í hlut eiga. Það er staðfest með umsögnum um frumvarpið og á fundum nefndarinnar með forsvarsmönnum ýmissa stofnana að þessi fullyrðing er beinlínis röng. Frumvarpið var samið án nokkur samráðs við viðkomandi stofnanir og hagsmunaaðila. Sama gildir um samráð við stjórnarandstöðuna og hún var reyndar beitt meirihluta valdi þingmanna ríkisstjórnarinnar til að knýja með óvönduðum lagasetningarhætti fram breytingar á lögum um Stjórnarráð Ísland á síðasta löggjafarþingi. Það gengur þvert fyrri yfirlýsingar forsætisráðherra um að þverpólitískt samstaða væri forsenda slíkra breytinga og þvert á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að eiga gott samstarf við alla flokka á Alþingi. Breytingarnar eru auk þess í hreinni mótsögn við stefnu Samfylkingarinnar um málefnalega samræðu, samráð og lýðræði. Það er alvarleg fljótaskrift á frumvarpinu og vinnubrögðin eftir því óvönduð. Enn fremur fráleitt að ætla að þessar breytingar muni ekki hafa í för með sér aukinn heildarkostnað ríkissjóðs, eins og fullyrt er í umsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarpið. Sú fullyrðing er órökstudd og ófagleg.
    Nánari grein verður gerð fyrir sjónarmiðum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í áliti fulltrúa hennar í allsherjarnefnd.

Atli Gíslason.



Fylgiskjal IV.


Umsögn meiri hluta félags- og tryggingamálanefndar.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Fylgiskjal V.


Umsögn minni hluta félags- og tryggingamálanefndar.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.





Fylgiskjal VI.


Umsögn meiri hluta samgöngunefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Pál Þórhallsson frá forsætisráðuneyti, Ragnhildi Hjaltadóttur og Unni Gunnarsdóttur frá samgönguráðuneyti, Elínu Pálsdóttur og Sesselju Árnadóttur frá félagsmálaráðuneyti, Kristján Skarphéðinsson frá iðnaðarráðuneyti og Áslaugu Árnadóttur frá viðskiptaráðuneyti.
    Í frumvarpinu er m.a. lagt til að sveitarstjórnarmál flytjist frá félagsmálaráðuneyti til samgönguráðuneytis. Þarna er um að ræða mjög umfangsmikinn málaflokk og mikilvægt að framkvæmd flutningsins takist vel. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir því að ferðamál flytjist að mestu frá samgönguráðuneyti til iðnaðarráðuneytis og að framkvæmd laga um alferðir heyri í framtíðinni undir viðskiptaráðuneyti eins og aðrir lagabálkar á sviði neytendaverndar.
    Meiri hlutinn telur þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu heppilegar og til þess fallnar að gera stjórnsýslu í þessum málaflokkum skilvirkari. Meiri hlutinn leggur áherslu á að flutningur verkefna milli ráðuneyta verði vel undirbúinn, bæði hvað varðar verkefnin sjálf, það starfsfólk sem flyst til í starfi vegna tilfærslunnar og heppilegt húsnæði undir aukna starfsemi þeirra ráðuneyta sem taka við nýjum verkefnum.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

Alþingi, 8. nóv. 2007.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, form.
Ólöf Nordal.
Herdís Þórðardóttir.
Karl V. Matthíasson.
Árni Johnsen.
Ármann Kr. Ólafsson.



Fylgiskjal VII.


Umsögn minni hluta samgöngunefndar.


    Frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingu á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands ber öll merki þess að hafa verið unnið í flýti og án nauðsynlegs samráðs. Þá byggja breytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir ekki á neinni heildstæðri stefnumótun eða sýn um málefni Stjórnarráðsins og stjórnarandstaðan átti enga aðkomu að málinu, þrátt fyrir að forsætisráðherra hafi fyrr á þessu ári lýst því yfir að þverpólitískt samstaða væri forsenda slíkra breytinga. Minni hlutinn átelur að ekki hafi verið reynt að ná víðtækri samstöðu um málið.
    Umsagnir einstakra stofnana sem boðaðar breytingar varða, bera með sér að frumvarpið hefur fyrst og fremst verið samið á vegum forustu stjórnarflokkanna og lítið sem ekkert samráð haft við þá sem breytingarnar beinast að og eiga að starfa undir breyttu fyrirkomulagi. Þá virðist verkaskipting í ýmsum tilvikum enn vera á reiki og víða er gert ráð fyrir að skörun verkefna verði leyst með samningum milli ráðuneyta eða milli ráðuneytis og stofnana sem jafnvel heyra undir annað ráðuneyti.
    Efnislega er vissulega að finna atriði í frumvarpinu sem minni hlutinn telur til bóta en á sama hátt eru fjölmörg atriði misráðin og illa undirbúin. Frumvarpið er alfarið samið á þeim forsendum að koma til móts við þarfir stjórnarflokkanna tveggja um helmingaskipti í ríkisstjórn.
    Að öðru leyti vísar minni hlutinn til nefndarálits sem minni hluti allsherjarnefndar mun leggja fram við afgreiðslu málsins úr þeirri nefnd.


Alþingi, 8. nóv. 2007.

Árni Þór Sigurðsson.



Fylgiskjal VIII.


Umsögn meiri hluta umhverfisnefndar.


    Vísað er í bréf allsherjarnefndar Alþingis, dags. 22. október 2007, þar sem farið er fram á umsögn umhverfisnefndar Alþingis um frumvarp til laga um tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands, 130 mál.
    Þær umsagnir sem borist hafa allsherjarnefnd vegna málsins hafa einnig legið fyrir við umfjöllun umhverfisnefndar. Nefndin hefur fengið á sinn fund Pál Þórhallsson frá forsætisráðuneyti, Baldur P. Erlingsson og Arnór Snæbjörnsson frá landbúnaðarráðuneyti, Magnús Jóhannesson, Sigríði Auði Arnardóttur og Sigrúnu Ágústsdóttur frá umhverfisráðuneyti, Arnór Sigurðsson frá Skógrækt ríkisins, Aðalstein Sigurgeirsson frá Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins að Mógilsá, Elínu Smáradóttur frá Orkustofnun ríkisins, Árna Snorrason frá Vatnamælingum ríkisins, Jón Gíslason frá Landbúnaðarstofnun, Ellý K. Guðmundsdóttur og Kristínu L. Árnadóttur frá Umhverfisstofnun, og Svein Runólfsson og Andrés Arnalds frá Landgræðslu ríkisins.
    Frumvarp þetta er flutt í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. maí 2007 og með því eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands. Nefndin tók til umfjöllunar 5.–7. þátt frumvarpsins en þar eru lagðar til lagabreytingar vegna flutnings landgræðslu og skógræktar, að undanskilinni ræktun nytjaskóga, til umhverfisráðuneytisins og breytingar er lúta að því að skýra valdmörk sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og umhverfisráðuneytisins, breytingar vegna flutnings vatnamælinga til umhverfisráðuneytisins og breytingar vegna flutnings matvælamála til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins.
    Meiri hluti nefndarinnar styður þær breytingar sem lagðar eru til varðandi sameiningu vatnamælinga og Veðurstofu Íslands og telur fyrirkomulagið tvímælalaust til bóta. Meiri hlutinn beinir því þó til allsherjarnefndar að kanna hvað átt sé við með ummælum í athugasemdum með frumvarpinu um að vatnamælingar heyri undir umhverfisráðuneyti frá 1. janúar 2008 en að starfsemi vatnamælinga verði vistuð hjá Orkustofnun þar til sameiningu Veðurstofu Íslands og vatnamælinga verði lokið í síðasta lagi 1. janúar 2009, sbr. umsögn frá Orkustofnun. Auk þess leggur meiri hlutinn áherslu á að við sameininguna verði tímanlega gengið frá starfsmannamálum svo að ekki skapist óvissa um réttarstöðu starfsmanna og að gætt verði að réttindum og hagsmunum þeirra.
    Meiri hluti nefndarinnar lýsir jafnframt yfir stuðningi við breytingar á fyrirkomulagi matvælaeftirlits en leggur þó áherslu á að vel verði staðið að undirbúningi á tilfærslu starfsmanna milli stofnana. Meiri hlutinn telur mikilvægt að haft verði samráð við starfsmenn við tilfærsluna og að tryggt verði að áunnin réttindi þeirra haldist. Meiri hlutinn bendir á að þó höfuðstöðvar hinnar nýju stofnunar verði í Árborg þá sé ekkert sem komi í veg fyrir að stofnunin hafi starfsstöðvar á fleiri en einum stað ef henta þyki. Meiri hlutinn bendir einnig á að í nokkrum umsögnum hefur verið lögð áhersla á að hin nýja stofnun sem nefnd er Matvælaeftirlitið í frumvarpinu fái annað og meira lýsandi nafn fyrir þá starfsemi sem þar muni fara fram. Þá telur meiri hlutinn mikilvægt að skýr skil verði milli hlutverks Matvælaeftirlitsins og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga. Í athugasemdum í frumvarpinu kemur fram að ekki sé ætlunin að breyta verksviði heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna gagnvart Matvælaeftirlitinu. Í þessu sambandi bendir umhverfisnefnd á umsögn Landbúnaðarstofnunar þar sem fram kemur að orðalag frumvarpsins sé ekki nægilega skýrt um tiltekin atriði varðandi verkaskiptingu milli Matvælaeftirlitsins og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna. Að lokum vekur meiri hlutinn athygli á umsögn Umhverfisstofnunar en þar eru lagðar til ýmsar breytingar á lögum um matvæli, nr. 93/1995.
    Meiri hluti nefndarinnar gerir ekki athugasemdir við þær fyrirætlanir að flytja landgræðslu og skógrækt til umhverfisráðuneytisins en bendir þó á þær athugasemdir sem koma fram, m.a. í umsögn Skógræktar ríkisins og Landgræðslu ríkisins, en stofnanirnar leggja þunga áherslu á að við breytingarnar sé verkefnum stofnananna og fjárveitingum til þeirra ekki skipt upp milli tveggja ráðuneyta. Meiri hlutinn telur mikilvægt að lagafrumvarpi því sem ætlað er að kveða á um flutning á forræði þjóðskóga til umhverfisráðuneytisins verði lagt fram sem fyrst svo verkefnið get fylgt Skógræktinni enda um að ræða þann þátt í starfsemi stofnunarinnar sem á best heima undir umhverfisráðuneytinu. Enn fremur vekur meiri hlutinn athygli á athugasemdum í umsögn Landgræðslu ríkisins en þar koma fram ýmsar leiðréttingar á ummælum í greinargerð með frumvarpinu.
    Að lokum beinir meiri hlutinn því til allsherjarnefndar að ræða sérstaklega við fulltrúa Dýralæknafélags Íslands en umsögn þess barst umhverfisnefnd eftir að viðtölum var lokið. Ljóst er þó að af umsögn þeirra að mikilvægt er að hraða og vanda til þeirrar endurskoðunar á dýraverndunarlögum sem hafin er á vegum umhverfisráðuneytisins.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að sá þáttur frumvarpsins sem hún hefur fjallað um verði samþykktur og að framangreindar athugasemdir verði teknar til skoðunar.

Alþingi, 16. nóv. 2007.

Helgi Hjörvar, form.
Guðfinna S. Bjarnadóttir.
Illugi Gunnarsson.
Ármann Kr. Ólafsson.



Fylgiskjal IX.


Umsögn 1. minni hluta umhverfisnefndar.


    Umhverfisnefnd hefur að beiðni allsherjarnefndar fjallað um þann hluta frumvarpsins sem er á málefnasviði nefndarinnar. Nefndin tók til umfjöllunar 5.–7. þátt frumvarpsins en þar koma fram lagabreytingar vegna flutnings landgræðslu og skógræktar til umhverfisráðuneytis, breytingar vegna flutnings matvælamála til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis, breytingar varðandi valdmörk sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og loks breytingar vegna flutnings vatnamælinga til Veðurstofu Íslands. Umsagnir sem borist hafa allsherjarnefnd vegna málsins hafa legið fyrir við umfjöllun umhverfisnefndar.
    Í athugasemdum með frumvarpinu er greint frá því að við myndun núverandi ríkisstjórnar hafi verið ákveðið að fara heildstætt yfir verkaskiptingu milli ráðuneyta með það fyrir augum að hagræða, einfalda stjórnsýslu og skipa skyldum málaflokkum undir eina stjórn. Enn fremur að lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969, hafi verið breytt í því skyni á 134. löggjafarþingi. 1. minni hluti telur þessar skýringar ekki réttar. Þegar rýnt er í þær breytingar sem mælt er fyrir um í frumvarpinu kemur í ljós hversu handahófskenndar þær eru og eftir að hafa lesið ábendingar umsagnaraðila liggur í augum uppi að hér er um tilviljanakennda uppstokkun verkefna að ræða en ekki ígrundaða breytingu sem byggir á stefnumörkun. Fullyrt er í athugasemdum með frumvarpinu að við undirbúning málsins hafi verið haft víðtækt samráð við þær stofnanir sem í hlut eiga, en við umfjöllun í nefndinni kom á daginn að samráðið hafði verið lítið sem ekkert. Verulega skortir á að markmiðin með breytingunum séu rökstudd eða skilgreind og hreinasta fásinna að ætla að þær kosti ekki nokkurn skapaðan hlut. Engin heildstæð sýn liggur til grundvallar og langt í frá að fagleg sjónarmið hafi ráðið för. Allar fullyrðingar um einfaldari stjórnsýslu og aukna skilvirkni eru marklausar, enda fylgir frumvarpinu ekki neitt stjórnsýslumat, sem hefði verið full þörf á og vel við hæfi nú þegar stjórnvöldum hafa borist alvarlegar ábendingar frá umboðsmanni Alþingis um að slíkt mat þurfi að liggja fyrir til grundvallar breytingum á lögum er varða stjórnsýslu.
    Fjöldi umsagnaraðila gerir alvarlegar athugasemdir við einstaka þætti er varða málefnasvið umhverfisnefndar. Þannig má nefna að í umsögnum frá flestum aðilum er starfa að skógrækt á Íslandi er lýst harðri andstöðu við tilfærslu málaflokksins. Ljóst er að allan undirbúning varðandi hugsanlegar breytingar skortir og verður að teljast varasamt að ætla að skipta málaflokknum upp og flytja hluta hans milli ráðuneyta við þessar aðstæður. Valdbeiting við slíkar tilfæringar kann ekki góðri lukku að stýra.
    Jákvæðar umsagnir eru frá nokkrum aðilum varðandi sameiningu matvælamála undir einn hatt. Má þar nefna umsögn Umhverfisstofnunar og Landbúnaðarstofnunar en um leið eru alvarlegar ábendingar um ýmsa þætti í frumvarpinu sem breyta þarf ef ekki á illa að fara. Báðar nefna stofnanirnar málefni starfsfólks sem sérstaklega vandmeðfarin. Sama má segja um Fiskistofu og starfsfólk hennar. Veiðimálastofnun og Dýralæknafélag Íslands gera líka alvarlegar athugasemdir. Allir ljúka þó upp einum rómi um vonlausa nafngift sem frumvarpið gerir ráð fyrir á hina nýju stofnun.
    Það er mat 1. minni hluta nefndarinnar að þörf sé grundvallarbreytinga varðandi skilgreiningu Stjórnarráðs Íslands og skiptingu verkefna milli einstakra ráðuneyta. Þar ætti umhverfisráðuneytið að gegna lykilhlutverki með ríkari ábyrgð en nú er og auknar fjárveitingar. Slíkar breytingar verða þó aldrei gerðar af neinu viti nema þær grundvallist á framsýnni stefnumörkun sem nauðsynlegt er að endurspegli gjörbreytta stöðu umhverfismála og sýn til framtíðar. Í því sambandi telur 1. minni hluti að öflugt auðlinda- og umhverfisráðuneyti sé fýsilegur kostur, því ef innleiða á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar í umsýslu og nýtingu auðlindanna, þá verður slíkt best gert undir hatti umhverfisráðuneytis. Slíka nálgun skortir gersamlega í þær tillögur sem ríkisstjórnin hefur nú lagt fram og lýst er í frumvarpinu.

Alþingi, 19. nóv. 2007.

Kolbrún Halldórsdóttir.

Fylgiskjal X.


Umsögn 2. minni hluta umhverfisnefndar.


    Með bréfi, dags. 22. október 2007, fór allsherjarnefnd Alþingis fram á umsögn umhverfisnefndar Alþingis um frumvarp til laga um tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands, 130. mál. Umhverfisnefnd fjallaði um þá kafla frumvarpsins sem falla undir málefnasvið nefndarinnar og kallaði til sín gesti vegna málsins.
    Frumvarpið er flutt í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. maí 2007 og með því eru eins og heiti þess gefur til kynna lagðar til breytingar á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.
    Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að frumvarpið sé lagt fram með það fyrir augum að hagræða, einfalda stjórnsýslu og skipa skyldum málaflokkum undir eina stjórn. 2. minni hluti umhverfisnefndar telur að þær breytingar sem fyrirhugaðar eru á sviði skógræktar og landgræðslu gangi í þveröfuga átt. Með frumvarpinu er lagt að til skógrækt flytjist frá landbúnaðarráðuneytinu til umhverfisráðuneytisins að undanskilinni ræktun nytjaskóga. Þá eiga fjárveitingar til rannsókna á sviði skógræktar að vera áfram hjá landbúnaðarráðuneytinu og eftir 1. janúar 2008 í höndum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis. Með þessu móti verður málaflokkurinn skógrækt klofinn milli tveggja ráðuneyta þar sem stærsti framkvæmdaþátturinn, landshlutaverkefnin, og fjárveitingar til skógræktarrannsókna verða eftir í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Þá eiga fjármunir til verkefnisins „Bændur græða landið“ sem heyrir undir Landgræðslu ríkisins að vera á forræði og fjárlagalið sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis án þess að sannfærandi rök séu færð fyrir því. Vandséð er hvernig framangreindar ráðstafanir séu til þess fallnar að hagræða og einfalda stjórnsýslu á sviði skógræktar og landgræðslu.
    2. minni hluti telur mikilvægt að við þær breytingar sem fyrirhugaðar eru annars vegar með sameiningu starfsemi Veðurstofu Íslands og vatnamælinga Orkustofnunar og hins vegar með flutningi málefna og starfsmanna frá Fiskistofu og Umhverfisstofnun til Matvælaeftirlitsins verði haft samráð við starfsmenn og að gætt verði að réttindum og hagsmunum þeirra.
    2. minni hluti tekur undir þau sjónarmið sem fram hafa komið m.a. í umsögnum Bændasamtaka Íslands og Landssambandi kúabænda en þar er lögð áhersla á að sú stofnun sem nefnd er Matvælaeftirlitið í frumvarpinu fái annað heiti sem sé meira lýsandi fyrir þá starfsemi sem þar muni fara fram. Í þessu sambandi ber að nefna að hin nýja stofnun mun sinna margháttuðu eftirliti sem hefur ekkert með matvæli að gera.
    Frumvarp þetta virðist hafa verið samið í því skyni að tryggja helmingaskipti stjórnarflokkanna í ríkisstjórn. Frumvarpið ber þess merki að hafa verið samið án nægilegs undirbúnings og samráðs við þær stofnanir og hagsmunaaðila sem frumvarpið varðar og leggst minni hlutinn gegn því að sá þáttur frumvarpsins sem umhverfisnefnd fjallaði um verði samþykktur.

Alþingi, 26. nóv. 2007.

Höskuldur Þórhallsson.