Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 142. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 535  —  142. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Frá félags- og tryggingamálanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur og Bjarnheiði Gautadóttur frá félagsmálaráðuneyti, Hrafnhildi Stefánsdóttur yfirlögfræðing og Hannes G. Sigurðsson aðstoðarframkvæmdastjóra frá Samtökum atvinnulífsins, Harald Birgisson frá Viðskiptaráði Íslands, Guðjón Bragason og Guðrúnu Ósk Sigurjónsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Kristbjörgu Stephensen frá Reykjavíkurborg, Sigurlaugu G. Viborg og Unu Maríu Óskarsdóttur frá Kvenfélagasambandi Íslands, Brynhildi Flóvens frá Háskóla Íslands, Irmu Erlingsdóttur frá Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands, Kristínu Ástgeirsdóttur frá Jafnréttisstofu og Hildi Jónsdóttur frá Jafnréttisráði. Einnig hafa umsagnir borist nefndinni frá Jafnréttisstofu, Sambandi ungra sjálfstæðismanna, Samtökum iðnaðarins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Viðskiptaráði Íslands, Kvenfélagasambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Bandalagi háskólamanna, Háskólanum á Bifröst (rannsóknarsetri vinnuréttar og jafnréttismála), talsmanni neytenda, Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands, Alþýðusambandi Íslands, Jafnréttisráði, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja.
    Fyrstu almennu lögin um jafnrétti kvenna og karla voru sett árið 1976 og var þeim ætlað að stuðla að jafnrétti kynjanna á öllum sviðum þjóðfélagsins. Þeim lögum hefur þrívegis verið breytt, nú síðast með núgildandi lögum nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
    Þegar lögin um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla voru sett árið 1976 var mótuð opinber stefna um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og Jafnréttisráð sett á stofn til að framfylgja lögunum. Samkvæmt lögunum hvíldi sú fordæmisskylda á stjórnvöldum að vinna að því að jafnrétti kæmist á í raun. Nú þegar liðin eru þrjátíu ár frá setningu fyrstu jafnréttislaganna er ljóst að þau hafa ekki borið þann árangur sem vonast var eftir. Engu að síður hefur verið mikill styrkur að því að hafa slík lög og breytingar til hins betra hafa orðið á undanförnum árum.
    Þegar fyrstu jafnréttislögin voru sett hér á landi var talið að erfiðast yrði að breyta viðhorfum fólks til stöðu kynjanna en auðveldast yrði að breyta launamun kynjanna og að hann yrði horfinn innan fárra ára. Reyndin hefur þó sýnt annað.
    Eftir að hafa rætt um málið og kynnt sér álit gesta og umsagnaraðila vill nefndin koma á framfæri nokkrum athugasemdum sem hún telur vert að verði teknar til athugunar.
    Það kom til umræðu í nefndinni að réttast væri að skilgreining á beinni mismunun í 1. tölul. 2. gr. væri efnislega samhljóða skilgreiningu tilskipunar Evrópusambandsins 2002/ 73/EB, um breytingu á tilskipun ráðsins 76/207/EBE, um framkvæmd meginreglunnar um jafnrétti karla og kvenna varðandi aðgang að störfum, starfsþjálfun og stöðuhækkunum, sem og varðandi starfskjör, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar. Því leggur nefndin til að breyting verði gerð á framangreindri skilgreiningu í 2. gr. frumvarpsins á þann veg að hún sé efnislega í samræmi við fyrrnefnda tilskipun Evrópusambandsins án þess að vera bein þýðing hennar.
    Nefndin hefur sérstaklega skoðað þær heimildir sem Jafnréttisstofa hefur til eftirlits með að lögunum sé fylgt eftir í framkvæmd, þar á meðal heimild stofnunarinnar til gagnaöflunar til að kanna hvort ástæða sé til að óska eftir við kærunefnd jafnréttismála að nefndin taki mál til meðferðar. Í því sambandi verður ekki talið að þær heimildir sem Jafnréttisstofu eru veittar með frumvarpi þessu séu víðtækari en almennt tíðkast í sambandi við eftirlitsheimildir opinberra stofnana sem ætlað er að fylgja því eftir að farið sé að lögum. Eðli málsins samkvæmt fellur það ávallt í hlut hlutaðeigandi eftirlitsstofnunar að meta hvaða gögn verði talin nauðsynleg eftirlitinu. Gerður er sá fyrirvari í 5. mgr. 4. gr. frumvarpsins að Jafnréttisstofa þurfi að hafa rökstuddan grun um að brotið hafi verið gegn lögunum áður en gagna er óskað auk þess sem tekið er fram í 7. mgr. sömu greinar að starfsmönnum stofnunarinnar sé óheimilt að nota aðstöðu sína til að afla sér annarra upplýsinga eða gagna en þeirra sem eru nauðsynleg eða kunna að vera nauðsynleg í þágu eftirlitsins. Enn fremur er Jafnréttisstofa bundin ákvæðum stjórnsýslulaga, þar á meðal ákvæðum um andmælarétt málsaðila, jafnræðisreglu og meðalhófsreglu, við framkvæmd gagnaöflunar.
    Nefndin leggur til almenna lagfæringu á orðalagi 5. mgr. 4. gr. Efnislegar breytingar eru í fyrsta lagi að lagt er til að orðin „hvers konar“ í þeirri málsgrein verði felld brott til að undirstrika að eingöngu sé um að ræða þau gögn sem Jafnréttisstofa telur nauðsynleg til að upplýsa um málsatvik og í öðru lagi að í stað orðanna „afhenda Jafnréttisstofu“ komi „að láta Jafnréttisstofu í té“ og vill nefndin með því leggja áherslu á að ekki verði gerð krafa um afhendingu upplýsinga eða gagna sem eru málsatvikum óviðkomandi.
    Jafnframt er tekið fram í 7. mgr., sem fyrr segir, að starfsmönnum Jafnréttisstofu er óheimilt að veita eða afhenda öðrum en aðilum máls og kærunefnd jafnréttismála upplýsingar eða gögn sem aflað er í þágu eftirlitsins. Ákvæði 7. mgr. 4. gr. frumvarpsins á sér fyrirmynd í 3. mgr. 10. gr. laga nr. 139/2005, um starfsmannaleigur, með síðari breytingum, 3. mgr. 13. gr. laga nr. 45/2007, um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra, og 1. mgr. 83. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum. Allar þær upplýsingar eða gögn sem aflað er á grundvelli framangreindra laga varða atvinnulífið, þar á meðal einstök fyrirtæki. Enn fremur gildir ákvæði 18. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, um starfsmenn Jafnréttisstofu en þar er fjallað um skyldu starfsmanna til þagmælsku um atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirmanna eða eðli máls án þess að það sé sérstaklega tekið fram í frumvarpinu. Sú þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að jafnréttisnefndir sveitarfélaga geri jafnréttisáætlanir sem lagðar eru fyrir sveitarstjórnir til samþykktar. Nefndin telur þetta ákvæði vera mikilvægt enda liggur fyrir að gæta þarf vel að jafnréttismálum í starfi sveitarfélaga og þá sérstaklega við skipulagningu starfs í leik- og grunnskólum sem og á þeirri þjónustu sem sveitarfélögunum er ætlað að veita íbúum sínum. Nefndin telur í þessu tilliti þýðingarmikið að jafnréttisnefndir sveitarfélaganna, og þá einkum þeirra sem fámennari eru, geti leitað aðstoðar sérfræðinga Jafnréttisstofu við gerð og þróun slíkra áætlana en Jafnréttisstofa hefur gefið út leiðbeiningar um gerð jafnréttisáætlana sveitarfélaga sem nefndirnar geta haft til hliðsjónar við gerð slíkra áætlana.
    Fram hafa komið athugasemdir varðandi 5. gr. frumvarpsins sem fjallar um kærunefnd jafnréttismála. Hvað varðar 5. mgr. þeirrar greinar er vert að taka fram að XX. kafli laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, fjallar um gjafsókn. Í 1. mgr. 126. gr. þeirra laga er tekið fram að gjafsókn geti bæði átt við um málshöfðun eða málsvörn en samkvæmt ákvæðinu er heimilt að veita einstaklingi gjafsókn ef fjárhag hans er þannig háttað að kostnaður af gæslu hagsmuna hans í máli yrði honum fyrirsjáanlega ofviða enda sé nægilegt tilefni til málshöfðunar eða málsvarnar. Þá er tekið fram í 2. mgr. þeirrar greinar að gjafsókn verði enn fremur veitt eftir því sem fyrir er mælt í öðrum lögum. Nefndin leggur til tilfærslu á málsgreinum þannig að 6. mgr. 5. gr. verði 5. mgr. hennar en með því verður efnislegt samræmi betra. Varðandi greiðslu málskostnaðar skv. 5. mgr. frumvarpsins er ekki gert ráð fyrir að litið sé til fjárhags kæranda eins og gert er ráð fyrir í gjafsóknarreglum í lögum um meðferð einkamála. Loks leggur nefndin til breytingar á lokamálslið 5. mgr., er verði 7. mgr., um tilefnislausar kærur. Nefndin telur rétt að kærunefndin geti gert kæranda að greiða kærða málskostnað ef um bersýnilega tilefnislausa kæru sé að ræða en að kostnaður við kærunefnd jafnréttismála greiðist úr ríkissjóði, enda er kveðið á um í lokamálsgrein 5. gr. að kostnaður af störfum nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.
    Nefndin leggur til breytingu á 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins. Með breytingunni er lagt til að kærunefnd jafnréttismála geti ekki tekið mál til meðferðar að eigin frumkvæði þar sem það samræmist illa hlutverki hennar sem aðila sem kveður upp endanlega og bindandi úrskurði. Áfram verði þó gert ráð fyrir að Jafnréttisstofa geti óskað eftir að kærunefnd jafnréttismála taki mál til meðferðar, sbr. 2. mgr. greinarinnar.
    Í 8. gr. frumvarpsins er fjallað um Jafnréttisráð og skipan þess. Nefndin telur rétt að leggja til breytingar á skipan ráðsins. Breytingarnar felast í fyrsta lagi í því að Samband íslenskra sveitarfélaga fái að tilnefna fulltrúa í Jafnréttisráð og sé þannig virkur þátttakandi í stefnumótun stjórnvalda í málum er tengjast jafnrétti kynjanna. Sveitarfélögin annast rekstur leik- og grunnskóla í landinu sem og daggæslu og tómstundastarf fyrir börn og ungmenni þegar hefðbundnum skóladegi lýkur. Á þeim vettvangi er þýðingarmikið að fram fari markviss fræðsla um jafnrétti kynjanna þar sem m.a. er lögð áhersla á að búa bæði kynin undir jafna þátttöku í samfélaginu, sbr. 23. gr. frumvarpsins. Enn fremur er mikilvægt að kynjasjónarmiða sé gætt í allri nærþjónustu sem sveitarfélögum er ætlað að veita íbúum sínum. Í öðru lagi að þar sem fleiri aðilar sinna nú rannsóknum í kvenna- og kynjafræðum fari ekki vel á því að taka einn fram fyrir annan. Nefndin bendir þó á að Jafnréttisráð geti ávallt óskað eftir sérfræðiaðstoð við athugun mála. Þess í stað leggur nefndin til að Félag um foreldrajafnrétti fái að tilnefna fulltrúa í ráðið. Í þriðja lagi leggur nefndin til að Femínistafélag Íslands, Kvenfélagasamband Íslands og Kvenréttindafélag Íslands tilnefni sameiginlega tvo fulltrúa í stað eins. Í samræmi við framangreint leggur nefndin til að fulltrúum í Jafnréttisráði verði fjölgað úr átta í tíu. Tekið skal fram að í nefndinni voru mismunandi áherslur varðandi fjölda nefndarmanna í Jafnréttisráði, annars vegar að hafa ráðið fámennara en lagt er til í frumvarpinu og hins vegar að fjölga bæri í ráðinu og skipa því framkvæmdastjórn. Niðurstaðan varð sú að hafa ráðið ekki fjölmennt en nefndin leggur þrátt fyrir það til að fulltrúum verði fjölgað um tvo til að tryggja ákveðið jafnvægi.
    Í tengslum við ákvæði 12. gr. um jafnréttisnefndir sveitarfélaga vekur nefndin athygli á 41. gr. laga nr. 45/1998 þar sem sveitarfélögum er heimilt að sameina nefndir þótt kveðið sé á í lögum um skipan tiltekinna nefnda.
    Í nefndinni komu fram athugasemdir varðandi lokamálslið 2. mgr. 18. gr. sem tekur til vinnumarkaðarins. Vill nefndin því leggja til að í stað fyrrgreinds lokamálsliðar verði tekið fram að í jafnréttisáætlun eða starfsmannastefnu skuli koma fram hvernig settum markmiðum skuli náð og að hvort tveggja skuli endurskoða á þriggja ára fresti. Þá vekur nefndin athygli á því að við ákvörðun dagsekta sé nauðsynlegt að horfa til þess að almennt verði tekið tillit til stærðar fyrirtækja og stofnana varðandi fjárhæð dagsekta sem á eru lagðar, skv. 6. mgr. 18. gr.
    Í 26. gr. frumvarpsins er kveðið á um bann við mismunun í starfi og við ráðningu. Í 4. mgr. er kveðið á um rétt umsækjanda um starf til rökstuðnings atvinnurekanda fyrir ráðningu manns af gagnstæðu kyni. Nefndin telur ekki rétt að leggja skilyrðislausa skyldu á atvinnurekendur um að rökstyðja allar ráðningar enda getur slík skilyrðislaus kvöð verið mjög íþyngjandi og leggur til að 4. mgr. falli brott. Þess í stað telur nefndin rétt að láta efnisatriði lokamálsgreinar greinarinnar ná til 5. mgr., er verður 4. mgr. eftir breytingu. Nefndin tekur fram að þau atriði sem upp eru talin í ákvæðinu beri öll að taka til greina og meta heildstætt. Þá leggur nefndin til að lokamálsgrein 27. gr. falli brott.
    Þá leggur nefndin til að bætt verði við þremur ákvæðum til bráðabirgða er varða lagaskil og að tekin verði af öll tvímæli um að þrátt fyrir gildistöku nýju laganna gildi skipun framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu út núverandi skipunartíma hans en að ráðherra skuli strax eftir gildistökulaganna skipa nýja kærunefnd jafnréttismála og nýtt jafnréttisráð.
    Nefndin ræddi ítarlega þann möguleika að koma á vottunarkerfi fyrir framkvæmd jafnréttisáætlana og jafnlaunakerfa hjá þeim aðilum sem lögin ná til. Vottun væri staðfesting óháðs aðila á því að stefna, framkvæmd eða ferli jafnréttismála fyrirtækis eða stofnunar væri í samræmi við ákveðna staðla eða viðmið sem byggjast á lögum. Óháðar vottunarstofur mundu annast framkvæmd vottana á grundvelli laga nr. 24/2006 og vottunarkerfi gæti byggst á kröfum og leiðbeiningum sem Staðlaráð Íslands gefur út. Opinber vottun á framkvæmd jafnréttisstefnu ætti að geta orðið eftirsóknarvert takmark fyrirtækja og stofnana og hluti af ímynd þeirra og væri þeim heimilt að geta þess í auglýsingum og öðru kynningarefni.
    Ef koma skal slíku kerfi á fót þarf að fara fram ítarleg rannsóknarvinna og þróun á vottunarkerfi. Nefndin leggur til að sett verði ákvæði til bráðabirgða við lögin sem leggur þá skyldu á herðar félagsmálaráðherra að hlutast til um að hrinda slíkri vinnu í framkvæmd. Miðað er við að vottunarkerfi verði tilbúið fyrir 1. janúar 2010. Gera verður ráð fyrir að breyta þurfi lögum til að skjóta lagastoðum undir vottunarkerfi og réttaráhrif vottunar. Ljóst er að slík vinna mun kosta tíma og fjármuni og áréttar nefndin að tryggja þurfi fjárveitingu til verkefnisins af fjárlögum. Nefndin mun svo fylgja því eftir að nauðsynlegar lagabreytingar verði gerðar til að innleiða vottunarkerfi.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Kristinn H. Gunnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Pétur H. Blöndal skrifar undir með fyrirvara.

Alþingi, 14. des. 2007.Guðbjartur Hannesson,


form., frsm.


Ármann Kr. Ólafsson.


Ögmundur Jónasson.Jón Gunnarsson.


Ásta R. Jóhannesdóttir.


Árni Johnsen.Birkir J. Jónsson.


Pétur H. Blöndal,


með fyrirvara.