Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 347. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 583  —  347. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra, nr. 18/1984.

Flm.: Dýrleif Skjóldal, Álfheiður Ingadóttir,     Þuríður Backman,


Kristinn H. Gunnarsson.


1. gr.

    Á eftir 1. mgr. 5. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Hafi sjónskertur til umráða leiðsöguhund sem stofnunin metur nauðsynlegt hjálpartæki skal hún veita hinum sjónskerta 15.000 kr. framlag á mánuði vegna kostnaðar við umhirðu hundsins.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í frumvarpi þessu er lagt til að Sjónstöð Íslands veiti styrki til sjónskertra sem halda leiðsöguhund. Stofnuninni ber skv. 4. gr. laga nr. 18/1984 að annast hvers konar þjónustu við sjónskerta sem sjúkratryggðir eru samkvæmt lögum um almannatryggingar. Í lögunum er ákvæði um að hún annist úthlutun sérhæfðra og nauðsynlegra hjálpartækja til skjólstæðinga sinna.
    Í fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir fjárveitingu til Blindrafélagsins og Daufblindrafélagsins til að kaupa og þjálfa fjóra til fimm leiðsöguhunda og er það í samræmi við þjónustusamning sem félögin hafa gert við heilbrigðisráðuneytið. Þrátt fyrir að valinn hafi verið sá kostur að veita fé til þessa verkefnis til frjálsra félagasamtaka í stað Sjónstöðvarinnar verður ekki annað séð en að slíkir hundar teljist vera „sérhæft hjálpartæki“ fyrir þá sem sannanlega þurfa á að halda.
    Flutningsmenn telja það réttlætismál og í góðu samræmi við tilurð laga um Sjónstöð Íslands að ríkisvaldið taki þátt í kostnaði sem hlýst af umhirðu leiðsöguhunds. Sá kostnaður lýtur einkum að hreinsun, lækniskostnaði, leyfisgjaldi og fæðiskostnaði. Er því lagt til að stofnunin veiti umráðamanni styrk að fjárhæð 15.000 kr. á mánuði í þessum tilgangi og jafnframt að við næstu fjárlagagerð verði framlög til stofnunarinnar aukin sem því nemur. Skal styrkurinn í engu rýra aðrar bætur sem umráðahafi veitir viðtöku vegna fötlunar sinnar.
    Í almannatryggingalöggjöf eru fordæmi fyrir því að ríkið taki þátt í kostnaði af rekstri tækja sem gera fötluðu fólki kleift að takast á við daglegt líf.