Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 142. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 648  —  142. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Frá félags- og tryggingamálanefnd.



    Nefndin fjallaði að nýju um frumvarpið eftir að því hafði verið vísað til hennar að lokinni 2. umræðu. Nefndin fékk á sinn fund Bjarnheiði Gautadóttur og Hildi Jónsdóttur frá félags- og tryggingamálaráðuneyti og Kristínu Ástgeirsdóttur frá Jafnréttisstofu.
    Nefndin telur mikilvægt að það markmið laganna í i-lið 1. gr., að vinna gegn kynbundnu ofbeldi, verði orðað þannig að unnið skuli gegn kynbundnu ofbeldi og áreitni. Í frumvarpinu eru hugtökin kynferðisleg og kynbundin áreitni skilgreind og koma þau fyrir víðs vegar í frumvarpinu. Hins vegar koma framangreind hugtök hvergi fram í 1. gr. frumvarpsins sem fjallar um markmið laganna og þykir nefndinni því nauðsynlegt að bætt verði úr því með fyrrgreindum hætti.
    Skilgreining á kynbundnu ofbeldi kom til umræðu og varð niðurstaðan sú að æskilegt væri að skilgreiningu á kynbundnu ofbeldi yrði bætt við 2. gr. frumvarpsins þar sem eitt af markmiðum laganna væri að vinna gegn kynbundnu ofbeldi. Sú skilgreining sem lögð er til að verði notuð er í samræmi við yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna um afnám ofbeldis gegn konum. Einnig þykir nefndinni brýnt að kynbundin ofbeldisbrot fari ávallt fyrir dómstóla en komi ekki inn á borð kærunefndar jafnréttismála til úrskurðar.
     Vegna þeirra breytinga sem urðu um síðastliðin áramót á verkaskiptingu ráðuneyta er vakin athygli á því að í frumvarpinu stendur hvarvetna „félagsmálaráðherra“ en ekki „félags- og tryggingamálaráðherra“. Brýnt er að það sé lagfært.
    Skipun Jafnréttisráðs bar einnig á góma innan nefndarinnar og fram komu tillögur um það hverjir skyldu tilnefna fulltrúa í ráðið. Eftir að hafa rætt ítarlega um málið varð sátt um að rétt þætti að Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands ætti fulltrúa innan ráðsins.
    Gildissvið 15. gr. frumvarpsins var jafnframt rætt. Fram kom að skýra þyrfti ákvæðið þannig að ljóst væri að það ætti ekki við um kosningar í nefndir, ráð og stjórnir á vegum hins opinbera þar sem um er að ræða kjörna fulltrúa. Þá skal ítrekað að ákvæði 15. gr. gildir um skipan Jafnréttisráðs.
    Einnig kom upp umræða um 31. gr. frumvarpsins. Eftir að hafa fjallað um þá grein var komist að þeirri niðurstöðu að ekki þyrfti að koma með athugasemdir við hana í nefndaráliti þar sem í gildandi lögum væri að finna samhljóða ákvæði.
    Samkvæmt 11. gr. frumvarpsins skal félags- og tryggingamálaráðherra, innan árs frá alþingiskosningum, leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum. Lagt er til í nýju bráðabirgðaákvæði að ráðherra leggi framangreinda þingsályktunartillögu fram í fyrsta skipti haustið 2008 á grundvelli ákvæðis 11. gr.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 12. febr. 2008.



Guðbjartur Hannesson,


form., frsm.


Ásta R. Jóhannesdóttir.


Birkir J. Jónsson.



Árni Johnsen.


Ármann Kr. Ólafsson.


Kristinn H. Gunnarsson,


með fyrirvara.



Pétur H. Blöndal,


með fyrirvara.


Ögmundur Jónasson,


með fyrirvara.


Jón Gunnarsson.