Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 351. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 669  —  351. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á ýmsum lögum vegna flutnings á útgáfu starfsleyfa til landlæknis.

Frá heilbrigðisnefnd.


    
    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðrúnu W. Jensdóttur og Vilborgu Hauksdóttur frá heilbrigðisráðuneyti, Sigurð Guðmundsson frá landlæknisembættinu, Elínu Soffíu Ólafsdóttur og Önnu Birnu Almarsdóttur frá lyfjafræðideild Háskóla Íslands, Nínu Björk Ásbjörnsdóttur og Unni Björgvinsdóttur frá Lyfjafræðingafélagi Íslands, Höllu Þorvaldsdóttur og Pétur Tyrfingsson frá Sálfræðingafélagi Íslands, Kristínu Hafsteinsdóttur frá Félagi lífeindafræðinga og Lilju Ingvarsson frá Iðjuþjálfafélagi Íslands. Einnig hafa nefndinni borist tíu umsagnir.
    Frumvarpið miðar að því að flytja útgáfu starfsleyfa til heilbrigðisstétta, ásamt ýmiss konar vottorðaútgáfu sem þeim fylgir, frá heilbrigðisráðuneyti til landlæknis. Samkvæmt aðgerðaáætluninni Einfaldara Ísland sem samþykkt var í ríkisstjórn árið 2006 er gert ráð fyrir að hvert ráðuneyti setji sér langtímaáætlun um einföldun opinberra reglna og stjórnsýslu. Frumvarp þetta er liður í þeirri áætlun. Að auki eru gerðar lagfæringar og leiðréttingar á nokkrum úreltum ákvæðum laga er frumvarpið tekur til.
    Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að útgáfa starfsleyfa til heilbrigðisstétta falli betur að stjórnsýsluverkefnum stofnunar en ráðuneytis. Þetta er í samræmi við verklag sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum. Flutningur starfsleyfa heilbrigðisstétta yfir til landlæknis sé jafnframt ákjósanlegur út frá sjónarmiðum um réttaröryggi, þar sem umsækjandi um starfsleyfi getur borið ákvörðun á lægra stjórnsýslustigi undir æðra stjórnsýslustig með kæru til ráðherra. Þá er um að ræða einföldun á málsmeðferð og styttingu málsmeðferðartíma þar sem ráðuneytið hefur sent flestar umsóknir um starfsleyfi til umsagnar hjá landlækni. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið.
    Fram kom á fundi nefndarinnar með gestum frá heilbrigðisráðuneyti að æskilegt væri að fella brott a-lið 42. gr. frumvarpsins er varðar breytingu á lögum nr. 35/1978, um lyfjafræðinga, þar sem markmið frumvarpsins sé ekki efnislegar breytingar heldur fyrst og fremst yfirfærsla starfsleyfanna til landlæknis. Í umsögnum lyfjafræðideildar Háskóla Íslands og Lyfjafræðingafélags Íslands kemur fram að BS-próf í lyfjafræði sé ekki hægt að leggja að jöfnu við aðstoðarlyfjafræðingspróf eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Því leggur nefndin til að a-liður 42. gr. verði felldur brott og að 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 35/1978, um lyfjafræðinga, haldist óbreyttur.
    Í 31. og 32. gr. frumvarpsins er lögð til sú breyting á 2. og 3. gr. laga nr. 75/1977, um iðjuþjálfun, að vísað verði til Háskólans á Akureyri í stað Háskóla Íslands enda sé iðjuþjálfun eingöngu kennd við fyrrnefnda skólann. Á fundi nefndarinnar kom fram sú ábending að við Háskólann á Akureyri sé iðjuþjálfun kennd við iðjuþjálfabraut. Nefndin telur að gæta eigi samræmis í tilvísun í íslenskar menntabrautir heilbrigðisstétta í lögum um viðkomandi stéttir og leggur því til breytingu í samræmi við framangreint.
    Í nefndinni var rætt það sjónarmið hvort í því kynni að felast hagsmunaárekstur að landlæknir samþykki eða hafni starfsleyfi annarra lækna. Ekki var talin hætta á slíku. Jafnframt var rætt í nefndinni hvort í því fælist hagsmunaárekstur að landlæknir sinnti útgáfu starfsleyfa en hefði jafnframt eftirlit með störfum heilbrigðisstarfsmanna. Niðurstaða nefndarinnar var sú að ekki væri ástæða til að hafa áhyggjur af þessu, enda væru starfsleyfaskilyrði almennt lögfest og ekki byggð á mati landlæknis.
    Í umsögnum nokkurra fagfélaga heilbrigðisstarfsmanna var bent á að ákvæði laga um ýmsar heilbrigðisstéttir væru komin til ára sinna og full þörf á að endurskoða þau. Meðal annars væri nauðsynlegt að samræma ákvæði laganna með hliðsjón af evrópskum og alþjóðlegum viðmiðum um nám og starf ýmissa heilbrigðisstétta og breytingum sem hafa orðið á námi og starfi þeirra hérlendis á undanförnum árum. Nefndin fagnar því að þessi vinna sé þegar hafin og vill beina því til ráðuneytisins að ljúka þeirri vinnu hið fyrsta í nánu samráði við heilbrigðisstéttir.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Þuríður Backman var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Guðjón A. Kristjánsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 19. febr. 2008.



Ásta Möller,


form., frsm.


Ágúst Ólafur Ágústsson.


Árni Páll Árnason.



Herdís Þórðardóttir.


Valgerður Sverrisdóttir.


Álfheiður Ingadóttir.



Pétur H. Blöndal.


Ellert B. Schram.