Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 196. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 679  —  196. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um sértryggð skuldabréf.

Frá viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund Jónsson og Helgu Rut Eysteinsdóttur frá Fjármálaeftirlitinu, Guðmund Bjarnason og Sigríði Ingibjörgu Ingvadóttur frá Íbúðalánasjóði, Guðjón Rúnarsson og Jón Finnbogason frá Samtökum fjármálafyrirtækja og Kjartan Gunnarsson frá viðskiptaráðuneyti.
    15. febrúar 2007 skilaði starfshópur sem viðskiptaráðherra hafði skipað drögum að lagafrumvarpi um sértryggð skuldabréf. Útgáfa sértryggðra skuldabréfa hefur aukist mjög og sömuleiðis þörfin fyrir lög þar að lútandi.
    Markmið frumvarpsins er að skapa umgjörð svo að viðskiptabankar, sparisjóðir og lánafyrirtæki geti hlotið leyfi Fjármálaeftirlitsins til að gefa út sértryggð skuldabréf sem hafi sérstakan tryggingar- og fullnusturétt í safni eigna sem tilheyra útgefanda. Í 2. gr. frumvarpsins er sértryggt skuldabréf skilgreint sem skuldabréf eða önnur einhliða, óskilyrt og skrifleg skuldarviðurkenning sem nýtur sérstaks fullnusturéttar í tryggingasafni útgefanda og er gefin út samkvæmt ákvæðum frumvarpsins. Í 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um þau skilyrði sem umsækjandi þarf að uppfylla til að fá leyfi til útgáfu sértryggðra skuldabréfa. Annars vegar skal útgáfan samræmast reglum frumvarpsins og hins vegar þarf að sýna fram á að fjárhagur útgefanda sé svo traustur að hagsmunum annarra kröfuhafa sé ekki stefnt í hættu með útgáfu sértryggðra skuldabréfa.
    Í II. kafla frumvarpsins er að finna ákvæði um það hvernig tryggingasafnið, sem stendur til tryggingar og fullnustu sértryggðum skuldabréfum, geti verið samsett og hvaða staðgöngutryggingar sé heimilt að setja í safnið. Skuldabréfin geta í grófum dráttum verið tvenns konar, annars vegar veðskuldabréf og hins vegar skuldabréf sem eru gefin út af ríki eða sveitarfélagi á Íslandi eða í aðildarríki en samkvæmt skilgreiningu í 2. gr. er átt við aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, aðildarríki að stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjar. Í 6. gr. er kveðið á um hvaða staðgöngutryggingar megi vera í tryggingasafni og lagt til að þeim verði skipt í tvo flokka. Annars vegar er um að ræða staðgöngutryggingar sem setja má í tryggingasafnið af því þær fullnægja tilteknum lögbundnum skilyrðum, þó þannig að Fjármálaeftirlitið hafi með almennum hætti samþykkt lögaðila, sbr. 3. tölul. 1. mgr. Hins vegar eru staðgöngutryggingar sem eru þess eðlis að í öllum tilvikum þarf samþykki Fjármálaeftirlitsins til að heimilt sé að setja þær í tryggingasafnið.
    Í hvert sinn sem leyfi er veitt til útgáfu sértryggðra skuldabréfa skal skipa sjálfstæðan skoðunarmann skv. ákvæðum VIII. kafla frumvarpsins. Helstu verkefni hans eru annars vegar að ganga úr skugga um að mat á veðtryggingum skuldabréfa í tryggingasafni byggist á réttri aðferð og hins vegar veitir hann Fjármálaeftirlitinu upplýsingar sem hann fær í starfi sínu svo oft sem mælt er fyrir um í skipunarbréfi hans.
    Gert er ráð fyrir því í 24. gr. frumvarpsins að Fjármálaeftirlitið annist eftirlit með ákvæðum laganna. Er tilgreint að um eftirlitið fari samkvæmt ákvæðum laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Fjármálaeftirlitið hefur samkvæmt þeim lögum víðtækar og skýrar heimildir til að fylgjast með því að starfsemi á fjármálamarkaði samræmist lögum, reglum, reglugerðum eða samþykktum sem um starfsemina gilda. Reglur þessa frumvarps koma til viðbótar og fyllingar ákvæða laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
    VII. kafli frumvarpsins fjallar um gjaldþrotaskipti á búi útgefanda. Nauðsynlegt þykir að lögfesta reglur um hvernig farið skuli með tryggingasafnið og aðrar eignir í kerfinu verði bú útgefanda tekið til gjaldþrotaskipta, svo og hvernig verði staðið að fullnustu á hinum sértryggðu skuldabréfum.
    Nefndin leggur til tvær breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi er lagt til breytt viðmið um það frá hvaða degi beri að reikna þann sex mánaða frest sem Fjármálaeftirlitið hefur til að afgreiða umsókn um leyfi til að gefa út sértryggt skuldabréf. Telur nefndin eðlilegast að fresturinn byrji að líða þegar þegar eftirlitinu hefur borist fullbúin umsókn. Í öðru lagi leggur nefndin til þá breytingu á 21. gr. frumvarpsins að í stað þess að Fjármálaeftirlitið skipi sjálfstæðan skoðunarmann skipi útgefandi skoðunarmanninn en Fjármálaeftirlitið staðfesti skipun hans. Þá geti Fjármálaeftirlitið afturkallað staðfestingu sína telji það að skoðunarmaður uppfylli ekki hæfisskilyrði. Nefndin telur eðlilegra að það sé ekki sami aðili, þ.e. Fjármálaeftirlitið, sem hafi eftirlit með útgáfu sértryggðra skuldabréfa og skipi skoðunarmann. Í samræmi við þessa breytingu á 21. gr. frumvarpsins leggur nefndin einnig til orðalagsbreytingu á 22. gr. þess.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi:

BREYTINGUM:

    1.    1. málsl. 4. gr. orðist svo: Þegar lögð hefur verið fram umsókn um leyfi skal Fjármálaeftirlitið afgreiða hana innan sex mánaða frá móttöku fullbúinnar umsóknar.
    2.     21. gr. orðist svo:
                 Útgefandi skal skipa sjálfstæðan skoðunarmann til að hafa eftirlit með útgáfu sértryggðra skuldabréfa sem Fjármálaeftirlitið hefur veitt leyfi fyrir. Fjármálaeftirlitið skal staðfesta skipun hans. Skoðunarmaður skal uppfylla þau hæfisskilyrði sem kveðið er á um í reglum Fjármálaeftirlitsins skv. 8. tölul. 25. gr. Telji Fjármálaeftirlitið að skoðunarmaður uppfylli ekki hæfisskilyrði getur það afturkallað staðfestingu sína.
                 Þegar leitað er eftir staðfestingu Fjármáleftirlitsins á skipun skoðunarmanns skal útgefandi gera grein fyrir hugsanlegum tengslum hans við útgefanda og helstu fyrirsvarsmenn hans.
    3.    2. mgr. 22. gr. orðist svo:
                 Skoðunarmaður skal veita Fjármálaeftirlitinu upplýsingar sem hann fær í starfi sínu svo oft og í því formi sem það ákveður og umfram það ef sérstök ástæða er til.

    Höskuldur Þórhallsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Jón Magnússon sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu.
    

Alþingi, 19. febr. 2008.



Ágúst Ólafur Ágústsson,


form., frsm.


Guðfinna S. Bjarnadóttir.


Jón Bjarnason.



Birgir Ármannsson.


Árni Páll Árnason.


Birkir J. Jónsson.



Jón Gunnarsson.


Björk Guðjónsdóttir.