Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 448. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 711  —  448. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA fyrir árið 2007.

1.    Inngangur.
    Alþjóðavæðing efnahagslífsins og aukið viðskiptafrelsi verða sífellt mikilvægari fyrir íslenska hagkerfið. Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) og Evrópska efnahagssvæðið (EES) gegna þar veigamiklu hlutverki sem grunnstoðir íslenskrar utanríkisverslunar. Með aðildinni að EES njóta Íslendingar að langmestu leyti sömu viðskiptakjara og 29 önnur Evrópuríki með um 500 milljóna manna markað. Auk þess að koma að rekstri EES-samningsins hefur EFTA byggt upp net fríverslunarsamninga við ríki utan ESB eða svonefnd þriðju ríki. Í starfsemi þingmannanefndar EFTA árið 2007 voru tvö mál einkum í brennidepli sem bæði beindust að því að tryggja markaðsaðgang og þar með samkeppnishæfni aðildarríkjanna. Annars vegar fjallaði þingmannanefndin ítrekað um stækkun EES og töfina sem varð á henni og hins vegar um áframhaldandi gerð fríverslunarsamninga EFTA.
    Búlgaría og Rúmenía gengu í ESB 1. janúar 2007. Við fyrri stækkanir ESB var EES stækkað samhliða en ekki tókst samkomulag um það á milli EFTA og framkvæmdastjórnar ESB við inngöngu Búlgaríu og Rúmeníu í sambandið. Samningaviðræður EFTA og ESB um stækkun EES voru veigamikið mál á dagskrá þingmannanefndar EFTA og þingmannanefndar EES. Nefndirnar fengu reglulega upplýsingar um gang mála í viðræðum sínum við ráðherra, embættismenn og sérfræðinga, og lögðu áherslu á mikilvægi þess að fá niðurstöðu í stækkunarmálinu þar sem það bryti í bága við samræmi hins sameiginlega markaðar EES að aðilar að ESB og þar með innri markaði sambandsins væru ekki aðilar að EES. Helsta bitbeinið í samningaviðræðunum voru kröfur framkvæmdastjórnar ESB um þróunarstyrki EFTA til handa nýju aðildarríkjunum tveimur til samræmis við það styrkjakerfi sem komið var á fót fyrir stækkun ESB til austurs 1. maí 2004 þegar 8 ný ríki gegnu í sambandið. Samkomulag um stækkun tókst hinn 14. mars og tók aðild Búlgaríu og Rúmeníu að EES gildi 1. ágúst. Niðurstaða samninganna felur í sér að EFTA-ríkin munu fram til loka apríl 2009 auka framlög sín til þróunarsjóðs EFTA um alls 72 milljónir evra sem renna munu til Búlgaríu og Rúmeníu.
    Fríverslunarsamningagerð EFTA við ríki utan ESB, svonefnd þriðju ríki, var ofarlega á dagskrá þingmannanefndar EFTA. Með aukinni svartsýni á að árangur náist í Doha-samningalotu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) hafa samtök ríkja og einstök lönd beint sjónum sínum að gerð tvíhliða fríverslunarsamninga. EFTA hefur verið í fararbroddi á þessu sviði og eru gildir fríverslunarsamningar EFTA nú 15 talsins. Þingmannanefnd EFTA hefur á undanförnum árum stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga samtakanna. Það hefur lengi verið rætt innan þingmannanefndarinnar að beita sendinefndum og þingmannaheimsóknum til þess að kynna og afla stuðnings við gerð fríverslunarsamninga EFTA við ríki utan ESB. Fyrsta heimsókn þessarar tegundar var farin til Kanada í febrúar en þar áttu fulltrúar þingmannanefndarinnar fundi með þeim nefndum kanadíska þingsins sem fara með utanríkisviðskiptamál.
    Af öðrum stórum málum sem tekin voru fyrir af þingmannanefndum EFTA og EES árið 2007 má nefna framtíðarstefnu ESB í málefnum sjávar og siglinga, umbótasáttmála ESB, orkumál og loftslagsbreytingar, og framtíðarhorfur EES-samstarfsins.

2.    Almennt um þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES.
    Þingmannanefnd EFTA var stofnuð árið 1977 með það meginhlutverk að vera ráðgefandi fyrir ráðherraráð EFTA. Aðild að EFTA eiga nú Ísland, Noregur, Liechtenstein og Sviss. Þjóðkjörnir fulltrúar þessara ríkja sitja í þingmannanefndinni. Starfsemi nefndarinnar hefur aukist jafnt og þétt, í samræmi við aukin umsvif EFTA, bæði hvað varðar samskipti við ESB og samstarf við svokölluð þriðju ríki, þ.e. ríki utan ESB. Starfssvið nefndarinnar jókst til muna með tilkomu EES-samningsins sem tók gildi 1. janúar 1994. Með gildistöku samningsins varð nefndin að formi til tvískipt þar eð Svisslendingar ákváðu að standa fyrir utan Evrópska efnahagssvæðið. Nefndin skiptist því annars vegar í fjögur ríki sem aðild eiga að EFTA og hins vegar í þrjú aðildarríki EFTA sem aðild eiga að EES. Þingmannanefnd EFTA fundar þó ávallt í einu lagi, en Svisslendingar sitja sem áheyrnarfulltrúar þegar málefni sem varða EES-samninginn eru tekin fyrir. Hér á eftir verður fjallað um þessar tvær formlegu þingmannanefndir EFTA sem eina heild.
    Alþingi á fimm fulltrúa í þingmannanefnd EFTA líkt og önnur aðildarríki. Þingmannanefnd EFTA heldur fundi fjórum til fimm sinnum á ári, og á tveimur fundum sínum á hún auk þess fund með ráðherraráði EFTA. Nefndin fjallar almennt um starfsemi EFTA, málefni EES og ESB, gerð og framkvæmd fríverslunarsamninga og viðskiptamál í víðu samhengi. Nefndin á einnig samstarf við þing þeirra ríkja sem EFTA hefur gert fríverslunar- eða samstarfssamninga við. Þessi þáttur í starfi EFTA vex stöðugt og eru fríverslunarsamningar nú umfangsmikill hluti starfssviðs EFTA.
    Framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA undirbýr starf nefndarinnar og gefur álit á fjárhagsáætlun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), auk þess að fjalla um aðkallandi mál. Framkvæmdastjórnin kemur oft fram fyrir hönd þingmannanefndarinnar í samskiptum við þjóðþing þriðju ríkja. Í framkvæmdastjórn mega sitja tveir fulltrúar frá hverju EFTA-ríki, en einungis annar þeirra hefur atkvæðisrétt á fundum. Auk formanns hefur af hálfu Íslandsdeildar einn fulltrúi stjórnarandstöðu sótt fundi framkvæmdastjórnarinnar.
    Þingmannanefnd EES var komið á fót skv. 95. gr. EES-samningsins og er hluti af stofnanakerfi hans. Í þingmannanefnd EES eru 24 þingmenn, tólf frá Evrópuþinginu og tólf frá EFTA-ríkjunum sem aðild eiga að EES (EFTA-hluti sameiginlegrar þingmannanefndar EES). Af þessum tólf fulltrúum á Ísland fjóra, Noregur sex og Liechtenstein tvo. Þingmannanefndin fylgist með framkvæmd og þróun EES-samningsins og gefur álit sitt á EES-málum. Nefndin heldur fundi tvisvar á ári en framkvæmdastjórn hennar hittist á milli funda eftir þörfum. Í framkvæmdastjórninni sitja sex fulltrúar, einn frá hverju EES-aðildarríki EFTA og þrír frá Evrópuþinginu. EFTA-hluti hinnar sameiginlegu þingmannanefndar EES og Evrópuþingið skiptast á um formennsku í nefndinni á milli ára.
    Þingmannanefnd EES lætur til sín taka á öllum sviðum EES-samstarfsins. Hún tekur ákveðin málefni til skoðunar, skrifar um þau skýrslur og samþykkir ályktanir. Skýrslugerð um mál sem tekið er fyrir er í höndum tveggja framsögumanna, annars úr hópi EFTA- þingmanna og hins úr hópi Evrópuþingsmanna. Skýrsla framsögumanna er alfarið á þeirra eigin ábyrgð, en nefndin samþykkir venjulega ályktun þegar umfjöllun um mál er lokið. Ályktanir nefndarinnar eru sendar til ráðherraráðs EES, sameiginlegu EES-nefndarinnar, Evrópunefnda þjóðþinga ESB, Evrópuþingsins og þjóðþinga EFTA/EES-ríkja. Þingmannanefndin fylgist náið með því hvernig mál sem hún hefur tekið fyrir þróast og þegar hún telur að framvinda mála sé ófullnægjandi tekur hún þau upp aftur. Nefndin beinir einnig sjónum sínum sérstaklega að áhrifum þjóðþinga EFTA-ríkjanna á EES-samninginn og lagasetningu í tengslum við hann. Fulltrúar ráðherraráðs EFTA og embættismenn stofnana EFTA og ESB mæta á fundi nefndarinnar til að skýra frá framvindu mála og svara spurningum nefndarmanna.

3.     Skipan Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA.
    Í upphafi árs 2007 skipuðu Íslandsdeild eftirfarandi þingmenn: Guðlaugur Þór Þórðarson, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Birkir J. Jónsson, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Bjarni Benediktsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Lúðvík Bergvinsson, þingflokki Samfylkingarinnar. Varamenn voru Birgir Ármannsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Jón Gunnarsson, þingflokki Samfylkingarinnar, Dagný Jónsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar og Sigurður Kári Kristjánsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks.
    Í kjölfar alþingiskosninga var ný Íslandsdeild kjörin 31. maí í upphafi 134. þings. Samkvæmt breytingum á þingsköpum gildir sú kosning deildarinnar fyrir allt kjörtímabilið. Þingið getur þó hvenær sem er kosið að nýju ef fyrir liggur beiðni meiri hluta þingmanna þar um. Íslandsdeild skipa Bjarni Benediktsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Katrín Júlíusdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Árni Þór Sigurðsson, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Illugi Gunnarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn eru Ármann Kr. Ólafsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Katrín Jakobsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Ólöf Nordal, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Jón Gunnarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Á fundu Íslandsdeildar hinn 4. júní var Katrín Júlíusdóttir kosin formaður og Bjarna Benediktsson varaformaður deildarinnar. Ritari Íslandsdeildar var Stígur Stefánsson, deildarstjóri alþjóðadeildar.

4.    Starfsemi Íslandsdeildar.
    Ísland fór með formennsku í þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES á starfsárinu 2007. Það er í verkahring formanns að leggja upp drög að fundardagskrám nefndanna og stýra fundum þeirra. Auk þess er formaður fulltrúi nefndanna út á við. Guðlaugur Þór Þórðarson gegndi formennsku í þingmannanefndunum tveimur fram að kosningum 12. maí en eftir að ný Íslandsdeild hafði verið skipuð tók Katrín Júlíusdóttir við formennskunni.
    Íslandsdeild var venju samkvæmt mjög virk í starfi þingmannanefnda EFTA og EES á árinu og lét að sér kveða í öllum helstu málum sem komu til umræðu í nefndunum. Bjarni Benediktsson var skýrsluhöfundur einnar af fjórum skýrslum þingmannanefndar EES ásamt breska Evrópuþingmanninum Diana Wallis. Það var ársskýrsla þingmannanefndar EES um framkvæmd EES-samningsins en í henni var m.a. fjallað um töfina á stækkun EES samhliða stækkun ESB og afleiðingar þeirrar tafar. Þá lagði Katrín Júlíusdóttir fram vinnuskýrslu um framtíðarhorfur EES, einnig ásamt Diana Wallis. Í vinnuskýrslunni var fjallað um hvernig breytingar á stofnanauppbyggingu og starfsemi Evrópusambandsins á síðustu 15 árum hafi haft áhrif á framkvæmd EES-samningsins. Í sífellt fleiri málaflokkum væri erfitt að skilja á milli annars vegar innri markaðarins, þar sem EFTA-ríkin eru fullir þátttakendur, og hins vegar annarra sviða sem standa utan EES-samstarfsins. Óljós skil milli innri markaðar og annarra sviða í tilskipunum ESB hafa þau áhrif að erfiðara er að skilgreina hvaða tilskipanir á að taka upp í EES-samninginn og þar með innleiða í EFTA-ríkjunum.
    Íslandsdeild hélt fjóra fundi á árinu. Þar var starfsemi Íslandsdeildar skipulögð og þátttaka í fundum þingmannanefnda EES og EFTA undirbúin. Sérstakur fundur var haldinn um fríverslunarmál og var Benedikt Jónsson, skrifstofustjóri á skrifstofu viðskiptasamninga á viðskiptasviði utanríkisráðuneytisins, gestur hans. Benedikt kynnti fríverslunarsamninga og samningagerð Íslands, annars vegar á vettvangi EFTA og hins vegar tvíhliða samninga. Þá gerði Benedikt grein fyrir hversu stór hluti íslenskra utanríkisviðskipta fellur undir virka fríverslunarsamninga, stefnu íslenskra stjórnvalda á þessu sviði og loks horfur í hnattrænum fríverslunarmálum.
    Venja er að Íslandsdeild haldi fund með Evrópunefnd þjóðþings þess ríkis sem stendur næst í röðinni til þess að taka við formennsku í ESB, en nýtt formennskuríki tekur við á sex mánaða fresti. Portúgalar tóku við formennsku á miðju ári 2007 og Slóvenar í ársbyrjun 2008. Íslandsdeild átti fund með fulltrúum Evrópunefndar slóvenska þingsins í Ljúblíana 4. desember. Anton Kokalj, formaður nefndarinnar, gerði grein fyrir helstu áherslumálum í formennskuáætlun Slóvena, svo sem fullgildingarferli umbótasáttmála ESB og áframhaldandi vinnu að markmiðum Lissabon-áætlunarinnar um að auka samkeppnishæfni sambandsins. Einnig verður lögð sérstök áhersla á mótun sameiginlegrar stefnu ESB í orkumálum og stækkun Schengen-svæðisins sem ráðgerð er í mars á næsta ári. Þá verður samstarf ESB við ríki á Balkanskaga aukið. Íslandsdeild kynnti aðkomu Íslands að Evrópusamstarfi með EES-samningnum og þátttöku í Schengen, og afstöðu stjórnmálaflokka til Evrópumála. Í umræðunum sem á eftir fylgdu var m.a. rætt um stöðu Kosóvó og samband ESB við Rússland, stækkunarviðræður ESB við Króatíu og Tyrkland, orkumál og stöðu smáríkja innan stofnana ESB.

5.    Yfirlit yfir fundi þingmannanefndar EFTA og þingmannanefndar EES á árinu 2007.
    Starfsemi nefndanna var með reglulegum hætti á árinu 2007. Þingmannanefnd EFTA kom saman til fundar fjórum sinnum, þar af tvisvar í tengslum við fundi nefndarinnar með ráðherraráði EFTA og ráðgjafanefnd EFTA, en í henni sitja fulltrúar aðila vinnumarkaðarins. Þá átti þingmannanefnd EFTA fund með utanríkisviðskiptanefnd Evrópuþingsins. Loks áttu fulltrúar þingmannanefndar EFTA fundi með þingnefndum sem fara með utanríkis- og utanríkisviðskiptamál í kanadíska þinginu í samræmi við stefnu sína um að styðja við gerð fríverslunarsamninga EFTA.
    Þingmannanefnd EES kom tvisvar saman til fundar á árinu. Fjórar skýrslur voru teknar til umfjöllunar á fundum þingmannanefndar EES og ályktanir samþykktar á grundvelli þeirra. Hér á eftir er gerð grein fyrir fundum þingmannanefnda EFTA og EES á starfsárinu í tímaröð.

Fundir sendinefndar þingmannanefndar EFTA í kanadíska þinginu í Ottawa 6.–7. febrúar 2006.
    Dagana 6.–7. febrúar hélt sendinefnd þingmannanefndar EFTA til Kanada og átti fundi um fríverslun með þingnefndum kanadíska þingsins sem fara með utanríkisviðskiptamál og öðrum stofnunum. Guðlaugur Þór Þórðarson, formaður þingmannanefndar EFTA, fór fyrir sendinefndinni en í henni voru Jón Gunnarsson alþingismaður og þingmenn frá Noregi, Sviss og Liechtenstein, auk Stígs Stefánssonar, ritara Íslandsdeildar.
    Þingmannanefnd EFTA hefur á undanförnum árum stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga samtakanna. Það hefur lengi verið rætt innan þingmannanefndarinnar að beita sendinefndum og þingmannaheimsóknum til þess að kynna og afla stuðnings við gerð fríverslunarsamninga EFTA við ríki utan ESB. Fyrirmyndin er það fyrirkomulag sem hefur verið á heimsóknum sendinefnda EFTA-þingmanna til verðandi ESB/EES-ríkja til að kynna EES-samninginn. Heimsóknin til Kanada var sú fyrsta sinnar tegundar.
    Markmið fundanna í kanadíska þinginu með utanríkisviðskiptanefnd fulltrúadeildarinnar og utanríkismálanefnd öldungadeildarinnar var því að þrýsta á um jákvæða niðurstöðu í fríverslunarviðræðum EFTA og Kanada sem þá stóðu yfir, og tryggja stuðning kanadískra þingmanna við slíkt samkomulag. Samningaviðræður EFTA og Kanada höfðu staðið í mörg ár en áhyggjur Kanadamanna af skipasmíðaiðnaði sínum stóð helst í vegi fyrir samkomulagi. Kanada er afar háð utanríkisviðskiptum og greiðum aðgangi að erlendum mörkuðum rétt eins og EFTA-ríkin og er fríverslun því mikið hagsmunamál beggja aðila. Enn fremur var rætt um stöðu Doha-samningalotu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og fríverslun almennt. Sendinefndin átti einnig fundi með Peter Milliken, forseta kanadíska þingsins, Marie-Lucie Morin, aðstoðarráðherra utanríkisviðskipta, og David Plunkett, aðalsamningamanni Kanada í fríverslunarviðræðunum við EFTA.
    Á fundunum lagði Guðlaugur Þór Þórðarson áherslu á nauðsyn þess að efla tvíhliða fríverslunarsamninga vegna óvissu um afdrif Doha-samningalotunnar. Fríverslunarsamningur milli EFTA og Kanada mundi skapa ný og spennandi tækifæri í viðskiptum þjóðanna og verða þeim til mikilla hagsbóta. Guðlaugur Þór sagði það kappsmál fyrir Íslendinga að auka viðskiptaleg tengsl við Kanada, land sem Ísland hefur tengst sterkum sögulegum og menningarlegum böndum allt frá fólksflutningunum miklu vestur um haf og stofnun byggða Vestur-Íslendinga.
    Sendinefndin heimsótti enn fremur skrifstofu NAFTA í Kanada og fékk þar yfirgripsmikla kynningu á rekstri fríverslunarsvæðis Norður-Ameríku sem komið var á fót af Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó árið 1994. Farið var yfir ávinning Kanada af NAFTA auk þess sem ferlar til þess að útkljá deilumál á milli ríkjanna þriggja voru kynntir sérstaklega.

60. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA og 85./53. fundur þingmannanefndar EFTA í Brussel 9. mars 2007.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA sóttu fundina Guðlaugur Þór Þórðarson, formaður, Lúðvík Bergvinsson og Jón Gunnarsson, auk Stígs Stefánssonar, ritara.
    Guðlaugur Þór Þórðarson stýrði fundunum. Á fundi framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA var farið yfir starfsáætlun nefndarinnar fyrir árið 2007 og dagskrár funda þingmannanefndarinnar sem framundan voru. Þá var fjallað um fundaferð sendinefndar þingmannanefndarinnar til Kanada í febrúar 2007 þar sem fundað var um fríverslun með utanríkisviðskiptanefndum fulltrúadeildar og öldungadeildar kanadíska þingsins. Markmið fundanna var að þrýsta á um jákvæða niðurstöðu í yfirstandandi fríverslunarviðræðum EFTA og Kanada, og tryggja stuðning kanadískra þingmanna við slíkt samkomulag. Á fundi framkvæmdastjórnarinnar kom fram mikil ánægja með árangur heimsóknarinnar. Gengið var frá minnisblaði til EFTA-ráðsins um heimsóknina og hvernig þingmannanefndin vill beita sér í framtíðinni til að styðja við og liðka fyrir fríverslunarsamningum. Þá fjallaði framkvæmdastjórnin um Færeyjar sem lýst hafa áhuga á aðild að EFTA. Guðlaugur Þór lagði til að fulltrúa færeyskra stjórnvalda yrði boðið á fund þingmannanefndarinnar til þess að kynna afstöðu Færeyinga. Svissneski þingmaðurinn Eugen David sagði ekkert standa í vegi fyrir því að eiga samræður við Færeyinga og kynna sér afstöðu þeirra en það yrði þó að taka skýrt fram að ekki geti orðið að EFTA-aðild þeirra þar sem Svisslendingar eru ekki hlynntir stækkun EFTA. Norski þingmaðurinn Svein Hansen studdi tillögu Guðlaugs Þórs og sagði Norðmenn jákvæða í garð aðildarumsóknar Færeyinga. Guðlaugur Þór lagði áherslu á söguleg og menningarleg tengsl Íslands og Noregs við Færeyjar og sagði þau ekki ólík tengslum Sviss við Liechtenstein. Það væri því kappsmál að eiga samræður við Færeyinga þó svo að fyrir lægi að Svisslendingar væru ekki hlynntir stækkun EFTA.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA voru helstu dagskrárliðir samstarf EFTA við þriðju ríki, stækkun EES, samskipti Rússlands og Úkraínu við ESB og EFTA, og tengsl Indlands við ESB og EFTA. Didier Chambovey, aðstoðarframkvæmdastjóri EFTA, gerði grein fyrir þróun samstarfs EFTA við þriðju ríki og gerð fríverslunarsamninga. Nokkuð var rætt um stöðu samningaviðræðna við Kanada. Þá var búist við að formlegar fríverslunarviðræður gætu hafist við Perú og Kólumbíu í apríl. Nokkuð var rætt um Indland og sagði Chambovey lítið hafa þokast í samskiptum EFTA og Indlands að undanförnu en Indland ætti þegar í fríverslunarviðræðum við ESB og Japan. Rætt var um hvernig þingmannanefndin gæti beitt sér og stutt við fríverslunarviðræður EFTA og taldi Chambovey að Indland væri ríki þar sem pólitískur stuðningur og þrýstingur þingmanna gæti greitt fyrir samningaviðræðum.
    Sendiherrar Íslands, Noregs og Liechtenstein gagnvart ESB gengu á fund þingmannanefndarinnar til þess að fjalla um stöðuna í viðræðum EFTA og ESB um stækkun EES. Guðlaugur Þór greindi frá því í upphafsávarpi sínu að þetta væri í fyrsta skipti sem sendiherrarnir væru boðaðir á fund þingmannanefndar EFTA en vaninn væri að þeir sæktu fundi þingmannanefndar EES tvisvar á ári. Staðan í viðræðum um stækkun EES kallaði á þennan fund en þegar Búlgaría og Rúmenía gengu í ESB 1. janúar 2007 tókst ekki að tryggja samhliða stækkun EES. Helsta bitbeinið í samningaviðræðunum hafi verið kröfur framkvæmdastjórnar ESB um svipaða þróunarstyrki til Rúmeníu og Búlgaríu og ákveðnir voru við stækkun ESB árið 2004 þegar þróunarsjóðum EFTA og Noregs var komið á til þess að styðja nýju aðildarríkin auk Grikklands, Portúgals og Spánar. EFTA-ríkin hefðu lagt áherslu á að þau hefðu engar lögbundnar skyldur til að hækka framlög sín en framkvæmdastjórn ESB hefði á móti sagt það óviðunandi að Búlgaría og Rúmenía gengju í EES með verri skilmálum en giltu við stækkunina árið 2004. Guðlaugur Þór vísaði í síðasta fund þingmannanefndarinnar og EFTA-ráðherranna um stækkunarmálin sem haldinn var í Genf 1. desember og bað sendiherrana að gera grein fyrir gangi viðræðnanna síðan þá. Nikulás prins, utanríkisráðherra Liechtenstein, sem fer með formennsku í EFTA, gerði grein fyrir samningaumleitunum og kvaðst bjartsýnn á að samningar um stækkun tækjust í nánustu framtíð þótt ekki væri það enn í hendi. Taldi hann þátttöku EFTA-ríkjanna í áætlunum ESB á sviði vísinda- og menntamála í hættu ef enn yrði langur dráttur á stækkun EES. Oda H. Sletnes, sendiherra Noregs, bjóst einnig við skjótri úrlausn og að komið yrði til móts við kröfur ESB með því að koma á sérstökum þróunarsjóði EFTA fyrir Rúmeníu og Búlgaríu til tveggja ára 2007–2009. Starfstíma sjóðsins mundi þannig ljúka um leið og starfstíma þróunarsjóðsins sem EFTA kom á við stækkun ESB árið 2004. Aðspurðir um hvort frestunin á stækkun EES hefði haft áhrif á framkvæmd EES-samningsins bentu sendiherrarnir á að engar nýjar gerðir hefðu verið teknar upp í EES-samninginn á fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar í febrúar.
    Sérstök umræða fór fram um samband Indlands við ESB og EFTA og var Ashok Sajjanhar, varafastafulltrúi Indlands gagnvart ESB, gestur fundarins. Guðlaugur Þór greindi frá áherslum EFTA á tvíhliða fríverslunarsamninga í ljósi aukinnar svartsýni á að niðurstaða náist í Doha-samningalotu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Fór Guðlaugur Þór jafnframt yfir þróun fríverslunarnets EFTA á síðustu árum og greindi frá metnaðarfullum áætlunum til framtíðar. Ashok sagði það stefnu indversku ríkisstjórnarinnar að beita sér fyrir fjölþjóðlegum lausnum í viðskiptum á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar enda væru þær gagnsærri og lýðræðislegri en tvíhliða fríverslunarsamningar. Þegar líkur minnkuðu á jákvæðri niðurstöðu Doha-lotunnar hefði ríkisstjórnin þó lagt áherslu á tvíhliða fríverslunarsamninga en Indland gerði sinn fyrsta samning þeirrar tegundar við Srí Lanka árið 2000. Nú ætti Indland í fríverslunarviðræðum við Taíland og fleiri ríki Suðaustur-Asíu. Viðræður stæðu jafnframt yfir við ESB og ljóst er að ef þær leiða til fríverslunarsamnings þá gæti slíkur samningur orðið fyrirmynd að samningi Indlands og EFTA. Loks var rætt um hugsanlega heimsókn sendinefndar þingmannanefndarinnar til Indlands til viðræðna við þær þingnefndir sem fara með utanríkisviðskiptamál.
    Í lok fundar greindi Jón Gunnarsson frá því að von væri á skýrslu frá Evrópunefnd forsætisráðherra sem falið hefði verið að kanna framkvæmd EES-samningsins, önnur tengsl Íslands og ESB, sem og ýmis álitamál tengd hugsanlegri aðild Íslands að ESB. Sagði Jón að þar færi umfangsmesta úttekt á stöðu Íslands í Evrópu um langa hríð og að greint yrði frá niðurstöðum skýrslunnar á næsta fundi þingmannanefndarinnar. Þá greindi Jón frá því að fyrsti formlegi viðræðufundur um fríverslunarsamning Íslands og Kína færi fram í Peking í apríl og að næsti fundur yrði haldinn í Reykjavík í júní. Búist væri við að hægt yrði að klára samningsdrög í fjórum viðræðulotum. Svein Hansen greindi frá meðhöndlun norska þingsins á skýrslu norsku ríkisstjórnarinnar um stöðu Noregs í Evrópu sem út kom vorið 2006. Í febrúar 2007 var skýrslan afgreidd í Stórþinginu og m.a. ákveðið að efna til sérstakrar umræðu um Evrópumál í þinginu tvisvar á ári auk þess sem tillögur voru lagðar fram um að auka umfjöllun fastanefnda þingsins um Evrópumál, styrkja norsku stjórnmálaflokkana til samstarfs við flokkahópa á Evrópuþinginu og efla sérfræðiþekkingu innan Stórþingsins á Evrópumálum.

61. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA, 86./54. fundur þingmannanefndar EFTA, 28. fundur þingmannanefndar EES, og 36. fundur þingmannanefndar EFTA með ráðherraráði EFTA í Liechtenstein 26.–29. júní 2007.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA sóttu fundina Katrín Júlíusdóttir, formaður, Bjarni Benediktsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Árni Þór Sigurðsson og Jón Gunnarsson, auk Stígs Stefánssonar, ritara.
    Á fundunum í Liechtenstein tók Katrín Júlíusdóttir við formennsku þingmannanefnda EFTA og EES og stýrði fundum þeirra.
    Á fundi framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA var farið yfir starfsáætlun nefndarinnar á síðari árshelmingi 2007. Ákveðið var að efna til fundar þingmannanefndar EFTA og utanríkisviðskiptanefndar Evrópuþingsins í nóvember og að bjóða fulltrúa frá Færeyjum til þess að gera grein fyrir stefnu Færeyja gagnvart EFTA á næsta fundi nefndarinnar. Þá voru drög að starfsreglum þingmannanefndarinnar til umræðu en endanlegri afgreiðslu þeirra var frestað. Þá var rætt um hvernig þingmannanefndin gæti beitt sér í framtíðinni til þess að styðja við og liðka fyrir fríverslunarsamningagerð EFTA við svokölluð þriðju ríki.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA voru helstu dagskrárliðir stefna EFTA gagnvart þriðju ríkjum og þróun EES. Didier Chambovey, aðstoðarframkvæmdastjóri EFTA, flutti framsögu um samstarf EFTA við þriðju ríki og gerð fríverslunarsamninga. Svartsýni á árangur í Doha- samningalotu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar hefur glætt mjög áhuga ríkja á tvíhliða fríverslunarsamningum og hefur samkeppni um slíka samninga aukist að sama skapi. Chambovey greindi frá stöðu yfirstandandi fríverslunarviðræðna EFTA og gerði m.a. grein fyrir lokum samningaviðræðna EFTA við Kanada 6. júní og að vonast væri eftir því að samningurinn yrði undirritaður fyrir árslok. Samningaviðræður um fríverslun hófust við Kólumbíu í júní og fríverslunarsamningur EFTA og Egyptalands tók gildi í ágúst. Embættismenn frá skrifstofu EFTA, Marius Vahl, Ásta Magnúsdóttir og Gunnar Selvik, fluttu því næst erindi um þróun EES. Ásta Magnúsdóttir ræddi m.a. stöðu þjónustutilskipunar ESB og frjálsra fólksflutninga. Í lok fundar greindi Bjarni Benediktsson frá stjórnarskiptum á Íslandi í kjölfar kosninganna 12. maí og að ný ríkisstjórn hygðist skoða, á grundvelli skýrslu Evrópunefndar, hvernig hagsmunum Íslendinga yrði í framtíðinni best borgið gagnvart Evrópusambandinu. Bjarni kynnti því næst helstu niðurstöður skýrslu Evrópunefndar og lagði áherslu á tillögur nefndarinnar um að styrkja stöðu Alþingis á sviði Evrópumála m.a. með árlegri skýrslu til Alþingis um Evrópumál, aukna upplýsingagjöf ríkisstjórnar til Alþingis um EES-gerðir á mótunarstigi og stofnun sérstakrar Evrópunefndar á Alþingi.
    Helstu mál á dagskrá fundar þingmannanefndar EES voru þróun og framkvæmd EES- samningsins og mótun sameiginlegrar sjávar- og siglingamálastefnu ESB. Fulltrúar framkvæmdastjórnar ESB, EES-ráðsins og sameiginlegu EES-nefndarinnar ávörpuðu fundinn og fögnuðu því að tekist hefði samkomulag um stækkun EES með aðild Rúmeníu og Búlgaríu 29. mars en hörmuðu jafnframt að ekki varð af samhliða stækkun ESB og EES þegar ríkin tvö gengu í ESB um áramótin. Afleiðing tafarinnar var sú að fyrstu mánuði ársins gat sameiginlega EES-nefndin ekki tekið ákvarðanir um upptöku nýrra gerða í EES-samninginn og töf varð á þátttöku EFTA-ríkjanna í rannsóknaráætlunum ESB. Í tengslum við umræðuna um þróun EES-samningsins var ársskýrsla þingmannanefndar EES um EES-samninginn lögð fram. Skýrsluhöfundar voru Bjarni Benediktsson frá EFTA-hliðinni og Diana Wallis frá Evrópuþingshliðinni. Í framsögu sinni lagði Bjarni áherslu á að ef EES-samningurinn ætti að eiga sér framtíð þá yrðu samningsaðilar að taka hann alvarlega og samningurinn þyrfti að fá aukið vægi hjá framkvæmdastjórn ESB til þess að virkni hans yrði tryggð. Bjarni harmaði töfina á stækkun EES og vísaði til endurtekinna ályktana þingmannanefndar EFTA um mikilvægi þess að stækkanir ESB og EES færu fram samhliða. Samningaviðræður um stækkun EES hófust í júlí 2006 og ljóst væri að tíminn fram til áramóta var ekki notaður eins vel og vera skyldi. Töf á upptöku nýrra gerða í EES-samninginn og þátttöku EFTA-ríkja í rannsóknaráætlunum ESB væri skaðleg og benti Bjarni sérstaklega á að þrátt fyrir samkomulag um stækkun EES í lok mars hefðu engar ákvarðanir verið teknar um þátttöku í rannsóknaráætlunum fyrr en í byrjun júní. Óskaði hann skýringa á því hverju sú töf sætti eftir að stækkunarvandinn var úr sögunni.
    Á sameiginlegum fundi ráðherraráðs og þingmannanefndar EFTA var annars vegar fjallað um samstarf EFTA við þriðju ríki og hins vegar um framkvæmd EES-samningsins. Katrín Júlíusdóttir stjórnaði fundinum og flutti framsögu um EES-samninginn fyrir hönd þingmannanefndarinnar. Gerði hún grein fyrir umræðum þingmannanefndarinnar um töfina á aðild Búlgaríu og Rúmeníu að EES og skaðsemi hennar fyrir samningsaðila. Brýnt væri að EFTA og ESB legðust á eitt til þess að EES-samstarfið gengi snurðulaust fyrir sig enda verulegir hagsmunir í húfi fyrir báða aðila. Þá ræddi Katrín önnur mál sem ágreiningur var um í EES-samstarfinu eins og reglur ESB um frjálsa för fólks sem kveða á um varanlegt dvalarleyfi maka ESB-borgara frá þriðju ríkjum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Framkvæmdastjórn ESB og EFTA-ríkin hafa deilt um hvort taka skuli reglurnar upp í EES- samninginn. Nokkur umræða fylgdi og tók Bjarni Benediktsson m.a. til máls varðandi frjálsa för fólks á EES-svæðinu og enn fremur um bann ESB við notkun fiskmjöls til dýrafóðurs sem Íslandsdeild hefur ítrekað tekið upp í viðræðum við starfssystkin sín á Evrópuþinginu. Fagnaði Bjarni því sem fram kom í máli ráðherranna að málið væri nú tekið fyrir í þeirra hópi.
    Rita Kieber-Beck, utanríkisráðherra Liechtenstein, flutti framsögu um samstarfið við þriðju ríki og gerð fríverslunarsamninga EFTA. Auk þess að gera grein fyrir yfirstandandi fríverslunarviðræðum EFTA greindi Kieber-Beck frá því undirbúningsstarfi sem vonast er til að leiði til formlegra viðræðna við Indland, Indónesíu og Malasíu auk þess sem hún áréttaði gagnkvæman áhuga EFTA-ríkjanna og Rússlands og Úkraínu á fríverslun þegar síðarnefndu ríkin eru gengin í Alþjóðaviðskiptastofnunina. Katrín Júlíusdóttir svaraði fyrir hönd þingmannanefndarinnar og ítrekaði dyggan stuðning nefndarinnar við stefnu EFTA á þessu sviði. Það hefði lengi verið rætt innan þingmannanefndarinnar að beita sendinefndum og þingmannaheimsóknum til þess að kynna og afla stuðnings við gerð fríverslunarsamninga EFTA. Heimsókn EFTA-þingmanna í þessu skyni til Kanada í febrúar þótti heppnast vel og kvað Katrín nefndina tilbúna að beita slíkum heimsóknum til þess að kynna og afla stuðnings við gerð frekari fríverslunarsamninga. Þá greindi Katrín frá fyrirhuguðum fundi þingmannanefndar EFTA og utanríkisviðskiptanefndar Evrópuþingsins um alþjóðaviðskipti og fríverslun og hlutverk þingmanna í því sambandi.
    Í lok fundar ráðherraráðsins og þingmannanefndarinnar tók Árni Þór Sigurðsson til máls og greindi frá umræðum á fundi þingmannanefndar og ráðgjafanefndar EFTA um þá hugmynd að koma á sérstakri sveitarstjórnarnefnd innan EFTA. Markmið með stofnun slíkrar nefndar væri að EFTA-ríkin hafi aðgang að Héraðsnefnd ESB og aðkomu að undirbúningi laga og reglugerða Evrópusambandsins sem koma til framkvæmda á sveitarstjórnarstiginu á EES-svæðinu. Spurði Árni Þór ráðherrana hvort málið hefði verið rætt í þeirra hópi og hver afstaða þeirra væri til hugmyndarinnar. Kieber-Beck svaraði því til að málið væri til athugunar og Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra sagði mikilvægt að gera sveitarfélögunum kleift að starfa á þessum vettvangi.

62. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA, 87./55. fundur þingmannanefndar EFTA og fundur þingmannanefndar EFTA með utanríkisviðskiptanefnd Evrópuþingsins (INTA) í Brussel 8.–9. október 2007.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA sóttu fundina Katrín Júlíusdóttir, formaður, Bjarni Benediktsson, varaformaður, Árni Þór Sigurðsson, Ármann Kr. Ólafsson og Ólöf Nordal, auk Sigrúnar Brynju Einarsdóttur, starfandi ritara.
    Katrín Júlíusdóttir stýrði fundunum. Á fundi framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA var farið yfir dagskrár og umræðuefni funda og ráðstefna sem framundan voru hjá þingmannanefndinni. Farið var yfir drög að dagskrá fyrir fund þingmannanefndar EES í Evrópuþinginu í Strassborg 13.–15. nóvember og var Henrik Caduff tilnefndur sem framsögumaður skýrslu um opna samræmingaraðferð ESB og áhrif á EES. Einnig upplýsti skrifstofa EFTA að undirbúningur fyrir fundinn og tengda viðburði, svo sem fundi þingmanna EFTA-ríkjanna með flokkahópum í Evrópuþinginu, gengi vel. Þá var rætt um starf nefndarinnar á komandi missirum, m.a. fyrirhugaða ferð þingmannanefndarinnar til Indlands sem farin yrði í því augnamiði að styðja við bakið á umleitunum EFTA-ríkjanna um að efna til samningaviðræðna við Indverja um gerð fríverslunarsamnings. Þá var einnig rætt um starfsemi þingmannanefndarinnar, fjölda funda og efnislega vinnu nefndarinnar. Var ákveðið að á næsta fundi nefndarinnar yrði lagt fram vinnuskjal þar sem reifaðir yrðu möguleikar á að sameina fundi. Undir liðnum önnur mál vakti Katrín Júlíusdóttir máls á því að hugmyndir væru uppi innan EFTA-ráðsins um að sameina fund þingmannanefndarinnar með EFTA- ráðherrum fundi ráðgjafanefndar EFTA með EFTA-ráðherrunum. Væru hugmyndir þessar lagðar fram með það að markmiði að spara tíma. Katrín sagði að þingmannanefndin ætti tvo slíka fundi með ráðherrunum á hverju ári í tengslum við ráðherrafundi EFTA í júní og desember. Báðir þessir fundir væru afar mikilvægir. Katrín sagði hagsmuni þingmannanefndarinnar og ráðgjafanefndarinnar of ólíka til að vel færi á því að sameina nefndirnar á fundi með ráðherrunum. Mikilvægt væri fyrir þingmannanefndina að halda sínum fundum með EFTA- ráðherrunum. Þar sem engin formleg tillaga væri komin fram þyrfti ekki að taka afstöðu til hugmyndarinnar á þessu stigi en þó taldi Katrín rétt að vekja athygli á þessari umræðu og fá óformleg viðbrögð annarra í framkvæmdastjórninni við henni. Í umræðum um þetta mál sagðist fulltrúi Sviss styðja hugmyndir sem fram hefðu komið um sameiningu fundanna. Fulltrúar Liechtenstein og Noregs voru á öndverðum meiði og tóku undir með Katrínu og töldu að halda bæri í það fyrirkomulag sem ríkt hefði þótt eflaust mætti ræða útfærslu fundanna nánar. Voru fundarmenn sammála um að aðhafast ekkert frekar í málinu í ljósi þess að engin formleg tillaga lægi fyrir.
    Helstu dagskráratriði á fundi þingmannanefndar EFTA voru þróun og horfur varðandi umbótasáttmála ESB, þróun EES-samstarfsins, frjáls för og samskipti við þriðju ríki. Hans Martens, framkvæmdastjóri European Policy Centre, flutti framsögu um umbótasáttmálann og stækkun ESB. Hann kvað sáttmálann vera mjög nálægt því að vera stjórnarskrá eins og upphaflega var lagt upp með og sagði m.a. að besti tíminn fyrir ný ríki til að ganga í ESB væri áður en hann tæki gildi þar sem best væri að stökkva um borð í lest á hægri ferð. Hann kom einnig inn á málefni fjölskyldunnar og fólksfækkun í Evrópu og hélt því fram að aukin áhersla á fjölskyldustefnu Vestur-Evrópuríkja hefði ekki þau jákvæðu áhrif á fólksfjölgun sem að væri stefnt. Í umræðum um erindi Martens gerði Katrín Júlíusdóttir athugasemdir við skoðanir fyrirlesarans um fjölskyldustefnu og rakti dæmi af íslenska vinnumarkaðnum þar sem fyrir hendi væri sterkt velferðarkerfi, framsýnt fæðingarorlofskerfi og fjölskyldustefna sem hefði haft afar jákvæð áhrif á atvinnuþátttöku kvenna og barneignir sem væru tíðar á Íslandi.
    Bergdís Ellertsdóttir, Ásta Magnúsdóttir og Gunnar Selvik frá skrifstofu EFTA gerðu grein fyrir þróun mála undanfarið á Evrópska efnahagssvæðinu. Bergdís sagði helstu mál á döfinni vera orkumál, umhverfismál og loftslagsbreytingar og að nýverið hefði náðst góður árangur varðandi losun gróðurhúsalofttegunda. Ásta talaði m.a. um fiskmjölsmálið sem nýverið hefði náðst sátt í og nefndi einnig að verið væri að ganga frá reglum varðandi lyf annars vegar og vörur hins vegar. Gunnar talaði loks um þróun mála varðandi þjónustu og nefndi sérstaklega bílaleigur þar sem sú undanþága gilti að þær tækju eingöngu til langtímaleigu en ekki leigu til skemmri tíma. Eins minntist Gunnar á félagslega þjónustu og sagði jafnframt frá því að grannt væri fylgst með umræðunni innan ESB um „flexicurity“ á vinnumarkaði, en með því er átt við samþættingu sveigjanleika og öryggis gagnvart starfsmönnum og vinnuveitendum.
    Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra fastanefndar Íslands gagnvart ESB, hafði framsögu um tilskipun um frjálsa för sem EFTA-ríkin vildu fá aðlaganir á þar sem þau töldu að ákveðnir hlutar hennar varðandi rétt til dvalar og búsetu féllu utan gildissviðs EES-samningsins. Hann gerði grein fyrir því að miklar tafir hefðu orðið á málinu og að framkvæmdastjórnin hefði sýnt mikla þolinmæði. Nú væri líklegt að málið yrði leyst með sameiginlegri yfirlýsingu þar sem afstaða beggja samningsaðila yrði útskýrð. Stefán Haukur benti á að EES-samningurinn væri bæði flókinn og dýnamískur og að ágreiningsmál varðandi túlkun hans hlytu alltaf að koma upp við og við. Leiðin til að leysa þau væri einfaldlega sú að ríkin ættu virkar viðræður sín á milli. Nokkrar umræður urðu um erindi Stefáns Hauks og vék Katrín Júlíusdóttir að málefnum tilskipunarinnar um frjálsa för fólks og innti sendiherrann eftir því hvaða lærdóm við mættum draga af úrvinnslu þessa máls. Sagði Stefán Haukur EES-samninginn í eðli sínu sérstakan hvað milliríkjasamninga varðar og að aðilar EES þyrftu ætíð að hlúa að þróun samningsins. Í náinni framtíð mundu verða fleiri dæmi um mál sem falla að hluta undir EES-samninginn og að hluta utan hans. Í slíkum gerðum fælust ávallt vandamál og tíma tæki að leysa úr þeim málum milli EES/EFTA-ríkjanna.
    Loks ræddi Kåre Bryn, framkvæmdastjóri EFTA, um samskipti við þriðju ríki. Hann sagði að EFTA-ríkin hefðu horft mjög til Asíu undanfarin ár og að breyting þar á væri ekki fyrirsjáanleg. Á döfinni væri að hefja viðræður við Kólumbíu, Perú og Alsír, en einnig væru í deiglunni viðræður eða þreifingar við m.a. Taíland, Indland og Indónesíu. Það væri loksins búið að ganga frá samningi við Egyptaland og samningur við Kanada gæti hugsanlega verið undirritaður í desember. Varðandi efnisatriði fríverslunarsamninga sagði Bryn að ef áhersla hefði verið lögð á að hafa ákvæði um mannréttindi og vinnuréttindi í samningum við mörg ríki hefði ekki orðið af neinum samningum. Besta leiðin í þessum efnum væri að vísa til samþykkta Alþjóðavinnumálastofnunarinnar þar sem samningsaðilar gætu almennt fellt sig við það.
    Eftir að framsögum var lokið skýrði Katrín Júlíusdóttir nefndarmönnum frá helstu umræðum á fundi framkvæmdastjórnarinnar, þar á meðal helstu verkefnum nefndarinnar á næstu missirum. Var m.a. rætt um málþing um mótun sameiginlegrar sjávar- og siglingamálastefnu ESB sem fyrirhugað er að verði haldið vorið 2008, sem og næsta fund þingmannanefndar EES sem er fyrirhugaður á Íslandi í lok apríl 2008. Loks gerðu fulltrúar einstakra landsdeilda grein fyrir þróun mála á þjóðþingum ríkjanna. Bjarni Benediktsson greindi frá því að forsætisráðherra hefði nýverið haldið stefnuræðu sína og að gert væri ráð fyrir verulegum afgangi á ríkissjóði næstu árin. Hann skýrði einnig frá umræðum á Íslandi um einhliða upptöku evrunnar og sterka stöðu krónunnar. Loks ræddi hann stuttlega um öryggis- og varnarmál í ljósi brotthvarfs Bandaríkjahers af Keflavíkurflugvelli og minntist sérstaklega á flug Rússa í nágrenni við íslenska lofthelgi.
    Að loknum fundi þingmannanefndarinnar hélt nefndin til fundar við utanríkisviðskiptanefnd Evrópuþingsins (INTA). Var það í fyrsta sinn sem þingmannanefnd EFTA efnir til tvíhliða fundar með málefnanefnd í Evrópuþinginu. Katrín Júlíusdóttir stýrði fundinum ásamt Helmuth Markov, formanni INTA-nefndarinnar. Í inngangsorðum sínum vék Katrín að stöðu mála í Doha-samningalotu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og sagðist ekki sjá mörg sóknarfæri í þeirri stöðu sem upp væri komin. Sagði hún að EFTA-ríkin legðu mikla áherslu á jákvæða niðurstöðu í viðræðunum en að sama skapi hefði EFTA lagað sig að þeim veruleika sem við blasti og væri framsýnt í að stækka fríverslunarnet sitt sem þegar væri víðfeðmt. Sagði Katrín einnig að við gerð fríverslunarsamninga þyrfti að huga að mannréttindum, félagslegum réttindum, menningu og umhverfismálum og í slíkum umræðum væri rödd þingmanna afar mikilvæg. Umræðum á fundinum, sem voru afar líflegar, var skipt í tvo hluta, almennar spurningar og sértækar spurningar. Börge Brende frá Noregi og Cristofer Fjellner, þingmaður á Evrópuþinginu, höfðu framsögu í almenna hlutanum. Þeir ræddu m.a. um tvíhliða og marghliða fríverslunarsamninga, gerð samninganna og aðkomu þjóðþinganna. Börge Brende sagði mikilvægt að Evrópusambandið og EFTA-ríkin gætu borið saman bækur sínar í þessum málum og Cristofer Fjellner ítrekaði að EFTA-ríkin væru meðal mikilvægustu viðskiptaaðila Evrópusambandsins. Í umræðunum varpaði Katrín Júlíusdóttir fram tveimur spurningum. Annars vegar um áhrif umbótasáttmála ESB á störf Evrópuþingsins, og þá aðallega á aðkomu INTA-nefndarinnar að gerð fríverslunarsamninga sem unnir eru af framkvæmdastjórn ESB. Hins vegar spurði Katrín um álit nefndarmanna í INTA á hlutverki ákvæða um mannréttindi, félagsleg réttindi og umhverfisvernd í fríverslunarsamningum. Í ljósi þess að framkvæmdastjórnin fer með forræðið í gerð fríverslunarsamninga fyrir hönd ESB, með sértæku samningsumboði ESB-ráðsins, innti Árni Þór Sigurðsson eftir því hvort möguleiki væri fyrir einstök ESB-ríki að fara hraðar í gerð fríverslunarsamninga en annarra, líkt og dæmi væri um hjá EFTA. Karl Falkenberg, frá utanríkisviðskiptasviði framkvæmdastjórnar ESB, og Kåre Bryn, framkvæmdastjóri EFTA, höfðu framsögu í sértæka hlutanum. Þeir ræddu m.a. um samningaferli við Kóreu, Indland, Kína og Chile, val þeirra málefna sem áhersla væri lögð á í viðræðum og nálgunina með tilliti til mannréttinda og félagslegra réttinda, auk umhverfissjónarmiða. Karl Falkenberg sagði enga möguleika á því að ESB gæti komið á fríverslunarviðskiptum við Kína sem stæði og staða mála gagnvart Kína væri önnur en t.d. gagnvart Indlandi og Kóreu. Í lok fundarins var ákveðið að halda skoðanaskiptum áfram á þessum vettvangi og stakk Katrín Júlíusdóttir upp á að það yrði næst gert á vettvangi EFTA-ríkjanna.

29. fundur þingmannanefndar EES í Strassborg 14.–15. nóvember 2007.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA sóttu fundinn Katrín Júlíusdóttir, formaður, Bjarni Benediktsson, Árni Þór Sigurðsson og Arnbjörg Sveinsdóttir, auk Stígs Stefánssonar, ritara.
    Helstu mál á dagskrá voru þróun og framkvæmd EES-samningsins, mótun sameiginlegrar sjávar- og siglingamálastefnu ESB, skýrsla um orkumál og loftslagsbreytingar, og vinnuskjal um framtíðarhorfur EES-samstarfsins.
    Fulltrúar framkvæmdastjórnar ESB, sameiginlegu EES-nefndarinnar og Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) ávörpuðu fundinn og ræddu þróun og framkvæmd EES-samningsins. Í máli Stefáns Hauks Jóhannessonar, sendiherra og fulltrúa sameiginlegu EES-nefndarinnar, og Lars Olof Hollner, fulltrúa framkvæmdastjórnar ESB, kom fram að EES-samstarfið gengi vel eftir að Búlgaríu og Rúmeníu fengu aðild að EES-samningnum 1. ágúst. Vel hefði gengið að innleiða þær ESB-tilskipanir í EES-samninginn sem setið höfðu á hakanum fyrstu fimm mánuði ársins á meðan beðið var eftir að samkomulag næðist um stækkunina. Enn fremur gengi vel að vinna upp þá töf sem varð af sömu sökum á þátttöku EFTA-ríkjanna í áætlunum ESB. Þá lýstu þeir yfir bjartsýni um að niðurstaða væri á næsta leiti varðandi innleiðingu tilskipunar ESB um frjálsa för fólks, sem kveður á um að makar ESB-borgara frá ríkjum utan sambandsins geti hlotið varanlegt dvalarleyfi á EES-svæðinu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Framkvæmdastjórn ESB og EFTA-ríkin hafa lengi deilt um hvort taka skuli tilskipunina upp í EES-samninginn.
    Framtíðarstefna ESB í málefnum sjávar og siglinga var næst til umræðu. Joe Borg, sem fer með sjávarútvegsmál í framkvæmdastjórn ESB, var sérstakur gestur fundarins. Katrín Júlíusdóttir minnti á að bæði Ísland og Noregur hefðu sent ítarleg innlegg fyrir vinnslu grænbókar um sjávar- og siglingamálastefnuna sem kom út í júlí 2007 og að þingmannanefnd EES hefði gert skýrslu og samþykkt ályktun um þessi mál á síðasta fundi sínum. Borg sagði framlög Íslands og Noregs mikilvæg í þessu sambandi enda byggðu þessi lönd við hvað sterkasta hefð fyrir siglingum og sjávarútvegi af öllum ríkjum Evrópu. Borg tiltók sérstaklega áherslur Íslands og Noregs á að gæta þyrfti að siglingum á norðurslóðum þar sem loftslagsbreytingar eru hraðar og vistkerfi viðkvæm. Í kjölfar grænbókarinnar mun samráðsferli um sameiginlega stefnu standa yfir til júní 2008. Borg sagðist hafa boðið bæði Íslandi og Noregi að tilnefna fulltrúa í vinnuhóp um mótun stefnunnar og að Noregur hefði þekkst það boð. Árni Þór Sigurðsson tók til máls og sagði viðkvæm höf á norðurslóðum sérlega mikilvæg fyrir Norðmenn og Íslendinga, m.a. með tilliti til mengunarhættu og fiskstofna. Mikil aukning skipaumferðar, sem fyrirsjáanleg er ef nýjar siglingaleiðir opnast yfir norðurskautið, kallar á sameiginlegt átak til að verja svæðið. Þá spurði Árni Þór út í hugmyndir um sameiginlega landhelgisgæslu ESB sem Borg sagði vera út af borðinu vegna dræmra undirtekta aðildarríkjanna.
    Orkumál og loftslagsbreytingar voru þá á dagskrá og lögðu Evrópuþingmaðurinn Paul Rübig og norski þingmaðurinn Svein Roald Hansen fram skýrslu og drög að ályktun um þau mál. Hansen sagði tvær helstu áskoranir í orku- og loftslagsmálum felast í því að aukna orku þyrfti til að ná þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um þróun en á sama tíma þyrfti að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Leita þyrfti allra leiða til þess að auka skilvirkni orkunotkunar og mikilvægt væri að reglur gegn ríkisstyrkjum sem trufli samkeppni standi ekki í vegi fyrir því að ríkisstjórnir geti varið styrkjum til rannsókna á þessu sviði. Árni Þór Sigurðsson lagði til orðalagsbreytingu á drögum að ályktun þannig að loftslagsbreytingar væru nefndar fyrst og orkumál svo til að undirstrika að þetta alvarlegasta úrlausnarefni heimsins í umhverfismálum væri í forgrunni. Þá ræddi Árni Þór kerfi ESB um viðskipti með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda og lagði áherslu á að gæta þyrfti að því að slíkt kerfi verndaði ekki hagsmuni ríkari landa á kostnað þróunarríkjanna. Bjarni Benediktsson lagði fram breytingartillögu við grein ályktunarinnar sem laut að flugsamgöngum sem framkvæmdastjórn ESB leggur til að verði felldar inn í viðskiptakerfið. Flugsamgöngur yrðu þar með háðar losunarkvótum í framtíðinni. Í breytingartillögu Bjarna var kveðið sterkt að orði um að yrði slíkt raunin bæri að taka sérstakt tillit til jaðarsvæða sem vegna legu sinnar væru sérlega háð flugsamgöngum og var Íslands sérstaklega getið í því sambandi. Breytingartillögur Bjarna og Árna Þórs voru samþykktar.
    Lengst umræða á fundinum varð um vinnuskjal Katrínar Júlíusdóttur og Evrópuþingmannsins Diana Wallis um framtíðarhorfur EES-samstarfsins. Katrín flutti framsögu og rakti þær umfangsmiklu breytingar sem orðið hafa á Evrópusambandinu, stofnanauppbyggingu þess og starfsemi, síðan EES-samningurinn var gerður fyrir tæpum 15 árum. Á meðal stórra breytinga má nefna þrjár stækkanir ESB með fjölgun aðildarríkja úr 12 í 27, sameiginlegt myntsvæði, aukna samvinnu á sviði öryggismála, nokkrar veigamiklar breytingar á sáttmálum sambandsins og breytt valdajafnvægi á milli Evrópuþingsins, framkvæmdastjórnarinnar og ráðherraráðsins. Katrín sagði þessar breytingar hafa haft neikvæð áhrif á framkvæmd EES- samningsins. Í fyrsta lagi hefðu þær leitt til þess að í sífellt fleiri málaflokkum væri erfitt að skilja á milli annars vegar innri markaðarins, þar sem EFTA-ríkin eru fullir þátttakendur, og hins vegar annarra sviða sem standa utan við hefðbundna skilgreiningu innri markaðarins og þar með utan EES-samstarfsins. Óljós skil milli innri markaðar og annarra sviða í tilskipunum ESB hafa þau áhrif að erfiðara er að skilgreina hvaða tilskipanir á að taka upp í EES- samninginn og þar með innleiða í EFTA-ríkjunum. Þetta kynni að hafa áhrif á framtíðarrekstur EES verði ekkert að gert. Í öðru lagi hafa breytingar á innra skipulagi ESB haft í för með sér að áhrif Íslands og annarra EFTA-ríkja á lagasetningu sambandsins, sem síðar er tekin upp í EES-samninginn, hafa minnkað. Samkvæmt EES-samningnum hafa EFTA-ríkin aðgang að vinnuhópum framkvæmdastjórnar ESB sem vinna drög að tilskipunum sambandsins. Nú hefur hins vegar orðið sú breyting að áhrif ráðherraráðsins og ekki síður Evrópuþingsins hafa aukist verulega á kostnað framkvæmdastjórnarinnar. Drög að tilskipunum taka oft miklum breytingum frá því þau fara frá framkvæmdastjórninni og þar til þau eru endanlega samþykkt af ráðherraráði og Evrópuþinginu án þess að EFTA-ríkin eigi þar formlega aðkomu og áhrif.
    Svein Roald Hansen, Bjarni Benediktsson og Árni Þór Sigurðsson töldu allir skýrsluna gefa gott yfirlit yfir þróunina frá því að EES-samningurinn gekk í gildi og Hansen hvatti til þess að henni yrði dreift í þjóðþingunum því að hún væri góður umræðugrundvöllur. Norðmenn stefndu að því að nýta þau tækifæri til áhrifa sem felast í EES-samningnum betur og væru að vinna í því. Bjarni undirstrikaði að EES-samningurinn hefði reynst samningsaðilum mjög hagkvæmur og virkaði enn vel. Þrátt fyrir miklar breytingar á ESB væri hann bjartsýnn á að sveigjanleiki EES-samningsins og vilji samningsaðila til að halda honum gangandi mundi gera þeim kleift að leysa þau vandamál sem upp kynnu að koma. Þá benti Bjarni á að vandi EFTA-ríkjanna væri minni háttar miðað við þau djúpstæðu vandamál sem ESB hefði staðið frammi fyrir, t.d. í stjórnarskrármálinu. Árni Þór sagðist einnig bjartsýnn á horfur EES-samningsins og sagði að vinnuskjalið gæti orðið gott innlegg í fyrirhugaða umræðu um Evrópumál á Alþingi sem ráðgerð væri í janúar 2008. Þá var nokkuð rætt um mögulega uppfærslu eða endurskoðun á EES-samningnum.
    Í fundarlok ákvað nefndin að ræða framtíðarhorfur EES betur á næsta fundi sínum í Reykjavík í apríl 2008 og vinna þar þríþætt tilmæli. Í fyrsta lagi til þjóðþinga EFTA-ríkjanna þar sem þau verða beðin að gera grein fyrir tilhögun EES-vinnu í þingunum í ljósi breytinga á ESB. Í öðru lagi beiðni til Evrópuþingsins um greinargerð um hvort styrkari staða þjóðþinga ESB, sem kveðið er á um í umbótasáttmála sambandsins, geti einnig tekið til þjóðþinga EFTA-ríkjanna í málum sem varða innri markaðinn og þar með EES-samstarfið. Í þriðja lagi verða stjórnvöld EFTA-ríkjanna og framkvæmdastjórn ESB spurð um möguleika á endurskoðun EES-samningsins. Þegar svör liggja fyrir frá þessum aðilum fyrir fund þingmannanefndar EES næsta haust verður skýrslan fullunnin.

63. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA, 88./56. fundur þingmannanefndar EFTA og 37. sameiginlegi fundur þingmannanefndar og ráðherra EFTA í Genf 3. desember 2007.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA sóttu fundina Katrín Júlíusdóttir, formaður, Bjarni Benediktsson, Illugi Gunnarsson, Þuríður Backman og Ólöf Nordal, auk Stígs Stefánssonar, ritara.
    Á fundi framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA lagði Katrín Júlíusdóttir fram vinnuskjal um starf þingmannanefndarinnar þar sem ýmsum hugmyndum var hreyft til að efla starf hennar, m.a. að nefndin semji skýrslur og sendi frá sér ályktanir á almennum fundum sínum en það gerir nefndin annars einungis þegar hún sameinast sendinefnd Evrópuþingmanna og myndar sameiginlega þingmannanefnd EES. Enn fremur var lagt til að þingmannanefnd EFTA nýtti betur tækifæri til að setja mál á dagskrá á tveimur árlegum fundum með ráðherrum EFTA án þess þó að það kæmi niður á því frjálsa flæði skoðanaskipta sem einkenna fundina. Einnig var kveðið á um að fækka fundum framkvæmdastjórnar þingmannanefndarinnar í tvo á ári. Framkvæmdastjórnin tók vel í tillögurnar og ákvað að starfa eftir þeim. Þá samþykkti framkvæmdastjórnin nefndarálit um fjárhagsáætlun Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA var fundur með ráðherrum EFTA undirbúinn. Í því skyni gáfu Didier Chambovey og Bergdís Ellertsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjórar EFTA, munnlegar skýrslur um samstarf EFTA við þriðju ríki og þróun EES-samstarfsins. Þá var farið yfir starfsáætlun næsta árs og starfshætti þingmannanefndarinnar eins og rætt var á fundi framkvæmdastjórnarinnar.
    Á sameiginlegum fundi þingmannanefndarinnar og ráðherra EFTA var annars vegar fjallað um þróun EES og hins vegar þróun í samstarfi EFTA við þriðju ríki og gerð fríverslunarsamninga, en þetta eru fastir dagskrárliðir á fundum þingmanna og ráðherra EFTA. Dag Terje Andersen, viðskipta- og iðnaðarráðherra Noregs, flutti framsögu um samskipti við þriðju ríki. Í máli hans kom fram að mikilvægt væri fyrir EFTA-ríkin að halda áfram að byggja upp net fríverslunarsamninga til þess að tryggja fyrirtækjum sínum samkeppnishæf skilyrði og aðgang að mörkuðum. Andersen sagði niðurstöðu hagkvæmnisathugunar EFTA- ríkjanna og Indlands um gerð fríverslunarsamnings lofa góðu og vonaðist til að hægt yrði að hefja formlegar viðræður á árinu 2008. Þá væri stefnt að undirritun fríverslunarsamnings við Kanada í byrjun árs 2008. Yfirstandandi viðræður við Kólumbíu, Perú, Alsír og Flóabandalagið, samtök sex ríkja við Persaflóa, gengju vel og áformað væri að setjast að samningaborðinu með Albaníu og Serbíu. Enn fremur væri stefnt að því að hefja viðræður við Rússland og Úkraínu um leið og ríkin gerast aðilar að Alþjóðaviðskiptastofnuninni en undirrita ætti samkomulag við Rússa um hagkvæmnisathugun á fríverslunarsamningi. Katrín Júlíusdóttir svaraði framsögu Andersens og minnti á velheppnaða ferð EFTA-þingmanna til Kanada í febrúar til að þrýsta á um niðurstöðu í fríverslunarviðræðum. Hún ítrekaði þann ásetning þingmannanefndarinnar að styðja við gerð fríverslunarsamninga með viðræðum við þingnefndir sem fara með utanríkisverslun í þeim ríkjum sem EFTA á í viðræðum við. Til stæði að sendinefnd EFTA-þingmanna færi til Nýju-Delí í þeim erindagjörðum. Þá greindi Katrín frá fundi þingmannanefndar EFTA og utanríkisviðskiptanefndar Evrópuþingsins um fríverslunarmál sem haldin var í október auk áforma þingmannanefndar EFTA um þátttöku í þingmannastarfi á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.
    Katrín Júlíusdóttir flutti framsögu um þróun EES-samstarfsins og kynnti vinnuskjal um framtíðarhorfur þess sem hún og Evrópuþingmaðurinn Diana Wallis lögðu fram á fundi þingmannanefndar EES í Strassborg 15. nóvember. Þar kemur fram að breytingar á stofnanauppbyggingu og starfsemi Evrópusambandsins á síðustu 15 árum hafi haft neikvæð áhrif á framkvæmd EES-samningsins. Í sífellt fleiri málaflokkum væri erfitt að skilja á milli annars vegar innri markaðarins, þar sem EFTA-ríkin eru fullir þátttakendur, og hins vegar annarra sviða sem standa utan EES-samstarfsins. Óljós skil milli innri markaðar og annarra sviða í tilskipunum ESB hafa þau áhrif að erfiðara er að skilgreina hvaða tilskipanir á að taka upp í EES-samninginn og þar með innleiða í EFTA-ríkjunum. Þetta hefði gerst þrátt fyrir sveigjanleika EES-samningsins og væri áhyggjuefni. Dæmi um þetta væri tilskipun ESB um frjálsa för fólks, sem kveður á um að makar ESB-borgara frá ríkjum utan sambandsins geti hlotið varanlegt dvalarleyfi á EES-svæðinu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Framkvæmdastjórn ESB og EFTA-ríkin hafa lengi deilt um hvort taka skuli tilskipunina upp í EES-samninginn og spurði Katrín hver staða málsins væri. Þá greindi Katrín frá skýrslu og ályktun þingmannanefndar EES um orku- og loftslagsmál. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra svaraði fyrir hönd ráðherra EFTA og sagði vinnuskjalið mikilvægt framlag til vinnu ráðherranna við að bregðast við breytingum hjá ESB. Endurskoðun EES-samningsins væri þó ekki á dagskrá enda væri hvorki á því áhugi hjá EFTA né ESB. Þá væri búist við að niðurstaða næðist um að taka tilskipunina um frjálsa för upp í EES-samninginn í desember.
    Illugi Gunnarsson greindi frá því að áform væru uppi um að styrkja vinnu við Evrópumál á Alþingi en fréttir höfðu borist af því að norska Stórþingið hefði gert breytingar á þingsköpum sínum til þess að efla eftirlitshlutverk þingnefnda með Evrópumálum og innleiðingu EES-gerða. Í framhaldi af því beindi Illugi fyrirspurn til Dag Terje Andersens um það hvað liði innleiðingu þjónustutilskipunar ESB í Noregi. Andersen svaraði því til að nákvæm tímaáætlun lægi ekki fyrir og að norsku ráðuneytin og lögfræðilegir ráðunautar væru að fara yfir tilskipunina. Bjarni Benediktsson gerði kerfi ESB um viðskipti með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda að umtalsefni en til stendur að EFTA-ríkin gerist aðilar að kerfinu frá 1. janúar 2008. Bjarni sagði að ekki væri ljóst hvernig kerfið mundi þróast og að það væri Íslendingum sérstakt áhyggjuefni ef það yrði útvíkkað til að ná yfir flugsamgöngur og siglingar. Vegna legu sinnar væri Ísland sérlega háð flugsamgöngum og sjávarútvegur skipaði stærri sess í efnahagslífinu en í nokkru öðru Evrópuríki. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir svaraði því til að EFTA mundi tala fyrir sérstöðu Íslands og að í umfjöllun Evrópuþingsins um viðskiptakerfið hefði komið fram vilji til að taka tillit til sérstakra aðstæðna ríkja eins og Íslands. Katrín Júlíusdóttir spurðist fyrir um hvort möguleiki á stofnun sérstakrar sveitarstjórnarnefndar innan EFTA hefði verið ræddur frekar í ráðherrahópnum. Markmið með hugmynd um stofnun slíkrar nefndar er að EFTA-ríkin hafi aðgang að héraðsnefnd ESB og þar með aðkomu að undirbúningi laga og reglugerða Evrópusambandsins sem koma til framkvæmda á sveitarstjórnarstiginu á EES-svæðinu. Andersen svaraði því til að málið hefði verið rætt en að niðurstaða lægi ekki fyrir.

6.    Ályktanir þingmannanefndar EES árið 2007.
          Ályktun um ársskýrslu um framkvæmd EES-samningsins árið 2006, samþykkt í Vaduz 27. júní 2007.
          Ályktun um mótun framtíðarstefnu ESB á sviði sjávar- og siglingamála og áhrif hennar á EES, samþykkt í Vaduz 27. júní 2007.
          Ályktun um opna samræmingaraðferð ESB og áhrif á EES, samþykkt í Strassborg 15. nóvember 2007.
          Ályktun um orkumál og loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á EES, samþykkt í Strassborg 15. nóvember 2007.

Alþingi, 22. febr. 2008.



Katrín Júlíusdóttir,


form.


Bjarni Benediktsson,


varaform.


Árni Þór Sigurðsson.



Arnbjörg Sveinsdóttir.


Illugi Gunnarsson.