Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 449. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 712  —  449. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar NATO-þingsins fyrir árið 2007.

1.    Inngangur.
    Íslandsdeild NATO-þingsins var mjög virk á starfsárinu 2007. Viðamesta verkefni deildarinnar var ársfundur NATO-þingsins sem fram fór í Laugardalshöll 5.–9. október 2007 en þar var Íslandsdeildin í hlutverki gestgjafa. Þetta var í fyrsta sinn sem ársfundur NATO-þingsins fer fram hér á landi og jafnframt stærsti fundur alþjóðlegra þingmannasamtaka sem Alþingi hefur haldið. Alls sóttu um 700 þátttakendur frá 48 ríkjum ársfundinn, þar af um 350 þingmenn NATO-ríkjanna og samstarfsríkja bandalagsins auk tignargesta eins og Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóra NATO, og Sali Berisha, forsætisráðherra Albaníu. Ákvörðun um að bjóða Reykjavík fram sem fundarstað var tekin árið 2003 en undirbúningur hófst af fullum þunga að loknum fundi stjórnarnefndar NATO-þingsins í Reykjavík í mars 2005. Íslandsdeild NATO-þingsins og skrifstofa Alþingis höfðu veg og vanda af skipulagningu ársfundarins í samstarfi við skrifstofu NATO-þingsins og fjölmarga aðra samstarfsaðila. Skemmst er frá því að segja að ársfundurinn heppnaðist í alla staði mjög vel.
    Á ársfundinum og á öðrum fundum NATO-þingsins tók Íslandsdeildin öryggismál á norðanverðu Atlantshafi og norðurskautssvæðinu upp með kröftugum hætti. Vægi norðurslóða og norðurskautssvæðisins í öryggismálum hefur aukist vegna ríkra náttúruauðlinda og möguleika á nýjum siglingaleiðum. Loftslagsbreytingar og bráðnun íss við norðurskautið hafa í för með sér að miklar olíu- og gaslindir svæðisins eru að verða aðgengilegar og mikilvægi þeirra mun einungis vaxa með aukinni áherslu á orkuöryggi. Þá er útlit fyrir að nýjar siglingaleiðir muni opnast sem stytta leiðina milli Evrópu og Asíu um þúsundir kílómetra. Íslandsdeildin hefur bent á að aukin umsvif við auðlindanýtingu og siglingar kalli á aukna öryggissamvinnu NATO-ríkja á þessu svæði, m.a. til að fylla upp í tómarúmið eftir brotthvarf varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli.
    Starfsemi NATO-þingsins árið 2007 einkenndist öðru fremur af umræðu um breytingar á hlutverki NATO sem gengur í gegnum róttækt umbreytingaskeið nú, ekki síður en við lok kalda stríðsins. Aðgerðum utan hefðbundins athafnasvæðis NATO hefur fjölgað stórlega og ná yfir fleiri heimsálfur. Mikil eftirspurn er eftir aðstoð NATO enda er það svo að fæst önnur svæðisbundin samtök hafa bolmagn til að taka að sér stór friðargæslu- eða uppbyggingarverkefni. Bandalagið hefur aðlagað sig breyttu öryggisumhverfi og byggt upp sveigjanlega hernaðargetu til að bregðast hratt við nýjum og óhefðbundnum ógnum.
    Umfangsmesta verkefni NATO er í Afganistan og er það um leið tákngervingur hinna miklu breytinga hjá bandalaginu. Alþjóðlegu öryggissveitirnar í Afganistan (ISAF) hafa starfað undir stjórn NATO frá því í ágúst 2003. Sveitir NATO taka nú til alls landsins og í þeim eru 43.000 menn frá 26 NATO-ríkjum og 14 samstarfsríkjum. Aðgerðin í Afganistan er fyrsta aðgerð NATO utan Evrópu og sú langfjölmennasta í sögu bandalagsins. Afganistan var því eins og síðustu ár mjög í brennidepli á vettvangi NATO-þingsins árið 2007. Lögðu þingmenn áherslu á að aðgerðin í Afganistan væri prófsteinn á getu bandalagsins til þess að takast á við nýjar ógnir og nýtt öryggisumhverfi og að tryggja þyrfti árangur hennar.
2.    Almennt um NATO-þingið.
    NATO-þingið er þingmannasamtök sem hafa allt frá árinu 1954 verið vettvangur þingmanna aðildarríkja NATO til að ræða öryggis- og varnarmál. Fram til ársins 1999 bar þingið heitið Norður-Atlantshafsþingið, en heitir síðan NATO-þingið. Á síðustu árum hefur aðildar- og aukaaðildarríkjum NATO-þingsins fjölgað ört og hefur starfssvið þess verið víkkað til móts við þær breytingar sem orðið hafa í ríkjum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum og í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu. Tólf lýðræðisríki úr hópi fyrrverandi kommúnistaríkja hafa nú aukaaðild að þinginu (auk hlutlausu Evrópuríkjanna fjögurra Austurríkis, Sviss, Svíþjóðar og Finnlands) sem þýðir að þau geta tekið þátt í störfum og umræðum á þinginu. Störf þingsins beinast í auknum mæli að öryggismálum Evrópu í heild, efnahagslegum og pólitískum vandamálum í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu og hinu hnattræna öryggiskerfi. Með Rose Roth-áætluninni styður þingið nú einnig við þróun þingbundins lýðræðis í ríkjum álfunnar og nálægum ríkjum.

Hlutverk og starfssvið þingsins.
    Í Atlantshafssáttmálanum 1949 var ekki gert ráð fyrir þinglegri ráðgjafarsamkundu en með tímanum óx þeirri skoðun fylgi að nauðsyn væri á skipulegu samstarfi þjóðþinga í tengslum við og til stuðnings NATO. Þingið hefur ekki formlega stöðu innan bandalagsins en smám saman hefur komist á náin og virk samvinna stofnananna. Meginhlutverk þingsins er að efla samstöðu og samráð þjóðþinga á sviði öryggis- og varnarmála. Þingið kemur saman tvisvar á ári, til vorfundar og ársfundar að hausti.
    Starfsemi þingsins fer að mestu fram í fimm málefnanefndum: stjórnmálanefnd, varnar- og öryggismálanefnd, efnahagsnefnd, vísinda- og tækninefnd og nefnd um borgaralegt öryggi. Auk þess fer mikið starf fram á vegum Miðjarðarhafshópsins sem þó hefur ekki stöðu formlegrar málefnanefndar. Þessar nefndir eru meginvettvangur umræðna, þær fjalla um samtímamál er koma upp á starfssviði þeirra og vinna um þær skýrslur. Nefndarálit eru oftast sett fram í formi tilmæla, yfirlýsinga eða ályktana sem nefndin samþykkir og þingið greiðir síðan atkvæði um. Tilmælum er beint til Norður-Atlantshafsráðsins, sem fer með æðsta ákvarðanavald innan NATO, og í þeim er hvatt til tiltekinna aðgerða. Ályktunum þingsins er hins vegar beint til ríkisstjórna aðildarríkjanna.
    Þótt þingið sé óháð NATO hafa samskipti þingsins við bandalagið smám saman tekið á sig fastara form. Á meðal formlegra samskipta má í fyrsta lagi nefna formleg svör við tilmælum þingsins af hálfu framkvæmdastjóra bandalagsins fyrir hönd Norður-Atlantshafsráðsins. Í öðru lagi flytur framkvæmdastjóri bandalagsins ávarp á vorfundum og ársfundum NATO- þingsins og svarar fyrirspurnum þingmanna. Í þriðja lagi koma stjórnarnefnd NATO-þingsins og Norður-Atlantshafsráðið árlega saman til fundar í höfuðstöðvum NATO í Brussel. Að lokum skal nefndur sameiginlegur fundur þriggja nefnda NATO-þingsins í Brussel í febrúarmánuði ár hvert til að greiða fyrir samskiptum við starfsmenn og embættismenn NATO, SHAPE (Supreme Headquarters Allied Powers in Europe – æðstu bækistöðvar bandamanna í Evrópu) og Evrópusambandsins.

Fulltrúar á NATO-þinginu og forustumenn þess.
    Á NATO-þinginu eiga sæti 248 þingmenn frá aðildarríkjunum 26. Fjöldi fulltrúa frá hverju landi ræðst að mestu af fólksfjölda. Stærsta sendinefndin er sú bandaríska með 36 þingmenn en Ísland er í hópi þeirra smæstu með þrjá þingmenn. Auk fulltrúanna má hvert þjóðþing tilnefna jafnmarga varamenn sem mega taka þátt í störfum þingsins en hafa ekki atkvæðisrétt. Ráðherrar í ríkisstjórnum mega ekki vera fulltrúar á NATO-þinginu. Alls eiga 72 þingmenn frá 16 aukaaðildarríkjum sæti á NATO-þinginu og taka þeir þátt í nefndarfundum, utan funda stjórnarnefndar, og þingfundum en hafa ekki atkvæðisrétt. Þeir hafa þó rétt til þess að leggja fram breytingartillögur.
    Forustumenn þingsins eru sjö og eru sex þeirra, forseti og fimm varaforsetar, kjörnir ár hvert af fulltrúum á þingfundi. Sjöundi embættismaðurinn er gjaldkerinn en hann kýs stjórnarnefndin annað hvert ár. NATO-þinginu er stjórnað af stjórnarnefnd. Í henni eiga sæti forseti, varaforsetar, gjaldkeri og nefndarformenn auk formanna allra landsdeilda aðildarríkja NATO.

3.    Íslandsdeild NATO-þingsins.
    Í upphafi árs 2007 skipuðu Íslandsdeild NATO-þingsins Össur Skarphéðinsson, formaður, þingflokki Samfylkingarinnar, Einar Oddur Kristjánsson, varaformaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Dagný Jónsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn voru Ágúst Ólafur Ágústsson, þingflokki Samfylkingarinnar, Kjartan Ólafsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Sæunn Stefánsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks.
    Í kjölfar alþingiskosninga var ný Íslandsdeild kjörin 31. maí í upphafi 134. þings. Samkvæmt breytingum á þingsköpum gildir sú kosning deildarinnar fyrir allt kjörtímabilið. Íslandsdeildina skipa Ragnheiður E. Árnadóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ásta R. Jóhannesdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, og Magnús Stefánsson, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn eru Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ágúst Ólafur Ágústsson, þingflokki Samfylkingarinnar, og Kristinn H. Gunnarsson, þingflokki Frjálslynda flokksins. Á fundi Íslandsdeildar hinn 4. júní var Ragnheiður E. Árnadóttir kosin formaður og Ásta R. Jóhannesdóttir varaformaður. Ritari Íslandsdeildar var Stígur Stefánsson, deildarstjóri alþjóðadeildar.
    Skipting Íslandsdeildar í nefndir árið 2007 var þannig:
Stjórnarnefnd: Össur Skarphéðinsson og Ragnheiður E. Árnadóttir frá 4. júní.
    Til vara: Einar Oddur Kristjánsson og Magnús Stefánsson frá 4. júní.
Stjórnmálanefnd: Einar Oddur Kristjánsson og Ragnheiður E. Árnadóttir frá 4. júní.
    Til vara: Kjartan Ólafsson og Arnbjörg Sveinsdóttir frá 4. júní.
Varnar- og öryggismálanefnd: Dagný Jónsdóttir og Ragnheiður E. Árnadóttir frá 4. júní.
    Til vara: Sæunn Stefánsdóttir og Arnbjörg Sveinsdóttir frá 4. júní.
Nefnd um borgaralegt öryggi: Össur Skarphéðinsson og Ásta R. Jóhannesdóttir frá 4. júní.
    Til vara: Ágúst Ólafur Ágústsson.
Efnahagsnefnd: Dagný Jónsdóttir og Magnús Stefánsson frá 4. júní.
    Til vara: Sæunn Stefánsdóttir og Kristinn H. Gunnarsson frá 4. júní.
Vísinda- og tækninefnd: Össur Skarphéðinsson og Magnús Stefánsson frá 4. júní.
    Til vara: Ágúst Ólafur Ágústsson og Kristinn H. Gunnarsson frá 4. júní.
Miðjarðarhafshópur: Einar Oddur Kristjánsson og Ásta R. Jóhannesdóttir frá 4. júní.

4.    Ársfundur NATO-þingsins í Reykjavík.
    Ársfundur NATO-þingsins fór fram í Laugardalshöll 5.–9. október 2007. Eins og fyrr sagði var þetta í fyrsta sinn sem ársfundurinn fer fram hér á landi og hann er jafnframt stærsti fundur alþjóðlegra þingmannasamtaka sem Alþingi hefur ráðist í að halda. Alls sóttu um 700 þátttakendur frá 48 ríkjum ársfundinn, þar af um 350 þingmenn NATO-ríkjanna og samstarfsríkja bandalagsins, auk tignargesta eins og Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóra NATO, og Sali Berisha, forsætisráðherra Albaníu. Af hálfu Alþingis sóttu ársfundinn Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, og Íslandsdeild NATO-þingsins skipuð Ragnheiði E. Árnadóttur, formanni, Ástu R. Jóhannesdóttur, varaformanni, og Magnúsi Stefánssyni, auk þingmanna úr utanríkismálanefnd sem höfðu áheyrnaraðild. Af hálfu ríkisstjórnar sóttu ársfundinn Geir H. Haarde forsætisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra, Björn Bjarnason dómsmálaráðherra og Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra.
    Íslandsdeild NATO-þingsins og skrifstofa Alþingis höfðu veg og vanda af skipulagningu ársfundarins í samstarfi við skrifstofu NATO-þingsins og fjölmarga aðra samstarfsaðila. Ákvörðun um að bjóða Reykjavík fram sem fundarstað var tekin árið 2003 en undirbúningur hófst af fullum þunga að loknum fundi stjórnarnefndar NATO-þingsins í Reykjavík í mars 2005. Verkaskipting milli Alþingis og skrifstofu NATO-þingsins við skipulagningu ársfundarins var í grófum dráttum sú að Alþingi sá um allan ytri ramma fundarins og yfirbragð, fundaraðstöðu, öryggisráðstafanir, túlkakerfi, tæknimál, skrifstofuaðstöðu, prentun, skoðunarferðir og fólksflutninga. Jafnframt sinnti starfsfólk Alþingis flestum þeim almennu störfum sem sinna þurfti í Laugardalshöll meðan á fundinum stóð. Skrifstofa NATO-þingsins sá um framkvæmd og stjórnun allra funda, jafnt nefndarfunda sem þingfundar, útgáfu þingskjala og almennt skrifstofuhald ársfundarins. Í aðdraganda ársfundarins stóð Íslandsdeildin fyrir öflugu kynningarstarfi með fréttamannafundum, viðtölum og greinaskrifum í dagblöð. Ársfundurinn vakti verulega athygli og hlaut mikla umfjöllun í fjölmiðlum.
    Ársfundir NATO-þingsins hefjast jafnan á fundum málefnanefnda þingsins. Á þeim fjalla nefndirnar annars vegar um skýrslur sínar og afgreiða drög að ályktunum sem síðar fara fyrir hinn eiginlega þingfund til endanlegrar samþykktar. Hins vegar bjóða nefndirnar til sín gestaræðumönnum, sem gjarnan eru fulltrúar ríkisstjórna, alþjóðastofnana eða fræðasamfélags, til að fjalla um þau mál sem hæst ber í alþjóðlegri öryggismálaumræðu hverju sinni og svara fyrirspurnum þingmanna. Hinn eiginlegi þingfundur NATO-þingsins er einnig tvískiptur, annars vegar ávarpa tignargestir fundinn og svara fyrirspurnum þingmanna og hins vegar eru ályktanir nefndanna kynntar og lagðar fram til samþykktar auk fjárhags- og starfsáætlunar NATO-þingsins.
    Á fundi stjórnmálanefndar var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra gestur en hefð er fyrir því að utanríkisráðherra gestgjafaríkis ávarpi nefndina. Í ávarpi sínu rakti utanríkisráðherra m.a. nýskipan varnarmála á Íslandi í fjórum liðum, þ.e. grannríkjasamstarf við Noreg, Danmörku og fleiri ríki, samþættingu íslenska loftvarnakerfisins við sameiginlegt loftvarnakerfi NATO, umbreytt öryggissvæði á Keflavíkurflugvelli með búnaði og aðstöðu sem NATO-þjóðir geta nýtt og skipti á upplýsingum milli bandalagsríkja, m.a. með loftvarnakerfinu. Utanríkisráðherra vék að þátttöku Íslands í friðargæsluverkefnum og að framlag Íslands þar yrðu borgaraleg verkefni í endurreisnarskyni. Hún lagði áherslu á að reynslan í Afganistan sýndi nauðsyn hins borgaralega þáttar í friðaruppbyggingu en forsenda árangurs væri stuðningur almennings í hverju landi. Önnur mál á dagskrá stjórnmálanefndarinnar voru m.a. aðgerðir NATO í Afganistan og umbreyting bandalagsins, staðan eftir fimm ára baráttu gegn hryðjuverkum og áhrif þess á bandalagið, og samstarf NATO og Rússlands. Auk þess ávarpaði Antonio Milososki, utanríkisráðherra fyrrum júgóslavneska lýðveldisins Makedóníu, fund stjórnmálanefndar og fjallaði um öryggismál í Suðaustur-Evrópu.
    Á fundi nefndar um borgaralegt öryggi hélt Björn Bjarnason dómsmálaráðherra ræðu og beindi sjónum einkum að borgaralegum aðgerðum til að tryggja öryggi á höfunum. Hann vék að eflingu Landhelgisgæslu Íslands, auknum ferðum risaolíu- og gasflutningaskipa við strendur Íslands og öryggi skemmtiferðaskipa. Þá lýsti ráðherrann þáttaskilunum í öryggismálum Íslands á síðasta ári þegar bandaríska varnarliðið hvarf af landi brott. Ráðherrann hvatti til þess að ríki við Norður-Atlantshaf efldu borgaralegt samstarf sín á milli til að tryggja öryggi á höfunum með því að stofna samstarfsvettvang landhelgisgæslu á Norður- Atlantshafi. Nefndin fjallaði enn fremur m.a. um framtíðarstöðu Kosovó og stöðugleika á vestanverðum Balkanskaga, íslam á Kákasussvæðinu og hlutverk NATO í almannavörnum.
    Vísinda- og tækninefnd NATO-þingsins hefur í auknum mæli beint sjónum sínum að orkuöryggi og orkumálum á liðnum árum. Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra var gestur nefndarinnar og flutti ræðu þar sem hann gerði grein fyrir íslensku orkulandslagi sem er einstakt með tilliti til þess hversu stór hlutur vistvænnar orku er í orkubúskap þjóðarinnar. Iðnaðaráðherra greindi frá umfangi jarðvarmanýtingar í íslenskri orkuframleiðslu og tækni til þeirrar vinnslu sem gæti nýst fjölda annarra ríkja. Með djúpborunartækni hefðu mun fleiri ríki en áður möguleika á nýtingu jarðvarma eða alls 144 lönd. Ráðherrann sagði það stefnu stjórnvalda að hlúa að útflutningi íslenskrar tækniþekkingar á þessu sviði og að hún gæti orðið mikilvægt framlag Íslendinga jafnt til umhverfismála sem orkuöryggis samstarfsríkja. Vísinda- og tækninefnd fjallaði einnig m.a. um skýrslur um loftslagsbreytingar og eldflaugavarnir.
    Á fundi öryggis- og varnarmálanefndar flutti Sturla Sigurjónsson sendiherra erindi um öryggis- og varnarmál Íslands. Þá var fjallað um áframhaldandi hlutverk NATO í Afganistan og stöðu Adríahafsríkjanna þriggja sem knýja dyra hjá bandalaginu. Fyrrum júgóslavneska lýðveldið Makedónía, Albanía og Króatía taka öll þátt í aðildaráætlun NATO og vonast eftir formlegu boði um að ganga í bandalagið á leiðtogafundi NATO í Búkarest í apríl 2008. Sérstök umræða var um samstarf NATO og ESB á sviði öryggismála og friðargæslu sem hefur þótt stirt undanfarin ár. Bandaríski fulltrúadeildarþingmaðurinn John Shimkus og Leo Michel frá National Defence University í Washington fluttu þar framsögur. Shimkus benti á að flest aðildarríki þessara stofnana tilheyra þeim báðum og þar með séu NATO og ESB að gera kröfur um sömu bjargir og sveitir til aðgerða sinna. Hætta væri á samkeppni og tvíverknaði og þörf á að skilgreina og stofnanabinda samstarf þessara aðila. Michel tók undir það og benti á að þótt vel hefði gengið að samræma aðgerðir í Bosníu og Hersegóvínu hefði það gengið verr í Kosovó og beinlínis illa í Afganistan. Vandinn væri of margar bráðabirgðalausnir á samstarfsörðugleikum í stað heildræns samkomulags um hvernig samstarfi skuli háttað. Ragnheiður E. Árnadóttir tók þátt í umræðunni og spurðist fyrir um að hve miklu leyti skriffinnskubákn ESB væri hindrun fyrir samstarfi við NATO og hvort tortryggni á milli regluveldanna hamlaði stjórnendum að taka á vandanum. Ragnheiður lagði út af orðum Michels um nýja stjórn í Frakklandi eftir forsetakosningarnar og áhrif þess á að leysa vandann og spurði hann hvaða áhrif forsetakosningar í Bandaríkjunum í nóvember 2008 kynnu að hafa í þessu tilliti. Shimkus svaraði því til að regluveldin tortryggðu vissulega hvort annað og að það væri hluti vandans. Michel taldi að stríðið í Írak mundi að mörgu leyti takmarka svigrúm nýrra stjórnvalda í Bandaríkjunum til athafna, bæði vegna kostnaðar og líka vegna þreytu sem tekið er að gæta innan hersins. Afleiðing þess yrði að líkindum sú að Bandaríkin munu þrýsta á Evrópuríkin að axla aukna ábyrgð, jafnt innan NATO sem og með því að laga samskipti bandalagsins við ESB.
    Í lok fundar varnar- og öryggismálanefndar voru embættismenn nefndarinnar kosnir. Ragnheiður E. Árnadóttir var valinn skýrsluhöfundur undirnefndar um öryggis- og varnarsamstarf yfir Atlantsála sem er önnur af tveimur undirnefndum varnar- og öryggismálanefndar. Ragnheiður tekur við af bandaríska fulltrúadeildarþingmanninum John Shimkus. Hlutverk skýrsluhöfundar er að skrifa skýrslu um það málefni sem undirnefndin kýs að taka til sérstakrar skoðunar og leggja fram drög að ályktun um málið á fundi öryggis- og varnarmálanefndar sem síðar fer fyrir þingfund NATO-þingsins.
    Á fundi efnahagsnefndar flutti Þorsteinn Ingi Sigfússon erindi um orkuöryggi frá íslenskum sjónarhóli. Önnur mál á fundi nefndarinnar voru kostnaðarskipting innan NATO, áhrif efnahagsuppgangs í Austur-Asíu á Evrópu og Norður-Ameríku, og efnahagsþróun á Indlandi og hnattræn áhrif hennar. Þá ræddi nefndin hagþróun í Georgíu og Moldóvu.
    Sérstakur hádegisverðarfundur um hlutdeild kvenna í þjóðaröryggi og alþjóðlegum öryggismálum fór fram að frumkvæði svissnesku landsdeildarinnar. Erindi fluttu m.a. Annicq Bergmans, formaður nefndar NATO um konur í hersveitum bandalagsins, sem ræddi um nýlegar leiðbeiningar nefndarinnar um samþættingu jafnréttissjónarmiða hjá NATO. Þá fjallaði svissneski þingmaðurinn Barbara Haering um alþjóðlegar aðgerðaáætlanir um innleiðingu á ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um konur, frið og öryggi þar sem sérstaklega er tekið á skipulögðu ofbeldi gegn konum á átakasvæðum. Fram kom á fundinum sterkur vilji til að fundir um öryggismál og málefni kvenna yrðu haldnir reglulega á ársfundum NATO- þingsins.
    Þingfundur NATO-þingsins fór fram þriðjudaginn 9. október. Forseti NATO-þingsins, portúgalski þingmaðurinn José Lello, flutti setningarávarp og því næst bauð Sturla Böðvarsson þinggesti velkomna. Í ávarpi sínu fjallaði forseti Alþingis um það hversu alþjóðlegt samstarf verður sífellt fyrirferðarmeira í störfum þingmanna og að þjóðþingin hafi aðlagað sig þeim breytingum. Þá vék forseti að því hvernig breytingar sem orðið hafa í öryggis- og varnarmálum Íslands endurspeglast í störfum Alþingis. Þeirra sæi m.a. stað í nýju fjárlagafrumvarpi sem innihéldi í fyrsta skipti sérstök framlög til varnarmála. Þá fluttu Geir H. Haarde forsætisráðherra, Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóri NATO, og Sali Berisha, forsætisráðherra Albaníu, ræður og svöruðu að þeim loknum fyrirspurnum þingmanna.
    Málefni Afganistan voru mjög í brennidepli á þingfundinum. Umfangsmesta verkefni NATO er í Afganistan en það er um leið tákngervingur hinna miklu breytinga sem eiga sér stað á bandalaginu. Aðgerðin í Afganistan er fyrsta aðgerð NATO utan Evrópu og sú langfjölmennasta í sögu bandalagsins. Alþjóðlegu öryggissveitirnar í Afganistan (ISAF) sem starfa í umboði Sameinuðu þjóðanna hafa verið undir stjórn NATO frá því í ágúst 2003. Frá október 2006 hafa sveitir NATO náð til alls landsins. Í þeim eru um 41.000 manns frá 26 NATO-ríkjum og 12 samstarfsríkjum. Í ræðu sinni á þingfundinum lagði José Lello, forseti NATO-þingsins, áherslu á að aðgerðin í Afganistan væri prófsteinn á getu bandalagsins til þess að takast á við nýjar ógnir og nýtt öryggisumhverfi og að bandalagsríkin yrðu að láta þann liðsafla og tækjabúnað í té sem nauðsynlegur er til að tryggja stöðugleika til uppbyggingar í landinu. Lykilatriði væri að auka þjálfun afganska hersins og lögreglu til að efla þau í baráttunni gegn vígamönnum talíbana. Það væri mikilvægt hlutverk NATO-þingmanna að skýra stöðuna í Afganistan fyrir almenningi í aðildarríkjunum og tryggja stuðning hans við aðgerðirnar. Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóri NATO, sagði að þrátt fyrir erfiða stöðu og árásir vígamanna í sumum hlutum Afganistan gengi vel á öðrum sviðum og að mikilvægt væri að standa vörð um þann árangur. Aðgerðin í Afganistan væri prófraun fyrir samstöðu bandalagsins í því að leggja til hersveitir og búnað. Það væri nauðsynlegt að fleiri bandalagsríki skiptust á að senda sveitir til suðurhluta landsins þar sem bardagar eru harðastir, það væri ekki hægt að ætlast til þess að fjögur ríki bæru hitann og þungann af erfiðustu verkefnunum auk þess sem það kynni að snúa almenningsálitinu í þessum löndum gegn þátttöku í aðgerðunum í Afganistan. Þá skorti enn töluvert á að NATO gæti staðið við skuldbindingar sínar varðandi þjálfun hers og lögreglu í Afganistan þar sem bandalagsríkin hefðu ekki lagt nægilegan mannskap til þeirra mikilvægu verkefna. Kallaði De Hoop Scheffer eftir auknu framlagi ESB og annarra alþjóðastofnana við að byggja upp afgönsku lögregluna.
    Málefni norðurslóða voru einnig áberandi á þingfundinum. Í setningarræðu sinni sagði José Lello, forseti NATO-þingsins, ársfundinn í Reykjavík þarfa áminningu um að NATO horfi til norðursvæða sinna. Lello lagði út af ávarpi Ragnheiðar E. Árnadóttur í handbók ársfundarins um aukið mikilvægi norðurslóða í öryggismálum. Loftslagsbreytingar og bráðnun íss við norðurskautið krefðust úrlausna í umhverfismálum en jafnframt fælust þar ný tækifæri. Hinar miklu orkuauðlindir norðurskautssvæðisins verða aðgengilegar og mikilvægi þeirra mun vaxa með aukinni áherslu á orkuöryggi. Þá er útlit fyrir að nýjar siglingaleiðir opnist sem stytta leiðina milli Evrópu og Asíu um þúsundir kílómetra. Geir H. Haarde forsætisráðherra fjallaði einnig um málefni norðurslóða í ræðu sinni og sagði landgrunnskröfur ríkja við norðurskautið og tækniframfarir mundu beina sjónum að aukinni orkuvinnslu og orkuflutningum á svæðinu. Sum bandalagsríki hefðu þegar lagt áherslu á áhrif þessarar þróunar á hernaðarlega þýðingu norðurskautssvæðisins og mikilvægt væri að NATO beindi sjónum sínum í auknum mæli að svæðinu. Í ræðu Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóra NATO, kom fram að horfa þyrfti til norðurslóða í tengslum við orkuöryggi og sagðist De Hoop Scheffer hafa heitið forsætisráðherra að taka hina norðlægu vídd upp innan NATO. Í fyrirspurnatíma að lokinni ræðu framkvæmdastjórans spurði Ragnheiður E. Árnadóttir nánar út í sýn hans á hlutverk NATO á norðurskautssvæðinu í ljósi orkuhagsmuna og annarra öryggishagsmuna og hvort hann teldi að kröfur um lögsögu yfir landgrunni á svæðinu gætu aukið spennu í samskiptum NATO og Rússlands. De Hoop Scheffer svaraði því til að hann yrði að tala varlega, málefni norðurslóða væru í skoðun hjá bandalaginu og umræður um þau rétt að hefjast. Hann legði sig fram um að hlusta á þau bandalagsríki sem mestra hagsmuna eiga að gæta og nefndi að hann mundi eiga fund með norska utanríkisráðherranum fljótlega um þessi mál.
    Auk þess að ræða málefni norðurslóða lýsti Geir H. Haarde forsætisráðherra í ræðu sinni þeim breytingum sem orðið hafa á stefnu og aðstæðum Íslands í öryggismálum eftir brotthvarf Bandaríkjahers. Fjallaði hann um eflingu borgaralegra stofnana sem gegna öryggishlutverki eins og Landhelgisgæslu og lögreglu, umbreytt öryggissvæði á Keflavíkurflugvelli sem býðst til æfinga bandalagsins, tvíhliða samninga við einstök bandalagsríki um samstarf á norðanverðu Atlantshafi, fyrirhugað loftvarnaeftirlit NATO á Íslandi og fyrirhugaða úttekt og endurskoðun á öryggis- og varnarmálum Íslands.
    Málefni Kosovó-héraðs voru enn fremur mikið rædd. Sali Berisha, forsætisráðherra Albaníu, lýsti í ræðu sinni stuðningi við áætlun sáttasemjara Sameinuðu þjóðanna, Martti Ahtisaaris, sem miðar að því að Kosovó fái sjálfstæði að réttindum serbneska minni hlutans tryggðum. Berisha lýsti jafnframt umbótum í Albaníu til að greiða fyrir aðild landsins að NATO og ESB.
    Samskipti NATO og Rússlands voru til umræðu og voru rússneskir þingmenn ósáttir við ályktunardrög sem þeir töldu fela í sér gagnrýni á Rússland, m.a. með tilliti til stýringar orkusölu til að beita nágrannaríki pólitískum þrýstingi, alþjóðlegra staðla til að meta þing- og forsetakosningar sem stóðu fyrir dyrum í Rússlandi, og málefna Georgíu og Kosovó.
    Í síðari hluta þingfundarins voru ályktanir nefnda NATO-þingsins kynntar og afgreiddar. Samþykktar voru ályktanir um eftirfarandi málefni: stöðugleika á vestanverðum Balkanskaga; hlutverk NATO við almannavarnir; áframhaldandi hlutverk NATO í Afganistan; stuðning við aðild Adríahafsríkjanna þriggja að NATO; kostnaðarskiptingu innan Atlantshafsbandalagsins; samskipti NATO og Rússlands; umbreytingu NATO; eldflaugavarnir; og hnattræn viðbrögð við loftslagsbreytingum.

5.    Aðrir fundir sem Íslandsdeild sótti á árinu.
    NATO-þingið heldur tvo þingfundi árlega, vorfund og svo ársfund að hausti. Á svokölluðum febrúarfundum heldur stjórnarnefndin fund með framkvæmdastjóra NATO og Norður-Atlantshafsráðinu, auk þess sem stjórnmálanefnd, efnahagsnefnd og varnar- og öryggismálanefnd halda sameiginlegan fund. Auk þess kemur stjórnarnefnd þingsins saman til fundar í mars ár hvert. Þá sækir fjöldi NATO-þingmanna árlegan fund um Atlantshafssamstarfið sem fram fer í desember í samstarfi NATO-þingsins og bandaríska Atlantshafsráðsins. Loks halda nefndir og undirnefndir þingsins reglulega málstofur og fundi á milli þingfunda. Á árinu voru enn fremur haldnar tvær Rose Roth-ráðstefnur.
     Árið 2007 tók Íslandsdeildin þátt í febrúarfundunum í Brussel, fundi stjórnarnefndar sem haldinn var í Búdapest í mars, vorfundi þingsins í París, ársfundi í Reykjavík sem getið er að framan, og árlegum fundi um Atlantshafssamstarfið í Washington í desember, auk almennra nefndarfunda utan þingfunda.
    Hér á eftir fylgja frásagnir af fundum sem Íslandsdeildin sótti, öðrum en ársfundinum í Reykjavík, í tímaröð.

Febrúarfundir.
    Dagana 18.–20. febrúar var efnt til svonefndra febrúarfunda NATO-þingsins í Brussel en þeir eru sameiginlegir fundir stjórnmálanefndar, efnahagsnefndar og öryggis- og varnarmálanefndar. Fyrirkomulag fundanna var með venjubundnum hætti, þ.e. að embættismenn Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins héldu erindi um afmörkuð málefni og gáfu svo þingmönnum færi á að beina til þeirra spurningum. Að auki áttu formenn landsdeilda NATO-þingsins fund með Norður-Atlantshafsráðinu og framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins. Af hálfu Íslandsdeildar sátu fundina Össur Skarphéðinsson, formaður, Einar Oddur Kristjánsson og Dagný Jónsdóttir, auk Stígs Stefánssonar ritara.
    Nokkrum dögum fyrir febrúarfundina sagði Bert Koenders, forseti NATO-þingsins, af sér embætti til þess að taka sæti sem þróunarmálaráðherra í ríkisstjórn Hollands. Starfsreglur NATO-þingsins kveða á um að segi forseti af sér skuli framkvæmdastjórnin útnefna einn af varaforsetunum sem starfandi forseta. Bera skal útnefninguna upp til staðfestingar á næsta fundi stjórnarnefndar NATO-þingsins. Framkvæmdastjórnin kom saman til fundar 18. febrúar og útnefndi portúgalska þingmanninn José Lello sem starfandi forseta með það fyrir augum að stjórnarnefndin staðfesti útnefninguna á fundi sínum í Búdapest 24. mars.
    Framtíðarhlutverk og umbreyting NATO var mjög í brennidepli fyrsta fundardaginn. Jamie Shea, yfirmaður stefnumótunarskrifstofu framkvæmdastjóra NATO, og Patrick Hardouin, staðgengill aðstoðarframkvæmdastjóra NATO, fluttu þá framsöguerindi. Þeir dvöldu einkum við framtíð NATO í ljósi ákvarðana leiðtogafundar bandalagsins í Ríga í nóvember 2006 sem sýna að bandalagið þróast hratt í takt við breytt öryggisumhverfi. Aðildarríkin hafa lagt áherslu á að draga úr hefðbundnum liðsstyrk og endurskipuleggja hersveitir með áherslu á hreyfanleika og sveigjanleika og getu til að takast á við margvísleg verkefni á sviði friðargæslu, stjórnunar á hættutímum, aðgerða utan hefðbundins aðgerðasvæðis og til þess að starfa með hersveitum ríkja utan NATO. Mikilvægasti árangur fundarins í Ríga var að 25.000 manna hraðlið NATO var lýst starfshæft auk þess sem framfaraskref voru tekin varðandi sameiginlega kostun aðgerða, uppbyggingu eldflaugavarnakerfis, fjölgun samstarfsríkja, og afnám takmarkana og fyrirvara á beitingu hersveita einstakra aðildarríkja sem leggja til sveitir undir stjórn NATO í Afganistan.
    Chris Alexander, varafulltrúi framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna fyrir uppbyggingarverkefni stofnunarinnar í Afganistan, gerði grein fyrir árangri endurreisnarstarfs í landinu. Alexander sagði gríðarlegan árangur hafa náðst þó að ekki hefði verið mikið um jákvæðan fréttaflutning frá landinu í fjölmiðlum. Friður ríkti í meira en 2/ 3hlutum landsins, stanslaust væri unnið að uppbyggingu og um 4 milljónir afganskra flóttamanna hefðu snúið heim frá flóttamannabúðum erlendis, mest frá Pakistan. Alexander sagði Íran gegna lykilhlutverki ríkja á svæðinu við að koma á friði í landinu en það skýrist af því að talíbanar eru trúarofstækismenn af meiði súnníta og hafa ofsótt afganska shíta sem einkum búa í vestanverðu landinu og hafa náin samskipti við trúbræður sína í Íran. Pakistanir væru hins vegar ekki eins samvinnuþýðir og ljóst væri að mikill straumur vígamanna og vopna lægi yfir landamæri Pakistan inn í Afganistan.
    Össur Skarphéðinsson kvaddi sér hljóðs og spurðist fyrir um hverjar framtíðarhorfur væru á nánara og formlegra samstarfi við ríki utan Evró-Atlantshafssvæðisins sem deila lýðræðisgildum bandalagsins. Fjarlæg ríki eins og Japan, Ástralía, Nýja-Sjáland og Suður-Kórea leggja ríkulega til aðgerða NATO, sérstaklega í Afganistan, og deila gildum NATO-ríkjanna á sviði lýðræðis, réttarríkis og mannréttinda. Vísaði Össur til þess að fyrir nokkrum árum var uppi umræða um hvort jafnvel mætti stækka NATO út fyrir hið hefðbundna Evró-Atlantshafssvæði. Hardouin svaraði því til að ákveðið hefði verið í Ríga að styrkja tengslin við þessi lönd og eiga við þau tíðara samráð í öryggismálum eftir því sem tilefni er til. Ekkert væri hins vegar rætt um hugsanlega upptöku ríkjanna í NATO. Hardouin benti á að erfiðara yrði að framfylgja 5. gr. Atlantshafssáttmálans, sem kveður á um að árás á eitt aðildarríki jafngildi árás á þau öll, ef fjarlæg ríki hlytu aðild og að það gæti veikt bandalagið. Shea benti á að Ástralía væri með 500 hermenn í liði NATO í Afganistan og Ástralía væri því sérlega mikilvægt samstarfsríki. Í sérstakri pallborðsumræðu fjögurra NATO-sendiherra síðar um daginn sagði Victoria Nuland, fastafulltrúi Bandaríkjanna hjá NATO, það ekkert launungarmál að Bandaríkin legðu áherslu á sterk tengsl við þessi ríki.
    Hefðbundinn fundur stjórnarnefndar NATO-þingsins og Norður-Atlantshafsráðsins fór fram í höfuðstöðvum NATO 19. febrúar. Að venju sátu sendiherrar aðildarríkjanna fyrir svörum þingmanna en umræðum stjórnaði Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóri bandalagsins, sem jafnframt flutti inngangserindi. De Hoop Scheffer ræddi ákvarðanir leiðtogafundarins í Ríga en fjallaði auk þess sérstaklega um framtíðarstöðu Kosovó þar sem sveitir NATO eru við friðargæslu. Framkvæmdastjórinn greindi frá nýlegum fundi Norður-Atlantshafsráðsins með Martti Ahtisaari, fyrrverandi forseta Finnlands og sérlegs samningamanns Sameinuðu þjóðanna í Kosovó, og sagði NATO styðja tillögur hans um hvernig ætti að semja um þjóðréttarlega stöðu héraðsins til framtíðar. Nokkuð var rætt um orkuöryggi og framtíðaráætlanir NATO á þeim vettvangi. Nokkur umræða spannst um málið sem sýndi ólíkar áherslur aðildarríkjanna. Franski sendiherrann taldi orkuöryggi fyrst og fremst innri málefni hvers ríkis fyrir sig eða ESB og ekki mikilvægt á borði NATO. Eistneski sendiherrann mótmælti þeim málflutningi og sagði notkun Rússa á orkuvopninu í pólitísku skyni gagnvart Úkraínu og Hvíta-Rússlandi sýna að tryggt framboð á orku sé nauðsynlegt og þar þurfi bæði NATO og ESB að koma að málum. Auk þess var rætt um eldflaugavarnir og ný möguleg aðildarríki en NATO-þingmenn ítrekuðu þar stuðning sinn við framtíðaraðild Georgíu að bandalaginu.

Marsfundur stjórnarnefndar.
    Stjórnarnefnd NATO-þingsins kom saman til árlegs marsfundar laugardaginn 24. mars. Fundurinn var haldinn í Búdapest í boði ungversku landsdeildarinnar. Hlutverk stjórnarnefndarinnar er einkum að samræma starf nefnda NATO-þingsins og skipuleggja vorfund og ársfund þingsins. Af hálfu Íslandsdeildar sat fundinn Össur Skarphéðinsson, formaður, auk Stígs Stefánssonar ritara.
    Fyrsta mál fundarins var að staðfesta val á nýjum forseta NATO-þingsins. Bert Koenders, sem kosinn var forseti NATO-þingsins á ársfundi þingsins í nóvember 2006, sagði af sér embætti 14. febrúar til þess að taka sæti sem þróunarmálaráðherra í ríkisstjórn Hollands. Framkvæmdastjórn NATO-þingsins kom saman til fundar 18. febrúar og útnefndi portúgalska þingmanninn José Lello sem starfandi forseta. Nokkrar umræður urðu á fundi stjórnarnefndar um túlkun á starfsreglum þingsins í svona tilvikum og því næst var útnefning Lellos staðfest.
    Þá var rætt um starfsemi NATO-þingsins á árinu 2007 og m.a. fjallað um ný mál af vettvangi alþjóðastjórnmála sem líklegt þótti að kæmu til kasta þingsins. Simon Lunn, framkvæmdastjóri NATO-þingsins, flutti framsögu og taldi blasa við að málefni Kosovó yrðu mjög á dagskrá NATO eftir að Martti Ahtisaari, fyrrverandi forseti Finnlands og sérlegur samningamaður Sameinuðu þjóðanna í Kosovó, kynnti skýrslu sína um framtíð héraðsins fyrir öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Niðurstaða Ahtisaaris var sú að sjálfstæði sé eini raunhæfi kosturinn fyrir héraðið. Óeining er í öryggisráðinu og innan ESB um tillögur Ahtisaari en sem kunnugt er gæta sveitir NATO friðar í Kosovó-héraði. Lunn nefndi einnig eldflaugavarnir sem mál sem búast má við aukinni umræðu um en Bandaríkjamanna vinna að uppsetningu eldflaugavarnakerfis í samvinnu við Tékka og Pólverja. Þýski þingmaðurinn Marcus Meckel, formaður stjórnmálanefndarinnar, sagði að mikil umræða hefði verið um eldflaugavarnakerfið í Þýskalandi eftir ræðu Pútíns Rússlandsforseta á öryggisráðstefnunni í München í febrúar 2007 þar sem Pútín var harðorður í garð Vesturlanda. Meckel greindi frá því að eldflaugavarnir yrðu á dagskrá stjórnmálanefndarinnar á næsta fundi hennar. Nokkrar umræður urðu um hvaða nefnd NATO-þingsins væri best til þess fallin að fjalla um eldflaugavarnir og varð niðurstaðan sú að vísinda- og tækninefnd fjallaði um tæknilegan hluta málsins en stjórnmálanefndin fjallaði um hvaða pólitísku afleiðingar eldflaugavarnir gætu haft á samstöðuna innan bandalagsins. Þá var rætt um undirbúning að nýrri varnarstefnu NATO (Strategic Concept) en framkvæmdastjóri bandalagsins, Jaap de Hoop Scheffer, hefur lýst því markmiði að NATO endurskoði núverandi varnarstefnu sína frá árinu 1999 fyrir árið 2009 þegar bandalagið fagnar 60 ára afmæli. Ákveðið var að stjórnmálanefndin kannaði hvernig NATO-þingið gæti komið að mótun nýrrar varnarstefnu bandalagsins.
    Starfshættir NATO-þingsins voru til umræðu en umbætur voru gerðar á þeim á síðasta ári. Kanadíski öldungadeildarþingmaðurinn Pierre Claude Nolan, sem jafnframt er einn varaforseta NATO-þingsins, stýrði starfshópi sem mótaði tillögur að umbótunum. Nolan mælti fyrir nokkrum breytingum til viðbótar sem varða þátttöku skýrsluhöfunda í samræmingarfundum við upphaf vor- og ársfundar og takmörk á hversu mörg kjörtímabil nefndarformann mega sitja. Samþykkt var að hér eftir megi þeir leita endurkjörs tvisvar í stað þrisvar áður.
    Þá var fyrirkomulag kosninga til varaforseta NATO-þingsins til umræðu. Við stækkun NATO árið 2004 þegar sjö Mið- og Austur-Evrópuríki gengu í bandalagið var varaforsetum NATO-þingsins fjölgað úr fjórum í fimm. Fimmta varaforsetaembættið var sérstaklega frátekið fyrir nýju aðildarríkin þannig að á ársfundum voru tvöfaldar kosningar til varaforseta, einar fyrir „gömlu“ varaforsetana fjóra og aðrar fyrir varaforseta frá nýju aðildarríkjunum. Þegar þessu kerfi var komið á fót var þó ætlunin að um tímabundna ráðstöfun væri að ræða. Stjórnarnefndin ákvað að ekki væri ástæða til þess að viðhalda þessari skipan og að frá næsta ársfundi yrðu varaforsetarnir fimm kosnir samtímis.
    Umsóknir Serbíu og Svartfjallalands um aukaaðild að NATO-þinginu voru ræddar og samþykktar í kjölfar þess að á leiðtogafundi NATO í Ríga 28.–29. nóvember 2007 var ákveðið að bjóða Bosníu og Hersegóvínu, Serbíu og Svartfjallalandi aðild að samstarfsáætlun í þágu friðar.
    Þá var á fundinum tekin ákvörðun um nýjan framkvæmdastjóra NATO-þingsins eftir að Simon Lunn léti af störfum. David Hoobs, aðstoðarframkvæmdastjóri þingsins, tók við framkvæmdastjórastöðunni 1. janúar 2008.
    Í lok fundar var rætt um vorfund NATO-þingsins sem fyrirhugaður var á Madeira í maí og ársfundinn í Reykjavík í október. Hinn nýi forseti NATO-þingsins, José Lello, kynnti stöðu undirbúnings fyrir vorfundinn og Össur Skarphéðinsson kynnti undirbúning ársfundarins í Reykjavík. Össur sagði að Ísland væri hið eina af gömlu aðildarríkjunum í NATO sem ekki hefði haldið slíkan fund og ánægjulegt væri að gera breytingu þar á. Ísland væri sérstaklega vel við hæfi sem fundarstaður fyrir NATO-þingið vegna legu sinnar á Atlantshafshryggnum þar sem flekaskil Ameríku og Evrópu liggja. Að lokum bauð Össur nefndarmenn velkomna til ársfundar í Reykjavík.

Vorfundur.
    Árlegur vorfundur NATO-þingsins var haldinn á portúgölsku eyjunni Madeira dagana 25.–28. maí. Fyrir hönd Íslandsdeildar sótti fundinn Katrín Júlíusdóttir, auk Stígs Stefánssonar ritara.
    Á vorfundum NATO-þingsins vinna málefnanefndir að skýrslum og eiga fundi með fulltrúum ríkisstjórna og alþjóðastofnana, og sérfræðingum. Þá er þingfundur haldinn þar sem fjallað er um þau mál sem hæst ber í alþjóðlegri öryggis- og varnarmálaumræðu. Á meðal helstu mála á dagskrá vorfundarins á Madeira má nefna áætlun Bandaríkjamanna um að koma upp eldflaugavarnakerfi í Evrópu í samvinnu við Pólverja og Tékka, framtíðarstöðu Kosovó í ljósi yfirstandandi viðræðna í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, og aðgerðir NATO í Afganistan.
    Forseti NATO-þingsins, José Lello, setti þingfundinn. Í ávarpi sínu lagði Lello áherslu á aukið hlutverk þingmanna í öryggis- og varnarmálum. Þjóðþingin hefðu það hefðbundna hlutverk að samþykkja fjárframlög til varnarmála og hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu auk þess sem í sumum ríkjum þyrfti samþykki þings til beitingar herafla. Hið aukna hlutverk þingmanna fælist m.a. í því að skýra breytt öryggisumhverfi fyrir almennum borgurum og draga upp framtíðarsýn fyrir NATO í samvinnu við ríkisstjórnirnar til þess að tryggja áframhaldandi stuðning almennings við bandalagið. Lello hvatti til þess að NATO hæfi vinnu að nýrri varnarstefnu (strategic concept) sem lögð yrði fyrir til samþykktar á leiðtogafundi NATO í tilefni 60 ára afmælis bandalagsins árið 2009. Núverandi varnarstefna er frá árinu 1999 og tekur því ekki til nýrra og breyttra ógna eftir hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 11. september 2001. Lello boðaði aðkomu NATO-þingsins að vinnu við nýja varnarstefnu og lagði áherslu á að skilgreina þyrfti hvaða öryggisógnum bæri að bregðast við með virkjun 5. gr. Atlantshafssáttmálans sem kveður á um að árás á eitt aðildarríki jafngildi árás á þau öll. Þá væri mikilvægt að skilgreina landfræðileg mörk bandalagsins bæði hvað varðar aðild og samstarfsáætlanir, og koma á skilvirkari samvinnu NATO við aðrar alþjóðastofnanir eins og ESB og Sameinuðu þjóðirnar.
    Framkvæmdastjóri NATO, Jaap de Hoop Scheffer, ávarpaði þingfundinn og tók undir mikilvægi þingmanna sem milliliðar á milli bandalagsins og almennra borgara. Þegar 50.000 manns taka þátt í krefjandi aðgerðum og verkefnum undir merkjum NATO væri einkar mikilvægt að almenningur í aðildarríkjunum styddi bandalagið. Stærsta aðgerð NATO væri í Afganistan þar sem tæplega 40.000 manns væru í sveitum bandalagsins. Þrátt fyrir harða bardaga við talíbana í suðurhluta landsins og aukið ofbeldi vígamanna sem oft hefur beinst gegn óbreyttum borgurum kvaðst De Hoop Scheffer bjartsýnn á að sveitir NATO gætu tryggt frið og stöðugleika í landinu. Breiður pólitískur stuðningur væri við aðgerðina í Afganistan eins og nýleg fjölgun í sveitum NATO þar í landi sýndi glöggt. Eitt mikilvægasta verkefni NATO nú væri að þjálfa og vopnbúa afganska herinn til að hann geti axlað aukna ábyrgð á að koma á friði í landinu. Annað forgangsverkefni væri að fá alþjóðasamfélagið og stofnanir þess til að leggja meira af mörkum við uppbyggingu í landinu. De Hoop Scheffer lagði áherslu á að NATO væri ekki þróunar- eða uppbyggingarstofnun og að sérhæfing og sérfræðiþekking bandalagsins lægi ekki á því sviði. NATO gæti tryggt friðvænlegt og stöðugt umhverfi til uppbyggingarstarfs en þá yrðu aðrar stofnanir eins og Evrópusambandið, Sameinuðu þjóðirnar, Alþjóðabankinn og G8-löndin að koma til og aðstoða við endurreisnarstarf í Afganistan. Þá ræddi De Hoop Scheffer samband NATO og Rússlands og harmaði herská ummæli rússneskra ráðamanna um fyrirhugað eldflaugavarnakerfi Bandaríkjamanna í Evrópu og andstöðu við stækkun bandalagsins. Hvatti framkvæmdastjórinn til þess að NATO og Rússland ykju samstarf sitt og efndu til sameiginlegra aðgerða þegar þörf væri á.
    Forsætisráðherra fyrrum Júgóslavíulýðveldisins Makedóníu, Nikola Gruevski, og forseti þjóðþings Georgíu, Nino Burjanadze, voru sérstakir gestur fundarins. Bæði lögðu þau í ávörpum sínum áherslu á stefnu landa sinna um aðild að NATO. Makedónía hefur á undanförnum árum tekið þátt í aðildaráætlun NATO sem ætlað er að aðstoða ríki við að undirbúa væntanlega aðild. Gruevski lýsti þeim aðgerðum sem stjórnvöld hafa beitt sér fyrir til þess að nútímavæða herafla og tryggja nauðsynlegar umbætur á stjórnkerfi landsins. Vonaðist hann eftir formlegu boði um inngöngu í bandalagið á næsta leiðtogafundi NATO í apríl 2008. Forsætisráðherrann lagði að lokum áherslu á að aðild Balkanríkja að NATO væri lokahnykkurinn í því að tryggja frið og stöðugleika til langs tíma eftir ófriðinn á 10. áratug síðustu aldar.
    Öryggis- og varnarmálanefnd og vísinda- og tækninefnd NATO-þingsins stóðu að sameiginlegri málstofu um fyrirhugað eldflaugavarnakerfi Bandaríkjanna í Evrópu. Daniel P. Fata frá bandaríska varnarmálaráðuneytinu og Dennis Mays frá Eldflaugavarnastofnun Bandaríkjanna kynntu áætlunina sem beinist gegn langdrægum eldflaugum sem óttast er að ríki eins og Íran og Norður-Kórea geti komið sér upp. Fata sagði andstöðu Rússa við kerfið á misskilningi byggða þar sem það beindist ekki gegn þeim og hefði einungis varnargildi gegn ríkjum eða hryðjuverkasamtökum sem hafa yfir einni eða örfáum eldflaugum að ráða. Tæknin væri afar flókin og einungis væri gert ráð fyrir um tíu varnarflaugum til að skjóta niður árásareldflaugar. Lögðu frummælendur áherslu á fælingargildi slíkra varna, og sögðu að ef þeir sem hefðu yfir árásareldflaugum að ráða vissu að þær kynnu að verða skotnar niður þá gæti það haft áhrif á ákvörðun um að beita eldflaugunum. Í fyrirspurnatíma lýstu nokkrir þingmenn yfir áhyggjum af að eldflaugavarnakerfið kæmi af stað nýju vopnakapphlaupi.
    Á vorfundinum var sérstök málstofa um konur og öryggismál. Svissneski þingmaðurinn Barbara Haering var málshefjandi. Benti hún á að ófriður nútímans innan ríkja hefði fyrst og fremst komið niður á konum og börnum. Nefndi hún sem dæmi að 90% fallinna í fyrri heimsstyrjöld voru hermenn en 90% fórnarlamba stríðsins á Balkanskaga voru almennir borgarar. Í stríðum eru konur og börn fórnarlömb skipulegs og heiftarlegs ofbeldis og stríðsátök festa í sessi það ójafnrétti sem ríkir á milli kynjanna. Konur hafa aðra sýn á öryggismál en karlar og því er aðkoma þeirra að mótun öryggis- og varnarstefnu og friðarviðræðum nauðsynleg. Í friðarviðræðum hefur það sýnt sig að konur eiga auðveldara með að ná samkomulagi við konur úr andstæðum fylkingum og þær bera málefni barna og kvenna fyrir brjósti. Í umræðum um erindi Haering lögðu fundarmenn áherslu á nauðsyn þess að samþætta kynjasjónarmið í auknum mæli inn í stefnumótun ríkisstjórna og þjóðþinga á sviði öryggis- og varnarmála.
    Nokkuð var rætt um málefni Kosovó-héraðs og viðræður innan öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um framtíðarstöðu héraðsins. Sveitir NATO hafa gætt friðar í Kosovó frá árinu 1999 og eru þar nú 16.000 manns undir merkjum bandalagsins.
    Vorfundi NATO-þingsins lauk með fundi stjórnarnefndar þar sem Katrín Júlíusdóttir gerði grein fyrir stöðu undirbúnings fyrir ársfund NATO-þingsins í Reykjavík 5.–9. október. Ársfundurinn yrði umfangsmesti fundur alþjóðlegra þingmannasamtaka sem Alþingi hefði haldið en Ísland væri eina gamla NATO-ríkið sem ekki hefur haldið slíkan fund. Vegna nýafstaðinna kosninga væri ekki búið að kjósa nýja Íslandsdeild NATO-þingsins eða staðfesta hvaða ráðherrar úr nýrri ríkisstjórn mundu sækja ársfundinn en unnið væri í þeim málum. Katrín sagði allan verklegan undirbúning ganga vel og að fundinum yrði búin góð umgjörð. Þá sagði Katrín það gestgjöfum mikið tilhlökkunarefni að bjóða NATO-þingmönnum á Þingvöll þar sem Alþingi var stofnað og kynna fyrir þeim einstaka jarðfræðilega og menningarlega sögu staðarins sem er á heimsminjaskrá UNESCO, Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Að lokum þakkaði Katrín gestrisni Madeira og sagði að þrátt fyrir mikinn mun á loftslagi ættu Ísland og Madeira margt sameiginlegt, þær væru tvær eldfjallaeyjur í Atlantshafi með svipaða íbúatölu og að ljóst væri að Íslendingar mundu gera sitt besta til að líkja eftir gestrisni Madeirabúa.

„Transatlantic Forum“.
    Dagana 10.–11. desember efndi NATO-þingið og Atlantshafsráð Bandaríkjanna, ásamt National Defence University, til árlegs fundar „Transatlantic Forum“ um helstu málefni Atlantshafssamstarfsins í Washington D.C. Fundurinn fór fram í húsakynnum National Defence University (NDU) í McNair-virki í Washington og var þetta í sjötta sinn sem hann var haldinn. Þátttakendur voru þingmenn aðildarríkja og aukaaðildarríkja NATO-þingsins auk embættismanna og sérfræðinga í alþjóðamálum. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Ragnheiður E. Árnadóttir, formaður, og Ásta R. Jóhannesdóttir, auk Stígs Stefánssonar ritara.
    Megintilgangur „Transatlantic Forum“ er að gera fulltrúum NATO-þingsins kleift að ræða sameiginleg málefni er varða öryggi og varnir Evrópu og Bandaríkjanna við aðila úr bandaríska stjórnkerfinu, fræðasamfélagi, hugveitum og öðrum stofnunum. Þátttaka hefur verið afar góð á þessum fundum og umræður hreinskiptnar og upplýsandi. Fundurinn var skipulagður á þann hátt að nokkur svið alþjóðamála sem hátt hefur borið á undangengnum missirum voru tekin fyrir. Þar má nefna: áherslumál Bandaríkjamanna í aðdraganda leiðtogafundar NATO í Búkarest í apríl 2008; samskipti NATO og Rússlands; fyrirhugað eldflaugavarnakerfi í Evrópu; ástand mála í Mið-Austurlöndum; og komandi forsetakosningar í Bandaríkjunum. Tilhögun fundarins var sú að bandarískir sérfræðingar héldu framsögur um málefnin og svöruðu svo spurningum þingmanna og annarra þátttakenda á fundinum.
    Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar bandaríska þingsins, mætti óvænt á fundinn og bauð þátttakendur velkomna til Washington. Pelosi minntist þess þegar hún starfaði sjálf innan NATO-þingsins og lagði áherslu á mikilvægi aðkomu þingmanna að öryggis- og varnarmálum. Öryggishugtakið tæki til æ fleiri þátta svo sem orku-, umhverfis- og loftslagsmála og því væri þátttaka þingmanna í umræðum og stefnumótun á þessu sviði enn mikilvægari en áður og þar gegndi NATO-þingið lykilhlutverki.
    Í umræðum um fyrirhugaðan leiðtogafund NATO í Búkarest 2.–4. apríl nk. flutti Daniel P. Fata frá bandaríska varnarmálaráðuneytinu framsögu. Þar kom fram að Bandaríkin mundu í fyrsta lagi leggja áherslu á að aðildarríkin stæðu við skuldbindingar sínar í aðgerðum í Kosovó og Afganistan. Bush forseti hefði lýst því að hann vænti þess að Kosovó fengi sjálfstæði fyrr en síðar og flest stefndi í þá átt eftir að Serbar og Kosovó-Albanir náðu ekki samkomulagi áður en frestur Sameinuðu þjóðanna til þess rann út 10. desember. Í Afganistan yrði að auka starf til uppbyggingar hers og sér í lagi lögreglu. Þá yrði að þrýsta á alþjóðastofnanir sem sérhæfa sig í þróun til að koma af meiri krafti að endurreisnarstarfi í landinu. Sérsvið NATO væri ekki endurreisnarstarf heldur að tryggja frið og öryggi til þess að slíkt starf gæti farið fram. Í öðru lagi mundu Bandaríkin leggja áherslu á að NATO hefði mikilvægu hlutverki að gegna hvað varðar eldflaugavarnir, orkuöryggi og öryggi fjarskiptakerfa (cyber security). Í þriðja lagi væri stefna Bandaríkjanna að opna bandalagið enn frekar og ná samkomulagi um að bjóða Króatíu, Makedóníu og Albaníu til aðildarviðræðna. Jafnframt væri vilji Bandaríkjanna að bjóða Georgíu og Úkraínu til þátttöku í aðildaráætlun bandalagsins en henni er ætlað að undirbúa ríki fyrir hugsanlega framtíðaraðild.
    Rússland og samskipti þess við Vesturlönd voru til umræðu. Thomas H. Graham, fyrrverandi sendiherra og forstöðumaður hjá ráðgjafafyrirtæki Henry Kissingers, og Andrew C. Kuchins, forstöðumaður hjá CSIS (Center for Strategic and International Studies), fluttu framsögur sem lituðust af því að fyrr sama dag hafði Pútín Rússlandsforseti útnefnt Dimitri Medvedev sem eftirmann sinn. Graham og Kuchins töldu val Medvedevs jákvætt, hann væri frjálslyndur á rússneskan mælikvarða og hefði ekki bakgrunn í KGB eða annarri öryggisþjónustu eins og margir æðstu samstarfsmenn Pútíns. Hins vegar væri óljóst hvaða hlutverk Pútín ætlaði sjálfum sér. Utanríkisstefna Rússlands var til umræðu og hvernig Pútín hefur endurreist mátt Rússlands á alþjóðavettvangi með orkusölu, hernaðaruppbyggingu og andstöðu við Vesturlönd í ákveðnum málum. Í líflegum fyrirspurnatíma sagði Ragnheiður E. Árnadóttir ljóst að hernaðarumsvif Rússa færu vaxandi á norðurslóðum. Sprengjuflugvélar hefðu hafið reglubundið flug að nýju að ströndum Íslands eftir að varnarliðið hvarf frá Keflavíkurstöðinni og nú stæðu fyrir dyrum miklar flotaæfingar Rússa á svæðinu. Ragnheiður benti á aukið vægi norðurslóða og norðurskautssvæðisins í öryggismálum sökum ríkra orkuauðlinda og möguleika á nýjum siglingaleiðum og spurði hvort búast mætti við aukinni spennu á milli Rússa og Vesturlanda á svæðinu og hvort ástæða væri fyrir NATO að bregðast sérstaklega við því. Graham svaraði því til að fyrirsjáanlegt væri að mikilvægi svæðisins mundi aukast í náinni framtíð en það mundi ekki nauðsynlega leiða til aukinnar spennu á milli aðila þó að slíkt gæti hæglega gerst. Hann vonaðist til að hin miklu úrlausnarefni og möguleikar á norðurskautssvæðinu gætu frekar orðið grunnur samvinnu Rússa og Vesturlanda.
    Eldflaugavarnir voru þá á dagskrá. Henry A. Obering III frá eldflaugavarnastofnun varnarmálaráðuneytisins og Eline Bunn frá NDU fluttu erindi og bentu á að ríkjum sem hefðu yfir að ráða tækni til smíði langdrægra eldflauga hefði fjölgað mjög á síðustu 20 árum og væru nú 20–30 talsins. Eldflaugavarnir væru ekki einungis til varnar slíkum flaugum heldur hefðu varnirnar fælingargildi gagnvart frekari útbreiðslu þar sem tilvist eldflaugavarna gerði það síður eftirsóknarvert að verða sér út um tækni til smíði langdrægra eldflauga. Norður-Kórea hefur prufuskotið sex langdrægum flaugum en gagnvart slíkum ríkjum, sem hafa getu til að smíða nokkrar flaugar, er varnarkerfinu beint. Andstaða Rússa við uppbyggingu eldflaugavarnakerfis í Evrópu á þeirri forsendu að það gjaldfelldi kjarnorkuherafla Rússlands væri á misskilningi byggð. Kerfið mun geta skotið örfáar flaugar niður sem berast frá hryðjuverkaríkjum eða hópum sem hafa yfir takmörkuðum fjölda flauga að ráða en er engin vörn gegn allsherjarárás frá ríki sem ætti hundruð eða þúsundir flauga eins og Rússland. Þá var rætt um Íran og möguleika landsins til að þróa kjarnorkuvopn í ljósi nýrrar skýrslu frá leyniþjónustustofnunum Bandaríkjanna þar sem fram kom að Íranir væru skemur á veg komnir í þeirri þróun en áður var talið.
    Sérfræðingar í málefnum Mið-Austurlanda gerðu þá grein fyrir stöðu mála að loknum fundi deiluaðila í Annapolis í lok nóvember 2007 og þeirri viðræðuáætlun sem þar var samþykkt. Loks spáðu Sid Blumenthal, ráðgjafi Hillary Clinton, og David Frum, sérfræðingur hjá Heritage-stofnuninni og yfirlýstur stuðningsmaður Rudy Giuliani, í spilin fyrir forkosningaslag demókrata annars vegar og repúblikana hins vegar vegna bandarísku forsetakosninganna í nóvember nk.

Nefndarfundir.
    Fulltrúar Íslandsdeildar sóttu einnig ýmsa nefndarfundi og ráðstefnur NATO-þingsins á árinu. Ragnheiður E. Árnadóttir tók þátt í heimsókn varnar- og öryggismálanefndar til Georgíu í september þar sem nefndin kynnti sér þann árangur sem landið hefur náð í stjórnsýsluumbótum annars vegar og umbreytingu herafla síns hins vegar með aðild að NATO að markmiði. Þá sótti Ragnheiður fund sömu nefndar í Berlín í nóvember. Ásta R. Jóhannesdóttir tók þátt í kosningaeftirliti við þingkosningarnar í Úkraínu 30. september. Þá sótti Ásta Rose Roth-ráðstefnu í Belgrad í lok október þar sem sjónum var beint að ástandi mála á vestanverðum Balkanskaga og framtíðarstöðu Kosovó.

Alþingi, 22. febr. 2008.



Ragnheiður E. Árnadóttir,


form.


Ásta R. Jóhannesdóttir,


varaform.


Magnús Stefánsson.





Fylgiskjal.


Ályktanir NATO-þingsins árið 2007.


Ársfundur í Reykjavík, 5.–9. október:
          Ályktun 359 um stöðugleika á vestanverðum Balkanskaga.
          Ályktun 360 um hlutverk NATO við almannavarnir.
          Ályktun 361 um áframhaldandi hlutverk NATO í Afganistan.
          Ályktun 362 um stuðning við framtíðaraðild Adríahafsríkjanna þriggja að NATO.
          Ályktun 363 um kostnaðarskiptingu yfir Atlantsála.
          Ályktun 364 um samskipti NATO og Rússlands.
          Ályktun 365 um umbreytingu NATO.
          Ályktun 366 um eldflaugavarnir.
          Ályktun 367 um hnattræn viðbrögð við loftslagsbreytingum.