Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 450. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 715  —  450. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál fyrir árið 2007.

1. Inngangur.
    Af þeim málum sem fjallað var um á vettvangi þingmannanefndar um norðurskautsmál á árinu 2007 má segja að þrjú meginefni hafi helst verið í brennidepli en þau hafa öll verið rædd á vettvangi þingmannanefndarinnar undanfarin ár.
    Í fyrsta lagi voru umhverfismál og sérstaklega loftslagsbreytingar að venju mjög áberandi í umræðunni. Kynntar voru rannsóknir sem sýna að gríðarlega hraðar loftslagsbreytingar hafa orðið á norðurskautssvæðinu síðustu áratugi og loftslag fer ört hlýnandi. Ekki sér fyrir endann á þessum breytingum og spáð er enn örari þróun í þessa átt á næstu áratugum. Norðurslóðir einkennast af sérlega viðkvæmum vistkerfum og ljóst þykir að þróunin við norðurskaut sé eins konar fyrirboði þess sem verður annars staðar í heiminum.
    Í öðru lagi voru umræður um siglingaleiðir og björgunarmál áberandi á árinu. Með minnkandi hafís á norðurskautssvæðinu og auknum þrýstingi alþjóðavæðingar um sífellt stærri flutningaskip má búast við að siglingaleiðir milli Asíu annars vegar og Evrópu og austurstrandar Norður-Ameríku hins vegar opnist á næstu árum. Þar með styttast siglingaleiðirnar verulega, eða um allt að helming. Auknar siglingar um norðurskautið munu hafa veruleg áhrif á Ísland, sem gæti legið vel við sem umskipunarhöfn fyrir þessa miklu flutninga. Þeim tækifærum sem í þessu felast fylgir einnig nokkur áhætta, m.a. vegna meiri hættu á umhverfisslysum, og verulega auknum verkefnum fyrir landhelgisgæsluna. Einnig hafa Norðmenn hafið mikla olíu- og gasvinnslu í Barentshafi og þykir líklegt að Rússar fylgi í kjölfarið á komandi árum. Hluti þessarar orku verður fluttur með skipum til Norður-Ameríku um íslenska landhelgi.
    Í þriðja lagi var áhersla á Alþjóðaár heimskautasvæðanna (e. International Polar Year) sem gekk í garð í mars 2007 og var það haldið í þriðja sinn. Vísindamenn frá yfir 60 löndum taka þátt í rannsóknum alþjóðaársins sem lýkur í mars 2009. Markmiðið með árinu var að leiða til stórátaks í rannsóknum og athugunum á heimskautasvæðum jarðar. Rannsóknir á loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra á umhverfi, lífríki og samfélag voru í brennidepli á rannsóknarárinu en lögð var sérstök áhersla á þverfaglegar rannsóknir. Einnig var mikið rætt um öryggi í orkumálum á árinu og þörfina fyrir aukna notkun orkugjafa sem ekki hafa mengandi áhrif á andrúmsloftið.

2. Almennt um þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál.
    Fyrsta ráðstefna þingmanna og fulltrúa norðurskautssvæða var haldin í Reykjavík árið 1993, en nokkur samvinna norðurskautsríkja hófst þegar samþykkt var áætlun um umhverfisvernd á norðurslóðum í Rovaniemi í Finnlandi árið 1991. Ráðstefnan í Reykjavík árið 1993 markaði hins vegar upphafið að stofnun þingmannanefndar um norðurskautsmál sem sett var á laggirnar árið 1994. Nefndin er stjórnarnefnd þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem haldin er á tveggja ára fresti. Á ráðstefnunni kemur saman stór hópur þingmanna frá ríkjunum við norðurskaut, sem og sérfræðingar frá ríkisstjórnum, háskólastofnunum og félagasamtökum er láta sig málefni norðursins varða. Eitt meginviðfangsefni þingmannanefndarinnar er að fylgja eftir samþykktum ráðstefnunnar sem og að fylgjast grannt með störfum Norðurskautsráðsins. Þingmannanefndin fundar að jafnaði þrisvar á ári og einn þingmaður frá hverju aðildarríki situr í nefndinni. Þjóðþing Bandaríkjanna, Kanada, Rússlands og Norðurlanda eiga fulltrúa í nefndinni og auk þess á Evrópuþingið fastan fulltrúa. Almennt má segja að helstu verkefni í norðurskautssamstarfi lúti að sjálfbærri þróun og umhverfismálum. Undanfarin ár hefur sérstök áhersla einnig verið lögð á varðveislu menningararfleifðar og lífshátta þeirra þjóðflokka er byggja landsvæðin við norðurskaut, sem og aukna efnahagslega og félagslega velferð og velmegun íbúa norðursins.
    Í fyrstu sneru verkefni þingmannanefndarinnar aðallega að ýmsum málum sem viðkomu stofnun Norðurskautsráðsins árið 1996, en ráðið byggist á sameiginlegri yfirlýsingu og samstarfi ríkisstjórna aðildarríkjanna átta. Nokkur samtök frumbyggja og ólíkra þjóðarbrota á norðurslóðum eiga fasta fulltrúa í ráðinu. Auk þess eiga ýmis ríki, alþjóðasamtök og frjáls félagasamtök áheyrnaraðild að ráðinu. Jafnvel þótt samstarf norðurskautsríkja eigi sér fremur stutta sögu hefur það fætt af sér margvísleg sameiginleg verkefni og stofnanir. Eftirlit með og mat á umhverfi norðurskautssvæðanna hefur frá byrjun verið forgangsverkefni ráðsins. Fjölmargar vandaðar vísindalegar rannsóknir hafa verið gerðar á vegum vinnuhópa ráðsins, m.a. um mengunarhættu, áhrif mengunar á vistkerfi norðurslóða og varðveislu líffræðilegs fjölbreytileika. Á síðari missirum hefur Norðurskautsráðið í auknum mæli sinnt verkefnum sem miða ekki eingöngu að því að vega og meta mengunarhættu, heldur leita leiða við að draga úr mengun á norðurslóðum. Þingmannanefndin hefur á undanförnum árum lagt sérstakan metnað í að hafa frumkvæði að mismunandi verkefnum sem hægt er að leggja fyrir Norðurskautsráðið til framkvæmda.
    Undir lok formennskutíðar Íslands árið 2004 var gefin út skýrsla um áhrif loftslagsbreytinga á norðurskautssvæðinu, Arctic Climate Impact Assessment (ACIA). Skýrslan er fyrsta svæðisbundna allsherjarrannsókn á loftslagsbreytingum sem birt hefur verið eftir að samningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar var gerður. Skýrslan vakti mikla athygli og hefur verið til hennar vísað í alþjóðlegri umræðu um loftslagsbreytingar á norðurslóðum.

3. Skipan Íslandsdeildar.
    Fram að Alþingiskosningum 12. maí voru aðalmenn Íslandsdeildarinnar Sigurður Kári Kristjánsson, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Guðjóni Ólafur Jónsson, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, og Björgvin G. Sigurðsson, þingflokki Samfylkingarinnar. Varamenn voru Drífa Hjartardóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Valdimar L. Friðriksson, þingflokki Samfylkingarinnar, og Dagný Jónsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks.
    Ný Íslandsdeild var skipuð 31. maí. Samkvæmt breytingum á þingsköpum gildir sú kosning deildarinnar fyrir allt kjörtímabilið. Þingið getur þó hvenær sem er kosið að nýju ef fyrir liggur beiðni meiri hluta þingmanna þar um. Aðalmenn voru Sigurður Kári Kristjánsson, þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Gunnar Svavarsson, þingflokki Samfylkingarinnar, og Jón Bjarnason, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Varamenn voru Illugi Gunnarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Karl V. Matthíasson, þingflokki Samfylkingarinnar, og Álfheiður Ingadóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Á fundi Íslandsdeildar 4. júní var Sigurður Kári Kristjánsson endurkjörinn formaður og Gunnar Svavarsson varaformaður.
    Formaður situr fyrir hönd Íslandsdeildar í þingmannanefndinni, en í forföllum hans situr varaformaður fundi nefndarinnar. Öll Íslandsdeildin sækir ráðstefnuna sem haldin er á tveggja ára fresti. Íslandsdeild kemur saman eftir þörfum og þá gerir formaður grein fyrir starfi þingmannanefndarinnar og fær hún jafnframt upplýsingar um starf Norðurskautsráðsins. Arna Gerður Bang var ritari Íslandsdeildar.

4. Fundir þingmannanefndar 2007.
    Þingmannanefndin hélt þrjá fundi á árinu. Sigurður Kári Kristjánsson, formaður Íslandsdeildar, hélt m.a. umræðu um siglingaleiðir og björgunarmál á lofti á fundum nefndarinnar og lagði áherslu á mikilvægi málaflokksins. Sigurður Kári sat fyrir hönd Íslandsdeildar fund nefndarinnar í Brussel í febrúar, en sá fundur var haldinn samhliða ráðstefnu um hina norðlægu vídd, fund í Reykjavík í maí og í Ottawa í október. Arna Gerður Bang, ritari nefndarinnar, sótti fundina ásamt formanni. Hér á eftir verður gerð stutt grein fyrir fundum þingmannanefndarinnar á árinu.

Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál í Brussel 28. febrúar og ráðstefna um hina norðlægu vídd 28. febrúar – 1. mars.
    Fyrsta dagskrárefni fundarins var undirbúningur fyrir ráðstefnu um hina norðlægu vídd sem hófst síðar um daginn. Hin norðlæga vídd ESB nær til Norðurlandanna, Norðvestur- Rússlands og Eystrasaltsríkjanna. Meginmarkmið norðlægu víddarinnar er að auka samstarf milli ESB og nágrannalanda þess í Norður-Evrópu, efla svæðasamstarf og stuðla að öryggi og stöðugleika á svæðinu. Rætt var um efnisatriði yfirlýsingar nefndarinnar og mikilvægi þess að í henni væri lögð áhersla á rannsóknir á loftslagsbreytingum norðurskautsins og afleiðingar þeirra fyrir samfélög á norðurslóðum. Rannveig Guðmundsdóttir, fulltrúi Norðurlandaráðs í nefndinni, lagði áherslu á mikilvægi þess að núverandi stofnanir hittust reglulega til að ræða og fylgjast með framvindu hinnar norðlægu víddar. Hún taldi ekki þörf á að setja á fót nýja stofnun til að fást við hina norðlægu vídd eða önnur málefni norðursins heldur ætti að virkja þær stofnanir sem þegar væru til. Þá tók Diana Wallis, fulltrúi Evrópuþingsins, til máls og kom því skýrt á framfæri að ráðstefnan um hina norðlægu vídd og sá umræðuvettvangur sem þar skapaðist væri ekki upphafið að enn einni stofnuninni heldur vettvangur þar sem núverandi stofnanir geta komið saman og verið leiðbeinandi varðandi stefnu hinnar norðlægu víddar. Hill-Marta Solberg, formaður þingmannanefndarinnar, taldi nauðsynlegt að koma orkumálum að í yfirlýsingunni auk málsgreinar um málefni Barentshafsins. Roy Cullen, fulltrúi Kanada í nefndinni, ræddi einnig um orkumál og taldi afar brýnt að leggja áherslu á öryggi í orkumálum þörfina fyrir fleiri valkosti og fjölbreyttari orkugjafa auk notkunar orkugjafa sem ekki hafa mengandi áhrif á andrúmsloftið.
    Kupik Kleist, fulltrúi Danmerkur, kallaði eftir auknum áherslum á samfélögin á norðurskautssvæðinu og mikilvægi þess að styrkja aðlögunarhæfni þeirra við þær nýju aðstæður sem skapast hafa af völdum loftslagsbreytinga. Jonathan Motzfeldt, formaður Vestnorræna ráðsins, tók til máls á fundinum og lagði til að löndin á norðurskautssvæðinu og Evrópusambandið efldu samstarf sitt til muna varðandi leitar- og björgunarmál á hafsvæðum norðurskautsins. Hann bar einnig fram þá hugmynd að Evrópuþingið setti á fót skrifstofu þar sem hægt væri að nálgast upplýsingar um norðurskautið og sendinefnd um norðurskautsmál.
    John Richardson, yfirmaður starfshóps um siglingamál hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, kom á fund þingmannanefndarinnar og kynnti fyrir fundargestum grænbók framkvæmdastjórnarinnar um framtíðarstefnu Evrópusambandsins í sjávar- og siglingamálum. Richardson sagði loftslagsbreytingar hafa mikil áhrif á úthöfin og að bráðnun hafíssins við norðurskautið opnaði m.a. fyrir nýjar siglingaleiðir frá Rússlandi til Evrópu. Hann taldi skynsamlegt að koma upp sérstöku leitarkerfi fyrir norðurskautssvæðið og tók undir það að björgunarmál á svæðinu væru afar mikilvæg auk verndunar vistkerfisins.
    Næsti dagskrárliður fundarins fjallaði um starfsemi þingmannanefndarinnar og málefni norðurskautsins innan einstakra aðildarríkja hennar. Sigurður Kári, formaður Íslandsdeildar, fjallaði um þróun mála á Íslandi. Hann lagði áherslu á mikilvægi norðurskautsins fyrir Ísland og aukna athygli sem málaflokkurinn hefur fengið bæði í fjölmiðlum og í stjórnmálaumræðunni. Sjónum hefur aðallega verið beint að umhverfismálum og loftslagsbreytingum auk eftirlits og björgunar í Norðurhöfum. Vísindasamfélagið á Íslandi hefur sýnt alþjóðaári heimskautasvæðanna 2007 mikinn áhuga og hefur tekið virkan þátt í undirbúningi þess. Í því samhengi vakti Sigurður Kári athygli fundargesta á ráðstefnu á Akureyri sem haldin var 27.–28. mars um siglingaleiðir í Norðurhöfum. Sigurður Kári lagði enn fremur áherslu á þýðingarmikið hlutverk hinnar norðlægu víddar sem samstarfsvettvangs í Norður-Evrópu en benti á að meiri áherslu mætti leggja á norðurskautið í því samstarfi.
    Ráðstefna um hina norðlægu vídd ESB var haldin í húsakynnum Evrópuþingsins og stýrði Diana Wallis, varaforseti Evrópuþingsins umræðunni. Á ráðstefnunni var hin nýja norðlæga vídd ESB kynnt fyrir fundargestum og fór fram umræða um framkvæmd hennar. Meginþemu umræðunnar voru stefnumál norðlægu víddarinnar sem beinast að Norðurskauts- og Eystrasaltssvæðunum. Ákveðið var að kanna þann möguleika að halda ráðstefnu sem þessa annað hvert ár og skapa þannig þingræðislegan umræðuvettvang um málaflokkinn.

Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál í Reykjavík 1. júní 2007.
    Fyrsta dagskrárefni fundarins var umræða um stöðu og eftirfylgni Kiruna- yfirlýsingarinnar. Hill-Marta Solberg fór yfir stöðu mála og upplýsti fundarmenn um að Evrópuþingið hefði ákveðið að halda fyrsta fund þingmannasamkundu um hina norðlægu vídd að vori 2009 í Brussel. Tillaga að stofnun þingmannasamkundunnar var lögð fram í yfirlýsingu þingmannanefndarinnar á ráðstefnu um hina norðlægu vídd sem haldin var í Evrópuþinginu 1. mars 2007. Sigurður Kári lagði áherslu á eftirfylgni við grein 40 í Kiruna-yfirlýsingunni þar sem kveðið er á um aukið samstarf ríkjanna á sviði leitar- og björgunarmála. Á komandi árum og áratugum er fyrirsjáanleg opnun nýrra siglingaleiða með aukinni skipaumferð í norðurhöfum og umhverfis Ísland. Í kjölfar þess mun umfang eftirlits- og björgunarstarfs á svæðinu aukast gríðarlega og því mikilvægt að þjóðirnar vinni saman að málaflokknum. Sigurður Kári sagði fundarmönnum frá samkomulagi sem undirritað var af utanríkisráðherra Íslands við Dani og Norðmenn um samstarf á sviði öryggis-, varnar- og björgunarmála í Norður-Atlantshafi og við Ísland á friðartímum.
    Robert Kvile, frá skrifstofu Norðurskautsráðsins, kom á fund nefndarinnar og kynnti áherslur formennsku Noregs í ráðinu. Hann sagði loftslagsbreytingar, uppbyggingu ráðsins og nýtingu auðlinda vera meginmálaflokkana og lýsti yfir ánægju með aukinn áhuga á norðurskautssvæðinu, sérstaklega í tengslum við orku- og umhverfismál.
    Þórir Ibsen, skrifstofustjóri auðlinda- og umhverfisskrifstofu utanríkisráðuneytisins, hélt erindi um öryggis- og björgunarmál í norðurhöfum út frá sjónarhorni Íslendinga. Þórir sagði málefni hafsins afar mikilvæg Íslendingum og að þeir tækju virkan þátt í alþjóðastarfi um öryggi hafsvæðanna. Hann ræddi um skýrsluna Fyrir stafni haf, tækifæri tengd siglingum á norðurslóðum, sem gefin var út á Íslandi 2005 og fjallar um opnun norðaustursiglingaleiðarinnar. Í skýrslunni eru m.a. metin viðskiptaleg áhrif og umhverfisáhrif af fyrirsjáanlegri opnun alþjóðlegra siglingaleiða fyrir Ísland, ekki síst með tilliti til mögulegrar umskipunarhafnar í landinu. Þórir vitnaði einnig í niðurstöður ráðstefnu sem haldin var á Akureyri í mars 2007 og fjallaði um áhrif og tækifæri með opnun nýrra siglingaleiða um norðurhöf. Hann vildi meina að ný tækni og loftslagsbreytingar gerðu það að verkum að eftir 40–50 ár væri mögulegt fyrir hefðbundin skip að sigla í gegnum ísinn á norðurskautssvæðinu. Fundarmenn samþykktu drög að tillögu við grænbók Evrópusambandsins um stefnu í sjávar- og siglingamálum. Næsti dagskrárliður fundarins var kynning á könnun um lífsskilyrði á norðurskautssvæðinu. Birger Poppel, verkefnisstjóri könnunarinnar, ræddi um framkvæmd hennar og helstu niðurstöður. Könnunin leiddi meðal annars í ljós að níu af hverjum tíu inúítum telja arfteknar hefðir mikilvægar fyrir sjálfsmynd þeirra. Þeir þættir sem vega þyngst þegar innfæddir kjósa að dveljast áfram í heimabyggð sinni eru fjölskyldubönd, félagslegur stuðningur frá öðrum í samfélaginu og arftekin hefð. Einnig kom fram að velferð íbúanna helst í hendur við atvinnumöguleika, aðgengi að fiski og bráð og tilfinningu fyrir því að hafa stjórn á aðstæðum.
    Farið var yfir drög að dagskrá næstu ráðstefnu þingmannanefndarinnar sem haldin verður í Fairbanks í Alaska, 11.–14. ágúst 2008. Meginefni ráðstefnunnar verða loftslagsbreytingar, orkumál og hið alþjóðlega heimskautaár. Því næst var rætt um starfsemi þingmannanefndarinnar og málefni norðurskautsins innan einstakra aðildarríkja hennar. Hill-Marta Solberg skýrði frá ferð sinni til Washington og New York þar sem hún hitti öldungadeildarþingmennina Lisu Murkowski og Ted Stevens frá Alaska og ræddi m.a. um ráðstefnu nefndarinnar í Alaska. Hún sagði einnig frá nýjum markmiðum norsku ríkisstjórnarinnar sem hyggst minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 30% fyrir árið 2020. Sigurður Kári sagði frá niðurstöðum kosninganna hér á landi og myndun nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar.

Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál í Ottawa 18. október 2007.
    Fyrsta dagskrárefni fundarins var kynning Bob Mills, þingmanns frá Kanada og meðlims í þingmannanefndinni, á áhersluatriðum ríkisstjórnar Kanada varðandi norðurskautssvæðið. Linda Mortsch frá umhverfisstofu Kanada kynnti starf milliríkjavettvangs um loftlagsbreytingar (The Intergovernmental Panel on Climate Change, IPCC) og framvinduspá um þróun í málaflokknum. Hún sagði nauðsynlegt að umheimurinn lagaði sig að hækkandi lofthita, hækkandi yfirborði sjávar, bráðnun jökla og breytingum á vistkerfinu. Ólík landsvæði mundu upplifa loftslagsbreytingarnar á mismunandi vegu og mikilvægt væri að bregðast hratt og með skilvirkni við þróuninni. Patcik Borbey, aðstoðarráðherra frá skrifstofu málefna norðursins og indíána, ávarpaði fundargesti. Borbey lagði áherslu á auðlegð og aukna eftirspurn eftir náttúrulegum auðlindum eins og olíu, gasi og demöntum.
    Yfirmanni skrifstofu Norðurskautsráðsins var boðið til næsta fundar nefndarinnar sem haldinn verður í Rovaniemi í febrúar 2008. Þá fundaði Hill-Marta Solberg fyrir lok árs með formanni ráðsins, Jonas Gahr Store, utanríkisráðherra Noregs, og ræddu þau Kiruna-yfirlýsinguna,
    Catherine Carry, yfirmaður rannsókna hjá heilbrigðisstofnun frumbyggja, kynnti nefndarmönnum niðurstöður rannsókna varðandi misnotkun inúíta í Kanada á áfengi, eiturlyfjum og tóbaki. Rannsóknir sýna fram á að frumbyggjarnir neyta áfengis í meira mæli en aðrir íbúar Kanada og vandamál tengd slíkri misnotkun eru algengari meðal þeirra. Nefndarmenn voru sammála um nauðsyn þess að skoða hvers vegna misnotkun áfengis er algengari hjá þessum þjóðfélagshópi og lögðu áherslu á mikilvægi heilbrigðra íbúa til að geta annast og nýtt þau framtíðartækifæri sem norðrið býður upp á. Ákveðið var að nefndarmennirnir Sinikka Bohlin og Lars Anders Baer mundu leggja fram tillögur um hvernig nefndin gæti unnið að málefninu.
    Isaac Edwards sagði frá skipulagningu ráðstefnunnar sem haldin verður í Alaska 12.–14. ágúst 2008 þar sem málefni hafs og heilbrigðis verða m.a. á dagskrá. Björn-Willy Robstad, framkvæmdastjóri þingmannanefndarinnar, sagði nefndarmönnum einnig frá heimsókn sinni til Fairbanks þar sem aðstæður og framkvæmd ráðstefnunnar var yfirfarin.
    Næsti dagskrárliður fundarins fjallaði um starfsemi þingmannanefndarinnar og málefni norðurskautsins innan einstakra aðildarríkja hennar. Sigurður Kári Kristjánsson, formaður Íslandsdeildar, fjallaði um þróun mála á Íslandi. Hann skýrði fundargestum frá 53. ársfundi þingmannanefndar NATO sem haldinn var í Reykjavík 5.–9. október, þar sem m.a. var rætt um loftslagsbreytingar og orkuöryggi. Sigurður Kári sagði einnig frá nýju meistaranámi í heimskautarétti sem Háskólinn á Akureyri hefur þróað og mun hefjast haustið 2008. Námið mun m.a. leggja áherslu á dreifbýlis- og jaðarsvæði og smáríki sem liggja umhverfis norðurheimskautið. Í tengslum við námið mun Háskólinn á Akureyri vinna náið með háskólunum í Þórshöfn, Nuuk og Rovaniemi, auk þess sem samstarf verður við Háskóla norðurslóða og háskóla í Kanada, Alaska og Rússlandi.
    Rætt var um hvar halda ætti ráðstefnu nefndarinnar árið 2010 þar sem öll norðurskautslöndin væru búin að vera gestgjafaland hennar. Hill-Marta Solberg skýrði fundargestum frá því að fulltrúi nefndarinnar frá Evrópuþinginu hefði boðist til að kanna möguleika þess að Evrópuþingið héldi ráðstefnuna 2010. Farið var yfir efni næsta fundar nefndarinnar sem haldinn verður í Rovaniemi 29. febrúar 2008, samhliða fundi nefndarinnar með stjórnendum stofnana Háskóla norðurslóða.

Alþingi, 22. febr. 2008.



Sigurður Kári Kristjánsson,


form.


Gunnar Svavarsson,


varaform.


Jón Bjarnason.