Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 456. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 726  —  456. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins fyrir árið 2007.

1. Inngangur.
    Fjölmörg mál voru til umræðu á vettvangi Evrópuráðsþingsins á árinu 2007. Þau fjögur málefni sem segja má að hafi verið í brennidepli standa öll í sambandi við grundvallarhlutverk Evrópuráðsþingsins um að standa vörð um lýðræði, mannréttindi og meginreglur réttarríkisins.
    Í fyrsta lagi varð áframhald á umræðu síðasta árs um aðgerðir í baráttunni gegn hryðjuverkum. Evrópuráðsþingið var fyrsta alþjóðastofnunin til að hefja rannsókn í lok árs 2005 í kjölfar fréttaflutnings af meintum ólöglegum fangaflutningum og leynifangelsum bandarísku leyniþjónustunnar CIA í lögsögu Evrópuríkja. Svissneski þingmaðurinn Dick Marty hefur verið í forsvari fyrir þeirri rannsókn og gefið út tvær skýrslur. Fyrsta skýrslan, sem kom út 2006, leiddi m.a. í ljós að meintir hryðjuverkamenn hefðu verið handteknir af útsendurum bandarísku leyniþjónustunnar og fluttir með borgaralegum flugvélum milli landa í Evrópu. Önnur skýrslan sem kom út í júní 2007 leiddi í ljós að föngunum hefði verið haldið í leynilegum fangelsum í Póllandi og Rúmeníu og hugsanlega fleiri löndum á árunum 2002 til 2005. Þessar handtökur, fangaflutningar og varðhald án dóms og laga fóru fram með vitund eða samvinnu öryggisstofnana í sumum aðildarríkjum Evrópuráðsins. Almennt var skýrslunni fagnað sem skrefi í þá veru að tryggja mannréttindi og virðingu fyrir meginreglum réttarríkisins en aðferðir bandarískra stjórnvalda og samstarfslanda þeirra fordæmdar enda liður í því að grafa undan mannréttindum og réttarríkinu.
    Annað mál sem mikið var í umræðunni var hlutverk þingsins, fjármál og starfssemi. Á vorfundi Evrópuráðsþingsins var í fyrsta sinn í sögu þess lögð fram ársskýrsla um stöðu mannréttinda og lýðræðis í Evrópu. Skýrslan var að hluta til einnig gagnrýni á þau aðildarríki Evrópuráðsins sem eiga aðild að Evrópursambandinu (ESB) fyrir að kom á fót Stofnun ESB um grundvallarmannréttindi (e. Agency of Fundamental Rights). Gagnrýni Evrópuráðsþingsins lýtur að því að stofnunin grafi undan hlutverki þingsins með því að standa í beinni samkeppni við það um tilgang og verkefni. Samkomulag milli Evrópuráðsins og Evrópusambandsins frá því í maí um verkaskiptingu milli stofnana náði ekki að lægja mestu gagnrýnisraddirnar, sem bentu á að eftir sem áður væru fjárframlög til Evrópuráðsþingsins helmingi minni en til hinnar nýju stofnunar ESB. Það skjóti skökku við þar sem Evrópuráðsþingið taki til mun fleiri landa eða 47 í samburði við 27 ríki ESB. Með það að markmiði að bæta starfsemi þingsins voru á stjórnarnefndarfundi 23. nóvember samþykktar breytingar á fundarsköpum og að gildistaka þeirra yrði á fyrsta fundi Evrópuráðsþingsins árið 2008. Markmiðið með breyttum fundarsköpum er að bæta þátttöku þingmanna, t.d. í atkvæðagreiðslum um mál, á reglulegum fundum og nefndarfundum Evrópuráðsþingsins með því að gera verklag þingsins skilvirkara. Markmiðið er einnig að jafna hlut karla og kvenna í embætti á vegum þingsins og láta þingið þar með endurspegla betur grunngildi Evrópuráðsins.
    Í þriðja lagi fór fram mikil umræðu um Mannréttindadómstól Evrópu. Fjölgun aðildarríkja Evrópuráðsins eftir lok kalda stríðsins hefur leitt af sér gríðarlega fjölgun mála sem vísað er til dómstólsins. Um 90 þúsund mál bíða þess að verða tekin til afgreiðslu, sem jaðrar við ófremdarástand vegna þess mikilvæga hlutverks sem dómstóllinn gegnir í því að standa vörð um mannréttindi í Evrópu. Fyrir sjö árum var samþykkt að setja af stað umbótaferli til að tryggja skilvirkni Mannréttindasáttmála og Mannréttindadómstóls Evrópu. Niðurstaða þeirrar vinnu var viðauki 14 við Mannréttindasáttmála Evrópu. Haustið 2006 höfðu öll aðildarríki Evrópuráðsins fullgilt viðaukann að Rússlandi undanskildu.
    Að lokum var mikið rætt um framtíðarstöðu Kosovo-héraðs í Serbíu sem hefur verið undir stjórn Sameinuðu þjóðanna síðan árið 1999. Martti Ahtisaari, fyrrverandi forseti Finnlands og sérlegur samningamaður Sameinuðu þjóðanna í málum Kosovo-héraðs, var gestur Evrópuráðsþingsins í janúar. Var það mál manna að þingið ætti ekki að taka opinbera afstöðu í málinu á undan öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um framtíðarstöðu Kosovo-héraðs. Í ályktun sem þingið samþykkti var því ekki að finna tilvísun í hugsanlegt sjálfstæði Kosovo-héraðs en hins vegar bent á að alþjóðasamfélagið gæti þurft að úrskurða um og setja niður deiluna ef deiluaðilum tækist það ekki.

2. Almennt um Evrópuráðið og Evrópuráðsþingið.
    Hlutverk Evrópuráðsins er að standa vörð um grundvallarhugsjónir aðildarríkjanna um mannréttindi, lýðræði og réttarríkið, auk þess að stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum í þeim öllum. Til þess beitir ráðið sér fyrir samningu og samþykkt bindandi fjölþjóðasáttmála. Ályktanir Evrópuráðsins og fjölþjóðasáttmálar sem þar eru samþykktir hafa haft víðtæk áhrif í álfunni allri. Fjölmargir sáttmálar ráðsins á ýmsum sviðum þjóðlífsins eru mikilvægar mælistikur fyrir þjóðir sem eru að koma á lýðræði og réttarríki, en mælistikur Evrópuráðsins gilda einnig fyrir aðrar fjölþjóðastofnanir og alþjóðleg samtök. Þar ber hæst Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og Félagsmálasáttmála Evrópu.
    Frá lokum kalda stríðsins hefur Evrópuráðið m.a. gegnt því veigamikla hlutverki að styðja við lýðræðisþróun í nýfrjálsum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, m.a. með laga-, stjórnsýslu- og tækniaðstoð og kosningaeftirliti. Aðildarríkjum ráðsins hefur fjölgað ört síðan Berlínarmúrinn féll og eru þau nú 47 talsins. Svartfjallaland, sem sleit ríkjasambandi við Serbíu eftir þjóðaratkvæðagreiðslu í maí 2006, varð aðili að Evrópuráðinu í maí 2007. Þar með mynda ríki Evrópuráðsins eina órofa pólitíska heild í álfunni – aðeins að Hvíta-Rússlandi undanskildu.
    Evrópuráðsþingið er vettvangur fulltrúa þjóðþinga 47 aðildarríkja Evrópuráðsins og gegnir veigamiklu hlutverki í starfsemi þess sem hugmyndabanki stofnunarinnar. Á þinginu sitja 318 fulltrúar og jafnmargir til vara. Ólíkt ráðherranefndinni þar sem hvert ríki hefur eitt atkvæði fer fjöldi fulltrúa á þinginu eftir stærð þjóðar. Þingið starfar í tíu málefnanefndum og 24 undirnefndum þeirra en einnig starfa í þinginu fimm flokkahópar. Þá sitja forseti, 20 varaforsetar, formenn málefnanefnda og formenn flokkahópa í framkvæmdastjórn þingsins, sem hefur umsjón með innri málefnum þess, og sami hópur skipar stjórnarnefnd þingsins ásamt formönnum landsdeilda. Þingið kemur saman ársfjórðungslega, eina viku í senn, að jafnaði í lok janúar, apríl, júní og september. Stjórnarnefnd kemur saman til fundar á sama tíma og þing eru haldin og á milli þingfunda. Loks kemur sameiginleg nefnd þingsins með ráðherranefnd Evrópuráðsins saman í hvert sinn sem Evrópuráðsþingið kemur saman. Evrópuráðsþingið er umræðuvettvangur fyrir stjórnmál, efnahagsmál, félagsmál, mannréttindamál, umhverfis- og orkumál, menningar- og menntamál.
    Mikilvægi þingsins felst einkum í því að:
          eiga frumkvæði að aðgerðum og beina tillögum til ráðherranefndarinnar,
          hafa eftirlit með efndum fjölþjóðlegra skuldbindinga og þrýsta á um skjótar aðgerðir í þeim tilvikum sem misbrestur er þar á og
          vera vettvangur fyrir skoðanaskipti og samráð þingmanna aðildarríkjanna og styrkja þannig lýðræðismenningu og efla tengsl þjóðþinga.
    Á þingfundum Evrópuráðsþingsins eru skýrslur málefnanefnda ræddar og ályktað á grundvelli þeirra. Ályktunum, tilmælum eða álitum er því næst vísað til ráðherranefndarinnar sem fjallar um þau og bregst við ef þurfa þykir, annaðhvort með beinum aðgerðum eða lagasetningu í þjóðþingum. Evrópuráðsþingið á því oft frumkvæði að samningu fjölþjóðlegra sáttmála sem eru lagalega bindandi fyrir aðildarríkin.
    Evrópuráðsþingið er eina samevrópska fjölþjóðastofnunin þar sem þingmenn Vestur-, Mið- og Austur-Evrópu starfa saman á jafnréttisgrundvelli. Ólíkt Evrópuþinginu eru fulltrúar á Evrópuráðsþinginu þjóðkjörnir þingmenn og hafa störf þingsins því beina skírskotun til starfa þjóðþinganna sjálfra. Þingfundir Evrópuráðsþingsins, þar sem menn starfa saman á jafnræðisgrundvelli og bera saman bækur sínar og skiptast á hugmyndum, eru því afar mikilvægt framlag til löggjafarstarfsins. Hefur þetta farsæla samstarf hraðað mjög og stutt við þá öru lýðræðisþróun sem átt hefur sér stað í Mið- og Austur-Evrópu á undangengnum árum. Þá hefur reynslan sýnt að þjóðir sem hafa skýr markmið í störfum sínum innan þingsins og kappkosta að ná þeim geta haft áhrif langt umfram stærð og pólitískt bolmagn. Sú staðreynd varpar skýru ljósi á mikilvægi og ekki síður möguleika Evrópuráðsþingsins fyrir íslenska hagsmuni.

3. Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins.
    Í upphafi árs 2007 á 133. þingi voru aðalmenn Íslandsdeildar Birgir Ármannsson, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Kristinn H. Gunnarsson, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, og Margrét Frímannsdóttir, þingflokki Samfylkingar. Varamenn voru Einar Oddur Kristjánsson, heitinn, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Jónína Bjartmarz, þingflokki Framsóknarflokks, og Guðrún Ögmundsdóttir, þingflokki Samfylkingar. Hinn 12. febrúar tilkynnti forseti Alþingis að Dagný Jónsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, tæki sæti Kristins H. Gunnarssonar. Hún tók jafnframt við sem varaformaður Íslandsdeildar.
    Ný Íslandsdeild var kjörin 31. maí í upphafi 134. þings í kjölfar kosninga til Alþingis 12. maí. Á fyrsta fundi Íslandsdeildar 4. júní var Guðfinna S. Bjarnadóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, kosin formaður, Ellert B. Schram, þingflokki Samfylkingar, kosinn varaformaður, en auk þeirra er Steingrímur J. Sigfússon, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, aðalmaður Íslandsdeildar. Varamenn eru Birgir Ármannsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Árni Páll Árnason, þingflokki Samfylkingar, og Kristinn H. Gunnarsson, þingflokki Frjálslynda flokksins. Í upphafi árs var Stígur Stefánsson ritari Íslandsdeildar en Magnea Marinósdóttir tók við í apríl.
    Skipting Íslandsdeildarinnar í nefndir Evrópuráðsþingsins í lok árs 2007 var sem hér segir:

Sameiginleg nefnd með ráðherranefnd: Guðfinna S. Bjarnadóttir
    Til vara: Birgir Ármannsson
Stjórnarnefnd: Guðfinna S. Bjarnadóttir
    Til vara: Birgir Ármansson
Stjórnmálanefnd: Guðfinna S. Bjarnadóttir
    Til vara: Birgir Ármannsson
Laga- og mannréttindanefnd: Ellert B. Schram
    Til vara: Árni Páll Árnason
Jafnréttisnefnd: Steingrímur J. Sigfússon
    Til vara: Kristinn H. Gunnarsson
Efnahags- og þróunarmálanefnd: Guðfinna S. Bjarnadóttir
    Til vara: Birgir Ármannsson
Umhverfis- og landbúnaðarnefnd: Steingrímur J. Sigfússon
    Til vara: Kristinn H. Gunnarsson
Þingskapanefnd: Ellert B. Schram
    Til vara: Árni Páll Árnason
Menningar-, mennta- og vísindanefnd: Guðfinna S. Bjarnadóttir
    Til vara: Birgir Ármannsson
Félags- og heilbrigðismálanefnd: Ellert B. Schram
    Til vara: Árni Páll Árnason
Nefnd um fólksflutninga og málefni flóttamanna: Steingrímur J. Sigfússon
    Til vara: Kristinn H. Gunnarsson


4. Fundir Íslandsdeildar 2007.
    Íslandsdeild hélt þrjá fundi á árinu. Þann 13. febrúar var boðaður fundur til að kjósa nýjan varaformann í stað Kristins H. Gunnarssonar, þann 4. júní var haldinn fundur þar sem formaður og varaformaður nýrrar Íslandsdeildar voru kosnir og 7. júní var fundur haldinn þar sem þingmönnum Íslandsdeildar var skipað í málefnanefndir Evrópuráðsþingsins og umræða um fund Evrópuráðsþingsins 25.–29. júní fór fram. Að lokum hélt Guðfinna S. Bjarnadóttir formaður fund 17. október með fulltrúum líffræðiskorar raunvísindadeildar Háskóla Íslands. Tilefnið var ályktun Evrópuráðsþingsins þar sem varað er við að kenna sköpunarkenninguna sem vísindi í stað þróunarkenningarinnar í skólum.

5. Fundir Evrópuráðsþingsins 2007.
    Þingfundir Evrópuráðsþingsins fara fram í Evrópuhöllinni í Strassborg og eru þeir haldnir fjórum sinnum á ári, að jafnaði í lok janúar, apríl, júní og september. Auk þess kemur stjórnarnefnd Evrópuþingsins saman til funda á milli þinga og afgreiðir mál sem æðsta vald Evrópuráðsþingsins.

Fyrsti fundur Evrópuráðsþingsins.
    Dagana 22.–26. janúar var fyrsti þingfundur Evrópuráðsþingsins árið 2007 haldinn. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Birgir Ármannsson formaður, Kristinn H. Gunnarsson varaformaður og Margrét Frímannsdóttir auk Stígs Stefánssonar ritara.
    Í upphafi þingfundar var René van der Linden endurkjörinn forseti Evrópuráðsþingsins. Í ávarpi sínu til þingsins ræddi hann m.a. áherslur í starfsemi þess á árinu 2007. Sérstök umræða um stöðu mannréttinda og lýðræðis í Evrópu á vorþinginu, sem á að vera árlegur viðburður, voru nýmæli sem hann kynnti. Jafnframt talaði hann um áframhald á herferð Evrópuráðsins gegn dauðarefsingum. Að hans mati hafði aftaka Sadam Husseins snúið almenningsáliti víða um heim gegn slíkum refsingum. Innan Evrópu væru það einungis Rússar sem yrðu að breyta sínum hegningarlögum með fullgildingu viðauka 6 við Mannréttindasáttmála Evrópu til þess að dauðarefsing yrði aflögð í álfunni á friðartímum. Að síðustu ræddi van der Linden um Stofnun ESB um grundvallarréttindi og ítrekaði nauðsyn þess að komið yrði í veg fyrir tvíverknað þannig að hin nýja stofnun seildist ekki inn á starfssvið Evrópuráðsins. Hann gagnrýndi að þau ríki sem yllu mestum erfiðleikum við gerð fjárhagsáætlunar Evrópuráðsins væru þau sömu og tilbúin væru til að verja tugmilljónum evra til að byggja upp nýja stofnun sem mun starfa á svipuðu málefnasviði og Evrópuráðið.
    Mesta hitamál á janúarfundinum var framtíðarstaða Kosovo. Lord Russel-Johnston, skýrsluhöfundur stjórnmálanefndar, lagði fram skýrslu og drög að ályktun um framtíðarstöðu héraðsins. Skýrsluna átti upphaflega að leggja fram á undangengnum haustfundi en hafði verið frestað þar til í janúar vegna meints formgalla á afgreiðslu hennar úr stjórnmálanefndinni. Í drögum að ályktun kom fram að framtíðarstaða Kosovo hefði verið óljós frá því að Sameinuðu þjóðirnar tóku við stjórn svæðisins árið 1999. Íbúar Kosovo væru 2 milljónir og 90% þeirra Albanir sem kalli eftir sjálfstæði Kosovo. Á móti vildu Serbar að Kosovo yrði sjálfstjórnarsvæði innan Serbíu og höfnuðu alfarið hugmyndum um aðskilnað héraðsins frá serbneska ríkinu. Þessi óljósa staða kæmi í veg fyrir félagslegar og efnahagslegar framfarir í Kosovo þar sem ástandið væri mjög bágborið og ótækt til lengdar. Í drögunum sagði að ólíklegt væri að deiluaðilar næðu samkomulagi en sjálfstætt Kosovo væri sú lausn sem helst gæti tryggt varanlegan frið og stöðugleika í héraðinu og á Balkanskaga í heild. Næðist ekki samkomulag kváðu drögin jafnframt á um það að alþjóðasamfélagið gæti þurft að úrskurða um og framfylgja lausn deilunnar ef í nauðir ræki. Martti Ahtisaari, fyrrverandi forseti Finnlands og sérlegur samningamaður Sameinuðu þjóðanna í Kosovo, var gestur Evrópuráðsþingsins. Hann greindi frá áætlun sinni um að leggja tillögur sínar um framtíð héraðsins fyrir deiluaðila 2. febrúar og á grundvelli viðbragða þeirra mundi hann síðan leggja lokaskýrslu sína fyrir öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Ahtisaari gat ekki greint nánar frá stöðu mála en sagði að markmið lausnar í málum Kosovo hlyti að vera fjölmenningarlegt samfélag þar sem ólík þjóðarbrot mundu lifa saman í friði og að réttindi serbneska minni hlutans væru tryggð. Ahtisaari taldi að þörf yrði fyrir uppbyggingarsveitir og friðargæsluliða alþjóðasamfélagsins í Kosovo í mörg ár til viðbótar en sveitir NATO hafa gætt friðar í héraðinu. Hart var deilt um ályktunardrög stjórnmálanefndar og var tímasetningin m.a. gagnrýnd. Álykta ætti um Kosovo beint ofan í serbnesku þingkosningarnar, sem fóru fram 21. janúar og rétt áður en Ahtisaari lagði tillögur sínar fyrir öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Rangt væri að Evrópuráðsþingið mundi taka afstöðu í málefnum Kosovo áður en Sameinuðu þjóðirnar gerðu slíkt. Þá gagnrýndu margir þingmenn orðalag ályktunarinnar um sjálfstætt Kosovo og fjöldi breytingartillagna var lagður fram. Að lokum fór svo að tilvísanir í sjálfstæði Kosovo voru naumlega felldar úr ályktuninni en hins vegar var naumur stuðningur fyrir umdeildu orðalagi um að alþjóðasamfélagið gæti þurft að úrskurða um og setja niður deiluna ef deiluaðilum tækist það ekki.
    Stýring orkuframboðs og orkusölu til að beita pólitískum þrýstingi var til umræðu á þinginu. Orkuöryggi hefur verið fyrirferðarmikið í almennri öryggismálaumræðu undanfarið. Umræðan snýr að því að tryggja öryggi orkulinda, orkuframboð, orkudreifingarkerfi, samgönguæðar til orkuflutninga o.s.frv. Aðgerðir Rússlands gegn Úkraínu í janúar 2006 þegar skyndilega var lokað fyrir útflutning á rússnesku gasi vöktu athygli fyrir það hvernig ríki þar sem orkugeirinn er að mestu í ríkiseign geta notað orkuútflutning sem pólitískt vopn. Nýlegar deilur Rússlands og Hvíta-Rússlands um olíuviðskipti milli ríkjanna höfðu enn frekar vakið áhyggjur víða í Evrópu sem er mjög háð orkukaupum frá Rússlandi. Í umræðunni kom fram að eining væri innan stjórnmálanefndar þingsins um að óásættanlegt væri að ríki notuðu orkusölu í pólitískum tilgangi. Í ályktun þingsins var hvatt til að komið yrði á stöðugu orkukerfi í Evrópu sem byggðist á gagnkvæmum skuldbindingum, langtímasamningum og gagnsæjum samkeppnisreglum. Þá var lýst stuðningi við yfirstandandi vinnu ESB við mótun nýrrar orkustefnu. Lýst var áhyggjum af einokunarstöðu Gazprom á rússneskum orkumarkaði og kallað eftir því að Rússland fullgilti alþjóðlega orkumálasáttmálann (e. Energy Charter Treaty).
    Brýn utandagskrárumræða (e. urgent procedure debate) fór fram um ógnir sem steðja að lífi og tjáningarfrelsi blaðamanna. Bakgrunnur umræðunnar var morð á tyrknesk-armenska blaðamanninum Hrant Dink og rússnesku blaðakonunni Anna Politkovskaya. Þingið áréttaði mikilvægi 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu um verndun fjölmiðlafrelsis í Evrópu og hvatti þjóðþing aðildarríkjanna til að hefja rannsókn á óupplýstum árásum, hótunum og morðum á blaðamönnum og grípa til aðgerða til að tryggja öryggi þeirra.
    Önnur utandagskrárumræða (e. current affairs debate) fór fram um svokallaðan viðauka 14 við mannréttindasáttmála Evrópu sem snýr að umbótum á starfsemi Mannréttindadómstóls Evrópu. Fjölgun aðildarríkja Evrópuráðsins eftir lok kalda stríðsins hefur leitt af sér gríðarlega fjölgun mála sem vísað er til dómstólsins en nú bíða um 90 þúsund mál þess að verða tekin fyrir. Fyrir sex árum var samþykkt að setja af stað umbótaferli. Sérfræðinganefnd var sett á fót til að gera tillögur um nauðsynlegar úrbætur á starfsemi Mannréttindadómstólsins. Niðurstaða þeirrar vinnu var viðauki 14 sem kveður á um ný vinnubrögð hjá dómstólnum til að fækka þeim kærumálum sem vísað er til hans. Haustið 2006 höfðu öll aðildarríki Evrópuráðsins fullgilt viðaukann nema Rússland en í desember brá svo við að fullgildingar var synjað í atkvæðagreiðslu í neðri deild rússneska þingsins, dúmunni. Í umræðunni lögðu rússneskir þingmenn Evrópuráðsþingsins áherslu á að margir þingmenn dúmunnar hefðu setið hjá því þeim var ekki fyllilega ljóst hverjar afleiðingar viðaukans væru. Viðaukinn væri enn til meðhöndlunar í dúmunni. Landsdeild Rússlands á Evrópuráðsþinginu ynni að því að afla viðaukanum stuðnings og sögðust þingmenn vongóðir um að hægt yrði að greiða atkvæði um hann aftur innan tíðar og fá hann samþykktan.
    San Marínó tók við formennsku ráðherranefndar Evrópuráðsins um áramótin og gegndi henni fram á vor. Fiorenzo Stolfi, utanríkisráðherra landsins, ávarpaði þingfundinn og gerði grein fyrir helstu áherslumálum í formennsku San Marínó. Forgangsmál væri að fá viðauka 14 samþykktan til þess að tryggja skilvirkni mannréttindasáttmála og Mannréttindadómstóls Evrópu. Önnur forgangsmál væru annars vegar samband Evrópuráðsins og Evrópusambandsins og hins vegar samræður á milli menningarheima.
    Af öðrum málefnum sem rædd voru á Evrópuráðsþinginu má m.a. nefna alnæmi og aðgerðir til þess að hefta útbreiðslu sjúkdómsins meðal barna og ungra kvenna í Evrópu, notkun ólöglegs vinnuafls í landbúnaði og réttindaleysi þess, og ofbeldi gegn börnum og aðgerðir til þess að vernda börn gegn ofbeldi og misnotkun.
    Eftirfarandi tignargestir ávörpuðu m.a. þingfundinn: Bartólómeó I. patríarki af Istanbúl; Karólína prinsessa af Hannóver, forseti heimssamtakanna vinir barnsins; Guy Verhofstadt, forsætisráðherra Belgíu; Martti Ahtisaari, fyrrverandi forseti Finnlands og sérlegur samningamaður Sameinuðu þjóðanna í Kosovo; og Kostas Karamanlis, forsætisráðherra Grikklands.

Annar fundur Evrópuráðsþingsins.
    Dagana 16.–20. apríl fór vorfundur Evrópuráðsþingsins fram í Strassborg. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Dagný Jónsdóttir og Guðrún Ögmundsdóttir, sem varamaður fyrir Margréti Frímannsdóttur, auk Magneu Marinósdóttur ritara.
    Sérstakur þemadagur og umræða um stöðu mannréttinda og lýðræðis í Evrópu og útkoma fyrstu ársskýrslu Evrópuráðsþingsins var það sem bar hæst á vorfundinum. Í tilefni þemadagsins fluttu m.a. forsvarsmenn mannréttindasamtakanna Amnesty International og Human Rights Watch ávörp.
    Skýrslan og umræðan um stöðu mannréttinda og lýðræðis í Evrópu var liður í því að minna á stöðu og hlutverk Evrópuráðsins. Stóð sú umræða í beinu sambandi við umræðu um Stofnun ESB um grundvallarréttindi og drög að samkomulagi milli Evrópuráðsins og Evrópusambandsins (ESB) um verkaskiptingu milli þeirra. Stofnun ESB um grundvallarréttindi tók til starfa 1. mars og hefur þingið ítrekað lýst yfir áhyggjum þess efnis að verkefnasvið hinnar nýju stofnunar og ráðsins mundu skarast þrátt fyrir yfirlýsingar ESB um hið gagnstæða. Kom fram í máli forseta Evrópuráðsþingsins, René van der Linden, að þau 27 ríki sem eiga aðild bæði að Evrópuráðinu og ESB ynnu að hagsmunum Evrópusambandsins á kostnað Evrópuráðsins. Máli sínu til stuðnings vísaði hann til þess að 30 milljónir evra hafi verið settar í rekstur hinnar nýju stofnunar ESB á sama tíma og verið væri að skerða framlög til Evrópuráðsins. Þetta ætti ekki síst við um þingið sem á síðasta fjárhagsári fékk úthlutað um 15 milljónum evra. Auk þess væri Mannréttindadómstóll Evrópu í fjárhagsþröng, sem þau 90 þúsund mál sem bíða afgreiðslu dómstólsins eru m.a. til vitnis um. Forsetinn benti á að reynt hefði verið að rétta þann halla af með því að skera niður til þingsins. Sá niðurskurður væri hins vegar farinn að vega að grundvallarstarfsemi þingsins og getu þess til að ráða hæft starfsfólk. Þegar svo væri komið yrði að réttlæta frekari niðurskurð með málefnalegum hætti. Á sameiginlegum fundi stjórnarnefndar þingsins og ráðherranefndarinnar benti þýski sendiherrann á að hluti vandans væri að fjárframlög til Evrópuráðsins væru á könnu utanríkisráðuneyta en verkefni ráðsins væru hins vegar að meiri hluta til á verkefnasviði annarra ráðuneyta, t.d. dóms- og félagsmálaráðuneyta. Ávinningur af starfi Evrópuráðsins væri því utanríkisráðuneytum ekki eins sýnilegur og síðarnefndu ráðuneytunum. Fiorenzo Stolfi, utanríkisráðherra San Marínó og formaður ráðherranefndarinnar, hafði beint þeim tilmælum til þingsins að hreyfa helst ekki við texta samningsdraganna þar sem hann væri afrakstur tveggja ára samningaviðræðna. Tilmæli formanns ráðherranefndarinnar voru harðlega gagnrýnd af þinginu og bent á að með því að óska eftir áliti í orði en ekki á borði væri ráðherranefndin að vega að hlutverki og virðingu þingsins. Einnig var bent á að beiðni ráðherranefndarinnar um álit þingsins væri sú fimmta í röðinni og að í hvert sinn væri um nýjan texta að ræða. Forsetinn fór fram á að tekið yrði tillit til breytingartillagna þingsins að þessu sinni. Að öðrum kosti yrði samþykkt að sendinefnd frá þinginu annars vegar og ráðherranefndinni hins vegar mundu hittast og ná samkomulagi um drögin fyrir næsta fund Evrópuráðsins og ESB þann 26. apríl næstkomandi. Breski sendiherrann var meðal þeirra sem var mótfallinn hugmynd forsetans og taldi að hlutverki þingsins væri lokið. Niðurstaða fundarins varð hins vegar sú að formaður ráðherranefndarinnar bauð samráð við forseta þingsins. Að lokum hvöttu þingmenn hver annan til að vekja máls á stöðu Evrópuráðsþingsins heima fyrir og fóru fram á það við sendiherrana að koma áhyggjum af stöðu mála áleiðis.
    Forsætisráðherra Úkraínu, Viktor Janúkóvitsj, ávarpaði þingið á öðrum degi. Tekið var fram að heimsókn hans hefði verið ákveðin löngu áður en stjórnlagakreppan skall á í heimalandi hans 2. apríl en þá leysti forseti landsins, Viktor Júsjenkó, þingið upp með forsetaskipun og boðaði til kosninga 27. maí. Í brýnni utandagskrárumræðu kom fram að stjórnlagakreppan væri áfall fyrir þá sem bundu miklar vonir við kosningarnar árið 2006 í kjölfar appelsínugulu byltingarinnar svonefndu. Ekki væri hægt að segja um hver bæri sökina á núverandi ástandi, en meiri hluti þings og ríkisstjórn Úkraínu hafa haldið því fram að forsetaskipunin sé brot á stjórnarskrá landsins. Í kjölfarið var málinu vísað til stjórnlagadómstóls landsins. Afstaða Evrópuráðsþingsins var sú að styðja það að málinu yrði vísað til stjórnlagadómstóls landsins og jafnframt var lagaleg ráðgjöf Feneyjanefndar Evrópuráðsins boðin. Þingmenn voru flestir sammála þessari afstöðu Evrópuráðsþingsins, að nokkrum undanskildum sem bentu á að stjórnlagadómstóllinn væri spilltur og hliðhollur forsetanum, hefði verið óstarfhæfur síðastliðna 18 mánuði og að meiri hluti landsmanna vantreysti honum. Stjórnlagadómstóllinn væri því ekki í stakk búinn til að skera úr um í málinu, ekki síst í ljósi þess takmarkaða tíma sem væri til stefnu fyrir boðaðar aukakosningar. Forsetaskipunin gilti samkvæmt stjórnarskránni og eina skynsamlega og réttmæta leiðin væri því að halda kosningar og láta kjósendur ákvarða um málið. Skilaboðin frá Evrópuráðsþinginu voru eftir sem áður þau að málið yrði að leysa af stjórnlagadómstólnum og aðstoð Feneyjanefndarinnar áréttuð.
    Svissneski þingmaðurinn og formaður laga- og mannréttindanefndar Evrópuþingsins, Dick Marty, var upphafsmaður utandagskrárumræðu um hörmungarástandið í Darfur-héraði í Súdan. Kallaði hann eftir afstöðu Evrópuráðsþingsins. Áheyrnarfulltrúi Kanada, Goldstein, setti fram tillögur um aðgerðir, m.a. þá að þjóðir heims mundu sniðganga Ólympíuleikana í Kína árið 2008, en Kína er stærsti erlendi olíuvinnsluhafinn í Súdan.
    Drögum að sáttmála Evrópuráðsins um verndun barna gegn kynferðislegu ofbeldi og misnotkun var fagnað sem miklu framfaraskrefi. Athugasemdir voru hins vegar gerðar við undanþágur sem ríki geta fengið áður en þau fullgilda sáttmálann með lögum. Drögin voru síðasta mál á dagskrá á lokadegi þingsins og kom fram gagnrýni á það á þingfundinum hversu seint málið var á dagskrá í ljósi mikilvægis þess og hversu fámennt var í þingsalnum. Í málsvörn sinni benti forseti þingsins á að öll mál væru jafnmikilvæg óháð því hvar þau væru sett á dagskrá og benti einnig á að fyrirvarinn, sem þinginu var gefinn af ráðherranefndinni til að veita álit sitt, hefði verið skammur.
    Laga- og mannréttindanefnd lagði fram tillögu um undanþáguheimild að settum ströngum skilyrðum frá þeirri reglu að framboðslistar til Mannréttindadómstóls Evrópu væru skipaðir a.m.k. einum frambjóðanda af því kyni sem væri í minni hluta í dómstólnum, þ.e. konum. Tillagan kom í kjölfar þess að Malta hafði í tvígang skilað lista eingöngu með nöfnum karlkynsframbjóðenda. Nokkur umræða spannst um málið. Þingmenn bentu á að slík undanþága gæti skapað slæmt fordæmi. Það væri heldur ekki réttlætanlegt að veita slíka undanþágu þegar ríki er heimilt að skipa á lista sinn kvenkynsframbjóðanda frá öðru ríki en sínu eigin að uppfylltum hæfnisskilyrðum ef ekki finnst hæfur kvenkynsframbjóðandi í heimalandinu. Tillagan um undanþáguna var felld í samræmi við álit jafnréttisnefndar.
    Í umræðu um aðildarumsókn Svartfjallalands að Evrópuráðinu var henni fagnað og mælt með því að ráðherranefndin mundi bjóða Svartfjallalandi að verða 47. aðildarríki Evrópuráðsins. Svartfjallaland hefur reyndar verið aðildarríki síðan árið 2003 en sem hluti af sambandsríkinu Serbíu-Svartfjallalandi. Í framsögum á þinginu var vísað í þann sterka vilja sem stjórnvöld og stjórnmálaflokkar í Svartfjallalandi þóttu hafa sýnt til að koma til móts við tilmæli Evrópuráðsins á sviði mannréttinda, lýðræðis og réttarfars. Sérstaklega var tekið fram samþykki stjórnvalda í Svartfjallalandi fyrir að innleiða sjö meginreglur í stjórnarskrá landsins, sem enn er í smíðum, að tillögu Evrópuráðsins. Þingmenn frá Serbíu samglöddust Svartfellingum en bentu á mikilvægi þess að vernda réttindi þjóðernisminnihluta með vísan í serbneska minni hlutann, sem er um 30% íbúa Svartfjallalands. Að lokinni umræðu flutti forseti löggjafarþings Svartfjallalands, Ranko Krivopapic, stutt ávarp þar sem hann þakkaði veittan stuðning og hlýhug.
    Í umræðu um skýrslu eftirlitsnefndar þingsins um framfylgni Aserbaídsjan við skuldbindingar sínar sem aðildarríkis Evrópuráðsins var bent á að því miður féllu mörg framfaraskref í skuggann af því sem ámælisvert væri. Tilvist samviskufanga í landinu, einkum úr röðum stjórnarandstæðinga og fréttamanna, var nefnd sérstaklega. Þingið fagnaði því að einn fulltrúi stjórnarandstöðunnar væri í sendinefnd Aserbaídsjan að þessu sinni en gagnrýndi samtímis að annar hefði ekki komist á þingið þar sem hann fékk ekki útgefið vegabréf til fararinnar.
    Í brýnni utandagskrárumræðu um stöðu mála í Miðausturlöndum buðu fulltrúar löggjafarþings Palestínu Evrópuráðsþinginu að koma að lausn deilunnar. Einungis ríkisstjórn Noregs hefur tekið upp hefðbundið stjórnmálasamband við heimastjórn Palestínumanna eftir að Hamas-hreyfingin komst til valda. Norskir þingmenn hvöttu önnur ríki til að gera slíkt hið sama. Talsmenn Ísraels bentu á að erfitt væri að ná saman um tveggja ríkja lausn á meðan Hamas væri í stjórn og héldi sig við þá yfirlýstu stefnu sína að neita tilvistarrétti heimalands gyðinga, Ísrael.
    Önnur mál sem voru tekin til umræðu voru m.a. um réttláta málsmeðferð meintra njósnara og uppljóstrara ríkisleyndarmála; framleiðslu og sölu vörueftirlíkinga, þ.m.t. á lyfjum, sem í auknum mæli eru orsök ótímabærra dauðsfalla, og var kallað eftir gerð alþjóðlegs sáttmála til að taka á því vandamáli; og verklagsreglur fyrir stjórnmálaflokka, sem nokkrum þingmönnum fannst bera vott um forræðishyggu þar sem stjórnmál snerust um innihald en ekki form.
    Eftirfarandi tignargestir ávörpuðu m.a. þingfundinn: Ranko Krivokapic, forseti löggjafarþings Svartfjallalands; Viktor Janúkóvitsj, forsætisráðherra Úkraínu; Fiorenzo Stolfi, utanríkisráðherra San Marínó; Louise Arbour, mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna; Thomas Hammarberg, mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins; Jean-Paul Costa, forseti Mannréttindadómstóls Evrópu; Irene Khan, framkvæmdastjóri Amnesty International; og Kenneth Roth, framkvæmdastjóri Human Rights Watch.

Þriðji fundur Evrópuráðsþingsins.
    Dagana 25.–29. júní fór sumarfundur Evrópuráðsþingsins fram í Strassborg. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Guðfinna Bjarnadóttir formaður, Ellert B. Schram varaformaður og Steingrímur J. Sigfússon auk Magneu Marinósdóttur ritara.
    Alls voru 19 mál tekin til umræðu og afgreidd á fundi Evrópuráðsþingsins. Önnur skýrsla svissneska þingmannsins, Dick Marty, um hlutdeild aðildarríkja Evrópuráðsins í leynilegum aðgerðum bandarísku leyniþjónustunnar CIA (e. Central Intelligence Agency) á sviði hryðjuverkavarna var það mál sem bar hæst.
    Fyrsta skýrsla þingmannsins sem gefin var út 12. júní 2006 greindi frá meintu ólöglegu fangaflugi bandarísku leyniþjónustunnar með grunaða hryðjuverkamenn innan lofthelgi aðildarríkja Evrópuráðsins. Í framsögu skýrsluhöfundar kom fram að tilvist fangaflugsins hefði að hluta til verið staðfest af forseta Bandaríkjanna í september 2006 þegar hann gerði opinbert að bandarísk stjórnvöld hefðu í haldi meinta hryðjuverkamenn (e. high-value detainees). Önnur skýrslan fjallaði um áfangastaði fangaflugsins – hvert hinir meintu hryðjuverkamenn voru fluttir og hafðir í haldi á árunum 2002–2005. Í skýrslunni segir að þeim hafi verið haldið í leynifangelsum bandarísku leyniþjónustunnar í Póllandi og Rúmeníu. Bandarísk stjórnvöld höfðu áður neitað tilvist slíkra fangelsa, að því er kom fram í máli þingmannsins, sem útilokaði ekki að slík fangelsi væri víðar að finna. Þingmenn frá Póllandi og Rúmeníu vísuðu á bug öllum ásökunum. Þeir héldu fram skorti á sönnunum og gagnrýndu að skýrsluhöfundur hefði afþakkað boð stjórnvalda um að kynna sér mál frá fyrstu hendi. Andsvar skýrsluhöfundar var að heimsókn hefði þjónað litlum tilgangi þar sem spurningum sem hann sendi stjórnvöldum hefði aldrei verið svarað. Skýrsluhöfundur gerði síðan sérstaka grein fyrir aðferðafræðinni við gerð skýrslunnar vegna mikilvægis aðferðafræði við gagnasöfnun fyrir alhæfingargildi skýrslunnar. Mikil umræða varð að lokum um þátt NATO. Í skýrslunni kom m.a. fram að áætlun um varnir gegn hryðjuverkum, sem lögð var fram af bandarískum stjórnvöldum til samþykktar á fundi 4. október árið 2001 hjá Norður-Atlantshafsráðinu, æðsta stjórnvaldi NATO, hafi veitt bandarísku leyniþjónustunni það svigrúm sem nauðsynlegt var til að geta rekið leynifangelsi. Skýrsluhöfundur benti sérstaklega á að samþykktin hefði ekki gert ráð fyrir sameiginlegum varnaraðgerðum í anda 5. gr. stofnsáttmála NATO heldur einhliða aðgerðum. Samþykkt Norður-Atlantshafsráðsins er trúnaðarskjal sem skýrsluhöfundi var neitað um aðgang að. Skýrslan styðst þess í stað við opinbera yfirlýsingu framkvæmdastjóra NATO en samkvæmt lagalegum ráðgjafa bandalagsins og vitnað er til í skýrslunni inniheldur yfirlýsingin ekki allar þær ákvarðanir sem teknar voru á fundi Norður- Atlantshafsráðsins umræddan dag.
    Hlutdeild NATO auk leyndarinnar um áætlunina í krafti trúnaðarreglna hjá stofnuninni olli mikilli umræðu á þinginu þar sem Steingrímur J. Sigfússon tók m.a. til máls. Taldi hann mikilvægt að fylgja skýrslunni eftir með aðgerðum, ekki síst í ljósi upplýsinga um NATO- samþykktina. Gagnrýndi Steingrímur NATO-ríkin fyrir að neita öllum ásökunum um meint fangaflug og fangelsi og viðhalda leynd um stöðu mála. Engin afsökun væri til fyrir því að starfa ekki í samræmi við alþjóðasáttmála um mannréttindi og mannúðarlög. Almennt var skýrslunni fagnað sem lið í því að tryggja virðingu fyrir mannréttindum í baráttunni gegn hryðjuverkum. Bent var á að Bretar beittu ekki sömu aðferðum og bandarísk stjórnvöld hafa verið sökuð um. Fordæmdi þingið aðferðir sem fælu í sér mannréttindabrot og græfu undan réttarríkinu í stað þess að standa vörð um það enda jafngiltu slíkar aðferðir sigri hermdarverkamanna.
    Í ávarpi aðalsaksóknara Alþjóðlega stríðsglæpadómstólsins vegna fyrrum Júgóslavíu, Carla Del Ponte, kom fram að 48 manns hefðu hlotið dóm fyrir stríðsglæpi, glæpi gegn mannkyni og/eða þjóðarmorð frá stofnun dómstólsins. Dómstóllinn mun ljúka störfum árið 2010 og ekki verður réttað í öðrum málum en þeim sem koma til afgreiðslu hans fyrir árslok 2008. Saksóknarinn taldi það mjög alvarlegt mál að meðal meintra stríðsglæpamanna sem enn gengju lausir væru þeir sem talið er að beri ábyrgð á verstu þjóðernishreinsunum eftir lok seinni heimstyrjaldar – þeim ódæðum sem framin voru árið 1995 í Srebrenica. Þeir sem um ræðir eru Ratko Mladicz, hershöfðingi þjóðernissinnaðra Serba í Bosníu (her lýðveldis Serba, Srpska), og Radovan Karadzic, stjórnmálaleiðtogi þeirra. Skoraði aðalsaksóknarinn á serbnesk stjórnvöld að vera samvinnuþýðari og hvatti alþjóðasamfélagið til þess að halda áfram þrýstingi sínum á ríki fyrrum Júgóslavíu. Í máli þingmanna frá Serbíu kom m.a. fram að margir teldu að dómstóllinn hefði verið settur á stofn til höfuðs Serbum. Sá þrýstingur sem Serbía væri beitt, sér í lagi frá ESB, væri talinn ósanngjarn þar sem ábyrgð á handtöku meintra strípsglæpamanna væri ekki eingöngu Serbíu heldur einnig Bosníu, Bandaríkjanna og NATO. Ef réttlætanlegt væri að refsa Serbíu fyrir að finna ekki Mladicz þá ætti að refsa Bandaríkjunum fyrir að finna ekki Osama bin Laden. Auk þess hefði því verið heitið af hálfu bandarískra stjórnvalda við undirritun Dayton-samkomulagsins að Karadzic mundi njóta friðhelgi.
    Næst tók til máls yfirmaður Flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna í tilefni umræðu um stöðu hálfrar milljónar flóttamanna í Suðaustur-Evrópu. Var hann sammála áliti skýrsluhöfundar þess efnis að viðvarandi lausn á flóttamannavandanum væri fyrst og fremst pólitískt viðfangsefni en ekki á ábyrgð stofnana eins og Flóttamannaaðstoðarinnar að leysa einar og sér. Hvatti hann stjórnvöld til að vinna að úrlausn í málum flóttamanna.
    Í umræðu um ályktanir sem sneru að landbúnaði, fæðuöryggi og Félagsmálasáttmála Evrópuráðsins kom fram ákveðinn samhljómur um nauðsyn félagslegrar alþjóðavæðingar. Yfirmaður Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, Jacques Diouf, og kanslari Austurríkis, Alfred Gusenbauer, töldu að stefnumótun alþjóðlegra efnahagsstofnana, ekki síst stefnumótun í landbúnaðarmálum og reglur um aðgang að alþjóðamörkuðum, þyrfti að taka mið af mannréttindum og félagslegu réttlæti. Rétturinn til lífs væri grundvallarréttur og þar með fæðuöryggi. Sérstaklega var rætt um Alþjóðaviðskiptastofnunina og Alþjóðabankann í þessu sambandi. Kanslari Austurríkis mælti með því að þingmannasamkundur væru settar á fót innan þessara stofnana, auk Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Sameinuðu þjóðanna. Svipuð áhersla kom fram í umræðu um Félagsmálasáttmála Evrópu. Evrópuráðið hefði verið fyrsta fjölþjóðlega stofnunin sem gerði sáttmála sem hefði það að markmiði að koma í veg fyrir að alþjóðavæðing græfi undan félagslegum réttindum í Evrópu eða ylli félagslegri upplausn í löndum þar sem hagvöxtur væri hraður. Félagsleg ábyrgð fyrirtækja væri mikilvæg í þessu sambandi og aðkallandi verkefni að auka vitund og þekkingu á Félagsmálasáttmála Evrópu. Sú tillaga kom fram að stofnaður yrði vinnuhópur sem hefði það hlutverk að fylgjast með framfylgni sáttmálans. Einnig að Evrópuráðið ynni með Alþjóðavinnumálastofnuninni að gerð alþjóðlegra reglna um félagsleg réttindi þar sem sáttmálinn væri hafður að leiðarljósi ásamt norrænum lögum og reglum sem þykja til fyrirmyndar.
    Jean Lemierre, forseti Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu, ávarpaði þingið í tilefni af umræðu um starf bankans í Austur- og Suðaustur-Evrópu. Meðal annars var rætt um samvinnu bankans og Evrópuráðsins við lýðræðisuppbyggingu. Samvinnan byggist á kerfi gagnkvæmra skuldbindinga bankans og Evrópuráðsins annars vegar og viðtökulandsins hins vegar þar sem stjórnvöld í viðtökulandi skuldbinda sig til að tryggja tiltekin lýð- og mannréttindi gegn því að fá stuðning bankans. Jafnframt kom fram að undanfarin ár hefur bankinn í auknum mæli beint sjónum sínum til Mið-Asíu eins og aðrar alþjóðastofnanir. Í upphafi árs 2006 hóf bankinn einnig átak sem miðar að því að auka fjárfestingar í grænni orku og tækni þar að lútandi en alls eru 27 ríki háð jarðefnaeldsneyti frá Rússlandi. Um 18% af núverandi fjárfestingum bankans hefur verið varið í sjálfbæra orkugeirann í samanburði við 5% fyrir tveimur árum. Samvinna bankans og Evrópuráðsins þykir til fyrirmyndar og kom fram almenn ánægja og stuðningur við aðgerðir bankans sem undanfarin tvö ár hefur skilað hagnaði.
    Hans-Gert Pöttering, forseti Evrópuþingsins, ávarpaði þingið og lýsti m.a. yfir stuðningi við tillögu forseta Evrópuráðsþingsins, René van der Linden, um að undirrita formlegt samkomulag um samvinnu þessara tveggja þinga svipað því og undirritað var 23. maí á milli Evrópuráðsins og Evrópusambandsins.
    Steingrímur J. Sigfússon fjallaði um ályktun um ímynd kvenna í auglýsingum fyrir hönd flokkahóps vinstrimanna í þinginu. Fagnaði hann ályktuninni sem einu skrefi af mörgum í jafnréttisbaráttu kynjanna. Því miður væri of mikið um auglýsingar sem væru niðurlægjandi fyrir konur, en í ályktuninni er gagnrýnt hvernig auglýsingar viðhalda einhæfri ímynd af konum sem kynverum sem sé á skjön við veruleikann og ýti undir vanvirðingu og ofbeldi gagnvart konum.
    Brýn utandagskrárumræða var á þinginu um varnir gegn árásum á tölvu- og upplýsingakerfi (e. cybercrime). Tilefnið voru árásir á upplýsinga- og tölvukerfi ríkisstofnana, fjölmiðla og póst- og fjármálastofnana í Eistlandi í apríl og maí. Árásirnar voru mjög vel skipulagðar og sýndu með óyggjandi hætti hvernig hægt er að skapa glundroða og ógna þjóðaröryggi ríkis á upplýsingaöld en slíkar árásir er hægt að skipuleggja á skömmum tíma hvaðanæva úr heiminum. Árið 2001 var gerður Evrópusamningur um varnir gegn slíkum árásum. Gekk hann í gildi árið 2004 en eingöngu 21 ríki hefur fullgilt hann, þ.m.t. Bandaríkin, Japan og Suður-Afríka, en ríki utan Evrópuráðsins er heimilt að gerast aðili að samningum enda kalla varnir gegn slíkum árásum og rannsókn þeirra á alþjóðlega samvinnu. Skýrsluhöfundur hvatti ríki til að gerast aðilar sem fyrst. Kom fram í umræðunni að sérfræðinganefnd um hryðjuverk væri að rannsaka árásina í Eistlandi. Niðurstöður þeirrar rannsóknar mundi leiða í ljós hvort uppfæra þyrfti samninginn til að geta mætt þeim áskorunum sem við er að eiga.
    Eftirfarandi tignargestir ávörpuðu þingfundinn: Vuk Jeremic, utanríkisráðherra Serbíu og formennskuríkis Evrópuráðsins; Alfred Gusenbauer, kanslari Austurríkis; Jacques Diouf, yfirmaður Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna; Hans-Gert Pöttering, forseti Evrópuþingsins; Jean Lemierre, forseti Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu; António Guterres, yfirmaður Flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna; og Carla Del Ponte, aðalsaksóknari Alþjóðlega stríðsglæpadómstólsins vegna fyrrum Júgóslavíu.

Fjórði fundur Evrópuráðsþingsins.
    Dagana 1.–5. október fór fjórði þingfundur Evrópuráðsþingsins fram í Strassborg. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Guðfinna Bjarnadóttir formaður, Ellert B. Schram varaformaður og Kristinn H. Gunnarsson sem varamaður Steingríms J. Sigfússonar, auk Magneu Marinósdóttur ritara.
    Í upphafi fundar var gerð grein fyrir niðurstöðum kosningaeftirlits Evrópuráðsþingsins í Tyrklandi og Kasakstan. Kosningaþátttaka í Tyrklandi var tæplega 85% og þóttu kosningarnar hafa farið mjög vel fram. Óháð framkvæmd kosninganna var gagnrýnt að stjórnmálaflokkar ættu ekki möguleika á þingsæti nema þeir hlytu 10% atkvæða á landsvísu sem er langt fyrir ofan viðmið Evrópuráðsins sem telur 3– 5% þröskuld vera hámark. Kasakstan er ekki aðildarríki Evrópuráðsins en sótti um áheyrnaraðild árið 1999. Þingkosningarnar þar í landi þóttu að skipulagi og framkvæmd hafa tekið framförum frá árinu 2004. Það sem er hins vegar talið hamla lýðræðinu í landinu almennt er hversu víðtækar valdheimildir forseta landsins eru á kostnað annarra lýðræðislegra stofnana. Stjórnarskrárbreytinga sé þörf til að leiðrétta þann halla.
    Nokkurs konar þema þingsins voru fólksflutningar innan ramma hins alþjóðlega hagkerfis og samspil þeirra við mannréttindi og félagsleg réttindi. Framkvæmdastjóri Alþjóðafólksflutningastofnunarinnar (e. International Organization for Migration, IOM), Brunson McKinley, og framkvæmdastjóri Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD), Angel Gurría, fögnuðu skýrslum þingsins um þessi mál. Í umræðunni kom fram að OECD hefur í auknum mæli beint sjónum sínum að samspili alþjóðlegra fólksflutninga og hagvaxtar. Stofnunin hefur hvatt ríki til að draga úr hömlum á fólksflutningum milli landa með það að markmiki að auka sveigjanleika á vinnumarkaði til að mæta eftirspurn. Ólögleg búseta og atvinnuþátttaka fólks í Evrópu var rædd í þessu sambandi. Fjöldinn allur af ólöglegum innflytjendum, eða um 13,5 milljón manns að því talið er, hefur hvorki réttindi né skyldur annarra þjóðfélagsþegna þrátt fyrir búsetu og þátttöku á vinnumarkaði í löndum Evrópu til fjölda ára. Sá mikli fjöldi réttindalauss fólks er af mörgum talið vera öfugmæli í ljósi mikillar eftirspurnar á vinnumarkaði innan Evrópusambandsins (ESB), eða um 20 milljón manns næstu tíu árin samkvæmt spám ESB. Hugmyndir um fólksflutningareglugerðarkerfi sem tæki á málum í samræmi við ástæður þess að fólk flyst á milli landa og mannréttindi voru kynntar í þessu sambandi og stofnun móttökustöðva (e. transit and processing centers) innan Evrópu, eða löndum ESB til að byrja með. Einnig komu svonefndir hringfólksflutningar (e. circular migration) til tals. Það hugtak felur í sér að fólk geti fengið tímabundið dvalar- og atvinnuleyfi óháð þeim tíma sem viðkomandi leyfishafi dvelur við störf í öðru landi en sínu heimalandi. Með því megi slá tvær flugur í einu höggi, þ.e. mæta eftirspurn á vinnumarkaði og gera fólki kleift að vinna löglega í öðru landi en heimalandi sínu og jafnvel í fleira en einu landi. Samtímis felur hugtakið í sér að fólk snúi að lokum aftur til síns heima í stað þess að taka upp varanlega búsetu í öðru landi. Í umræðunni kom einnig fram nauðsyn þess að tryggja og vernda mannréttindi og félagsleg réttindi á tímum alþjóðlegra fólksflutninga. Vísað var í sveigjanleg félagsleg réttindi (e. flex security) í þessu samhengi eins og er við lýði í Danmörku til að vega upp á móti því að tímabundnir fólksflutningar milli landa grafi undan réttindum á almennum vinnumarkaði.
    Mannréttindadómstóll Evrópu kom mikið við sögu á þinginu vegna kosningar dómara til setu í honum, skýrslu um skyldur aðildarríkja Evrópuráðsins um samvinnu við dómstólinn og vegna brýnnar utandagskrárumræðu um stöðu mála hjá dómstólnum. Kosning 12 dómara fór fram á þinginu. Kjósa átti í 17 sæti en listum fimm ríkja var hafnað og kosningu dómara frá þeim ríkjum frestað til næsta þingfundar eftir að viðkomandi ríki væru búin að leggja fram nýja lista með nöfnum frambjóðenda. Í umræðu um dómstólinn kom fram mikil og hörð gagnrýni á neðri deild rússneska þingsins, dúmuna, sem er eina þjóðþingið sem hefur ekki fullgilt viðauka 14 við Mannréttindasáttmála Evrópuráðsins, en fullgilding rússneska þingsins er forsenda þess að hægt sé að gera endurbætur á starfsemi dómstólsins. Eins og stendur getur dómstólinn ekki sinnt þeim fjölda mála sem bíða afgreiðslu hans, sem eru um 90 þúsund mál, þar af fjöldi mála frá Rússlandi.
    Sumir þingmenn settu umræðuna um dómstólinn í samhengi við val á næsta forseta Evrópuráðsþingsins. René van der Linden mun láta af störfum í janúar 2008 og samkvæmt samkomulagi á milli flokkahópa þingsins átti næsti forseti þingsins að koma úr röðum flokkahóps hægrimanna og hafði flokkahópurinn útnefnt rússneska þingmanninn Mikhail Margelov. Nokkrir þingmenn sögðu að ekki væri hægt að lofa stuðningi við frambjóðendur frá Rússlandi til embættis forseta Evrópuráðsþingsins nema rússneska þingið fullgildi viðaukann. Tveir tignargestir þingsins, Abdullah Gül forseti Tyrklands og Vojislav Kostunica utanríkisráðherra Serbíu hvöttu einnig Rússland til að fullgilda viðaukann.
    Mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins var gestur fundarins. Embættið var stofnað árið 1999. Í lok árs 2008 munu liggja fyrir stöðuskýrslur um ástand mannréttinda í öllum 47 aðildarríkjum ráðsins. Með vísan til framtíðarstarfsemi embættisins greindi hann frá vinnu við aðgerðaáætlun sem mun m.a. fela í sér að embættið stofni til formlegs vinnusambands við umboðsmenn mannréttinda, eins og umboðsmann Alþingis á Íslandi, auk mannréttindasamtaka og stofnana; gefi út skýrslur um ákveðin mannréttindaþemu eins og búseturéttindi í aðildarlöndum Evrópuráðsins; og veiti ráðgjöf um hvernig megi koma til móts við athugasemdir sem komið er á framfæri við stjórnvöld einstakra landa og snúa að mannréttindum eins og misbeitingu lögregluvalds. Kom fram að skrifstofa mannréttindafulltrúa Evrópuráðsins þurfi meira fjármagn til starfsemi sinnar þrátt fyrir að stefna sé að vera áfram fámenn en afkastamikil.
    Í umræðu um ástand mála í Darfur-héraði í Súdan kom fram að það væri ekki síst í verkahring Vesturlanda að reyna að stöðva þær mannlegu hörmungar sem eiga sér stað í héraðinu í ljósi aðkomu Vesturlanda að gerð friðarsamninganna árið 2005 sem bundu enda á átökin milli stjórnarhersins og sveitir uppreisnarmanna í Suður-Súdan. Í þeim friðarsamningum var ákveðið að taka Darfur ekki með í reikninginn þar sem óttast var að slíkt mundi stefna samningunum í tvísýnu. Þess í stað áttu friðarsamningarnir að vera fyrirmynd að sams konar samningum milli stjórnvalda í Súdan og uppreisnarsveita í Darfur. Það gekk ekki eftir heldur braust út það stríð sem enn stendur yfir. Samþykkt var ályktun sem fól í sér nokkurs konar stuðningsyfirlýsingu við friðarviðræður milli stjórnvalda og uppreisnarmanna með milligöngu Sameinuðu þjóðanna og Afríkusambandsins sem fyrirhugað var að mundi hefjast 27. október.
    Hugtakið fyrirbyggjandi stríð (e. preemptive war) og afleiðingar þess fyrir alþjóðakerfið kom einnig til umræðu á þinginu. Skýrsluhöfundur tók fram að hann væri hlynntur verndarskyldunni (e. the responsiblity to protect) þar sem ríki grípa til aðgerða gegn öðru ríki á grundvelli mannúðarsjónarmiða eins og í tilviki þjóðarmorðs. Öðru máli gegni um Íraksstríðið og forsendur þess. Fyrirhugað eldflaugavarnarkerfi Bandaríkjamanna í Evrópu væri áhyggjuefni í þessu sambandi þar sem ríkin, sem munu falla undir kerfið, væru í raun búin að fyrirbyggja gagnárás á sig. Þar með sé kerfið til þess fallið að lækka þröskuldinn fyrir fyrirbyggjandi stríð á við Íraksstríðið. Það sé verulegt umhugsunarefni í ljósi til að mynda spennunnar í samskiptum Bandaríkjanna og Írans.
    Á þinginu var afgreidd ályktun þar sem varað er við að sköpunarkenningin sé kennd sem vísindi í stað þróunarkenningarinnar í skólum á vegum hins opinbera. Guðfinna S. Bjarnadóttir tók til máls sem talskona flokkahóps hægrimanna. Í máli hennar kom fram að hún væri efnislega sammála meginmáli skýrslunnar. Hins vegar væri afstaða hennar sú að vísindasamfélaginu í viðkomandi löndum, fjölmiðlum og stjórnvöldum væri treystandi til að grípa til viðeigandi aðgerða í þeim tilvikum sem varað væri við í skýrslunni. Evrópuráðsþingið væri því ekki rétti vettvangurinn til að álykta um málið. Þess í stað ætti það að einblína á mál sem lúta að grundvallarhlutverki Evrópuráðsþingsins, þ.e. að standa vörð um mannréttindi, lýðræði og meginreglur réttarríkisins.
    Önnur mál á dagskrá voru meðal annars afstaða til vændis en tilgangur skýrslunnar var að kynna mismunandi leiðir sem ríki Evrópuráðsins hafa farið til að eiga við vændi. Stöðuskýrsla um baráttuherferð Evrópuráðsþingsins gegn heimilisofbeldi var einnig kynnt.
    Eftirfarandi tignargestir ávörpuðu fundinn: Filip Vujanovic, forseti Svartfjallalands, Brunson McKinley, framkvæmdastjóri Alþjóðafólksflutningastofnunarinnar, Vojislav Kostunica, forsætisráðherra Serbíu og Vuk Jeremic, utanríkisráðherra Serbíu, en Serbía fer með formennsku í Evrópuráðinu. Báðir ráðherrar fengu margar spurningar um stöðu samningaviðræðna stjórnvalda við leiðtoga Kosovo-Albana. Kom fram í máli þeirra beggja að allar einhliða aðgerðir að hálfu Kosovo-Albana væru brot á alþjóðalögum og yrðu ekki liðnar af serbneskum stjórnvöldum. Ráðherrarnir vöruðu önnur ríki við því að styðja einhliða yfirlýsingu leiðtoga Kosovo-Albana um sjálfstæði héraðsins en samningaviðræðum undir forustu fyrrverandi forseta Finnlands, Martti Ahtisaari, lauk 10. desember án árangurs.
    Abdullah Gül, forseti Tyrklands, greindi frá því hvernig Tyrkland hefur unnið að lagalegum endurbótum í landinu. Að loknu erindi sínu fékk forsetinn spurningar m.a. um stöðu fjölmiðla- og málfrelsis í landinu í ljósi þess að 59 blaðamenn og rithöfundar hafa verið ákærðir og vefgáttir lokaðar að kröfu forsætisráðherra landsins. Forsetinn sagði að málfrelsi væri virt. Blaðamenn yrðu hins vegar að sýna tilhlýðilega virðingu í umfjöllun sinni um menn og málefni en blaðamennirnir eru ákærðir af stjórnvöldum fyrir ærumeiðingar í sinn garð eða stuðning við ofbeldisverk eins og hryðjuverk. Hann benti á að ekki væri um brot á mannréttindum að ræða og að málin færu fyrir óvilhalla dómstóla. Málefni Tyrklands komu aftur til umræðu þegar skýrsla um misbeitingu ærumeiðingarákvæða í lögum leiddu til innri ritskoðunar og hömluðu mál- og ritfrelsi og mikilvægi siðareglna fyrir blaðamenn í stað fangelsisdóma.
    Patríarkinn yfir rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni í Moskvu, öllu Rússlandi og erlendis, Alexis II, sem þekktur er alþjóðlega fyrir friðarboðskap sinn, ávarpaði þingið. Einnig Agung Ladsono, forseti þingsins í Indónesíu og verðandi forseti þingmannasamtaka Asíu en samtökin sækja fyrirmynd sína til Evrópuráðsþingsins. Stendur til að auka samskipti þessara tveggja stofnana í framtíðinni og var forseta Evrópuráðsþingsins, René van der Linden, boðið á næsta aðalfund þingmannasamtaka Asíu sem haldinn var í Teheran í nóvember.

Fundur stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins í Bratislava.
    Þann 23. nóvember var stjórnarnefndarfundar Evrópuráðsþingsins haldinn í Bratislava í Slóvakíu. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Guðfinna S. Bjarnadóttir formaður og Magnea Marinósdóttir, ritari Íslandsdeildar, en alls sátu fundinn formenn 25 af 47 landsdeildum.
    René van der Linden, forseti Evrópuráðsþingsins, og Göran Lindblad varaforseti stjórnuðu fundi. Í upphafi fundar var samþykkt yfirlýsing í tilefni alþjóðadags Sameinuðu þjóðanna þann 25. nóvember um afnám alls ofbeldis gegn konum þar sem skorað er á karlmenn að taka þátt í því að uppræta ofbeldi gegn konum.
    Forseti þingsins í Slóvakíu, Pavol Paska, ávarpaði fundinn og bauð fundarmenn velkomna. Utanríkisráðherra Slóvakíu og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins, Ján Kubis, gerði því næst grein fyrir forgangsverkefnum ráðsins í formennskutíð Slóvakíu. Það er í fyrsta lagi að að efla borgaralegt samfélag. Í öðru lagi að stuðla að gegnsærra og skilvirkara Evrópuráði í samvinnu við aðrar alþjóðastofnanir. Hann greindi frá því að sjötti samráðsfundur Evrópuráðsins og Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu yrði haldinn næsta vor og á fundi sem haldinn yrði 16.–17. maí yrði endurskoðun samstarfssamnings Evrópuráðsins og Evrópusambandsins á dagskrá. Í þriðja lagi mun verða unnið að því að auka virðingu fyrir mannréttindum, lýðræði og meginreglum réttarríkisins og efla Mannréttindadómstól Evrópu. Ráðherrann greindi frá því að til stæði að opna upplýsingaskrifstofu Evrópuráðsins í Hvíta- Rússlandi og lagði mikla áherslu á að styrkja Mannréttindadómstólinn, sem væri mikilvægasta stofnun ráðsins fyrir þegna aðildarlanda Evrópuráðsins. Til greina kæmi að ganga á varasjóð Evrópuráðsins til að auka fjárheimildir til hans. Forseti Evrópuráðsþingsins lagði áherslu á að fjárhagur hverrar stofnunar Evrópuráðsins fyrir sig, þ.e. ráðherranefndarinnar, þingsins og dómstólsins, væri aðskilinn ólíkt því sem nú væri til að koma í veg fyrir að fjárhagsvandi Mannréttindadómstólsins væri leystur með því að skerða framlög til þingsins.
    Eftir afgreiðslu kjörbréfa nýrra þingmanna Evrópuráðsþingsins og breytinga í einstökum landsdeildum og nefndum Evrópuráðsþingsins flutti Hanne Severinsen skýrslu þingsins um kosningaeftirlit í Úkraínu 30. september síðastliðinn. Hún lagði áherslu á að kosningarnar hefðu farið fram í samræmi við alþjóðlegar reglur og endurbætta kosningalöggjöf landsins frá árinu 2006. Hins vegar væru sumar breytingar sem gerðar hefðu verið á kosningalöggjöfinni skref afturábak og ekki í samræmi við viðmiðanir Evrópuráðsins um lýðræðislegar kosningar. Auk þess væru gæði kjörskrár og framkvæmd utankjörstaðakosninga ábótavant. Nefndi hún sem dæmi að um 570 þúsund manns, sem höfðu ekki verið í landinu tveimur mánuðum fyrir kosningar, hefðu verið teknir af kjörskrá. Því væri enn þörf fyrir frekari endurbætur á kosningalöggjöfinni og stjórnarskránni auk þess sem styrkja þyrfti lýðræðislegar stofnanir í landinu eins og stjórnlagadómstólinn.
    Að skýrslu þingmannsins lokinni hófst afgreiðsla á þeim skýrslum og drögum að ályktunum, álitum og tilmælum sem fyrir fundinum lágu. Sérstakur gestur fundarins var stjórnarformaður Þróunarbanka Evrópuráðsins, Lars Kolte, en bankinn sinnir einkum verkefnum sem snúa að flóttamönnum. Kom fram almenn ánægja með starfsemi og stefnu bankans. Mesta umræðan varð hins vegar um innri málefni Evrópuráðsþingsins í tengslum við tillögur sem lagðar voru fram um breytingar á fundarsköpum, innleiðingu nokkurs konar hvatakerfis fyrir þingmenn til að efla þátttöku þeirra á reglulegum fundum og nefndarfundum Evrópuráðsþingsins og leiðir til að jafna hlut karla og kvenna í embættum á vegum þingsins. Markmiðið með tillögunum er að gera fundi og starf á vegum þingsins skilvirkara og láta það endurspegla frekar grunngildi Evrópuráðsins en t.d. þykir ójöfn kynjaskipting í embætti á vegum þingsins koma niður á trúverðugleika þess.

6. Nefndarfundir utan þinga.
    Fulltrúar Íslandsdeildar sóttu nokkra nefndarfundi á árinu. Margrét Frímannsdóttir sótti kvennafund Sameinuðu þjóðanna dagana 26. febrúar til 1. mars í New York sem fulltrúi í jafnréttisnefnd Evrópuráðsþingsins. Á kvennafundinum voru á dagskrá mál sem voru efst á baugi í jafnréttisnefndinni eins og ofbeldi gegn konum, en Margrét var jafnframt sérstakur tengiliður Alþingis og Evrópuráðsþingsins varðandi herferð Evrópuráðsþingsins gegn kynbundu ofbeldi. Steingrímur J. Sigfússon tók 4. júní við sæti Margrétar í jafnréttisnefnd og varð jafnframt tengiliður við herferðina. Ellert B. Schram sótti fund laga- og mannréttindanefndar í París 11. september og 12. nóvember og Guðfinna S. Bjarnadóttir formaður sótti fund stjórnmálanefndar 13. september í París.

7. Annað starf.
    Formaður tilnefndi í samráði við aðra fulltrúa Íslandsdeildar þrjá frambjóðendur til setu fyrir hönd Íslands í nefnd Evrópuráðsins um varnir gegn pyntingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Nefndin byggir á samnefndum Evrópusamningi en kjörtímabil núverandi fulltrúa rann út 19. desember. Listinn með nöfnum frambjóðenda í stafrófsröð var sendur 12. nóvember til framkvæmdastjórna Evrópuráðsþingsins, Mateo Sorinas Balfegó. Þann 13. desember hélt undirnefnd laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins um mannréttindi fund þar sem faglegt mat var lagt á frambjóðendur og sendi nefndin síðan listann með nöfnum íslensku frambjóðendanna í forgangsröð aftur til framkvæmdastjórnar Evrópuráðsþingsins. Endanlegt val á fulltrúa fór síðan fram á fundi ráðherranefndar Evrópuráðsins 30. janúar 2008 að undanfarinni umfjöllun undirnefndar ráðherranefndarinnar um mannréttindi daginn áður.

Alþingi, 28. febr. 2008.



Guðfinna S. Bjarnadóttir,


form.


Ellert B. Schram.


varaform.

Steingrímur J. Sigfússon.




Fylgiskjal.



Ályktanir, álit og tilmæli Evrópuráðsþingsins árið 2007.


    Eftirfarandi ályktanir, álit og tilmæli til ráðherranefndar Evrópuráðsins voru samþykkt á þingfundum og stjórnarnefndarfundum Evrópuráðsþingsins árið 2007:

Fyrsti hluti þingfundar, 22.–26. janúar:
     *      tilmæli 1777 um kynferðislegar árásir sem tengjast „nauðgunarlyfjum“,
     *      tilmæli 1778 um börn sem fórnarlömb, stöðvun ofbeldis og misnotkunar á börnum,
     *      ályktun 1530 um börn sem fórnarlömb, stöðvun ofbeldis og misnotkunar á börnum,
     *      tilmæli 1779 um hættuna á að orkuframboð sé notað sem tæki til að beita pólitískum þrýstingi,
     *      ályktun 1531 um hættuna á að orkuframboð sé notað sem tæki til að beita pólitískum þrýstingi,
     *      ályktun 1532 um hvernig Armenía hefur staðið við skyldur sínar og skuldbindingar,
     *      tilmæli 1780 um ástandið í Kosovo,
     *      ályktun 1533 um ástandið í Kosovo,
     *      tilmæli 1781 um landbúnað og ólöglegt vinnuafl í Evrópu,
     *      tilmæli 1782 um stöðu farandverkafólks á vegum starfsmannaleigna,
     *      ályktun 1534 um stöðu farandverkafólks á vegum starfsmannaleigna,
     *      tilmæli 1783 um ógnir gegn lífi og tjáningarfrelsi blaðamanna,
     *      ályktun 1535 um ógnir gegn lífi og tjáningarfrelsi blaðamanna,
     *      tilmæli 1784 um HIV/alnæmi í Evrópu,
     *      ályktun 1536 um HIV/alnæmi í Evrópu,
     *      ályktun 1537 um framtíð fyrir HIV/alnæmissmituð börn og munaðarleysingja,
     *      ályktun 1538 um hvernig Albanía hefur staðið við skyldur sínar og skuldbindingar,
     *      tilmæli 1785 um útbreiðslu HIV/alnæmisfaraldursins á meðal kvenna og stúlkna í Evrópu,
     *      tilmæli 1786 um stefnu um ábyrga matarneyslu,
     *      tilmæli 1787 um varúðarráðstafanir og ábyrga áhættustjórnun.

Stjórnarnefndarfundur 16. mars:
     *      ályktun 1539 um Bandaríkin og alþjóðalög,
     *      ályktun 1540 um bætt verklag við val á frambjóðendum til setu í Evrópunefnd um varnir gegn pyntingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu,
     *      ályktun 1541 um hlutverk siðferðis og samkenndar við ákvarðanir um fjármögnun og neyslu og áhrif þess á félagslega samheldni,
     *      ályktun 1542 um rafrænan úrgang og umhverfið,
     *      ályktun 1543 um meðhöndlun heimilissorps í Evrópu,
     *      ályktun 1544 um aðstæður kvenna í Suður-Kákasuslýðveldunum,
     *      tilmæli 1788 um Bandaríkin og alþjóðalög,
     *      tilmæli 1789 um faglega menntun og þjálfun blaðamanna,
     *      tilmæli 1790 um aðstæður kvenna (2007) í Suður-Kákasuslýðveldunum.

Annar hluti þingfundar 16.–20. apríl:
     *      álit 261 um aðild Svartfjallalands að Evrópuráðinu,
     *      álit 262 um drög að samkomulagi milli Evrópuráðsins og Evrópusambandsins,
     *      álit 263 um drög að sáttmála um verndun barna gegn kynferðislegu ofbeldi og misnotkun,
     *      ályktun 1545 um framfylgni Aserbaídsjan við skuldbindingar sínar sem aðildarríkis Evrópuráðsins,
     *      ályktun 1546 um verklagsreglur fyrir stjórnmálaflokka,
     *      ályktun 1547 um stöðu mannréttinda og lýðræðis í Evrópu,
     *      tilmæli 1791 um stöðu mannréttinda og lýðræðis í Evrópu,
     *      ályktun 1548 um virkni eftirlits Evrópuráðsþingsins með aðildarríkjum,
     *      ályktun 1549 um virkni lýðræðislegra stofnana í Úkraínu,
     *      ályktun 1550 um ástandið í Miðausturlöndum,
     *      ályktun 1551 um réttláta málsmeðferð í málum meintra njósnara og uppljóstrara ríkisleyndarmála,
     *      tilmæli 1792 um réttláta málsmeðferð í málum meintra njósnara og uppljóstrara ríkisleyndarmála,
     *      tilmæli 1793 um nauðsyn Evrópuráðssáttmála um aðgerðir gegn framleiðslu og sölu vörueftirlíkinga,
     *      tilmæli 1794 um gæði lyfja í Evrópu.

Stjórnarnefndarfundur 24. maí:
     *      álit 264 um fjárlög Evrópuráðsins fyrir árið 2008,
     *      álit 265 um útgjöld Evrópuráðsþingsins fyrir árið 2008,
     *      ályktun 1552 um kolefnisbindingu sem leið til að stemma stigu við loftslagsbreytingum,
     *      ályktun 1553 um horfna einstaklinga í Armeníu, Aserbaídsjan og Georgíu vegna átakanna yfir Nagorno-Karabakh, Abkhasia og Suður-Ossetia héraðanna,
     *      ályktun 1554 um hagsmunaárekstra,
     *      ályktun 1555 um hag íbúa bresku sjálfstjórnarsvæðanna Akrotiri og Dhekelia,
     *      tilmæli 1705 um eftirlit með skuldbindingum um félagsleg réttindi,
     *      tilmæli 1796 um hag eldri borgara í Evrópu,
     *      tilmæli 1797 um horfna einstaklinga í Armeníu, Aserbaídsjan og Georgíu vegna átakanna yfir Nagorno-Karabakh, Abkhasia og Suður-Ossetia héraðanna,
     *      tilmæli 1798 um virðingu fyrir meginreglunni um jafnrétti kynjanna í einkamálarétti.

Þriðji hluti þingfundar 25.–29. júní:
     *      ályktun 1556 um stefnu í landbúnaðar- og dreifbýlismálum við Miðjarðarhaf,
     *      ályktun 1557 um ímynd kvenna í auglýsingum,
     *      ályktun 1558 um kvenvæðingu fátæktar,
     *      ályktun 1559 um félagsmálavídd Evrópu: almenn fullgilding endurskoðaðs Félagsmálasáttmála Evrópu og mat á nýjum vinnureglugerðum og lágmarkslaunum,
     *      ályktun 1560 um hvatningu aðildarríkja Evrópuráðsins um alþjóðlegt bann við dauðarefsingum,
     *      ályktun 1561 um stöðu Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu í Austur- og Suðaustur- Evrópu,
     *      ályktun 1562 um leynifangelsi og ólöglega fangaflutninga og hlutdeild aðildarríkja Evrópuráðsins,
     *      ályktun 1563 um aðgerðir gegn gyðingahatri í Evrópu,
     *      ályktun 1564 um glæpi sem falla undir lögsögu Alþjóðlega stríðsglæpadómstólsins vegna málefna fyrrum Júgóslavíu,
     *      ályktun 1565 um hvernig koma megi í veg fyrir árásir á tölvu- og upplýsingakerfi ríkisstofnana í aðildar- og áheyrnarríkjum Evrópuráðsins,
     *      ályktun 1566 um að framfylgd skuldbindinga Mónakó,
     *      ályktun 1567 um þörf á alþjóðlegum viðbrögðum við kjarnorkuáætlun Írans,
     *      tilmæli 1799 um ímynd kvenna í auglýsingum,
     *      tilmæli 1800 um kvenvæðingu fátæktar,
     *      tilmæli 1801 um leynifangelsi og ólöglega fangaflutninga og hlutdeild aðildarríkja Evrópuráðsins,
     *      tilmæli 1802 um stöðu flóttamanna í Suðaustur-Evrópu,
     *      tilmæli 1803 um glæpi sem falla undir lögsögu Alþjóðlega stríðsglæpadómstólsins í málefnum fyrrum Júgóslavíu,
     *      tilmæli 1804 um ríki, trú, afhelgun og mannréttindi,
     *      tilmæli 1805 um guðlast, árásir og hatursáróður gegn einstaklingum á grundvelli trúarsannfæringar.

Fjórði hluti þingfundar 1.–5. október:
     *      ályktun 1568 um reglugerðarkerfi fyrir innflytjendur,
     *      ályktun 1569 um mat á fólksflutningamóttökustöðvum til að greina á milli innflytjenda og flóttamanna,
     *      ályktun 1570 um hörmungarástandið í Darfur-héraði,
     *      ályktun 1571 um skyldu aðildarríkja um samvinnu við Mannréttindadómstól Evrópu,
     *      ályktun 1572 um framfylgd skuldbindinga Moldóvu,
     *      ályktun 1573 um að skapa bæði hagvöxt og tryggja félagsleg vernd í Evrópu á tímum alþjóðavæðingar,
     *      ályktun 1574 um Efnahags- og framfarastofnun Evrópu og alþjóðahagkerfið 2007,
     *      ályktun 1575 um pólitískar víddir fjárlaga Evrópuráðsins,
     *      ályktun 1576 um Evrópusáttmála um lýðheilsustefnu á sviði fíkniefnavarna,
     *      ályktun 1577 um afnám fangelsisvistunar vegna ærumeiðinga,
     *      ályktun 1578 um hugtakið fyrirbyggjandi stríð og afleiðingar þess fyrir alþjóðakerfið,
     *      ályktun 1579 um hvaða afstöðu eigi að taka til vændis,
     *      ályktun 1580 um hættuna af sköpunarhyggju í kennslu,
     *      ályktun 1581 um mannréttindafulltrúa Evrópu – stöðumat og sjónarhorn,
     *      ályktun 1582 um samátak þingmanna í baráttu gegn heimilisofbeldi – stöðumat,
     *      tilmæli 1806 um starfsemi Alþjóðafólksflutningastofnunarinnar,
     *      tilmæli 1807 um reglugerðarkerfi fyrir innflytjendur,
     *      tilmæli 1808 um mat á fólksflutningamóttökustöðvum til að greina á milli
     *      innflytjenda og flóttamanna,
     *      tilmæli 1809 um skyldu aðildarríkja um samvinnu við Mannréttindadómstól Evrópu,
     *      tilmæli 1811 um svæðamyndun í Evrópu,
     *      tilmæli 1812 um pólitískar víddir fjárlaga Evrópuráðsins,
     *      tilmæli 1813 um Evrópusáttmála um lýðheilsustefnu á sviði fíkniefnavarna,
     *      tilmæli 1814 um að afnám fangelsisvistunar vegna ærumeiðinga,
     *      tilmæli 1815 um hvaða afstöðu eigi að taka til vændis,
     *      tilmæli 1816 um mannréttindafulltrúa Evrópu – stöðumat og sjónarhorn,
     *      tilmæli 1817 um samátak þingmanna í baráttu gegn heimilisofbeldi – stöðumat.

Stjórnarnefndarfundur 23. nóvember:
     *      álit 266 um drög að sáttmál Evrópuráðsins um ættleiðingar (endurskoðuð),
     *      ályktun 1583 um að bæta þátttöku þingmanna á fundum og í nefndarstarfi þingsins,
     *      ályktun 1584 um beitingu og breytingu ákvæða þingskapa Evrópuráðsþingsins,
     *      ályktun 1585 um meginreglur um jafnan hlut karla og kvenna í starfi Evrópuráðsþingsins,
     *      ályktun 1586 um viðbrögð Evrópu við mannlegum hörmungum,
     *      ályktun 1587 um stöðu barna á fyrrum átakasvæðum á Balkanskaganum,
     *      ályktun 1588 um geislavirkan úrgang og verndun umhverfisins,
     *      ályktun 1589 um samvinnu milli Evrópuráðsþingsins og samstarfsvettvangs óháðra félagasamtaka,
     *      ályktun 1590 um leynilega atkvæðagreiðslu – Evrópskar reglur um leynilegar atkvæðagreiðslur meðal annars leiðbeiningar fyrir stjórnmálamenn, eftirlitsmenn og kjósendur,
     *      ályktun 1590 um utankjörstaðakosningar,
     *      ályktun 1592 um reglur um þjóðaratkvæðagreiðslur,
     *      ályktun 1593 um stuðning við tilmæli um jafnréttisverðlaun Evrópuráðsþingsins,
     *      ályktun 1594 um meginreglur réttarríkisins,
     *      tilmæli 1818 um starfsemi og stefnu Þróunarbanka Evrópuráðsins,
     *      tilmæli 1819 um jafnréttisverðlaun Evrópuráðsþingsins,
     *      tilmæli 1820 um samvinnu milli Evrópuráðsþingsins og samráðsvettvangs óháðra félagasamtaka,
     *      tilmæli 1821 um reglur um þjóðaratkvæðagreiðslu.