Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 461. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 732  —  461. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um aðlögunarstuðning við lífrænan landbúnað.

Flm.: Þuríður Backman, Atli Gíslason, Álfheiður Ingadóttir, Árni Þór Sigurðsson,
Jón Bjarnason, Kolbrún Halldórsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon,
Steinunn Þóra Árnadóttir, Ögmundur Jónasson.


    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að beita sér fyrir aðgerðum til að veita bændum sérstakan aðlögunarstuðning við lífrænan landbúnað sambærilegan þeim stuðningi sem veittur er á Norðurlöndum, þannig að ná megi því markmiði að lífrænt vottaðar vörur nemi 15% landbúnaðarframleiðslu árið 2020.

Greinargerð.


    Tillaga áþekk þessari var flutt á 125., 126.,128., 132. og 133. löggjafarþingi en varð ekki útrædd.
    Í þingsályktun um aðlögun að lífrænum landbúnaði, sem samþykkt var á Alþingi 4. júní 1998, skoraði Alþingi á ríkisstjórnina að undirbúa viðeigandi breytingar á landbúnaðarlöggjöfinni til þess að unnt yrði að veita bændum stuðning við aðlögun búskapar að lífrænum búskaparháttum. Í 6. gr. búnaðarlaga, nr. 70/1998, sem einnig voru samþykkt á Alþingi 4. júní 1998, er m.a. lýst því markmiði að stuðla beri að framþróun lífrænna búskaparhátta. Landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, og Bændasamtök Íslands gerðu samning 5. mars 1999 um verkefni samkvæmt búnaðarlögum og framlög ríkisins til þeirra. Í samningnum er Bændasamtökum Íslands heimilað með tilvísun í 6. gr. búnaðarlaga að veita stuðning til lífrænnar ræktunar árin 1999–2003, nánar tiltekið til endurræktunar lands. Stuðningur mætti vera að hámarki 25.000 kr. á ha lands og 250 kr. á fermetra í gróðurhúsi. Um eingreiðslur er að ræða. Farið var að veita slíkan stuðning árið 1999 og er hann enn veittur í allt að tvö ár í senn á seinni árum. Þótt þessar greiðslur stuðli að lífrænni ræktun og búskap eru þær ekki sambærilegar þeim stuðningi sem bændur sem laga búskap sinn að lífrænum landbúnaði njóta annars staðar á Norðurlöndum og í Evrópusambandinu. Hér er greitt í tvö ár mest en þar eru greiddir styrkir um nokkurra ára skeið. Hér á landi er eðlilegt að reikna með 5–10 ára aðlögunartíma og væri æskilegt að miða greiðslurnar við það.
    Samkvæmt ályktun búnaðarþings frá 1996 starfaði vinnuhópur með fulltrúum frá VOR, – verndun og ræktun – félagi framleiðenda í lífrænum búskap, og Bændasamtökum Íslands. Hann skilaði áliti til Bændasamtaka Íslands í nóvember það ár þar sem voru gerðar tillögur um stuðning við aðlögun að lífrænum búskap og tilgreint hvernig það yrði best gert að teknu tilliti til aðstæðna hérlendis.
    Búnaðarþing ályktaði aftur um stuðning við lífrænan búskap árið 1999 og taldi að stefna bæri að því að stærri hluti landbúnaðarframleiðslunnar yrði vottaður lífrænn, m.a. vegna möguleika á útflutningi lífræns dilkakjöts. Svipaðar skoðanir komu fram í skýrslu nefndar um útflutning dilkakjöts sem landbúnaðarráðherra skipaði sumarið 1999. Í skýrslunni, sem er frá 8. nóvember 1999, er greint frá því að náðst hafi allt að 25% hærra skilaverð til bænda fyrir lífrænt vottaða framleiðslu í útflutningi árin 1998 og 1999. Leggur nefndin til að í sjö ár verði veittar allt að 20 millj. kr. í fjárlögum hvers árs til þróunar og aðlögunarverkefna hjá bændum sem hefja lífræna framleiðslu dilkakjöts, einkum til útflutnings. Við endurskoðun á búnaðarlagasamningi hafa styrkirnir verið hækkaðir nokkuð en eru fjarri því að vera fullnægjandi enda aðeins til tveggja ára.
    Íslensk stjórnvöld hafa á árum áður skipulagt tvö átaksverkefni til þess að kynna og styðja við lífræna framleiðslu. Er þar um ÁFORM frá 1995 að ræða og Lífræna miðstöð við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Hundruðum milljóna króna var varið til beggja átaksverkefna án þess þó að tilætluðum árangri, þ.e. aukinni lífrænni ræktun, hafi verið náð. Það er því álit flutningsmanna þessarar tillögu að ekki beri að efla slíka ræktun með sams konar átaki heldur að efla aðlögunarstuðning verulega og til langframa.
    Umhverfismengun og heilsufarsvandamál henni tengd eru sífellt að verða mönnum ljósari. Ýmis eiturefni og önnur efni sem notuð eru í iðnvæddum búskap eða stórbúskap eru meðal þeirra þátta sem þekktastir eru. Neytendur gera því æ ríkari kröfur um heilnæm matvæli, umhverfisvernd og sjálfbæra landbúnaðarstefnu. Ljóst er að markaður fyrir lífrænt vottaðar vörur eykst stöðugt í iðnvæddum löndum. Í fyrstu var einkum um að ræða grænmeti, ávexti og kornmeti en á seinni árum búfjárafurðir á borð við mjólk, egg og kjöt af ýmsum gripum og þessu til viðbótar eykst krafa um umhverfisvænar og vottaðar neysluvörur af öllum toga. Þessi áhugi telst núorðið vart vera meiri erlendis en hér á landi. Stóraukinn innflutningur á lífrænt vottuðum matvælum auk ýmissa vörutegunda sem flokkast undir heilsuvörur ber vott um vitundarvakningu og breytt viðhorf íslenskra neytenda. Því er víðast hvar lögð stóraukin áhersla á bætta umgengni, verndun umhverfisins og náttúru. Þetta tvennt stuðlar að neyslu lífrænt ræktaðrar matvöru, þ.e. matvöru sem framleidd er með aðferðum sem uppfylla ströngustu kröfur um umhverfisvernd og er jafnframt líkleg til að stuðla að betri heilsu fólks. Því hefur verið haldið fram að engar markaðsforsendur séu fyrir því að auka hlut lífrænnar ræktunar á Íslandi. En á sama tíma og innflutningur á lífrænt vottuðum vörum hingað hefur stóraukist er allt útlit fyrir að verð á kjarnfóðri og áburði fyrir hefðbundna ræktun muni stórhækka á komandi mánuðum án þess að útlit sé fyrir að þær vörur muni aftur lækka í verði. Í kjölfarið er ljóst að afurðir af hefðbundinni ræktun muni hækka hér í verði og þannig draga úr muninum á lífrænni og hefðbundinni ræktun. Hinn stóraukni innflutningur á lífrænum vörum ætti enn fremur að vera íslenskum bændum hvatning til þess að skipta yfir í lífræna ræktun.
    Matarsýkingum af ýmsum uppruna hefur fjölgað á undanförnum árum, svo sem af völdum kampýlóbakter og salmonellu. Flutningur matvæla milli heimsálfa getur því verið varasamur með tilliti til þessa, bæði vegna þess hve flutningur og geymsla sýktra matvæla getur aukið hættu á matarsýkingum og eins vegna dreifingar sýkingarinnar um stór svæði og heimshluta. Fjölónæmar bakteríur hafa valdið alvarlegum veikindum hjá fjölda manns, fleira fólk sýkist en áður og alvarlegir faraldrar hafa orðið. Bakteríustofnar eru fjölbreyttari og sumir ónæmir fyrir hefðbundnum sýklalyfjum. Þetta breytta umhverfi hefur leitt til þess að fleiri eru meðvitaðir um hollustu þess sem þeir neyta og áhugi á lífrænt ræktuðum matvælum hefur aukist að sama skapi. Líklegt er að umhverfis- og náttúruvernd, stóraukin áhersla á heilbrigt líferni og neysla lífrænt ræktaðrar matvöru verði það sem einkenni samfélagsþróunina á Vesturlöndum næstu árin. Þar við bætist mikil andstaða neytenda gegn erfðabreyttum lífverum í landbúnaði. Danir hafa tekið þessi mál föstum tökum og stefnir í að Danmörk verði fyrirmyndarland á sviði lífrænna landbúnaðarafurða. Danskar matvörur þykja ekki aðeins góðar heldur hafa danskir neytendur breytt matarvenjum sínum og kaupa lífrænar landbúnaðarvörur í stórauknum mæli. Í Danmörku er markaðshlutdeild lífrænnar mjólkur um 30%, egg, ýmsar kornvörur og gulrætur hafa yfir 10% af markaðnum en kjötvörur hafa minni hlutdeild. Lífrænt ræktaðar matvörur hafa náð fótfestu á breskum matvörumarkaði og taka undir sig æ meira pláss í hillum stórmarkaða og sömu sögu er að segja í Mið- og Suður-Evrópu.
    Á Íslandi eru lífrænt vottaðar afurðir tæplega 1% af allri landbúnaðarframleiðslu og eru langt frá því að fullnægja þörfum markaðarins. Sterkar líkur má leiða að því að sama þróun verði á neysluvenjum fólks hér á landi og erlendis. Þess vegna er mikilvægt að nú þegar verði bændur hvattir og studdir til að breyta búskaparháttum svo að íslenskar lífrænt vottaðar afurðir verði á boðstólum til að mæta vaxandi eftirspurn. Í þessu sambandi er rétt að fram komi að í sauðfjársamningi eru engin ákvæði um stuðning við lífræna framleiðslu sauðfjárafurða. Sá samningur hefði verið tilvalinn til að stuðla að eflingu lífrænnar framleiðslu og búa sauðfjárbændur undir að verða við kröfum ört vaxandi eftirspurnar eftir lífrænt vottuðum vörum. Verð á matvöru, ásamt trausti á vörunni, hefur hvað mest áhrif á val neytenda og því skiptir máli að bændur sem stunda lífræna ræktun séu samkeppnisfærir á matvörumarkaðnum við bændur sem stunda hefðbundinn búskap. Þá er vitað að Whole Food í Bandaríkjunum vill að a.m.k. hluti þess dilkakjöts sem þangað er flutt sé lífrænt vottað.
    Framleiðslukostnaður við lífræna ræktun er nokkuð meiri en við hefðbundna framleiðslu enda er oft reiknað með minni uppskeru á fyrstu árum aðlögunar. Þó nær jarðræktarland aftur jafnvægi og uppskera kemst í sumum greinum nálægt því að vera svipuð og jafnvel meiri en með hefðbundnum ræktunaraðferðum. Þannig hafa lengi verið kunn dæmi þess, t.d. á Indlandi, að uppskera hefði stóraukist í kjölfar þess að skipt hefði verið yfir í lífræna ræktun. Skýringin er oft sú að með lífrænum ræktunaraðferðum tekst að byggja aftur upp náttúrulega frjósemi jarðvegsins, með miklu af moldarefnum og ríkulegu lífi í jarðveginum. Einnig vegur á móti þessum aukna framleiðslukostnaði hæsta afurðaverð. Lífrænn landbúnaður er vaxtarbroddur nýsköpunar sem hefur mjög jákvæða ímynd enda eru slíkir búskaparhættir í góðu samræmi við sjálfbæra þróun og virðingu fyrir jarðvegi, gróðri og búfé. Með meiri hvatningu og stuðningi gæti lífrænn landbúnaður jafnframt stuðlað að eflingu byggðar í sveitum landsins og eflt úrvinnsluiðnað. Nú vantar lífrænt dilkakjöt til útflutnings og innan lands er markaður fyrir grænmeti og fleiri lífrænar vörur. Því verður að teljast eðlilegt að aðlögunarstuðningur við þessa grein landbúnaðar verði a.m.k. jafnmikill og í öðrum norrænum ríkjum og ætti að vera liður í búvörusamningunum sem kveða m.a. á um stuðningsgreiðslur í nokkrum veigamiklum búgreinum.
    Eðlilegt væri að Ísland líti til Norðmanna og stefnumörkunar þeirra í þessum efnum. Þar eð bæði ríkin standa utan ESB njóta þau ekki styrkjakerfis bandalagsins í landbúnaði og geta því hagað stuðningi við lífræna framleiðslu eftir eigin höfði. Þó verða þau sem aðilar að EES að fylgja reglum ESB um aðferðir, merkingar og markaðssetningu lífrænna afurða. Ólíkt Íslendingum álíta Norðmenn lífræna framleiðslu vera einn meginsóknarkostinn í landbúnaði og stefna því að því að vottað lífrænt ræktarland nemi 15% alls landbúnaðarlands í Noregi en það felur í sér fjórföldun lífrænnar ræktunar. Aðlögunarstyrkir Norðmanna til lífrænnar ræktunar teljast vera þeir hæstu á öllum Norðurlöndunum.
    Athuganir hér á landi benda til þess að lífrænar ræktunaraðferðir henti einkum litlum og meðalstórum búum, eins og þau eru hér algengust. Minni arðsemi megi aftur á móti vænta á stórum eða sérhæfðum búum. Með fjölgun lífrænna búa er viðbúið að ýmiss konar framleiðslukostnaður lækki, svo sem við móttöku lífrænna efna, vinnslu þeirra og markaðssetningu, enda dregur það ekki úr kostnaði að framboð á lífrænum afurðum skuli vera lítið fyrir, framleiðendur dreifðir og flutningsleiðir langar.
    Vottunarstofan Tún kom á fót starfshópi með Byggðastofnun og Staðardagskrárverkefni Sambands sveitarfélaga til að gera úttekt á lífrænni framleiðslu á Íslandi, kanna kosti lífrænna aðferða fyrir umhverfi og samfélag og gera tillögur um hagnýtingu þeirra. Þingsályktunartillögunni til stuðnings er vísað til nýútkominnar skýrslu starfshópsins: Lífræn framleiðsla – ónotuð tækifæri í atvinnulífi landsbyggðarinnar.
    Á heimasíðu Staðardagskrár 21 segir í frétt 28. ágúst 2006 eftirfarandi:
    „Í skýrslunni […] er farið yfir stöðu lífrænnar framleiðslu hérlendis í samanburði við grannþjóðirnar, lýst helstu hindrunum og hvötum sem eru á vegi lífrænnar þróunar, kortlagðar þær greinar atvinnulífs sem geta hagnýtt sér lífrænar aðferðir, og gerðar tillögur um ráðstafanir til að skapa slíkri nýsköpun frjórra umhverfi, einkum af hálfu ríkis og sveitarfélaga. […]
    Í skýrslunni kemur fram að lífrænar aðferðir eru í mikilli sókn víða um heim í framleiðslu matvæla, snyrtivara, vefnaðarvara og hvers konar náttúruafurða. Stjórnvöld flestra Evrópuríkja vinna markvisst að því að hagnýta slíkar aðferðir til sóknar í byggða- og umhverfismálum. Þessi þróun hefur hins vegar að mestu farið fram hjá Íslendingum.
    Til marks um stöðu lífrænnar framleiðslu hér á landi má nefna, að hér er hlutfall vottaðs lífræns nytjalands einungis 0,3%. Þetta hlutfall er 4% í löndum ESB og á bilinu 6–15% í þeim löndum sem lengst eru komin.“ Því er augljóst hversu aftarlega á merinni Íslendingar sitja í þessum efnum. Engin landfræðileg rök ættu þó að vera fyrir því: „Nokkur hundruð norrænna bænda stunda lífræna ræktun mun norðar á hnettinum en Ísland, þar sem einungis 25 býli er skráð með vottun. […]
    Evrópusambandið og einstök ríki Evrópu hafa um nokkurt skeið stutt ríkulega upptöku lífrænna aðferða, m.a. sem þátt í byggðastefnu. Stjórnvöld horfa til lífrænnar þróunar sem leið til að uppfylla fjölþjóðlegar skuldbindingar um sjálfbæra þróun og líffræðilega fjölbreytni. Opinber stuðningur við lífræna aðlögun er liður í markvissari hagnýtingu fjármuna til sjálfbærrar atvinnuþróunar í stað framleiðslutengdra styrkja.
    Skýrslan bendir á nauðsyn þess að Ísland leiti inn á sömu braut. Hún rekur styrkleika í íslensku umhverfi, markaðsaðstæðum og viðhorfum sem hagnýta beri í því skyni, svo sem frábæran árangur nokkurra bænda og fyrirtækja í ræktun, úrvinnslu og markaðssetningu; dæmi um jákvæð áhrif lífrænnar vottunar á útflutningsmöguleika; gríðarlega aukningu eftirspurnar; traust vottunarkerfi á alþjóðlegum grunni; og jákvæð viðhorf almennings og stjórnmálamanna til lífrænnar framleiðslu.“



Fylgiskjal I.


Lífræn framleiðsla. Ónotað tækifæri í atvinnulífi landsbyggðarinnar.
(Úr skýrslu starfshóps um stöðu og möguleika
lífrænnar framleiðslu á Íslandi, júní 2006.)


    Í nóvember 1998 samþykktu forsætisráðherrar Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, auk pólitískra leiðtoga sjálfstjórnarsvæðanna (Álandseyja, Færeyja og Grænlands), yfirlýsingu um sjálfbær Norðurlönd. Nú er í gildi ný endurskoðuð áætlun fyrir árin 2005–2008, sem byggir á yfirlýsingunni og hefur verið samþykkt af stjórnvöldum allra norrænu ríkjanna. Í nýju áætluninni er langtímamarkmiðum sjálfbærrar þróunar lýst til ársins 2020, ásamt markmiðum og verkefnum fram til ársins 2008. Í 11. kafla áætlunarinnar, sem fjallar um landbúnað, kemur m.a. fram að á árunum 2005–2008 muni Norðurlöndin „í sameiningu efla lífrænan landbúnað og halda áfram norrænum aðgerðum til að auka hann með markvissu starfi í öllum hlekkjum framleiðslukeðjunnar frá frumframleiðslu og gegnum framleiðsluferlið til neyslu.“

Framlög norska ríkisins til lífrænnar framleiðslu árið 2006.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Noregur og Ísland eiga það sameiginlegt að standa utan ESB en vera aðilar að EES. Þessar þjóðir njóta því ekki styrkjakerfis ESB í landbúnaði, og er þeim í sjálfsvald sett hvernig þær styðja lífræna framleiðslu. Á hinn bóginn þurfa þær að lúta reglum ESB um aðferðir, merkingar og markaðssetningu lífrænna afurða. 1 Landbúnaður ríkjanna á margt sameiginlegt og bæði byggja þau á ríkri hefð fyrir miklum opinberum útgjöldum til styrktar landbúnaði almennt. Stefnumótun stjórnvalda í málefnum lífrænnar framleiðslu er hins vegar með mjög ólíkum hætti.
    Í Noregi er litið á lífræna framleiðslu sem einn meginsóknarkostinn í norskum landbúnaði og unnið er eftir opinberri framkvæmdaáætlun sem miðar að því að fjórfalda lífræna ræktun á næstu tíu árum þannig að vottað lífrænt nytjaland verði 15% alls landbúnaðarlands árið 2015. Umtalsvert fjármagn er veitt í fjárlögum norska ríkisins til uppbyggingar framleiðslu, þjónustu og markaðsþróunar í þessari grein (sjá töflu 6).
    Auk aðildar að áætlun Norðurlandanna um sjálfbæra þróun áttu íslensk stjórnvöld aðild að gerð skýrslu um það mál þar sem lýst var því markmiði að efna beri til samnorræns átaks um að auka lífræna ræktun. Íslensk stjórnvöld stóðu einnig að samþykkt norrænna matvælaráðherra árið 2001 um að efla skuli lífræna framleiðslu. 2
    Íslensk stjórnvöld hafa unnið með hagsmuna- og sérfræðiaðilum að setningu viðeigandi lagareglna um framleiðslu, merkingar og eftirlit með lífrænni framleiðslu, fyrst með setningu laga og reglugerðar 1994–1995, og nú síðast með því að innleiða reglugerð ESB þar um í formi reglugerðar nr. 74/2002. Þau hafa hins vegar ekki gert framkvæmdaáætlun eða markað stefnu um þróun og uppbyggingu lífrænnar framleiðslu og engin markmið hafa verið sett þar að lútandi, ólíkt því sem stjórnvöld flestra ríkja Vestur-Evrópu hafa gert.
    Aðlögunarstyrkir til lífrænnar ræktunar, sambærilegir þeim sem fáanlegir eru í flestum nágrannalöndum okkar, standa íslenskum framleiðendum ekki til boða. Þó má greina vísi að slíkum stuðningi í reglum um fjárframlög til þróunarverkefna og jarðabóta samkvæmt búnaðarlagasamningi sem kveða á um þrenns konar stuðning við lífræna ræktun:
     a.      Stuðning við endurræktun túna og akra, sem sett hafa verið í lífræna aðlögun, 30.000 kr. á hvern ha lands í allt að tvö ár á aðlögunartímanum (25.000 kr. á árunum 1999–2002),
     b.      stuðning við lífræna aðlögun gróðurhúsaræktunar, 300 kr. á hvern fermetra gróðurhúss í allt að tvö ár á aðlögunartímanum (250 kr. á árunum 1999–2002),
     c.      stuðning við kostnað vegna eftirlits og vottunar í eitt ár, 40.000 kr. (frá árinu 2006).
    Stuðningur þessi virðist hvorki nægur né skilgreindur þannig að hann hvetji bændur til að taka upp lífrænar aðferðir. Framlög til þessa liðar á undanförnum árum hafa verið lág og lækkuðu raunar úr 8 millj. kr. á ári í 5 millj. kr. vegna þess hve fáir sóttust eftir stuðningi, en að jafnaði hafa aðeins sex bændur hlotið styrk á ári hverju. Á síðustu fimm árum hefur einungis þriðjungur frátekins fjármagns verið notaður (sjá töflu 7).
    Líklegt er að við skilgreiningu aðlögunarstyrkja þurfi að skýra mun nánar í hverju aðlögun felst og gera ráð fyrir lengri aðlögunartíma fyrir nytjaland hér á landi samanborið við lönd með hlýrra veðurfar. Af þeirri ástæðu má færa fyrir því gild rök að styrkja þurfi lífræna aðlögun í 3–5 ár í stað 1–2 ára eins og gert er ráð fyrir í gildandi reglum.
    Að frátöldum framlögum samkvæmt búnaðarlagasamningi þurfa framleiðendur lífrænna afurða að keppa um fjármagn úr almennum sjóðum, sem ekki leggja sérstaka áherslu á lífræna ræktun. Þannig veitir Framleiðnisjóður landbúnaðarins styrki til nýsköpunar eða markaðsmála í landbúnaði, en megináhersla hans er á verkefni sem stuðla að aukinni framleiðni eða búháttabreytingum (þ.e. upptöku nýrra búgreina).

Framlög til lífrænnar ræktunar 2001–2005. *
Þróunar og jarðabótastyrkir skv. búnaðarlagasamningi 1998 og 2002.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.






Fylgiskjal II.


Norskir bændur í lífrænum búskap þéna meira.
(Bændasamtök Íslands, 11. des. 2006.)


    Kúabændur sem stunda lífrænan búskap þéna meira en hefðbundnir starfsbræður þeirra. Þetta sýna hagfræðitölur frá norsku landbúnaðarrannsóknarstöðinni.
    Þetta er í fyrsta sinn sem bændur er stunda lífrænan búskap og hefðbundnir bændur eru bornir saman í Noregi á þennan hátt. Niðurstaðan sýnir að bú þar sem lífræn ræktun er stunduð eru auðsjáanlega með betri fjárhagsniðurstöður og að meðaltali með um 120.000 kr. aukalega í vasann yfir árið.
    Reiknuð var upphæðin sem bændurnir áttu eftir þegar vinnuframlag og eigið fjármagn var búið að reikna frá kostnaði. Fyrir hvert ársverk reiknaðist að meðaltali um 1.851.000 kr. fyrir lífrænu bændurna en 1.729.000 kr. fyrir hina.
    Rannsóknarmennirnir voru hissa á því að svo virðist sem lífrænu kúabændurnir eyði færri vinnustundum í störf sín en hefðbundnir bændur.
    Sauðfjárbændur sem stunda lífræna ræktun voru rannsakaðir í Hordaland í Noregi yfir fjögurra ára tímabil. Þar var niðurstaðan sú sama, þ.e. sauðfjárbændur sem stunduðu lífræna ræktun höfðu það best fjárhagslega og nokkrir þeirra höfðu það virkilega gott.



Fylgiskjal III.


Norsk stjórnvöld verða að fjórfalda framlög til lífræns landbúnaðar.
(Bændasamtök Íslands, 28. des. 2006.)


    Norska ríkisstjórnin verður á næstu árum að fjórfalda styrki til lífræns landbúnaðar. Þetta staðfestir vinnuhópur á vegum landbúnaðar- og matvælaráðherra landsins, Terje Riis-Johansen. Vinnuhópurinn hefur mælt með nauðsynlegum leiðum fyrir ríkisstjórnina til að ná markmiðum sínum sem fela í sér 15% lífræna matvælaframleiðslu fyrir árið 2015.
    Í dag er um 100 millj. norskra kr. ráðstafað í styrki til lífræns landbúnaðar en ef ríkisstjórnin ætlar að ná fyrrgreindum markmiðum verða þeir að punga út til samans 425 millj. kr. í lífræn framlög árið 2015.
    Nú eru aðeins 4,2% af öllu landbúnaðarsvæði í Noregi í lífrænni ræktun og hlutfall húsdýra sem alin eru samkvæmt skilyrðum um lífræna framleiðslu á milli 0,1–4,8%. Þó að ríkið megi reikna með að borga út hlutfallslega meiri framlög en í dag er lítið aukalega sem fer til hvers bónda. Samanlagðri framlagstölu, sem verður nærri hálfur milljarður norskra króna, verður deilt á fleiri bændur sem stunda lífrænan búskap.
    Nokkrir af framleiðsluþáttunum, t.d. mjólk og sauðfé, fengu mikinn meðbyr á þessu ári. Vinnuhópurinn leggur nú til örlitla aukningu fyrir hvern bónda, sérstaklega fyrir þá sem rækta grænmeti, ávexti og ber. Bændur sem stunda lífrænan búskap en fara aftur í hefðbundinn búskap sleppa við að borga til baka greiðslu vegna breytinga. Það verða þeir að greiða í dag ef þeir hafa stundað lífræna ræktun í minna en sjö ár.



Fylgiskjal IV.


Stefnumótun í lífrænum landbúnaði á Íslandi.
Úr kafla 4: Stefnumörkun – áætlun.
(Lífræn miðstöð Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, 9. okt. 2002.)


    Þrátt fyrir frumkvæði Landbúnaðarráðuneytisins með stofnun Áforms – átaksverkefnis og stofnun Lífrænnar miðstöðvar, hefur Landbúnaðarráðuneytið ekki lýst yfir sérstökum áhuga á lífrænni framleiðslu, á sama hátt og á Norðurlöndunum, Bretlandi og Þýskalandi. Þetta hefur trúlega þau áhrif að lífrænn landbúnaður nýtur ekki viðurkenningar innan landbúnaðargeirans almennt.
    Áhugi stjórnvalda og ráðunautaþjónustu á lífrænum landbúnað getur m.a. haft jákvæð áhrif á eftirspurn eftir íslenskum lífrænum framleiðsluafurðum, umhverfisvænni búrekstrarform og að færa vísindalega þekkingu á hefðbundnum búrekstri yfir í umhverfisvænni farveg þar sem hvorki eru nýtt plöntuverndarefni, né tilbúinn áburður. Á margan hátt geta þessi búrekstrarform bætt hvort annað upp, svo sem til að bæta nýtingu búfjáráburðar, finna hagkvæmari og betri sjúkdómsmeðferðir, tækni til endurræktunar sem skerðir sem minnst frjósemi jarðvegs o.s.frv. Benda þarf á að lífrænn búrekstur og lífrænar afurðir eru valmöguleikar sem íslenskur landbúnaður býður upp á.
    Mikilvægt er að gera grein fyrir góðum áhrifum lífræns landbúnaðar á umhverfið, velferð dýra, gæði og öryggi matvæla og byggðastefnu. Reynslan hefur sýnt að þar sem ráðamenn kynna þennan valmöguleika hefur viðhorf almennings orðið vinsamlegt gagnvart landbúnaði almennt og fólk fúsara til að greiða sanngjarnt verð fyrir framleiðsluna. Landbúnaðurinn mun því hagnast og verð hefðbundinna landbúnaðarafurða til bænda mun síður falla. […]

Stuðningur við lífræna búskaparhætti.
    Aðlögunarstyrkir ættu að hvetja til þróunar á lífrænni landbúnaðarframleiðslu í öllum landshlutum. Sá stuðningur þarf að tengjast aðlögun búfjár og nytjalands. Markmið með slíkum styrkjum er að hvetja til lífrænnar ræktunar og að ná þannig að uppfylla spurn eftir lífrænum afurðum. Aðlögunarstyrkirnir eiga að geta jafnað þann aukna kostnað og þá uppskerurýrnun sem á sér stað fyrstu árin við aðlögun. Almennt þarf að hvetja til fjölbreyttari ræktunar, meiri endurræktunar og gerð sáðskipta- og landnýtingaráætlana. […]
    Við aðlögun að lífrænum vottunarreglum þurfa framleiðendur að endurskoða húsakynni sín og aðstöðu. Gerð er m.a. krafa um meira rými á hvern grip og daglega útivist og í grænmetisframleiðslu sérstakrar aðstöðu fyrir pökkun og vinnslu. Þetta hefur haft í för með sér fjárfestingar sem annars hefði ekki komið til.
Neðanmálsgrein: 1
1     Reglugerð ESB nr. 2092/91 um lífræna landbúnaðarframleiðslu fellur undir svonefnd staðlamál innan ESB og tilheyrir þar með II. viðauka samningsins um Evrópskt efnahagssvæði (EES). Ísland og Noregur verða þess vegna að vinna samkvæmt henni og hefur sérstök reglugerð verið sett hér á landi því til staðfestingar (nr. 74/2002).
Neðanmálsgrein: 2
2     Sjá yfirlýsingu leiðtoga ríkis- og landsstjórna Norðurlandanna, „Sjálfbær Norðurlönd “, sem undirrituð var í Ósló 9. nóvember 1998; Norræna ráðherranefndin (2001), Sjálfbær Þróun – Ný stefna fyrir Norðurlönd, bls. 501, og endurskoðuð útgáfa sömu skýrslu (2005); og yfirlýsing matvælaráðherra Norðurlandanna á fundi þeirra á Grænlandi 2001.
Neðanmálsgrein: 3
*     Tölurnar fyrir 2006 eru sem hér segir (heimild: Gylfi Orrason/Bændasamtök Íslands, febrúar 2008):
        – Frátekið fjármagn (m.kr.): 5,0
        – Notað fjármagn (m.kr.): 0,26
        – Nýtingarhlutfall (%): 5
        – Fjöldi styrkþega n: 1
    Samtals 2001–2006:
        – Frátekið fjármagn (m.kr.): 36,0
        – Notað fjármagn (m.kr.): 10,16
        – Nýtingarhlutfall (%): 29,2
        – Fjöldi styrkþega n: –