Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 471. máls.

Þskj. 750  —  471. mál.Frumvarp til laga

um stofnun opinbers hlutafélags
um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)
1. gr.
Heimild til að stofna opinbert hlutafélag.

    Samgönguráðherra er heimilt að stofna opinbert hlutafélag um rekstur Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Í því skyni er heimilt að leggja til félagsins eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar eftir því sem nánar greinir í lögum þessum. Ytri mörk flugvallarsvæðisins (svæði A), öryggissvæðisins á Keflavíkurflugvelli (svæði B) og þróunarsvæðis (svæði C) eru afmörkuð í uppdrætti sem er fylgiskjal með auglýsingu sem forsætisráðherra birtir á grundvelli 1. mgr. 1. gr. laga nr. 176/2006.
    Við stofnun félagsins skal allt hlutafé þess vera í eigu íslenska ríkisins og skal sala þess og ráðstöfun óheimil. Ákvæði laga um hlutafélög gilda um félagið ef ekki er kveðið á um annað í lögum þessum.

2. gr.
Forræði á hlutafé ríkisins.

    Samgönguráðherra skal fara með hlut ríkisins í félaginu og framkvæmd laga þessara, sbr. þó 2. mgr. 5. gr. og 7. gr.

3. gr.
Stjórn félagsins.

    Stjórn félagsins skal við stofnun þess skipuð fimm mönnum og jafnmörgum til vara. Þeir skulu kosnir á aðalfundi ár hvert.

4. gr.
Tilgangur félagsins.

    Tilgangur félagsins er að annast rekstur, viðhald og uppbyggingu Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, þ.m.t. rekstur verslana með tollfrjálsar vörur á flugvallarsvæðinu, starfsemi sem er í beinum tengslum við flugrekstur, rekstur flugvalla og flugstöðvar og aðra starfsemi sem nauðsynlegt er að sé innan haftasvæðis flugverndar.
    Félaginu skal vera heimilt að standa að stofnun annarra félaga og fyrirtækja og gerast eignaraðili að öðrum félögum og fyrirtækjum, þ.m.t. er þátttaka í félagi sem ætlað er að annast atvinnuuppbyggingu á nærsvæði flugvallarins. Félaginu skal vera heimilt að gera hvers konar samninga við aðra aðila til að ná tilgangi sínum á sem hagkvæmastan hátt. Tilgangi félagsins skal nánar lýst í samþykktum þess.

5. gr.
Samningar ríkisins við félagið.

    Samgönguráðherra er heimilt að gera samninga við félagið um uppbyggingu og rekstur flugvallarsvæðis Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar til að tryggja að uppbygging, rekstur og þjónusta á þessum sviðum sé í samræmi við markmið stjórnvalda og stefnumótun í samgöngumálum á hverjum tíma.
    Utanríkisráðherra er heimilt að gera samning við félagið um not þess af öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli og mannvirkjum í eigu Atlantshafsbandalagsins. Í samningnum er heimilt að kveða á um boðleiðir og framkvæmd samskipta við liðsafla Bandaríkjahers, Atlantshafsbandalagsins eða annarra ríkja sem kunna að hagnýta aðstöðuna á öryggissvæðinu í boði íslenskra stjórnvalda.

6. gr.
Þjóðréttarlegar skuldbindingar o.fl.

    Samgönguráðherra er heimilt að fela félaginu að fara með réttindi íslenska ríkisins og annast skuldbindingar þess samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum og samningum við önnur ríki, enda samræmist slíkt tilgangi félagsins. Félaginu er skylt að fara að fyrirmælum hér að lútandi, sem og öðrum fyrirmælum er varða framkvæmd og efndir slíkra samninga og annarra þjóðréttarlegra skuldbindinga.

7. gr.
Öryggis- og varnarmál.

    Félaginu ber í starfsemi sinni að virða og standa við þær þjóðréttarlegu skuldbindingar á sviði öryggis- og varnarmála sem íslensk stjórnvöld hafa undirgengist og kunna síðar að undirgangast og varða flugvallarsvæðið og Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
    Utanríkisráðherra er heimilt að beina fyrirmælum til félagsins er varða hagnýtingu flugvallarsvæðisins í þágu varnartengdrar starfsemi og framkvæmd og efndir alþjóðasamninga og þjóðréttarlegra skuldbindinga ríkisins á sviði öryggis- og varnarmála.

8. gr.
Skipulagsmál.

    Samgönguráðherra skipar sex menn í skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar. Þrír skulu skipaðir samkvæmt tilnefningu sveitarfélaganna Garðs, Reykjanesbæjar og Sandgerðis. Einn skal skipaður samkvæmt tilnefningu Skipulagsstofnunar, einn samkvæmt tilnefningu umhverfisráðherra og einn án tilnefningar og skal sá gegna formennsku. Ef atkvæði falla jöfn í nefndinni ræður atkvæði formanns úrslitum.
    Félagið kostar og annast gerð deili- og aðalskipulagstillagna fyrir flugvallarsvæðið og leggur fyrir nefndina til afgreiðslu. Samþykki nefndarinnar við deili- eða aðalskipulagstillögu fyrir flugvallarsvæðið telst fullnaðarafgreiðsla málsins á sveitarstjórnarstigi.
    Samgönguráðherra setur nefndinni starfsreglur. Ákvæði skipulagslaga og reglugerða settra samkvæmt þeim eiga að öðru leyti við um störf nefndarinnar eftir því sem við getur átt.
    Utanríkisráðherra fer með yfirstjórn skipulags- og mannvirkjamála á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli en er heimilt að gera þjónustusamning um framkvæmd slíkra verkefna. Utanríkisráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði um framkvæmd þessarar málsgreinar í reglugerð.
    Heimilt er skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar vegna flugvallarsvæðis og utanríkisráðherra vegna öryggissvæðis að taka þátt í gerð svæðisskipulags ásamt nærliggjandi sveitarfélögum í samræmi við ákvæði skipulagslaga.
    Við gerð svæðisskipulags á Suðurnesjum samkvæmt skipulagslögum eru hlutaðeigandi skipulagsyfirvöld bundin af samþykktu aðalskipulagi flugvallarsvæðisins.
    Við framkvæmd 1. og 4. mgr. þessarar greinar skulu utanríkisráðherra og skipulagsnefnd skv. 1. mgr. hafa samráð sín á milli.

9. gr.
Lóðamál, innheimta gatnagerðargjalds o.fl.

    Félagið annast úthlutun og innheimtir lóðarleigugjald á flugvallarsvæðinu í samræmi við lóðarleigusamning þess við fjármálaráðuneytið.
    Félagið annast innheimtu gatnagerðargjalds af lóðum og/eða mannvirkjum á flugvallarsvæðinu og ráðstafar því til gatnagerðar þar í samræmi við ákvæði laga um gatnagerðargjald. Félagið skal setja sér samþykkt um gatnagerðargjald sem birt skal í B-deild Stjórnartíðinda. Í samþykktinni skal m.a. kveðið á um álagningu gjaldsins, undanþágur frá því og afslætti, gjalddaga og eindaga, greiðslufyrirkomulag og annað er varðar innheimtu þess.
    Félagið skal fara með heimildir og skyldur sveitarfélags á flugvallarsvæðinu samkvæmt lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 32/2004, X. kafla vatnalaga, nr. 15/1923 (holræsi), og 8. gr. a laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, og er félaginu heimilt að innheimta gjöld samkvæmt lögunum.
    Ákvarðanir félagsins um álagningu gjalda skv. 2. og 3. mgr. sæta stjórnsýslukæru í samræmi við almennar reglur laga.
    Félaginu er heimilt, að fengnu samþykki samgönguráðherra, að semja við sveitarfélag eða byggðasamlag um að hafa með höndum eitthvert þeirra verkefna sem tilgreind eru í 1., 2. eða 3. mgr.

10. gr.
Gjaldskrá.

    Stjórn félagsins skal setja þjónustugjaldskrá fyrir félagið.
    Félagið skal auglýsa gjaldskrár sínar og efnislegar breytingar á þeim á heimasíðu sinni. Jafnframt skal birta þar uppfærða útgáfu gjaldskráa og samþykkta um gjöld skv. 2. og 3. mgr. 9. gr.

11. gr.
Upphaf rekstrar félagsins.

    Félagið skal hefja rekstur 1. júní 2008.

12. gr.
Gildistaka og brottfall laga.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Með lögum þessum eru frá og með 1. júní 2008 felld úr gildi lög um Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar, nr. 34/2006, og lög um stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar, nr. 76/2000, með síðari breytingum.

13. gr.
Brottfall og breyting lagaákvæða.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Skipulags- og byggingarlög, nr. 73/1997, með síðari breytingum: 61. gr. laganna fellur brott.
     2.      Lög um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum:
                  a.      3. málsl. 1. mgr. 71. gr. a, sbr. 3. gr. laga nr. 34/2006, fellur brott.
                  b.      2. málsl. 1. mgr. 71. gr. b, sbr. 3. gr. laga nr. 34/2006, fellur brott.
     3.      Lög um ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin um skil á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli, nr. 176/2006: Á eftir orðinu „fylgiskjali“ í 1. mgr. 1. gr. komi orðin: sem forsætisráðherra birtir með auglýsingu.

Ákvæði til bráðabirgða.


I.
Stofnun hlutafélags.

    Á stofnfundi hlutafélags skv. 1. gr., sem haldinn skal fyrir 1. júní 2008, skipar samgönguráðherra stjórn sem starfar fram að fyrsta aðalfundi, sbr. 3. gr. Á stofnfundi skal leggja fram til afgreiðslu drög að stofnyfirlýsingu og samþykktum fyrir félagið. Í stofnyfirlýsingunni skal mælt fyrir um þau atriði sem áskilið er að fram komi í stofnsamningi samkvæmt lögum um hlutafélög að öðru leyti en því sem getið er um í lögum þessum.
    Samgönguráðherra er heimilt í samráði við fjármálaráðherra að leggja til hlutafélags skv. 1. gr. eignir, búnað, skuldir og skuldbindingar sem tilheyra rekstri Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar og Flugstöð Leifs Eiríkssonar ohf., þ.e. flugstöðina sjálfa ásamt öllu því sem henni fylgir, eignir, viðskiptavild, réttindi, skuldir og skuldbindingar. Fjármálaráðherra er heimilt að leggja til félagsins aðrar eignir ríkisins á flugvallarsvæðinu.
    Meta skal eignir, búnað, réttindi, skuldir og skuldbindingar skv. 2. mgr. þessa ákvæðis og láta leggja mat á hvert stofnhlutafé opinbera hlutafélagsins skuli vera miðað við 1. júní 2008. Ríkisendurskoðandi skal staðfesta mat á eignum og skuldum félagsins. Heimilt er að stofna félagið með hlutafé að fjárhæð 10 millj. kr. sem greiðist úr ríkissjóði. Þegar endanlegt mat eigna skv. 2. mgr. þessa ákvæðis liggur fyrir skal hlutafé aukið til samræmis á framhaldsstofnfundi og eignir lagðar til félagsins sem stofnhlutafé.
    Eftir að lög um Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar, nr. 34/2006, og lög um stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar, nr. 76/2000, falla úr gildi, 1. júní 2008, sbr. 2. mgr. 12. gr., yfirtekur hlutafélag skv. 1. gr. rekstur og starfsemi Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar, sbr. þó ákvæði til bráðabirgða III, og rekstur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar ohf. Ákvæði XIV. kafla laga um hlutafélög gilda ekki um yfirtöku félagsins á Flugstöð Leifs Eiríkssonar ohf. Samhliða yfirtökunni telst Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar lögð niður og starfsemi Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar ohf. slitið, í skilningi 1. mgr. 127. gr. laga um hlutafélög, og réttindi þess og skyldur runnar í heild sinni til hins nýja hlutafélags skv. 1. gr. Stjórn hins nýja félags skal tilkynna hlutafélagaskrá um yfirtökuna í samræmi við ákvæði 128. gr. laga um hlutafélög. Yfirtakan veitir samningsaðilum, sem breytingin varðar, ekki heimild til uppsagnar fyrirliggjandi samningssambanda.

II.
Réttindi starfsmanna.

    Þegar Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar og Flugstöð Leifs Eiríkssonar ohf. verða lagðar niður, frá og með 1. júní 2008, fer um réttindi og skyldur starfsmanna Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar eftir lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum, en auk þess gilda lög nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, eftir því sem við á.
    Hlutafélag skv. 1. gr. skal bjóða starfsmönnum Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar ohf. störf, sbr. þó ákvæði til bráðabirgða III.
    Um biðlaunarétt, sem kann að hafa fylgt störfum einstakra starfsmanna Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar, gilda ákvæði laga nr. 70/1996.
    Starfsmaður Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar sem hefur áunnið sér rétt til lífeyrisgreiðslna skv. 24. gr. laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, og ræðst til starfa hjá hlutafélagi skv. 1. gr. með minnst þriggja mánaða uppsagnarfresti í hálft starf eða meira, getur ekki hafið töku lífeyris fyrr en hann lætur af því starfi.

III.
Réttindi starfsmanna flugleiðsöguþjónustu.

    Við niðurlagningu á starfsemi Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar 1. júní 2008 er samgönguráðherra heimilt að fela Flugstoðum ohf., sem fara með flugleiðsöguþjónustu og flugvallarrekstur skv. 1. gr. laga nr. 102/2006, að fara með þá flugleiðsöguþjónustu sem var áður á hendi Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar. Hið opinbera hlutafélag skal bjóða störf þeim starfsmönnum sem störfuðu við flugleiðsöguþjónustu hjá Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar. Um réttindi þessara starfsmanna gilda að öðru leyti ákvæði 1., 3. og 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II, eftir því sem við getur átt.

IV.
Lóðamál og innheimta gjalda.

    Þangað til hlutafélag skv. 1. gr. hefur rekstur annast Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar úthlutun lóða og innheimtu gjalda skv. 9. gr.

V.
Skipulags- og mannvirkjamál.

    Þangað til hlutafélag skv. 1. gr. hefur rekstur gegnir Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar því hlutverki, á sviði skipulagsmála, sem félaginu er falið skv. 8. gr. Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar og síðar hlutafélag skv. 1. gr. annast stjórnsýslu byggingarmála (mannvirkjamála) á flugvallarsvæðinu samkvæmt skipulagslögum uns annað verður ákveðið með lögum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.
    Með frumvarpinu er stefnt að setningu heildstæðrar löggjafar um rekstur Keflavíkurflugvallar.
    Með lögum nr. 176/2006 var kveðið á um skipan mála til bráðabirgða á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli í kjölfar samnings um skil Bandaríkjanna á svæðinu til íslenskra stjórnvalda. Samkvæmt lögunum skiptist varnarsvæðið í þrjú svæði, þ.e. flugvallarsvæði (svæði A) sem er starfssvæði Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar, öryggissvæði (svæði B) sem heyrir undir utanríkisráðherra og er ætlað til varnarþarfa, þ.m.t. heræfinga og eftir atvikum friðargæsluæfinga, og starfssvæði (svæði C) Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf.
    Lög nr. 176/2006 voru sett til að taka af öll tvímæli um réttarstöðuna á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli eftir að því hafði verið skilað. Með þeim var mælt fyrir um óbreytta stjórnsýslu á svæðinu, undir yfirstjórn utanríkisráðherra, fyrst um sinn en síðan gert ráð fyrir að svæðinu yrði í áföngum komið í önnur not. Var þannig talið unnt að ganga skipulegar til verks þegar stjórnsýslan á svæðinu yrði færð til samræmis við það sem er annars staðar í landinu.
    Í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 176/2006 segir m.a. að utanríkisráðherra fari með yfirstjórn mála á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli þar til forsætisráðherra gefur út auglýsingu um að landsvæðið í hluta eða heild hafi verið tekið til annarra nota. Með auglýsingu forsætisráðherra nr. 38/2007, sem birtist í B-deild Stjórnartíðinda 19. janúar 2007, var tilkynnt að starfssvæði Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar (svæði C) hefði verið tekið í borgaraleg not og teldist ekki lengur varnarsvæði. 21. desember 2007 gaf forsætisráðherra út auglýsingu með gildistöku 1. janúar 2008 um að flugvallarsvæðið væri ekki lengur varnarsvæði, en þó færi utanríkisráðherra með skipulagsmál, gatnagerð, sorphirðu og veitumál á því svæði uns annað yrði ákveðið.
    Eftir stendur að öryggissvæðið er enn varnarsvæði þar til kveðið hefur verið á um breytta skipan í þeim efnum.

II. Tillögur nefndar um yfirfærslu Keflavíkurflugvallar.
    Með 2. mgr. 2. gr. laga nr. 176/2006 var fimm manna sérfræðinganefnd falið að undirbúa snurðulausa færslu á stjórnun og rekstri Keflavíkurflugvallar yfir til samgönguyfirvalda. Nefndin skilaði utanríkisráðherra 12. febrúar 2007 skýrslu með tillögum um framkvæmd yfirfærslunnar.
    Í skýrslunni voru nefndar nokkrar grundvallarforsendur varðandi eignarhald, rekstur og stjórnsýslu á Keflavíkurflugvelli sem hafa yrði í huga, þ.e. eign íslenska ríkisins á landsvæðinu á og við flugvöllinn, að ýmis mannvirki þar eru á eignaskrá Atlantshafsbandalagsins (NATO) og að hluti búnaðar flugvallarins er í eigu Bandaríkjanna. Þá gegnir flugvöllurinn tvíhliða hlutverki sem afkastamesta samgönguvirki þjóðarinnar og herflugvöllur.
    Nefndin benti m.a. á að flugvallarsvæðið á sér ekki hliðstæðu á Íslandi hvað varðar þarfir og rekstrarforsendur á sviði skipulagsmála. Á sambærilegum flugvöllum, t.d. á Norðurlöndunum, eru ríkishagsmunir látnir ganga framar staðbundnum sérhagsmunum. Þá sé tvískipting í rekstri flugvallarsvæðisins milli Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar ohf. ekki í samræmi við rekstrarfyrirkomulag alþjóðaflugvalla í Evrópu.
    Frumvarp þetta byggist að nokkru á tillögum nefndarinnar en hún lagði til að Keflavíkurflugvöllur yrði rekinn sem sjálfstætt rekstrarfélag, þ.e. sem hlutafélag er yrði dótturfélag Flugstoða ohf. Nefndin benti á að með þessu móti yrði íslenska flugsamgöngukerfið rekið sem ein heild sem til framtíðar litið gæti stuðlað að sjálfbærni þess.
    Nefndin lagði ríka áherslu á að Keflavíkurflugvöllur yrði rekinn með sem sjálfbærustum hætti, þ.e. að tekjur nýttust í uppbyggingu og rekstur flugvallarins. Þá benti nefndin á að þessi leið hefur verið farin varðandi rekstur flestra alþjóðaflugvalla í Evrópu, m.a. Gardermoen-flugvallar í Noregi, og þykir hafa gefist vel. Í frumvarpi þessu hefur verið vikið frá tillögum nefndarinnar um að félagið verði dótturfélag Flugstoða ohf. Gerð er nánari grein fyrir þeim breytingum síðar í greinargerðinni.

III. Tillögur starfshóps um málefni Keflavíkurflugvallar.
    Í ágúst 2007 ákvað ríkisstjórnin að setja á fót starfshóp sem í áttu sæti Páll Þórhallsson, lögfræðingur forsætisráðuneyti, Veturliði Þór Stefánsson, lögfræðingur utanríkisráðuneyti, Þórhallur Arason, skrifstofustjóri fjármálaráðuneyti, Karl Alvarsson, skrifstofustjóri samgönguráðuneyti, og Þórður H. Hilmarsson, forstöðumaður Fjárfestingastofu, fulltrúi iðnaðarráðuneytis. Var starfshópnum falið að undirbúa löggjöf um Keflavíkurflugvöll með hliðsjón af tillögum nefndar á grundvelli laga nr. 176/2006 um yfirfærslu flugvallarins til samgönguráðuneytis og tillögum PricewaterhouseCoopers um atvinnuþróun á svæðinu.
    Að mati starfshópsins er einkum tvennt sem hafa verður í huga við löggjöf um flugvöllinn, í fyrsta lagi að flugvöllurinn geti til frambúðar þjónað sem best borgaralegu millilandaflugi að teknu tilliti til hlutverks hans á sviði varnarmála og í öðru lagi að forsendur séu skapaðar til að nýta tækifærin til atvinnuþróunar í næsta nágrenni flugvallarins til hagsbóta fyrir nærliggjandi sveitarfélög og þjóðina alla. Einkum er mikilvægt í því sambandi að tengja saman ólíka hagsmuni og tryggja samræmi í skipulagsmálum.
    Lagt er til í þessu ljósi að Flugstöð Leifs Eiríkssonar ohf. og Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar verði sameinuð í eitt opinbert hlutafélag í eigu íslenska ríkisins og fari samgönguráðherra með hlutabréf íslenska ríkisins í félaginu. Starfsmönnum beggja stofnana verði boðið starf hjá hinu sameinaða félagi nema hvað heimilt verði að færa flugleiðsöguþjónustu til Flugstoða ohf. Utanríkisráðherra verði heimilt að beina fyrirmælum til félagsins er varðar hagnýtingu flugvallarsvæðisins í þágu varnartengdrar starfsemi.
    Hvað skipulagsmál áhrærir leggur starfshópurinn til að á flugvallarsvæðinu (svæði A) verði sett á fót sameiginleg nefnd þar sem sitji fulltrúar Garðs, Reykjanesbæjar og Sandgerðis auk þriggja fulltrúa sem skipaðir eru af samgönguráðherra, þar af tveir samkvæmt tilnefningu. Gert er ráð fyrir áframhaldandi yfirstjórn utanríkisráðherra í skipulags- og mannvirkjamálum á öryggissvæðinu (svæði B). Starfshópurinn leggur til að forsætisráðherra verði heimilað með auglýsingu að breyta mörkum svæða á fyrrverandi varnarsvæði í kjölfar þarfagreiningar fyrir flugvallarsvæðið annars vegar og öryggissvæðið hins vegar.
    Til viðbótar við nauðsynlega lagasetningu leggur starfshópurinn til að leitað verði leiða til að skapa til frambúðar samstarfsvettvang ríkis og sveitarfélaga um þróun og atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Hugað verði í þessu sambandi að umbreytingu Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf. með beinni eignaraðild sveitarfélaga og aðkomu flugvallarfélagsins.

IV. Forsendur þessa lagafrumvarps.
    Frumvarp þetta byggist að meginstefnu til á tillögum þeim sem reifaðar eru hér að framan í II. og III. kafla. Valin hefur verið sú leið að leggja til setningu heildstæðrar löggjafar um rekstur Keflavíkurflugvallar þar sem rekstur Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar ohf. er sameinaður og færður á hendi eins rekstraraðila, þ.e. opinbers hlutafélags í eigu íslenska ríkisins. Með hliðsjón af mikilvægi Keflavíkurflugvallar sem samgöngumannvirkis og til að tryggja samfellu í rekstri flugvallarsvæðisins þykir hagkvæmast að setja sem fyrst heildstæða löggjöf um reksturinn.
    Við samningu frumvarpsins hefur verið höfð hliðsjón af nýlegri löggjöf um hlutafélagavæðingu ríkisrekstrar, einkum þó lögum nr. 102/2006, um stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands.
    Í frumvarpinu er m.a. tekið mið af þeim forsendum varðandi Keflavíkurflugvöll sem lýst er í II. og III. kafla hér að framan og þeirri áherslu stjórnvalda á að stuðla að uppbyggingu og atvinnuþróun á Suðurnesjum. Þá hefur m.a. verið tekið mið af þeim þjóðréttarlegu skuldbindingum á sviði varnar- og öryggismála sem áfram hvíla á íslenska ríkinu varðandi Keflavíkurflugvöll, á grundvelli varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna og vegna samninga við Atlantshafsbandalagið.

V. Meginatriði lagafrumvarpsins.
    Hér á eftir verður gerð nánari grein fyrir helstu nýmælum og breytingum samkvæmt frumvarpinu:
     1.      Stofnun opinbers hlutafélags, forræði á hlutafé og stjórn. Með lögunum er samgönguráðherra heimilað að stofna opinbert hlutafélag um rekstur flugvallarsvæðis Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Gert er ráð fyrir að félagið verði allt í eigu ríkisins og sala þess óheimil. Samgönguráðherra fari fyrir hönd ríkisstjórnarinnar með hlut ríkisins í félaginu. Gert er ráð fyrir að stjórn félagsins sé skipuð fimm mönnum. Fjallað er um framkvæmdina við stofnun félagsins í ákvæði til bráðabirgða I. Er þar m.a. gert ráð fyrir að ríkissjóður leggi félaginu til eignir og skuldir Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar ohf. Einnig mun fjármálaráðherra gera lóðarleigusamning við félagið um það landsvæði flugvallarsvæðisins sem félagið fær til afnota vegna rekstrarins.
     2.      Tilgangur félagsins. Félaginu er ætlað að annast rekstur, viðhald og uppbyggingu flugvallarsvæðis Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, þ.m.t. rekstur verslana með tollfrjálsar vörur á flugvallarsvæðinu, og starfsemi sem er í beinum tengslum við flugrekstur, rekstur flugvalla og flugstöðvar og aðra starfsemi sem nauðsynlegt er að sé innan haftasvæðis flugverndar. Félaginu verður heimilt að standa að stofnun og gerast eignaraðili að öðrum félögum og fyrirtækjum, þ.m.t. talið er þátttaka í félagi sem ætlað er að annast atvinnuuppbyggingu á nærsvæði flugvallarins, og gera samninga við aðra aðila til að ná tilgangi sínum á sem hagkvæmastan hátt.
     3.      Samningar ríkisins við félagið. Samgönguráðherra er heimilað að gera þjónustusamning við félagið um uppbyggingu og rekstur flugvallarsvæðisins og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Þá er utanríkisráðherra heimilað að gera samning við félagið um not þess af öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli og mannvirkjum Atlantshafsbandalagsins.
     4.      Skuldbindingar ríkisins samkvæmt alþjóðasamþykktum o.fl. Samgönguráðherra er heimilað að fela félaginu að fara með réttindi og alþjóðlegar skuldbindingar íslenska ríkisins enda samræmist slíkt tilgangi félagsins. Félaginu er skylt að fara að fyrirmælum stjórnvalda varðandi framkvæmd og efndir slíkra þjóðréttarlegra skuldbindinga.
     5.      Öryggis- og varnarmál. Í starfsemi sinni er félaginu gert skylt að virða og standa við þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands á sviði varnar- og öryggismála varðandi flugvallarsvæðið og Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Tekið er fram að utanríkisráðherra geti beint fyrirmælum til félagsins varðandi framkvæmd og efndir slíkra þjóðréttarlegra skuldbindinga.
     6.      Gjaldskrá. Félaginu er skylt að setja sér þjónustugjaldskrá og samþykkt um innheimtu gatnagerðargjalds. Félaginu ber að auglýsa gjaldskrár sínar á heimasíðu sinni og birta þar einnig uppfærðar útgáfur gjaldskráa og samþykkta.
     7.      Skipulags- og mannvirkjamál. Frumvarpið mælir fyrir áframhaldandi sérstöðu í skipulagsmálum innan flugvallarsvæðisins. Gert er ráð fyrir að starfrækt sé sérstök sex manna skipulagsnefnd varðandi málefni flugvallarsvæðisins, skipuð af samgönguráðherra. Þar af tilnefna sveitarfélögin Garður, Reykjanesbær og Sandgerði hvert um sig einn fulltrúa í nefndina auk fulltrúa sem tilnefndir eru af umhverfisráðherra og Skipulagsstofnun. Félagið mun kosta og annast gerð deili- og aðalskipulagstillagna fyrir flugvallarsvæðið og leggja fyrir nefndina til afgreiðslu. Frumvarpið gerir ráð fyrir að utanríkisráðherra fari með yfirstjórn skipulags- og mannvirkjamála á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli (svæði B). Þá er gert ráð fyrir að skipulagsnefndin geti tekið þátt í gerð svæðisskipulags með nærliggjandi sveitarfélögum, þ.e. Reykjanesbæ, Sandgerði, Garði, Grindavík og Vogum, í samræmi við ákvæði skipulagslaga. Sama gildir um utanríkisráðherra varðandi öryggisvæðið. Í ákvæði til bráðabirgða V er fjallað um framkvæmd skipulags- og mannvirkjamála þar til félagið og síðar Byggingarstofnun, sbr. frumvarp umhverfisráðherra á þskj. 617 (375. mál), hefja starfsemi.
     8.      Lóðamál, innheimta gjalda o.fl. Félaginu er ætlað að annast lóðaúthlutun og innheimtu lóðarleigugjalds á flugvallarsvæðinu í samræmi við lóðarleigusamning sem það gerir við fjármálaráðuneytið. Þá annast félagið innan flugvallarsvæðisins innheimtu gatnagerðargjalda og veitutengdra gjalda. Ákvarðanir félagsins um álagningu gjalda sæti stjórnsýslukæru í samræmi við almennar reglur. Þá er félaginu heimilað að gera þjónustusamning við sveitarfélög eða byggðasamlag um að annast fyrir félagið lóðamál eða innheimtu gjalda. Í ákvæði til bráðabirgða IV er fjallað um tilhögun lóðamála og gjaldainnheimtu fram að því tímamarki að félagið hefur rekstur.
     9.      Upphaf rekstrar félagsins. Gert er ráð fyrir að félagið hefji starfsemi 1. júní 2008 og yfirtaki þá rekstur flugvallarsvæðisins á Keflavíkurflugvelli og rekstur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Frá og með 1. júní 2008 falli jafnframt úr gildi lög um starfsemi Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar ohf.
     10.      Gildistaka laganna og breytingar á öðrum lögum. Lögunum er ætlað að taka þegar gildi svo að nægt ráðrúm gefist til að undirbúa yfirtöku félagsins á rekstri Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Kveðið er á um breytingar á öðrum lögum sem einnig er ætlað að öðlast þegar gildi. Þar á meðal er breyting á núgildandi skipulags- og byggingarlögum varðandi skipulagsvald á Keflavíkurflugvelli.
     11.      Réttindi starfsmanna. Í ákvæðum til bráðabirgða II og III er félaginu gert skylt að bjóða starfsmönnum Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar ohf. störf. Heimilt er þó að undanskilja starfsmenn flugleiðsöguþjónustu Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar en ef sú heimild er nýtt ber Flugstoðum ohf. að bjóða þeim aðilum störf. Jafnframt er kveðið á um biðlaunarétt og lífeyrismál starfsmanna.
     12.      Flugleiðsöguþjónusta. Í ákvæði til bráðabirgða III er heimilað að flytja starfsemi Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar á sviði flugleiðsöguþjónustu yfir til Flugstoða ohf.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er að finna heimild samgönguráðherra til að stofna opinbert hlutafélag um rekstur Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Starfssvæði félagsins verður landfræðilega afmarkað í uppdrætti sem birtur verður með auglýsingu á grundvelli laga nr. 176/2006. Tekið er fram í ákvæðinu að allt hlutafé þess skuli vera í eigu íslenska ríkisins og sala þess og ráðstöfun óheimil.
    Gert er ráð fyrir að félaginu verði lagðar til eignir og réttindi sem nú tilheyra umræddri starfsemi, þ.m.t. Flugstöð Leifs Eiríkssonar, en jafnframt taki félagið yfir skuldir og skuldbindingar sem henni tilheyra, eftir því sem nánar er kveðið á um í ákvæði til bráðabirgða I.
    Þá er tekið fram að ákvæði laga um hlutafélög gildi um félagið ef ekki er kveðið á um annað í lögum þessum. Af þessu leiðir m.a. að þar sem félaginu er falið stjórnsýsluhlutverk, sbr. ákvæði um innheimtu gjalda og meðferð skipulags- og byggingarmála, gilda meginreglur stjórnsýsluréttar, stjórnsýslulaga og ákvæði upplýsingalaga um félagið.

Um 2. gr.


    Samgönguráðherra er hér falið að fara með hlut ríkisins í félaginu. Í greininni segir að samgönguráðherra fari með framkvæmd laganna, sbr. þó 2. mgr. 5. gr. og 7. gr. Tilgreind frávik helgast af því að öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli er á forræði utanríkisráðherra, sbr. 3. gr. laga nr. 176/2006.

Um 3. gr.


    Í greininni er fjallað um skipun og fjölda stjórnarmanna félagsins. Þrátt fyrir að kveðið sé á um að stjórnarmenn séu fimm, við stofnun félagsins, geta aðstæður í framtíðinni leitt til þess að ástæða verður talin til að fjölga eða fækka stjórnarmönnum. Verður það gert með breytingu á samþykktum félagsins í samræmi við ákvæði hlutafélagalaga.

Um 4. gr.


    Í 1. mgr. er tilgreint að tilgangur félagsins sé m.a. sá að annast rekstur, viðhald og uppbyggingu flugvallarsvæðis Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, þ.m.t. rekstur verslana með tollfrjálsar vörur á flugvallarsvæðinu. Með ákvæðinu er m.a. lögfest sérstök heimild félagsins til að starfrækja tollfrjálsar verslanir í skilningi 101. gr. gildandi tollalaga, nr. 88/2005. Lýtur félagið eftirliti fjármálaráðherra að því er rekstur slíkra verslana varðar. Í þeim tilvikum þegar félagið veitir með gerð rekstrarleyfissamninga nánar tilgreindum samningshöfum umboð til að reka tollfrjálsar verslanir, í skilningi 101. gr. tollalaga, innan flugstöðvarinnar, starfa slíkir samningshafar í umboði og á ábyrgð félagsins. Ákvæði 1. mgr. er efnislega að mestu samhljóða 7. gr. laga, nr. 76/2000, um stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þó er hér gerð sú áherslubreyting að tilgangur félagsins skal samkvæmt ákvæðinu aðallega vera að sinna starfsemi sem er í beinum tengslum við flugrekstur, rekstur flugvalla og flugstöðvar og aðra starfsemi sem talið er nauðsynlegt að sé innan haftasvæðis flugverndar. Hugtakið haftasvæði flugverndar (e. Security Restricted Area) er skilgreint með eftirfarandi hætti í 3. gr. reglugerðar um flugvernd nr. 361/2005: „Flugsvæði flugvallar þar sem eftirlit er haft með aðgangi til að tryggja flugvernd í almenningsflugi. Þessi svæði ná að jafnaði m.a. yfir öll brottfararsvæði farþega á milli skimunarstaða og loftfars, hlaðs, flokkunarsvæða farangurs, farangursskála, póststöðva og athafnasvæða fyrir ræstingar og flugvistir.“
    Til að ná tilgangi sínum á sem hagkvæmastan hátt er gert ráð fyrir því í 2. mgr. að félaginu sé heimilt að gera hvers konar samninga við aðra aðila og því sé heimilt að standa að stofnun fyrirtækja og gerast eignaraðili í öðrum félögum, þ.m.t. talið er þátttaka í félagi sem ætlað er að annast atvinnuuppbyggingu á nærsvæði Keflavíkurflugvallar. Þessi heimild er sambærileg við ákvæði 5. gr. laga nr. 102/2006 (Flugstoðir ohf.) og tekur mið af niðurstöðum og tillögum starfshóps sem reifaðar eru í III. kafla almennra athugasemda.
    Þá er gert ráð fyrir að tilgangi félagsins verði nánar lýst í samþykktum félagsins á hverjum tíma, en nauðsynlegt kann að vera, til að tryggja sveigjanleika gagnvart breytingum í framtíðinni, að tilgangi félagsins verði að einhverju leyti breytt frá því sem kveðið er á um við stofnun þess, og verða slíkar breytingar þá gerðar á hluthafafundi í félaginu í samræmi við ákvæði hlutafélagalaga um breytingar á samþykktum.

Um 5. gr.


    Ákvæði 1. mgr. tekur mið af þeirri staðreynd að sökum mikillar viðhaldsþarfar, og endurnýjunar á tækjabúnaði, munu tekjur af flugvallarrekstri fyrstu árin í starfsemi félagsins sennilega ekki standa undir kostnaði. Rekstur Keflavíkurflugvallar er eftir sem áður einn mikilvægasti þátturinn í flugöryggi og uppbyggingu samgangna hér á landi. Því gert ráð fyrir að íslenska ríkið muni fela félaginu að annast rekstur Keflavíkurflugvallar á grundvelli uppbyggingar- og þjónustusamnings sem taki á hverjum tíma mið af stefnumótun og markmiðum í samgöngumálum hér á landi.
    Í 2. mgr. er utanríkisráðherra heimilað að gera samning við félagið um not þess af öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli og mannvirkjum í eigu Atlantshafsbandalagsins sem utanríkisráðuneytið ber ábyrgð á.

Um 6. gr.


    Samgönguráðherra er hér heimilað að fela félaginu að fara með réttindi og annast skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum og samningum við önnur ríki, enda samræmist slíkt tilgangi félagsins. Gert er ráð fyrir því að félaginu verði skylt að fara eftir fyrirmælum samgönguráðherra varðandi framkvæmd og efndir slíkra samninga. Er áhersla á þetta lögð þar sem um skuldbindingar íslenska ríkisins er að ræða. Grein þessi er að mestu samhljóða 11. gr. laga nr. 102/2006, um stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands.

Um 7. gr.


    Í 1. mgr. er félaginu gert skylt að virða í starfsemi sinni og standa við þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands á sviði varnar- og öryggismála varðandi flugvallarsvæðið og Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þar á meðal telst varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna, sbr. lög nr. 110/1951, og samkomulag Íslands og Bandaríkjanna frá 26. ágúst 1983 varðandi aðgang og afnot Bandaríkjanna af Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli á ófriðartímum og í neyðartilvikum. Sem dæmi um aðrar þjóðréttarlegar skuldbindingar sem skipta hér máli eru þær kvaðir sem hvíla á Keflavíkurflugvelli vegna samninga við Atlantshafsbandalagið.
    Í 2. mgr. er áréttað fyrirsvarshlutverk utanríkisráðherra varðandi hagnýtingu flugvallarsvæðisins í þágu varnartengdrar starfsemi. Í samræmi við það er utanríkisráðherra heimilt að beina fyrirmælum til félagsins er varða framkvæmd þjóðréttarlegra skuldbindinga á sviði öryggis- og varnarmála.

Um 8. gr.


     Þessu ákvæði er ætlað er að koma í stað 61. gr. núgildandi skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997. Þar er kveðið um þá sérstöðu að utanríkisráðherra fari með yfirstjórn í skipulags- og byggingarmálum innan auglýstra varnarsvæða. Tillaga þessa frumvarps tekur mið af þeirri staðreynd að flugvallarsvæðið liggur innan marka þriggja sveitarfélaga þ.e. Garðs, Reykjanesbæjar og Sandgerðis. Sökum séreðlis Keflavíkurflugvallar sem stærsta samgöngumannvirkis þjóðarinnar, eignarhalds ríkisins á öllu landi innan flugvallarsvæðisins og til að tryggja hagsmuni ríkisins varðandi rekstur og uppbyggingu Keflavíkurflugvallar þykir rétt að mæla hér fyrir um áframhaldandi sérfyrirkomulag í skipulagsmálum. Geta ber þess að í 59.–68. gr. laga nr. 60/1998, um loftferðir, eru fjölmörg ákvæði um skipulag innan og utan flugvalla. Auk þess er samgönguráðherra heimilt að setja skipulagsreglur fyrir flugvelli sem ætlaðir eru til almennrar notkunar. Í skipulagsreglum er gert ráð fyrir að kveðið verði á um skipulag innan flugvallarsvæðis auk fyrirmæla um það svæði utan flugvallar þar sem rétt er að setja takmörkun á hæð mannvirkja og annarra hluta, t.d. húsa, stanga og trjáa, eða takmörkun á meðferð fasteigna eða hluta, t.d. að því er varðar leiðslur eða atvinnurekstur, enda séu slíkar kvaðir nauðsynlegar í þágu almenns öryggis.
    Í 1. mgr. greinarinnar er kveðið á um sex manna skipulagsnefnd fyrir flugvallarsvæðið skipaða af samgönguráðherra samkvæmt tilnefningu þeirra þriggja sveitarfélaga sem fara með sveitarstjórnarvald á svæðinu, þ.e. sveitarfélaganna Sandgerðis, Garðs og Reykjanesbæjar, auk tilnefningar frá umhverfisráðherra og Skipulagsstofnun. Einn fulltrúa skipar samgönguráðherra án tilnefningar sem jafnframt er formaður. Ef atkvæði falla jöfn í nefndinni ræður atkvæði formanns úrslitum. Tekið er fram í ákvæðinu að samþykktar deili- eða aðalskipulagstillögur fyrir flugvallarsvæði teljist fullnaðarafgreiðslur á stjórnsýslustigi Af þessu leiðir að ekki þarf að leggja þær sérstaklega fyrir sveitarstjórnir sveitarfélaganna til samþykktar.
    Í 2. mgr. er félaginu gert að annast og kosta gerð deili- og aðalskipulagstillagna fyrir flugvallarsvæðið. Með því er leitast við að nýta sérfræðiþekkingu félagsins varðandi rekstur flugvallarsvæðisins og þær sérhæfðu alþjóðlegu kröfur sem gerðar er til skipulags flugvalla.. Tekið er fram í ákvæðinu að samþykktar deili- eða aðalskipulagstillögur fyrir flugvallarsvæði teljist fullnaðarafgreiðslur á stjórnsýslustigi. Af þessu leiðir að ekki þarf sérstaklega að leggja þær fyrir sveitarstjórnir sveitarfélaganna til samþykktar.
    Í 3. mgr. er samgönguráðherra veitt heimild til að setja nefndinni starfsreglur.
    Í 4. mgr. segir að utanríkisráðherra fari með yfirstjórn skipulags- og mannvirkjamála á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Þetta er í samræmi við núverandi efni 61. gr. skipulags- og byggingarlaga og leiðir af yfirstjórnarhlutverki utanríkisráðherra á öryggissvæðinu, sbr. 3. gr. laga nr. 176/2006. Utanríkisráðherra er hér heimilað að gera þjónustusamning um framkvæmd skipulags- og mannvirkjamála á öryggissvæðinu. Um er að ræða þjónustusamning í skilningi 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997. Af hagkvæmnisástæðum þykir rétt að hafa þessa heimild í lögunum. Þá er utanríkisráðherra heimilað að setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd ákvæðisins. Er greinin að mestu leyti samhljóða ákvæði 2. málsl. 3. mgr. núgildandi 61. gr. skipulags- og byggingarlaga.
    Í 5. mgr. er gert ráð fyrir að skipulagsnefndin geti tekið þátt í gerð svæðisskipulags með nærliggjandi sveitarfélögum, þ.e. Reykjanesbæ, Sandgerði, Garði, Grindavík og Vogum, í samræmi við ákvæði skipulagslaga. Sama gildir um utanríkisráðherra varðandi öryggisvæðið.
    Í 6. mgr. kveðið á um að við gerð svæðisskipulags á Suðurnesjum samkvæmt skipulagslögum séu hlutaðeigandi skipulagsyfirvöld bundin af samþykktu aðalskipulagi flugvallarsvæðisins. Af þessu leiðir að samþykktu aðalskipulagi flugvallarsvæðisins verður ekki breytt með gerð svæðisskipulags.
    Í 7. mgr. er tekið fram að við framkvæmd 1. og 4. mgr. beri skipulagnefnd skv. 1. mgr. og utanríkisráðherra að hafa samráð sín á milli. Sú tilhögun er í samræmi við gildandi ákvæði 61. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Um 9. gr.


    Í 1. mgr. ákvæðisins segir að félagið annist úthlutun og innheimti lóðarleigugjald á flugvallarsvæðinu í samræmi við lóðarleigusamning þess við fjármálaráðuneytið. Þetta er í samræmi við núgildandi framkvæmd en Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar hefur annast úthlutun lóða og gerð lóðarleigusamninga á flugvallarsvæðinu í umboði utanríkisráðuneytisins. Gert er ráð fyrir að afmörkun svæðisins sem félagið fær til umráða með lóðarleigusamningi við fjármálaráðuneytið taki mið af þörfum félagsins og tilgangi þess skv. 4. gr. frumvarpsins.
    Með ákvæði 2. mgr. er félaginu falið að annast innheimtu gatnagerðargjalds af lóðum og/eða mannvirkjum á flugvallarsvæðinu og ráðstafa því til gatnagerðar þar í samræmi við ákvæði laga um gatnagerðargjald. Félaginu er hér falið ákveðið stjórnsýsluhlutverk og innheimta lögbundinna gjalda. Þetta fyrirkomulag er í samræmi þá framkvæmd sem tíðkast hefur um árabil í starfsemi Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Samkvæmt 8. gr. núgildandi gjaldskrár nr. 479/2004 fyrir gatnagerðargjöld á varnarsvæðum innheimtir flugvallarstjórinn á Keflavíkurflugvelli gatnagerðargjald á flugvallarsvæðinu og annast ráðstöfun þess.
    Samkvæmt 3. mgr. skal félagið fara með heimildir og skyldur sveitarfélags á flugvallarsvæðinu samkvæmt lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, X. kafla vatnalaga og ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir um fráveitur og er félaginu heimilt að innheimta gjöld samkvæmt lögunum. Þetta fyrirkomulag tekur mið af þeirri staðreynd að veitukerfi innan flugvallarsvæðisins er að meginstefnu til í eigu ríkisins og hafa verið rekin af Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar um árabil.
    Með ákvæði 4. mgr. er kveðið með skýrum hætti á um það að ákvarðanir félagsins um álagningu gjalda skv. 2. og 3. mgr. greinarinnar sæta stjórnsýslukæru til æðra stjórnvalds í samræmi við almennar reglur laga.
    Ákvæði 5. mgr. heimilar félaginu að gera þjónustusamninga við nærliggjandi sveitarfélög eða byggðasamlög á þeirra vegum varðandi þau verkefni sem félaginu eru falin skv. 1., 2. og 3. mgr. greinarinnar. Mikilvægt er að félagið hafi slíka heimild varðandi verkefni sem falla vel að starfsemi sveitarfélaga ef sýnt þykir á síðari stigum að slík samningagerð horfi til hagræðis og umbóta í rekstri. Um er að ræða þjónustusamning í skilningi 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, og á það ákvæði við um gerð slíks samnings að breyttu breytanda. Af niðurlagi ákvæðisins leiðir að slík samningagerð er háð endanlegu samþykki samgönguráðherra.

Um 10. gr.


    Í 1. mgr. er lagt til að stjórn félagsins setji því þjónustugjaldskrá.
    Í 2. mgr. er félaginu gert skylt að auglýsa gjaldskrár sínar og efnislegar breytingar á þeim á heimasíðu sinni. Þá ber félaginu einnig að birta þar uppfærðar útgáfur gjaldskráa og samþykkta um gjöld skv. 2. og 3. mgr. 9. gr.

Um 11. gr.


    Hér er kveðið á um hvenær hið nýja félag skuli hefja rekstur en nauðsynlegt er að stofna félagið nokkru áður til að undirbúa upphaf starfseminnar. Í mörg horn er að líta við slíka tilfærslu sem hér er kveðið á um og mikilvægt að nægur tími gefist til þess. Með því að kveða á um það, í ákvæði til bráðabirgða I, að stofnun skuli vera lokið fyrir 1. júní 2008 ætti að gefast nægur tími til undirbúnings.

Um 12. gr.


    Þótt gildistökuákvæðið í 1. mgr. frumvarpsins kveði á um að lögin taki þegar gildi þarf, eins og áður segir, að ætla stofnun félagsins og ráðningu framkvæmdastjóra þess ákveðinn tíma. Ganga þarf formlega frá ráðningum félagsins á starfsmönnum Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar ohf., sbr. ákvæði til bráðabirgða II, auk annars undirbúnings við sameininguna. Því er við það miðað að lög um Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar, nr. 34/2006, og lög um stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar, nr. 76/2000, með síðari breytingum, falli úr gildi frá og með 1. júní 2008.

Um 13. gr.


    Í 1. tölul. er kveðið á um brottfall 61. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, með síðari breytingum. Með þessu er fellt niður ákvæði um skipulags- og byggingarnefnd varnarsvæða enda er sérstakri skipulagsnefnd skv. 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins ætlað að taka við hluta þessa hlutverks. Í ákvæði til bráðabirgða V í frumvarpinu er m.a. fjallað um framkvæmd byggingamála (mannvirkjamála) þar til Byggingarstofnun, sbr. frumvarp umhverfisráðherra á þskj. 617 (375. mál), hefur störf.
    Í 2. tölul. er að finna tillögu að breytingu á tveimur ákvæðum laga um loftferðir, nr. 60/1998. Með þeim breytingum eru felldar út tvær tilvísanir til Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar sem teljast óþarfar.
    Í 3. tölul. er að finna tillögu til breytinga á lögum um ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin um skil á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli, nr. 176/2006. Breytingin gerir ráð fyrir að uppdráttur sem sýnir ytri mörk og skiptingu varnarsvæðisins á Keflavíkurflugvelli í svæði A, B og C, verði framvegis birtur með auglýsingu forsætisráðherra í stað þess að slíkur uppdráttur hafi lagagildi líkt og nú er raunin.

Um ákvæði til bráðabirgða I.


    Ákvæði 1. og 2. mgr. fjalla um stofnun hlutafélags skv. 1. gr. og þær eignir og skuldir Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar ohf. sem heimilt er að láta ganga til hins nýja félags. Jafnframt er fjármálaráðherra heimilt að leggja til félagsins aðrar eignir á flugvallarsvæðinu. Þar kæmu helst til álita byggingar sem hafa verið nýttar í þágu flugvallarstarfseminnar auk annarra bygginga, t.d. flugskýli sem verið hafa í eigu varnarliðsins. Þá leiðir það af ákvæði 9. gr. frumvarpsins að fjármálaráðuneytið mun gera lóðarleigusamning við félagið um það landsvæði flugvallarsvæðisins sem félagið fær til umráða. Mælt er fyrir um að stofnfund félagsins skuli halda fyrir 1. júní 2008.
    Samkvæmt 5. mgr. yfirtekur félagið rekstur flugvallarsvæðis Keflavíkurflugvallar og rekstur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar ohf., ásamt tilheyrandi réttindum og skyldum, svo sem þær verða ákvarðaðar skv. 3. mgr. 1. júní 2008. Samhliða er gert ráð fyrir að Flugmálastjórn Keflavíkur hætti starfsemi og lög um stofnunina falli úr gildi. Einnig hættir Flugstöð Leifs Eiríkssonar ohf. starfsemi frá sama tíma og fellur umboð stjórnar félagsins jafnframt úr gildi um leið og lög um stofnun félagsins falla úr gildi. Þar sem starfsemi Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar ohf. er yfirtekin af hinu nýja hlutafélagi er miðað við að starfsemi félagsins teljist slitið við samrunann í skilningi 1. mgr. 127. gr. hlutafélagalaga. Þó er mælt fyrir um það í ákvæðinu að XIV. kafli laganna gildi ekki um framkvæmd samrunans enda réttindi allra kröfuhafa tryggð þótt reksturinn sé fluttur til nýs lögaðila. Í niðurlagi greinarinnar er tekið fram að umrædd breyting veiti viðsemjendum þessara tveggja aðila sem lagðir eru niður ekki sérstaklega heimild til að segja upp fyrirliggjandi samningssamböndum og er þá m.a. átt við verk- og þjónustusamninga sem í gildi eru vegna þeirrar starfsemi sem flyst til hlutafélagsins. Um réttarstöðu starfsmanna fer hins vegar samkvæmt því sem kveðið er á um í ákvæðum til bráðabirgða II og III.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir að samgönguráðherra láti meta framangreindar eignir og réttindi, skuldir og skuldbindingar í samræmi við ákvörðun skv. 2. mgr. Það mun síðan koma í hlut ríkisendurskoðanda að staðfesta mat á eignum og skuldum félagsins. Við það mat er gert ráð fyrir að hafðar verði til hliðsjónar 5. og 6. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, varðandi mat á verðmætum, öðrum en reiðufé, sem félag tekur við frá stofnanda. Gert er ráð fyrir að staðfesting á stofnhlutafé félagsins liggi fyrir þegar félagið tekur til starfa en heimilt er að stofna félagið áður, sbr. ákvæði 1. mgr. Lagt er til að félagið verði stofnað með hlutafé að fjárhæð 10 millj. kr. sem greiðist úr ríkissjóði. Framhaldsstofnfundur verði síðan haldinn þegar mat eigna liggur fyrir.

Um ákvæði til bráðabirgða II.


    Í þessu ákvæði er mælt fyrir um réttindi starfsmanna Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar ohf. þegar starfsemi þessara tveggja lögaðila verður lögð niður. Tilgangur ákvæðisins er að réttindi starfsmannanna verði við breytinguna tryggð með eðlilegum hætti og sambærileg öðrum tilvikum sem þessum. Um réttarstöðu starfsmanna á þessum tímamótum gilda almenn ákvæði starfsmannalaga og eftir atvikum aðilaskiptalaga. Starfsmannalögin hafa þýðingu að því er varðar starfslok í þjónustu ríkisins, þ.e. hvort ríkisstarfsmaður geti átt rétt á biðlaunum ef hann fer ekki að vinna hjá hlutafélaginu. Taka ber fram að starfsmannalögin gilda ekki um starfsmenn Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar ohf. þar sem þeir teljast ekki ríkisstarfsmenn. Aðilaskiptalögin hafa þá þýðingu að aðilaskipti ein sér geta ekki verið ástæða uppsagnar starfsmanna lögaðilanna tveggja. Óheimilt er að segja starfsmanni upp störfum vegna aðilaskipta nema efnahagslegar, tæknilegar eða skipulagslegar ástæður hafi í för með sér breytingar á starfsmannahaldi fyrirtækisins. Einnig færast réttindi og skyldur samkvæmt ráðningarsamningi eða ráðningarsambandi sem fyrir hendi er á þeim degi sem aðilaskipti eiga sér stað yfir til hins nýja félags. Virða skal áfram launakjör og starfsskilyrði samkvæmt kjarasamningi þar til kjarasamningi verður sagt upp eða hann rennur út eða þar til annar kjarasamningur öðlast gildi eða kemur til framkvæmda. Í 2. mgr. ákvæðisins er gert ráð fyrir að öllum starfsmönnunum, sbr. þó ákvæði til bráðabirgða III, verði boðið starf hjá hinu nýja félagi.
    Samkvæmt 3. mgr. fer um biðlaunarétt starfsmanna Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar eftir lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Ríkisstarfsmenn eiga í sumum tilvikum rétt til biðlauna sé starf þeirra lagt niður. Um biðlaunarétt annarra starfsmanna en embættismanna gildir 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 70/1996. Í ákvæðinu er vísað til 34. gr. þeirra laga um nánari skýringu á biðlaunarétti. Samkvæmt þeirri grein sætir biðlaunaréttur sérstökum takmörkunum. Biðlaunaréttur fellur niður ef starfsmaður hafnar öðru sambærilegu starfi, óháð því hvort það er á vegum ríkisins eða annars aðila, og laun þau er starfsmaður fær á biðlaunatíma fyrir starf sem hann tekur við í þjónustu ríkisins eða annars aðila skulu koma til frádráttar biðlaunagreiðslum.
    Að lokum er lagt til í 4. mgr. að komið verði í veg fyrir að starfsmenn Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar, sem eiga aðild að B-deild LSR og nýta rétt sinn til að þiggja starf hjá hinu nýja hlutafélagi, geti nýtt sér rétt til að hefja töku lífeyris meðan þeir eru fastráðnir hjá félaginu. Ef ekki er sett sérstakt lagaákvæði þar um geta starfsmenn, sem þetta á við, hafið töku lífeyris samhliða starfi sínu hjá félaginu. Slíkt er í ósamræmi við það sem almennt gildir um sjóðfélaga í B-deild er starfa hjá ríkinu. Fyrrverandi ríkisstarfsmenn geta almennt ekki átt áframhaldandi aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins (LSR) eftir að þeir eru komnir í starf hjá öðrum launagreiðanda en ríkinu. Starfsmenn í B-deild LSR eiga þó rétt á áframhaldandi aðild sem einstaklingar, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 1/1997. Viðkomandi einstaklingar bera þá ábyrgð á greiðslum til sjóðsins, þ.e. 4% eigin iðgjaldi og 6% mótframlagi félagsins. Ríkissjóður ber bakábyrgð á skuldbindingum deildarinnar að því leyti sem vaxtatekjur hrökkva ekki til. Þá geta starfsmenn í A-deild LSR, með samþykki stjórnar lífeyrissjóðsins, fengið áframhaldandi aðild enda liggi fyrir samþykki hlutafélagsins fyrir aðildinni og skuldbindingum sem henni fylgja. Í þessum tilvikum er það skilyrði að viðkomandi sé félagsmaður í aðildarfélagi BHM, BSRB, KÍ eða öðrum félögum utan bandalaga sem semja á grundvelli laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Um ákvæði til bráðabirgða III.


    Með greininni er kveðið á um það að samgönguráðherra sé heimilt, samfara niðurlagningu á starfsemi Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar, að fela Flugstoðum ohf., sem fara með flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands skv. 1. gr. laga nr. 102/ 2006 (Flugstoðir ohf.), að fara með þá flugleiðsöguþjónustu sem var áður á hendi Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar. Með þeirri tilhögun yrði flugleiðsöguþjónusta á Íslandi færð á eina hendi. Með flugleiðsöguþjónustu er hér átt við flugumferðar-, fjarskipta- og ratsjárþjónustu, veðurþjónustu fyrir flugleiðsögu og flugupplýsingaþjónustu, auk tækjabúnaðar og annarrar stoðþjónustu, þ.m.t. daglegur rekstur tækja og viðhald sem er á hendi tæknideildar flugvallarins. Deildin sinnir einnig ýmsum öðrum verkefnum og tæknibúnaði sem nauðsynlegur er vegna rekstrar flugvallarins. Nauðsynlegt er að nánari greining fari fram á starfseminni áður en ákveðið er hvort hentugra sé að vista einstaka þætti þjónustunnar hjá rekstraraðila flugvallarins eða Flugstoðum ohf. Í ákvæðinu er Flugstoðum ohf. gert skylt að bjóða starf þeim starfsmönnum sem störfuðu við flugleiðsöguþjónustu hjá Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar, að því marki sem heimildin verður nýtt. Um réttindi þessara starfsmanna fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum 1., 3. og 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II.

Um ákvæði til bráðabirgða IV.


    Með ákvæðinu er Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar heimilað að annast lóðamál og innheimtu gjalda skv. 9. gr. frumvarpsins þar til hlutafélag skv. 1. gr. hefur rekstur.

Um ákvæði til bráðabirgða V.


    Hér er mælt fyrir um það að Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar gegni tímabundið því hlutverki, á sviði skipulagsmála, sem félaginu er falið skv. 8. gr. Þessi tilhögun þykir nauðsynleg þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir að lögin öðlist þegar gildi en félaginu er ekki ætlað að hefja rekstur fyrr en 1. júní 2008. Þá gerir ákvæðið ráð fyrir því að Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar og síðar félagið, þegar það hefur starfsemi, annist stjórnsýslu mannvirkjamála á flugvallarsvæðinu þar til annað verður ákveðið með lögum.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp laga um stofnun opinbers hlutafélags
um rekstur flugvallarsvæðis Keflavíkurflugvallar o.fl.

    Meginmarkmiðið með þessu frumvarpi er að stofna opinbert hlutafélag um rekstur flugvallarsvæðis Keflavíkurflugvallar (svæði A) og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Gert er ráð fyrir að félagið verði allt í eigu íslenska ríkisins og er sala þess óheimil. Samkvæmt 1. gr. frumvarpsins er heimilt að leggja til hlutafélagsins eignir, búnað, skuldir og skuldbindingar sem tilheyra rekstri Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar og Flugstöð Leifs Eiríkssonar ohf., þ.e. flugstöðina sjálfa ásamt öllu því sem henni fylgir, eignir, viðskiptavild, réttindi, skuldir og skuldbindingar. Ekkert formlegt mat liggur fyrir um verðmæti þeirra en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ríkisendurskoðandi muni staðfesta mat á verðmæti þeirra eigna sem lagðar eru til hlutafélagsins. Slík staðfesting skal liggja fyrir áður en félagið tekur til starfa. Þegar endanlegt mat liggur fyrir skal á framhaldsstofnfundi hlutafélagsins hlutafé aukið til samræmis og eignir lagðar til félagsins sem stofnhlutafé. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að hlutafélaginu sé gert skylt að setja sér þjónustugjaldskrá og jafnframt sérstaka samþykkt fyrir gatnagerðargjald. Einnig kemur fram í frumvarpinu, í ákvæðum II og III til bráðabirgða, að hlutafélaginu er skylt að bjóða öllum starfsmönnum Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar ohf. áframhaldandi störf. Undanskildir eru þó starfsmenn flugleiðsöguþjónustu Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar en Flugstoðum ohf. ber að bjóða þeim aðilum störf.
    Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. hefur verið rekin á undanförnum árum sem sjálfbært hlutafélag í eigu ríkisins án framlags frá ríkissjóði. Á síðastliðnum árum hefur verið jákvæð afkoma af rekstri Flugstöðvarinnar, en hagnaður ársins 2006 nam í kringum 22 m.kr. sem er reyndar talsverður viðsnúningur frá árinu 2005 þar sem hagnaður var í kringum 1.000 m.kr. Þess ber þó að geta að samkvæmt árshlutareikningi fyrir fyrstu sex mánuði síðasta árs er hagnaður þess tímabils 1.266 m.kr. Umsvif Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar hefur aukist eftir brottflutning varnarliðsins, en allir flugtengdir rekstrarþættir er voru áður í höndum varnarliðsins færðust í þeirra hendur. Í fjárlagafrumvarpi 2008 er gert ráð fyrir að kostnaður vegna reksturs Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar sé 2.811 m.kr. en þar af eru 290 m.kr. vegna tímabundins stofnkostnaðar. Fjármögnun ríkisins er á þann veg að 1.590,8 m.kr. eru greiddar með beinu framlagi úr ríkissjóði og 1.220,2 m.kr. eru innheimtar af ríkistekjum. Ef tekið er mið af ofangreindum forsendum er ljóst að framlag úr ríkissjóði til félagsins á grundvelli þjónustusamnings verður til að byrja með a.m.k. 1.000 m.kr. á ári vegna stofnunar á hinu nýja hlutafélagi, þ.e.a.s. með hliðsjón af hagnaðartölum fyrri ára hjá Flugstöð Leifs Eiríkssonar ohf.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi aukin útgjöld í för með sér fyrir ríkissjóð. Þess ber þó að geta að ríkissjóður mun leggja til 10 m.kr. í stofnframlag til eignfærslu á efnahagsreikning ríkissjóðs.