Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 114. máls.

Þskj. 751  —  114. mál.Skýrsla

iðnaðarráðherra um kostnað við Kárahnjúkavirkjun,
samkvæmt beiðni.

(Lögð fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)
Inngangur.
    Með beiðni (á þskj. 115) frá Álfheiði Ingadóttur og fleiri alþingismönnum er þess óskað að iðnaðarráðherra flytji skýrslu um kostnað við Kárahnjúkavirkjun. Óskað er eftir að í skýrslunni komi fram:
     1.      Tölulegar upplýsingar um áætlaðan heildarkostnað við framkvæmdirnar við Kárahnjúka. Fram komi samanburður við upphaflega verksamninga sem gerðir voru um framkvæmdirnar í kjölfar útboða haustið 2002 og við áætlun um aðra þá kostnaðarþætti sem ekki voru gerðir sérstakir verksamningar um eftir að framkvæmdir hófust.
     2.      Upplýsingar, þ.e. listi yfir alla verksamninga sem nema hærri fjárhæð en 10 millj. kr. og framkvæmdaraðili hefur gert vegna undirbúnings, rannsókna og framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun. Fram komi í yfirliti þessu upplýsingar um fjárhæð, mynt og gengi hvers verksamnings fyrir sig ásamt því hversu há fjárhæð var ætluð til greiðslu ófyrirséðs kostnaðar í viðkomandi samningi.
     3.      Upplýsingar um niðurstöðutölu viðkomandi verksamnings við lok hvers verks og verkþáttar, þ.e. hvort og þá hversu mikið frávik var frá umsaminni fjárhæð í hverju tilviki. Ef breyting er meiri en nemur því sem ætlað var til greiðslu ófyrirséðs kostnaðar fylgi skýringar.
     4.      Tölulegar upplýsingar um öll aukaverk, þar á meðal viðbótarsamninga sem framkvæmdaraðili hefur gert vegna krafna (claims) verktaka ásamt upplýsingum um útistandandi og óumsamdar kröfur verktaka. Hér er m.a. átt við viðbótarverk sem til komu vegna endurhönnunar stíflna og annarra mannvirkja, dráttar sem orðið hefur á framkvæmdum þess vegna, vatnsaga í göngum, aukins flutningskostnaðar vegna sölu rafmagns frá öðrum virkjunum þar til verklok verða við Kárahnjúka o.s.frv.
     5.      Upplýsingar um kostnað og framkvæmdaáætlun vegna mótvægisaðgerða samkvæmt ákvörðun umhverfisráðherra.
     6.      Upplýsingar um ógreiddan kostnað samkvæmt áætlun Landsvirkjunar um verklok.
     7.      Upplýsingar um áætlaðar tekjur áranna 2007 og 2008 samkvæmt upphaflegri áætlun Landsvirkjunar um raforkusölu til Alcoa Fjarðaáls og til samanburðar rauntekjur af orkusölunni það sem af er árinu 2007 og endurskoðaða tekjuáætlun út árið og fyrir næsta ár.

Upplýsingaöflun og framsetning.
    Þar sem umbeðnar upplýsingar og gögn lágu ekki fyrir í iðnaðarráðuneytinu var leitað upplýsinga hjá Landsvirkjun um fyrrgreind atriði. Þrátt fyrir að fjármálaráðherra fari með eignarhald ríkisins í Landsvirkjun veitti fyrirtækið fulltrúum iðnaðarráðuneytis aðgang að öllum gögnum er tengjast framkvæmdum við Kárahnjúkavirkjun og aðstoðaði við að taka saman upplýsingar í skýrsluna.
    Framkvæmdin er, eins og fram kemur í greinargerð með skýrslubeiðni, stærsta framkvæmd Íslandssögunnar. Um framkvæmdina gildir fjöldi samninga og fyrir liggur mikið magn gagna. Við samanburð fjárhæða ber að hafa í huga að í sumum tilvikum eru þær á mismunandi verðlagi. Þá er framkvæmdum við Kárahnjúkavirkjun ekki lokið auk þess sem viðræður hafa að undanförnu staðið yfir við verktaka um uppgjör þeirra verkþátta sem lokið er. Af þeirri ástæðu liggja ekki fyrir endanlegar niðurstöður varðandi einstök verk og verkþætti.
    Í greinargerð með skýrslubeiðni segir m.a. að óskað sé eftir að fá greinargott yfirlit yfir heildarkostnað við stærstu framkvæmd Íslandssögunnar. Skýrslunni er ætlað að gefa slíkt yfirlit þótt ekki sé í skýrslunni að finna allar upplýsingar sem óskað er eftir í 4. tölul. skýrslubeiðninnar. Mörg hundruð aukaverk hafa verið framkvæmd og gerðir fjölmargir viðbótarsamningar vegna ófyrirsjáanlegra tafa og breytinga á framkvæmdinni. Vegna umfangs og þeirra tímamarka sem skýrslugerð þessari eru sett telur Landsvirkjun ógerlegt að verða við beiðni um tölulegar upplýsingar um sérhvert aukaverk og viðbótarsamning þar sem slík vinna tæki marga mannmánuði. Kostnaður af aukaverkum og viðbótarsamningum er hins vegar hluti af endanlegum kostnaði umfram samningsverð sérhvers verksamnings. Þá hefur Landsvirkjun samið um útistandandi kröfur við alla verktaka nema Impregilo, en viðræður um lokauppgjör við verktakann standa yfir. Í ljósi þess sá Landsvirkjun sér ekki fært að gefa upp frekari upplýsingar um útistandandi kröfur.
    Skýrslunni er skipt í sex hluta:
          heildarkostnað vegna Kárahnjúkavirkjunar,
          verksamninga og ófyrirséðan kostnað,
          viðbótarsamninga og aukaverk,
          kröfur og annan viðbótarbótarkostnað,
          kostnað og framkvæmdaáætlun vegna mótvægisaðgerða, og
          tekjur af Kárahnjúkavirkjun.
    Þá fylgja skýrslunni þrjú fylgiskjöl: um áætlun, samningsupphæðir og áætlaðan lokakostnað Kárahnjúkavirkjunar, samantekt varðandi framkvæmdir og kostnað við Kárahnjúkastíflu og aðrennslisgöng og mat á arðsemi Kárahnjúkavirkjunar.

Heildarkostnaður við Kárahnjúkavirkjun.
    Landsvirkjun áætlar að heildarkostnaður við Kárahnjúkavirkjun án vaxta verði um 123,9 milljarðar kr. á verðlagi september 2007, en 133,3 milljarðar kr. að meðtöldum fjármagnskostnaði sem áætlaður er alls um 9,4 milljarðar kr. á byggingartímanum.
    Í lok september 2007 var bókfærður heildarkostnaður Landsvirkjunar rúmlega 111,4 milljarðar kr., en áætlun fyrirtækisins frá þeim tíma til verkloka gerir ráð fyrir kostnaði upp á tæplega 21,9 milljarða kr. Í þeirri áætlun er gert ráð fyrir 4 milljörðum kr. í viðbótarkostnað vegna breytinga og uppgjörs á kröfum. Helstu verk sem á eftir að ljúka eru göng frá Jökulsá í Fljótsdal inn að aðrennslisgöngum virkjunarinnar frá Hálslóni, Ufsarstífla og göng, stíflur og skurðir á Hraunum austan við Jökulsá í Fljótsdal. Ýmis frágangsvinna er einnig eftir en framkvæmdum mun ljúka að mestu seint á þessu ári og að fullu sumarið 2009.
    Kostnaður við Kárahnjúkavirkjun samkvæmt upphaflegum verksamningum var rúmlega 84 milljarðar kr. en flestir verksamningar voru gerðir á árunum 2003–2006. Í þessari fjárhæð er gert ráð fyrir áætluðum ófyrirséðum kostnaði en ekki er tekið tillit til verðbóta, gengisbreytinga eða viðbótarkostnaðar og hafa verksamningsfjárhæðir ekki verið uppfærðar. Grunnkostnaðaráætlun Landsvirkjunar hefur hins vegar verið uppfærð. Samkvæmt áætlun frá því í desember 2002 var gert ráð fyrir að heildarkostnaður við Kárahnjúkavirkjun, án vaxta, yrði rúmlega 85,5 milljarðar kr. Ýmsar vísitölur liggja til grundvallar við útreikning á greiðslum á verðbótum í verksamningum en sú sem vegur þyngst er íslenska byggingarvísitalan. Því hefur grunnkostnaðaráætlun verið uppfærð miðað við byggingarvísitölu sem tekur mið af bæði innlendum og erlendum verðbreytingum, svo og gengisbreytingum að nokkru leyti. Sumar erlendu vísitölurnar hafa sveiflast gríðarlega og nokkrar hækkað um allt að 70% síðustu missirin, t.d. unnið stál, kopar o.fl. Samkvæmt uppfærðri grunnkostnaðaráætlun með byggingarvísitölu á verðlagi í september 2007 er heildarkostnaður við virkjunina 115,6 milljarðar kr. án vaxta og fjármagnskostnaðar.

Kárahnjúkavirkjun.
Heildaryfirlit.
Kostnaður án vaxta á byggingartíma.

Kostnaðarþættir Áætlun1 des. 02 m.kr. Áætlun sept. 07 m.kr. Heildarkostnaður sept. 07 m.kr. Samningar Alls m.kr.
Verksamningar m.kr. Ófyrirséð m.kr.
Undirbúningskostnaður 1.342 1.814 2.118 1.705 69 1.775
Verktakakostnaður2 73.744 99.707 96.146 62.384 9.729 72.113
Verkkaupakostnaður 10.437 14.112 19.534 3.908 3.908
Annar verkkaupakostnaður 6.102 6.529 6.529
Samtals 85.523 115.633 123.899 74.527 9.798 84.325
1    Lögð til grundvallar þegar ákvörðun var tekin um byggingu Kárahnjúkavirkjunar.
2    Ófyrirséður kostnaður innifalinn í áætlun.


    Í fylgiskjali I er að finna töflu sem m.a. sýnir áætlanir, samningsupphæðir og áætlaðan lokakostnað Kárahnjúkavirkjunar, sundurliðað á einstaka verksamninga
    Grunnkostnaðaráætlun hefur einnig verið endurskoðuð af hönnunarráðgjöfum. Þar kemur fram að ef miðað er við breytingar sem orðið hafa á verðlagsforsendum til desember 2007, en óbreyttar forsendur varðandi hönnun og magntölur, er kostnaður við Kárahnjúkavirkjun 118,8 milljarðar kr. án vaxta á verðlagi í desember 2007.

Verksamningar og ófyrirséður kostnaður.
    Að baki framkvæmdum við Kárahnjúkavirkjun liggur mikill fjöldi verksamninga. Í fylgiskjali I er að finna lista yfir samninga sem nema hærri fjárhæð en 10 millj. kr. sem ýmist lúta að undirbúningi, rannsóknum eða framkvæmdum við Kárahnjúkavirkjun. Í listanum kemur fram fjárhæð, mynt og gengi hvers verksamnings auk áætlaðs heildarkostnaðar á verðlagi í september 2007.
    Í verksamningum kemur ekki fram hversu há fjárhæð er ætluð til greiðslu ófyrirséðs kostnaðar en til að mæta breyttum aðstæðum, nauðsynlegum breytingum á hönnun og ýmiss konar óvissu í verkefnum af þessu tagi er ávallt gert ráð fyrir verulegum ófyrirséðum kostnaði í áætlun. Í tilfelli Kárahnjúkavirkjunar er hann af stærðargráðunni 10–20%, mismunandi eftir verkþáttum og hönnunarstigi. Í fylgiskjali I koma fram upplýsingar um ófyrirséðan kostnað. Þrátt fyrir að hafa slegið varnagla í kostnaðaráætlunum hvað varðar ófyrirséðan kostnað hefur hann ekki nægt til að mæta kostnaðarhækkun framkvæmdanna. Tilboð reyndust hins vegar flest lægri en upphaflegar kostnaðaráætlanir gerðu ráð fyrir og það hefur dregið úr áhrifum hækkana.
    Ekki er unnt að birta niðurstöðutölur allra verka þar sem hluta þeirra er ekki lokið og eins á eftir að ganga frá uppgjöri sumra verkþáttanna. Í fylgiskjali I er sýnd áætlun um lokakostnað verksamninga sem byggist á þegar greiddum kostnaði og áætlun um ógreiddan kostnað. Þegar sá kostnaður er borinn saman við samningsverð ber að hafa í huga að langflestir samningarnir eru með verðbótaákvæðum. Greiddur kostnaður felur því í sér, auk greiðslna samkvæmt samningsverðum, bæði viðbótarkostnað og verðbætur.
    Viðbótarkostnaður umfram verksamningsupphæðir hefur orðið töluverður, fyrst og fremst vegna jarðfræðilegra aðstæðna og erfiðleika við Kárahnjúkastíflu (KAR-11) og aðrennslisgöng virkjunarinnar (KAR-14). Einnig hafa orðið ýmsar breytingar á hönnun mannvirkja og aðlögun að aðstæðum. Langmestur hluti þessa kostnaðarauka er vegna stærsta verksamningsins um aðrennslisgöng. Í fylgiskjali II er gerð nánari grein fyrir ástæðum tafa við þessa verkþætti.

Viðbótarsamningar og aukaverk.
    Heildarframkvæmdatími Kárahnjúkavirkjunar verður um sjö ár. Það er eðli stórra og tímafrekra framkvæmda að ekki er hægt að fullklára hönnun né nákvæmar tímaáætlanir áður en hafist er handa. Stöðugt þarf að bregðast við aðstæðum með breytingum á hönnun og verklagi, magni eða verktíma. Þá hafa tafir einstakra verka áhrif á önnur verk. Þannig höfðu tafir á gerð aðrennslisganga í för með sér kostnaðaraukningu á öðrum stórum verksamningum, einkum samningum um ráðgjöf, hönnun og eftirlit. Af þessari ástæðu hefur svonefndur verkkaupakostnaður hækkað verulega frá upphaflegri áætlun. Þar er um að ræða hækkun á hönnunar- og eftirlitskostnaði sem rekja má til framangreindra aðstæðna og lengingar á framkvæmdatíma. Þá töfðust aðrir verksamningar í kjölfar tafa á aðrennslisgöngum þar sem aðrir verktakar komust ekki í uppsetningu og prófanir á búnaði á umsömdum tíma.
    Mörg hundruð aukaverk hafa verið framkvæmd og gerðir fjölmargir viðbótarsamningar vegna ófyrirsjáanlegra tafa og breytinga á framkvæmdinni. Vegna umfangs og þeirra tímamarka sem skýrslugerð þessari eru sett taldi Landsvirkjun ógerlegt að verða við beiðni um tölulegar upplýsingar um sérhvert aukaverk og viðbótarsamning. Kostnaðurinn af þeim er hins vegar hluti af endanlegum kostnaði.

Kröfur og annar viðbótarkostnaður.
    Landsvirkjun hefur samið um útistandandi kröfur við alla verktaka nema Impregilo, en viðræður um lokauppgjör standa yfir. Í ljósi þess telur Landsvirkjun ekki eðlilegt að gefa upp frekari upplýsingar um útistandandi kröfur.
    Fyrirsjáanlegt er að ýmis annar kostnaður hækkar umfram áætlun. Þannig stefnir raforkukostnaður vegna framkvæmdanna í 870 millj. kr., en þar er á hinn bóginn um að ræða tekjur Landsvirkjunar og Landsnets af framkvæmdinni.
    Í greinargerð með skýrslubeiðni er m.a. óskað eftir að fá upplýsingar um hugsanlega kröfu Alcoa Fjarðaáls um skaðabætur samkvæmt raforkusamningi fyrirtækjanna, vegna dráttar á framkvæmdinni. Í raforkusamningi Landsvirkjunar og Alcoa Fjarðaáls er kveðið á um hversu mikið rafmagn Landsvirkjun beri að hafa tiltækt á hverjum tíma handa álveri Fjarðaáls frá og með föstum afhendingardegi sem var 1. október 2007. Þegar fyrir lá að tafir yrðu á framkvæmdum við aðrennslisgöng Kárahnjúkavirkjunar og Kárahnjúkastíflu var gripið til ýmissa aðgerða til að draga úr tjóni af völdum tafanna. Þannig voru Alcoa tryggð 100 MW úr landskerfinu frá 1. apríl 2007 en þann dag átti Alcoa að geta hafið gangsetningu kerja samkvæmt samningi. Þrátt fyrir að ýmsir framkvæmdaliðir væru á tímabili 6–9 mánuðum á eftir áætlun var virkjunin reiðubúin til fullrar rafmagnsframleiðslu 23. nóvember sl. Það er sjö vikna seinkun fram yfir fyrsta fastan afhendingardag á raforkuafhendingu til álversins. Landsvirkjun og Alcoa hafa rætt þessi mál en engar kröfur hafa verið gerðar vegna frávika frá raforkusamningi aðila.
    Í áætluðum heildarkostnaði er gert ráð fyrir að kröfur vegna vatnsréttinda umfram grunnkostnaðaráætlun nemi 824 millj. kr. Er þar miðað við niðurstöðu meiri hluta matsnefndar sem ákvað heildarbætur vegna vatnsréttinda Kárahnjúkavirkjunar 1.634.395.767 kr. Þetta er mun hærri fjárhæð en Landsvirkjun gerði ráð fyrir og miðaði við eldri fordæmi fyrir virkjanir til stóriðju. Í samningi um matsnefndina var gert ráð fyrir að aðilar gætu skotið úrskurði hennar um bætur vegna vatnsréttinda til dómstóla. Landsvirkjun bauð öllum vatnsréttarhöfum greiðslu í samræmi við niðurstöðu matsnefndar en tilkynnti um leið að yrði málinu skotið til dómstóla áskildi fyrirtækið sér allan rétt til að láta reyna á niðurstöðu matsnefndar fyrir sitt leyti. Alls tilkynntu eigendur 43 jarða við Jökulsá á Dal um málskot og eigendur þriggja jarða við Jökulsá í Fljótsdal og við Kelduá. Fara þessir aðilar með um þriðjung þeirra vatnsréttinda sem um var fjallað í matsmálinu. Aðrir vatnsréttarhafar ákváðu að una niðurstöðu matsnefndar, en stór hluti þeirra vatnsréttinda sem þar er um að ræða er í eigu íslenska ríkisins eða telst vera innan þjóðlendu. Í ljósi þess að mál þessi eru til meðferðar fyrir dómstólum er óeðlilegt að verið sé að spá fyrir um endanlegar greiðslur til landeigenda fyrir vatnsréttindi.

Kostnaður og framkvæmdaáætlun vegna mótvægisaðgerða.
    Frá árinu 2002 hefur Landsvirkjun varið um 214 millj. kr. vegna rannsókna á náttúrufari og vöktunar vegna mótvægisaðgerða. Þá hefur fyrirtækið varið um 217 millj. kr. í áfoksrannsóknir og mótvægisaðgerðir. Loks greiðir Landsvirkjun Fljótsdalshéraði og Fljótsdalshreppi 350 millj. kr. til uppgræðslu og landbóta vegna taps á gróðurlendi sem fer undir miðlunarlón Kárahnjúkavirkjunar. Upphæðirnar eru á verðlagi í september 2007.
    Rannsóknir á náttúrufari beinast að því að rannsaka og skrá ýmsa náttúrufarsþætti til þess að grunnástand þeirra liggi fyrir áður en Kárahnjúkavirkjun tekur til starfa og að rannsaka og gera tilraunir vegna væntanlegra mótvægisaðgerða við Hálslón. Einnig hafa sérstaklega verið rannsökuð ýmis náttúrufyrirbrigði og minjar sem ekki er hægt að nálgast eða komast að á auðveldan hátt eftir að Kárahnjúkavirkjun tekur til starfa. Landsvirkjun hefur frá árinu 2002 einnig látið framkvæma margvíslegar rannsóknir til viðbótar við þær rannsóknir sem settar voru sem skilyrði í úrskurði ráðherra.
    Einungis á eftir að uppfylla fjögur skilyrði í úrskurði umhverfisráðherra um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar en þau verða uppfyllt á næstu mánuðum. Umrædd fjögur skilyrði eru eftirfarandi:
     1.      Skilyrði númer 4 fjallar um skyldur Landsvirkjunar til þess að minnka jarðvegsrof og áfok úr Hálslóni. Frá árinu 2003 hefur Landsvirkjun staðið fyrir umfangsmiklum rannsóknum og tilraunum varðandi mótvægisaðgerðir í samvinnu við Landgræðslu ríkisins, Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og Verkfræðistofuna Vatnaskil. Nú liggur fyrir aðgerðaáætlun fyrir árið 2008 sem verður endurskoðuð í haust á grundvelli þeirrar reynslu sem fæst í sumar. Búið er að leggja veg inn með austurströnd Hálslóns og grafa gryfju sem hindrar að hugsanlegt áfok berist inn á Vesturöræfi.
     2.      Skilyrði númer 9 fjallar um vöktun á völdum fuglastofnum við Lagarfljót, á Úthéraði og á Héraðssandi. Sérstakur samningur var gerður við Náttúrufræðistofnun um vöktunarrannsóknir á árunum 2004–2008. Þessi samningur verður endurnýjaður næsta vetur að teknu tilliti til nauðsynlegra breytinga sem leiðir af fyrri rannsóknum.
     3.      Skilyrði númer 15 fjallar um vöktun botndýralífs í Héraðsflóa. Rannsókn á botndýralífi fór fram árið 2002 og aftur árið 2006 til að finna grunnástand en vöktunarrannsókn er fyrirhuguð árið 2010.
     4.      Skilyrði númer 17 fjallar um viðbótarvöktun hreindýra. Nú eru í gildi tveir samningar við Náttúrustofu Austurlands, annars vegar um kortlagningu burðarsvæða og hins vegar um gróðurvöktun á Vesturöræfum með fjarkönnun. Að auki annast Verkfræðistofnun Háskóla Íslands í samvinnu við Náttúrustofu Austurlands talningar á hreindýrum á Vesturöræfum með myndatöku úr flugvél, sem farið hafa fram árlega allt frá árinu 1993.
    Í rekstraráætlun Kárahnjúkavirkjunar er gert ráð fyrir að 140 millj. kr. sé árlega varið til mótvægisaðgerða við Hálslón og vöktunarrannsókna.

Tekjur af Kárahnjúkavirkjun.
    Upphaflegar áætlanir Landsvirkjunar gerðu ráð fyrir að tekjur af raforkusölu til Fjarðaáls mundu nema 3.857 millj. kr. á árinu 2007 og 7.124 millj. kr. á árinu 2008. Nokkur seinkun varð á afhendingu á raforku til Fjarðaáls á síðasta ári sem hafði í för með sér að afhent magn varð minna en ráð var fyrir gert og tekjur ársins 2007 námu 1.161 millj. kr. Áætlanir Landsvirkjunar gera ráð fyrir að tekjur af raforkusölu til Fjarðaáls muni nema 8.643 millj. kr. á yfirstandandi ári. Vert er að geta þess að í áætluninni er ekki gert ráð fyrir að álverið starfi á fullum afköstum allt árið 2008.
    Landsvirkjun hefur uppfært arðsemismat vegna Kárahnjúkavirkjunar (sjá fylgiskjal III) sem stuðst var við þegar ákvörðun var tekin í árslok 2002 um samninga við Alcoa og byggingu virkjunarinnar. Fyrri endurskoðun á arðsemismatinu sem fram fór árið 2006 leiddi í ljós að heldur hafði dregið úr arðsemi verkefnisins þótt það stæðist áfram arðsemiskröfur eigenda Landsvirkjunar. Ný endurskoðun leiðir í ljós að arðsemin er meiri en fyrri athuganir hafa sýnt. Meginskýringin er sú að tekjur reiknast hærri en gert var ráð fyrir og vegur þar þyngst hærra álverð.
    Helstu niðurstöður arðsemismatsins eru:
          Vænt arðsemi eigin fjár reiknast nú 13,4%, en upphaflegt mat gerði ráð fyrir 11,9% arðsemi.
          Jákvætt núvirði framkvæmdarinnar umfram arðsemiskröfur eigenda er samkvæmt matinu 15,5 milljarðar kr., þetta er 8,9 milljarða kr. hækkun frá upphaflegri áætlun.
          Árlegur hagnaður fyrir skatta af Kárahnjúkavirkjun er áætlaður að meðaltali 4.220 millj. kr. á verðlagi ársins 2008.

Fylgiskjal I.

Kárahnjúkavirkjun. Áætlun, samningsupphæðir


og áætlaður lokakostnaður.Áætlanir Verksamningar


Verksamningar


Grunnkostnaðaráætlun m. ófyrirséðum kostn.
Grunnkostnaðaráætlun m. ófyrirséðum kostn. Uppfærð til sept. 2007

Áætlaður heildarkostnaður
á verðlagi
sept. 2007Samningsupphæð á upphafl. verðlagiÓfyrirséð á upphafl. verðlagi samnings
Samningsupphæð með ófyrirséðum kostnaði á upphafl. verðlagi samnings
UNDIRBÚNINGSVERK , AÐSTÖÐUSKÖPUN OG FRÁGANGUR m.kr. m.kr. m.kr. m.kr. m.kr. m.kr.
KAR-04a    Vegagerð og rannsóknir austan Jökulsár á Dal 197 137 - 137
KAR-04b    Slitlag og styrking vega 324 197 - 197
KAR-04d    Brú á Jökulsá á Dal ofan Kárahnjúka 40 27 - 27
KAR-04f    Brú yfir Jökulsá í Fljótsdal 19 13 - 13
KAR-04g    Vegur Valþjófsstaður – stöðvarhús 27 20 - 20
KAR-04i    Múlavegur um Langhús 16 13 - 13
KAR-04j    Hálsvegur, Sandfell – Litla Sauðá 109 85 - 85
KAR-05    Aflspennar 36 / 11 kV 63 17 - 17
KAR-06    Innkaup rafstrengja 36 kV 139 106 13 119
KAR-06b    Innkaup rafstrengja 11 kV 31 24 - 24
KAR-06c    Innkaup rafstrengja 11 kV, Jökulsárveita 35 25 - 25
KAR-07b    Plæging og tenging rafstrengs 94 38 - 38
KAR-07d    Plæging og tenging vegna Jökulsárveitu 17 11 - 11
KAR-07e    Strengplæging fyrir Hraunaveitu 21 13 17 30
KAR-08a    Rofabúnaður 36 kV 53 41 - 41
KAR-08b    Rofabúnaður 12 kV 24 13 - 13
KAR-09    Hús fyrir rofabúnað 46 21 - 21
KAR-10    Tilraunagöng við Kárahnjúkavirkjun 3 24 - 24
KAR-10c    Borun rannsóknarhola v. Kárahnjúka 2004 6 13 - 13
KAR-10d    Ufsarstífla og Hraunaveita – Borun rannsóknarhola 21 19 - 19
KAR-90    Vinnubúðir eftirlits 213 195 - 195
KAR-91    Jarðvinna og uppsetning vinnubúða í Fljótsdal 27 22 - 22
KAR-92    Vinnubúðir í Fljótsdal 23 17 - 17
KAR-11a    Forverk og rannsóknir á vesturbakka 96 101 8 110
KAR-11b    Aðgöng undir stíflustæði 284 210 26 236
KAR-11c    Borun í stíflustæði fyrir ísteypingu 34 18 - 18
KAR-14a    Aðstöðugerð við aðgöng 49 50 5 55
Önnur verkefni og samningar undir 10 MISK 107 235 - 235
Samtals: 1.342 1.814 2.118 1.705 69 1.775


Áætlanir Verksamningar


Verksamningar


Gengi


Skipting gjaldmiðla


Grunnkostnaðaráætlun m. ófyrirséðum kostn.
Grunnkostnaðaráætlun m. ófyrirséðum kostn. Uppfærð til sept. 2007

Áætlaður heildarkostnaður
á verðlagi sept. 2007Samningsupphæð á upphafl. verðlagiÓfyrirséð á upphafl. verðlagi samnings
Samningsupphæð með ófyrirséðum kostnaði á upphafl. verðlagi samnings
VERKTAKAKOSTNAÐUR m.kr. m.kr. m.kr. m.kr. m.kr. m.kr.
VERKSAMNINGAR, BYGGINGARVINNA, VÉL OG RAFBÚNAÐUR
KAR-11    Kárahnjúkastífla 1 EUR = 85,81 ISK EUR 61% ISK 39% 18.042 24.395 23.401 15.499 2.421 17.920
KAR-12    Sauðárdalsstífla 1.609 2.176 814 573 279 852
KAR-13    Desjarárstífla 2.646 3.577 2.083 1.337 420 1.756
KAR-14    Aðrennslisgöng og nafarholuð Jökulsárgöng 1 EUR = 85,81 ISK EUR 75% ISK 25%
21.501

29.070

39.462

23.193

2.188

25.381
KAR-15    Stöðvarhús 1 EUR = 85,7 ISK EUR36 % ISK 64 % 5.918 8.001 7.667 6.680 795 7.475
KAR-16    Frárennslisskurður 187 253 197 193 28 221
KAR-17    Stjórnhús og verkstæði 542 732 367 280 80 360
KAR-19    Stöðvarhlað í Fljótsdal 78 112 - 112
KAR-21    Ufsarveita, inntak, Jökulsárgöng og Hraunavegur 5.165 6.983 3.203 1.535 933 2.468
KAR-22    Ufsarstífla 1.723 2.329 1.546 969 309 1.278
KAR-22a    Ufsarstífla, botnrásarstokkur – gröftur 81 77 - 77
KAR-23    Hraunaveita stíflur 2.562 3.464 1.504 1.096 459 1.555
KAR-24    Hraunaveita göng - - 1.042 772 - 772
KAR-30    Vélar og rafbúnaður 1 EUR = 85,7 ISK EUR 91% ISK 9% 8.190 11.074 8.218 5.601 976 6.576
KAR-31    Vélarspennar 885 1.196 758 510 106 616
KAR-32    Háspennustrengir 1 EUR = 87,56 ISK EUR 83% ISK 17% 772 1.044 249 207 100 308
KAR-33    Lokur og ristar 1 EUR = 88,3 ISK EUR 84% ISK 16% 627 848 728 590 99 689
KAR-35    Lokur og ristar fyrir Jökulsárveitu 1 EUR = 78,87 ISK EUR 97% ISK 3% 245 331 361 302 42 345
KAR-36    Stálfóðrun fallgangna 1 EUR = 85,7 ISK EUR 93% ISK 7% 3.122 4.222 3.720 2.297 494 2.791
KAR-37    Húskerfi - - 665 561 - 561
Önnur verkefni og samningar undir 10 MISK 9 12 1
Samtals: 73.744 99.707 96.146 62.384 9.729 72.113


Áætlanir Verksamningar


Verksamningar


Gengi


Skipting gjaldmiðla


Grunnkostnaðaráætlun m. ófyrirséðum kostn.
Grunnkostnaðaráætlun m. ófyrirséðum kostn. Uppfærð til sept. 2007

Áætlaður heildarkostnaður
á verðlagi sept. 2007Samningsupphæð á upphafl. verðlagiÓfyrirséð á upphafl. verðlagi samnings
Samningsupphæð með ófyrirséðum kostnaði á upphafl. verðlagi samnings
VERKKAUPAKOSTNAÐUR m.kr. m.kr. m.kr. m.kr. m.kr. m.kr.
VERKSAMINGAR, RÁÐGJÖF, EFTIRLIT OG HÖNNUN     
KAR-60    Ráðgjafarþjónusta 1 CHF=59,58 ISK,
1 USD = 102,98 ISK
ISK 75%, CHF 9%, USD 16%
2.907

1.153

1.153
KAR-61    Ufsarstífla og Hraunaveita, ráðgjafarþjónusta 287 85 85
KAR-65    Eftirlit Hálslón stíflur, aðrennslisgöng, Jökulsárgöng 1 EUR = 85,5 ISK,
1 GBP = 123 ISK
ISK 60%, EUR 14%, GBP 26%
4.105

1.677

1.677
KAR-66    Eftirlit – Fljótsdalur 1 EUR = 87,52 ISK EUR 74% ISK 26% 1.386 586 586
KAR-67    Eftirlit, Ufsarstífla, Hraunaveita 295 301 301
KAR-81    Hydraulic Model Tests of Kárahnjúkar Bottom Outlet      24 18 18
ÝMSIR SAMNINGAR
KAR-50c    Girðing Jökulsá á Dal, viðbætur 55 20 20
KAR-52a    Dælustöð í Fljótsdal 22 17 17
KAR-54    Sauðfjárvarnargirðing Fljótsdalshreppi 40 39 39
KAR-55    Handrið á ölduvegg Kárahnjúkastíflu 12 12 12
Annar verkaupakostnaður1 10.401 6.529 6.529
Samtals: 10.437 14.112 19.534 10.437 10.437
Raforkukostnaður vegna framkvæmdanna 870
Eldri rannsóknir Orkustofnunar 408
Kröfur v. vatnsréttinda umfram grunnkostnaðaráætlun      824
Hugsanlegar viðbótarkröfur 4.000
Samtals: 6.102
Samtals (án vaxta) 85.523 115.633 123.899 74.527 9.798 84.325
Fjármagnskostnaður 9.407
Áætlaður heildarkostnaður 133.307
1 Upphaflega áætlaður kostnaður

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal II.


Landsvirkjun:

Kárahnjúkavirkjun.
Samantekt varðandi framkvæmdir og kostnað
við Kárahnjúkastíflu og aðrennslisgöng.


1. Almennt.
    Eðli málsins samkvæmt eru það jarðfræðilegar aðstæður sem eru stærstu óvissuþættirnir hvað varðar tíma og kostnað fyrir mannvirkjagerð af þessu tagi. Endanleg hönnun og magntölur eru þannig að mjög miklu leyti háðar jarðfræðinni. Í upphaflegri kostnaðaráætlun fyrir Kárahnjúkavirkjun var reiknað með um 10–20% fyrir ófyrirséðum kostnaði vegna framkvæmdanna, mismunandi fyrir hina ýmsu verkhluta.
    Stærstu verkþættir virkjunarinnar eru Kárahnjúkastífla og aðrennslisgöngin en samanlagt var áætlaður kostnaður við þessa tvo verkþætti tæplega 50% af heildarkostnaði virkjunarinnar. Að neðan er stuttlega gerð grein fyrir þeim vandamálum sem komu upp við framkvæmd þessara verkþátta og hvernig tekið var á þeim af hálfu verkkaupa.

2. Kárahnjúkastífla, verksamningur KAR-11.
    Skrifað var undir verksamning við ítalska fyrirtækið Impregilo þann 18. mars 2003 eftir langar og flóknar samningaviðræður. Kostnaðaráætlun á grunnverði desember 2002 nam 20.978 milljónum íslenskra króna án VSK. Tilboð Impregilo nam um 79,0% af upphaflegri kostnaðaráætlun hönnuða. Tilboð næsta bjóðenda var um 43,6% hærra en frávikstilboð Impregilo.

2.1 Helstu vandamál við byggingu Kárahnjúkastíflu.
    Á verktímanum komu upp ýmis vandamál aðallega tengd jarðfræðilegum aðstæðum. Þau helstu voru:
     *      Yfirfall.
             Samkvæmt útboðsgögnum var gert ráð fyrir að frá yfirfalli yrði vatninu veitt um jarðgöng. Frekari rannsóknir sumarið 2003 leiddu í ljós að bergið á jarðgangaleiðinni var mjög lélegt. Því var hönnun breytt og yfirfalli breytt í opna rennu.
     *      Gröftur á hægri bakka utan í Kárahnjúknum.
             Gröftur niður á fast undir stíflustæði var miklu umfangsmeiri en gert var ráð fyrir. Bent skal á að ekki fékkst leyfi frá Umhverfisstofnun á undirbúningsstigi til að bora könnunarholur við stífluendann í sjálfum Kárahnjúknum.
     *      Veiting Jöklu gegnum hjáveitugöng.
             Eftir borun ganga fyrir framhjáhlaup árinnar kom í ljós að bergveggur milli ganga við útrásina var mjög sprunginn og veikgerður. Þetta kallaði á umfangsmiklar styrkingaraðgerðir.
     *      Gröftur í gljúfri.
             Eftir veitingu árinnar kom í ljós að gröftur niður á fast í gljúfurbotni var mun umfangsmeiri en gögn gerðu ráð fyrir. Fastur bergbotn var allt að 12 metrum neðan við árbotn.
     *      Táveggur.
             Við gröft undir távegg kom í ljós misgengissprunga sem var mun breiðari og umfangsmeiri en gert var ráð fyrir. Sprungan var talin hugsanlega virk og yngri en 4000 ára. Þetta leiddi til endurhönnunar á távegg. Járnbending var margfölduð, hreyfimöguleikar byggðir inn með sérstökum samsetningum, þéttingar auknar o.s.frv.
     *      Stíflutá á vinstri bakka.
             Vegna sprungna sem komu í ljós við gröft undir steypta stíflutá þurfti að gera sérstakar ráðstafanir til að meðhöndla viðkomandi sprungur og byggja inn hreyfimöguleika í stíflutána.
     *      Botnrásargöng.
             Módelprófanir leiddu til ýmissa breytinga á hönnun.
     *      Steypukápa.
             Vegna bilana sem fram hafa komið í steyptum kápum nýlegra stíflna í Brasilíu og Suður-Afríku voru gerðar sérstakar ráðstafanir til öryggis fyrir kápuna í Kárahnjúkastíflu. Má þar nefna þykkingu á steypukápu á miðju stíflunnar, aukin járnbending, breytt samskeyti með eftirgefanlegum þéttingum, sérstakan þéttidúk, fyllingu fínefna á neðsta hluta kápunnar o.fl.
     *      Yfirfall.
             Vegna lélegs bergs næst gljúfrinu þurfti að endurhanna neðsta hluta yfirfallsrennunnar. Þetta olli verulegum töfum og erfiðleikum á lúkningu þessara verkhluta.

2.2 Áhrif á verktíma.
    Ofangreind ófyrirséð vandamál ollu því að verkinu seinkaði þegar í byrjun verks um marga mánuði. Þannig var vinna við távegg orðin 6 mánuðum eftir áætlun haustið 2004 og vinna við steypukápu var um tíma 9 mánuðum á eftir áætlun.
    Verkkaupi ákvað strax sumarið 2004 að semja við verktakann um sanngjarnar tímaframlengingar og kostnaðarauka sem þessi vandamál höfðu sannanlega í för með sér. Samhliða þessu var leitað allra leiða til að vinna upp tafir sem orðið höfðu. Samið var við verktakann um að vinna við uppsteypu á távegg og stíflutá allan veturinn 2004 til 2005. Þá var leyft að breyta vinnu við stíflufyllingu þannig að neðri hluti fyllingar, loftmegin, héldi áfram meðan að unnið væri við steypu á távegg, sbr. Mynd 1 að neðan. Loks voru innleiddir einir 9 skiladagar með ákveðnum bónusgreiðslum, til hvatningar fyrir verktakann, og til að standa straum af aukakostnaði vegna vetrarráðstafana o.s.frv. Skrifað var undir viðauka nr. 2 við verksamning þann 21. desember 2004. Þá var skrifað undir viðauka nr. 3 við verksamning þann 27. september 2006 til að leysa ófrágengin mál sem upp komu á tímabilinu.
    Áfram var lögð áhersla á að finna lausnir til að hægt væri að byrja að safna vatni í lónið haustið 2006. Þannig var t.d. steypuáföngum breytt fyrir steypukápu. Unnið var við steypuvinnu allan veturinn 2005 til 2006. Þessi áætlun tókst og þrátt fyrir að verkið væri á tímabili 9 mánuðum á eftir áætlun hófst fylling vatns í Hálslón þann 28. september 2006 aðeins 27 dögum seinna en upphaflega var áætlað. Lónið var svo orðið fullt rúmu ári síðar eða 20. október 2007 og var þá yfirfalli einnig lokið.

Mynd 1. Breytt framkvæmdaröð stíflufyllingar vegna seinkunar á távegg.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.3. Aðrennslisgöng, verksamningur KAR-14.
    Skrifað var undir verksamning við ítalska fyrirtækið Impregilo þann 18. mars 2003 eftir langar og flóknar samningaviðræður. Kostnaðaráætlun á grunnverði desember 2002 hljóðaði upp á 21.501 milljónir króna án VSK. Bent skal á að frávikstilboð verktakans nam um 90,2% af upphaflegri kostnaðaráætlun hönnuða. Tilboð næsta bjóðanda var um 53,1% hærra en frávikstilboð Impregilo.

3.1 Helstu vandamál við gerð aðrennslisganga.
    Á verktímanum hafa komið upp ýmsir erfiðleikar við göngin fyrst og fremst vegna jarðfræðilegra aðstæðna eins og mjög erfið misgengi og ekki síst vegna mikils vatnsrennslis inn í göngin. Helstu vandamál sem leiddu til seinkunar gangagerðar og kostnaðarauka voru:

3.1.1 Gangahluti 1.
     *      Seinkun á upphafi borunar.
             Borarnir voru afhentir í eftirfarandi röð: TBM3 kom fyrstur, svo TBM2 og loks TBM1. Borun með TBM1 hófst 20. september 2004 í stað 1. júní 2004 eða um 3,5 mánuðum á eftir samningsbundinni verkáætlun. Bæði var um að kenna seinkun á afhendingu borsins til landsins en einnig tók það verktakann lengri tíma en hann hafði áætlað að setja borinn saman, koma upp færibandakerfi og koma borun af stað. Framleiðandi boranna, Robbins í Ohio, Bandaríkjunum lenti í erfiðleikum með afhendingu vélhluta frá undirverktökum sínum. Þá hafði framleiðandinn reiknað með að flytja borana til landsins með skipum gegnum Mikluvötn og Lawrence fljót, en það tókst ekki áður en vötnin frusu og varð því að flytja borhlutana landleiðina til austurstrandar Bandaríkjanna og þaðan með skipum. Vegna þessa tafðist flutningurinn verulega. Loks takmörkuðu brýr á Austurlandi og Bessastaðabrekkan leyfilegan hámarksþunga einstakra hluta borsins við um 75 tonn.
             Á mynd 2 er sýnt hvaða leiðir TBM borarnir fóru við gangagerðina.

Mynd 2. Yfirlit yfir framkvæmd borunar aðrennslisganga.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.     *      Jarðfræðilegar aðstæður.
             Þrátt fyrir að bergið væri nokkuð gott í þessum gangahluta lenti borinn þó í erfiðum kafla, um 1600 m, löngum þar sem voru þykk rauðleit sandsteinslög. Á þeim kafla þurfti að koma fyrir stálbogum og bæta við bergstyrkingum. Einnig var verulegt vatnsinnrennsli á nokkrum stöðum. Þetta tafði að sjálfsögðu framvindu borsins.
     *      Frágangsvinna.
             Verktaki kaus að skilja eftir endanlegar bergstyrkingar, grjótgildrur og botnsteypur þar til borun var endanlega lokið. Þá var fjöldi drenhola margfaldaður af hálfu hönnuða. Bor 1 „sló í gegn“ í átt að aðgöngum 2 þann 9. september 2006. Frágangsvinnan reyndist verktakanum mun erfiðari og seinlegri en hann hafði áætlað. Vatnsinnrennsli í göngin gerðu honum erfitt fyrir. Þá voru allir aðdrættir mjög seinlegir enda um 15 km milli munna aðkomuganga.
     *      Ný lóðrétt jöfnunargöng.
             Eftir módelprófanir og frekari útreikninga taldi hönnuður nauðsynlegt að bæta við lóðréttum jöfnunar/sveiflugöngum. Þessi göng eru um 192 m há og 5 m í þvermál og ná frá aðrennslisgöngum upp á yfirborð. Þessari vinnu seinkaði vegna erfiðra jarðfræðilegra aðstæðna og bilana í togbor þannig að það olli einnig seinkunum hjá Impregilo.

3.1.2 Gangahluti 2.
     *      Seinkun á upphafi borunar.
             Borun með TBM2 hófst 26. júlí 2004 í stað 16. júní 2004 eða um 6 vikum á eftir samningsbundinni verkáætlun.
     *      Jarðfræðilegar aðstæður.
             Í apríl 2005 lenti bor 2 í þremur samliggjandi misgengjum sem einnig voru vatnsleiðandi, sjá mynd 3 að neðan. Í tvígang þurfti að bakka 10 metra með borinn, rífa niður stálboga aftan við borhaus og steypa tappa upp í göngin framan við borinn. Þessi gríðarlega erfiða vinna tók rúma 6 mánuði sem er u.þ.b. sá tími sem afhendingu ganganna seinkaði af hálfu verktakans.

Mynd 3. Misgengin þrjú þar sem TBM2 lenti í vandræðum.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.     *      Mikill vatnsagi í göngum.
             Vatnsinnrennsli í göngin var margfalt meiri en útboðsgögnin gerðu ráð fyrir eða yfir 900 l/s mestallan verktímann. Þetta hafði mikil áhrif á framvindu og kostnað.
     *      Frágangsvinna.
             Heilfóðra þurfti göngin á um 50 metra kafla þar sem misgengissvæðin voru og styrkja bergið í kring. Þessi vinna var bæði erfið og seinleg. Þá tóku botnsteypur langan tíma vegna mikils vatnsaga.

3.1.3 Gangahluti 3.
     *      Seinkun á upphafi borunar.
             Borun með TBM3 hófst 24. apríl 2004 í stað 9. febrúar 2004 eða um 11 vikum á eftir samningsbundinni verkáætlun. Gerð er grein fyrir ástæðum þessa að ofan í kafla 3.1.1 Gangahluti 1.
     *      Jarðfræðilegar aðstæður.
             Borun TBM3 gekk mjög vel framan af eða þar til í desember 2004. Þá jókst vatnsleki inn í göngin mjög skyndilega og fór yfir 1000 l/s. Gripið var til þess ráðs að stemma stigu við vatnsinnrennslinu með því að þétta bergið fyrir framan borhausinn. Þetta er gert með því að bora krans með 25 metra löngum borholum inn í bergið og dæla inn í það sementsefju. Boraðir voru 22 slíkir kransar á um 6 mánaða tímabili. Þetta er mjög tímafrekt þar sem sementsefjan þarf að ná að harðna áður en borun getur haldið áfram. Afköst borsins duttu því niður í um 30% af fyrri framvindu.
             Þann 8. júlí 2005 þegar eftir voru um 1.119 m af göngunum í átt að inntaki ákvað verkkaupi að snúa bor 3 við. Borinn var tekinn út úr göngum, honum snúið, bakkað inn og látinn svo bora til móts við bor 2. Verkkaupi lét jafnframt bora tvær lóðréttar borholur niður í göngin sem notaðar voru til að dæla um 400 l/s upp úr göngunum. Þá ákvað verkkaupi að gera ný 400 metra löng aðgöng 4 til að vinna upp tafir í þessum gangahluta.
             Eins og áður sagði var bor 3 látinn bora til móts við bor 2. Síðustu 1000 metrana áður en hann „sló í gegn“ 5. desember 2006 lenti borinn í erfiðu, flögóttu andesit bergi sem krafðist mikilla bergstyrkinga og olli verulegum töfum á verkinu.
     *      Frágangsvinna.
             Þessi vinna reyndist verktakanum gríðarlega erfið og seinleg vegna umfangsmikillar botnsteypu í miklum vatnsaga. Þá voru bergstyrkingar mjög umfangsmiklar, m.a. á andesit svæðinu.

3.2 Áhrif á verktíma.
    Vatnsvandamálin; misgengin, rauðu sandsteinslögin og annað, sem drepið er á hér að framan ollu því að verkið var um tíma um 9 mánuðum á eftir áætlun. Verkkaupi tók strax á þessum málum við verktakann. Gengið var frá viðauka nr. 2 við verksamning þann 21. desember 2004. Skrifað var undir viðauka nr. 3 við verksamning þann 27. september 2006. Í þeim viðauka var verktaka veitt tímaframlenging en jafnframt innleiddar bónusgreiðslur fyrir lúkningu aðrennslisganga þann 1. maí 2007 til að hvetja verktakann til dáða.
    Eins og kunnugt er tókst verktaka ekki að standa við þessa dagsetningu. Þá voru gerðar ýmsar ráðstafanir til að reyna að flýta verkinu. Þannig voru loftunarholur nýttar til að koma steypu og sprautusteypu niður í göngin. Botnsteypu í göngunum var á vissum köflum skipt út fyrir grjóthnullunga. Loks ákvað verkkaupi, að vatnsfylla neðri hluta ganganna, þ.e. gangahluta 1 þann 28. júlí 2007 til að prófanir gætu hafist á vélbúnaði með lekavatni. Þannig var hægt að stytta prófunartíma hvers hverfils um u.þ.b. 3 vikur. Göngin voru loks öll vatnsfyllt 17. október 2007.
    Full rafmagnsframleiðsla frá 5 hverflum var til reiðu handa Alcoa þann 23. nóvember 2007. Bent skal á að það er aðeins 7 vikum síðar en í upprunalegum samningi við Alcoa.Fylgiskjal III.


Landsvirkjun:

Mat á arðsemi Kárahnjúkaverkefnisins.


    Landsvirkjun hefur uppfært arðsemismat vegna Kárahnjúkaverkefnisins. Það samanstendur af Kárahnjúkavirkjun og flutningsvirkjum. Við arðsemismatið er notuð sama aðferðafræði og í upprunalegu arðsemismati sem og uppfærðu arðsemismati frá árinu 2006.
    Ný endurskoðun núna leiðir í ljós að arðsemin er meiri en fyrri athuganir hafa sýnt. Meginskýringin er sú að tekjur reiknast hærri en gert var ráð fyrir og vegur þar þyngst hærra álverð.

Helstu niðurstöður arðsemismatsins.
     *      Vænt arðsemi eiginfjár reiknast nú 13,4%, en upphaflegt mat gerði ráð fyrir 11,9% arðsemi.
     *      Jákvætt núvirði framkvæmdarinnar umfram arðsemiskröfur eigenda er samkvæmt matinu 15,5 milljarðar króna, þetta er 8,9 milljarða hækkun frá upphaflegri áætlun.
     *      Árlegur hagnaður fyrir skatta af Kárahnjúkavirkjun er áætlaður að meðaltali 4.220 m.kr. á verðlagi ársins 2008.

Helstu forsendur matsins.
    Framkvæmdum er nú að mestu lokið og eru í matinu notaðar upplýsingar um áfallinn kostnað við framkvæmdirnar ásamt áætlunum um kostnað sem á eftir að falla til. Forsendur um rekstrarliði hafa verið endurskoðaðar. Jafnframt eru notuð uppfært framvirkt verð og greiningar á álverði og gengi gjaldmiðla, miðað við stöðu 1.1.2008.
    Matið var unnið með sambærilegum hætti og áður, þ.e.a.s. byggt er á núvirtu fjárstreymi frá verkefninu og eru helstu forsendur eftirfarandi:
     1.      Stofnkostnaður.
     2.      Raforkusala.
     3.      Álverð og þróun þess.
     4.      Gengi Bandaríkjadals.
     5.      Rekstrarkostnaður.
     6.      Líftími virkjunar.
     7.      Fjármagnskostnaður.
    Hér á eftir verður farið yfir hvern lið fyrir sig

1. Stofnkostnaður.
    Áfallinn stofnkostnaður að meðtöldum vöxtum á byggingartíma vegna framkvæmda tengdum Kárahnjúkavirkjun var alls 111.433 m.kr. 30. september 2007 Áfallinn stofnkostnaður vegna framkvæmda við flutningsvirki var á sama tíma 12.033 m.kr. Áætlaður kostnaður við lúkningu á Kárahnjúkaverkefninu, virkjun og flutningsvirkjum, er 22.590 m.kr.

2. Raforkusala.
    Reiknað er með að seldar verði 4.660 GWst á ári til Fjarðaáls eins og gert var í upphaflega matinu.

3. Álverð og þróun þess.
    Álverð og langtímaþróun þess er ein mikilvægasta forsendan í arðsemismatinu. Í upphaflegu mati var stuðst við spá sérfræðinga og leitast við að búa til leitnilínu til lengri tíma. Á myndinni sjást upphaflegar forsendur um álverð í samanburði við raunverulega þróun og endurskoðað langtímaverð.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.    Í endurskoðuðu arðsemismati eru notað framvirkt verð á áli á virkum markaði til næstu fimm ára og eftir það er gert ráð fyrir 0,45% árlegri raunlækkun á álverði á líftíma virkjunarinnar. Ástæðurnar fyrir þessari breytingu eru eftirfarandi:
     *      Framleiðslukostnaður á áli hefur hækkað umtalsvert frá árinu 2002 til ársins 2007. Samkvæmt upplýsingum frá CRU var kostnaðurinn (e. BOC) um $1,027/t árið 2002 en var $1,754/t árið 2007. Hækkunin kemur fyrst og fremst til vegna hækkunar á súráli og orku en einnig hafa aðrir framleiðsluþættir hækkað. Ekki er ástæða til að ætla að þessir liðir lækki að nýju á næstunni en þeir koma vissulega til með að sveiflast eins og álverðið sjálft.
     *      Eftirspurn eftir áli hefur aukist mikið og munar þar helst um aukna eftirspurn í Kína. Eftirspurninni hefur verið mætt með aukinni framleiðslu og þá einkum í Kína en framleiðslukostnaðurinn hefur þó að jafnaði verið að hækka.
     *      Aðgengi að auðlindum verður að öllum líkindum erfiðara en verið hefur og einnig verður kostnaður við að nýta nýjar auðlindir töluvert hár. Gera má ráð fyrir að olía, kol, súrál og önnur hráefni verði áfram dýr.

    Ástæðan fyrir því að gert er ráð fyrir raunlækkun sem nemur 0,45% á ári er eftirfarandi:
     *      Ef litið er á söguna (frá 1980) þá sýnir leitnilína að verð á áli hefur verið að lækka um rúmlega 1% á ári að raunverði. Líklegasta skýringin á þessari lækkun eru almennar tækninýjungar og hagkvæmari álver sem leiðir til aukinnar framleiðni og þ.a.l. lægra álverðs. Gert er ráð fyrir að enn sé svigrúm til slíkra lækkana en ekki í sama mæli og áður. Í þessu sambandi má geta þess að sumir markaðsaðilar eru þeirrar skoðunar að verð á áli og öðrum hrávörum muni framvegis fylgja almennum verðlagsbreytingum að fullu.

4. Gengi Bandaríkjadals.
    Þar sem tekjur af orkusölusamningi eru í dollurum hefur gengi dollars gagnvart krónu mikil áhrif á arðsemi verkefnisins. Í upprunalegu arðsemismati var gert ráð fyrir að jafnvægisgengi Bandaríkjadals gagnvart krónu væru 87,5 kr./USD, í endurskoðuðu mati árið 2006 var talið að jafnvægisgengi væri 78 kr./USD. Í nýju arðsemismati er gert ráð fyrir því að jafnvægisgengi náist á þremur árum og verði 69 kr./USD. Í þessu felst að gengi dollars verði áfram lágt miðað við helstu gjaldmiðla og að krónan verði áfram nokkuð sterk. Til samanburðar er gengi Bandaríkjadals í dag um 65 kr./USD og þriggja ára framvirkt gengi er um 82 kr./USD.

Samband álverðs og Bandaríkjadals.
    Þegar álverð hefur hækkað í gegnum tíðina hefur dollar veikst gagnvart flestum myntum, þar á meðal krónu. Ekki er hægt að fullyrða um að þetta samband haldi öllum stundum en fylgnin er nokkuð afgerandi sé horft til lengri tíma. Forsendur endurskoðaðs arðsemismats um álverð og gengi endurspeglar þetta samband þar sem lágt gengi dollars og hærra álverð fara saman.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.    Á myndinni má sjá margfeldi gengis USD/ISK og álverðs, rauntölur og spá auk samanburðar við upphaflegar forsendur. Endurskoðaðar forsendur þessa margfeldis sýna hærri tölur en í fyrri áætlunum.

5. Rekstrarkostnaður.
Rekstrarkostnaður og gjaldfærður viðhaldskostnaður hefur verið endurmetinn í ljósi þess rekstrar sem hafinn er. Hann er áætlaður 780 m.kr. á ári. Kostnaðurinn er heldur lægri en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Þar er m.a. gert ráð fyrir 140 m.kr. árlega vegna umhverfismála.

6. Líftími virkjunar.
    Eins og í upphaflega arðsemismatinu er gert ráð fyrir því að með eðlilegu viðhaldi sé hægt að reka virkjunina til ársins 2070. Gert er ráð fyrir að virkjunin verði verðlaus í lok tímabilsins þó svo að líklegt sé að líftími virkjunarinnar reynist mun lengri.

7. Fjármagnskostnaður.
    Í upphaflegu arðsemismati var gert ráð fyrir 5,50% nafnvöxtum og er þá meðtalið 0,25% ábyrgðargjald og 0,10% álag á USD Libor vexti. Í endurskoðuðu mati frá árinu 2006 var fjármagnskostnaður reiknaður með þeim hætti að skoðað var hvert líklegt álag Landsvirkjunar á Libor vexti væri ef ekki nyti ríkisábyrgðar. Niðurstaðan var sú að gera ráð fyrir 0,60% álagi ofan á USD 10 ára skiptivexti. Framangreind forsenda er hér áfram notuð í uppfærðu arðsemismati og þar sem 10 ára skiptivextir eru 4,56% er reiknað með 5,16% nafnvöxtum (4,56% + 0,60%).
Fskj.

Minnisblað frá Capacent.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.