Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 476. máls.

Þskj. 758  —  476. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 131/1997, um rafræna
eignarskráningu verðbréfa .

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Seðlabanki Íslands tekur við innlánum frá reikningsstofnunum sem aðild eiga að verðbréfamiðstöð og annast efndalok greiðslufyrirmæla í greiðslukerfi vegna viðskipta með rafbréf í íslenskum krónum.
     b.      Í stað 2. og 3. mgr. koma þrjár nýjar málsgreinar sem orðast svo:
                  Uppgjör greiðslufyrirmæla vegna viðskipta með rafbréf sem skráð eru í erlendum gjaldmiðli í verðbréfamiðstöð hér á landi fer fram fyrir milligöngu verðbréfamiðstöðvar. Verðbréfamiðstöð skal gera samning um slíkt uppgjör og skal það uppgjörskerfi sem samið er um háð samþykki Fjármálaeftirlitsins að fenginni umsögn Seðlabanka Íslands og uppfylla jafngildar kröfur og gerðar eru í lögum nr. 90/1999, um öryggi greiðslufyrirmæla í greiðslukerfum. Tryggt skal að uppgjörskerfið hafi öruggan aðgang að viðkomandi gjaldmiðli þannig að tryggð séu örugg og skilvirk efndalok viðskiptanna. Verðbréfamiðstöð er skylt að halda þeim fjármunum sem hún tekur við frá reikningsstofnunum vegna uppgjörs sérgreindum frá eigin fjármunum sem vörslufé.
                  Verðbréfamiðstöð skal setja reglur um uppgjör viðskipta með rafbréf og skulu reglurnar hljóta samþykki Fjármálaeftirlitsins að höfðu samráði við Seðlabanka Íslands.
                  Skipa skal samráðsnefnd verðbréfamiðstöðva, kauphalla, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands og skipar hver aðili einn fulltrúa í nefndina. Seðlabanki Íslands fer með formennsku í nefndinni. Hlutverk samráðsnefndar er að fjalla um samskipti verðbréfamiðstöðva, kauphalla og Seðlabankans í tengslum við frágang viðskipta.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


Hinn 19. desember 2007 skipaði viðskiptaráðherra nefnd til að fara yfir lagaákvæði er

varða uppgjör innlends hlutafjár sem skráð er í erlendri mynt.
    Í nefndina voru skipuð Jón Sigurðsson, fyrrverandi bankastjóri Norræna fjárfestingabankans, formaður, Björg Finnbogadóttir, lögfræðingur í viðskiptaráðuneytinu, Einar Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Verðbréfaskráningar Íslands hf., Guðmundur Kr. Tómasson, staðgengill framkvæmdastjóra fjármálasviðs Seðlabanka Íslands, Helgi Sigurðsson, framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Kaupþings, Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, og Sigríður Logadóttir, aðallögfræðingur Seðlabanka Íslands.
    Nefndin skilaði áliti sínu og tillögum til viðskiptaráðherra 27. febrúar 2008 og er frumvarp þetta byggt á tillögum hennar.
    Í skipunarbréfi nefndarinnar segir að hlutverk hennar sé að fara yfir lagaákvæði er varða uppgjör innlends hlutafjár sem skráð er í erlendri mynt. Hlutafélagalög, nr. 2/1995, heimila hlutafélögum sem fengið hafa samþykki fyrir skráningu á skipulegum verðbréfamarkaði að ákveða hlutafé sitt í erlendum gjaldmiðli. Sama gildir um önnur hlutafélög sem fengið hafa heimild ársreikningaskrár til að færa bókhald og semja ársreikninga í erlendum gjaldmiðli. Ákvörðun um það hvort hlutafé skuli skráð í erlendri mynt er í lögunum falið hluthafafundi. Hlutafé má samkvæmt lögunum ákveða í eftirtöldum gjaldmiðlum auk íslensku krónunnar: evru, bresku pundi, danskri, norskri og sænskri krónu, Bandaríkjadal, japönsku jeni og svissneskum franka. Ákveði hlutafélag að skrá hlutafé sitt í erlendum gjaldmiðli kveður 2. mgr. 27. gr. hlutafélagalaganna á um innköllun útgefinna hlutabréfa og útgáfu nýrra bréfa í þeirra stað í hinum nýja gjaldmiðli. Greinin kveður beinlínis á um að sambærilegar breytingar skuli gera sé um rafræna skráningu á hlutum að ræða. Því verður ekki annað séð en að ekkert sé því til fyrirstöðu að hlutabréf megi skrá í erlendum gjaldmiðli í íslenskri verðbréfamiðstöð. Í öðrum lögum er ekki að finna neina takmörkun á því í hvaða gjaldmiðli skuldabréf eða önnur verðbréf skuli gefin út. Í lögum nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa, er heldur ekki að finna ákvæði sem takmarka skráningu verðbréfa við ákveðinn gjaldmiðil í íslenskri verðbréfamiðstöð. Það er því ekki skráningin sem veldur vanda hvað varðar viðskipti með verðbréf sem skráð eru í erlendum gjaldmiðli hjá íslenskri verðbréfamiðstöð heldur hvar og hvernig peningalegt uppgjör slíkra viðskipta skuli fara fram þannig að fyllsta öryggis sé gætt. Nefndin var þess vegna sammála um að fjalla um uppgjör allra rafrænt skráðra verðbréfa í erlendum gjaldmiðli í einu lagi.
    Í frumvarpinu er lagt til að gera peningalegt uppgjör verðbréfa sem skráð eru í erlendum gjaldmiðlum í íslenskri verðbréfamiðstöð mögulegt með því að bæta ákvæðum um þá uppgjörsleið inn í 15. gr. laga nr. 131/1997, að verðbréfamiðstöð hafi milligöngu um uppgjör slíkra verðbréfa.
    Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 131/1997 er Seðlabanka Íslands falið að annast efndalok, þ.e. endanlegt greiðsluuppgjör, rafbréfaviðskipta reikningsstofnana sem aðild eiga að verðbréfamiðstöð. Í greininni eru verðbréf skráð í erlendum gjaldmiðli ekki nefnd sérstaklega. Eðlilegt virðist að skilja lagaákvæðið þannig að það eigi fyrst og fremst við uppgjör viðskipta með verðbréf í íslenskum krónum. Þannig er eyða í íslenskri löggjöf hvað varðar uppgjör verðbréfa sem skráð eru í erlendri mynt sem veldur óvissu og tefur framgang viðskipta með slík verðbréf hér á landi. Þar sem allmörg íslensk hlutafélög sem skráð eru á verðbréfamarkaði Kauphallar Íslands hafa þegar fengið heimild hluthafafunda til þess að ákveða hlutafé sitt í erlendum gjaldmiðli og við því er búist að fleiri bætist í hópinn er brýnt að setja sem fyrst ákvæði í íslensk lög um uppgjör viðskipta með verðbréf sem skráð eru í erlendum gjaldmiðlum svo að slík viðskipti geti farið skipulega og örugglega fram með milligöngu íslenskra verðbréfamiðstöðva.
    Til að eyða sem fyrst óvissu um það hvaða reglur gilda um uppgjör íslenskra verðbréfa sem skráð eru í erlendri mynt eru í frumvarpinu gerðar tillögur um þær lágmarksbreytingar á 15. gr. laga nr. 131/1997 sem gera þarf til þess að tryggt sé að tilhögun uppgjörs á slíkum viðskiptum uppfylli ströngustu íslenskar og alþjóðlegar kröfur um öryggi greiðslufyrirmæla og greiðslukerfa og jafnframt að sá aðili sem vera skal bakhjarl endanlegs greiðsluuppgjörs hafi öruggan aðgang að fjármunum í skráningargjaldmiðli verðbréfanna sem um er að ræða hverju sinni. En ljóst er að þörf er á víðtækri skoðun og samræmingu á ákvæðum íslenskra laga um uppgjör og efndalok verðbréfaviðskipta á næstunni vegna breyttra aðstæðna í slíkum viðskiptum vegna alþjóðavæðingar og tæknibreytinga.
    Í frumvarpinu er lagt til að tvær efnislegar breytingar verði gerðar á 15. gr. laga nr. 131/ 1997. Annars vegar að skýrt sé tekið fram að fyrsta málsgrein greinarinnar eigi eingöngu við um verðbréf í íslenskum krónum. Hins vegar að bætt verði við nýrri málsgrein í greinina sem kveði á um öruggan farveg fyrir fullnaðaruppgjör viðskipta með verðbréf sem skráð eru í erlendri mynt. Þessi tilhögun verði háð samþykki Fjármálaeftirlitsins að fenginni umsögn Seðlabanka Íslands og uppfylli jafngildar kröfur og gerðar eru í lögum nr. 90/1999, um öryggi greiðslufyrirmæla í greiðslukerfum. Einnig er gerð tillaga um skýr ákvæði um eignarhald viðskiptaaðila á fjármunum í vörslu verðbréfamiðstöðva og um setningu reglna um uppgjör verðbréfaviðskipta og um samráðsnefnd fyrirtækja og stofnana á sviði verðbréfaviðskipta til þess að fjalla um málefni tengd uppgjöri og frágangi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


    Um 1. gr.


    Greinin felur í sér tvær efnislegar breytingar.
    Í fyrsta lagi er lagt til að efndalok rafbréfa í íslenskum krónum verði með óbreyttum hætti, þ.e. fari fram með tilstuðlan stórgreiðslukerfis Seðlabanka Íslands. Bætt verði inn í 1. málsl. 1. mgr. orðunum „greiðslufyrirmæli í greiðslukerfi vegna viðskipta … í íslenskum krónum“.
    Í öðru lagi er lagt til að bætt verði inn nýrri málsgrein sem verði 2. mgr. 15. gr. Til að gera peningalegt uppgjör verðbréfa skráð í erlendum gjaldmiðlum mögulegt er farin sú leið að verðbréfamiðstöð hafi milligöngu um uppgjörið. Gert er ráð fyrir því að verðbréfamiðstöðin semji við samstarfsaðila um tilhögun greiðsluuppgjörs og semji um uppgjörskerfi sem efndalok fari fram í. Þessi tilhögun skal háð samþykki Fjármálaeftirlitsins að fenginni umsögn Seðlabanka Íslands. Mjög mikilvægt er að greiðslukerfi sem um er samið uppfylli annars vegar kröfur laga nr. 90/1999, um öryggi greiðslufyrirmæla í greiðslukerfum, þ.e. samevrópskar réttarreglur um það hvenær greiðslufyrirmæli og greiðslujöfnun eru bindandi gagnvart þriðja manni þrátt fyrir að bú þátttakanda sé tekið til gjaldþrotaskipta og hins vegar tilmæli Alþjóðagreiðslubankans og Alþjóðasamtaka verðbréfaeftirlitsstofnana (e. Bank for International Settlements – BIS) og International Organization of Securities Commissions – IOSCO um verðbréfauppgjörskerfi (e. Recommendations for securities settlement systems, November 2001).
    Mismunandi leiðir eru mögulegar til að annast efndalok peningalegs uppgjörs verðbréfaviðskipta. Það fyrirkomulag sem nú er notað við peningalegt uppgjör verðbréfaviðskipta í íslenskum krónum er að Seðlabanki Íslands tekur við innborgunum (innlánum) á reikninga þeirra reikningsstofnana sem aðild eiga að verðbréfauppgjörinu (sbr. 1. mgr. 15 gr.). Seðlabankinn annast síðan peningalegt uppgjör milli reikningsstofnana á grundvelli greiðslufyrirmæla frá verðbréfamiðstöð en þau greiðslufyrirmæli grundvallast á staðfestum verðbréfaviðskiptum reikningsstofnana. Samtímis því sem peningalegt uppgjör undirliggjandi verðbréfaviðskipta fer fram annast verðbréfamiðstöð millifærslu þeirra verðbréfa sem um ræðir af verðbréfareikningum seljenda hjá verðbréfamiðstöð (VS-reikningum) yfir á VS-reikninga kaupanda. Þetta fyrirkomulag felur í sér að hvorki peningar né rafbréf eru í uppgjörsferlinu vistuð á reikningum á nafni verðbréfamiðstöðvar. Peningar og verðbréf eru hér ávallt aðskilin fjárhagslegri stöðu verðbréfamiðstöðvar.
    Annað fyrirkomulag sem notað er við peningalegt uppgjör verðbréfaviðskipta er að þær reikningsstofnanir sem í hlut eiga leggi fram fjármuni til verðbréfamiðstöðvar er mikilvægt að þeim fjármunum sé haldið aðgreindum frá eigin fjármunum verðbréfamiðstöðvarinnar og á sérstökum vörslureikningum. Slíkt uppgjörsfyrirkomulag felur í sér að reikningsstofnanir (nettókaupendur verðbréfa) leggja tilskilda fjárhæð inn á sérstakan uppgjörsreikning á nafni verðbréfamiðstöðvar. Verðbréfamiðstöð annast síðan útborgun þessara fjármuna til nettóseljanda verðbréfanna samtímis því sem verðbréfamiðstöð millifærir verðbréfin af VS-reikningum seljenda yfir á VS-reikninga kaupenda. Í þessu tilviki eru peningar sem kaupendur eiga að greiða seljendum vistaðir um skamma hríð á reikningi sem skráður er sem eign verðbréfamiðstöðvar. Þessir fjármunir verða hins vegar aldrei eign viðkomandi verðbréfamiðstöðvar, þar sem þeir eiga alfarið að renna til seljanda þeirra verðbréfa sem um ræðir hverju sinni. Nauðsynlegt er að taka af allan vafa í þessu efni og ber verðbréfamiðstöð sem aðild á að slíku peningalegu uppgjörsferli að halda þessum fjármunum aðgreindum frá eigin fé.
    Í greininni er lagt til að bætt verði við nýrri málsgrein sem verði 3. mgr. 15. gr. samþykkt. Í málsgreininni er lagt til að verðbréfamiðstöð skuli setja nánari reglur um uppgjör viðskipta með rafbréf sem Fjármálaeftirlitið samþykkir að höfðu samráði við Seðlabankann. Verðbréfamiðstöðvar eru eftirlitsskyldir aðilar gagnvart Fjármálaeftirlitinu en Seðlabankinn setur reglur um greiðslukerfi og hefur yfirsýn yfir öll kerfislega mikilvæg greiðslukerfi. Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með innra skipulagi hjá einstökum þátttakendum greiðslukerfa og framkvæmd þeirra á reglum sem gilda um greiðslu- og uppgjörskerfi. Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið hafa gengið frá sérstökum samstarfssamningi þar sem m.a. hlutverkaskipti þessara eftirlitsaðila eru skilgreind nánar og kveðið á um miðlun upplýsinga.
    Lögð er til breyting á núgildandi 2. mgr. 15. gr. Á grundvelli 2. mgr. 15. gr. gildandi laga starfar samráðsnefnd fulltrúa verðbréfamiðstöðva, kauphalla og Seðlabanka Íslands. Hlutverk nefndarinnar er að fjalla um samskipti verðbréfamiðstöðva, kauphalla og Seðlabanka Íslands í tengslum við frágang viðskipta. Með vísan til eftirlitshlutverks Fjármálaeftirlitsins er lagt til að það eigi jafnframt fulltrúa í þessari nefnd.
    Að lokum er lagt til í greininni að 3. mgr. 15. gr. falli brott en hún er þess efnis að Seðlabankinn geti beitt reikningsstofnanir viðurlögum skv. 41. gr. laga nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands, sé ákvörðunum bankans í þessum efnum ekki hlítt. Lög nr. 36/2001 hafa leyst af hólmi eldri lög um Seðlabankann.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 131/1997,
um rafræna eignarskráningu verðbréfa.

    Í frumvarpinu eru lagðar til tvær efnislegar breytingar á 15. gr. laga nr. 131/1997. Annars vegar að skýrt sé tekið fram að fyrsta málsgrein greinarinnar eigi eingöngu við um verðbréf í íslenskum krónum. Hins vegar að bætt verði við nýrri málsgrein í greinina sem kveði á um öruggan farveg fyrir fullnaðaruppgjör viðskipta með verðbréf sem skráð eru í erlendri mynt. Þá er lagt til að verðbréfamiðstöð hafi milligöngu um uppgjör slíkra bréfa.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum mun það ekki hafa áhrif á tekjur eða gjöld ríkissjóðs.