Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 477. máls.

Þskj. 759  —  477. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar
á villtum fuglum og villtum spendýrum , með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      Í stað lokamálsliðar 1. mgr. koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Eigi síðar en 1. apríl ár hvert skal veiðikortshafi skrá og skila þar til gerðri skýrslu um undangengið veiðiár sem telst frá 1. janúar til 31. desember. Ef veiðiskýrslu frá fyrra veiðitímabili hefur ekki verið skilað er útgáfa nýs veiðikorts óheimil. Ef veiðiskýrsla berst eftir lögmæltan skiladag hækkar gjald fyrir útgáfu nýs veiðikorts í 5.000 kr.
     b.      Fyrsti málsliður 3. mgr. orðast svo: Gjald fyrir veiðikort skal vera 3.500 kr. fyrir hvert veiðiár.

2. gr.

    Á eftir 2. málsl. 9. mgr. 14. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Í því skyni er Umhverfisstofnun rétt að halda námskeið fyrir þá sem vilja gerast leiðsögumenn með hreindýraveiðum. Er Umhverfisstofnun heimil gjaldtaka vegna kostnaðar sem stendur í eðlilegum tengslum við sérhvert slíkt námskeið.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að gerðar verði tilteknar breytingar á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994.
    Fyrsta breytingin lýtur að því að skerpa á þeirri skilaskyldu veiðiskýrslna sem nú er kveðið á um í 1. mgr. 11. gr. laganna. Þýðingarmikið þykir að skylda þessi sé ótvíræð og afdráttarlaus vegna þess upplýsinga- og rannsóknagildis sem veiðiskýrslur geta haft og hafa fyrir ástand og stofnstærð villtra fugla og dýra, og þar með skynsamlega upplýsta stjórn og skipulag veiða samkvæmt lögunum. Í gildandi lögum er hins vegar hvorki að finna sérstaka hvata né önnur úrræði til framfylgdar þessari skyldu til skýrsluskila. Til þess að ákvæðið megi verða virkt og skilaskylda raunhæf er því lagt til að Umhverfisstofnun sé skylt að leggja 1.500 kr. á sérhverja leyfisgjaldsupphæð ef skýrsluskil hlutaðeigandi veiðikortshafa verða ekki innan lögmæltra tímamarka. Í samræmi við meðalhófssjónarmið og vandaða stjórnsýsluhætti er og ráð fyrir því gert að Umhverfisstofnun auglýsi áskoranir með hæfilegum fyrirvara svo að leyfishafar þurfi síður að greiða aukagjald þetta vegna skiladráttar.
    Önnur breytingin er í því fólgin að hækka þá upphæð sem nú er lögmælt í 3. mgr. 11. gr. laganna vegna útgáfu nýs veiðikorts til samræmis við vísitölu og verðlagsþróun en einnig vegna rannsóknaþarfa, en síðast var gerð breyting á upphæðinni árið 2003.
    Þriðja breytingin snýr að lögfestingu heimildarákvæðis fyrir Umhverfisstofnun til að halda leiðsögumannanámskeið í sambandi við hreindýraveiðar, svo og gjaldtökurétt stofnunarinnar vegna kostnaðar við slíkt námskeiðahald.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Gerð hefur verið grein fyrir meginefni greinarinnar í almennum athugasemdum.
    Hækkun sú sem nú er mælt fyrir um í 3. mgr. 11. gr. laganna er úr 2.200 kr. í 3.500 kr. Meginrökin að baki hækkuninni eru þau að auknar tekjur þarf til að standa undir þeim kostnaði sem óhjákvæmilega hlýst af rannsóknum sem nauðsynlegar má telja fyrir skipulag og stjórn á friðun og veiðum villtra spendýra og fugla. Til þess að hvetja veiðikortshafa til skilvísi á veiðiskýrslum er mælt svo fyrir að gjald fyrir útgáfu nýs veiðikorts hækki í 5.000 kr. ef skiladráttur verður.
                        

Um 2. gr.


    Ekki er kveðið á um námskeið fyrir leiðsögumenn með hreindýraveiðum í gildandi lögum. Umhverfisstofnun hefur haldið slík námskeið en talið vafa leika á um heimild til slíks námskeiðahalds, svo og gjaldtöku til að standa undir slíku. Gild rök má færa fyrir nauðsyn slíkra námskeiða og samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum gætir sívaxandi áhuga meðal manna til að afla sér leiðsögumannaleyfa. Með breytingu þessari er ætlunin að taka af allan vafa um heimild Umhverfisstofnunar til slíks námskeiðahalds, svo og um réttmæti gjaldtöku til að standa undir þeim kostnaði er af hlýst.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vernd, friðun og veiðar
á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er mælt fyrir um hækkun gjalds fyrir veiðikort. Gjaldið hækkar úr 2.200 kr. í 3.500 kr. en hafi veiðiskýrslu fyrir undangengið veiðiár ekki verið skilað fyrir lögmæltan skiladag verður gjaldið 5.000 kr. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að um sé að ræða hækkun til samræmis við vísitölu og verðlagsþróun en einnig vegna rannsóknaþarfa ásamt því að skapa hvata til að bæta skil á veiðiskýrslum.
    Á árinu 2006 skilaði gjald fyrir veiðikort 22 m.kr. tekjum. Miðað við óbreyttan fjölda útgefinna veiðikorta og 3.500 kr. gjald má gera ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af gjaldi fyrir veiðikort hækki um 13 m.kr. á heilu ári. Því til viðbótar má reikna með einhverjum tekjuauka vegna 5.000 kr. gjaldsins. Sé miðað við að vanskil á veiðiskýrslum verði helmingi minni en þau eru nú má ætla að sá tekjuauki geti orðið um 1 m.kr. á ári. Í frumvarpinu einnig mælt fyrir um heimild Umhverfisstofnunar til námskeiðahalds fyrir leiðsögumenn með hreindýraveiðum og gjaldtöku til að standa undir kostnaði við slík námskeið. Ekki er því gert ráð fyrir að ríkissjóður hafi kostnað af þessum námskeiðum.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum má því ætla að tekjur ríkissjóðs af gjaldi fyrir veiðikort hækki um 14 m.kr. á heilu ári og verði 36 m.kr. Samkvæmt lögunum skal tekjunum varið til rannsókna, vöktunar og stýringar á stofnum villtra dýra, auk þess að kosta útgáfu kortanna.