Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 292. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Prentað upp.

Þskj. 762  —  292. mál.
Leiðrétting.




Nefndarálit



um frv. til l. um samgönguáætlun.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur frá samgönguráðuneyti, Jón Rögnvaldsson og Gunnar Gunnarsson frá Vegagerðinni, Ólaf Bjarnason frá Reykjavíkurborg, Hermann Guðjónsson frá Siglingastofnun og Signýju Sigurðardóttur frá Samtökum verslunar og þjónustu.
    Umsagnir um málið bárust frá Slysavarnaskóla sjómanna, Siglingastofnun Íslands, Vegagerðinni, Grindavíkurbæ, Reykjavíkurborg, Flóahreppi, Samtökum verslunar og þjónustu, Hafnasambandi Íslands, Bláskógabyggð, Dalvíkurbyggð, rannsóknarnefnd umferðarslysa, Vestmannaeyjabæ, Byggðastofnun, Sveitarfélaginu Álftanesi, Sveitarfélaginu Skagafirði, Ferðamálastofu, Landssamtökum hjólreiðamanna, Landhelgisgæslu Íslands, Eyþingi – Sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, ríkislögreglustjóra, Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Landssambandi björgunarsveita, Bændasamtökum Íslands, Vopnafjarðarhreppi, Sveitarfélaginu Árborg, Umhverfisstofnun og Ásahreppi.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á framkvæmd samgönguáætlunar. Í fyrsta lagi er ætlunin að gera skýrara að samgönguáætlun er í raun ein áætlun til tólf ára og að hver fjögurra ára áætlun er nánari sundurliðun á viðkomandi tímabili innan hennar. Í öðru lagi er lagt til að við upphaf vinnu samgönguráðs hafi ráðherra sett fram stefnumið sín og fjárhagsramma. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að heimilað verði að endurskoða samgönguáætlun oftar en á fjögurra ára fresti. Í fjórða lagi er leitast við að skapa skýrari ramma um samgönguáætlun og þau markmið sem unnið er að með henni. Í fimmta lagi gefst möguleiki á annars konar framsetningu samgönguáætlunar en með þeirri kaflaskiptingu sem nú er. Í sjötta lagi verði tryggt að forstöðumenn allra samgöngustofnana sem heyra undir samgönguráðuneytið eigi sæti í samgönguráði ef breytingar verða á því hvaða stofnanir það eru.
    Á fundum nefndarinnar kom fram að samgönguáætlun er rammaáætlun og að hver fjögurra ára áætlun er framkvæmdaáætlun innan hennar en það er áherslubreyting frá gildandi lögum. Telur nefndin það markmið eðlilegt en getur ekki fallist á að unnt sé að binda hendur löggjafans þannig að Alþingi sé óheimilt að samþykkja fjögurra ára áætlun án þess að tólf ára áætlun hafi verið samþykkt, sbr. 2. málsl. 6. gr. frumvarpsins, og leggur því til að sá málsliður falli brott.
    Þá ræddi nefndin á fundum sínum um samgönguáætlun en þar skal mörkuð stefna og markmið fyrir allar greinar samgangna næstu 12 árin. Með vísan til aukinnar áherslu á almenningssamgöngur þykir nefndinni ástæða til að telja þær sérstaklega upp innan samgöngugreinanna í 2. mgr. 2. gr. og leggur til breytingu á frumvarpinu vegna þess. Þá telur nefndin einnig rétt vegna aukinnar áherslu á umhverfismál að geta umhverfismála sérstaklega í greininni og leggur til breytingar á frumvarpinu þar að lútandi.
    Þá kom fram að litið er á samgöngugreinarnar sem eina heild og samkvæmt því er í frumvarpinu gert ráð fyrir að samgönguáætlun verði ekki lengur kaflaskipt eftir einstökum greinum heldur svæðum. Telur nefndin að það geti verið til einföldunar í framkvæmd.
    Loks ræddi nefndin um skipan samgönguráðs og telur nefndin rétt að fram fari endurskoðun á skipan ráðsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:

     1.      Á undan orðinu „hafnamála“ í 1. málsl. 2. mgr. 2. gr. komi: almenningssamgangna.
     2.      Í stað orðanna „og öryggismála“ í 1. málsl. 2. mgr. 2. gr. komi: öryggismála og umhverfismála.
     3.      2. málsl. 6. gr. falli brott.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Guðni Ágústsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 6. mars 2008.



Ólöf Nordal,


varaform., frsm.


Karl V. Matthíasson.


Árni Þór Sigurðsson.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Árni Johnsen.


Valgerður Bjarnadóttir.


Björk Guðjónsdóttir.



Ármann Kr. Ólafsson.


Guðjón A. Kristjánsson.