Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 499. máls.

Þskj. 793  —  499. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um fullgildingu þriggja Haag-samninga á sviði réttarfars.

(Lögð fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd samning um einkamálaréttarfar frá 1. mars 1954, samning um birtingu erlendis á réttarskjölum og utanréttarskjölum í einkamálum og verslunarmálum frá 15. nóvember 1965 og samning um öflun sönnunargagna erlendis í einkamálum og verslunarmálum frá 18. mars 1970. Samningar þessir voru allir gerðir í Haag.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á þremur samningum um einkamálaréttarfar, birtingu erlendis á réttarskjölum og utanréttarskjölum í einkamálum og verslunarmálum (hér eftir nefndur ,,birtingarsamningurinn“) og öflun sönnunargagna erlendis í einkamálum og verslunarmálum. Samningurinn um einkamálaréttarfar er prentaður sem fylgiskjal I með tillögu þessari, birtingarsamningurinn sem fylgiskjal II og samningurinn um öflun sönnunargagna erlendis í einkamálum og verslunarmálum sem fylgiskjal III.
    Þessir þrír samningar komu í stað samnings um einkamálaréttarfar sem gerður var á vegum Haag-ráðstefnunnar 17. júlí 1905. Síðastnefndi samningurinn var fullgiltur af hálfu Danmerkur 24. apríl 1909 og öðlaðist við það einnig gildi að því er Ísland varðar.
    Meginmarkmið samninganna er að efla samvinnu milli ríkja til að greiða fyrir rekstri dómsmála. Stefnt er að því að ryðja úr vegi hindrunum milli ríkja vegna ólíkra réttarkerfa og jafnframt að efla réttaröryggi þegar dómsmál varða aðila og hagsmuni í fleiri ríkjum.

I. Samningurinn um einkamálaréttarfar.
    Í I. hluta samnings um einkamálaréttarfar frá 1. mars 1954 er fjallað um birtingu réttarskjala og utanréttarskjala í einkamálum og verslunarmálum fyrir mönnum sem dveljast erlendis. Samkvæmt 1. gr. samningsins skal birting fara fram að beiðni ræðismanns þess ríkis sem beiðni kemur frá og skal henni beint að því yfirvaldi er það ríki tilnefnir sem skjalið er sent til. Það yfirvald skal síðan senda ræðismanninum staðfestingu þess að birting hafi farið fram eða tilgreina þær ástæður sem komu í veg fyrir hana. Í stað þess að beiðni um birtingu sé komið á framfæri af ræðismanni geta samningsríkin með tilkynningu til annarra samningsríkja lýst því yfir að beiðni skuli senda eftir diplómatískum leiðum, sbr. 3. mgr. 1. gr. samningsins. Þá gerir samningurinn ráð fyrir að samningsríki geti komið sér saman um að heimila bein samskipti milli hlutaðeigandi yfirvalda þeirra, sbr. 4. mgr. sömu greinar.
    Samkvæmt 2. gr. samningsins er viðkomandi yfirvaldi heimilt að birta skjal með því að afhenda það viðtakanda sem veitir því fúslega viðtöku. Að öðrum kosti skal birting fara fram eftir þeim reglum sem gilda þar sem skjal er birt eða með sérstakri aðferð, enda fari hún ekki í bága við lög viðkomandi ríkis, sbr. 2. mgr. 3. gr. samningsins. Þá verður beiðni um birtingu aðeins hafnað ef ríki telur að um sé að ræða íhlutun í fullveldi þess eða öryggi, sbr. 4. gr. samningsins.
    Í 6. gr. samningsins er gert ráð fyrir heimild til að koma skjölum á framfæri með því að senda þau í pósti til viðtakanda. Einnig er gert ráð fyrir að hlutaðeigandi sem vill fá skjal birt geti snúið sér beint til yfirvalda þar sem birting fer fram, auk þess sem ríki geti látið sendierindreka eða ræðiserindreka birta skjöl erlendis. Þetta er bundið því að samningsríki andmæli ekki birtingu með þessu móti. Þó geta samningsríkin ekki andmælt birtingu sem fer fram þvingunarlaust fyrir ríkisborgara þess ríkis er beiðni kemur frá.
    Birting réttarskjala skal vera án endurgreiðslu gjalda eða kostnaðar af einhverju tagi. Þó er heimilt ef ekki er á annan veg samið að krefja það ríki sem beiðni kemur frá um kostnað vegna þjónustu starfsmanns dómstóls eða við að birta skjal með sérstakri aðferð, sbr. 7. gr. samningsins.
    Í II. hluta samningsins er fjallað um réttarbeiðnir í einkamálum og verslunarmálum til að fram fari sönnunarfærsla eða önnur dómsathöfn innan lögsögu annars samningsríkis. Samkvæmt 9. gr. samningsins skulu réttarbeiðnir sendar af ræðismanni þess ríkis sem beiðnin kemur frá til yfirvalds sem er tilnefnt af því ríki þar sem beiðnin verður framkvæmd. Það yfirvald skal síðan senda ræðismanni staðfestingu á því að réttarbeiðnin hafi verið framkvæmd eða upplýsa hvað hafi hindrað það. Í stað þess að réttarbeiðni sé komið á framfæri af ræðismanni geta samningsríkin með tilkynningu til annarra samningsríkja lýst því yfir að beiðni skuli senda eftir diplómatískum leiðum, sbr. 3. mgr. 9. gr. Þá gerir samningurinn ráð fyrir að samningsríki geti komið sér saman um að heimila bein samskipti milli hlutaðeigandi yfirvalda þeirra, sbr. 4. mgr. sömu greinar.
    Samkvæmt 11. gr. samningsins skal það dómsmálayfirvald sem beiðni er send til vera skuldbundið til að verða við henni með sömu þvingunarúrræðum og eiga við um framkvæmd fyrirmæla frá yfirvöldum í eigin ríki eða beiðni frá aðila að máli sem þar væri rekið fyrir dómi. Þó er ekki nauðsynlegt að beita þeim þvingunarúrræðum vegna þingsóknar málsaðila. Réttarbeiðni verður aðeins synjað þegar vafi leikur á áreiðanleika skjals, framkvæmd beiðni fellur ekki undir valdsvið dómstóla í því ríki sem henni er beint til eða viðkomandi ríki telur beiðnina íhlutun í fullveldi sitt eða öryggi.
    Þegar réttarbeiðni er framkvæmd skal dómsmálayfirvald sem hefur það með höndum beita lögum síns ríkis við málsmeðferðina. Þó má beita sérstökum málsmeðferðarreglum ef það yfirvald sem beiðni kemur frá óskar þess og það fer ekki í bága við lög þar sem beiðni verður framkvæmd, sbr. 14. gr. samningsins.
    Samkvæmt 15. gr. kemur samningurinn ekki í veg fyrir að ríki láti sendierindreka eða ræðiserindreka sína framkvæma réttarbeiðni milliliðalaust, enda sé það heimilt samkvæmt samningi viðkomandi ríkja eða það ríki þar sem beiðni verður framkvæmd andmælir því ekki.     Framkvæmd réttarbeiðni skal vera án endurgreiðslu gjalda eða kostnaðar af einhverju tagi. Þó er heimilt nema á annan veg sé samið að krefjast endurgreiðslu þóknunar til vitna eða sérfræðinga og kostnaðar sem til fellur vegna nauðsynlegrar þjónustu starfsmanns dómstóls vegna þess að vitni mættu ekki sjálfviljug eða vegna tilmæla um sérstaka málsmeðferð, sbr. 16. gr. samningsins.
    Í III. hluta samningsins er að finna ákvæði um málskostnaðartryggingu. Samkvæmt 17. gr. samningsins gildir sú regla að ríkisborgurum samningsríkis, sem búsettir eru í einhverju þeirra, verður ekki gert að leggja fram málskostnaðartryggingu vegna þess að þeir eru útlendingar eða án fastrar búsetu í því landi þar sem mál er höfðað. Þegar málsaðili hefur verið undanþeginn skyldu til að leggja fram málskostnaðartryggingu samkvæmt þessu skal ákvörðun um skyldu hans til greiðslu málskostnaðar eða réttargjalda vera fullnægt án kostnaðar af þar til bæru yfirvaldi í öðru samningsríki, sbr. 18. gr. samningsins. Jafnframt skulu slíkar ákvarðanir vera aðfararhæfar án undangengins málflutnings, en dómþoli skal þó hafa rétt til að fá slíka ákvörðun endurskoðaða í samræmi við löggjöf í því ríki þar sem fullnustu er leitað, sbr. 19. gr. samningsins.
    Í IV. hluta samningsins er fjallað um ókeypis réttaraðstoð. Samkvæmt 20. gr. hans gildir sú regla að ríkisborgarar samningsríkjanna skulu hafa sama aðgang að réttaraðstoð og ríkisborgarar í því samningsríki þar sem réttaraðstoðar er leitað í samræmi við löggjöf þess ríkis. Á það einnig við þegar réttaraðstoð er veitt í stjórnsýslumálum. Um málsmeðferðina vegna réttaraðstoðar er síðan fjallað nánar í 21.–24. gr. samningsins.
    Þá eru í V. hluta samningsins ákvæði um heimild fyrir efnalitla ríkisborgara samningsríkis til að fá vottorð úr opinberum skrám á sama veg og ríkisborgarar viðkomandi ríkis. Enn fremur er í VI. hluta samningsins girt fyrir að frelsissviptingu verði beitt sem nauðungarúrræði til að skapa varnaðaráhrif gagnvart útlendingum sem eru ríkisborgarar samningsríkis í tilvikum þar sem frelsissviptingu verður ekki beitt gagnvart borgurum viðkomandi ríkis. Loks eru í VII. hluta lokaákvæði um undirritun, fullgildingu, gildistöku og uppsögn samningsins.

II. Birtingarsamningurinn.
    Samningur um birtingu erlendis á réttarskjölum og utanréttarskjölum í einkamálum og verslunarmálum frá 15. nóvember 1965 leysti af hólmi I. hluta samningsins um einkamálaréttarfar frá 1. mars 1954. Í aðfaraorðum samningsins er tekið fram að markmið hans sé að bæta skipulag gagnkvæmrar aðstoðar í dómsmálum með einfaldari og skjótari framkvæmd.
    Samkvæmt 1. gr. samningsins gildir hann um öll einkamál og verslunarmál þar sem senda þarf réttarskjöl eða utanréttarskjöl til birtingar í öðru ríki. Sá fyrirvari er þó gerður að samningurinn gildir ekki þegar heimilisfang viðtakanda er óþekkt. Um birtingu á réttarskjölum er síðan fjallað í I. kafla samningsins og utanréttarskjölum í II. kafla.
    Í 2. gr. samningsins er sú skylda lögð á samningsríkin að tilnefna miðlægt stjórnvald til að annast birtingu skjala frá öðrum samningsríkjum. Um það hvernig haga skuli birtingu réttarskjala eru síðan nánari ákvæði í 3.–6. gr.
    Samkvæmt 3. gr. samningsins skal beiðni um birtingu frá ríki send miðlægu stjórnvaldi viðtökuríkis í samræmi við formála sem er að finna í viðauka með samningnum og á skjal til birtingar eða afrit þess að fylgja beiðninni. Miðlæga stjórnvaldið sem fær skjalið til birtingar annast hana síðan sjálft eða hlutast til um að skjalið verði birt af viðeigandi stofnun, sbr. 1. mgr. 5. gr. Birtingunni skal hagað í samræmi við lög viðkomandi ríkis eða með þeirri sérstöku aðferð sem óskað er eftir að verði viðhöfð, enda stríði hún ekki gegn lögum þar sem birtingin fer fram, sbr. a- og b-liði 1. mgr. 5. gr. Þegar ekki er óskað eftir að birting fari fram með sérstakri aðferð er ávallt heimilt að birta skjal með því að afhenda það viðtakanda sem tekur fúslega við því, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Að lokinni birtingu skal það stjórnvald sem annaðist hana fylla út vottorð í samræmi við formála í viðauka með samningnum. Í vottorðinu skal koma fram að skjalið hafi verið birt, hvar, hvenær og með hvaða aðferð og hverjum það hafi verið afhent. Ef birting fór ekki fram skal tilgreina í vottorðinu hvað kom í veg fyrir hana, sbr. 6. gr. samningsins. Einnig skal beiðanda þegar tilkynnt ef miðlægt stjórnvald telur að beiðni um birtingu samræmist ekki ákvæðum samningsins og ber þá að tilgreina rök fyrir því, sbr. 4. gr. samningsins.
    Í stað þess að skjal sé birt af stjórnvöldum í því ríki þar sem birting fer fram getur samningsríki falið sendierindrekum eða ræðiserindrekum sínum að birta réttarskjöl milliliðalaust fyrir mönnum erlendis, ef ekki er beitt þvingun af neinu tagi. Samningsríki getur hins vegar lýst yfir andmælum sínum við slíkri birtingu innan yfirráðasvæðis síns nema þegar birting fer fram fyrir ríkisborgurum þess ríkis sem skjal kemur frá, sbr. 8. gr. samningsins.
    Ef því hefur ekki verið sérstaklega andmælt er heimilt skv. 10. gr. samningsins að senda réttarskjöl í pósti beint til þeirra sem eru erlendis, sbr. a-lið, að birta skjal með milliliðalausum samskiptum þeirra sem bærir eru til að birta í ríki sem beiðni kemur frá og í ríki þar sem birt er, sbr. b-lið, og að sá sem óskar eftir birtingu snúi sér beint til þeirra sem annast birtingu í viðkomandi ríki, sbr. c-lið. Einnig geta tvö eða fleiri ríki komið sér saman um að heimila aðrar boðleiðir til að birta réttarskjöl, sbr. 11. gr. samningsins.
    Birting réttarskjala skal vera án greiðslu eða endurgreiðslu gjalda eða kostnaðar þess ríkis sem beiðni er send til. Þó skal beiðandi greiða eða endurgreiða kostnað af þjónustu starfsmanns dómstóls eða annars sem er valdbær samkvæmt lögum þess ríkis sem beiðni er send til eða vegna sérstakrar aðferðar sem er viðhöfð.
    Þegar fullnægt er skilyrðum samningsins verður beiðni um birtingu ekki synjað nema ríki sem beiðni er send til telji framkvæmd hennar íhlutun í fullveldi sitt eða öryggi. Verður beiðni um birtingu ekki synjað af þeirri ástæðu einni að sakarefnið eigi samkvæmt lögum aðeins undir dómstóla viðkomandi ríkis eða að málsókn af þessu tagi sé ekki heimil samkvæmt lögum ríkisins, sbr. 13. gr. samningsins.
    Í samningnum er að finna ákvæði sem miða að því að þrengja heimild til að dómur gangi þegar stefndi sækir ekki dómþing í málinu. Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. samningsins skal útivistardómur ekki kveðinn upp nema stefna hafi verið birt í samræmi við lög þess ríkis þar sem birting fór fram eða stefna hafi í raun verið afhent stefnda eða á heimili hans í samræmi við samninginn. Einnig er gerður sá áskilnaður að stefna hafi verið afhent svo tímanlega að stefnda hafi verið kleift að taka til varna, sbr. niðurlag sömu greinar. Í 2. mgr. 15. gr. samningsins er að finna heimild fyrir samningsríkin til að lýsa því yfir að dómur geti allt að einu gengið í máli þótt ekki liggi fyrir að stefna hafi verið birt og ekki sé sótt þing af hálfu stefnda ef ákveðnum skilyrðum er fullnægt. Þessi skilyrði eru í fyrsta lagi að stefna hafi verið send með einhverjum þeim aðferðum sem kveðið er á um í samningnum. Í öðru lagi þarf hæfilegur frestur að vera liðinn að mati dómara frá því að stefna var send, þó ekki skemmri frestur en sex mánuðir. Í þriðja lagi gildir loks það skilyrði að ekki hafi borist vottorð af neinu tagi um birtinguna, þótt allt hafi verið gert til að afla þess sem með sanngirni má ætlast til. Ef útivistardómur hefur gengið í máli þegar birta hefur þurft stefnu erlendis er gert ráð fyrir því í 16. gr. samningsins að unnt sé að undanþiggja dómþola frá áhrifum þess að liðinn sé frestur til að leita endurskoðunar dóms. Skilyrði þess eru að dómþola hafi sér að ósekju hvorki verið kunnugt um málshöfðunina svo tímanlega að hann gæti tekið til varna né fengið vitneskju um dóm svo tímanlega að hann gæti leitað endurskoðunar og dómþoli hafi efnislegar varnir sem við fyrstu sýn virðist á rökum reistar. Þessa heimild geta samningsríkin þó takmarkað með því að setja tiltekinn frest sem þó skal ekki vera skemmri en eitt ár frá dómsuppkvaðningu.
    Í II. kafla samningsins þar sem ákvæði eru um utanréttarskjöl segir það eitt að slík skjöl, sem koma frá stjórnvöldum eða starfsmönnum dómstóla í samningsríki, megi senda til birtingar í öðrum ríkjum með þeirri aðferð sem kveðið er á um í samningnum og í samræmi við fyrirmæli hans.
    Loks er í III. kafla samningsins að finna ákvæði um undirritun, fullgildingu, fyrirvara og uppsögn.

III. Samningurinn um öflun sönnunargagna erlendis í einkamálum og verslunarmálum.
    Samningur um öflun sönnunargagna erlendis í einkamálum og verslunarmálum frá 18. mars 1970 kemur í stað II. hluta samningsins um einkamálaréttarfar frá 1. mars 1954. Í aðfaraorðum segir að markmið samningsins sé að auðvelda sendingu og framkvæmd réttarbeiðna og greiða fyrir mismunandi aðferðum sem ríki beita í því skyni. Einnig er tekið fram að samningsríkin vilji bæta samvinnu á sviði einkamála og verslunarmála.
    Samningurinn miðar við að sönnunargagna verði aflað með tvennu móti. Annars vegar er um að ræða að gagnaöflun fari fram með réttarbeiðni, en um það eru nánari ákvæði í I. kafla samningsins. Hins vegar er gert ráð fyrir að sönnunargagna verði aflað fyrir milligöngu sendierindreka, ræðiserindreka eða sérstaklega tilnefndra manna, en ákvæði þar að lútandi eru í II. kafla samningsins.
    Samkvæmt 1. gr. samningsins getur dómsmálayfirvald í samningsríki óskað eftir því með réttarbeiðni að aflað verði sönnunargagna í öðru samningsríki. Sönnunargagna verður ekki aflað með réttarbeiðni nema þau séu ætluð fyrir dómsmál sem hefur verið höfðað eða er fyrirhugað. Jafnframt er unnt að gera fyrirvara skv. 23. gr. samningsins um að réttarbeiðnum verði ekki fylgt eftir til að afla sönnunargagna af því tagi sem í „common law“ réttarkerfum er þekkt sem „pre-trial discovery of documents“. Að auki er kleift með réttarbeiðni að fara þess á leit að önnur dómsathöfn verði framkvæmd. Með orðtakinu ,,önnur dómsathöfn“ er þó ekki átt við birtingu réttarskjala eða aðgerðir til að fullnægja dómi eða hrinda í framkvæmd fyrirmælum eða aðgerðum til bráðabirgða eða verndar.
    Til að koma réttarbeiðnum á framfæri við þau dómsmálayfirvöld sem framkvæma þær skulu samningsríkin tilnefna miðlægt stjórnvald í samræmi við eigin löggjöf. Skulu réttarbeiðnir sendar því stjórnvaldi án milligöngu annarra yfirvalda í viðkomandi ríki, sbr. 2. gr. samningsins.
    Í 3. og 4. gr. samningsins eru nánari ákvæði um hvernig réttarbeiðni skuli úr garði gerð og á hvaða tungumáli hún skuli rituð. Ef réttarbeiðni fullnægir ekki kröfum samningsins skal það þegar tilkynnt því yfirvaldi sem sendi beiðnina, sbr. 5. gr. samningsins.
    Samkvæmt 7. gr. samningsins skal því yfirvaldi, sem beiðni kemur frá, tilkynnt um hvar og hvenær réttarbeiðni verði tekin fyrir svo málsaðilar og umboðsmenn þeirra geti verið viðstaddir. Einnig getur samningsríki lýst því yfir að starfsmenn dómstóla samningsríkis, sem beiðni kemur frá, megi vera viðstaddir þegar réttarbeiðni er framkvæmd, en áskilja má þó undanfarandi heimild viðkomandi ríkis, sbr. 8. gr. samningsins.
    Við framkvæmd réttarbeiðni skal dómsmálayfirvald fara að lögum síns ríkis um þá málsmeðferð sem fylgt er. Þó má beita sérstakri málsmeðferð ef það yfirvald sem beiðni kemur frá óskar þess, svo framarlega sem það brýtur ekki í bága við lög í ríkinu þar sem beiðnin er framkvæmd eða er ómögulegt vegna réttarframkvæmdar eða örðugleika í framkvæmd. Þá skal réttarbeiðni afgreidd án tafar, sbr. 9. gr. samningsins. Það yfirvald sem framkvæmir beiðni skal beita viðeigandi þvingunarúrræðum í sömu tilvikum og að sama marki og gert er ráð fyrir í lögum viðkomandi ríkis þegar framfylgt er fyrirmælum frá yfirvöldum eða beiðni aðila að innlendu dómsmáli, sbr. 10. gr. samningsins.
    Í 11. gr. samningsins er að finna heimild fyrir þann einstakling sem afla á sönnunargagna frá til að neita að veita atbeina sinn. Getur viðkomandi einstaklingur skorast undan að láta í té sönnunargögn ef honum er það heimilt eða skylt samkvæmt lögum þess ríkis þar sem beiðnin er framkvæmd eða samkvæmt lögum þess ríkis sem beiðni kemur frá.
    Samkvæmt 12. gr. samningsins verður réttarbeiðni aðeins hafnað ef meðferð hennar er ekki á verksviði dómstóla í því ríki þar sem hún verður framkvæmd eða viðkomandi ríki telji framkvæmd hennar fela í sér íhlutun í fullveldi sitt eða öryggi. Verður réttarbeiðni ekki synjað af þeirri ástæðu einni að sakarefnið eigi samkvæmt lögum aðeins undir dómstóla þess ríkis þar sem beiðni verður framkvæmd eða að beiðni varði málsókn sem ekki er heimil samkvæmt lögum þess.
    Þegar réttarbeiðni hefur verið afgreidd skal senda því yfirvaldi sem hún barst frá skjöl um framkvæmd hennar eftir sömu leiðum og hún barst upphaflega. Þá skal í öllum tilvikum þegar beiðni er ekki framkvæmd tilkynna það því yfirvaldi sem hún barst frá og tilgreina ástæður þess, sbr. 13. gr. samningsins.
    Samkvæmt 14. gr. samningsins gildir sú meginregla að réttarbeiðni skuli afgreiða án endurgreiðslu gjalda og kostnaðar af einhverju tagi. Þó má krefjast endurgreiðslu kostnaðar vegna þóknunar til sérfræðinga og þýðenda og kostnaðar sem leiðir af því að viðhöfð er sérstök málsmeðferð að beiðni ríkis sem beiðni kemur frá.
    Samkvæmt II. kafla samningsins getur sendierindreki eða ræðiserindreki samningsríkis aflað án þvingunar sönnunargagna á starfssvæði sínu vegna dómsmáls á yfirráðasvæði annars samningsríkis frá ríkisborgurum þess ríkis sem hann er í fyrirsvari fyrir. Þó getur samningsríki lýst því yfir að þetta megi aðeins gera samkvæmt heimild sem veitt er eftir umsókn, sbr. 15. gr. samningsins. Einnig er gert ráð fyrir því í 16. gr. samningsins að sönnunargagna verði aflað með þessu móti frá ríkisborgurum þess ríkis þar sem sendierindrekinn eða ræðiserindrekinn starfar eða frá ríkisborgurum þriðja ríkis vegna dómsmáls sem rekið er í því ríki sem hann er í fyrirsvari fyrir samkvæmt leyfi viðkomandi ríkis og að gættum þeim skilyrðum sem kunna að verða sett. Þá er að finna heimild í 17. gr. samningsins fyrir löglega tilnefndan mann til að afla án þvingunar sönnunargagna á yfirráðasvæði annars samningsríkis að fengnu leyfi og samkvæmt settum skilyrðum.
    Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður ekki beitt þvingunarúrræðum þegar sendierindreki, ræðiserindreki eða sérstaklega tilnefndur maður aflar sönnunargagna. Þó getur samningsríki lýst því yfir skv. 18. gr. samningsins að óska megi viðeigandi aðstoðar frá til þess bæru yfirvaldi. Skal þá sömu þvingunarúrræðum beitt og eiga við lögum samkvæmt í dómsmáli sem rekið er í viðkomandi ríki.
    Ef ríki hefur gefið leyfi sitt fyrir sönnunarfærslu skv. 15.–17. gr. eða fallist á umsókn skv. 18. gr. um að þvingunarúrræðum verði beitt getur yfirvald þess ríkis sem í hlut á sett þau skilyrði sem það telur efni til, þar á meðal um hvar og hvernig gagna verði aflað. Einnig getur yfirvaldið gert þá kröfu að því verði tilkynnt með hæfilegum fyrirvara hvenær gagna verði aflað og á þá fulltrúi þess rétt á að vera viðstaddur, sbr. 19. gr. samningsins.
    Um málsmeðferðina þegar sendierindreki, ræðiserindreki eða sérstaklega tilnefndur maður afla sönnunargagna er fjallað í 21. gr. samningsins. Þar er því nánar lýst hvaða gagna verður aflað og hvernig haga ber kvaðningu til manns um að mæta og láta í té sönnunargögn, auk þess sem mælt er fyrir um heimild til að skorast undan því.
    Þegar ekki tekst að afla sönnunargagna skv. II. kafla samningsins vegna synjunar manns um að láta þau í té er unnt með réttarbeiðni að afla gagnanna eftir reglum I. kafla, sbr. 22. gr. samningsins.
    Loks er í III. kafla að finna ákvæði um undirritun, fullgildingu, fyrirvara og uppsögn samningsins.

IV. Athugasemdir varðandi fullgildingu samninganna.
    Til þess að Ísland geti staðið við þær skuldbindingar sem samningarnir leggja samningsríkjunum á herðar þarf að gera nokkrar breytingar á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Dóms- og kirkjumálaráðherra hefur á yfirstandandi löggjafarþingi lagt fram lagafrumvarp þar að lútandi. Að gerðum þessum breytingum eru engar hindranir í vegi fyrir því að samningarnir verði fullgiltir af Íslands hálfu. Þess má geta að fjöldi ríkja á aðild að samningunum, þar á meðal flest ríki Evrópu.
    Rétt er að huga að nokkrum atriðum sem snerta fyrirhugaða fullgildingu Íslands á samningunum. Samkvæmt birtingarsamningnum frá 1965 og samningnum um öflun sönnunargagna frá 1970 skulu samningsríkin tilnefna miðlæg stjórnvöld til að sinna þeim málefnum sem falla undir samningana. Hvað Ísland varðar er gert ráð fyrir að dóms- og kirkjumálaráðuneytið fari með þetta hlutverk. Eftir atvikum gæti dóms- og kirkjumálaráðuneytið falið öðru stjórnvaldi að sinna ákveðnum viðfangsefnum á sviði samninganna, sbr. 1. mgr. 6. gr. samningsins frá 1965 og 1. mgr. 24. gr. samningsins um öflun sönnunargagna frá 1970.
    Í samningnum um einkamálaréttarfar frá 1954 er í 3. tölul. 6. gr. að finna heimild fyrir ríki til að láta sendierindreka eða ræðiserindreka sína milliliðalaust annast birtingu skjala erlendis. Þó má samningsríki skv. 2. mgr. sömu greinar lýsa yfir andmælum við slíkri birtingu gagnvart öðrum en ríkisborgurum þess ríkis sem beiðni kemur frá. Í 8. gr. birtingarsamningsins frá 1965 er að finna hliðstætt ákvæði sem heimilar sendierindrekum og ræðiserindrekum að birta skjöl milliliðalaust án þvingunar. Samningsríki getur jafnframt lýst yfir andmælum við slíkri birtingu þegar í hlut eiga aðrir en ríkisborgarar þess ríkis sem skjal kemur frá. Við fullgildingu þessara samninga er ekki gert ráð fyrir að nýtt verði heimild til að lýsa yfir slíkum andmælum, enda verður ekki talið varhugavert að birting geti farið fram með þessu móti. Má nefna að andmælum við þessu var ekki lýst yfir af hálfu Danmerkur, Finnlands eða Svíþjóðar. Aftur á móti hefur Noregur haft uppi andmæli skv. 8. gr. birtingarsamningsins.
    Í b- og c-liðum 10. gr. birtingarsamningsins er gert ráð fyrir, ef því er ekki andmælt, að þeir sem birta skjöl í einu ríki eða málsaðilar geti snúið sér beint til þeirra sem annast birtingu í öðru ríki með ósk um birtingu í stað þess að hún fari fram fyrir milligöngu miðlægs stjórnvalds. Heppilegra þykir að dóms- og kirkjumálaráðuneytið sem miðlægt stjórnvald komi fram af Íslands hálfu og er því miðað við að nýtt verði heimild til að andmæla birtingu af þessu tagi. Má geta þess að öll hin Norðurlandaríkin hafa að einhverju leyti haft uppi andmæli gegn þessu ákvæði samningsins.
    Svo sem áður segir er í 15. gr. birtingarsamningsins að finna ákvæði sem miða að því að þrengja heimild til að dómur gangi þegar stefndi sækir ekki dómþing í máli. Hverju samningsríki er þó rétt að lýsa því yfir að unnt sé að kveða upp dóm þótt ekki hafi borist vottorð um birtingu, enda sé nánar tilgreindum skilyrðum fullnægt. Ástæðulaust þykir að Ísland taki á sig frekari þjóðréttarlegar skuldbindingar að þessu leyti en nauðsynlegt er til að samningurinn verði fullgiltur með því að útiloka að þessarar heimildar verði neytt. Er því fyrirhugað að slík yfirlýsing verði gefin af Íslands hálfu. Á það skal bent að Danmörk og Noregur hafa gefið slíka yfirlýsingu en það hafa Finnland og Svíþjóð hins vegar ekki gert.
    Samkvæmt 16. gr. birtingarsamningsins skal heimilt að leita endurskoðunar dóms þótt frestur til þess sé liðinn ef birta hefur þurft stefnu erlendis og stefnda var sér að ósekju hvorki kunnugt um skjalið svo tímanlega að hann gæti tekið til varna né fékk vitneskju um dóm svo tímanlega að hann gæti leitað endurskoðunar, enda hafi hann uppi efnislegar varnir sem við fyrstu sýn virðast á rökum reistar. Samningsríki getur skv. 3. mgr. sömu greinar takmarkað þessa heimild með því að setja tiltekinn frest sem þó skal ekki vera skemmri en eitt ár frá dómsuppkvaðningu. Hér á landi er ekki heimilt að áfrýja dómi sem gengið hefur í máli þar sem útivist hefur orðið af hálfu stefnda. Hins vegar er hægt að óska eftir endurupptöku málsins samkvæmt reglum XXIII. kafla laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Frestur til að beiðast endurupptöku getur að hámarki verið eitt ár skv. 1. og 2. mgr. 137. gr. laganna. Að þessu gættu þykir rétt að yfirlýsing verði gefin af Íslands hálfu skv. 3. mgr. 16. gr. samningsins þannig að frestur til að leita endurupptöku, sem telja verður hliðstætt úrræði og áfrýjun, geti ekki verið lengri en eitt ár frá dómsuppkvaðningu. Danmörk hefur gefið yfirlýsingu um sama frest en í yfirlýsingu Noregs er miðað við þrjú ár. Finnland og Svíþjóð hafa ekki gefið yfirlýsingu hvað þetta varðar.
    Samkvæmt 4. gr. samningsins um öflun sönnunargagna frá 1970 gildir sú meginregla að réttarbeiðni skal vera rituð á tungumáli þess yfirvalds sem óskað er að framkvæmi beiðnina en að öðrum kosti skal fylgja þýðing yfir á það tungumál. Samningsríki skal þó taka við beiðni sem rituð er á ensku eða frönsku eða hefur verið þýdd á annað hvort þessara tungumála. Þó má gera fyrirvara við þetta, sbr. 33. gr. samningsins. Af hálfu Íslands er gert ráð fyrir að fyrirvari verði gerður þannig að réttarbeiðnir verði ekki ritaðar á frönsku.
    Í II. kafla samningsins um öflun sönnunargagna frá 1970 er fjallað um öflun sönnunargagna hjá sendierindrekum, ræðiserindrekum eða sérstaklega tilnefndum mönnum. Samningurinn gerir ráð fyrir að ríki hafi nokkurt svigrúm til að ákveða í hvaða mæli þau heimili sönnunarfærslu af þessu tagi. Hvað þetta varðar er til þess að líta að hér á landi eru dómstólar skilvirkir og aðgangur að þeim mjög greiður. Þá verður að hafa í huga að réttaröryggi verður hvergi betur tryggt en með sönnunarfærslu fyrir dómi. Jafnframt má slá því föstu að sönnunargildi gagna sem þar er aflað er ríkara en þeirra gagna sem aflað er með öðru móti. Má í því sambandi benda á að rangur framburður fyrir dómi varðar þungum refsingum skv. 142. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Samkvæmt efni sínu getur það ákvæði ekki átt við um vitnisburð hjá fulltrúum erlendra ríkja og er reyndar álitamál að slík háttsemi geti yfir höfuð verið refsinæm. Það kann þó að koma til greina í einhverjum tilvikum, sbr. til að mynda 147. gr. almennra hegningarlaga. Með hliðsjón af þessu þykir rétt að nýtt verði heimild í 33. gr. samningsins til að gera fyrirvara við II. kafla hans. Sama yrði einnig gert samkvæmt hliðstæðri heimild í 15. gr. samningsins um einkamálaréttarfar frá 1954. Þyrfti því í öllum tilvikum að sækja um sérstaka heimild til að sendierindrekar, ræðiserindrekar eða sérstaklega tilnefndir menn öfluðu sönnunargagna hér á landi. Að þeim sjónarmiðum virtum sem hér hafa verið rakin er jafnframt miðað við að slík heimild verði almennt ekki veitt nema í undantekningartilvikum þegar gild rök mæla með því að gagna sé aflað með því móti. Við það mat hefur meðal annars áhrif það málefni sem er til úrlausnar og hjá hverjum gagna verður aflað. Þannig væri fremur efni til að fallast á beiðni af þessu tagi þegar sakarefnið snerti ekki með nokkru móti íslenska hagsmuni og ef eingöngu ættu í hlut borgarar þess ríkis sem réttarbeiðni kemur frá. Þá má slá því föstu að varla kemur til greina að fallist yrði á beiðni skv. 18. gr. samningsins um öflun sönnunargagna um að beitt verði þvingunarúrræðum þegar gagna er aflað af fulltrúum erlendra ríkja. Í öllu falli yrðu gerðar mjög ríkar kröfur svo fallist yrði á slíka beiðni.
    Loks er fyrirhugað að gerður verði fyrirvari af Íslands hálfu skv. 23. gr. samningsins þannig að hér á landi mun ekki verða framfylgt réttarbeiðnum til að afla sönnunargagna af því tagi sem í „common law“ réttarkerfum er þekkt sem „pre-trial discovery of documents“. Hafa öll hin Norðurlandaríkin gert fyrirvara við gagnaöflun af því tagi.

Fylgiskjal I.


SAMNINGUR
um einkamálaréttarfar.


(1954)


    Ríki þau sem undirrita samning þennan,
    sem óska, í ljósi reynslunnar, að bæta samninginn frá 17. júlí 1905 um einkamálaréttarfar,

    hafa í því augnamiði ákveðið að gera nýjan samning og hafa orðið ásátt um eftirfarandi ákvæði:


I. Birting réttarskjala og utanréttarskjala.
1. gr.

    Í samningsríkjunum skal birting skjala í einkamálum eða verslunarmálum fyrir mönnum sem dveljast erlendis fara fram að beiðni ræðismanns þess ríkis sem beiðnin kemur frá og beinast að því yfirvaldi er það ríki tilnefnir sem beiðni er send til. Í beiðni skulu koma fram upplýsingar um það yfirvald sem skjalið kemur frá, nöfn aðila og stöður, heimilisfang viðtakanda og tegund skjals, sem skal vera á máli þess yfirvalds sem beiðni er send til. Það yfirvald skal senda ræðismanninum staðfestingu þess að birting hafi farið fram eða upplýsingar um ástæður sem komið hafa í veg fyrir birtingu.
    Öll vandkvæði sem geta komið upp vegna beiðni ræðismannsins skal leysa eftir diplómatískum leiðum.
    Með tilkynningu til annarra samningsríkja getur hvert samningsríki lýst því yfir að senda skuli eftir diplómatískum leiðum beiðni þess efnis sem getur í 1. mgr. um birtingu skjala á yfirráðasvæði þess.


    Framangreind ákvæði hindra ekki að tvö samningsríki komi sér saman um að heimila bein samskipti milli hlutaðeigandi yfirvalda þeirra.

2. gr.

    Birting skjala skal framkvæmd af því yfirvaldi sem til þess er bært samkvæmt lögum þess ríkis sem beiðni er send til. Að frátöldum þeim tilvikum sem nefnd eru í 3. gr., getur það yfirvald framkvæmt birtingu skjals með því að afhenda það viðtakanda, sem er fús til að veita því viðtöku.

3. gr.

    Með beiðni skal senda í tvíriti skjal til birtingar.

    Þegar skjal til birtingar er ritað á máli þess yfirvalds sem beiðni er send til eða á því máli sem hlutaðeigandi tvö ríki hafa komið sér saman um eða ef meðfylgjandi er þýðing á öðru hvoru þessara tungumála skal yfirvaldið sem beiðni er send til, samkvæmt ósk í beiðninni, framkvæma birtingu eftir því sem segir í lögum þess ríkis um birtingu samsvarandi tilkynninga eða með sérstakri aðferð, enda brjóti hún ekki í bága við þau lög. Þegar slík ósk er ekki sett fram skal það yfirvald sem beiðni er send til í fyrstu reyna að afhenda skjalið með þeim hætti sem segir í 2. gr.
    Þegar ekki er um annað samið skal sú þýðing sem um getur í 2. mgr. vera staðfest rétt af sendierindreka eða ræðiserindreka þess ríkis sem beiðnin kemur frá eða af eiðsvörnum þýðanda í því ríki sem beiðni er send til.

4. gr.

    Beiðni um birtingu skv. 1., 2. og 3. gr. verður ekki hafnað nema ríkið þar sem birting á að fara fram telji framkvæmd hennar íhlutun í fullveldi sitt eða öryggi.


5. gr.

    Birtingu skal sanna með dagsettri og löggiltri móttökukvittun viðtakanda eða vottorði yfirvalds í því ríki sem beiðni er send til með upplýsingum um hvaða dag og með hvað hætti birting fór fram.
    Móttökukvittunin eða vottorðið skal vera rituð á annað eintak birta skjalsins eða fest við það.


6. gr.

    Framangreind ákvæði koma ekki í veg fyrir að:

1.    skjöl verði send með pósti beint til hlutaðeigandi sem er erlendis;

2.    hlutaðeigandi geti milliliðalaust látið starfsmenn dómstóla eða til þess bæra opinbera starfsmenn þess lands sem beiðni er send til annast birtinguna;
3.    hvert ríki geti látið sendierindreka eða ræðiserindreka sína milliliðalaust annast birtingar skjala fyrir þeim sem er erlendis.
    Heimild til birtingar skjala með þeim hætti sem greinir í 1. mgr. er þó háð því að hún sé heimil samkvæmt samningum milli viðkomandi ríkja, eða, þegar ekki er um slíkan samning að ræða, að ríkið þar sem birting á að fara fram andmæli henni ekki. Það ríki getur ekki andmælt birtingu skv. 3. tl. 1. mgr., sem fer fram þvingunarlaust fyrir ríkisborgara þess ríkis sem beiðnin kemur frá.


7. gr.

    Birting réttarskjala skal vera án endurgreiðslu gjalda eða kostnaðar af einhverju tagi.
    Þegar ekki er um annað samið er þó því ríki sem beiðni er send til heimilt að krefja það ríki sem beiðnin kemur frá um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu starfsmanns dómstóls, eða þegar birting hefur farið fram með sérstakri aðferð, sbr. 3. gr.


II. Réttarbeiðnir.
8. gr.

    Í einkamálum eða verslunarmálum getur dómsmálayfirvald í samningsríki, í samræmi við fyrirmæli í eigin löggjöf, snúið sér með réttarbeiðni til þar til bærs yfirvalds í öðru samningsríki með ósk um sönnunarfærslu eða aðra dómsathöfn innan lögsögu sinnar.


9. gr.

    Réttarbeiðnir skulu sendar af ræðismanni þess ríkis sem beiðnin kemur frá til yfirvalds tilnefndu af því ríki þar sem beiðni verður framkvæmd. Það yfirvald skal senda ræðismanni staðfestingu þess að réttarbeiðnin hafi verið framkvæmd eða upplýsa hvað hafi hindrað það.
    Öll vandkvæði sem geta komið upp vegna þeirrar sendingar skal leysa eftir diplómatískum leiðum.

    Með tilkynningu til annarra samningsríkja getur hvert samningsríki lýst því yfir að senda skuli eftir diplómatískum leiðum réttarbeiðnir, sem á að framkvæma á yfirráðasvæði þess.

    Framangreind ákvæði hindra ekki að tvö samningsríki komi sér saman um að heimila beina sendingu réttarbeiðna milli viðkomandi yfirvalda sinna.


10. gr.

    Þegar ekki er um annað samið skal réttarbeiðni vera rituð á tungumáli þess yfirvalds sem beiðni er send til eða á máli sem hlutaðeigandi tvö ríki hafa komið sér saman um en ella verður að fylgja þýðing á annað hvort þessara tungumála staðfest rétt af sendierindreka eða ræðiserindreka þess ríkis sem beiðnin kemur frá eða af eiðsvörnum þýðanda í því ríki þar sem beiðni verður framkvæmd.


11. gr.

    Það dómsmálayfirvald sem réttarbeiðni er send til skal vera skuldbundið til að verða við henni með sömu þvingunarúrræðum og eiga við um framkvæmd fyrirmæla frá yfirvöldum í eigin ríki eða beiðni frá aðila að innlendu dómsmáli. Þó er ekki nauðsynlegt að beita þeim þvingunarúrræðum vegna þingsóknar málsaðila.

    Samkvæmt ósk þess yfirvalds sem beiðni kemur frá skal því tilkynnt um stað og stund þegar framfylgja skal beiðninni svo að viðkomandi aðila gefist færi á að vera viðstaddur.
    Réttarbeiðni verður aðeins synjað þegar svo stendur á:
1.    vafi leikur á áreiðanleika skjals;

2.    framkvæmd beiðninnar fellur ekki undir valdsvið dómstóla í því ríki þar sem framkvæma á beiðnina;
3.    það ríki þar sem framkvæma á beiðnina telur það íhlutun í fullveldi sitt eða     öryggi.



12. gr.

    Nú er það yfirvald sem réttarbeiðni er send til ekki bært til þess að framfylgja henni og skal þá beiðnin sjálfkrafa framsend því yfirvaldi í ríkinu sem til þess er bært samkvæmt ákvæðum laga.


13. gr.

    Í öllum tilvikum þegar réttarbeiðni er ekki framkvæmd af því yfirvaldi sem beiðni er send til skal þegar í stað senda því yfirvaldi sem beiðni kemur frá tilkynningu þess efnis og upplýsa, í þeim tilvikum sem 11. gr. á við, ástæður þess að beiðninni var hafnað, og í þeim tilvikum sem 12. gr. á við, hvaða yfirvaldi hefur verið framsend beiðnin.

14. gr.

    Það dómsmálayfirvald sem framkvæmir réttarbeiðni skal beita lögum eigin ríkis um þá málsmeðferð sem fylgt er.
    Þó má beita sérstökum málsmeðferðarreglum ef það yfirvald sem beiðnin kemur frá óskar þess, svo framarlega sem það brýtur ekki í bága við lög í því ríki þar sem beiðni verður framkvæmd.

15. gr.

    Framangreind ákvæði útiloka ekki rétt hvers ríkis til að láta sendierindreka eða ræðiserindreka sína framkvæma réttarbeiðnir milliliðalaust, enda sé það heimilt samkvæmt samningi viðkomandi ríkja eða það ríki þar sem beiðni verður framkvæmd andmælir því ekki.


16. gr.

    Framkvæmd réttarbeiðni skal vera án endurgreiðslu gjalda eða kostnaðar af einhverju tagi.

    Þegar ekki er um annað samið hefur þó það ríki þar sem beiðni verður framkvæmd rétt til að krefja það ríki sem beiðni kemur frá um endurgreiðslu á þóknun sem greidd er vitnum eða sérfræðingum og kostnaði sem fellur til af nauðsynlegri þjónustu starfsmanns dómstóls vegna þess að vitni mættu ekki sjálfviljug eða vegna tilmæla skv. 2. mgr. 14. gr.


III. Málskostnaðartrygging.
17. gr.

    Ríkisborgarar samningsríkis, sem búsettir eru í einhverju þeirra og höfða mál eða gerast meðalgönguaðilar að því fyrir dómstólum í öðru samningsríki, verður ekki gert að leggja fram geymslufé eða annars konar tryggingu vegna þess að þeir eru útlendingar eða án heimilisfestis eða fastrar búsetu í landinu.
    Sama gildir um greiðslu sem stefnandi eða meðalgönguaðili krefst sem tryggingar fyrir réttargjöldum.
    Allir samningar milli samningsríkja um að ríkisborgarar þeirra án tillits til búsetu þurfi ekki að setja tryggingu fyrir málskostnaði eða greiða réttargjöld skulu halda gildi sínu.

18. gr.

    Nú hefur stefnandi eða meðalgönguaðili verið gert í samningsríki að greiða málskostnað eða réttargjöld, en verið undanþeginn skyldu til að leggja fram tryggingu, geymslufé eða greiðslu skv. 1. eða 2. mgr. 17. gr., eða samkvæmt lögum í því ríki þar sem mál er höfðað, og skal þeirri ákvörðun þá fullnægt án kostnaðar af þar til bæru yfirvaldi í öðru samningsríki, berist krafa þess efnis eftir diplómatískum leiðum.

    Sama gildir um dómsúrlausnir sem síðar kveða á um málskostnað.

    Framangreind ákvæði hindra ekki að tvö samningsríki komi sér saman um að beiðni um aðför verði sett fram beint af viðkomandi málsaðila.


19. gr.

    Ákvarðanir um málskostnað eða réttargjöld skulu vera aðfararhæfar án undangengis málflutnings, en dómþoli hefur þó rétt til þess síðar að fá slíka ákvörðun endurskoðaða í samræmi við löggjöf í því ríki þar sem fullnustu er leitað.
    Það yfirvald sem bært er til að taka ákvörðun um aðfararbeiðni skal sjálft kanna:
1.    hvort endurrit dómsúrlausnar sé staðfest í samræmi við lög þess ríkis þar sem dómur var kveðinn upp;
2.    hvort dómsúrlausn hafi bindandi áhrif (res judicata) samkvæmt sömu lögum;
3.    hvort niðurstaða dómsúrlausnar sé á tungumáli þess yfirvalds sem beiðni er send til eða á því tungumáli sem hlutaðeigandi tvö ríki hafa komið sér saman um eða hvort meðfylgjandi sé þýðing á öðru hvoru þessara tungumála og hvort hún sé staðfest rétt af sendierindreka eða ræðiserindreka þess ríkis sem beiðnin kemur frá eða af eiðsvörnum þýðanda þess ríkis sem beiðni er send til, nema um annað sé samið.

    Til staðfestingar því að skilyrðum skv. 1. og 2. tl. 2. mgr. sé fullnægt er nægilegt að fyrir liggi yfirlýsing frá til þess bæru yfirvaldi þess ríkis sem beiðnin er frá um að dómsúrlausnin hafi bindandi áhrif (res judicata) að lögum eða fyrir liggi tilskilin staðfest skjöl sem sýna að hún hafi bindandi áhrif (res judicata) að lögum. Heimild framangreinds yfirvalds skal, nema um annað sé samið, staðfest af æðsta embættismanni dómsmálayfirvalda í því ríki sem beiðnin kemur frá. Yfirlýsingin og staðfestingin skal vera rituð eða þýdd í samræmi við fyrirmæli 3 tl. 2. mgr.


    Þegar hlutaðeigandi aðili krefst þess samtímis skal það yfirvald sem bært er til að taka ákvörðun um aðfararbeiðni ákveða kostnað vegna vottunar, þýðingar og staðfestingar sem getið er í 3. tl. 2. mgr. Sá kostnaður skal talinn til málskostnaðar.



    IV. Ókeypis réttaraðstoð.
20. gr.

    Í einkamálum eða verslunarmálum skulu ríkisborgarar samningsríkjanna hafa sama aðgang að ókeypis réttaraðstoð í öllum hinum samningsríkjunum og ríkisborgarar viðkomandi ríkja njóta, í samræmi við löggjöf þess ríkis þar sem leitað er eftir ókeypis réttaraðstoð.
    Í þeim ríkjum þar sem ókeypis réttaraðstoð er veitt í stjórnsýslumálum gilda ákvæði 1. mgr. með sama hætti um þau mál sem til meðferðar koma hjá dómstólum með lögsögu á því sviði.

21. gr.

    Vottorð eða yfirlýsing um nauðsyn aðstoðar skal í öllum tilvikum gefin eða móttekin af yfirvöldum þar sem útlendingurinn er búsettur eða, ef ekki af þeim, af yfirvöldum á dvalarstað hans. Ef þau yfirvöld tilheyra ekki samningsríki, og hvorki veita viðtöku né gefa út staðfestingar eða yfirlýsingar af þessu tagi, er nægjanlegt að slík beiðni eða yfirlýsing sé sett fram eða móttekin af sendierindreka eða ræðiserindreka þess ríkis sem hinn erlendi maður er frá.
    Þegar beiðandi er ekki staddur í því landi þar sem réttaraðstoðar er leitað skal beiðnin eða yfirlýsingin um nauðsyn aðstoðar staðfest án gjaldtöku af sendierindreka eða ræðiserindreka þess ríkis þar sem skjal skal leggja fram.

22. gr.

    Það yfirvald sem er bært til að staðfesta eða taka við yfirlýsingu um nauðsyn aðstoðar getur aflað sér upplýsinga um fjárhagslegar aðstæður umsækjanda hjá yfirvöldum í hinum samningsríkjunum.
    Því yfirvaldi sem afgreiða skal beiðni umsækjanda um ókeypis réttaraðstoð er heimilt innan valdmarka sinna að staðreyna þær staðfestingar, yfirlýsingar og upplýsingar, sem lagðar eru fyrir það og afla frekari upplýsinga til skýringar.


23. gr.

    Nú dvelur efnalítill umsækjandi í öðru landi en því sem hann leitar ókeypis réttaraðstoðar og má þá senda beiðni hans um réttaraðstoð, auk vottorðs eða yfirlýsingar um nauðsyn aðstoðar, og eftir atvikum önnur gögn sem greiða fyrir athugun á beiðni hans, fyrir milligöngu ræðismanns frá landi umsækjanda til þess yfirvalds sem er bært til að taka ákvörðun um beiðnina, eða til yfirvalds tilnefnt af því ríki þar sem fjallað skal um beiðnina.

    Ákvæði 2., 3. og 4. mgr. 9. gr. og 10. og 12. gr. varðandi réttarbeiðnir skulu gilda um sendingu beiðna um ókeypis réttaraðstoð og fylgigagna þeirra.


24. gr.

    Þegar ríkisborgara samningsríkis hefur verið veitt ókeypis réttaraðstoð skulu birtingar varðandi mál hans sem fara fram í öðru samningsríki, án tillits til þess hvernig birting fer fram, ekki valda því að það ríki sem beiðni er send til geti krafist endurgreiðslu kostnaðar frá því ríki sem beiðni kemur frá.
    Sama gildir um réttarbeiðnir að undanskilinni þóknun sem greidd er sérfróðum mönnum.

V. Ókeypis vottorð úr opinberum skrám.
25. gr.

    Efnalitlir ríkisborgarar samningsríkis geta fengið vottorð úr opinberum skrám endurgjaldslaust með sama hætti og ríkisborgarar viðkomandi ríkis. Þau skjöl sem nauðsynleg eru vegna hjónavígslu skulu staðfest endurgjaldslaust af sendierindreka eða ræðiserindreka samningsríkjanna.


VI. Frelsissvipting.
26. gr.

    Í einkamálum og verslunarmálum er óheimilt að beita frelsissviptingu sem nauðungarúrræði eða til þess eins að skapa varnaðaráhrif gagnvart útlendingum, sem eru ríkisborgarar samningsríkis, í tilvikum þar sem frelsissviptingu verður ekki beitt gagnvart borgurum viðkomandi ríkis. Atvik sem heimilisfastur ríkisborgari þess ríkis getur borið fyrir sig til þess að fá frelsissviptingu hrundið, skal hafa sömu áhrif að því er varðar ríkisborgara annars samningsríkis, jafnvel þótt það atvik hafi gerst erlendis.


VII. Lokaákvæði.
27. gr.

    Samningur þessi skal liggja frammi til undirritunar af hálfu þeirra ríkja sem áttu fulltrúa á sjöunda fundi ráðstefnunnar um alþjóðlegan einkamálarétt.
    Hann skal fullgiltur og skulu fullgildingarskjöl afhent utanríkisráðuneyti Hollands.

    Halda skal skrá þar sem getið er um sérhverja afhendingu fullgildingarskjala og staðfest endurrit skrárinnar skal sent, eftir diplómatískum leiðum, hverju ríki sem undirritað hefur samninginn.

28. gr.

    Samningur þessi öðlast gildi á sextugasta degi eftir að fjórða fullgildingarskjalið hefur verið afhent, sbr. 2. mgr. 27. gr.

    Gagnvart hverju ríki, sem undirritað hefur samninginn og fullgildir hann síðar, öðlast hann gildi á sextugasta degi eftir þann dag er fullgildingarskjal hefur verið afhent.

29. gr.

    Milli þeirra ríkja sem fullgilt hafa samning þennan kemur hann í staðinn fyrir samninginn um einkamálaréttarfar, sem undirritaður var í Haag 17. júlí 1905.

30. gr.

    Samningur þessi gildir á heimalandsvæði samningsríkjanna.
    Óski samningsríki þess að samningurinn öðlist gildi á öllum eða sumum annarra landsvæða, í alþjóðlegum samskiptum sem viðkomandi ríki ber ábyrgð á, skal það tilkynna slík áform sín með skjali sem afhent skal utanríkisráðuneyti Hollands. Ráðuneytið skal senda hverju samningsríki, eftir diplómatískum leiðum, staðfest endurrit af skjalinu.

    Að liðnum sex mánuðum frá tilkynningu þessari gengur samningurinn í gildi gagnvart þeim ríkjum sem ekki hafa andmælt því og gagnvart því landsvæði eða þeim landsvæðum sem tilkynningin varðar og viðkomandi ríki ber ábyrgð á.



31. gr.

    Ríki, sem ekki átti aðild að sjöunda fundi ráðstefnunnar, getur gerst aðili að samningi þessum nema eitt eða fleiri ríki, sem fullgilt hafa samninginn, andmæli því innan sex mánaða frá því að hollenska ríkisstjórnin tilkynnti um aðildina. Aðildin stofnast með þeim hætti sem getur í 2. mgr. 27. gr.


    Aðild þessi getur ekki stofnast fyrr en eftir gildistöku samningsins skv. 1. mgr. 28. gr.



32. gr.

    Hvert samningsríki getur við undirritun, fullgildingu eða þegar það gerist aðili að samningi þessum gert fyrirvara um að takmarka gildissvið 17. gr. við ríkisborgara samningsríkjanna, sem búsettir eru þar.

    Ríki, sem gerir fyrirvara skv. 1. mgr., getur einungis krafist þess að önnur samningsríki beiti 17. gr. til hagsbóta fyrir ríkisborgara sína, sem eru búsettir í því samningsríki þar sem þeir koma fyrir dóm sem stefnendur eða meðalgönguaðilar.



33. gr.

    Samningur þessi gildir í fimm ár frá þeim degi sem getið er í 1. mgr. 28. gr. samningsins.

    Þetta tímabil hefst jafnframt frá sama degi gagnvart ríkjum sem síðar fullgilda eða gerast aðilar að samningnum.
    Samningurinn framlengist sjálfkrafa um fimm ár í senn sé honum ekki sagt upp. Uppsögn skal tilkynna minnst sex mánuðum fyrir lok tímabilsins til utanríkisráðuneytis Hollands, sem tilkynnir öllum hinum samningsríkjunum um hana.

    Uppsögn má takmarka við landsvæði eða einstök þeirra landsvæða sem getið er í tilkynningu skv. 2. mgr. 30. gr.

    Uppsögn hefur aðeins gildi gagnvart því ríki sem hefur tilkynnt um hana. Samningurinn heldur gildi sínu milli annarra samningsríkja.


    Þessu til staðfestu hafa undirritaðir, sem til þess hafa fullt umboð hlutaðeigandi ríkisstjórna, undirritað samning þennan.
    Gjört í Haag 1. mars 1954 í einu eintaki, sem varðveitt skal í skjalasafni ríkisstjórnar Hollands, og staðfest endurrit skal sent eftir diplómatískum leiðum til hvers ríkis sem átti aðild á sjöundu fundi Haagráðstefnunnar um alþjóðlegan einkamálarétt.


CONVENTION
ON CIVIL PROCEDURE

(Concluded March 1st, 1954)


    The States signatory to the present Convention;
    Desiring to make in the Convention of 17th July 1905, on civil procedure, the improvements suggested by experience;
    Have resolved to conclude a new Convention to this effect, and have agreed upon the following provisions –

I. COMMUNICATION OF JUDICIAL AND EXTRAJUDICIAL DOCUMENTS
Article 1

    In civil or commercial matters, the service of documents addressed to persons abroad shall be effected in the Contracting States on request of a consul of the requesting State, made to the authority which shall be designated by the State addressed. The request, specifying the authority originating the document forwarded, the names and capacities of the parties, the address of the addressee, and the nature of the document in question, shall be in the language of the requested authority. This authority shall send to the consul the certificate showing service or indicating the fact which prevented it.
    All difficulties which may arise in connection with the consul's request shall be settled through diplomatic channels.
    Any Contracting State may declare, in a communication addressed to the other Contracting States, that it intends that requests for service to be effected on its territory, giving the specifications mentioned in the first paragraph, be addressed to it through diplomatic channels.
    The foregoing provisions shall not prevent two Contracting States from agreeing to allow direct communication between their respective authorities.

Article 2

    Service shall be effected by the authority which is competent according to the laws of the State addressed. That authority, except in the cases mentioned in Article 3, may confine itself to serving the document by delivery to an addressee who accepts it voluntarily.

Article 3

    The request shall be accompanied by the document to be served in duplicate.
    If the document to be served is written, either in the language of the requested authority, or in the language agreed on between the two States concerned, or if it is accompanied by a translation into one of those languages, the requested authority, should the desire be expressed in the request, shall have the document served by a method prescribed by its internal legislation for effecting similar service, or by a special method, unless it is contrary to that law. If such a desire is not expressed, the requested authority shall first seek to effect delivery in accordance with Article 2.
    Unless there is agreement to the contrary, the translation provided for in the preceding paragraph shall be certified as correct by the diplomatic officer or consular agent of the requesting State or by a sworn translator of the State addressed.

Article 4

    Where a request for service complies with Articles 1, 2 and 3, the State on the territory of which it has to be effected may refuse to comply therewith only if it deems that compliance would infringe its sovereignty or security.

Article 5

    Service shall be proved by either a dated and legalised receipt from the addressee or a certificate from the authority of the State addressed, establishing the fact, method and date of the service.
    The receipt or the certificate should appear on one of the two copies of the document served, or be annexed thereto.

Article 6

    The provisions of the foregoing Articles shall not interfere with –
(1)    the freedom to send documents, through postal channels, directly to the persons concerned abroad;
(2)    the freedom of the persons concerned to have service effected directly through the judicial officers or competent officials of the country of destination;
(3)    the freedom of each State to have service effected directly by its diplomatic or consular agents of documents intended for persons abroad.
    In each of these cases, the freedom mentioned shall only exist if allowed by conventions concluded between the States concerned or if, should there be no convention, the State on the territory of which service must be effected does not object. That State may not object when, in the cases mentioned in sub- paragraph 3 of the above paragraph, the document is to be served without any compulsion on a national of the requesting State.

Article 7

    The service of judicial documents shall not give rise to reimbursement of taxes or costs of any nature.
    However, should there be no agreement to the contrary, the State addressed will have the right to require from the requesting State the reimbursement of the costs occasioned by the employment of a judicial officer or by the use of a particular method of service in the cases mentioned in Article 3.

II. LETTERS OF REQUEST
Article 8

    In civil or commercial matters a judicial authority of a Contracting State may, in accordance with the provisions of the law of that State, apply, by means of a Letter of Request, to the competent authority of another Contracting State to request it, within its jurisdiction, to obtain evidence, or to perform some other judicial act.

Article 9

    Letters of Request shall be transmitted by the consul of the requesting State to the authority which shall be designated by the State of execution. That authority shall send to the consul the document establishing the execution of the Letter of Request or indicating the fact which prevented its execution.
    Any difficulties which may arise in connection with the transmission shall be settled through diplomatic channels.
    Any Contracting State may declare, by a communication addressed to the other Contracting States, that it intends that Letters of Request to be executed on its territory be transmitted through diplomatic channels.
    The foregoing provisions shall not prevent two Contracting States agreeing to allow the direct transmission of Letters of Request between their respective authorities.

Article 10

    Unless there is agreement to the contrary, the Letter of Request must be written either in the language of the requested authority, or in the language agreed between the two States concerned, or else it must be accompanied by a translation, done in one of those languages and certified as correct by a diplomatic officer or consular agent of the requesting State of origin or by a sworn translator of the State of execution.

Article 11

    The judicial authority, to which the Letter of Request is addressed, shall be obliged to comply with it using the same measures of compulsion as for the execution of orders issued by the authorities of the State of execution or of requests made by parties in internal proceedings. These measures of compulsion shall not necessarily be employed where the appearance of the parties to the case is involved.
    The requesting authority shall, if it so requests, be informed of the date and place of execution of the measure sought, so that the party concerned may be able to be present.
    The execution of the Letter of Request may be refused only –
(1)    if the authenticity of the document is not established;
(2)    if, in the State of execution, the execution of the Letter does not fall within the functions of the judiciary;
(3)    if the State, on the territory of which the execution is to be effected, considers that its sovereignty or its security would be prejudiced thereby.

Article 12

    If the authority to whom a Letter of Request has been transmitted is not competent to execute it, the Letter shall be automatically sent to the authority in the same State which is competent to execute it in accordance with the provisions of its own law.

Article 13

    In all cases where the Letter of Request is not executed by the requested authority, the latter shall immediately so inform the requesting authority, indicating, in the case of Article 11, the reasons why execution of the Letter was refused and, in the case of Article 12, the authority to which the Letter has been transmitted.

Article 14

    The judicial authority which executes a Letter of Request shall apply its own law as to the methods and procedures to be followed.
    However, it will follow a request of the requesting authority that a special method or procedure be followed, provided that this is not contrary to the law of the State of execution.

Article 15

    The provisions of the foregoing Articles shall not exclude the right of each State to have Letters of Request executed directly by its diplomatic officers or consular agents, if that is allowed by conventions concluded between the States concerned or if the State on the territory of which the Letter is to be executed does not object.

Article 16

    The execution of Letters of Request shall not give rise to reimbursement of taxes or costs of any nature.
    However, unless there is agreement to the contrary, the State of execution shall have the right to require the State of origin to reimburse the fees paid to witnesses or experts, and the costs occasioned by the employment of a judicial officer, rendered necessary because the witnesses did not appear voluntarily, or the costs resulting from any application of the second paragraph of Article 14.

III. SECURITY FOR COSTS
Article 17

    No security, bond or deposit of any kind, may be imposed by reason of their foreign nationality, or of lack of domicile or residence in the country, upon nationals of one of the Contracting States, having their domicile in one of these States, who are plaintiffs or parties intervening before the courts of another of those States.
    The same rule shall apply to any payment required of plaintiffs or intervening parties as security for court fees.
    All conventions under which Contracting States have agreed that their nationals will be exempt from providing security for costs or for payment of court fees regardless of domicile shall continue to apply.

Article 18

    Orders for costs and expenses of the proceedings, made in one of the Contracting States against the plaintiff or party intervening exempted from the provision of security, deposit or payment under the first and second paragraphs of Article 17, or under the law of the State where the proceedings have been instituted, shall, upon request made through diplomatic channels, be rendered enforceable without charge by the competent authority, in each of the other Contracting States.
    The same rule shall apply to the judicial decisions whereby the amount of the costs of the proceedings is subsequently fixed.
    Nothing in the foregoing provisions shall prevent two Contracting States from agreeing that applications for enforcement may also be made directly by the interested party.

Article 19

    The order for costs and expenses shall be rendered enforceable without a hearing, but subject to subsequent appeal by the losing party in accordance with the legislation of the country where enforcement is sought.
    The authority competent to decide on the request for enforcement shall itself examine –
(1)    whether, under the law of the country where the judgment was rendered, the copy of the judgment fulfils the conditions required for its authenticity;
(2)    whether, under the same law, the decision has the force of res judicata;
(3)    whether that part of the judgment which constitutes the decision is worded in the language of the authority addressed, or in the language agreed between the two States concerned, or whether it is accompanied by a translation, in one of those languages and, unless there is agreement to the contrary, certified as correct by a diplomatic officer or consular agent of the requesting State or by a sworn translator of the State addressed.
    To satisfy the conditions laid down in the second paragraph, sub-paragraphs 1 and 2, it shall be sufficient either for there to be a statement by the competent authority of the State of origin establishing that the judgment has the force of res judicata, or for duly legalised documents to be presented showing that the judgment has the force of res judicata. The competence of the authority mentioned above shall, unless there is agreement to the contrary, be certified by the highest official in charge of the administration of justice in the requesting State of origin. The statement and the certificate just mentioned must be worded or translated in accordance with the rule laid down in the second paragraph, sub-paragraph 3.
    The authority competent to decide on the request for enforcement shall assess, provided the party concerned so requests at the same time, the amount of the cost of attestation, translation and legalisation referred to in sub-paragraph 3 of the second paragraph. Those costs shall be considered to be costs and expenses of the proceedings.

IV. FREE LEGAL AID
Article 20

    In civil and commercial matters, nationals of the Contracting States shall be granted free legal aid in all the other Contracting States, on the same basis as nationals of these States, upon compliance with the legislation of the State where the free legal aid is sought.
    In the States where legal aid is provided in administrative matters, the provisions of the preceding paragraph shall also apply to cases brought before the courts or tribunals competent in such matters.

Article 21

    In all cases, the certificate or declaration of need must be issued or received by the authorities of the habitual residence of the foreigner, or, if not by them, by the authorities of his current residence. Should the latter authorities not belong to a Contracting State and not receive or issue certificates or declarations of that kind, it will be enough to have a certificate or a declaration issued or received by a diplomatic officer or consular agent of the country to which the foreigner belongs.
    If the petitioner does not reside in the country were the request is made, the certificate or declaration of need shall be legalised free of charge by a diplomatic officer or consular agent of the country where the document is to be produced.

Article 22

    The authority competent to issue the certificate or receive the declaration of need may obtain information about the financial position of the petitioner from the authorities of the other Contracting States.
    The authority responsible for deciding on the application for free legal aid shall retain, within the limits of its powers , the right to verify the certificates, declarations and information given to it and to secure for purposes of further clarification, additional information.

Article 23

    When the indigent person concerned is in a country other than that in which the free legal aid is to be sought, his application for legal aid, accompanied by certificates, declarations of need and, where necessary, other supporting documents which would facilitate examination of the application, may be transmitted by the consul of his country to the authority competent to decide on that application, or to the authority designated by the State where the application is to be examined.
    The provisions in Article 9, paragraphs 2, 3 and 4, and in Articles 10 and 12 above, concerning Letters of Request, shall apply to the transmission of applications for free legal aid, and their annexes.

Article 24

    If the benefit of legal aid has been granted to a national of one of the Contracting States, service of documents relating to his case in another Contracting State, regardless of the method to which it is to be effected, shall not give rise to any reimbursement of costs by the State of origin to the State addressed.
    The same shall apply to Letters of Request, with the exception of the fees paid to experts.

V. FREE ISSUE OF EXTRACTS FROM CIVIL STATUS RECORDS
Article 25

    Indigent persons who are nationals of one of the Contracting States may obtain on the same terms as nationals of the State concerned extracts from civil status records, without charge. The documents necessary for their marriage shall be legalised without cost by the diplomatic officers or consular agents of the Contracting States.

VI. PHYSICAL DETENTION
Article 26

    Physical detention, either as a means of enforcement, or as a merely precautionary measure, shall not, in civil or commercial matters, be employed against foreigners, belonging to one of the Contracting States, in circumstances where it cannot be employed against nationals of the country concerned. A fact, which may be invoked by a national domiciled in such a country, to obtain release from physical detention, may be invoked with the same effect by a national of a Contracting State, even if the fact occurred abroad.

VII. FINAL CLAUSES
Article 27

    This Convention shall be open for signature by the States represented at the Seventh Session of the Conference on Private International Law.
    It shall be ratified and the instruments of ratification shall be deposited with the Ministry of Foreign Affairs of the Netherlands.
    A record shall be made of every deposit of instruments of ratification, and a certified copy of that record shall be sent through diplomatic channels to each of the signatory States.

Article 28

    This Convention shall enter into force on the sixtieth day after the deposit of the fourth instrument of ratification as provided in the second paragraph of Article 27.
    For each signatory State subsequently ratifying the Convention, it shall enter into force on the sixtieth day after the day of deposit of its instrument of ratification.

Article 29

    The present Convention shall replace, in relations between the States which have ratified it, the Con vention on Civil Procedure signed at The Hague on 17th July 1905.

Article 30

    The present Convention shall apply by law in the metropolitan territories of the Contracting States.
    If a Contracting State desires it to be put into force in all or certain of the other territories, for the international relations of which it is responsible, it shall give notice of its intention to that effect in a document which shall be deposited with the Netherlands Ministry of Foreign Affairs. The latter shall send, through diplomatic channels, a certified copy to each of the Contracting States.
    The Convention shall enter into force in relations between the States which have not raised an objection in the six months following that communication and the territory or territories for the international relations of which the State in question is responsible, and in respect of which the said notice has been given.

Article 31

    Any State not represented at the Seventh Session of the Conference may accede to the present Convention, unless a State or several States which have ratified the Convention object, within a period of six months from the date of the notification by the Netherlands Government of that accession. Accession shall be by the method indicated in the second paragraph of Article 27.
    It is understood that the accessions shall not be able to take place until after the entry into force of the present Convention, by virtue of the first paragraph of Article 28.

Article 32

    Each Contracting State, on signing or ratifying this Convention or on acceding to it, may reserve the right to limit the application of Article 17 to the nationals of Contracting States having their habitual residence in its territory.
    A State availing itself of the right mentioned in the preceding paragraph shall be able to claim application of Article 17 by the other Contracting States only on behalf of its nationals who have their habitual residence within the territory of the Contracting State before the court of which they are plaintiffs or intervening parties.

Article 33

    The present Convention shall remain in force for five years from the date indicated in the first paragraph of Article 28 of the Convention.
    This period shall start to run as from that date, even for States which shall have ratified it or acceded to it subsequently.
    The Convention shall be renewed tacitly every five years, unless denounced. Denunciation must, at least six months before expiry of the period, be notified to the Ministry of Foreign Affairs of the Netherlands, which shall inform all the other Contracting States of it.
    The denunciation may be limited to the territories or to certain of the territories indicated in a notification, given in accordance with the second paragraph of Article 30.
    The denunciation shall only take effect in respect of the State which has notified it. The Convention shall remain in force for the other Contracting States.

    In witness whereof, the undersigned, being duly authorised by their respective Governments, have signed this Convention.
    Done at The Hague, on the first day of March, 1954, in a single copy, which shall be deposited in the archives of the Government of the Netherlands and of which a certified copy shall be sent through diplomatic channels to each of the States represented at the Seventh Session of the Hague Conference on Private International Law.
Fylgiskjal II.


SAMNINGUR
um birtingu erlendis
á réttarskjölum og utanréttarskjölum
í einkamálum og verslunarmálum.

(1965)


    Ríki þau sem undirrita samning þennan,
    sem vilja koma á viðeigandi tilhögun til að tryggja að réttarskjöl og utanréttarskjöl, sem birta skal erlendis, komist tímanlega til vitundar viðtakanda,
    sem vilja í þeim tilgangi að bæta skipulag gagnkvæmrar aðstoðar í dómsmálum með einfaldari og skjótari framkvæmd,
    hafa í því augnarmiði ákveðið að gera samning og hafa orðið ásátt um eftirfarandi ákvæði:


1. gr.

    Samningur þessi gildir um öll einkamál og verslunarmál þar sem senda skal réttarskjöl eða utanréttarskjöl til birtingar erlendis.

    Samningur þessi gildir ekki þegar heimilisfang viðtakanda er óþekkt.


I. KAFLI – Réttarskjöl.
2. gr.

    Hvert samningsríki skal tilnefna miðlægt stjórnvald sem tekur við beiðnum um birtingu frá öðrum samningsríkjum og framkvæmir hana í samræmi við 3.–6. gr.

    Hvert ríki skal skipa miðlægt stjórnvald í samræmi við eigin löggjöf.

3. gr.

    Það yfirvald eða sá starfsmaður dómstóls sem til þess er bær samkvæmt lögum þess ríkis sem skjöl koma frá skal senda miðlægu stjórnvaldi viðtökuríkisins beiðni í samræmi við formála í viðauka með samningi þessum, án þess að krafist sé löggildingar eða annarra sambærilegra formsatriða.

    Skjal til birtingar eða afrit þess skal fylgja beiðninni. Beiðnin og skjalið skulu vera í tvíriti.


4. gr.

    Þegar miðlægt stjórnvald telur að beiðni samræmist ekki ákvæðum samnings þessa skal það þegar tilkynna beiðanda og tilgreina andmæli sín við beiðninni.

5. gr.

    Miðlægt stjórnvald þess ríkis sem beiðni er send til skal sjálft birta skjal eða hlutast til um að það verði birt af viðeigandi stofnun, annaðhvort:
a.    með þeirri aðferð sem kveðið er á um í lögum viðkomandi ríkis um birtingu skjala fyrir mönnum á yfirráðasvæði þess í málum sem rekin eru þar, eða
b.    með þeirri sérstöku aðferð sem beiðandi óskar, nema hún sé ósamrýmanleg lögum þess ríkis sem beiðni er send til.
    Að frátöldum þeim tilvikum sem greinir í b-lið 1. mgr. er ávallt heimilt að birta skjal með afhendingu þess til viðtakanda sem er fús til að taka við því.

    Nú fer birting skjals fram skv. 1. mgr. og getur þá miðlægt stjórnvald þess ríkis sem beiðni er send til gert kröfu um að skjalið sé ritað eða þýtt á opinbert tungumál ríkisins eða eitthvert af opinberum tungumálum þess.
    Með skjali skal birta þann hluta beiðni sem rituð er samkvæmt formála í viðauka með samningi þessum og hefur að geyma samantekt skjals til birtingar.


6. gr.

    Miðlægt stjórnvald þess ríkis sem beiðni er send til eða annað yfirvald sem það kann að hafa tilnefnt í því skyni skal fylla út vottorð í samræmi við formála í viðauka með samningi þessum.
    Í vottorðinu skal koma fram að skjalið hafi verið birt og með hvaða aðferð, hvar og hvenær birting fór fram og hverjum skjalið var afhent. Hafi birting ekki farið fram skal tilgreina hvað komið hafi í veg fyrir hana.

    Beiðandi getur farið fram á að vottorð sem ekki er ritað af miðlægu stjórnvaldi eða dómsmálayfirvaldi verði staðfest af öðru hvoru þeirra.

    Vottorðið skal sent beint til beiðanda.


7. gr.

    Almennir skilmálar formála í viðauka með samningi þessum skulu ávallt ritaðir á frönsku eða ensku. Einnig má rita þá á opinberu tungumáli eða einu af opinberum tungumálum þess ríkis sem skjölin koma frá.

    Viðeigandi eyður skulu útfylltar annaðhvort á opinberu tungumáli þess ríkis sem beiðni er send til eða á frönsku eða ensku.

8. gr.

    Hverju samningsríki er rétt að fela sendierindrekum eða ræðiserindrekum sínum að birta réttarskjöl milliliðalaust fyrir mönnum erlendis, ef ekki er beitt þvingun af neinu tagi.
    Hvert ríki getur lýst yfir andmælum við slíkri birtingu innan yfirráðasvæðis síns, nema birta skuli fyrir ríkisborgara þess ríkis sem skjal kemur frá.


9. gr.

    Hverju samningsríki er einnig rétt að senda skjöl til birtingar fyrir milligöngu ræðismanns til þeirra yfirvalda annars samningsríkis sem það síðarnefnda tilnefnir í því skyni.

    Þegar sérstakar ástæðu eru fyrir hendi getur samningsríki sent skjöl í sama tilgangi eftir diplómatískum leiðum.

10. gr.

    Hafi andmæli ekki verið höfð uppi af því ríki sem beiðni er send til kemur samningur þessi ekki í veg fyrir að:
a.    réttarskjöl séu send með pósti beint til þeirra sem eru erlendis,
b.    starfsmenn dómstóla, opinberir starfsmenn eða aðrir sem eru bærir til að birta réttarskjöl í því ríki sem skjöl koma frá láti birta beint fyrir milligöngu starfsmanna dómstóla, opinberra starfsmanna eða annarra sem til þess eru bærir í því ríki sem beiðni er send til,
c.    hver sem hefur hagsmuni af máli birti réttarskjöl beint fyrir milligöngu starfsmanna dómstóla, opinberra starfsmanna eða annarra sem til þess eru bærir í því ríki sem beiðni er send til.


11. gr.

    Samningur þessi skal ekki hindra að tvö eða fleiri samningsríki komi sér saman um að leyfa aðrar boðleiðir til birtingar réttarskjala en hér hefur verið kveðið er á um og tekur það sérstaklega til beinna samskipta milli hlutaðeigandi yfirvalda þeirra.


12. gr.

    Birting réttarskjala frá samningsríki skal vera án greiðslu eða endurgreiðslu gjalda eða kostnaðar vegna þjónustu þess ríkis sem beiðni er send til.

    Beiðandi skal greiða eða endurgreiða kostnað sem leiðir af:
a.    þjónustu starfsmanns dómstóls eða annars manns sem er valdbær samkvæmt lögum þess ríkis sem beiðni er send til,
b.    notkun sérstakrar aðferðar til birtingar.

13. gr.

    Þegar fullnægt er skilyrðum þessa samnings verður beiðni um birtingu ekki hafnað nema ríki sem beiðni er send til telji framkvæmd hennar íhlutun í fullveldi sitt eða öryggi.

    Beiðni verður ekki synjað af þeirri ástæðu einni að sakarefni eigi samkvæmt lögum aðeins undir dómstóla þess ríkis sem beiðni er send til eða beiðni varði málssókn sem ekki sé heimil í lögum þess.

    Nú er beiðni synjað og skal þá miðlægt stjórnvald þegar tilkynna það beiðanda og greina frá ástæðum þess.

14. gr.

    Vandkvæði sem geta komið upp vegna sendingar réttarskjala til birtingar skal leysa eftir diplómatískum leiðum.

15. gr.

    Þegar senda hefur þurft stefnu eða samsvarandi skjal úr landi til birtingar samkvæmt ákvæðum þessa samnings og stefndi hefur ekki sótt þing skal dómur ekki kveðinn upp nema leitt sé í ljós að:
a.    skjalið hafi verið birt í samræmi við lög þess ríkis sem beiðni var send til um birtingu skjala fyrir mönnum á yfirráðasvæði þess í málum sem rekin eru þar, eða

b.    skjalið hafi í raun verið afhent stefnda eða á heimili hans með annarri aðferð sem kveðið er á um í samningi þessum,
og í hvoru þessara tilvika hafi birting eða afhending farið fram svo tímanlega að stefnda hafi verið kleift að taka til varna.
    Hverju samningsríki er rétt að lýsa því yfir að dómari geti þrátt fyrir 1. mgr. kveðið upp dóm jafnvel þótt vottorð um birtingu eða afhendingu hafi ekki borist, ef eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:

a.    skjalið hefur verið sent með einhverjum þeim aðferðum sem kveðið er á um í samningi þessum,
b.    liðinn er hæfilegur frestur að mati dómara, þó ekki skemmri en sex mánuðir, frá þeim degi er skjalið var sent,

c.    ekki hafi borist vottorð af neinu tagi þótt allt hafi verið gert til öflunar þess, sem með sanngirni má ætlast til, fyrir millligöngu þar til bærra yfirvalda í því ríki sem beiðni var send til.
    Þrátt fyrir framangreindar málsgreinar getur dómari gefið fyrirmæli um bráðabirgða- og verndarráðstafanir, ef brýna nauðsyn ber til.

16. gr.

    Nú hefur þurft að senda stefnu eða samsvarandi skjal úr landi til birtingar samkvæmt ákvæðum þessa samnings, og dómur gengið á hendur stefnda, sem sótti ekki þing, og skal dómara þá heimilt að undanþiggja stefnda frá áhrifum þess að liðinn sé frestur til að leita endurskoðunar dóms ef eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:

a.    stefnda var, sér að ósekju, hvorki kunnugt um skjalið svo tímanlega að hann gæti tekið til varna né fékk vitneskju um dóm svo tímanlega að hann gæti leitað endurskoðunar, og
b.    stefndi hefur uppi efnislegar varnir sem við fyrstu sýn virðast á rökum reistar.
    Beiðni um undanþágu verður að leggja fram innan hæfilegs tíma frá því er stefndi fékk vitneskju um dóm.
    Samningsríki getur lýst því yfir að slík beiðni verði ekki tekin til meðferðar ef hún er lögð fram að liðnum þeim fresti sem tilgreindur skal í yfirlýsingunni, en sá frestur skal þó aldrei vera skemmri en eitt ár frá dómsuppkvaðningu.
    Þessi grein gildir ekki um dóma er varða réttarstöðu eða hæfi manna.

II. KAFLI – Utanréttarskjöl.
17. gr.

    Utanréttarskjöl, sem koma frá stjórnvöldum eða starfsmönnum dómstóla í samningsríki, má senda til birtingar í öðru samningsríki með þeirri aðferð sem kveðið er á um í samningi þessum og í samræmi við fyrirmæli hans.

III. KAFLI – Almennar reglur.
18. gr.

    Hvert samningsríki getur tilnefnt önnur yfirvöld til viðbótar miðlægu stjórnvaldi og skal ákveða valdsvið þeirra.
    Beiðanda er þó ávallt rétt að senda beiðni sína beint til miðlæga stjórnvaldsins.

    Sambandsríkjum er rétt að tilnefna fleiri en eitt miðlægt stjórnvald.

19. gr.

    Samningur þessi kemur ekki í veg fyrir að lög samningsríkis heimili að skjöl erlendis frá séu send með öðrum hætti en kveðið er á um í framangreindum ákvæðum til birtingar innan yfirráðasvæði þess.



20. gr.

    Samningur þessi kemur ekki í veg fyrir að tvö eða fleiri samningsríki geri með sér samkomulag um að víkja frá:
a.    að senda beri skjöl í tvíriti skv. 2. mgr. 3. gr.,


b.    áskilnað um tungumál í 3. mgr. 5. gr. og 7. gr.,

c.    ákvæði 4. mgr. 5. gr.,

d.    ákvæði 2. mgr. 12. gr.


21. gr.

    Við afhendingu fullgildingar- eða aðildarskjals eða síðar skal hvert samningsríki skýra utanríkisráðuneyti Hollands frá eftirfarandi:

a.    tilnefningu yfirvalda skv. 2. gr. og 18. gr.,

b.    tilnefningu yfirvalds sem bært er til að fylla út vottorð skv. 6. gr.,
c.    tilnefningu yfirvalds sem bært er til að taka við skjölum sendum fyrir milligöngu ræðismanna skv. 9. gr.
    Hvert samningsríki skal með sama hætti eftir því sem við á skýra ráðuneytinu frá eftirfarandi:
a.    andmælum við sendingaraðferð skv. 8. og 10. gr.,
b.    yfirlýsingum skv. 2. mgr. 15. gr. og 3. mgr. 16. gr.,
c.    öllum breytingum á ofangreindum tilnefningum, andmælum og yfirlýsingum.

22. gr.

    Milli ríkja sem eiga aðild að samningi þessum og einnig öðrum eða báðum samningunum um einkamálaréttarfar, sem undirritaðir voru í Haag 17. júlí 1905 og 1. mars 1954, skal samningur þessi koma í stað 1.–7. gr. fyrri samninganna.


23. gr.

    Samningur þessi hefur hvorki áhrif á beitingu 23. gr. samningsins um einkamálaréttarfar, sem undirritaður var í Haag 17. júlí 1905, né 24. gr. samningsins um einkamálaréttarfar, sem undirritaður var í Haag 1. mars 1954.
    Þessi ákvæði gilda þó aðeins ef notaðir eru sömu samskiptahættir og kveðið er á um í samningi þessum.

24. gr.

    Viðbótarsamningar milli ríkja sem eiga aðild að samningunum frá 1905 og 1954 skulu einnig taldir eiga við um þennan samning, nema annað hafi verið ákveðið.

25. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 22. og 24. gr. skal samningur þessi ekki gilda um samninga sem hafa að geyma ákvæði um málefni sem þessi samningur tekur til og samningsríki eru eða verða síðar aðilar að.


26. gr.

    Samningur þessi skal liggja frammi til undirritunar af hálfu þeirra ríkja sem áttu fulltrúa á tíunda fundi Haagráðstefnunnar um alþjóðlegan einkamálarétt.
    Hann skal fullgiltur og skulu fullgildingarskjöl afhent utanríkisráðuneyti Hollands.


27. gr.

    Samningur þessi skal öðlast gildi á sextugasta degi eftir að þriðja fullgildingarskjalið hefur verið afhent, sbr. 2. mgr. 26. gr.

    Gagnvart hverju ríki, sem undirritað hefur samninginn og fullgildir hann síðar, öðlast hann gildi á sextugasta degi eftir að fullgildingarskjal hefur verið afhent.

28. gr.

    Ríki sem ekki átti aðild að tíunda fundi Haagráðstefnunnar um alþjóðlegan einkamálarétt getur gerst aðili að samningi þessum eftir að hann hefur öðlast gildi í samræmi við 1. mgr. 27. gr. Aðildarskjal skal afhent utanríkisráðuneyti Hollands.


    Samningurinn öðlast gildi gagnvart slíku ríki nema ríki sem fullgilt hefur samninginn fyrir afhendinguna hafi uppi andmæli við utanríkisráðuneyti Hollands innan sex mánaða frá þeim degi er ráðuneytið tilkynnir því um aðildina.


    Komi ekki fram slík andmæli skal samningurinn öðlast gildi gagnvart ríki sem gerist aðili að honum á fyrsta degi næsta mánaðar eftir að síðasta fresti lýkur samkvæmt næstu málsgrein hér á undan.


29. gr.

    Við undirritun, fullgildingu eða aðild getur ríki lýst því yfir að samningur þessi taki í alþjóðlegum samskiptum til allra svæða sem viðkomandi ríki ber ábyrgð á, eða til eins þeirra eða fleiri. Slík yfirlýsing skal taka gildi á þeim degi er samningurinn öðlast gildi gagnvart viðkomandi ríki.

    Eftir það skal tilkynna um slíka útfærslu til utanríkisráðuneytis Hollands.

    Gagnvart þeim svæðum sem útfærsla tekur til skal samningurinn öðlast gildi sextíu dögum eftir tilkynningu sem getur í næstu málsgrein hér á undan.


30. gr.

    Samningur þessi gildir í fimm ár frá þeim degi er hann öðlast gildi skv. 1. mgr. 27. gr., og gildir það einnig gagnvart ríkjum sem síðar fullgilda eða gerast aðilar að samningnum.

    Ef samningnum hefur ekki verið sagt upp framlengist hann sjálfkrafa um fimm ár í senn.
    Uppsögn skal tilkynna utanríkisráðuneyti Hollands eigi síðar en sex mánuðum fyrir lok fimm ára tímabilsins.
    Takmarka má hana við ákveðin landsvæði sem samningurinn tekur til.
    Uppsögn hefur aðeins gildi gagnvart því ríki sem hefur tilkynnt um hana. Samningurinn heldur gildi sínu milli annarra samningsríkja.


31. gr.

    Utanríkisráðuneyti Hollands skal tilkynna þeim ríkjum sem getur í 26. gr., og ríkjum sem gerst hafa aðilar skv. 28. gr., um:

a.    undirritanir og fullgildingar skv. 26. gr.,

b.    gildistökudag samnings þessa skv. 1. mgr. 27. gr.,

c.    aðild skv. 28. gr. og hvenær hún öðlast gildi,

d.    útfærslu skv. 29. gr. og hvenær hún öðlast gildi,

e.    tilnefningar, andmæli og yfirlýsingar skv. 21. gr.,

f.    uppsagnir skv. 3. mgr. 30. gr.


    Þessu til staðfestu hafa undirritaðir, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað samning þennan.

    Gjört í Haag 15. nóvember 1965 á ensku og frönsku, og eru báðir textar jafngildir, í einu eintaki, sem varðveitt skal í skjalasafni ríkisstjórnar Hollands, og staðfest endurrit skal sent eftir diplómatískum leiðum til hvers ríkis sem átti aðild að tíunda fundi Haagráðstefnunnar um alþjóðlegan einkamálarétt.


FORMÁLAR (BEIÐNI OG VOTTORÐ)
SAMANTEKT SKJALS TIL BIRTINGAR


(viðaukar fyrir 3., 5., 6. og 7. gr.)

VIÐAUKI VIÐ SAMNINGINN

Formálar.

REQUEST FOR SERVICE ABROAD OF JUDICIAL OR EXTRAJUDICIAL DOCUMENTS

Convention on the Service Abroad of Judicial and Extrajudicial Documents in Civil or Commercial Matters, signed at The Hague, the 15th of November 1965.


Identity and address
of the applicant



Address of receiving
authority


The undersigned applicant has the honour to transmit – in duplicate – the documents listed below and, in conformity with Article 5 of the above-mentioned Convention, requests prompt service of one copy thereof on the addressee, i.e,
(identity and address)

a)    in accordance with the provisions of sub-paragraph (a) of the first paragraph of Article 5 of the Convention*.
b)    in accordance with the following particular method (sub-paragraph (b) of the first paragraph of Article 5)*:

c)    by delivery to the addressee, if he accepts it voluntarily (second paragraph of Article 5)*.

The authority is requested to return or to have returned to the applicant a copy of the documents – and of the annexes* – with a certificate as provided on the reverse side.

List of documents


Done at . . . . . . . . . . . , the . . . . . . . .

Signature and/or stamp.

* Delete if inappropriate.


Reverse of the request


CERTIFICATE

The undersigned authority has the honour to certify, in conformity with Article 6 of the Convention,

1)    that the document has been served*
–    the (date)
–    at (place, street, number)
–    in one of the following methods authorised by Article 5:
a)    in accordance with the provisions of sub-paragraph (a) of the first paragraph of Article 5 of the Convention*.
b)    in accordance with the following particular method*:     

c)    by delivery to the addressee, who accepted it voluntarily*.

The documents referred to in the request have been delivered to:
–    (identity and description of person)

–    relationship to the addressee (family, business or other):

2)    that the document has not been served, by reason of the following facts*:

In conformity with the second paragraph of Article 12 of the Convention, the applicant is requested to pay or reimburse the expenses detailed in the attached statement*.

Annexes

Documents returned:

In appropriate cases, documents establishing the service:


Done at . . . . . . . . . . . , the . . . . . . . .

Signature and/or stamp.

* Delete if inappropriate.


SUMMARY OF THE DOCUMENT TO BE SERVED

Convention on the Service Abroad of Judicial and Extrajudicial Documents in Civil or Commercial Matters, signed at The Hague, the 15th of November 1965.

(Article 5, fourth paragraph)

Name and address of the requesting authority:


Particulars of the parties*:


JUDICIAL DOCUMENT**

Nature and purpose of the document:

Nature and purpose of the proceedings and, where appropriate, the amount in dispute:


Date and place for entering appearance**:

Court which has given judgment**:

Date of judgment**:

Time-limits stated in the document**:


EXTRAJUDICIAL DOCUMENT**

Nature and purpose of the document:

Time-limits stated in the document**:

* If appropriate, identity and address of the person interested in the transmission of the document.
** Delete if inappropriate.

CONVENTION ON THE SERVICE ABROAD OF JUDICIAL AND EXTRAJUDICIAL DOCUMENTS IN CIVIL OR COMMERCIAL MATTERS

(Concluded November 15, 1965)


    The States signatory to the present Convention,
    Desiring to create appropriate means to ensure that judicial and extrajudicial documents to be served abroad shall be brought to the notice of the addressee in sufficient time,
    Desiring to improve the organisation of mutual judicial assistance for that purpose by simplifying and expediting the procedure,
    Have resolved to conclude a Convention to this effect and have agreed upon the following provisions:

Article 1

    The present Convention shall apply in all cases, in civil or commercial matters, where there is occasion to transmit a judicial or extrajudicial document for service abroad.
    This Convention shall not apply where the address of the person to be served with the document is not known.

chapter i – judicial documents
Article 2

    Each Contracting State shall designate a Central Authority which will undertake to receive requests for service coming from other Contracting States and to proceed in conformity with the provisions of Articles 3 to 6.
    Each State shall organise the Central Authority in conformity with its own law.

Article 3

    The authority or judicial officer competent under the law of the State in which the documents originate shall forward to the Central Authority of the State addressed a request conforming to the model annexed to the present Convention, without any requirement of legalisation or other equivalent formality.
    The document to be served or a copy thereof shall be annexed to the request. The request and the document shall both be furnished in duplicate.

Article 4

    If the Central Authority considers that the request does not comply with the provisions of the present Convention it shall promptly inform the applicant and specify its objections to the request.

Article 5

    The Central Authority of the State addressed shall itself serve the document or shall arrange to have it served by an appropriate agency, either –
a)    by a method prescribed by its internal law for the service of documents in domestic actions upon persons who are within its territory, or

b)    by a particular method requested by the applicant, unless such a method is incompatible with the law of the State addressed.
    Subject to sub-paragraph (b) of the first paragraph of this Article, the document may always be served by delivery to an addressee who accepts it voluntarily.
    If the document is to be served under the first paragraph above, the Central Authority may require the document to be written in, or translated into, the official language or one of the official languages of the State addressed.
    That part of the request, in the form attached to the present Convention, which contains a summary of the document to be served, shall be served with the document.

Article 6

    The Central Authority of the State addressed or any authority which it may have designated for that purpose, shall complete a certificate in the form of the model annexed to the present Convention.
    The certificate shall state that the document has been served and shall include the method, the place and the date of service and the person to whom the document was delivered. If the document has not been served, the certificate shall set out the reasons which have prevented service.
    The applicant may require that a certificate not completed by a Central Authority or by a judicial authority shall be countersigned by one of these authorities.
    The certificate shall be forwarded directly to the applicant.

Article 7

    The standard terms in the model annexed to the present Convention shall in all cases be written either in French or in English. They may also be writ ten in the official language, or in one of the official languages, of the State in which the documents originate.
    The corresponding blanks shall be completed either in the language of the State addressed or in French or in English.

Article 8

    Each Contracting State shall be free to effect service of judicial documents upon persons abroad, without application of any compulsion, directly through its diplomatic or consular agents.
    Any State may declare that it is opposed to such service within its territory, unless the document is to be served upon a national of the State in which the documents originate.

Article 9

    Each Contracting State shall be free, in addition, to use consular channels to forward documents, for the purpose of service, to those authorities of another Contracting State which are designated by the latter for this purpose.
    Each Contracting State may, if exceptional circumstances so require, use diplomatic channels for the same purpose.

Article 10

    Provided the State of destination does not object, the present Convention shall not interfere with –

a)    the freedom to send judicial documents, by postal channels, directly to persons abroad,
b)    the freedom of judicial officers, officials or other competent persons of the State of origin to effect service of judicial documents directly through the judicial officers, officials or other competent persons of the State of destination,

c)    the freedom of any person interested in a judicial proceeding to effect service of judicial documents directly through the judicial officers, officials or other competent persons of the State of destination.

Article 11

    The present Convention shall not prevent two or more Contracting States from agreeing to permit, for the purpose of service of judicial documents, channels of transmission other than those provided for in the preceding Articles and, in particular, direct communication between their respective authorities.

Article 12

    The service of judicial documents coming from a Contracting State shall not give rise to any payment or reimbursement of taxes or costs for the services rendered by the State addressed.
    The applicant shall pay or reimburse the costs occasioned by-
a)    the employment of a judicial officer or of a person competent under the law of the State of destination,
b)    the use of a particular method of service.

Article 13

    Where a request for service complies with the terms of the present Convention, the State addressed may refuse to comply therewith only if it deems that compliance would infringe its sovereignty or security.
    It may not refuse to comply solely on the ground that, under its internal law, it claims exclusive jurisdiction over the subject-matter of the action or that its internal law would not permit the action upon which the application is based.
    The Central Authority shall, in case of refusal, promptly inform the applicant and state the reasons for the refusal.

Article 14

    Difficulties which may arise in connection with the transmission of judicial documents for service shall be settled through diplomatic channels.

Article 15

    Where a writ of summons or an equivalent document had to be transmitted abroad for the purpose of service, under the provisions of the present Convention, and the defendant has not appeared, judgment shall not be given until it is established that –
a)    the document was served by a method prescribed by the internal law of the State addressed for the service of documents in domestic actions upon persons who are within its territory, or
b)    the document was actually delivered to the defendant or to his residence by another method provided for by this Convention,
and that in either of these cases the service or the delivery was effected in sufficient time to enable the defendant to defend.
    Each Contracting State shall be free to declare that the judge, notwithstanding the provisions of the first paragraph of this Article, may give judgment even if no certificate of service or delivery has been received, if all the following conditions are fulfilled-
a)    the document was transmitted by one of the methods provided for in this Convention,
b)    a period of time of not less than six months, considered adequate by the judge in the particular case, has elapsed since the date of the transmission of the document,
c)    no certificate of any kind has been received, even though every reasonable effort has been made to obtain it through the competent authorities of the State addressed.
    Notwithstanding the provisions of the preceding paragraphs the judge may order, in case of urgency, any provisional or protective measures.

Article 16

    When a writ of summons or an equivalent document had to be transmitted abroad for the purpose of service, under the provisions of the present Convention, and a judgment has been entered against a defendant who has not appeared, the judge shall have the power to relieve the defendant from the effects of the expiration of the time for appeal from the judgment if the following conditions are fulfilled –
a)    the defendant, without any fault on his part, did not have knowledge of the document in sufficient time to defend, or knowledge of the judgment in sufficient time to appeal, and
b)    the defendant has disclosed a prima facie defence to the action on the merits.
    An application for relief may be filed only within a reasonable time after the defendant has knowledge of the judgment.
    Each Contracting State may declare that the application will not be entertained if it is filed after the expiration of a time to be stated in the declaration, but which shall in no case be less than one year following the date of the judgment.
    This Article shall not apply to judgments concerning status or capacity of persons.

chapter ii – extrajudicial documents
Article 17

    Extrajudicial documents emanating from authorities and judicial officers of a Contracting State may be transmitted for the purpose of service in another Contracting State by the methods and under the provisions of the present Convention.

chapter iii – general clauses
Article 18

    Each Contracting State may designate other authorities in addition to the Central Authority and shall determine the extent of their competence.
    The applicant shall, however, in all cases, have the right to address a request directly to the Central Authority.
    Federal States shall be free to designate more than one Central Authority.

Article 19

    To the extent that the internal law of a Contracting State permits methods of transmission, other than those provided for in the preceding Articles, of documents coming from abroad, for service within its territory, the present Convention shall not affect such provisions.

Article 20

    The present Convention shall not prevent an agreement between any two or more Contracting States to dispense with –
a)    the necessity for duplicate copies of transmitted documents as required by the second paragraph of Article 3,
b)    the language requirements of the third paragraph of Article 5 and Article 7,
c)    the provisions of the fourth paragraph of Article 5,
d)    the provisions of the second paragraph of Article 12.

Article 21

    Each Contracting State shall, at the time of the deposit of its instrument of ratification or accession, or at a later date, inform the Ministry of Foreign Affairs of the Netherlands of the following –
a)    the designation of authorities, pursuant to Articles 2 and 18,
b)    the designation of the authority competent to complete the certificate pursuant to Article 6,
c)    the designation of the authority competent to receive documents transmitted by consular channels, pursuant to Article 9.
    Each Contracting State shall similarly inform the Ministry, where appropriate, of –
a)    opposition to the use of methods of transmission pursuant to Articles 8 and 10,
b)    declarations pursuant to the second paragraph of Article 15 and the third paragraph of Article 16,
c)    all modifications of the above designations, oppositions and declarations.

Article 22

    Where Parties to the present Convention are also Parties to one or both of the Conventions on civil procedure signed at The Hague on 17th July 1905, and on 1st March 1954, this Convention shall replace as between them Articles 1 to 7 of the earlier Conventions.

Article 23

    The present Convention shall not affect the application of Article 23 of the Convention on civil procedure signed at The Hague on 17th July 1905, or of Article 24 of the Convention on civil procedure signed at The Hague on 1st March 1954.
    These Articles shall, however, apply only if methods of communication, identical to those provided for in these Conventions, are used.

Article 24

    Supplementary agreements between Parties to the Conventions of 1905 and 1954 shall be considered as equally applicable to the present Convention, unless the Parties have otherwise agreed.

Article 25

    Without prejudice to the provisions of Articles 22 and 24, the present Convention shall not derogate from Conventions containing provisions on the matters governed by this Convention to which the Contracting States are, or shall become, Parties.

Article 26

    The present Convention shall be open for signature by the States represented at the Tenth Session of the Hague Conference on Private International Law.

    It shall be ratified, and the instruments of ratification shall be deposited with the Ministry of Foreign Affairs of the Netherlands.

Article 27

    The present Convention shall enter into force on the sixtieth day after the deposit of the third instrument of ratification referred to in the second paragraph of Article 26.
    The Convention shall enter into force for each signatory State which ratifies subsequently on the sixtieth day after the deposit of its instrument of ratification.

Article 28

    Any State not represented at the Tenth Session of the Hague Conference on Private International Law may accede to the present Convention after it has entered into force in accordance with the first paragraph of Article 27. The instrument of accession shall be deposited with the Ministry of Foreign Affairs of the Netherlands.
    The Convention shall enter into force for such a State in the absence of any objection from a State, which has ratified the Convention before such de posit, notified to the Ministry of Foreign Affairs of the Netherlands within a period of six months after the date on which the said Ministry has notified it of such accession.
    In the absence of any such objection, the Convention shall enter into force for the acceding State on the first day of the month following the expiration of the last of the periods referred to in the preceding paragraph.

Article 29

    Any State may, at the time of signature, ratification or accession, declare that the present Convention shall extend to all the territories for the international relations of which it is responsible, or to one or more of them. Such a declaration shall take effect on the date of entry into force of the Convention for the State concerned.
    At any time thereafter, such extensions shall be notified to the Ministry of Foreign Affairs of the Netherlands.
    The Convention shall enter into force for the territories mentioned in such an extension on the sixtieth day after the notification referred to in the preceding paragraph.

Article 30

    The present Convention shall remain in force for five years from the date of its entry into force in accordance with the first paragraph of Article 27, even for States which have ratified it or acceded to it subsequently.
    If there has been no denunciation, it shall be renewed tacitly every five years.
    Any denunciation shall be notified to the Ministry of Foreign Affairs of the Netherlands at least six months before the end of the five year period.
    It may be limited to certain of the territories to which the Convention applies.
    The denunciation shall have effect only as regards the State which has notified it. The Convention shall remain in force for the other Contracting States.

Article 31

    The Ministry of Foreign Affairs of the Netherlands shall give notice to the States referred to in Article 26, and to the States which have acceded in accordance with Article 28, of the following –
a)    the signatures and ratifications referred to in Article 26;
b)    the date on which the present Convention enters into force in accordance with the first paragraph of Article 27;
c)    the accessions referred to in Article 28 and the dates on which they take effect;
d)    the extensions referred to in Article 29 and the dates on which they take effect;
e)    the designations, oppositions and declarations referred to in Article 21;
f)    the denunciations referred to in the third paragraph of Article 30.

    In witness whereof the undersigned, being duly authorised thereto, have signed the present Convention.
    Done at The Hague, on the 15th day of November, 1965, in the English and French languages, both texts being equally authentic, in a single copy which shall be deposited in the archives of the Government of the Netherlands, and of which a certified copy shall be sent, through the diplomatic channel, to each of the States represented at the Tenth Session of the Hague Conference on Private International Law.

FORMS (REQUEST AND CERTIFICATE)
SUMMARY OF THE DOCUMENT TO BE SERVED

(annexes provided for Articles 3, 5, 6 and 7)

ANNEX TO THE CONVENTION

Forms

REQUEST FOR SERVICE ABROAD OF JUDICIAL OR EXTRAJUDICIAL DOCUMENTS

Convention on the Service Abroad of Judicial and Extrajudicial Documents in Civil or Commercial Matters, signed at The Hague, the 15th of November 1965.


Identity and address
of the applicant



Address of receiving
authority


The undersigned applicant has the honour to transmit – in duplicate – the documents listed below and, in conformity with Article 5 of the above-mentioned Convention, requests prompt service of one copy thereof on the addressee, i.e,
(identity and address)

a)     in accordance with the provisions of sub-paragraph (a) of the first paragraph of Article 5 of the Convention*.
b)     in accordance with the following particular method (sub-paragraph (b) of the first paragraph of Article 5)*:

c)     by delivery to the addressee, if he accepts it voluntarily (second paragraph of Article 5)*.

The authority is requested to return or to have returned to the applicant a copy of the documents – and of the annexes* – with a certificate as provided on the reverse side.

List of documents


Done at . . . . . . . . . . . , the . . . . . . . .

Signature and/or stamp.

* Delete if inappropriate.


Reverse of the request

CERTIFICATE

The undersigned authority has the honour to certify, in conformity with Article 6 of the Convention,

1)    that the document has been served*
–    the (date)
–    at (place, street, number)
–    in one of the following methods authorised by Article 5:
a)     in accordance with the provisions of sub-paragraph (a) of the first paragraph of Article 5 of the Convention*.
b)    in accordance with the following particular method*:

c)    by delivery to the addressee, who accepted it voluntarily*.

The documents referred to in the request have been delivered to:
–    (identity and description of person)

–    relationship to the addressee (family, business or other):

2)    that the document has not been served, by reason of the following facts*:

In conformity with the second paragraph of Article 12 of the Convention, the applicant is requested to pay or reimburse the expenses detailed in the attached statement*.

Annexes

Documents returned:

In appropriate cases, documents establishing the service:


Done at . . . . . . . . . . . , the . . . . . . . .

Signature and/or stamp.

* Delete if inappropriate.


SUMMARY OF THE DOCUMENT TO BE SERVED

Convention on the Service Abroad of Judicial and Extrajudicial Documents in Civil or Commercial Matters, signed at The Hague, the 15th of November 1965.

(Article 5, fourth paragraph)

Name and address of the requesting authority:


Particulars of the parties*:


JUDICIAL DOCUMENT**

Nature and purpose of the document:

Nature and purpose of the proceedings and, where appropriate, the amount in dispute:


Date and place for entering appearance**:

Court which has given judgment**:

Date of judgment**:

Time-limits stated in the document**:


EXTRAJUDICIAL DOCUMENT**

Nature and purpose of the document:

Time-limits stated in the document**:

* If appropriate, identity and address of the person interested in the transmission of the document.
** Delete if inappropriate.

Fylgiskjal III.


SAMNINGUR
um öflun sönnunargagna erlendis
í einkamálum og verslunarmálum.

(1970)


    Ríki þau sem undirrita samning þennan,
    sem vilja auðvelda sendingu og framkvæmd réttarbeiðna og greiða fyrir mismunandi aðferðum sem þau beita í því skyni,

    sem vilja bæta samvinnu á sviði einkamála og verslunarmála,
    hafa í því augnamiði ákveðið að gera samning og hafa orðið ásátt um eftirfarandi ákvæði:


I. KAFLI – Réttarbeiðnir.
1. gr.

    Í einkamálum og verslunarmálum getur dómsmálayfirvald í samningsríki, í samræmi við lög þess ríkis, með réttarbeiðni gagnvart viðeigandi dómsmálayfirvalds í öðru samningsríki, óskað eftir að aflað verði sönnunargagna eða að önnur dómsathöfn verði framkvæmd.
    Réttarbeiðni skal ekki senda til að afla sönnunargagna sem ekki eru ætluð vegna dómsmáls, sem hefur verið höfðað eða er fyrirhugað.
    Með orðtakinu „önnur dómsathöfn“ er ekki átt við birtingu réttarskjala eða aðgerðir til að fullnægja dómi eða hrinda í framkvæmd fyrirmælum eða aðgerðir til bráðabirgða eða verndar.


2. gr.

    Samningsríki skal tilnefna miðlægt stjórnvald sem tekur við réttarbeiðnum frá dómsmálayfirvöldum í öðru samningsríki og framsendir því yfirvaldi sem bært er til að framkvæma þær. Hvert ríki skal skipa miðlægt stjórnvald samkvæmt eigin löggjöf.


    Réttarbeiðnir skulu sendar miðlægu stjórnvaldi þess ríkis sem framkvæmir hana án milligöngu annarra yfirvalda í því ríki.

3. gr.

    Í réttarbeiðni skal greina:
a.    það yfirvald sem óskar eftir framkvæmd hennar og það yfirvald sem óskað er að framkvæmi hana, ef því yfirvaldi sem beiðni kemur frá er kunnugt um það yfirvald,
b.    nöfn og heimili málsaðila og umboðsmenn þeirra, ef við á,
c.    um hvers konar mál er að ræða sem umbeðin sönnunargögn eru ætluð fyrir, ásamt öllum nauðsynlegum upplýsingum þar að lútandi,
d.    hvaða sönnunargagna skuli aflað eða hvaða dómsathöfn framkvæmd.
    Þar sem við á skal meðal annars tilgreina í beiðni:
e.    nöfn og heimil þeirra sem á að yfirheyra,

f.    þær spurningar sem leggja á fyrir þá sem á að yfirheyra eða yfirlýsingu um það efni sem yfirheyra á þá um,
g.    þau skjöl eða aðrar eignir, fasteignir eða lausafé, skoða skal,
h.    hvort þess sé óskað að sönnunargögn verði gefin með eiði eða þau staðfest og hvort gæta beri sérstakra formsatriða,
i.    hvort gæta beri sérstakra aðferða eða málsmeðferðar skv. 9. gr.
    Í beiðni má einnig greina nauðsynlegar upplýsingar til að 11. gr. verði beitt.
    Ekki skal gerð krafa um löggildingu eða önnur formsatriði af því tagi.

4. gr.

    Réttarbeiðni skal vera rituð á tungumáli þess yfirvalds sem óskað er að framkvæmi hana en annars skal fylgja þýðing yfir á það tungumál.
    Samningsríki skal þó taka við beiðni sem rituð er á ensku eða frönsku, eða í þýðingu á annað hvort þessara tungumála, hafi það ekki gert fyrirvara samkvæmt heimild í 33. gr.
    Nú getur samningsríki með fleiri en eitt opinbert tungumál vegna eigin laga ekki fallist á fyrir allt sitt yfirráðasvæði beiðni, sem rituð er á annað hvort þessara tungumála, og skal þá með yfirlýsingu tilgreina það tungumál sem beiðni eða þýðing hennar skal vera rituð á svo hún verði framkvæmd í ákveðnum hlutum yfirráðasvæðisins. Ef slíkri yfirlýsingu er ekki fylgt án réttmætrar ástæðu skal kostnaður af þýðingu yfir á áskilið tungumál greiddur af því ríki sem beiðni kemur frá.
    Samningsríki getur með yfirlýsingu tilgreint eitt eða fleiri tungumál, önnur en þau er getur í málsgrein næst á undan, sem senda má beiðni til miðlægs stjórnvalds þess.
    Þýðing sem fylgir beiðni skal staðfest rétt af sendierindreka eða ræðiserindreka, eða af eiðsvörnum þýðanda eða öðrum sem löggiltur er til þess í öðru hvoru ríkinu.

5. gr.

    Ef miðlægt stjórnvald telur að beiðni fullnægi ekki kröfum samningsins skal það þegar tilkynna því yfirvaldi í ríkinu sem sendi réttarbeiðnina og tilgreina andmæli sín við beiðninni.


6. gr.

    Nú er það yfirvald sem réttarbeiðni er send til er ekki bært til þess að framfylgja henni og skal þá beiðnin þegar framsend því yfirvaldi í ríkinu sem til þess er bært samkvæmt ákvæðum laga.


7. gr.

    Eftir ósk þess yfirvalds sem beiðni kemur frá skal tilkynna því hvar og hvenær réttarbeiðni verður tekin fyrir svo málsaðilar og umboðsmenn þeirra, ef við á, geti verið viðstaddir. Upplýsingar þar að lútandi skulu sendar beint til aðila eða umboðsmanna þeirra ef yfirvald þess ríkis sem beiðni kemur frá fer þess á leit.

8. gr.

    Samningsríki getur lýst því yfir að starfsmenn dómstóla hjá yfirvaldi annars samningsríkis sem beiðni kemur frá megi vera viðstaddir þegar réttarbeiðni er framkvæmd. Krefjast má undanfarandi heimildar frá til þess bæru yfirvaldi sem tilnefnt er af því ríki sem gefur yfirlýsinguna.

9. gr.

    Það dómsmálayfirvald sem framkvæmir réttarbeiðni skal fara að lögum eigin ríkis um þá málsmeðferð sem fylgt er.
    Þó má beita sérstakri málsmeðferð ef það yfirvald sem beiðni kemur frá óskar þess, svo framarlega sem það brýtur ekki í bága við lög í því ríki þar sem beiðnin er framkvæmd eða er ómögulegt vegna réttarframkvæmdar eða örðugleika í framkvæmd.

    Réttarbeiðni skal framkvæmd án tafar.


10. gr.

    Þegar réttarbeiðni er framkvæmd skal það yfirvald sem hún er send til beita viðeigandi þvingunarúrræðum í sömu tilvikum og að sama marki og gert er ráð fyrir í lögum ríkisins þegar framfylgt er fyrirmælum frá yfirvöldum þess eða beiðnum aðila að innlendu dómamáli.


11. gr.

    Þegar réttarbeiðni er framfylgt getur sá einstaklingur sem á í hlut neitað að veita atbeina sinn að því marki sem honum er heimilt eða skylt að skorast undan að láta í té sönnunargögn samkvæmt:
a.    lögum ríkis þar sem beiðni er framkvæmd, eða
b.    lögum ríkis sem beiðni kemur frá, ef heimild eða skylda til að skorast undan að láta í té sönnunargögn hefur verið tilgreint í beiðni eða það er staðfest af því yfirvaldi sem beiðni kemur frá að frumkvæði yfirvalds sem beiðni er send til.
    Samningsríki getur enn fremur lýst því yfir að það muni virða rétt og skyldu sem er fyrir hendi samkvæmt lögum annarra ríkja en ríkisins sem beiðni kemur frá og ríkisins sem framfylgir beiðni að því marki sem tilgreint er í yfirlýsingunni.

12. gr.

    Réttarbeiðni verður aðeins synjað að því marki sem:
a.    meðferð hennar er ekki á verksviði dómstóla í því ríki þar sem hún verður framkvæmd, eða

b.    það ríki sem beiðni er send til telur framkvæmd hennar fela í sér íhlutun í fullveldi sitt eða öryggi.
    Réttarbeiðni verður ekki synjað af þeirri ástæðu einni að sakarefnið eigi samkvæmt lögum aðeins undir dómstóla þess ríkis þar sem beiðni verður framkvæmd eða beiðni varði málsókn sem ekki sé heimil í lögum þess.

13. gr.

    Það yfirvalds sem beiðni er send til skal senda eftir sömu leiðum og beiðnin barst því yfirvaldi sem beiðni kemur frá skjöl sem leiða í ljós að beiðnin hefur verið framkvæmd.
    Í öllum tilvikum þegar réttarbeiðni er ekki framfylgt að einhverju leyti eða öllu skal tilkynna því yfirvaldi sem beiðni kemur frá eftir sömu leiðum og beiðnin barst og greina frá ástæðum þess.

14. gr.

    Framkvæmd réttarbeiðni skal vera án endurgreiðslu gjalda eða kostnaðar af einhverju tagi.

    Þó hefur það ríki þar sem beiðni verður framkvæmd rétt til að krefja ríkið sem beiðni kemur frá um endurgreiðslu á þóknun til sérfræðinga og þýðenda og þeim kostnaði sem leiðir af sérstakri málsmeðferð að ósk þess ríkis sem beiðni kemur frá, sbr. 2. mgr. 9. gr.
    Nú leggja lög hjá því yfirvaldi sem beiðni er send til þá skyldu á aðila að afla sjálfir sönnunargagna, og þeim aðila sem á í hlut er það ókleift, og getur þá viðkomandi yfirvald tilnefnt hæfan mann í því skyni að fengnu samþykki þess yfirvalds sem beiðni kemur frá. Þegar leitað er eftir slíku samþykki skal það yfirvald sem beiðni er send til upplýsa um áætlaðan kostnað sem leiðir af þessari tilhögun. Ef það yfirvald sem beiðni kemur frá veitir samþykki sitt skal það endurgreiða allan kostnað sem til fellur, en án samþykkis ber yfirvaldið ekki ábyrgð á kostnaði.

II. KAFLI – Öflun sönnunargagna með
sendierindrekum, ræðiserindrekum eða
sérstaklega tilnefndum mönnum.

15. gr.

    Í einkamálum og verslunarmálum getur sendierindreki eða ræðiserindreki samningsríkis án þvingunar aflað sönnunargagna á yfirráðasvæði annars samningsríkis og á starfssvæði sínu frá ríkisborgurum þess ríkis sem hann er í fyrirsvari fyrir vegna dómsmáls sem rekið er í því ríki.

    Samningsríki getur lýst því yfir að sendierindreki eða ræðiserindreki megi aðeins afla sönnunargagna samkvæmt heimild sem veitt er eftir umsókn sem lögð er fram af honum eða á hans vegum hjá viðeigandi yfirvaldi tilnefndu af því ríki sem gefur yfirlýsinguna.

16. gr.

    Sendierindreki eða ræðiserindreki samningsríkis getur einnig án þvingunar aflað sönnunargagna á yfirráðasvæði annars samningsríkis og á starfssvæði sínu frá ríkisborgurum þess ríkis þar sem hann starfar eða ríkisborgurum þriðja ríkis vegna dómsmáls sem rekið er í því ríki sem hann er í fyrirsvari fyrir, ef:

a.    þar til bært yfirvald tilnefnt af því ríki þar sem hann starfar hefur gefið leyfi sitt, annaðhvort almennt eða í ákveðnu tilviki, og

b.    hann gætir þeirra skilyrða sem til þess bæra yfirvaldið hefur sett í leyfinu.
    Samningsríki getur lýst því yfir að sönnunargagna megi afla samkvæmt þessari grein án þess að það gefi leyfi sitt fyrirfram.

17. gr.

    Í einkamálum eða verslunarmálum getur maður, sem löglega er tilnefndur í því skyni, án þvingunar aflað sönnunargagna á yfirráðasvæði samningsríkis vegna dómsmáls sem rekið er í öðru samningsríki, ef:

a.    þar til bært yfirvald tilnefnt af því ríki þar sem afla á sönnunargagna hefur gefið leyfi sitt, annaðhvort almennt eða í ákveðnu tilviki, og

b.    hann gætir þeirra skilyrða sem til þess bæra yfirvaldið hefur sett í leyfinu.
    Samningsríki getur lýst því yfir að sönnunargagna megi afla samkvæmt þessari grein án þess að það gefi leyfi sitt fyrirfram.

18. gr.

    Samningsríki getur lýst því yfir að sendierindreki, ræðiserindreki eða sérstaklega tilnefndur maður, sem hafa heimild til að afla sönnunargagna eftir 15.–17. gr., geti sótt um viðeigandi aðstoð frá til þess bæru yfirvaldi tilnefndu af því ríki sem gefur yfirlýsinguna til að afla sönnunargagna með þvingunarúrræðum. Yfirlýsingin má hafa að geyma þau skilyrði sem ríkið sem hana gefur telur rétt að setja.
    Ef yfirvaldið fellst á slíka beiðni skal það beita þeim þvingunarúrræðum sem eiga við lögum samkvæmt í innlendu dómsmáli.


19. gr.

    Þegar til þess bært yfirvald hefur veitt leyfi skv. 15.–17. gr. eða fallist á umsókn skv. 18. gr., getur það sett þau skilyrði sem það telur rétt að setja, þar á meðal um hvar og hvenær sönnunargagna verði aflað. Einnig getur yfirvaldið gert þá kröfu að því verði tilkynnt með hæfilegum fyrirvara um hvenær og hvar sönnunargagna verði aflað og á þá fulltrúi þess rétt á að vera viðstaddur þegar það er gert.



20. gr.

    Þegar sönnunargagna er aflað samkvæmt þessum kafla mega hlutaðeigandi aðilar hafa lögmann sér til aðstoðar.

21. gr.

    Þegar sendierindreka, ræðiserindreka eða sérstaklega tilnefndum manni er heimilt að afla sönnunargagna skv. 15–17. gr.:
a.    getur hann aflað hvers konar sönnunargagna sem ekki eru ósamrýmanleg lögum þess lands þar sem þeirra er aflað eða andstæð leyfi sem kann að hafa verið veitt samkvæmt ákvæðum hér á undan, en innan þeirra marka hefur hann vald til að eiðfesta eða taka við staðfestingu,
b.    skal kvaðning til manns um að mæta eða láta sönnunargögn í té vera á tungumáli þess staðar þar sem gagna er aflað eða henni fylgja þýðing yfir á það tungumál, nema viðtakandi sé ríkisborgari þess ríkis þar sem dómsmál er rekið.

c.    skal í kvaðningu greina viðkomandi frá því að hann megi hafa lögmann sér til aðstoðar, og í ríki sem hefur ekki gefið yfirlýsingu skv. 18. gr. skal jafnframt greint frá því að viðkomandi sé ekki skylt að mæta eða láta í té sönnunargögn,
d.    má afla gagnanna með því móti sem gert er ráð fyrir í lögum um þann dómstól þar sem mál er rekið svo framarlega sem sú framkvæmd er ekki bönnuð samkvæmt lögum þess ríkis þar sem sönnunargagna er aflað.
e.    getur sá maður sem beðinn er um að láta sönnunargögn í té borið fyrir sig rétt sinn eða skyldu til að skorast undan að lát þau í té eins og getur í 11. gr.

22. gr.

    Þótt ekki hafi tekist að afla sönnunargagna eftir reglum þessa kafla vegna synjunar manns á að láta þau í té kemur það ekki í veg fyrir að í kjölfarið sé sett fram beiðni um öflun sönnunargagna eftir reglum I. kafla.


III. KAFLI – Almennar reglur.
23. gr.

    Samningsríki getur við undirritun, fullgildingu eða aðild lýst því yfir að það muni ekki framfylgja réttarbeiðnum sem eru sendar til að afla sönnunargagna af því tagi sem í „common law“ réttarkerfum er þekkt sem „pre-trial discovery of documents“.

24. gr.

    Samningsríki getur tilnefnt önnur yfirvöld til viðbótar miðlægu stjórnvaldi og skal ákvarða valdsvið þeirra. Réttarbeiðnir má þó ávallt senda til miðlæga stjórnvaldsins.

    Sambandsríkjum er rétt að tilnefna fleiri en eitt miðlægt stjórnvald.

25. gr.

    Samningsríki, sem hefur fleiri en eitt réttarkerfi, getur tilnefnt yfirvald fyrir hvert þessara réttarkerfa og er það þá eitt bært til að framkvæma réttarbeiðnir samkvæmt samningi þessum.


26. gr.

    Ef nauðsynlegt er vegna stjórnlaga getur samningsríki krafið það ríki sem beiðni kemur frá um endurgreiðslu þóknunar eða kostnaðar vegna framkvæmdar réttarbeiðni, birtingar kvaðningar fyrir manni svo honum verið gert að mæta til að láta í té sönnunargögn, mætingar þess manns og fyrir endurrit vegna öflunar sönnunargagna.

    Hafi ríki krafist endurgreiðslu samkvæmt næstu málsgrein hér á undan getur annað samningsríkið krafið það um endurgreiðslu samsvarandi þóknunar og kostnaðar.

27. gr.

    Ákvæði samnings þessa koma ekki í veg fyrir að samningsríki:
a.    lýsi því yfir að réttarbeiðnir megi senda dómsmálayfirvöldum þess eftir öðrum leiðum en þeim sem getur í 2. gr.,
b.    heimili í löggjöf eða í réttarframkvæmd að úrræðum sem kveðið er á um í samningi þessum séu sett vægari skilyrði,
c.    heimili í löggjöf eða réttarframkvæmd að sönnunargagna sé aflað með öðrum hætti en kveðið er á um í samningi þessum.

28. gr.

    Samningur þessi kemur ekki í veg fyrir að tvö eða fleiri samningsríki geri með sér samkomulag um að víkja frá:
a.    ákvæðum 2. gr. um aðferðir til að senda réttarbeiðnir,
b.    ákvæðum 4. gr. um þau tungumál sem nota má,

c.    ákvæðum 8. gr. um viðveru starfsmanna dómstóla þegar beiðni er framkvæmd,

d.    ákvæðum 11. gr. um heimild eða skyldu vitna til að skorast undan að láta í té sönnunargögn,

e.    ákvæðum 13. gr. um aðferðir til að senda því yfirvaldi sem beiðni kemur frá skjöl sem leiða í ljós að beiðnin hefur verið framkvæmd,
f.    ákvæðum 14. gr. um þóknun og kostnað,

g.    ákvæðum II. kafla.

29. gr.

    Milli aðila að samningi þessum sem einnig eru aðilar að öðrum eða báðum samningunum um einkamálaréttarfar, sem undirritaðir voru í Haag 17. júlí 1905 og 1. mars 1954, skal samningur þessi koma í stað 8.–16. gr. fyrri samninganna.


30. gr.

    Samningur þessi hefur ekki áhrif á beitingu 23. gr. samningsins frá 1905 eða 24. gr. samningsins frá 1954.

31. gr.

    Viðbótarsamningar milli ríkja sem eiga aðild að samningunum frá 1905 og 1954 skulu einnig taldir eiga við um þennan samning, nema annað hafi verið ákveðið.

32. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 29. og 31. gr. skal samningur þessi ekki gilda um samninga sem hafa að geyma ákvæði um málefni sem þessi samningur tekur til og samningsríki eru eða verða síðar aðilar að.


33. gr.

    Við undirritun, fullgildingu eða aðild getur ríki undanskilið að einhverju leyti eða öllu ákvæði 2. mgr. 4. gr. og II. kafla. Aðrir fyrirvarar verða ekki gerðir.

    Samningsríki getur hvenær sem er afturkallað fyrirvara sem það hefur gert og skal fyrirvarinn þá falla úr gildi á sextugasta degi eftir að tilkynnt hefur verið um afturköllun hans.
    Þegar ríki hefur gert fyrirvara getur annað ríki, sem fyrirvarinn hefur áhrif á, beitt sömu reglu gagnvart því ríki sem gert hefur fyrirvarann.

34. gr.

    Ríki getur hvenær sem er afturkallað eða breytt yfirlýsingu.

35. gr.

    Þegar samningsríki afhendir fullgildingar- eða aðildarskjal sitt eða síðar skal það skýra utanríkisráðuneyti Hollands frá tilnefningu yfirvalda af sinni hálfu skv. 2., 8., 24. og 25. gr.

    Samningsríki skal jafnframt þegar það á við skýra ráðuneytinu frá eftirfarandi:
a.    tilnefningu yfirvalda sem tilkynna ber, unnt er að afla leyfi frá og leita má aðstoðar hjá þegar sendierindrekar eða ræðiserindrekar afla sönnunargagna skv. 15., 16. eða 18. gr.,


b.    tilnefningu yfirvalda sem getur gefið leyfi til að sérstaklega tilnefndur maður afli sönnunargagna skv. 17. gr. og þeirra sem veitt geta aðstoð skv. 18. gr.,

c.    tilkynningum skv. 4., 8., 11, 15., 16., 17., 18., 23. og 27. gr.,
d.    sérhverri afturköllun og breytingu á ofangreindum tilnefningum og yfirlýsingum,
e.    afturköllun á fyrirvörum.

36. gr.

    Öll vandkvæði sem komið geta upp milli samningsríkja vegna framkvæmdar samningsins skal leysa þau eftir diplómatískum leiðum.


37. gr.

    Samningur þessi skal liggja frammi til undirritunar af hálfu þeirra ríkja sem áttu fulltrúa á ellefta fundi Haagráðstefnunnar um alþjóðlegan einkamálarétt.
    Hann skal fullgiltur og skulu fullgildingarskjöl afhent utanríkisráðuneyti Hollands.


38. gr.

    Samningur þessi skal öðlast gildi á sextugasta degi eftir að þriðja fullgildingarskjalið hefur verið afhent, sbr. 2. mgr. 37. gr.

    Gagnvart hverju ríki, sem undirritað hefur samninginn en fullgildir hann síðar, öðlast hann gildi á sextugasta degi eftir að fullgildingarskjal hefur verið afhent.

39. gr.

    Ríki sem ekki átti aðild að ellefta fundi Haagráðstefnunnar um alþjóðlegan einkamálarétt, en á aðild að þessari ráðstefnu eða að Sameinuðu þjóðunum eða sérstofnunum þeirra eða er aðili að samþykktum Alþjóðadómstólsins, getur gerst aðili að samningi þessum eftir að hann hefur öðlast gildi í samræmi við 1. mgr. 38. gr.

    Aðildarskjal skal afhent utanríkisráðuneyti Hollands.

    Samningurinn öðlast gildi gagnvart ríki sem gerist aðili að honum á sextugasta degi eftir afhendingu aðildarskjals þess.
    Aðildin hefur aðeins áhrif á samskipti þess ríkis sem gerist aðili og þeirra samningsríkja sem lýst hafa yfir samþykki sínu við aðildinni. Slíkar yfirlýsingar skulu afhentar utanríkisráðuneyti Hollands til vörslu og skal ráðuneytið framsenda hverju samningsríki, eftir diplómatískum leiðum, staðfest endurrit þeirra.

    Samningurinn skal öðlast gildi milli ríkis sem gerist aðili að honum og ríkis sem lýst hefur yfir samþykki sínu við aðildinni á sextugasta degi eftir afhendingu yfirlýsingar um samþykki.

40. gr.

    Við undirritun, fullgildingu eða aðild getur ríki lýst því yfir að samningur þessi taki í alþjóðlegum samskiptum til allra svæða sem viðkomandi ríki ber ábyrgð á, eða til eins þeirra eða fleiri. Slík yfirlýsing skal taka gildi á þeim degi er samningurinn öðlast gildi gagnvart viðkomandi ríki.

    Eftir það skal tilkynna um slíka útfærslu til utanríkisráðuneytis Hollands.

    Gagnvart þeim svæðum sem útfærsla tekur til skal samningurinn öðlast gildi sextíu dögum eftir tilkynningu sem getur í næstu málsgrein hér á undan.


41. gr.

    Samningur þessi gildir í fimm ár frá þeim degi er hann öðlast gildi skv. 1. mgr. 38. gr., og gildir það einnig gagnvart ríkjum sem síðar fullgilda eða gerast aðilar að samningnum.

    Ef samningnum hefur ekki verið sagt upp framlengist hann sjálfkrafa um fimm ár í senn.
    Uppsögn skal tilkynna utanríkisráðuneyti Hollands eigi síðar en sex mánuðum fyrir lok fimm ára tímabilsins.
    Takmarka má hana við ákveðin landsvæði sem samningurinn tekur til.
    Uppsögn hefur aðeins gildi gagnvart því ríki sem hefur tilkynnt um hana. Samningurinn heldur gildi sínu milli annarra samningsríkja.


42. gr.

    Utanríkisráðuneyti Hollands skal tilkynna þeim ríkjum sem getur í 37. gr., og ríkjum sem gerst hafa aðilar skv. 39. gr., um:

a.    undirritanir og fullgildingar skv. 37. gr.

b.    gildistökudag samnings þessa skv. 1. mgr. 38. gr.,

c.    aðild skv. 39. gr. og hvenær hún öðlast gildi,

d.    útfærslu skv. 40. gr. og hvenær hún öðlast gildi,

e.    tilnefningar, fyrirvara og yfirlýsingar skv. 33. og 35. gr.,
f.    uppsagnir skv. 3. mgr. 41. gr.


    Þessu til staðfestu hafa undirritaðir, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað samning þennan.

    Gjört í Haag 18. mars 1970 á ensku og frönsku, og eru báðir textar jafngildir, í einu eintaki, sem varðveitt skal í skjalasafni ríkisstjórnar Hollands, og staðfest endurrit skal sent eftir diplómatískum leiðum til hvers ríkis sem átti aðild að ellefta fundi Haagráðstefnunnar um alþjóðlegan einkamálarétt.

CONVENTION ON THE TAKING OF EVIDENCE ABROAD IN CIVIL OR COMMERCIAL MATTERS

(Concluded March 18, 1970)


    The States signatory to the present Convention,
    Desiring to facilitate the transmission and execution of Letters of Request and to further the accommodation of the different methods which they use for this purpose,
    Desiring to improve mutual judicial co-operation in civil or commercial matters,
    Have resolved to conclude a Convention to this effect and have agreed upon the following provisions:

chapter i – letters of request
Article 1

    In civil or commercial matters a judicial authority of a Contracting State may, in accordance with the provisions of the law of that State, request the competent authority of another Contracting State, by means of a Letter of Request, to obtain evidence, or to perform some other judicial act.
    A Letter shall not be used to obtain evidence which is not intended for use in judicial proceedings, commenced or contemplated.
    The expression “other judicial act” does not cover the service of judicial documents or the issuance of any process by which judgments or orders are executed or enforced, or orders for provisional or protective measures.

Article 2

    A Contracting State shall designate a Central Authority which will undertake to receive Letters of Request coming from a judicial authority of another Contracting State and to transmit them to the authority competent to execute them. Each State shall organize the Central Authority in accordance with its own law.
    Letters shall be sent to the Central Authority of the State of execution without being transmitted through any other authority of that State.

Article 3

    A Letter of Request shall specify–
a)    the authority requesting its execution and the authority requested to execute it, if known to the requesting authority;

b)    the names and addresses of the parties to the proceedings and their representatives, if any;
c)    the nature of the proceedings for which the evidence is required, giving all necessary information in regard thereto;
d)    the evidence to be obtained or other judicial act to be performed.
    Where appropriate, the Letter shall specify, inter alia
e)    the names and addresses of the persons to be examined;
f)    the questions to be put to the persons to be examined or a statement of the subject-matter about which they are to be examined;
g)    the documents or other property, real or personal, to be inspected;
h)    any requirement that the evidence is to be given on oath or affirmation, and any special form to be used;
i)    any special method or procedure to be followed under Article 9.
    A Letter may also mention any information necessary for the application of Article 11.
    No legalization or other like formality may be required.

Article 4

    A Letter of Request shall be in the language of the authority requested to execute it or be accompanied by a translation into that language.
    Nevertheless, a Contracting State shall accept a Letter in either English or French, or a translation into one of these languages, unless it has made the reservation authorized by Article 33.
    A Contracting State which has more than one official language and cannot, for reasons of internal law, accept Letters in one of these languages for the whole of its territory, shall, by declaration, specify the language in which the Letter or translation thereof shall be expressed for execution in the specified parts of its territory. In case of failure to comply with this declaration, without justifiable excuse, the costs of translation into the required language shall be borne by the State of origin.
    A Contracting State may, by declaration, specify the language or languages other than those referred to in the preceding paragraphs, in which a Letter may be sent to its Central Authority.
    Any translation accompanying a Letter shall be certified as correct, either by a diplomatic officer or consular agent or by a sworn translator or by any other person so authorized in either State.

Article 5

    If the Central Authority considers that the request does not comply with the provisions of the present Convention, it shall promptly inform the authority of the State of origin which transmitted the Letter of Request, specifying the objections to the Letter.

Article 6

    If the authority to whom a Letter of Request has been transmitted is not competent to execute it, the Letter shall be sent forthwith to the authority in the same State which is competent to execute it in accordance with the provisions of its own law.

Article 7

    The requesting authority shall, if it so desires, be informed of the time when, and the place where, the proceedings will take place, in order that the parties concerned, and their representatives, if any, may be present. This information shall be sent directly to the parties or their representatives when the authority of the State of origin so requests.

Article 8

    A Contracting State may declare that members of the judicial personnel of the requesting authority of another Contracting State may be present at the execution of a Letter of Request. Prior authorization by the competent authority designated by the declaring State may be required.

Article 9

    The judicial authority which executes a Letter of Request shall apply its own law as to the methods and procedures to be followed.
    However, it will follow a request of the requesting authority that a special method or procedure be followed, unless this is incompatible with the internal law of the State of execution or is impossible of performance by reason of its internal practice and procedure or by reason of practical difficulties.
    A Letter of Request shall be executed expeditiously.

Article 10

    In executing a Letter of Request the requested authority shall apply the appropriate measures of compulsion in the instances and to the same extent as are provided by its internal law for the execution of orders issued by the authorities of its own country or of requests made by parties in internal proceedings.

Article 11

    In the execution of a Letter of Request the person concerned may refuse to give evidence in so far as he has a privilege or duty to refuse to give the evidence –
a)    under the law of the State of execution; or
b)    under the law of the State of origin, and the privilege or duty has been specified in the Letter, or, at the instance of the requested authority, has been otherwise confirmed to that authority by the requesting authority.
    A Contracting State may declare that, in addition, it will respect privileges and duties existing under the law of States other than the State of origin and the State of execution, to the extent specified in that declaration.

Article 12

    The execution of a Letter of Request may be refused only to the extent that –
a)    in the State of execution the execution of the Letter does not fall within the functions of the judiciary; or
b)    the State addressed considers that its sovereignty or security would be prejudiced thereby.

    Execution may not be refused solely on the ground that under its internal law the State of execution claims exclusive jurisdiction over the subject- matter of the action or that its internal law would not admit a right of action on it.

Article 13

    The documents establishing the execution of the Letter of Request shall be sent by the requested authority to the requesting authority by the same channel which was used by the latter.
    In every instance where the Letter is not executed in whole or in part, the requesting authority shall be informed immediately through the same channel and advised of the reasons.

Article 14

    The execution of the Letter of Request shall not give rise to any reimbursement of taxes or costs of any nature.
    Nevertheless, the State of execution has the right to require the State of origin to reimburse the fees paid to experts and interpreters and the costs occasioned by the use of a special procedure requested by the State of origin under Article 9, paragraph 2.

    The requested authority whose law obliges the parties themselves to secure evidence, and which is not able itself to execute the Letter, may, after hav ing obtained the consent of the requesting authority, appoint a suitable person to do so. When seeking this consent the requested authority shall indicate the approximate costs which would result from this procedure. If the requesting authority gives its consent it shall reimburse any costs incurred; without such consent the requesting authority shall not be liable for the costs.

chapter ii – taking of evidence by diplomatic officers, consular
agents and commissioners
Article 15

    In civil or commercial matters, a diplomatic officer or consular agent of a Contracting State may, in the territory of another Contracting State and within the area where he exercises his functions, take the evidence without compulsion of nationals of a State which he represents in aid of proceedings commenced in the courts of a State which he represents.
    A Contracting State may declare that evidence may be taken by a diplomatic officer or consular agent only if permission to that effect is given upon application made by him or on his behalf to the appropriate authority designated by the declaring State.


Article 16

    A diplomatic officer or consular agent of a Contracting State may, in the territory of another Contracting State and within the area where he exercises his functions, also take the evidence, without compulsion, of nationals of the State in which he exercises his functions or of a third State, in aid of proceedings commenced in the courts of a State which he represents, if –
a)    a competent authority designated by the State in which he exercises his functions has given its permission either generally or in the particular case, and
b)    he complies with the conditions which the competent authority has specified in the permission.
    A Contracting State may declare that evidence may be taken under this Article without its prior permission.

Article 17

    In civil or commercial matters, a person duly appointed as a commissioner for the purpose may, without compulsion, take evidence in the territory of a Contracting State in aid of proceedings commenced in the courts of another Contracting State, if –
a)    a competent authority designated by the State where the evidence is to be taken has given its permission either generally or in the particular case; and
b)    he complies with the conditions which the competent authority has specified in the permission.
    A Contracting State may declare that evidence may be taken under this Article without its prior permission.

Article 18

    A Contracting State may declare that a diplomatic officer, consular agent or commissioner authorized to take evidence under Articles 15, 16 or 17, may apply to the competent authority designated by the declaring State for appropriate assistance to obtain the evidence by compulsion. The declaration may contain such conditions as the declaring State may see fit to impose.
    If the authority grants the application it shall apply any measures of compulsion which are appropriate and are prescribed by its law for use in internal proceedings.

Article 19

    The competent authority, in giving the permission referred to in Articles 15, 16 or 17, or in granting the application referred to in Article 18, may lay down such conditions as it deems fit, inter alia, as to the time and place of the taking of the evidence. Similarly it may require that it be given reasonable advance notice of the time, date and place of the taking of the evidence; in such a case a representative of the authority shall be entitled to be present at the taking of the evidence.

Article 20

    In the taking of evidence under any Article of this Chapter persons concerned may be legally represented.

Article 21

    Where a diplomatic officer, consular agent or commissioner is authorized under Articles 15, 16 or 17 to take evidence –
a)    he may take all kinds of evidence which are not incompatible with the law of the State where the evidence is taken or contrary to any permission granted pursuant to the above Articles, and shall have power within such limits to administer an oath or take an affirmation;
b)    a request to a person to appear or to give evidence shall, unless the recipient is a national of the State where the action is pending, be drawn up in the language of the place where the evidence is taken or be accompanied by a translation into such language;
c)    the request shall inform the person that he may be legally represented and, in any State that has not filed a declaration under Article 18, shall also inform him that he is not compelled to appear or to give evidence;
d)    the evidence may be taken in the manner provided by the law applicable to the court in which the action is pending provided that such manner is not forbidden by the law of the State where the evidence is taken;
e)    a person requested to give evidence may invoke the privileges and duties to refuse to give the evidence contained in Article 11.


Article 22

    The fact that an attempt to take evidence under the procedure laid down in this Chapter has failed, owing to the refusal of a person to give evidence, shall not prevent an application being subsequently made to take the evidence in accordance with Chapter I.

chapter iii – general clauses
Article 23

    A Contracting State may at the time of signature, ratification or accession, declare that it will not execute Letters of Request issued for the purpose of obtaining pre-trial discovery of documents as known in Common Law countries.

Article 24

    A Contracting State may designate other authorities in addition to the Central Authority and shall determine the extent of their competence. However, Letters of Request may in all cases be sent to the Central Authority.
    Federal States shall be free to designate more than one Central Authority.

Article 25

    A Contracting State which has more than one legal system may designate the authorities of one of such systems, which shall have exclusive competence to execute Letters of Request pursuant to this Convention.

Article 26

    A Contracting State, if required to do so because of constitutional limitations, may request the reimbursement by the State of origin of fees and costs, in connection with the execution of Letters of Request, for the service of process necessary to compel the appearance of a person to give evidence, the costs of attendance of such persons, and the cost of any transcript of the evidence.
    Where a State has made a request pursuant to the above paragraph, any other Contracting State may request from that State the reimbursement of similar fees and costs.

Article 27

    The provisions of the present Convention shall not prevent a Contracting State from –
a)    declaring that Letters of Request may be transmitted to its judicial authorities through channels other than those provided for in Article 2;
b)    permitting, by internal law or practice, any act provided for in this Convention to be performed upon less restrictive conditions;
c)    permitting, by internal law or practice, methods of taking evidence other than those provided for in this Convention.

Article 28

    The present Convention shall not prevent an agreement between any two or more Contracting States to derogate from –
a)    the provisions of Article 2 with respect to methods of transmitting Letters of Request;
b)    the provisions of Article 4 with respect to the languages which may be used;
c)    the provisions of Article 8 with respect to the presence of judicial personnel at the execution of Letters;
d)    the provisions of Article 11 with respect to the privileges and duties of witnesses to refuse to give evidence;
e)    the provisions of Article 13 with respect to the methods of returning executed Letters to the requesting authority;
f)    the provisions of Article 14 with respect to fees and costs;
g)    the provisions of Chapter II.

Article 29

    Between Parties to the present Convention who are also Parties to one or both of the Conventions on Civil Procedure signed at The Hague on the 17th of July 1905 and the 1st of March 1954, this Convention shall replace Articles 8–16 of the earlier Conventions.

Article 30

    The present Convention shall not affect the application of Article 23 of the Convention of 1905, or of Article 24 of the Convention of 1954.

Article 31

    Supplementary Agreements between Parties to the Conventions of 1905 and 1954 shall be considered as equally applicable to the present Convention unless the Parties have otherwise agreed.

Article 32

    Without prejudice to the provisions of Articles 29 and 31, the present Convention shall not derogate from conventions containing provisions on the matters covered by this Convention to which the Contracting States are, or shall become Parties.

Article 33

    A State may, at the time of signature, ratification or accession exclude, in whole or in part, the application of the provisions of paragraph 2 of Article 4 and of Chapter II. No other reservation shall be permitted.
    Each Contracting State may at any time withdraw a reservation it has made; the reservation shall cease to have effect on the sixtieth day after notification of the withdrawal.
    When a State has made a reservation, any other State affected thereby may apply the same rule against the reserving State.

Article 34

    A State may at any time withdraw or modify a declaration.

Article 35

    A Contracting State shall, at the time of the deposit of its instrument of ratification or accession, or at a later date, inform the Ministry of Foreign Affairs of the Netherlands of the designation of authorities, pursuant to Articles 2, 8, 24 and 25.
    A Contracting State shall likewise inform the Ministry, where appropriate, of the following –
a)    the designation of the authorities to whom notice must be given, whose permission may be required, and whose assistance may be invoked in the taking of evidence by diplomatic officers and consular agents, pursuant to Articles 15, 16 and 18 respectively;
b)    the designation of the authorities whose permission may be required in the taking of evidence by commissioners pursuant to Article 17 and of those who may grant the assistance provided for in Article 18;
c)    declarations pursuant to Articles 4, 8, 11, 15, 16, 17, 18, 23 and 27;
d)    any withdrawal or modification of the above designations and declarations;
e)    the withdrawal of any reservation.

Article 36

    Any difficulties which may arise between Contracting States in connection with the operation of this Convention shall be settled through diplomatic channels.

Article 37

    The present Convention shall be open for signature by the States represented at the Eleventh Session of the Hague Conference on Private International Law.
    It shall be ratified, and the instruments of ratification shall be deposited with the Ministry of Foreign Affairs of the Netherlands.

Article 38

    The present Convention shall enter into force on the sixtieth day after the deposit of the third instrument of ratification referred to in the second paragraph of Article 37.
    The Convention shall enter into force for each signatory State which ratifies subsequently on the sixtieth day after the deposit of its instrument of ratification.

Article 39

    Any State not represented at the Eleventh Session of the Hague Conference on Private International Law which is a Member of this Conference or of the United Nations or of a specialized agency of that Organization, or a Party to the Statute of the International Court of Justice may accede to the present Convention after it has entered into force in accordance with the first paragraph of Article 38.
    The instrument of accession shall be deposited with the Ministry of Foreign Affairs of the Netherlands.
    The Convention shall enter into force for a State acceding to it on the sixtieth day after the deposit of its instrument of accession.
    The accession will have effect only as regards the relations between the acceding State and such Contracting States as will have declared their acceptance of the accession. Such declaration shall be deposited at the Ministry of Foreign Affairs of the Netherlands; this Ministry shall forward, through diplomatic channels, a certified copy to each of the Contracting States.
    The Convention will enter into force as between the acceding State and the State that has declared its acceptance of the accession on the sixtieth day after the deposit of the declaration of acceptance.

Article 40

    Any State may, at the time of signature, ratification or accession, declare that the present Convention shall extend to all the territories for the international relations of which it is responsible, or to one or more of them. Such a declaration shall take effect on the date of entry into force of the Convention for the State concerned.
    At any time thereafter, such extensions shall be notified to the Ministry of Foreign Affairs of the Netherlands.
    The Convention shall enter into force for the territories mentioned in such an extension on the sixtieth day after the notification indicated in the preceding paragraph.

Article 41

    The present Convention shall remain in force for five years from the date of its entry into force in accordance with the first paragraph of Article 38, even for States which have ratified it or acceded to it subsequently.
    If there has been no denunciation, it shall be renewed tacitly every five years.
    Any denunciation shall be notified to the Ministry of Foreign Affairs of the Netherlands at least six months before the end of the five year period.
    It may be limited to certain of the territories to which the Convention applies.
    The denunciation shall have effect only as regards the State which has notified it. The Convention shall remain in force for the other Contracting States.

Article 42

    The Ministry of Foreign Affairs of the Netherlands shall give notice to the States referred to in Article 37, and to the States which have acceded in accordance with Article 39, of the following –
a)    the signatures and ratifications referred to in Article 37;
b)    the date on which the present Convention enters into force in accordance with the first paragraph of Article 38;
c)    the accessions referred to in Article 39 and the dates on which they take effect;
d)    the extensions referred to in Article 40 and the dates on which they take effect;
e)    the designations, reservations and declarations referred to in Articles 33 and 35;
f)    the denunciations referred to in the third paragraph of Article 41.

    In witness whereof the undersigned, being duly authorized thereto, have signed the present Convention.
    Done at The Hague, on the 18th day of March, 1970, in the English and French languages, both texts being equally authentic, in a single copy which shall be deposited in the archives of the Government of the Netherlands, and of which a certified copy shall be sent, through the diplomatic channel, to each of the States represented at the Eleventh Session of the Hague Conference on Private International Law.